Blob

Hér er á ferðinni fluga sem notið hefur mikillar hylli erlendis síðustu 30 árin og víða gert góða hluti. Fyrst varð vart við hana við Rutland vatn, skammt austan Leicester á Englandi um og eftir 1990. Ekki er alveg ljóst hver sé höfundur flugunnar, ýmsar sögur á kreiki og mismunandi eftir því hvort menn elska eða hata þessa flugu. Þeir sem sameina hvoru tveggja, elska að hata hana, eru gjarnan þeir sömu sem elska að hata Squirmito og segjast vera með höfund Blob alveg á hreinu; Skrattinn sjálfur hafi skitið henni. Þeir sem einfaldlega elska hana virðast ekki geta komið sér saman um höfundinn og hann verður því óþekktur áfram.

Efnið í flugna er í grunninn aðeins eitt, Fritz Chenille sem stundum gengur undir heitinu Cactus Chenille auk ýmissa afbrigða sem framleiðendur hnýtingaefnis hafa sett á markað. Á síðustu árum hafa hnýtarar ekkert veigrað sér við að auka við fluguna, m.a. með skotti eða kúluhaus, jafnvel kraga úr fíngerðara efni, s.k. Straggle í öllum mögulegum litum sem vissulega gefur henni líf, ekki aðeins í lit, heldur einnig í hegðun. Fritz á það nefnilega til að vera stíft og líflaust í vatni og þá koma líflegri viðbæturnar, skott eða Straggle sér vel til að auka sýnileika flugunnar.

Þegar athygli mín var fyrst vakin á þessari flugu, leitaði ég til netvina á Bretlandseyjum sem þekkja til hennar. Mögulega voru það mistök, því sögurnar af flugunni voru jafn margar og svörin. Tvennt stóð þó upp úr svörunum og flestir voru sammála um. Fyrra er að best sé að hnýta fluguna á s.k. Wide Gape votflugukrók, að öðrum kosti gætu tökurnar farið framhjá veiðimanninum vegna áðurnefndrar stífni Fritz sem heft getur aðgengi að krókinum. Til vara sögðu menn að vel mætti nota grubber krók, einu númeri stærri, hann gerði sama gagn. Hitt sem flestir voru sammála um var að best væri að nota 15 mm Fritz fyrir króka í stærð 10 – 12 Wide Gape (8 – 10 grubber).

En hvernig veiða menn þessa flugu? Jú, eiginlega alveg eins og hefðbundna votflugu.

Höfundur: Óþekktur
Krókur: wide gape votflugukrókur #10 / grubber #8
Þráður: samlitur efnis næst auga
Búkur: Fritz / Cactus Chenille eða sambærilegt
Haus: hnýtingaþráður

Hér að neðan má sjá nokkrar Blob flugur sem FOS smellti í, bæði á Wide Gape og grubber. Hnýtingamyndband þar fyrir neðan.

Hér má sjá hnýtingakippu frá MAK þar sem rennt er í tvítlita Blob flugu: