
Black Zulu
Einhver vinsælasta klassíska votfluga sem hnýtt hefur verið og þá er nú mikið sagt. Þessa dularfullu flugu hafa veiðimenn um allan heim tengt við hármý (Bibionidae) en ekkert veigrað sér við að nota hana þó ekkert hármý sé sjáanlegt og samt gert góða veiði. Litasamsetning flugunnar er einfaldlega klassísk í silunginn, svart og rautt gengur alltaf, sama hvaða æti er á ferðinni. Hér á landi eru þrjár tegundir hármýs, þerrilöpp (Bibio nigriventris), galdralöpp (Bibio pomonae) og sóttarlöpp (Dilophus femoratus).
Þegar vísað er til þess að Zulu sé dularfull, þá helst vísað til þess að enginn veit með vissu hvaðan flugan kemur, hver hafi hnýtt hana eða hvenær. Eina sem hægt er að ganga út frá sem vísu er að hún er örugglega eldri en frá árinu 1892 því það ár er vísað til hennar í bók Mary Orvis Marbury, Favorite Flies and Their History. Allt annað um uppruna þessarar flugu er sveipað dulúð eins og lesa má í Sögu af Zulu hér á FOS.
Oftast sér maður hana hnýtta eins og elstu uppskriftir og teikningar segja hana eigi að vera, en vitaskuld hafa menn útfært hana eftir eigin höfði, bætt kúluhaus á hana, hnýtt búkinn úr peacock eða snúið henni upp í votflugu með væng eða soft hackle. Sjálfur á ég þessa flugu alltaf í mínu boxi í nokkrum mismunandi útgáfum eins og sjá má hér að neðan.
Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 14
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Svört ull / selur hringvafinn hanafjöður
Vöf: Ávalt silfur tinsel, flatt silfur tinsel eða vír
| Bleikja | Sjóbleikja | Urriði | Sjóbirtingur |
|---|---|---|---|
| 8,10,12,14 | 8,10,12,14 |




