
Black Spider
Fluga þessi hefur lengi vel gengið undir heitinu Stewart‘s Spider eða Stewart‘s Black Spider, væntanlega til heiðurs þeim sem kom henni fyrst á framfæri. Þegar hér er sagt lengi þá eru það í raun 168 ár, því þessi fluga birtist í bók W.C. Stewart The Practical Angler árið 1857. Stewart birtir uppskriftina að flugunni undir heitinu Black Spider og svo verður hún nefnd hér. Hann tekur það einnig fram að James nokkur Baillie, veiðivörður og silungsveiðimaður hafi sýnt honum þessa flugu fyrstur og síðan þá hafi þessi fluga alltaf verið undir hjá Stewart. Baillie þennan telur Stewart vera meðal allra bestu fluguveiðimönnum Skotlands á sínum tíma og fer afar fögrum orðum um hann í bókinni.
Líkt og aðrar spider flugur er hún afar einföld og sparlega farið með efnið í hana; fjöður af stara og brúnn silkiþráður. Það skal alveg viðurkennast að í þeirri mynd sem hún birtist hér var ekki notaður silkiþráður, heldur vaxborinn bómullarþráður sem sóttur var í saumaskrín heimilisins. Til gamans má geta þess að krókinn sem ég notaði fékk ég gefins fyrir nokkrum árum frá tárvotum Robert Smith sem ég hitti á Skosku fluguveiðisýningunni í Sterling á Skotlandi. Hann sagði mér að fáir hnýtarar leggðu það enn fyrir sig að hnýta og nota svonefndar North Country spider flugur og þótti það greinilega leitt. Eitthvað hefur áhugi á þessum flugum þó rétt úr sér síðustu árin ef marka má áhorfið á YouTube rás Robert‘s þar sem finna má margar áhugaverðar klippur.
Bók Stewart‘s, þó gömul sé, er afar fróðleg og ótrúlega mikið af því sem hann skrifar um er enn í fullu gildi. Margt af því sem hann skrifar þykir mönnum eflaust sjálfsagt í dag, en ég hvet menn engu að síður til að skima bókina sem aðgengileg er hér í þriðju prentun upprunalegu útgáfunnar.
Höfundur: James Baillie
Öngull: Daiichi 1640 #14
Þráður: vaxborinn silkiþráður, brúnn
Vöf: Starafjöður



Því miður leyfir téður Robert Smith ekki birtingar á myndböndum sínum af YouTube, en ég hvet áhugasama engu að síður að skoða myndbandið þar sem hann hnýtir Black Spider. Myndbandið má nálgast á YouTube með því að smella hérna, en hér að neðan má sjá hvernig hinn síkáti Martyn White hnýtir Black Spider sem votflugu:
