
Black Pennell
Enn ein klassísk sem hefur gert góða hluti í vatnaveiðinni. Sérstaklega einföld fluga í hnýtingu og sver sig greinilega í ætt klassískra votflugna.
Mikið notuð í bleikju, staðbundna og sjógengna en það ætti alls ekki að útiloka hana í urriða, öðru nær. Flugan á uppruna í Skoskum heiðarvötnum þar sem hún tryllti urriðan alla síðustu öld og reyndist vel og það hefur hún einnig gert hér heima á Fróni. Elliðavatn, Hlíðarvatn í Selvogi og svo mætti lengi telja þau vötn þar sem þessi fluga hefur gefið vel.
Pennell var ötull talsmaður þess að búkur flugna sem þessarar ætti að vera grannur, mjög grannur og sjálfur notaði hann silki í búkinn og var spar á það. Seinni tíma uppskriftir gera ráð fyrir floss í búk, ég geng enn lengra og nota íslenska ull. Hún verður aðeins rytjulegri þannig og ég er ekki frá því að bleikjunni þyki hún girnilegri þannig.

Höfundur: Cholmondeley Pennell
Öngull: Hefðbundin #10 – #14
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svart floss
Hringvöf: Svört hænufjöður
Haus: Svartur
Bleikja | Sjóbleikja | Urriði | Sjóbirtingur |
---|---|---|---|
10,12,14 | 10,12,14 | 10, 12, 14 |
Það eru til mörg mjög góð myndskeið á netinu af því hvernig þessi fluga er hnýtt, en þetta er með þeim skýrari og betri sem ég hef séð. Hér fer Eiður Kristjánsson fumlausum höndum um efnið og klárar dæmið á rétt um 7 mínútum, frábært myndskeið: