
BARELY LEGAL Dentist
Það kemur annað slagið fyrir að FOS setur inn flugu sem útfærð hefur verið á heimaslóðum og hér gefur að líta eina slíka. Hér á síðunni má finna tvær flugur; Gallop’s Barely Legal og hinn rammíslenska Dentist Kolbeins Grímssonar. Það má auðveldlega ímynda sér að tannlæknirinn hafir eitthvað verið að eiga við flugu undir lögaldri og útkoman hafi verið einmitt þessi fluga. Flugan er hnýtt á svipaðan hátt og Barley Legal, tvískipt marabou í skotti og væng, búkurinn vafinn tveimur vafningum búkefnis á milli vænghluta. Vel að merkja, þá er þessi fluga ekki liðskipt, heldur hnýtt á langan straumflugukrók sem þó er langt frá lengd Barley Legal. Litasamsetningin er augljóslega fengin frá Dentist og því þótti við hæfi að skeyta nöfnun beggja foreldranna saman og nefna hana Barley Legal Dentist eða Tannlæknir undir lögaldri.
Þannig er mál með vexti að þessi fluga varð til skömmu eftir opnun Veiðivatna vorið 2023 í tveimur eintökum til prufu og fékk sína eldskírn í tveimur veiðitúrum sem þriðja eða fjórða fluga undir eftir lítil viðbrögð við öðrum svipuðum flugum. Illu heilli festi hnýtarinn fluguna í botni og tapaði báðum eintökunum, þó ekki fyrr en hún hafði gefið slatta af fiski í þessum tveimur ferðum. Hnýtarinn kom sér síðan ekki að verki fyrr en í febrúar 2024 að hnýta fleiri eintök og vonandi næst að prófa hana víðar á næstu vertíð. Það skemmtilega er að hnýtarinn hafði ekki hugmynd um tilurð Barey Legal þegar hann setti fyrstu eintökin saman, hvað þá aðferðina við að hnýta vænginn í þetta mörgum pörtum. Það var ekki fyrr en hann fór að grúska í stórum flugum í aðdraganda Febrúarflugna 2024 að ljós rann upp fyrir honum og hann gerði nokkrar tilraunir til viðbótar.
Eins og áður segir var flugan hnýtt á 2XL straumflugukrók og því mátulegt að hnýta vængina í fimm hlutum með tvo til þrjá vafninga af búkefni á milli. Að öðru leiti má styðjast við aðferðina eins og Kelly Gallop notar við Barley Legal.
Útfærsla: Kristján Friðriksson
Krókur: straumflugukrókur #4, 2XL
Þráður: svartur 10/0 (8/0)
Skott og vængur: rautt marabou að neðan, svart að ofan
Búkur: Hareline Solid Gold Tinsel Chenille
Kragi: Hareline Solid Black Tinsel Chenille
Keiluhaus: miðlungs gylltur
Flugun var hnýtt í tveimur útfærslum á sínum tíma, með rauðum neðri væng og gulum. Sú gula gaf síður heldur en sú rauða, hugmyndin er að fjölga litunum um einn og skipta gylltu út fyrir silfrað. Hver veit nema þá verði til Barely Legal Ghost.




