Fyrir stuðningsaðila

Að styðja við Febrúarflugur á fyrst og fremst að beinast að áhugafólki um flugur og fluguhnýtingar. Stuðningur getur falist í sérkjörum á vöru eða þjónustu í febrúar, standa fyrir fræðslu um flugur og fluguhnýtingar eða bridda upp á samkomu þar sem hnýtarar og áhugafólk getur hist og notið samverunnar við hnýtingar. Hvað sem aðilum dettur í hug að gera, ætti það fyrst og fremst að gera febrúar að skemmtilegasta mánuði ársins fyrir hnýtara og áhugafólk um flugur.

Um stuðningsaðila

FOS hefur í áratug lokkað verslanir og söluaðila til þess að gera extra vel við meðlimi Febrúarflugna og hnýtara almennt í febrúar.

Mörg veiðifélög hafa einnig svarað ákalli hnýtara í febrúar og sinnt þessu áhugamáli sérstaklega í starfi sínu þennan mánuð og gjarnan nýtt sér að koma upplýsingum um slíkt á framfæri í Febrúarflugum.

Í gegnum árin hafa ýmsir fréttamiðlar vakið athygli á þeim flugum sem hnýtarar hafa sett inn í Febrúarflugur ásamt því að hnýtarar og POD kastarar hafa gjarnan getið Febrúarflugna í efni sínu í febrúar. Öll slík umfjöllun felur óneitanlega í sér hvatningu fyrir byrjendur að taka upp fluguhnýtingar, jafnvel sýna handverk sitt í Febrúarflugum.

Um auglýsingar og tilkynningar

  • Hér eftir sem hingað til sér FOS um að birta tilkynningar frá stuðningsaðilum í Febrúarflugum. Vilji stuðningsaðili koma tilkynningu á framfæri skal senda hana með tölvupósti á fos@fos.is og skal hún einskorðast við virkan stuðning, s.s. afslátt, sérkjör eða fyrirhugaðan viðburð í febrúar. FOS áskilur sér allan rétt til að hafna birtingu ef hún er almenns eðlis og mun fjarlægja tilraunir til slíkra auglýsinga úr hópnum.
  • Stuðningsaðilar eru beðnir um að sýna hófsemd í beiðnum um tilkynningar þannig að framlag meðlima líði ekki fyrir, flugurnar eru í fyrsta sæti.
  • Stuðningsaðilum er heimilt að geta stuðnings við Febrúarflugur á öðrum vettvangi eins og þeim þykir hæfa og afsláttur, sérkjör eða viðburðir gefa tilefni til.

Hugmyndabankinn

Á undanförnum árum hafa þátttakendur Febrúarflugna lýst yfir áhuga sínum á ýmsum viðburðum, smáum sem stórum, í tengslum við fluguhnýtingar. Nokkrar þessara hugmynda hefur FOS séð sér fært að standa fyrir, aðrar hafa stuðningsaðilar tekið upp á sína arma.

  • Kvöldstund með hnýtara – FOS hefur staðið fyrir nokkrum slíkum kvöldum og aðsókn hefur verið mjög góð. Um er að ræða stutta kvöldstund (1 – 2 klst) þar sem nafntogaðir hnýtarar, einn eða fleiri, hafa stigið á svið og hnýtt eigin flugur eða annarra, spjallað við gesti og svarað fyrirspurnum. Þetta er tilvalin leið til að vekja athygli á vörum eða starfsemi sinni.
  • Hnýtingakvöld – FOS og ýmis félög, stór sem smá, hafa staðið fyrir hnýtingarkvöldum þar sem gestum og gangandi er boðið að mæta, setjast niður og hnýta með öðru áhugafólki. Misjafnt er hvort um er að ræða formlega dagskrá með fræðslu- eða kynningarefni eða einfaldlega opið hús þar sem maður er manns gaman, en kvöld þessi hafa almennt verið vel sótt og mælst vel fyrir meðal hnýtara.
  • Skemmtikvöld – FOS og ýmsir aðilar, s.s. POD kastarar og stangaveiðifélög, hafa í samstarfi við veitingastaði eða á eigin vegum, staðið fyrir samkomum þar sem hnýtarar og áhugafólk hittast, gera sér glaðan dag eða kvöld með léttum veitingum og hnýta (eða ekki). Ekki óalgengt að skipuleggjendur hafa útvegað happadrættisvinninga úr ýmsum áttum sem heppnir gestir, sem oftast hafa verið á bilinu 50 til 200, fá notið.
  • Inngangur að hnýtingum – Nokkuð er um liðið frá því FOS stóð fyrir kvöldstundum sem þessum, en þar lögðu valinkunnir hnýtarar hönd á plóg og kenndu gestum fyrstu handbrögð við hnýtingar, s.s. upphafsvöf flugunnar, hvernig og hvar ætti að festa niður efnið, hnýta endahnútinn og ganga frá haus flugunnar, svo fátt eitt sé nefnt.
  • Vörukynning – hér er svo ein hugmynd sem skotið var að FOS fyrir verslanir sem bjóða upp á hnýtingarvörur, en það er síðdegis opnun eða kvöldstund þar sem verslanir kynna nýjar vörur fyrir hnýturum. Þetta er einföld og áhrifarík leið til að koma nýjum vörum á framfæri.

Myndefni og hagnýtar upplýsingar

Stuðningsaðilum er velkomið að hlaða niður þeim einkennismyndum Febrúarflugna sem þeir telja að geti komið að gagni við gerð auglýsinga eða tilkynninga:

Febrúarflugur á Facebook: https://www.facebook.com/groups/februarflugur

Febrúarflugur á FOS: https://fos.is/februarflugur/