Fyrr eða síðar, jafnvel reglulega, gera hnýtarar sér grein fyrir því að mistök eru óhjákvæmilegur fylgifiskur fluguhnýtinga. Jafnvel þegar maður hefur mælt allt rétt, stillt efnið af á milli fingra sér eða á krókinum og vefur hnýtingaþræðinum um efnið, þá gerist eitthvað sem verður þess valdandi að allt fer úrskeiðis. Hvað er þá til ráða?
Sumir missa sig og orðaflaumur fúkyrða flæðir óhindrað, aðrir hrista bara hausinn og skilja hvorki upp né niður í því hvað gerðist eiginlega. Þá er gott að muna eftir gamla góða Reply-takkanum, spóla aðeins til baka í huganum og rifja upp hvað maður gerði vitlaust.

Ef svo illa vill til að það er ekki hægt að vinda ofan af vandamálinu, þá er tvennt í stöðunni. Annars vegar er hægt að láta sig hafa það og treysta á að fiskurinn sjái illa eða hann hafi alls ekki sama fegurðarskyn og maður sjálfur, klára einhverja ómynd af flugunni og setja hana til hliðar í fluguboxinu. Í mínu tilfelli verða þannig flugur oftast síðastar fyrir valinu í veiði eða þá hreinlega aldrei settar undir, þannig að núorðið verður síðari kosturinn oftast fyrir valinu, þ.e. að ég ýti aftur á Replay-takkann.
Með því að ýta tvisvar á Replay-takkann, þá tekur maður fram hárbeitt rakvélablaðið eða glersköfuna og hreinlega sker allt efnið af krókinum og byrjar upp á nýtt. Í 99% tilfella er krókurinn dýrasti partur flugunnar og ef þú ert ekki að nota handónýta króka sem særast auðveldlega, þá er einfaldast að byrja upp á nýtt.
Hversu oft geri ég einhver mistök í hnýtingum? Tja, svona tvisvar til þrisvar á ári, en ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn, þá gerist það miklu oftar en ég vil í nokkurn tíma viðurkenna.









Senda ábendingu