Flýtileiðir

Veiðivötn – 1. til 4. júlí 2023

Það var kátur karl sem vaknaði allt of snemma á laugardaginn, hellti sér upp á kaffi og beið og beið og beið og beið, þar til mál var komið að leggja af stað í samfloti við besta vin minn og veiðifélaga austur fyrir fjall. Ferðinni var heitið á söfnunarstað austur á Selfossi þar sem Skagagengið hefur haft til siðs að hittast og úðað í sig djúpsteiktum flygildisafurðum áður en lagt væri í spölinn um hreppa og þing inn að Veiðivötnum.

Þær voru ekki amalegar viðtökur veðurs og manna sem hópurinn fékk þegar rennt var í hlað við Varðberg, sólin glotti við ský, léttur andvari og bros á vörum hvers manns. Eftir hefðbundinn undirbúning var skipað til sængur, sem er þó algjörlega ónauðsynlegt þar sem kjarni hópsins á sér sitt fleti og yrði ekki haggað þaðan án átaka.

Þegar allir höfðu komið sér fyrir og dregið á sig veiðispjarir, skiptist hópurinn í þrjár fylkingar sem fóru að mestu í sitt hverja áttina. Við veiðifélagarnir renndum í rólegheitum inn með Litlasjó, stöldruðum meðal annars við á Litlutá og það var eins og við manninn mælt, þar var fiskur og eftir smá stund lágu fjórir þeirra, vel vænir í kælikistunni. Það sem mér þótti vænst um við þetta fyrsta stopp okkar var að þarna voru aðeins vænir fiskar á ferð og engin ástæða til að sleppa neinum þeirra sökum smæðar.

Áfram héldum við för, skönnuðum svæðið inn að Norðurbotni og virtum fyrir okkur þær breytingar sem orðið hafa við planið inni í botni, þ.e. að austan þar sem nefið hefur lengst töluvert til norðausturs og fengsæll veiðistaður inni í víkinni hefur horfið undir sand. Á ferð okkar til baka ákváðum við að stoppa við mörk Löngustrandar til suðurs, án þess þó að hafa séð til fiskjar og reyna fyrir okkur. Jú, þarna var fiskur að þvælast í einhverju æti og af mínum flugum þótti þeim girnilegast að eltast við eitthvað gyllt. Mig rámar í að þeim hafi þótt ólívugrænn Nobbler girnilegastur hjá veiðifélaga mínum, sel það þó ekki dýrar en mig rámar í, og leikar fóru þannig að þarna bættum við 6 stykkjum við í kistuna. Mér og veiðifélögum mínum hefur þótt forn frægð Löngustrandar heldur dalað hin síðari ár, en svo virtist vera sem þeir sem bættust í félagsskap okkar þarna og röðuðu sér inn á ströndina hafi allir verið í fiski og gert ágæta veiði. Það skyldi þó ekki vera að Langaströnd væri að taka upp fyrri háttu og gefa síðdegis?

Á leið okkar í hús, stöldruðum við rétt aðeins við á mörkum Hrauns og Fyrstuvíkur þar sem veiðifélagi minn varð var við hrekkjalóm sem tók nokkrum sinnum í en hætti svo alltaf við. Ég er ekki frá því að þar hafi gamall nartari verið á ferð, ekki alveg nógu svangur til að taka en langað í smá action og því verið að hrekkja félagann.

Það verður nú að játast að fyrsti dagurinn hefur ekki alltaf byrjað á þessum nótum hjá okkur og oft hefur þurft að grípa til málshátta eins og fall er farar heill eða sýnd veiði, en ekki gefin þegar komið hefur verið í hús að kvöldi fyrsta dags.

Það fer fáum sögum af veiði á öðrum degi túrsins. Eitthvað var Kári að sperra sig og hitastigið var ekki alveg það sama og fyrsta daginn. Við þvældumst á milli staða, þóttumst sjá fisk á nokkrum stöðum, ég þó aðallega. Alveg óvart lét ég út úr mér á einum stað að ég mætti hundur heita ef ekki væri fiskur þar. Þannig varð það að ég gekk undir nafni Kátur þann daginn til heiðurs frægasta hundi Veiðivatna. Niðurstaða dagsins var einn fiskur veiðifélaga míns á Eiðinu við Eyvík.

Það var rólegt yfir genginu þennan morgun, ungliðadeildin svaf værum blundi fram á morguninn eftir átök fyrri daga enda margir fiskar sem voru á samvisku þeirra eins og annarra í genginu. Þegar hér er komið sögu, breytist frásögnin í sögu Lone Ranger því veiðifélagi minn hvarf á braut og síðustu tvo dagana var ég einn á báti. Ég tók mig til og hélt í Norðurbotn Litlasjós. Mér skildist af kunningjum að Norðurbotninn hafi haldið óbreyttum hætti frá því í opnuninni, gefið fiska en heldur í smærri kantinum, þannig að ég lagði land undir fót og tölti út að Álftatanga. Á leið minni þóttist ég verða var við fisk á nokkrum stöðum, en stillti mig um að bleyta í færi, minnugur þess að stundum hefur það komið fyrir að maður er að þvælast með fisk fram og til baka á þessari leið. Að vísu sótti að mér smá efi þegar ég gekk fram hjá hverri byltunni á fætur annarri í öldurótinu, hvað ef hann væri nú farinn þegar ég væri á bakaleið?

Það var því í snarheitum að ég lagði flugu fyrir fyrstu merki um fisk þegar ég kom á Álftatanga og hún var tekin þungt og ákveðið. Öflugur fiskur sem tók stökkið, strikið út frá landi og ég þakkaði fyrir að hann stefndi í norðurátt þegar hann tók síðara stökkið og hvarf í djúpið annars hefði orðið sólmyrkvi á Álftatanga, svo stór var hann. Þetta eru kannski smá ýkjur, en þessi fiskur var hafði nokkurra ára reynslu í að losa sig við flugu og það laumaðist að mér sá grunur að hann hafi verið þarna einn á ferð, einmitt vegna kunnáttu sinnar í að losa sig. Það leið sem sagt dágóður tími áður en ég varð var við fisk aftur, raunar heil samloka og tveir kaffibollar auk nokkurra tilhæfulausra kasta út í dýpið. Svo lyngdi aðeins og ég náði örlítið lengra út frá tanganum á móti vindi. Til að gera landa sögu stutta, þá tók ég tvo afar væna fiska á Álftatanga, lagði síðan land undir fót og hélt til baka og endurtók leikinn á hverjum einasta tanga þaðan í frá á leið minni inn í Norðurbotn. Miðja vegu þurfti ég að tæma netið og rimpa saman saumsprettu sem gaf til kynna að það þyldi ekki 20 kg að óbreyttu.

Þegar nær planinu í Norðurbotni dró, hægðist aðeins á mér og þegar netið var orðið fullt og farið að síga óþyrmilega í sleppti ég síðasta staðnum og gekk snúðugt framhjá síðustu fiskunum sem ég sá að voru í æti, settist niður og kláraði nestið mitt. Deginum lauk ég með genginu sem safnast hafði saman við suðurenda Grænavatns í hreinu og kláru moki, svo miklu að löndunarstjórinn hafi ekki undan að hlaupa á milli manna með háfinn. Sjálfur var ég á rólegri nótunum, náði ekki alveg nógu langt út í ölduna með flugunni og kannski bara svolítið sáttur með mitt eftir daginn.

Vindur og smávægilegt sandrok dró eitthvað úr mér síðasta daginn og ég hélt í leiðangur í suðurvötnin. Heimsótti Ónýtavatn, Arnarpoll og Ónefndavatn án þess að verða var við fisk þrátt fyrir að grugg hafði safnast saman við bakkana þar sem aldan rótaði upp botninum. Raunar fannst mér gruggið vera meira ólífrænt heldur en lífrænt og hvergi varð ég var við hornsíli á bakkanum. Eftir staðgóðann miðdegisverð ákvað ég að halda aftur til norðurs með Litlasjó. Staldraði aðeins við á nokkrum stöðum; Fyrstuvík, Hrauninu, Litlutá og Lönguströnd, en ákvað síðan að athuga með síðasta veiðistaðinn sem ég sleppi deginum áður í Norðurbotni. Ég voga mér ekki að halda því fram að þeir hafi beðið eftir mér sem ég skildi eftir daginn áður en tveir rígvænir voru samt viðlátnir og fengu að gista í kælikassanum mínum í lok dags.

Eins og venjulega var þessi ferð með Skagagenginu hreint út sagt frábær, létt yfir mönnum, aflabrögð með besta móti og allir sáttir við sitt. Ég í það minnsta sofnaði sáttur síðasta kvöldið og hugsaði strax með tilhlökkun til næstu ferðar. Takk kærlega fyrir samveruna Skagagengið, vonandi sjáumst við ekki síðar en að ári.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *