Flýtileiðir

Frábært, fast

Eins frábært og það getur verið að draga inn og finna smá nart og enn annað, þá getur þetta líka verið vonbrigði dagsins, vikunnar eða mánaðarins, ef þér er virkilega annt um fluguna. Þetta var sem sagt allt ein ímyndun, þú varst að skrönglast í botninum og settir svo fast á milli steina eða í stærsta og ljótasta hraungrjóti sem fyrirfinnst í öllu vatninu. Reyndar eru öll grjót sem fanga fluguna þína ljót og illa innrætt náttúrufyrirbrigði.

Þú reynir að toga aðeins fastar í línuna og hefur þá væntanlega sett fluguna endanlega fasta í grjótinu og þarft að hugsa málið upp á nýtt, hefðir betur sleppt því að toga, það er síðasta úrræðið sem þú ætti að prófa. Ef þú ert að veiða í straum, þá væri e.t.v. fyrsta úrræðið að venda línunni út í strauminn, jafnvel veltikasta þannig að straumurinn nái góðu taki á línunni þinni og dragi hana þannig frá stóra ljóta grjótinu. Hver veit nema flugan losni við átak úr gagnstæðri átt.

Þessi leið er ekki alveg eins áhrifarík í kyrrstæðu vatni en samt möguleg ef þér tekst að veltikasta beint út frá festunni og leyfa vatninu að halda við línuna og draga lítillega inn. Það ótrúlega mikið sem vatnið getur sett sig í spor akkeris sem þú getur nýtt þér til að draga fluguna úr festunni.

Er ekki bara fast hjá þér vinur?

Svo getur þú náttúrulega gefið línuna alveg lausa, spólað nægjanlega út af hjólinu þannig að þér takist að vaða yfir á hin bakka árinnar eða út á nærliggjandi nef eða stein við vatnið og draga þannig í fluguna að hún mögulega losni. Fyrir alla muni, ekki beita stönginni með því að rykkja eða skrykkja í línuna, það eina sem gæti gerst er að þú brjótir stöngina eða slítir tauminn. Beindu stangartoppinum að skurðpunkti línunnar við vatnið og taktu á línunni, mjúkt en örugglega.

Næst síðasta úrræðið sem ég hef að bjóða þér er að vaða út að steininum og ýta við flugunni með fætinum, ef það er ekki oft djúpt að steininum á annað borð. Ef þú nærð ekki alveg að honum, þá gætir þú reynt að draga alla línuna inn, teygja stangartoppinn út yfir steininn og húkka þannig fluguna úr festunni. Farðu samt varlega, því veiðistangir eru ekki hannaðar fyrir slíkt átak og það má lítið út af bera til að brjóta toppinn. Síðasta úrræðið er svo það sem þú byrjaði mögulega á að prófa og hefðir betur látið ógert. Mín reynsla segir mér að það séu í raun minni líkur á að losa flugu með því að toga í línuna heldur en öll önnur ráð bjóða upp á, en þegar allt um þrýtur, þá er ekkert annað eftir en leggja stangartoppinn niður, beina honum að skurðpunktinum við vatnið og toga. Það er í raun tvennt sem getur gerst; flugan losnar og þú þarft jafnvel að loka augunum á meðan hún skýst fram hjá þér í loftinu eða taumurinn eða fluguhnúturinn slitnar og þú þarft að kveðja fluguna þína endanlega.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *