Kviður

Þessa flugu setti ég saman með hliðsjón af svokölluðum Beaded Alevin flugum, sem í raun merkir einfaldlega kviðpokaseiði með kúlu. Ég studdist í raun ekkert við neina ákveðna uppskrift, lék bara af fingrum fram þar til ég varð ánægður með útkomuna. Markmiðið var að eignast nokkur kviðpokaseiði til að prófa næsta vor, þ.e. á tímabilinu maí – júní þegar líklegast er að rekast á kviðpokaseiði laxfiska hér á landi.

Sú aðferð sem ég beitti við þessa flugu er í raun afar einföld og hráefnið ekki flókið: standard votflugukrókur, glerperla, héradöbb, afskurður af Micro Strip, álímd augu og auðvitað slatti af UV lími. Ég einfaldlega festi glerperluna á miðjan legg öngulsins með UV lími undir og til beggja enda, hnýtti undirlag með hnýtingarþræði þar fyrir fram, setti smá döbb kraga við kúluna til að mynda haus, hnýtti hárvænginn niður, límdi augun á og gekk frá haus með þykku UV lími. Einfalt og tiltölulega fljótlegt þegar aðferðin var fullmótuð.

Öngull: hefðbundin votfluguöngull #10 (þannig að heildarlengdin væri u.þ.b. 15 mm)
Þráður: brúnn 14/0
Búkur / kviður: 4 mm föndurperla í trúverðugum lit
Haus: Hareline Ice Dub, brúnt
Vængur: afskorin hár af Hareline Pulsator Strip (Gold Variant)
Augu: Veniard Epoxu Eyes 3 mm
Haus: hnýtingarþráður, þykkt UV lím á milli augna og fram að öngulauga.