Black Palmer

Nákvæmlega þessa flugu er að finna í bókinni Art of Angling and Complete System of Fly Making and Dying of Colours eftir William Blacker sem út kom árið 1842. Blacker þessi var írskur og seldi veiðibúnað að Dean Street 54 í London og var, ef marka má samtíma auglýsingu hans: The well known FLY GENIUS, and Piscator’s Scientific Work, on the Gentle-Craft. Eitthvað hefur Blacker haft fyrir sér í þessum orðum, því hann var afar virtur sem hnýtari og síðari útgáfa bókarinnar naut verndar hans konunglegu hátignar Price Albert sem studdi við útgáfu hennar um ein 10 pund sem gerir að núvirði kvart milljón íslenskar. Þeim sem vilja kynna sér sögu Blacker er bent á ágæta grein The Fishing Museum Online sem nálgast má hér.

Óafvitandi um nafn eða sögu flugunnar þá hef ég verið með hana í boxinu mínu og mjög oft á taumnum í nokkur ár og hún hefur gefið mér bæði bleikju og urriða. Það var ekki fyrr en árið 2024 að erlendur veiðimaður benti á fluguna hjá mér og nefndi hana á nafn að ég gerði mér grein fyrir því að um þekkta flugu væri að ræða. Fram að því var hún bara eins og hver önnur fluga sem ég hafði soðið saman að eigin geðþótta, trúlega þó eftir að hafa rekið augu í mynd af henni árið 2020.

Eins og um svo margar klassískar votflugur, þá er höfundur hennar óþekktur en í þeim bókum sem ég hef aðgang að er hennar fyrst getið árið 1836, þá með rauðri fjöður í palmeringu.

Öngull: hefðbundin votfluguöngull #10
Þráður: svartur
Broddur: gyltur
Búkur: svört ull (geitaull, mohair) eða hnýtingarþráðurinn
Hringvöf: tvær hanafjaðrir, palmeraðar
Haus:
 svartur, lakkaður