Úrval hnýtingarefnis er orðið með þvílíkum eindæmum að oft eiga byrjendur erfitt með að fóta sig í flórunni. Hvað þarf ég að nota? Hvað þýða öll þessi heiti? Hvað er þetta eiginlega notað í? Þetta voru spurningarnar sem veltust um í mínum huga þegar ég byrjaði að hnýta. Eftir á að hyggja hefði e.t.v. verið ágætt að fara á hnýtingarnámskeið því flestir leiðbeinendur byrja námskeiðin á því að fara yfir helstu efni og áhöld sem gott er að hafa til að byrja með. Hér er ætlunin að draga saman nokkrar gerðir áhalda og efna sem notaðar eru við hnýtingar. Listinn er ekki tæmandi, en kemur vonandi þó einhverjum að gagni.

Dæmi um byrjendapakka

Áhöld: hnýtingarþvinga, keflishaldari, skæri, fjaðurtöng og nokkrir önglar

Efni: glitrandi þræðir í stél og vængi, flos, chenille í 2-3 litum, ull í búk í 5-10 litum, flatt tinsel #10 (silfrað öðru megin, gyllt hinum megin), peacock herl, hana eða hænu kambur, marabou fjaðrir í nokkrum litum, hnýtingarþráður 8/0 í svörtu og e.t.v. brúnu, lakk.

Með svona pakka getur maður alveg komist af stað, prófað sig áfram með flugur eins og Peacock, Nobbler, Wooly Bugger o.fl.

Áhöld

Fjaðurtöng – Hackle plier Þegar kemur að því að vefja fjöður um fluguna er svo til nauðsynlegt að eiga eina svona. Þær eru ýmist með eða án fóðringar á snertunum, smekksatriði hvora útgáfuna menn vilja.
Hnífur Það er nauðsynlegt að vera með góðan dúkahníf eða skurðlæknahníf innan seilingar við fluguhnýtingar.
Hnýtingarþvinga – Vise Nauðsynlegt áhald til fluguhnýtinga. Hægt að fá mjög þokkalega þvingu fyrir innan við 5 þ.kr. Lengra komnir vilja e.t.v. fá þvingu sem ræður við að önglinum sé velt á alla kannta án þess að losa hann úr þvingunni.
Keflishaldari – Bobbin Nauðsynlegt áhald, ekki verra að eiga tvo eða fleiri. Góður haldari er úr ryðfríu stáli, bestu með keramik pípu sem hættir síður til að slíta þráðinn.
Nálar – Bodkin Mikið notað í hnýtingum, t.d. til að lagfæra bolklæðningar eða til að lakka fluguhöfuð. Fleiri betri en færri.
Skæri – Scissor Skæri eru ómissandi, tvenn betri en ein þannig að maður getur notað önnur í fínt efni, hin í gróft.
Staflari – Hair stacker Fyrir þá sem hnýta hárvængi er nauðsynlegt að eiga einn (eða tvo) svona.
Whip Finisher Ekki óalgengt að byrjendum sé ráðlagt að festa kaup á einum svona til að setja tryggan endahnút á fluguna. Svo eru þeir sem ekkert vilja annað en nota fingurna eins og undirritaður.

Búkefni

Antron Gerfiefni sem gjarnan er spunnið í þræði, mismunandi grófa og mikið notað í búk á flugu.
Chenille Algengt hnýtingarefni sem líkist einna helst linum pípuhreinsara og er notað sem búkefni í ýmsar flugur. Fáanlegt í ýmsum litum, sverleika, glitrandi eða matt.
Flos – Floss Algengt búkefni í straumflugur. Til í ýmsum sverleikum og litum.
Fritz Tví-spunnið garn utan um glitrandi þræði, líkist horuðum pípuhreinsara.
Garn – Yarn Endalausir möguleikar; bómull, nylon, rayon, antron, mohair og íslensk ull. Fyrir utan að kaupa það á litlum spólum, má alltaf kíkja í saumakörfuna á heimilinu og stela smá spotta og vinda upp á pappaspjald.

Döbbefni

Flash döbb Margar gerðir til, flestar eiga þær það sameiginlegt að vera framleiddar úr gerfiefnum með háu hlutfalli glitrandi tinsel þráða.
Glitdöbb – Ice Dubbing Hvort heldur framleitt algerlega úr gerfiefnum eða blanda t.d. héra og glitrandi gerfiefna. Tilvalið í að auka sýnileika hefðbundinna flugna eins og Héraeyra.
Íslensk ull Enginn skyldi vanmeta gæði íslensku ullarinnar við fluguhnýtingar. Fíngert þelið úr íslensku ullinni gefur mun dýrara efnum ekkert eftir.
Kanínuhár – Rabbit dubb Mjög algengt að döbba flugur með kanínuhári, ódýrt og nokkuð viðráðanlegt döbbefni.
Selshár – Seal Eitthvert besta döbb efni sem unnt er að fá í flugur. Hárið hefur einstaklega mikinn gljáa og endist vel.

Fjaðrir

Fasana sverð – Pheasant tail Notadrýgstu fjaðrir sem hægt er að eignast fyrir fluguhnýtingar; skott, fætur og búkefni. Auðvitað uppistaðan í Sawyer’s Pheasant Tail, flugunni sem engin hefur komist í hálfkvisti við.
Grágæs Allt of fáir (skot)veiðimenn hirða um að nýta fjaðrir grágæsarinnar því svörtu stélfjaðrirnar eru meira en fyrsta flokks hnýtingarefni eins og þær koma af fuglinum og vel mætti lita bringu- og síðufjaðrir til ýmissa nota.
Gullfasani – Golden pheasant Það er einfaldlega ekki til neinar fjaðrir sem koma í stað þessara fjaðra í teal flugur og coachman.
Hænufjöður – Hen hackle Fyrst og fremst notaðar í votflugur en nýtast vel í vængi á þurrflugur. Almennt lengri en hanafjaðrir, ekki eins stífar.
Hanafjöður – Cock hackle, Rooster hackle Notaðar fyrst og fremst í þurrflugur, stífari og almennt lengri en hænufjaðrir.
Marabou Mjúkar, næstum loðnar fjaðrir af storki eða kalkún. Vinsælar í margar gerðir straumflugna, s.s. Nobbler og sem fylling í vængi t.d. í Black Ghost. Fást í öllum regnbogans litum, jafnvel flúrljómaðar.
Páfugl – Peacock Sverðfjaðrir notaðar í litríkar straum- og votflugur en ‘herl’ notað í púpur eins og t.d. Peacock’inn hans Kolbeins Grímssonar.
Rassandafjaðrir – cul de canard (CDC) Náttúrulega vatnsvarðar fjaðrir af gumbi andar, rétt við fitukirtilinn. Óumdeilanlega bestu fjaðrir í þurrflugur sem hægt er að fá sökum flothæfni þeirra.
Rjúpa Hvítu rjúpufjaðrirnar má nota í allar flugur þar sem hvítt kemur fyrir. Af vængjum og hálsi fuglanna má fá þéttar, fíngerðar fjaðrir sem fylla skemmtilega í kinnar ásamt stærri fjöðrum úr t.d. stéli í vængi flugna.
Stokkönd – Mallard Brúnar síðufjaðrir stokkandar eru mikið notaðar í vængi ásamt þeim koparlituðu. Stóru bláu vængspeglarnir nýtast einnig í vængi. Léttur göngutúr meðfram Tjörninni getur gefið vel af sér.
Strútur – Ostrich Fyrir þurrflugur og bústnari púpur nota menn gjarnar fjaðrir af strút í stað páfugls þar sem þær eru léttari og fyllri en t.d. Peacock herl.
Ungverskur fasani – Hungarian Partidge Besta fáanlega hráefnið í mjúka kraga og skegg. Nauðsynlegar fyrir hnýtingu caddis púpa. Nátturulegir litir; ólívugrænt, brúnt, ljósrautt, gult.

Hár

Dádýrshár – Bucktail Dádýrshár taka lit mjög vel, frekar gróf og henta því best í miðlungs og stærri straumflugur og auðvitað í ‘bucktail’ flugur
Heimskautarefur – Artic fox Gersemi í fluguvængi, stél og vængþekjur. Gróft yst, fíngerðara innar.
Hjartarhár – Deer Gróft, en ekki eins gróft og dádýrshár og nýtist því jafnvel í minni flugur.
Hrosshár Hár af síðu hrossa er fyrirtaks efni í fluguvæng. Lengri, grófari hár s.s. úr faxi og toppi má nota í vængþekjur og langa vængi.
Íkornahár – Squirrel Íkronahár eru fíngerð, rákótt og tilvalin í straumflugur fyrir silung. Hafa góða endingu og auðvelt að vinna með. Ýmist lituð eða náttúrlega grá eða brún.
Kálfshár – Calf Mikið notað í vængi og stél á hárflugum. Fæst bæði úr hala og af síðu kálfa. Ómissandi þar sem þörf er á fíngerðari og beinni hárum en almennt fást úr hölum.
Kanínuhár – Rabbit fur Fíngerð og meðfærileg hár sem henta vel í bústnar flugur. Náttúrleg og lituð, jafnvel flúrljómuð.
Kattarhár Nú hljóp á snærið hjá mér, kattareigandanum, því kattarhár eru með allra bestu hárum sem hægt er að fá í vængi. Kattarhár hafa mikinn eðlilegan gljáa og taka lit mjög vel.

Hnýtingarþráður

Hnýtingarþráður – Tying thread Í stað þess að tilgreina ákveðnar stærðir og gerðir hnýtingarþráðar ætla ég að telja hér til nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar velja skal hnýtingarþráð.- Algengast er að tvinni sé einkenndur með öðru tveggja X/0 einkenni þar sem hærri tala (X) gefur til kynna grennri þráð (8/0 er grennri en 6/0). Hitt einkennið er ‘denier’ þar sem hærri tala gefur til kynna grófari þráð. Denier er fjöldi ½ gr. í hverjum 450 m af þræði. Þekktur þráður eins og t.d. UNI 8/0 er c.a. 70 denier, 6/0 er aftur á móti 137 denier. Þessar tölur er síðan allt aðrar sé rætt um t.d. Danville þráð eða UTC. Ef þú nærð leikni í að hnýta með UNI 8/0 án þess að slíta í tíma og ótíma ertu í nokkuð góðum málum, þú nærð nettari hausum og getur hnýtt á smærri öngla.- Mismunandi tegundir hafa mismunandi eiginleika. GSP þráður (gel spun polyethylene) er afar sterkur miðað við þvermál, en getur verið nokkuð vandmeðfarinn þar sem hann er nokkuð sleipur. UTC þráður leggst frekar flatur sem getur auðvitað komið sér vel í ýmsum flugum. UNI er áræðanlegur og sterkur þráður sem flestum framar bíður upp á gott úrval lita, allt frá jaðarlitum yfir í jarðliti (neutral). Danville hefur um langt skeið verið í fararbroddi framleiðenda og oftar en ekki verið fyrstir á markaðinn með nýjungar.

Tegundirnar eru óteljandi, prófaðu þig áfram með nokkrar þeirra þangað til þú finnur þá gerð, styrkleika og áferð sem þér hentar. Góður hnýtingarþráður er breytilegur eftir einstaklingum.

Kúlur og hausar

Augu – Dumbell eyes Notað líkt og vaskakeðjan í augu á straumflugum.
Dúkkuaugu – Doll eyes Álímd augu í ýmsum stærðum og litum, helst notuð á straumflugur í stað þess að mála augu.
Keiluhausar – Coneheads Algengastar í stærðum frá 3,0 – 5,0 mm. Framleiddar úr ýmsum málmum; stál, brass, kopar, nikkel og tungsten. Ýmist með málmáferð eða litaðar. Mest notaðar til að þyngja straumflugur.
Kúlur – Beads Algengastar í stærðum frá 2,5 – 3,5 mm. Framleiddar úr ýmsum málmum; stál, brass, kopar, nikkel og tungsten. Ýmist með málmáferð eða litaðar. Notaðar jöfnum höndum til að þyngja púpur og straumflugur.
Vaskakeðja – Bead Chain Klippt niður í pör og notuð sem augu á ýmsar straumflugur, þekktust þeirra er væntanlega Dog Nobbler.

Lakk, lím og vax

Lakk – Cement / Varnish Nauðsynlegt er að nota gott lakk til að lakka yfir haus og/eða búk flugunnar til að auka endingu hennar. Auk glæra lakksins er ekki verra að eiga rautt, gult og svart.
Tonnatak – Crazyglue Ekki verra að hafa eina svona við höndina þegar tryggja skal endingu flugunnar. Nokkuð notadrjúgt í ýmsar púpur o.fl.
Vax Ýmsar tegundir eru til af vaxi sem borið er á hnýtingarþráðinn þegar döbba skal með fíngerðum hárum. Sjálfur hef ég alltaf, ekki vax heldur lyktarlausan varasalfa á borðinu hjá mér. Einhvern veginn hefur hann reynst mér best í döbbinu og svo er hann helmingi ódýrari.
Þynnir – Thinner Oft getur verið heppilegt að eiga viðeigandi þynni fyrir lakkið þegar það tekur að stífna með tímanum.

Vöf

Ávalt tinsel – Oval tinsel Notað til að styrkja og fegra búk straumflugna. Tegundirnar eru óteljandi, helstu stærðir eru þrjár; grannt, miðlungs og gróft.
Flatt tinsel – Flat tinsel Það má í raun segja það sama um flatt tinsel og það ávala. Ekki er verra að slá tvær flugur í einu höggi og kaupa tinsel sem er gyllt öðru megin og silfrað hinum megin, tvöföld nýting.
Koparvír – Copperwire Það er einfaldlega ekki hægt að hnýta bestu flugu allra tíma, Pheasant Tail án þess að eiga koparvír. Auðvitað má kaupa vírinn í næstu verslun eins og hverja aðra hnýtingarvöru,en eins og lesendur bloggsins hafa kannski orðið varir við, þá finnst mér einstaklega gaman að því að verða mér úti um ýmislegt utan verslana. Þess vegna hef ég alltaf augun opinn þegar gömlu (biluðu) rafmagnsdóti er hent því víða leynist mjög góður kopar, jafnvel glansandi fínn álþráður sem ekki er síðri í vöf.

Ýmislegt

Blýþráður – Lead wire Nauðsynlegur til að þyngja flugur. Síðari ár hafa menn horft meira til umhverfisvænni efna s.s. tungsten sem þar að auki er 4x þyngra.
Glitþræðir – Flashabou, Christal Flash, Micro Flash o.fl. Allt frá því að vera áþekkast glitrandi tinsel yfir í það að vera glitrandi einþátta þræðir. Oftast notað í stél eða vængi flugna.

.