Veiðivötn 13. – 15. ágúst 2021

Einhvern tímann verður allt fyrst og sá tími var á sunnudaginn í mínu tilfelli. En segjum fyrst frá föstudeginum 13. ágúst sem einhverjir óttast óumræðanlega, rétt eins og svarta ketti, upprétta stiga og ýmislegt annað sem einhverjum grallara datt í hug að segja að væru illur fyrirboði. Eins gott að ég er ekki hjátrúarfullur, annars hefði ég trúlega ekki lagt í ferðalag með okkar færanlega veiðihús inn að Veiðivötnum þennan dag.

Tjaldvatn og útsýnið okkar úr vagninum

Vötnin tóku á móti okkur af sinni alkunnu gestrisni sem hefur smitað menn og konur í fjölda ár. Ef eitthvað var út á veðrið að setja, þá var það mögulega aðeins og gott. Þótt sumarið stefni í yfir 20.000 fiska sem er betra heldur en í fyrra, þá hafa veiðimenn*) verið að glíma við of gott veður; hita og stillur.

 *) mögulega er aðeins um veiðimenn eins og mig að ræða, óheppna með aflatölur.

Eftir að hafa heilsað upp á kunningja og vini, meðal annars þrjá úr fasta hollinu okkar sem voru á staðnum, leitað frétta af veiði og veiðistöðum, héldum við inn að Stóra Hraunvatni þar sem Augað hafði dregið sig í pung og var nær alveg þurrt. Það var heldur ekki mikið eftir af Jöklavíkinni og út úr Höfðanum til norðausturs var kominn tangi sem væntanleg hefur hrellt veiðimenn með festum hér áður fyrr. Þrátt fyrir að við hefðum áreiðanlegar fréttir af veiði fram undan Höfðanum, þá urðum við ekki vör við fisk og héldum við því til baka og kíktum á Litlutá við Litlasjó.

Þó Litlisjór standi ekki beint undir nafni, þá fer hann nú samt minnkandi og við vorum sammála um að við höfum aldrei sé jafn lágt í honum áður. Þegar við þóttumst hafa baðað nóg af flugum, færðum við okkur yfir á suðurbakka Grænavatns, ókum yfir Kvíslar og komum okkur fyrir þar sem pláss var á milli veiðihópa sem höfðu búið um sig á bakkanum. Það var ákveðið traust í því að sjá veiðimenn vera búna að skjóta rótum á einum ákveðnum stað, það var nefnilega svolítið ráp á svæðinu, eitthvað eirðarleysi meðal veiðimanna.

Fyrsta alvöru taka ferðarinnar var síðla kvölds, glæsilegur fiskur sem sýndi fimleika sinn, ólmaðist og stökk þannig að flugan fór úr honum. Sjálfur get ég ekki eignað mér nokkur einasta heiður af þessu, það var veiðifélagi minn sem lagði fluguna út, dró inn og fékk tökuna. Sjálfur var ég einn í heiminum með mínar flugur sem ekki einn einasti kjaftur hafði áhuga á.

Sunnudagurinn vakti okkur svolítið seint en með þokusúld og það var bara alls ekkert of hlýtt. Kannski meira svona veður sem maður á von á uppi á hálendi á þessum árstíma. Við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í smá akstur, nýta tímann meðan hann hristi þetta af sér og renna inn að Skyggnisvatni.

Skyggnisvatn séð úr norðri – smellið fyrir stærri mynd

Það opnaði ekki inn í Skyggnisvatn fyrr en í fjórðu viku tímabilsins og þegar við ókum um skarðið á milli Skyggnis og Vatnaalda þá vorum við ekkert hissa á þessari síðbúnu opnun. Það styttist væntanlega í að vegurinn um skarðið hækki um nokkra metra, hlíðarnar hafa þrengt svo að skarðinu að við liggur að það sé ekkert pláss lengur fyrir veginn á botninum.

Við byrjuðum rétt innan við ósinn, færðum okkur inn að Eyrinni en urðum ekki vör við fisk. Við höfðum raunar heyrt af því að bleikjan væri sérlega treg þetta sumarið, en ekki áttum við samt von á því svona rólegu og færðum okkur því norður fyrir Ógöngunef og reyndum fyrir okkur í vatninu að norðan. Sjálfur fékk ég eina töku, nauma, en veiðifélagi minn tók eina sérlega væna bleikju á land. Bíð spenntur eftir því að mér verði boðin gómsæt bleikjumáltíð.

Ónefndavatn – smellið fyrir stærri mynd

Þegar okkur þótti fullreynt færðum við okkur aftur inn á hefðbundið Veiðivatnasvæðið, renndum inn að Ónefndavatni og reyndum fyrir okkur á móti öldu við syðsta hluta vatnsins. Staðsetningin var auðvitað valin vegna þess að veiðimenn veiða oft fiska sem áður hafa veiðst sbr. fyrstu ferð okkar í Vötnin þetta árið. Vitaskuld fór svo að við náðum ekki að veiða þá fiska sem liggja í kistunni heima og því færðum við okkur yfir í Ónýtavatn, sem líkt og mörg önnur vötn hefur dregist töluvert saman.

Ónýtavatn – smellið fyrir stærri mynd

Þegar þarna var komið sögu hafði hitastigið hækkað verulega, hann hafði rifið af sér og vind hafði lægt. Í Ónýtavatni tók ég einn titt í fyrsta kasti og uppskar nokkurt nart eftir það. Veiðifélagi minn fékk aftur á móti góða töku en nauma þannig að fiskurinn losaði sig fljótlega af.

Sólsetrið eins og það blasti við frá Álftatanga

Eftir síðdegishressingu og töluverðar vangaveltur um vænlega staði, þá ákváðum við veiðifélagarnir að skilja að borði, hún skutlaði mér inn fyrir Eiðið við Litlasjó og hélt síðan til baka í Grænavatn. Sjálfur lagði ég land undir fót og labbaði út á Álftatanga í blíðunni. Ég er ekkert að grínast, það var með eindæmum fallegt og hlýtt veður og fiskur að sýna sig nær alla þessa leið. Við og við staldraði ég við og tældi þá sem voru í kastfæri til fylgilags við fluguna mína. Þeir sem ég tók á ferð minni og úti á Álftatanga voru allir innan við pundið og fengu því líf. Ég er staðráðinn í að setja flugu fyrir þessa fiska eftir 2 – 3 ár, þá verður þeim ekki gefið líf.

Þegar líða fór á kvöldið, tölti ég til baka og elti fisk alla leið inn í víkina austan við Eiðið þar sem veiðifélagi minn beið mín með þær frábæru fréttir að 2ja punda fiskur tók, skemmti henni vel og endaði á landi hjá henni í Grænavatni.

Kvöldkyrrð, veiðimaður og dásamlegt umhverfi

Auðvitað freistaði þessi frásögn aðeins og við ákváðum að renna inn að Grænavatni eftir að hafa hitað okkur kaffi í kvöldkyrrðinni. Raunar komum við aðeins við í Eyvíkinni, tókum nokkur köst á fiska sem gerðu vart við sig, en fengum engar ákveðnar tökur. Aftur á móti hittum við þar fyrir góðan félaga okkar sem við raunar hittum yfirleitt í fyrstu ferð okkar hvert ár. Sá var með góðum hópi sem komið hafði í Vötnin á sama tíma og við, og verið álíka farsæll. Við vorum í ákveðnum sjokki, þegar þessi vinur okkar er ekki í fiski, þá er lítil von fyrir aðra, svo fiskinn er hann. Hvað um það, við héldum inn í norðurbotn Grænavatns og rétt náðum að lagfæra tauma og velja okkur flugur áður en rökkrið færðist á stig myrkurs.  Veiðifélagi minn fékk nart, kannski tvö, en ég setti (einhversstaðar þarna úti í myrkrinu) í vænan fisk sem tók vel á, tók trúlega tvöfalt flikkflakk með skrúfu og losaði sig af.

Það gustaði aðeins á sunnudaginn, hitastigið náði rétt 10°C og var eiginlega miklu nær því sem maður átti von á. Fyrir valinu varð að nýta vindáttina og reyna fyrir okkur við miðjuna og suðurrenda Grænavatns. Þegar við komum við á aðgerðarborðinu á  hittum við fyrir félaga okkar úr veiðifélaginu, glaðbeitta og káta eftir laugardaginn. Þeir höfðu náð að særa upp væna fiska í Fossvötnunum á laugardag og stefndu glaðbeittir á Litlasjó.

Ég játa það alveg að taka laugardagskvöldsins var enn í fingrum mér og réði miklu um staðarvalið. Aldan var ágæt, stóð vel á suðurenda vatnsins og það gruggaði þegar hún kom upp á grynningarnar. Þrátt fyrir þetta fengum við ekki eina einustu töku og þegar við þurfum að hrökkva eða stökkva, ákváðum við að færa okkur og reyndum aðeins fyrir okkur í Stóra Fossvatni inn undir Bátseyri. Eftir að hafa reynt, árangurslaust, að koma flugunni þessa tvo metra sem uppá vantaði þannig að hún næði til eins höfðingja sem þar úðaði í sig, ákváðum við að klára ferðina í Ónýtavatni þar sem veiðifélaginn neyddist til að taka mjög svangan urriða í minni kantinum sem kokgleypti fluguna.

Við Stóra Fossvatn

Við smelltum öllum aflanum á veiðiskýrsluna, komum við í Varðbergi og skeggræddum veiði, grisjun og ýmislegt annað við Rúnar og tvo aðra félaga okkar úr veiðifélaginu sem þar bar að garði. Annar þeirra var í sama flokki og ég og ég fann fyrir miklum létti að ég væri ekki sá eini á staðnum. Hann hefur þó vonandi rétt úr þessu þegar leið á sunnudaginn. Við tókum okkur saman í rólegheitunum, snæddum ágætan miðdegisverð og biðum félaga okkar sem höfðu leyft okkur að gerast hjáleiga við Nýberg þessa daga. Það var ekki mikil breyting á veiðisögum þeirra, sumir veiddu ágætlega, aðrir síður, en það breytir engu að þetta var flottur hópur sem seint verður sakaður um leti. Takk fyrir frábæra samveru strákar, við eigum örugglega eftir að hittast síðar í Vötnunum, trúlega ekki þetta árið en örugglega síðar.

Þannig fór það svo, sunnudagurinn 15. ágúst 2021 varð dagurinn sem ég fór í fyrsta skiptið fisklaus heim úr Veiðivötnum. Dapurleg ferð? Nei, hreint ekki, það er alltaf frábært að koma og vera í Veiðivötnum og ég lærði helling og naut mikils.

Veiðivötn 1. ágúst 2021

Hvað sem öðrum verkefnum og veðurútliti leið, þá ákváðum við veiðifélagarnir að taka okkur frí frá störfum við Löðmundarvatn eftir hádegið á sunnudaginn og leggja leið okkar inn að Veiðivötnum. Vegalengdin um Landmannaleið (F225), Fjallabak nyrðra (208), Sprengisandsleið (26) og inn á Veiðivatnaleið (F228) er að vísu ekki nema 68 km inn að Veiðivötnum, en einhverra hluta vegna gerði Google ráð fyrir að við yrðum einn og hálfan klukkutíma á leiðinni. Kannski reiknaði Google með öllum þvottabrettum á leiðinni og trúið mér, það er nóg af þeim, en við vorum eitthvað skemur á leiðinni og þóttumst því hafa snúið á gagnaveituna.

Eftir að hafa komið við í Varðbergi og vitjað veiðileyfis lögðum við leið okkar inn með Litlasjó í þeirri von að sjá eitthvað til fiskjar. Það eina sem við sáum var að enn hefur lækkað í og áður óséður botn blasti við í blíðviðrinu ofan af hólunum við Litlasjósver. Við héldum því til baka, höfðum fengið smá skúbb frá vinum að það hefði verið líf í Grænavatni fyrr um daginn.

Norðurbotn Grænavatns varð fyrir valinu og það stóð á endum að við sáum til fiskjar á meðan við settum saman stangirnar og drógum á okkur sjóklæði. Af gömlum vana hélt ég í mitt venjulega bakkarölt, kastaði nokkrum sinnum á hverjum stað og var duglegur að skipta um flugur. Veiðifélagi minn aftur á móti tölti beint niður að bakka, skaut rótum í sömu sporunum og innan skamms var fyrsti fiskur kominn á land. Ég hélt áfram röltinu mínu og stuttu síðar kom annar fiskur á land, hjá veiðifélaganum. Ég færði mig nær henni og fékk hint um fluguval (Koparinn með svörtu skotti) þá kom þriðji fiskurinn á land, hjá henni. Ég er ekki frá því að hún hafi notað „Hvað er eiginlega að gerast?“ sem einhverja forvörn við mögulegri geðvonsku eða öfundsýki en ég hafði einfaldlega ekkert svar við spurningunni, það var ekkert að gerast hjá mér.

Það var eins og örstutt hlé yrði á tökum hjá henni þannig að ég sætti lagi og tók einn vænan fisk á meðan og andaði léttar, var kominn á blað. Eftir að við höfðum síðan fengið töluvert af narti (mjög naumt) og sleppt sitthvorum fiskinum, gerðum við hlé á veiðum og smelltum feitum og fallegum pylsum á pönnuna og hituðum okkur sterkt og gott kaffi. Eitthvað prófuðum við að baða flugur eftir hressinguna, en þegar leið á seinni helming veiðitímans okkar héldum við til baka inn að Litlasjó.

Í Fyrstuvík eru mikið breyttar aðstæður og mögulegt að vaða töluvert lengra en áður. Þar að auki glittir nú í nokkur sker útí í vatni sem ég hef ekki séð áður. Það blundaði í mér að þrátt fyrir allt væri fiskur á ferðinni þarna og því stoppuðum við og reyndum fyrir okkur. Eftir að hafa vaðið töluvert út við mörk Fyrstuvíkur og Hraunsins og veitt í raun þvert á víkina að norðan, fékk ég nart. Næsta kast var jafn langt, ekkert nart. Þar næsta kast var töluvert lengra og þá var nartað aftur. Jæja, einhver þreyta varð til þess að ég reyndi ekki einu sinni að lengja í kastinu og veiddi því framundan í staðinn enda fiskurinn alveg við það að vera á hlutlausa beltinu á milli okkar hjóna. Eftir nokkur árangurslaus köst og fluguskipti hjá mér landaði veiðifélagi minn auðvitað fiski og þar með vorum við komin með sjö fiska á ekki lengri tíma. Þar sem við vorum satt best að segja orðin mjög sátt, hituðum okkur kaffi og héldum til baka niður í náttstað við Landmannahelli. Það er alltaf frábært að koma í Vötnin og ekki skemmir að fá fisk(a). Í þessari ferð var t.d. svo skemmtilegt að við veiðifélagarnir gleymdum alveg að taka myndir, við einfaldlega vorum á staðnum og nutum þess í botn. Til að vega upp á móti myndaskorti, kemur hér ein af Veiðivatnavatni, þ.e. vatnsflöskunni minni sem ég vitaskuld fyllti á uppi í Vötnum til að eiga fyrir heimferðina.

Veiðivatnavatn

Ferðalagið til baka snérist á sveif með Google því við vorum tæpa tvö tíma á leiðinni í þokunni sem lagðist yfir um leið og við höfðum farið yfir vaðið á Fossvatnakvísl og það má eiginlega segja að það hafi ekki rofað til fyrr en við vaðið á Helliskvísl við Landmannahelli. Svona ykkur að segja, það vantar eiginlega allar vegstikur á Veiðivatnaleið þannig að þvottabrettin komu sér vel. Svo lengi sem þvottabrettið lág þvert fyrir framan bílinn, þá var ég nokkuð viss um að vera enn á veginum. Kæra Vegagerð, það hefði verið til hægðarauka að hafa einhverjar stikur með endurskyni í þessari þoku.

Veiðivötn 1. til 4. júlí 2021

Um þessar mundir sinnir Árni Friðriksson makrílrannsóknum hringinn í kringum landið en inn á hálendi eru nokkrir veiðimenn einmitt með slíkan fisk í farteskinu á slóðum Arnbjörns Guðbrandssonar (Ampa). Við veiðifélagarnir vorum að vísu ekki með neinn fisk eða aðra lífræna beitu í farteskinu þegar við renndum í hlað í Veiðivötnum á fimmtudaginn í okkar árlegu Veiðivatnaferð, þeirri áttundu í röð með vöskum hópi. Ferðin inn að Vötnum var ánægjuleg, vegur og veður í góðu standi. Ég ætla annars að láta það eiga sig að fara ítarlega í veður einstaka daga ferðarinnar, eitt dugi fyrir þá alla sem við vorum í Vötnunum; blíða.

Á köflum var reyndar svo mikil blíða að maður hafði sig aðeins með herkjum út á vatnsbakkann til að veiða, hitinn langt yfir 20°C og hverjum andvara var tekið fagnandi því fluga var töluverð á svæðinu.

Þó flestar flugnanna hafi verið af ætt toppflugu, og gengu því ekki á blóðbirgðir veiðimanna, þá voru þarna inni á milli nokkrar sem bitu hressilega.

Við byrjuðum á fimmtudaginn inni í Norðurbotni Litlasjós og röltum inn með hlíðinni í átt að Álftatanga. Reyndar var ferðinni ekkert endilega heitið alla leið þangað, en það var bara svo mikið líf á þessum slóðum að við stóðumst ekki mátið að tölta áfram. Ef ferðinni hefði verið heitið beint á Álftatanga hefði verið nær að hefja ferðina úr Austurbotni. Á þessum slóðum hittum við félaga okkar sem hafði einmitt sömu sögu að segja og við, það vantaði ekkert upp á fjölda fiska, en þeir stóru voru lítið að veita viðtal.

Við stöldruðum töluvert lengi við í víkinni norðan við Álftatanga, dáðumst að kvöldinu og öllum uggunum og sporðunum sem sýndu sig, en höfðum ekki brjóst í að taka með okkur þá sem tóku og voru við pundið. Tala á slepptum fiskum riðlaðist fljótlega, en heilt yfir í þessari ferð giska ég á að við höfum sleppt á bilinu 40 – 50 fiskum. Vel að merkja, við vorum ekkert í bleikju enda á alls ekki að sleppa henni í Veiðivötnum. Að gefnu tilefni, þá vil ég vekja athygli á því að best er taka sig tímanlega upp ef langur gangur er í bíl, það á nefnilega að vera komin á ró og allir búnir að skila sér í aðgerð fyrir kl. 01:00  Fyrsta kvöldið misreiknuðum við okkur aðeins og vorum heldur sein og fengum vinsamlegt tiltal, skiljanlega.

Litlisjór – smellið fyrir stærri mynd

Vatnshæð í Litlasjó er undir meðallagi þetta árið, sama má segja um Hraunvötnin og nokkur af vötnunum í suðrinu, en mikið æti til staðar í lofti og í legi. Við höfum sjaldan vaðið í gegnum eins miklar breiður af flugu og beinlínis grútarrönd (1 til 4 metra) við bakka margra vatna. Ánægjulegt að sjá að vötnin virðast frjósöm og eftir því mikið af fiski að sýna sig, þótt hann hefði mátt vera stærri svona nær landi og í kastfæri okkar flugunördanna.

Eins og gengur vorum við svolítið að rúntinum um svæðið og í þeim ferðum okkar gaf að líta skemmtilega afþreyingu á nokkuð mörgum stöðum. Ónafngreindur prakkari hafði haft fyrir því að festa nokkra frasa og hnyttyrði á skilti og plantað víðsvegar um svæðið. Eftir því sem ég best veit, gaf viðkomandi prakkari sig fram við staðarhaldara og bauðst til að fjarlægja skiltin áður en hann héldi heim á leið, en það þótti hinn mesti óþarfi, skiltin hefði laðað fram bros margra á svæðinu og þau mættu alveg standa til hausts. Ég held að mér hafi tekist að smella myndum af öllum skiltunum á svæðinu, en gef ekkert uppi um staðsetningar þeirra, hver og einn verður bara að finna þau á ferð sinni um Vötnin.

Eins og áður segir, þá fórum við nokkuð víða um svæðið og heilt yfir var mikið líf að sjá, nokkuð sem maður hefur saknað síðustu tvö ár í Vötnunum. Til viðbótar við Litlasjó, þá var Ónefndavatn mjög líflegt en nokkur gáfu ágætlega þótt ekki væri mikið líf að sjá við fyrstu sýn. Hellavatn, eða það sem eftir er af því, gaf ágætlega þó ekki sæjum við fisk í þau skipti sem við fórum að því. Miðvatnið var á sínum stað og við urðum vör við fisk, en erfiðlega gekk að fá hann á okkar band. Sama má segja um Arnarpoll, þar var lífið helst langt utan kastfæris og vatnið gaf okkur ekkert í aðra hönd að þessu sinni.

Sama hvað, þá var dásamlegt að vera þessa daga í Vötnunum og eins víst að við heimsækjum þau aftur að ári. Ef einhver er sérstaklega forvitinn um afla, þá tókum við 11 urriða með okkur heim, þar af 3 stk sem voru yfir 4 pund, við erum fullkomlega sátt og fengum að takast á við smáfiskinn í 40 – 50 skipti og hann er bara glettilega sprækur.

Veiðivötn 1. – 4. júlí 2020

Tilhlökkun nær aðeins ákveðið langt þegar kemur að veiðiferðum. Að þessu sinni stillti ég væntingarnar niður um nokkur prósent, svona til samræmis við það sem ég hafi frétt frá félögum mínum síðustu vikur. Hvort þessi lækkun væntingavísitölunnar hafi verið nóg er ég enn að gera upp við mig núna þegar heim er komið.

Klassísk upphafsmynd frá Veiðivötnum

Það var í það minnsta einmuna blíða og fallegt veður þegar hópurinn okkar renndi í hlað upp úr hádegi á miðvikudaginn. Einn var skipaður í sóttkví, þ.e. að vera fulltrúi okkar og sækja þrjár veiðiskýrslur, lykil og tilbehör til hennar Bryndísar og það leið ekki á löngu þar til komið var að úrslitastundinni; Hvert á að halda?

Fyrir valinu hjá okkur hjónum var að fara inn í Botn, þ.e. Norðurbotn við Litlasjó. Ástæðan var hávísindaleg íhugun um hlýnun vatnsins á svörtum sandi í bland við sögur af (ágætri) veiði við Strigaskó og á Lönguströnd dagana á undan. Veðrið var með eindæmum dásamlegt, hálfskýjað og suðvestanátt sem passaði kasthönd ágætlega.

Kvöldkyrrð í Norðurbotni

Alveg frá því við byrjuðum og þar til rúmlega kl.23 vorum við og fleiri kunningjar okkar á því að nú færi hann alveg að fara að koma upp að, en það bara gerðist ekki. Að vísu setti veiðifélagi minn í fisk en sleppti, svo setti hún í annan og hirti. Það voru nú allar aflatölur kvöldsins hjá okkur hjónum.

Eftir miklar vangaveltur og marga kaffibolla á fimmtudagsmorguninn var ákveðið að byrja daginn í Hellavatni sem ég hef sterkar taugar til. Í þessu stórkostlega umhverfi tók ég minn fyrsta Veiðivatnaurriða um árið og því hef ég alltaf sætt lagi að kíkja í vatnið. Að þessu sinni var einmuna blíða og það sem meira var, við sáum til fiskjar í Hellavatni, ólíkt því sem segja má um flest önnur vötn í þessari ferð, ef Arnarpollur er undanskilinn.

Eftir töluverða tilraunastarfsemi hjá mér með ýmsar flugur, meira að segja aflaflugu fyrstu vikunnar í Veiðivötnum; hvítum Nobbler, þá var það ekki fyrr en frúin setti agnarsmáan grænan Nobbler undir og dró hann löturhægt eftir botninum að hún setti í fisk sem reyndar fékk líf sökum smæðar. Sjálfur var ég ekkert á tökunótunum og fór því fisklaus úr Hellavatni þann daginn.

Eftir miðdegisverð fórum við ásamt öllum hópinum í Ónýtavatn þar sem Kári sperrti sig allhressilega í fangið á okkur. Grugg og góð alda átti að vera uppskrift að fiski og leikar fóru þannig að við flugufélagarnir tókum sitthvorn fiskinn á æpandi rauðan Nobbler og rauðan Dýrbít, en slepptum þeim báðum. Aðrir í hópinum vorum duglegir með spúninn á þessu svæði og reytingur af fiski kom á land en töluverðu sleppt sökum smæðar.

Áður en lengra er haldið, þá er rétt að taka það fram að ég sleppi ekki aðeins fiskum. Í þessari grein sleppi ég því líka að nefna stoppin okkar við vötn sem gáfu hvorugu okkar fisk eða þar sem ekkert líf var að sjá. Eins og verða vill í rólegum ferðum í Veiðivötn, þá var víða farið og mikið reynt og það voru ekki bara við sem vorum á faraldsfæti þessa daga. Flestir veiðimenn voru duglegir að færa sig á milli vatna, en stoppuðu yfirleitt stutt á hverjum stað.

Upplifun okkar af ferðalögum á milli vatna dagana á undan varð til þess að við ákváðum að byrja aftur í Hellavatni á föstudaginn. Að þessu sinni þáði einn mjög bústinn urriði appelsínugulan Nobbler hjá frúnni og annar (ekki eins bústinn) gaf sig á tal við ólívulitaðan Nobbler hjá mér. Fleiri urðu nú ekki fiskarnir að þessu sinni, en áfram létu þeir sjá sig og þannig stimplaði vatnið sig enn betur inn hjá okkur.

Einhverjum kílómetrum og einum miðdegisverði síðar varð Grænavatn fyrir valinu hjá okkur hjónum. Ég átti nú svo sem ekki von á einhverri flugeldasýningu, vatnið er e.t.v. ekki þekktast fyrir slíkt en þeir ku vera stórir og stæltir fiskarnir sem alast upp í því. Hann var nú samt ekkert sérlega stæltur, þessi sem frúin setti í og sleppti, en hún er þó í það minnsta búin að fá fisk í Grænavatni, eitthvað annað en undirritaður.

Þegar það fór að húma færðum við okkur enn og aftur á milli staða og merkilegt nokk, þá varð Hellavatn fyrir valinu, núna til að klára daginn. Þegar við mættum á staðinn var smá strekkingur, en ekki meiri en svo að dvölin þar var kærkominn hvíld eftir vindbarning við vötnin undir Snjóöldufjallgarðinum. Þegar leið á kvöldið fór hitastigið heldur að lækka, en það kom þó ekki í veg fyrir að frúin tæki þrjá fiska. Tveimur sleppti hún en fórnaði töluverðum tíma í að þreyta og taka á land 58 sm urriða sem tók hvítan Nobbler. Sjálfur dró ég í land, settist niður og naut þess út í ystu æsar að fylgjast með viðureigninni, svona viðureign og stórum fiski vill maður ekki missa af hjá veiðifélaga sínum.

Skeifan – Prófað en ekki til umfjöllunar – Smellið fyrir stærri mynd

Hvar við byrjuðum á laugardaginn skiptir í sjálfu sér ekki nokkru máli, þaðan var ekkert að frétta. Hvorki uppitökur, byltur né nokkuð annað. Eftir miðdegisverð stefndi dagurinn í að verða fisklaus hjá okkur báðum, en þá datt okkur Arnapollurinn í hug (ekki í fyrsta skiptið í þessari ferð reyndar). Að venju fórum við í Norðurbotn (já, hann er líka í Arnarpolli) og reyndum við gíginn þar sem við höfðum séð líf á fimmtudaginn. Ég reyndi allt, þ.e. flóru af flugum í ýmsum litum, mismunandi inndrátt og þar fram eftir götunum. Stutta útgáfan; ég fékk ekki eitt einasta högg. Á meðan færði frúin sig innst í krikann og setti í 6 stk á skömmum tíma. Þeir voru reyndar grunsamlega svipaði í vextinum allir, þannig að ég segi að hún hafi tekið sömu tvo fiskana nokkrum sinnum.

Við Arnarpoll

Eftir að hafa flutt okkur aðeins til um vötn, lá leið okkar að Litlasjó. Ekkert að frétta í Fyrstuvík, ekkert að frétta í Hrauninu, en þegar við komum niður í Hermannsvík vorum við stoppuð með miklu handapati og bendingum af félögum okkar í hópinum. „Brjálaðar tökur, fullt af fiski, hættið þessu kjaftæði og upp með stangirnar“, voru orð sem féllu. Þeir félagar höfðu sem sagt lent í skoti, fengið hvíld og lent aftur í skoti og við, þ.e. ég og veiðifélagi minn, rétt náðum að sjá síðustu fiskana koma á land áður en botninn datt úr öllum skemmtilegheitunum. Að vísu náðum við sitthvorum tittinum sem við slepptum og eftir töluverðar vangaveltur og fluguskipti tókst mér að þrefalda mína fiska í þessari ferð. Þetta er ekki erfitt reikningsdæmi; 1 fiskur á föstudaginn hirtur úr Hellavatni, 2 fiskar úr Litlasjó á laugardagskvöldið, samtals 3 fiskar hirtir í mína kistu í þessari ferð. Glöggir lesendur sjá þá í hendi sér að veiðifélagi minn var með 4 fiska hirta (þar af einn sem hefði rúmað alla mína c.a. 5 sinnum). Slepptir fiskar voru nokkrir og skiptast í mjög ýktu hlutfalli; frúin sleppti 13 stykkjum á meðan ég þurfti bara að sleppa þremur.

Fjölþjóða: Pólskar pylsur, steiktar upp úr íslensku smjöri og Austurrískur snaps – Staðgott nesti í lítilli veiði

Hvað það er sem hafði þessi áhrif á aflatölur þori ég ekki að segja til um. Uppitökur og sýningar fiska voru mjög fáar þessa daga sem við vorum í vötnunum. Kannski er bara svo mikið æti í vötnunum að fiskurinn þarf hvorki að vera velta sér í yfirborðinu eða koma upp að ströndinni í leit að hornsíli, sem nóg var af við öll vötnin. Það sem styður þessa ætiskenningu er e.t.v. það að magainnihald þeirra fiska sem við tókum var kuðungur og mýflugur að minnihluta. Mest var af skötuormi, sem mér kunnugri menn segja að sé nokkuð snemmt í árinu. Skötuormurinn er silunganammið eins og Bryndís sagði við okkur um árið og ef hann fær skötuorm þá leitar hann ekkert að öðru. Búsvæði skötuormsins er á botninum, meira að segja lengst úti í dýpinu og því er enginn ástæða til að koma upp að ströndinni eða láta sjá sig á yfirborðinu. Hvort þessi kenning stenst veit ég ekki, en ég kann enga aðra betri að sinni.

Já, ég er enn að gera það upp við mig hvort væntingavísitalan hefði verið of há hjá mér. Því er ekki að leyna að þetta er lélegasta Veiðivatnaferðin ever, eins og krakkarnir segja. Á móti kemur að það eitt að vera í Veiðivötnum í þessa daga, njóta umhverfisins og þess frábæra félagsskapar sem hópurinn okkar er, það dugar mér mjög langt í að réttlæta allan aksturinn, barninginn og aflaleysið. Takk fyrir mig Veiðivötn og hópurinn, kveð með Austurrískum frasa; I‘ll be back.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 32
Urriðar í ferð
17 / 6
Urriðar alls
20 / 13
Veiðiferðir
14 / 15

Veiðivötn 1. – 5. júlí 2019

Maður undirbýr sig alltaf eins og maður ætli að veiða fiskana frá því í fyrra. Fyrir þessa árlegu skipulögðu Veiðivatnaferð var fyllt á flugubox með gyltum flugum eins og þeim sem gáfu best í fyrra. Ólífugrænn Nobbler í nokkrum útfærslum fékk að fljóta með, minnugur þess sem gerðist síðasta kvöldsins okkar í Fyrstuvík og Orange Nobbler var auðvitað til í nokkrum útfærslum.

Fyrir ferðina fékk ég nokkrar fréttir frá þeim sem voru í Vötnunum í annarri viku og það verður nú bara að segjast að væntingavísitalan fór nokkuð niður á við eftir þær fréttir. Strekkingur að norðan, jafnvel kalsa rigning, lítið um veiði og þar fram eftir götunum. Veðrið þegar við renndum í hlað við Varðberg á mánudaginn var aftur á móti hið besta og vísitalan steig aðeins og það leið ekki á löngu þar til við vorum komin niður að Litlasjó. Útlitið var gott, eiginlega frábært og ýmsir þekktir veiðistaðir kannaðir allt frá Fyrstuvík og út að Lönguströnd. Það sem sló okkur eiginlega mest var að það sást ekki einn einasti fiskur í yfirborðinu, það var engu líkara heldur en vatnið væri beinlínis laust við allar lífverur sem hefðu sporð. Hvorki urriða né hornsíli var að sjá á þeim stöðum sem við stungum niður fæti og böðuðum flugur.

Við Litlasjó

Svipaða sögu var að segja úr Arnarpolli þar sem við stoppuðum smá tíma, fengum okkur bita og böðuðum flugur. Miðað við okkar reynslu af lítt sjáanlegu lífi í Litlasjó, þá hefði eitthvað lífsmark átt að vera í Arnarpolli, en svo var nú ekki á mánudaginn. Raunar vorum við sammála um að vatnið hafi verið í kaldara lagi, lítil fluga á ferðinni og ekkert sérstaklega spennandi að kæla sjálfan sig og væntingarnar niður á þeim slóðum þannig að við fórum snemma í hús og ég var vart lentur á koddanum þegar ég sveif inn í draumalandið og dreymdi stóra fiska í fögru umhverfi.

Við ákváðum að byrja þriðjudaginn í Stóra Hraunvatni, þræddum rifið við Augað, kíktum undir Gaukshöfða og fengum okkur kaffisopa í blíðunni áður en við fórum yfir á Álftanes ef fiskurinn hefði nú leitað þangað undan norðan andvaranum. Veiðifélagi minn fékk smá viðbragð við flugu inn af Álftanesi, en þar með er öll sú saga sögð. Þrátt fyrir þennan smávægilega áhuga, þá sáum við ekki til fiskjar og það var einkennilegur doði yfir vatninu.

Við Stóra Hraunvatn

Við gerðum síðan smá tilraun við Kvíslarvatn án árangurs áður en við héldum í hús og gæddum okkur á gómsætri og matarmikilli súpu sem félagar okkur buðu upp á. Vegna lengingar veiðitíma á svæðinu til kl.24:00, þá tók okkar hópur upp þá nýbreytni að mæla sér mót kl.15:00 í húsi og snæða saman í stað þess að gaufast við matseld langt fram í nóttina. Eftir þessa sameiginlega máltíð á þriðjudaginn héldum við aftur inn að Litlasjó, en í þetta skiptið fórum við í Austurbotna og töltum út og norður fyrir Uggann. Á þeim slóðum höfðu menn verið sérstaklega duglegir með spúninn kvöldið áður og við gerðum okkur ákveðnar vonir um að fiskurinn þar væri líka til í flugurnar okkar.

Við Litlasjó – séð frá Ugganum

Veðurblíðan var hreint út sagt með eindæmum og mergð hornsíla í víkinni inn af Eiðinu vakti sérstaka athygli okkar. Sílið var þá ekki allt dautt í Litlasjó eins og maður var svolítið hræddur um eftir árangurslausa leit okkar að því daginn áður. Þaðan sem við héldum til í grennd við Uggann á þriðjudagskvöldið mátti sjá mikið líf á vatninu miðju. Byltur og vökur lengst úti og við biðum spennt eftir því að þær færðust nær sem þær og gerðu eftir smá tíma. Það fór svo að ég tók tvo urriða á Orange Nobbler en fljótlega fór þó að draga í vind og áður en yfir lauk var kominn þung alda af norðvestri og tók fyrir alla fluguveiði hjá okkur, nokkuð sem mér fannst einkennilegt. Aftur á móti gerðu spúnamenn áfram góða veiði, en við tókum okkur saman og færðum okkur yfir í Gömluvík, smelltum góðmeti á pönnuna og heltum okkur upp á kaffi. Eftir nokkrar laufléttar tilraunir með flugur út með víkinni og yfir í Norsaravík, létum við gott heita og héldum í hús. Draumfarir mínar nóttina áður voru ekki við það að rætast.

Sólsetur við Gömluvík

Veðurspá miðvikudagsins gekk eftir og við tókum stefnuna á Skyggnisvatn um morguninn í léttri úrkomu þar sem við gerðum okkar hefðbundnu ágætis veiði. Eins og síðustu ár er bleikjan í vatninu vel haldin og það er nóg af henni, þannig að það hyllir undir nokkur harðfiskflök til heimilisins. Raunar er mikið af þessum fiski í mjög góðri matstærð, rauður og fallegur á holdið þannig að það getur alveg eins farið svo að eitthvað af honum endi á pönnunni. Hér langar mig að skjóta því inn að vegalengdin inn að Skyggnisvatni er ekki meiri en svo að hún er farin á 20 mín. sem er svipaður tími eins og inn í Norðurbotn á Litlasjó sem fæstir víla fyrir sér.

Eftir miðdegisverð hópsins héldum við veiðifélagarnir í örlitla óvissuferð til að svala forvitni okkar um vötnin sunnan Snjóölduvatns. Krókspollur er þarna ennþá og ekkert sjáanlegt rennsli úr honum eða samgangur við Tungnaá um þessar mundi. En för okkar var í raun heitið töluvert sunnar. Okkur lék forvitni á að vita hvernig staðan væri í Austurbjallavötnum. Óvíða er fegurra að Fjallabaki heldur en í Austurbjöllum. Norðan vatnanna skagar Snjóölduhorn til suðvesturs, handan vatnanna gnæfir Hnaus og sé horft beint til suðurs yfir Tungnaá má sjá Litlakýling, Gvendarhyrnu og Ölduna. Eins og staðan var á miðvikudaginn þá er Tungnaá mjög dugleg að lita vatnið í Austurbjallavötnum. Þétt, jökullituð rönd liggur með bakkanum frá ósi og alveg inn að vesturbakka vatnsins og vatnið í heild sinni er vel litað. Með öðrum orðum; það er óveiðanlegt en til að geta sagst hafa veitt það, þá böðuðum við skærlitaðar flugur um stund í vatninu áður en við héldum slóðann til baka að Snjóölduvatni. Já, vegurinn inn að Austurbjöllum. Hann hefur ekki verið heflaður í sumar en er vel fær öllum aldrifsbílum og ef menn eru ekki sérstaklega uppteknir við veiði, þá getur þessi spotti verið falleg og skemmtileg tilbreytni.

Austubjallavötn – lituð af Tungnaá

Eftir þessa skoðunarferð okkar héldum við inn í Fyrstuvík við Litlasjó og töldum okkur í vænlegri stöðu hvað varðar veður og hitastig. Ef allt hefði nú gegnið eftir þá hefðum við átt að lenda í skemmtilegri veiði í víkinni ásamt öllum hinum veiðimönnunum sem komu sér þar fyrir upp úr kvöldmat. Við vorum hreint ekki þau einu sem gerðu sér vonir um skemmtilegt kvöld. Auðvitað blundaði í manni endurminning frá því í fyrra af hressilegum tökum og góðum afla. En nú bar svo við að ekki eitt kvikindi kom á land og ég varð aðeins var við einn Veiðivatnahöfðingja á ferðinni, langt, langt utan kastfæris. Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar, ekki er fiskurinn í ausuna kominn, ekki veiði upp á marga fiska og þar fram eftir götunum ef maður tekur málsháttasúpuna á þetta. Ég er greinilega ekki berdreyminn.

Það er nú svo einkennilegt að þótt urriðarnir hafi ekki verið að sliga netin okkar þessa daga í Veiðivötnum, þá var maður bara tiltölulega slakur á fimmtudaginn. Það var ekki kominn neinn umtalsverður pirringur í okkur, en vissulega hefðu fiskarnir mátt vera fleiri þannig að við ákváðum að breyta alveg til og prófa ókunnar slóðir. Minnug þess að hornsíli var mun meira áberandi við Uggann í Litlasjó og þar fyrir norðan, ákváðum við að byrja fimmtudaginn í Norðurbotnum og fikra okkur í átt að Ugganum.

Litlisjór – séð frá bílastæðinu í Botni

Örnefni á þessum slóðum eru ekki mörg, að því mér er kunnugt um, en tangar og rif eru nokkur á þessari leið og alveg þess vert að prófa veiði í víkum og út frá töngum sem þarna eru. Í fyrstu eða annarri vík sem á vegi okkar varð, fékk ég þessa einkennilegu tilfinningu að ég yrði að bregða Orange Nobbler út í vatnið. Það var að vísu ekkert líf að sjá, hvorki uppitaka né bylta, en út fór flugan og í öðru kast var tekið hressilega í hana og á land kom vænn urriði. Við héldum áfram för okkar að tanga sem er trúlega næstur Álftatanga. Eftir töluverðar tilraunir út frá tánni, bæði á móti gáru og undan henni, ákvað ég að tölta inn í víkina áveðurs. Eftir nokkrar tilraunir og fluguskipti var ég aftur kominn á Orange Nobbler og þá var tekið nokkuð hressilega í fluguna og greinilega fiskur á. Eftir að hafa tekið slaka af línunni var ljóst að þetta var hress gaur sem ætlaði ekki að gefa neitt eftir í baráttunni. Bremsan á hjólinu var stillt af og ég bjó mig undir að þreyta fiskinn. Við fyrstu roku stríkkaði heldur á línunni og …… allt laust. Eitthvað brast og þegar nánar var að gáð kom í ljós að 20 punda taumaendi var í sundur. Jæja, þetta getur gerst og ekkert við því að gera úr því sem komið var og ég endurnýjaði taum, endurnýjaði flugu og gekk úr skugga um að allir hnútar væru tryggir. Eftir nokkrar tilraunir og tilfærslur á sjálfum mér var flugan tekin aftur og nú af mun meiri krafti en áður. Ekkert gefið eftir og fiskurinn sökkti sér strax niður á botn og tók til við að draga línuna út af hjólinu. Þetta varð ekki löng viðureign því þegar fór að glitta í undirlínuna hjá mér, kom eitthvert högg á og allt varð laust. Í þetta skiptið hafði taumaendinn kubbast í sundur rétt ofan við fluguhnútinn og þar með voru þeir orðnir tveir fiskarnir sem notuðu Orange Nobbler sem varaskraut á þessum slóðum.

Ég viðurkenni það fúslega að eftir að hafa misst síðari fiskinn að ég var orðinn heldur svekktur og sár, þó mest út í sjálfan mig. Það lyftist þó nokkuð á mér brúnin þegar jólasveinninn mætti á staðinn og það heyrðist Hó, Hó, Hó frá veiðifélaga mínum og allt fór í keng hjá henni. Eftir töluverða viðureign kom sá urriði á land og þar með var urriðamúr þessarar veiðiferðar rofinn hjá henni.

Fljótlega eftir þetta töltum við til baka því við áttum stefnumót við holusteikt lambalæri í húsinu um nónbil. Það var ekki laust við að hugurinn reikaði ítrekað til þessara Orange Nobbler elskandi fiska á meðan ég gæddi mér á kræsingunum og því var viðbúið að við héldum aftur að Litlasjó til að klára þetta síðasta kvöld okkar í Veiðivötnum.

Haglél í byrjun júlí

Rétt um það bil sem við vorum komin yfir Hádegisöldu skall á okkur þessi líka grenjandi rigning og þegar á næstu öldu var komið hafði hún breyst í haglél og umhverfið tók skyndilega á sig hvíta haustliti. Við héldum þó ótrauð áfram inn að Botni og töltum af stað, nú skildi haldið alveg út á Álftatanga. Þegar þangað var komið skall á okkur þessi líka dásamlega rigning og hún stóð vel og lengi og náði að bleyta vel í okkur og kæla vatnið. Eftir nokkur tíma án þess að hafa fengið högg, héldum við til baka og í næstu vík fyrir norðan, þeirri sömu og segir áður frá, fékk ég eitt ákveðið nart, en síðan ekki söguna meir. Það voru því heldur sneyptir veiðifélagar sem héldu til baka inn að bílastæði þar sem félagar okkar höfðu komið sér fyrir og tekið nokkra fiska.

Þegar dró að tólfta tímanum, tókum við tvö okkur upp og héldum til baka með Litlasjó, stoppuðum við Litlutá þar sem annað okkar fékk smá nart og ég fékk töku en missti þriðja fiskinn þann daginn. Er þá lokið langri sögu af litlum veiðiskap okkar hjóna í Veiðivötnum og við taka vangaveltur mínar um breytingar á vötnunum.

Sólsetur í Veiðivötnum

Eftir þessa ferð stendur upp úr ótrúlega elja þriggja félaga okkar í hollinu. Þeir lögðu mikið land undir fót og voru duglegir að veiða og uppskáru eftir því. Langsamlega mest tóku þeir af fiski á spún, eitthvað á beitu en minnst á flugu þrátt fyrir töluverðar tilraunir. Aðrir, að okkur hjónum frátöldum, gerðu ágæta veiði og kropp hingað og þangað skilaði þeim töluverðum fjölda fiska, mest á spún og beitu. Af ástandi vatna og lífríkis finnst mér standa upp úr að hornsílið var alls ekki áberandi í Litlasjó frá Fyrstuvík og alveg út að Lönguströnd. Allt aðra sögu er að segja úr Austurbotnum þar sem það beinlínis kraumaði við bakkana. Byltur og veltur fiska voru mun færri, eiginlega mjög sjaldséð þetta árið. Þetta er allt annað en ég upplifði í fyrra og almennt voru þeir fiskar sem komu á land smærri heldur en þá og af þeim komu fleiri þetta árið á maðk heldur en aðra beitu eða agn, í það minnsta hjá þeim sem ég hafði spurnir af.

Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið að vorið í Veiðivötnum sem var með fyrsta móti þetta árið, hafi fært fæðuna til í dagatalinu og þar með breytt hegðun fisksins þannig að okkur varð ekki fiska auðið á flugu. Eða, hefur veðrið síðustu 10 daga verið að gera okkur svona mikinn grikk að flugan var bara ekki á vinsældalista urriðans? Kannski er fiskurinn bara búinn að ná úr sér mestu svengdinni eftir veturinn og lífsklukkan þeirra er kominn nokkrar vikur fram úr dagatalinu? Eru hann lagstur hálfgert á meltuna og hefur sig lítið í frammi því í okkar hópi voru menn sammála um að það hefði verið lítið æti í fiskinum sem kom á land þrátt fyrir töluvert framboð. Það að margir fiskar létu glepjast af maðki gæti verið vísbending um að skötuormurinn sé kominn á stjá og þegar slíkt nammi er á boðstólum, þá lítur urriðinn ekkert við flugum sem líkja eftir hornsíli. Nú þarf ég að leggjast í fyrirspurnir og spyrja mér fróðari menn áður en ákvörðun verður tekin um að heimsækja vötnin aftur í sumar, því þrátt fyrir lítinn afla, þá leitar hugurinn þangað strax aftur þó maður sé bara rétt lentur heima. Mig dreymir enn um stóra fiska í fögru umhverfi.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
12 / 13 55 / 70 1 / 3 7 / 14 14 / 14

Veiðivötn 19. & 20. júlí

Það eru rétt rúmar tvær vikur síðan við fórum í okkar árlegu Veiðivatnaferð en síðasta daginn í þeirri ferð vorum við sammála um að við værum einfaldlega ekki búinn að fá nóg af Vötnunum þetta árið og því stefndum við leynt og ljóst á að kíkja þangað aftur. Úr Hrauneyjum er aðeins um 1 klst. akstur upp í Veiðivötn og fyrst við vorum með allt við höndina; veiðigræjur, veiðihús og mat, þá var alveg tilvalið að slá á þráðinn upp í Veiðivötn og athuga hvort ekki væri pláss fyrir eitt fellihýsi og tvær stangir í vötnunum, fimmtudag og föstudag. Jú, það var sjálfsagt mál og þar með vorum við lögð af stað.

Á leið í Veiðivötn – Fossarnir í Vatnakvísl

Þar sem við vorum tímanlega á ferðinni höfðum við nægan tíma til að koma okkur fyrir undir hólnum gengt Ampahól og biðum fimmtudagsins í ofvæni. Að vísu var það einkennileg tilfinning að sjá yfir í Setur þar sem allt aðrir bílar stóðu fyrir utan heldur en við þekktum og annað fólk á ferðinni. Það var ekki laust við að það vantaði einhverja sex góða veiðifélaga í hópinn, við vorum þarna ein án stuðnings og félagsskapar sem við höfum átt að venjast síðustu ár.

Færanlega veiðihúsið okkar í Veiðivötnum

Þið sem í Veiðivötn hafa komið vita auðvitað að svæðið er ekki aðeins veiðisvæði, þarna er náttúrufegurð einstök og þegar maður vaknar til veðurblíðu eins og hún getur best orðið þá er ekkert sem dregur úr aðdáun manns á svæðinu, nema þá helst flugan. Þar sem ákveðin álög virðast loða við mig í Veiðivötnum sem tengjast vöðluskóm, skal það tekið skýrt fram að ég gleymdi þeim ekki heima í þetta skiptið. Aftur á móti gleymdi ég þeim við vagninn þennan morgun og varð því að skjótast til baka eftir þeim úr Hermannsvíkinni austanverðri þar sem veiðifélagi minn byrjaði daginn.

Hellavatn í morgunsárið

Þegar ég var loksins kominn í vöðlur og skó, þótti félaga mínum fullreynt í Hermannsvík þannig að við kíktum í Hellavatn þar sem fiskurinn vakti og át á sig gat af flugu / púpum sem hvorugu okkar tókst að keppa við. Næst kíktum við í Stóra Hraunvatnið en eins og nokkur skipti áður, náðum við ekki miklu sambandi við vatnið, þannig að við héldum til baka að Litlasjó og stoppuðum í Fyrstuvíkinni.

Fyrstavík um nón

Veðrið var gott um morguninn og batnaði bara þegar leið á daginn. Ekki skemmdi fyrir að um alla Fyrstuvík vakti fiskur í óræðu æti, velti sér og hafði greinilega ekkert annað fyrir stafni en fylla kviðinn. Stutta útgáfan hljómar einfaldlega þannig að við yfirgáfum víkina ekki fyrr en við hættumál, rétt fyrir kl. 23:00

Lengri útgáfan hljómar þannig að til að byrja með settum við í nokkra undirmálsfiska sem allir fengu líf, en þegar við færðum köstin örlítið lengra út á víkina komu stærri og stæðilegir fiskar, þetta á bilinu 2 til 4 pund og þeir voru ekki fáir.

Fyrstavík í síðdegissólinni

Hermann kom reglulega við hjá okkur og fékk fréttir af aflabrögðum og flugum sem gáfu; Olive Nobbler með gulum rassi, Svartur og gylltur Nobbler, Veiðivatnagullið, Svartur Nobbler með grænum rassi, sem sagt allar helstu Veiðivatnaflugur sem maður hafði tiltækar í vestinu. Svo voru það aðrar flugur sem ekki gáfu, þær tóku og stundum helst til hressilega. Auk þeirra fiska sem ég tók fékk ég óræðan fjölda af flugnabiti á víð og dreif um kroppinn og eflaust hefur það verið spaugilegt í meira lagi að sjá til mín, berjandi flugur frá mér þegar verst lét. Ég reyndi eins og mögulegt var að fela mig undir flugnanetinu, en mér finnst það bara svo pirrandi að ég laumast ítrekað til að taka það af mér og auðvitað verð ég þá umsvifalaust stunginn.

Á einhverjum tímapunkti, hvenær er mér ómögulegt að tilgreina því tímaskynið hverfur algjörlega á stað sem þessum, duttu tökur aðeins niður eins og gengur. Eftir stutta ládeyðu í aflabrögðum sem við nýttum fyrir kaffi og kleinur tóku fiskarnir aftur við sér þegar leið að kvöldi. Ég er ekki frá því að almennt hafi uppitökur og veltur væru heldur svifaseinni þennan síðari helming og þá helst á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Þar sem það var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér í víkinni færði ég mig út að Hrauni og fylgdist grannt með yfirborðinu. Jú, það var ekki um að villast, þarna var einhver að velta sér í sílinu. Þar sem Veiðivatnagullið var þegar undir var aðeins að velja hvar ég skildi setja fluguna niður; utan við byltuna eða austan við hana? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá man ég ekkert lengur hvar ég setti hana niður, en við fyrsta inndrátt var tekið í fluguna og henni var ekki sleppt fyrr en yfir lauk. Fiskurinn sem tók fór nokkuð víða með fluguna, tók t.d. næstum alla línuna út af hjólinu þar til fór að glitta í undirlínu, rauk til hægri og vinstri, út og þó helst suður. Eftir nokkrar rokur sýndi hann loksins öll sín 8 pund í loftinu með góðu stökki og töluverðu skvampi. Eftir þetta stökk tekur við annað óminni hjá mér, það næsta sem ég man eftir er að fyrir fótum mér liggur þessi glæsilega hrygna í sandinum sem ég tek upp og rölti með til baka að bílnum.

Við bættum síðan nokkrum vænum fiskum við vestast á Hrauninu áður en við pökkuðum saman, vigtuðum okkar 14 fiska og gerðum að, elduðum okkur mjög síðbúinn kvöldverð og lögðumst sæl og ánægð til svefns eftir daginn.

Fyrstavík eins og hún leggur sig

Meira að segja í 10 m/sek og rigningu eru Veiðivötn fallegur staður, en kannski ekkert sérstaklega veiðilegur. Þannig var nú veðrið meira og minna allan föstudaginn. Eins og oft áður reynir maður alltaf að veiða fiskana aftur sem veiðst hafa áður og því byrjuðum við í Fyrstuvíkinni. Eins veiðilegt og það var nú þarna í öldurótinu á móti 8 m/sek, þá urðum við lítið vör við fisk. Held raunar að það hafi aðeins verið nartað lauslega hjá öðru okkar einu sinni. Þegar suðaustanáttin náði spáðum 10 m/sek. tókum við að leita fyrir okkur um veiðistað með hentaði betur fluguveiði í roki.

Við höfðum fregnir af vænum fiskum úr Stóra Hraunvatni og þangað héldum við. Þegar við mættum á staðinn var þar nokkur fjöldi veiðimanna en enginn hafði komið sér fyrir á austanverðu rifinu við Augað þannig að þar settum við okkur niður. Ýmsar flugur reyndar og kastar fram af rifinu inn í Augað. Þegar svo nartað var í Svartan Nobbler með grænum rassi fór hann undir hjá okkur báðum og endaði með því að góður þriggja pundari náðist á land. Þar með er veiði dagsins talin, grín laust. Þrátt fyrir töluvert nart og lausatökur í Auganu, náðum við ekki fleiri fiskum á land og eftir að við prófuðum að veiða beggja vegna við eyðið á milli Augans og Jöklavíkur í smá tíma, héldum við til baka og kíktum á önnur vötn.

Það var einfaldlega ekkert sérstaklega veiðilegt í vötnunum það sem eftir lifði dags. Fámennt var á aðgerðarborðinu um kvöldið, en því fjölmennara í öllum skálum. Sem dæmi um rok og ölduhæð í suðurvötnunum, þá heyrði ég frá einum sem kroppaði nokkrar bleikjur upp úr Snjóöldunni að þar hefðu menn helst verið að halda í við spúninn, ekki hefði verið um eiginlega inndrátt að ræða því hann kom sjálfur á móti mönnum í öldunni, ef hann þá flaug ekki beinlínis í fangið á mönnum.

Svona getur það nú verið í Veiðivötnum, alltaf frábært en stundum ekki mikil veiði í veðrum. Það var nú reyndar ekkert til að kvarta yfir, veðrið á laugardaginn þegar við tókum okkur saman, en því miður lá leið okkar heim á ný og ekki um annað að ræða heldur en koma sér heim, flaka og koma 15 gómsætum urriðum í frystinn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 65 / 6 39 / 30 15 / 18

Veiðivötn 1. – 5. júlí

Þrátt fyrir misjafnar fréttir veiðimanna ofan úr Veiðivötnum, þá er alltaf jafn mikil spenna í loftinu þegar árleg Veiðivatnaferð okkar brestur á. Veðurspá, misjafnar aflatölur og almennur barlómur hefur engin áhrif á mann þegar malbikinu hefur sleppt og nýlendan við Tjaldavatn blasir við manni, maður er eiginlega kominn heim. Hitastig og tíðarfar uppi á hálendi hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir það sem af er sumri en um leið og það hlýnar örlítið, þá fara ævintýrin að gerast.

Skálavatn, Langavatn og Tjaldavatn 2018

Fyrsti dagurinn okkar í Veiðivötnum, sunnudagurinn 1. júlí var víst óvenju góður hvað hitastig varðar og við veiðifélagarnir ákváðum að kanna syðri vötnin til að byrja með og þá helst einhver þeirra smærri. Arnarpollur varð fyrir valinu enda hefur sá pollur alltaf togað í mig frá því ég fékk minn fyrsta fisk þar, stór og vænn drjóli sem kúrði sig á næstum 13 metra dýpi í gígnum. Að vísu hljóp enginn slíkur á mína flugu í þetta skiptið, en veiðifélagi minn tók einn vænan urriða eftir skamma stund við vatnið. Þess má geta að síðar í ferðinni fóru tveir félagar okkar í Arnarpoll og krydduð sagan segir að einn rosalegur drjóli í vatninu sé að safna skrautlegum tannfyllingum. Í þessari ferð hópsins safnaði hann koparlituðum Nobbler með taum og alles og til viðbótar hirti hann glitrandi spún af öðrum veiðimanni sem hann er nú með í hinu munnvikinu. Ef einhverjir hafa hug á að næla í þennan fisk eru þeir hvattir til að tryggja alla hnúta vel og vandlega áður en haldið er til veiða.

Ekki stöldruðum við lengi við í Arnarpolli því fljótlega bárust fréttir frá félögum okkar af góðri veiði í Fyrstuvík við Litlasjó. Það var eins og við manninn mælt að hækkað hitastig hafði hvetjandi áhrif á fiskinn til að sýna sig og þegar ætið fór að rótast upp við bakkann fór urriðinn hamförum. Því miður tók vind að hvessa svo hressilega eftir að við komum í Fyrstuvík að við, vegna þess að flugurnar okkar náðu ekki eins langt út og spúnar og beitur, urðum svolítið af öllu fjörinu. Mér tókst þó að særa einn fisk upp með Orange Nobbler eftir töluverðan barning við Kára karlinn.

Orange Nobbler með UV ívafi

Ekki var nú alveg sama hitastigið á mánudagsmorgun og daginn áður, en við kíktum aðeins á Stóra Hraunvatn og Hellavatn þar sem töluvert líf var með fiski sem óð þar í klakflugu. Veiðifélagi minn gerði ítrekaðar tilraunir til að keppa við náttúrulegu fæðuna en án árangurs þannig að við stoppuðum ekki lengi.

Eftir smá viðkomu í Ónefndavatni þar sem stórir fiskar ku leynast, fórum við aftur í Arnapollinn og þá helst með það fyrir augum að hvíla kastvöðvana og komast í örlítið stilltara veður því vind hafði tekið að sperra. Þar fækkuðum við urriðum vatnsins um þrjá, engir risar en ágætur fiskur sem lét glepjast af nokkuð klassískum útfærslum Veiðivatnaflugna, s.s. gyltum og brúnum Damsel afbrigðum.

Brúnn og gylltur Damsel

Blíða þriðjudagsmorguns var slík að við gátum ekki annað en stoppað í Fyrstuvík við Litlasjó og spreytt okkur með þurrflugur og ýmsar aðrar þar sem urriðinn vakti og velti sér í flugunni. Þar sem okkar flugur vöktu ekki neina sérstaka lukku, tókum við stefnuna að Hraunvötnunum, stöldruðum við á bökkum Nýrans og fengum okkur bita í blíðunni. Það hljóta að teljast forréttindi að geta snætt árdegisverð með útsýni sem þetta fyrir augunum, stund sem ekki gleymist.

Nýrað og Rauðigígur

Leynt og ljóst ætluðum við reyndar í Hellavatnið, en þegar þangað var komið reyndist margmenni þar nokkuð og því snérum við undan og leituðum til suðurs á ný.

Eskivatn er eitt þeirra vatna sem geyma urmul af bleikju sem við höfðum aldrei spreytt okkur á. Þegar við keyrðum framhjá Eskivatnskjafti var svo mikið líf þar að við gátum ekki setið á okkur og smelltum í nálega tug bleikja á mjög stuttum tíma. Eins og kunnugir vita, þá er nokkur stærðarmunur á bleikjunni í Eskivatni og þeirri sem hefur komið sér fyrir í Langavatni þar austanvið og það sannaðist heldur betur á þessum fiski sem við tókum. Heldur var hann smár og er greinilega liðmargur í Eskivatni.

Á vatnahringi okkar þennan dag reyndum við fyrir okkur á nokkrum stöðum, en heldur var fátt um fína drætti þannig að þegar vindur tók sig upp síðdegis og okkur taldist til að hann stæði næstum beint á Litlutá við Litlasjó, tókum við stefnuna þangað. Þar enduðum við daginn með því að taka sjö væna urriða á land á klassískar Veiðivatnaflugur. Litlatá hefur alltaf reynst okkur vel og það brást ekki frekar í þetta skiptið.

Svartur og gylltur Damsel

Síðasta daginn okkar í Veiðivötnum höfðum við ákveðið að byrja á bíltúr inn að Skyggnisvatni minnug þeirra ágætu fiska sem við tókum þar í fyrra. Eins og ég lét út úr mér, það gekk á með blíðu við vatnið og dulúð umhverfisins fékk heldur betur að njóta sín.

Útfall Skyggnisvatns
Sama sjónarhorn 15 mín. síðar

50 Shades of Grey hafði konan mín orði á þegar við ókum í dumbungi niður að vatninu. Hvergi aðra liti að sjá og kyrrðin algjör þegar þokuslæðingurinn lagðist yfir. Ég er ekki viss um að lesendur geti gert sér í hugarlund þvílík þögn getur orðið í veðri sem þessu. Það heyrist ekki einu sinni í línunni renna í lykkjum, flugan fellur hljóðlaust á vatnið, fuglar halda niðri í sér andanum og smágerð gáran fellur hljóðlaust að landi. Inni á milli braust sólin fram og baðaði Skyggni geislum sínum og bleikjan fór hamförum í uppitökum.

Rétt fyrir seinna kaffi fórum við niður í Norsaravík og tókum sitthvorn urriðann, en þegar verulega hægðist þar um ætluðum við að færa okkur inn á Litlutá eða þar í grennd. Reyndar fór það nú svo að við fórum aldrei lengra en inn í Fyrstuvík og eyddum kvöldinu þar í ævintýri eins og þau gerast skemmtilegust við Litlasjó. Létt gola stóð á ská upp á ströndina og fiskur óð þar um allar fjörur í æti þannig að við settum hefðbundnar Veiðivatnaflugur undir, þöndum köstin út að vöðunni og drógum hratt inn. Það má segja að fiskur hafi verið vaðandi alveg frá Hrauni og inn að miðri Fyrstuvík og þeir voru sérlega vænir. Veiðifélagi minn missti fjóra bolta sem höfðu betur í baráttunni, nýttu sér þreytta hnúta á taumaendum og flugum, sjálfur missti ég tvo, en þeir voru töluvert fleiri sem komu á land. Við urðum líka vitni að því þegar tröll eitt mikið tók alla línuna + undirlínu út hjá félaga okkar. Krafturinn í þeim fiski var slíkur að ekkert varð við ráðið og fór svo að hann losaði sig af og kvaddi með miklu skvampi.

Á ákveðnum tímapunkti var eins og brúnu- svörtu og orange flugurnar hættu að vera spennandi og það var ekki fyrr en félagi okkar datt niður á olive Nobbler að fjörið upphófst að nýju. Hvort það var birtustig eða fæðuframboð sem breyttist, þá sannaði þessi fluga sig heldur betur þetta kvöld.

Olive Nobbler

Í svona ævintýri hverfur allt tímaskyn, fjöldi kasta verða óteljandi og fingur sem halda við línu fara fljótlega að láta á sjá. Lærdómum kvöldsins varð helstur; tryggja hnúta, nota sterkara taumaefni og nota stripp-smokk áður en fer að blæða úr fingrum. Til marks um tökugleði urriðans þetta kvöld má nefna að á hálftímanum frá 22:30 – 23:00 tók félagi minn þrjá væna fiska og ég fimm, alla á sama staðnum og á sömu fluguna.

Heilt yfir þá var þessi Veiðivatnaferð hópsins mjög góð, átta veiðimenn veiddu nánast 300 fiska þessa daga, misjafnlega mikið hvern dag en alltaf einhver með flotta veiði. Sumir fóru sérstaklega rólega af stað (eins og ég og veiðifélagi minn) á meðan aðrir tóku fyrsta daginn með trompi og héldu góðum dampi alla dagana. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég horfði á aflatölur eftir fyrstu dagana, þá var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér, en síðan fór heldur betur að réttast úr þessu og eins og svo oft áður var síðasta kvöldið það besta. Ég og veiðifélagi minn enduðum ferðina í samtals 76 fiskum á land og ótöldum fiskum sem var sleppt. Það verður ánægjulegt að rifja upp stemminguna úr þessari veiðiferð þar til á næsta ári þegar við mætum aftur, full tilhlökkunar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
18 / 24 36 / 63 15 / 19 15 / 20 / 11

Veiðivötn, 1. – 4. júlí

Með tilhlökkun sem hefur varað í að verða heilt ár lögðum við hjónin af stað í árlega ferð okkar í Veiðivötn á laugardaginn. Ferðin hafði verið undirbúin vandlega, meira að segja hafði græjum og fatnaði verið pakkað fyrir rúmri viku síðan, allt sem sagt gert klárt og aðeins eftir að renna við á Selfossi til að kaupa ferskvöru. Þegar í Vötnin var komið, tók þetta venjulega stúss við; bera mat og ýmsan varning inn í hús, taka í höndina á veiðifélögunum og kyssa þá sem slíkt heimiluðu. Þar sem við vorum aðeins með seinni skipunum vorum við hjónin síðustu út úr húsi, taka fram veiðistangir og vöðlur og gera okkur klár. Og fer þá frásögnin að æsast.

Í Veiðivötnum 2017

Þennan kafla ætla ég að ramma inn í frásögn af einstakri lipurð og þjónustulund þeirra sem reka veiðiverslanir af köllun og brennandi áhuga. Hvar í heiminum væri hægt að hringja í veiðiverslun kl.16:45 á laugardegi, með grátstafina í kverkunum frá stað sem er 130 km. í burtu og spyrja; Áttu nokkuð vöðluskó nr.38 og 44, ég gleymdi mínum heima og er kominn upp í Veiðivötn? Svarið hennar Hrefnu í Veiðisport kom mér reyndar ekkert á óvart; Jú, við hljótum að finna eitthvað passandi, hringdu bara þegar þú nálgast Selfoss og við mætum niður í búð. Ég ætla rétt að vona að veiðimenn geri sér grein fyrir því hversu ómetanleg þjónusta þeirra hjóna, Gústa og Hrefnu í Veiðisport á Selfossi er. Það verður mikill missir þegar þau loka versluninni, því allt stefnir í að svo verði innan tíðar. Við ykkur heiðurshjón vil ég ítreka þakkir mínar fyrir aðstoðina og einstaka lipurð í aulalegum vandræðum mínum á laugardaginn; Takk, þið eruð frábær.

Sem sagt; á meðan ég brá mér 260 km. til að útvega vöðluskó í stað þeirra sem stóðu einmana í bílskúrnum heima, brá veiðifélagi minn sér í göngutúr á strigaskónum inn að Langavatni, auðvitað með stöng í hönd og nokkrar vel valdar flugur í vestinu. Við hittumst síðan rétt upp úr kl.19 í Setrinu og kláruðum að græja okkur upp fyrir síðustu klukkustundir vaktarinnar, í þetta skiptið í vöðlum og brakandi nýjum vöðluskóm. Arnarpollur lá nokkuð vel við vindátt og því stoppuðum við smá stund þar en hurfum síðan á vit Snjóölduvatns í 7°C hita og norðan gjólu þar sem við lögðum okkar lóð á vogaskálar bleikjugrisjunar með því að kippa 18 þeirra upp úr vatninu með Orange og gyltum Nobblerum. Ekki voru nú allar þeirra hæfar til matar, þannig að eitthvað af þeim lenti í úrkasti.

Það rignir líka stundum í Veiðivötnum

Það hefur lengi verið á dagskrá hjá okkur hjónum að kanna ástand bleikjunnar í Skyggnisvatni og sunnudagurinn virtist ekkert verr til þess fallinn heldur hver annar dagur þannig að við ákváðum að byrja undir Skyggni. Veðrið lék við okkur þann tíma sem við vörðum á bökkum vatnsins og það var sannanlega eitthvað dásamlega fallegt við auðnina sem umlykur vatnið. Þetta er mun meira aðlaðandi veiðivatn heldur margur hefur af látið. Bleikjan hefur komið vel til og flestir þeir fiska sem við tókum þarna voru vel yfir pundið, vel haldnir og í góðum holdum. Vinsælasta fluga dagsins í Skyggnisvatni: Hot Pink Nobbler, stuttur #12.

Við Hermannsvík

Sunnudagskvöldinu eyddum við með hollinu okkar á Hrauninu við Litlasjó þar sem sumir gerðu gott mót og settu í væna fiska á meðan aðrir voru hófsamari. Vinsælasta flugan var væntanlega svartur Nobbler með kopar- eða gullbúk, alveg í stíl við hornsílin sem rekið hafði upp í fjöruna. Annars er rétt að setja þann fyrirvara að það sem er strönd við Litlasjó í dag, var vegkantur eða eitthvað þaðan af hástæðara á sama tíma í fyrra. Vatnshæðin er með ólíkindum og sumir eru hættir að tala um Hermannsvík, nú er bara talað um Hermannsflóa og í nokkrum öðrum vötnum er svipaða sögu að segja, Rauðigígur heitir til að mynda Rauðahafið í dag.

Mánudeginum eyddum við í vettvangskönnun í Stóra Hraunvatni, Hellavatni og Norðurbotni Litlasjávar sem leiddi til þeirrar niðustöðu að víðast væri mikið vatn og á sumum stöðum enn meira vatn. Nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum voru nú samt á sínum stað, eins og til dæmis Litlatá við Litlasjó sem við heimsóttum og tókum þar fimm urriða upp úr miðjum degi, en síðan ekki söguna meir.

Ekki óalgeng sjón við Litlasjó þessa dagana

Síðasta daginn okkar í veiði byrjuðum við í Ónefndavatni sem hreint og beint kraumaði í uppitökum og klaki þennan morgun. Samkeppnin var gríðarlega hörð og það var alveg sama hvaða flugur við buðum urriðanum, hann hélt sig algerlega við náttúrulegu fæðuna sem var ekki af skornum skammti. Rétt áður en túristaþyrla sveimaði yfir vatninu skaut hugmynd upp í kollinn á veiðifélaga mínum; Hvað með Higa‘s SOS? Jú, það var eins og við manninn mælt; tveir fiskar í fyrstu tveimur köstunum og svo tveir til viðbótar, en þá kom umrædd þyrla og það var hreint og beint eins og skrúfað hefði verið fyrir náttúruna í kjölfar hennar, hvorki uppi- né flugutökur eftir það.

Urriði úr Ónefndavatni

Það var svo Langavatn sem naut þess að færa okkur síðustu fiska ferðarinnar. Það er ekki af bleikjunni í vatninu skafið að hún er einstaklega væn þessi árin. Stærsta sem ég tók var 2,5 pund og skemmtileg viðureignar eftir því. Síðasti fiskur dagsins setti heildarafla ferðarinnar í þriggja stafa tölu; 100 fiskar í ferðinni hjá okkur hjónum og við þokkalega sátt við það.

Vænar bleikjur úr Langavatni

Hvað stendur þá eftir í huga manns eftir þessa ferð? Jú, það er ekki á vísan að róa með veður í Veiðivötnum. Hitastigið var ekkert til að hrópa húrra fyrir, þokkalegt samt og vindur getur blásið úr fjórum höfuðáttum auk allra átta þar á milli og svo rignir líka stundum uppi á Hálendi, svona eins og þess þurfi eitthvað sérstaklega þetta sumarið. En, það er alltaf jafn skemmtilegt að koma í Veiðivötn, taka króka vegna ófærðar og prófa ný vötn og endurnýja kynni við önnur eldri. Næsta ferð? Auðvitað að ári og ég er þegar farinn að útbúa gátlista yfir allt það sem þarf að vera með í þeirri ferð; 1. Muna eftir mínum vöðluskóm, 2. Muna eftir hennar vöðluskóm.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 46 / 42 60 / 54 / 8 14 / 10 7

Veiðivötn, 1. – 5. júlí

Eftirvænting, tilhlökkun, spenna, smá vonbrigði, sáttur. Hvar annars staðar en í Veiðivötnum er hægt að upplifa þetta allt á einu bretti? Árlegri Veiðivatnaferð er sem sagt lokið og heim erum við veiðifélagarnir komnir; þreyttir, ánægðir og staðráðnir í að mæta aftur að ári með þessum frábæra hópi núverandi og fyrrverandi Skagamanna sem fóstraði okkur nú, þriðja árið í röð.

Við hófum leika á föstudaginn með því að renna í Snjóölduvatn og tókum þar 17 bleikjur til að grynnka aðeins á sístækkanir bleikjustofni vatnsins. Þess ber að geta að sára lítill hluti þessa afla hefði dugað upp í nös á ketti, svo smár var fiskurinn. Eftir að hafa átt við kóðið rétt vestan við Snjóöldupoll afréðum við að renna á nýjar slóðir. Eftir hressingu í Hermannsvík við Litlasjó héldum við áfram út að Litlutá (einmitt, maður reynir oft að veiða síðustu góðu veiðiferð aftur og aftur) en þegar ljóst var að enginn fiskur var í augnsýn eða tilkippilegur ákváðum við að renna alveg inn að Strigaskó. Ósköp varð þessi ferð okkar snautleg, ekki einn einasti fiskur á land úr Litlasjó, en við vorum meira en sátt og full væntinga fyrir næsta degi þegar við drógum sængur upp að höku og tókum til við að hrjóta í takt.

Litlisjór við sólsetur
Litlisjór við sólsetur

Laugardagur til lukku? Tja, hann byrjaði alveg þokkalega hjá öðru okkar í Stóra Hraunvatni undir Gaukshöfða þar sem ég landaði jómfrúarfiskinum mínum í norð-austan fræsing á móti öldunni. Skömmu síðar lönduðu nærstaddir veiðimenn einum mjög góðum og í bjartsýniskasti hélt ég að nú værum við dottinn í lukkupottinn, allt að gerast. En, nei það varð nú ekki og eftir að hafa næstum rifið handlegginn af mér í köstunum upp í vindinn ákváðum við að renna inn að Nyrsta Hraunvatni, en þar var einstaklega lítið um að vera þannig að við kíktum í Skeifuna (jómfrúarferð) en stoppuðum ekki lengi.
Eftir hádegishressingu renndum við aftur inn að Snjóöldu og komum okkur að þessu sinni fyrir á Bátseyrinni. Ekki varð sú ferð til fiskjar, en áfram héldum við og nú í leit að smá hvíld frá vindsperringi þannig að Kvíslarvatnsgígur varð fyrir valinu. Einstaklega fallegt vatn, en nokkuð slungið að því mér fannst. Á baka leiðinni stoppuðum við örlítið við í Kvíslarvatni þar sem frúin tók eina bleikju sem fer í harðfisk næsta haust. Einhver óeirð var þarna í okkur og við ákváðum að renna inn að Norsaravík við Litlasjó þar sem norðaustan vindurinn hamaðist við að fylla víkina af æti fyrir urriðann. Þarna virkaði víkin sem trekt sem fljótlega fylltist af flugu og ýmsu öðru góðgæti, en það gleymdist greinilega alveg að láta fiskinn vita af þessu. Eftir nokkrar tilraunir með ýmsar flugur og misgóð köst upp í vindinn gáfumst við upp og ákváðum að ljúka deginum í Langavatni að norðan þar sem maður gæti hvílt kasthöndina örlítið. Því miður lék Langavatnið ekki við okkur eins og í fyrra og árið þar á undan.

Sólsetur handan Fossvatna
Sólsetur handan Fossvatna

Sunnudagurinn gekk í garð og bar nafnið með rentu, glampandi sól og hitastigið tosaðist heldur betur upp. Við byrjuðum daginn í jómfrúarferð í Breiðavatn þar sem við gerðum okkur smá vonir um að bleikjan léti sjá sig í uppitökum eða klaki. Því miður virtist bleikjan hafa sofið yfir sig þennan morgun og úr Breiðavatni fórum við yfir í Ónefndavatn. Síðustu óstaðfestu fréttir herma að Vatnanafnanefnd hafi komið saman og talið ótækt að enn væri ónefnt vatn á Íslandi og því ákveðið að skýra það í höfuðið á nefndinni sjálfri. Hér eftir heitir vatnið víst Nefndavatn og nú má hver sem er trúa þessari (skrök) sögu ef hann vill. Mér finnst þetta vatn nokkuð skemmtilegt og í þessari jómfrúarferð sýndi fiskurinn sig með uppitökum, byltum og ýmsum látum úti á vatninu, en af gerviflugum var hann ekki ginkeyptur þannig að við renndum enn eitt skiptið inn að Snjóöldu og nú varð Snjóöldupollur fyrir valinu.
Eitthvað var nú sólskynsskapið farið að verða skýjað þegar við fórum úr Snjóölduvatni, enn og aftur með öngulinn í setvöðvanum. Til allrar lukku fyrir geð okkar veiðifélaganna hittum við ættingja konunnar sem voru nýkomin úr Krókspolli með nokkrar bleikjur í farteskinu þannig að við snérum okkar kvæði í kross og tókum stefnuna á pollinn. Jú, hann heitir pollur og varað hefur verið við að hann hafi samgang við Tungnaá og því gæti verið á öllu von í honum, en samgangur er ekki til staðar, í það minnsta um þessar mundir og fiskurinn gæti verið stærri, en það var virkilega þess virði að skjótast í pollinn og finna aðeins fyrir tökum svangrar bleikju eftir engar tökur síðustu vatna.
Á bakaleiðinni fengum við þá hugmynd að kanna stöðuna á Nýjavatni, svona fyrst við vorum að kynna okkur smábleikjunar. Mosanef varð fyrir valinu og eins og venjulega voru bleikjurnar sár-svangar og viljugar til töku. Við veiðifélagarnir komum okkur fyrir sitt hvoru megin við nefið, ekki nema 10 metrar á milli okkar og týndum upp nokkrar bleikjur. Það var kannski tilviljun, en það var verulegur munur á stærð þeirra bleikja sem veiddar voru austan við nefið og vestan. Að vestan voru bleikjurnar næstum því í þokkalegri stærð á meðan að allt sem veiddist að austan var í sardínustærð. E.t.v. er hægt að finna þokkalegar bleikjur inn á milli í vatninu, sé vel leitað.
Eftir Nýjavatn renndum við í Langavatnið sem enn brást okkur á hefðbundnum slóðum okkar þrátt fyrir að vatnið hafi verið að gefa öðrum veiðimönnum á öðrum stöðum betur síðustu daga. Þar sem þetta var landsleiksdagurinn mikli, var ákveðið að safnast saman á Lönguströnd við Litlasjó um kvöldið, veiða og fagna hverju marki. Eitthvað var minna um fögnuð að leikslokum og það sama má segja um veiðimennsku okkar veiðifélaganna. Ekki branda á land, þótt sett væri í væna fiska sitt hvoru megin við okkur.

Það er nægt æti í Veiðivötnum
Það er nægt æti í Veiðivötnum

Ekki var mánudagurinn síðri sunnudeginum hvað veðrið snerti. Við byrjuðum á morgunverði á eiðinu á milli Draugatanga og Höfða við Litlasjó. Smurt og gómsætt í gogg en ekki uggi kominn á stjá. Sneypt héldum við til baka og tókum stefnuna á Arnarpoll, enn eitt vatnið sem við höfðum ekki prófað. Það verður ekki af þessu vatnið skafið að umhverfið er dásamlegt og gaf ágætt skjól, reyndar svo mikið að flugan var mann alveg lifandi að éta. Og það var fleira sem vatnið færði mér, stærsti fiskur ferðarinnar kom á land og bíður nú eftir því að vera grafinn og sneiddur á brauð.
Eftir Arnarpoll gerðum við enn eina tilraun til að plata bleikjurnar í Langavatni til töku. Vatnið var eins og spegill, hitastigið með besta móti en ekki ein einasta uppitaka sjáanleg og aðeins eitt skvamp var það sem við höfðum upp úr krafsinu. Stundum eru veiðimenn einfaldlega sneiddir allri gæfu og það á við um okkur hjónin þegar kom að Langavatni í þessari ferð. Það gengur bara betur næst…..
Við vorum eiginlega svolítið slegin eftir síðasta rothögg Langavatns og leituðum því á náðir Suðurbotna Snjóölduvatns. Eitthvað hafa blessuð vötnin sammælst um að gera okkur gramt í geði, því ekki urðum við vör við fisk í Suðurbotnum heldur. Nú var farið að fjúka í flest skjól og ekki síst í geð undirritaðs. Átti þessi ferð að verða sú lélegasta? Við veiðifélagarnir sammæltust um að gera eina tilraun enn við Litlasjó og komum okkur því fyrir á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Ekki leið á löngu þar til frúin benti mér á að fiskur væri í æti á yfirborðinu, nú væri lag. Til að gera langa sögu stutta, þá gerðum við hjónin alveg prýðilega veiði þarna og fiskurinn var í miklu stuði þar sem hann úðaði í sig flugum og ýmsu góðgæti sem aldan bar þarna að landi. Samtals settum við í 26 fiska, 6 fengu líf og 3 sluppu. Það voru því 17 stk. sem fóru á aðgerðarborðið laust upp úr kl.23, lagðir á ís og eru nú komnir í frystinn hér heima. Það sannaðist þetta síðasta kvöld okkar að leiknum er ekki lokið fyrr en feita hrygnan hefur sungið sitt síðasta lag. Frábær endir á frábærri ferð okkar í Veiðivötn þetta árið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 15 / 17 21 27 / 15 19 11

Veiðivötn 30.6 – 3.7

Eftir þrjá og hálfan dag, 610 km. akstur, frábæran félagsskap og ómældar ánægjustundir er árlegri Veiðivatnaferð okkar hjóna nú lokið. Það er næstum eins og Jóladagur, maður situr hérna uppi á sófa og hugleiðir allt það frábæra sem kom upp úr pökkunum, gleðst innra með sér og finnur fyrir ótrúlegu þakklæti fyrir að fá að taka þátt í veiðiferð þess frábæra hóps sem við vorum með.

Þriðjudagur

Eftir að hafa fengið nýjustu fréttir frá nokkrum félögum sem voru í vötnunum dagana á undan okkur, hófum við leika í Litlasjó. Í stað þess að fara alla leið inn á Lönguströnd létum við nægja að fara rétt innfyrir Litlutá og byrjuðum á hefðbundinn hátt; þungar flugur niður að botni. Við höfðum lítið, mjög lítið, bara ekkert upp úr krafsinu fyrstu klst. en svo varð skyndileg breyting rétt fyrir innan okkur. Þar höfðu tveir veiðimenn komið sér fyrir og í einu vetfangi fór allt af stað hjá þeim. Fiskur á í hverju kasti og heldur þyngdist brúnin á minni konu þegar annar þeirra landaði fimmta eða sjötta fiskinum án þess að hún yrði vör. Það endaði náttúrulega með því að hún óð í land og lagði leið sína til þeirra og tjáði þeim að henni þætti þetta bara ekkert fyndið lengur; Hvaða flugu eruð þið eiginlega með?  Eins og við var að búast stóð ekki á svörum; Skiptir engu, kasta bara einhverju út og strippa hratt í yfirborðinu, hann tekur allt. Með þessar upplýsingar í farteskinu kom mín til baka, valdi Dentist úr fluguboxinu, kastaði út og fékk fisk. Til að gera langa, en afskaplega skemmtilega sögu stutta, þá skipti ég yfir í flotlínu, smellti Dentist undir og reyndi að hafa mig allan við að vinna upp forskot frúarinnar sem hún hafði náð á meðan ég stóð í skiptunum. Það var ekki stórt svæðið sem við höfðum til umráða en við nýttum það til hins ítrasta og færðum okkur alveg út á Litlutá þegar veiðimenn þar létu sig hverfa þegar líða tók á kvöldið. Sannkölluð veisla hjá okkur hjónum þetta fyrsta kvöld sem færði okkur allt í allt 28 fiska, fjórum náið ég að sleppa þannig að 24 fóru með okkur í hús. Stærsti fiskurinn var 6 pund og nokkrir vænir rétt þar fyrir neðan. Það voru heldur betur ánægð hjón sem reyndu að sofna þetta kvöld eftir síðbúinn kvöldverð með veiðifélögunum.

Litlisjór 30.6 - mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.
Litlisjór 30.6 – mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.

Miðvikudagur

Heldur var þungbúið í Veiðivötnum á miðvikudaginn, alskýjað með nokkrum dropum á stangli og frekar svalt. Við og við rættist samt úr veðrinu og vonin kviknaði í brjóstum veiðimanna. Við byrjuðum í Litlasjó, trúlega með smá von í brjósti að þriðjudagurinn ætti sé bróður í miðvikudeginum. Svo reyndist þó ekki vera. Að vísu tók ég tvo fiska og frúin fimm, einum sleppt. Þegar við höfðum reynt öll trixin í bókinni; sökkva flugunni og draga lúshægt, miðlungs eða hratt án frekari árangurs, ákváðum við að renna inn í Suðurbotn Snjóölduvatns og sannreyna dásemdir þess. Jú, ég tók eina skemmtilega bleikju og við nutum þessa fallega staðs. Eigum eflaust eftir að fara þangað síðar.

Dásamlegt veður í Veiðivötnum
Dásamlegt veður í Veiðivötnum

Fimmtudagur

Langavatn var, eftir því sem við komumst næst, lítið farið að gefa þetta sumrið en það aftraði okkur samt ekki að fara inn í Langavatnskrók og spreyta okkur við bleikjuna þar. Mér liggur við að segja að eins og venjulega þá fór frúin á kostum og ég sat eftir með sárt ennið og fisklaus þegar hún hafði náð þremur á bleikan Nobbler á hröðu strippi. Ég lagði því leið mína inn fyrir krókinn og skipti yfir í hefðbundar púpur. Það fór svo að ég náði þremur og frúin bætti einni við safnið.

Fjótlega upp úr hádegi fór heldur að kólna í veðri með dumbung og nokkrum vindi af óræðum áttum. Við kíktum samt í Stóra Fossvatn en fórum síðan í Litlasjó og tókum sitthvorn urriðan rétt innan við Litlutá. Já, ætli sá staður sé ekki kominn í ákveðið uppáhald hjá mér. Eftir að við höfðum þvælst nokkuð um og tekið stöðuna á öðrum veiðimönnum ákváðum við að skjótast upp í Hraunvötn sem greinilega allir höfðu yfirgefið fyrir kraðakið á Lönguströnd við Litlasjó. Ekki höfðum við erindi sem erfiði, hvorki í Jöklavík né Auganu og héldum því heim í hús, með smá viðkomu í Langavatni.

Stóra Fossvatn að kvöldi

Föstudagur

Það getur verið lýjandi að veiða marga daga í röð og ég er ekki frá því að einhver smávæginlega þreyta hafi verið farin að gera vart við sig á föstudaginn. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur, svalt og enn kólnaði þegar þoka skall á mannskapinn. Almennt skilst mér að lítið hafi gefið þennan dag og sjálf eyddum við honum í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Litla Breiðavatni. Litlasjó og Langavatni. Þetta varð dagur bleikjunnar. Nýjavatn færði okkur 7 bleikjur í smærri kanntinum og Langavatn 3 rétt um pundið. Ég má til með að nefna það að bleikjan í Langavatni hefur heldur betur tekið sig á í ræktinni. Hún er kröftug, feit og pattaraleg þetta sumarið og það er sannanlega þess virði að spreyta sig á henni.

Sólarlag við Veiðivötn
Svona buðu Veiðivötn góða nótt

Þegar tók að húma að kvöldi þessa síðasta veiðidags okkar í Veiðivötnum reyndum við aðeins fyrir okkur á Síldarplaninu við Stóra Fossvatn en kyrrð og fegurð kvöldsins seyddi okkur til að festa stangirnar á bílinn, tylla okkur niður og njóta þess að vera ein í heiminum með stöku kríu, urriðanum í vatninu og þessari undraveröld sem Veiðivötn geta verið á góðu kvöldi. Flottur punktur yfir i-ið á frábærri ferð. Takk fyrir okkur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 11 16 / 23 14 / 23 16 / 27 7 / 10

Veiðivötn, 3. – 4. júlí

Mér varð á orði í fyrrakvöld að mér liði eins og krakka fyrir framan nammirekkann í stórmarkaði með skotleyfi á allt sem mig langaði í. Að velja eitthvað eitt uppáhalds er næstum dónalegt gagnvart öllu hinu namminu, en einhvers staðar verður maður að byrja. Þegar það kemur að nammi þá vel ég oft frekar litlu, bragðsterku stykkin, frekar en þau stóru einsleitu. Því er svolítið eins farið með mig í veiðinni og því vel ég Hellavatn. Ég var svolítið efins að upplýsa valið, hélt jafnvel að ástæðan væri sú að þar fékk ég minn fyrsta Veiðivatna urriða en það er ekki ástæðan. Hellavatn er einfaldlega bragðbesta nammið í rekkanum sem heitir Veiðivötn. Já, einmitt, karlinn komst tvo daga í Veiðivötn nú fyrir helgi ásamt frúnni og frábærum hópi veiðifélaga ofan af Skaga.

Veiðivötn - Litli Sjór
Veiðivötn – Litli Sjór

Fyrir ferðina var auðvitað hnýtt og hnýtt eftir bestu vitund um heppilegar flugur og svo var skroppið í heimsókn til Joakim‘s og fjárfest í hægsökkvandi línu á sjöu konunnar. Sjálfur þóttist ég vera þokkalega settur en út fór ég nú samt með stöng og hraðsökkvandi Veiðivatna-línu að láni til prufu. Eftir nokkur köst með stönginni var engin vafi lengur í mínum huga; arftaki MMX er fundinn.

Vopnabúrið klárt
Vopnabúrið klárt

Eftir tilhlökkunarþrungna bílferðina upp í Veiðivötn var farið tiltölulega snemma í rúmið, fimmtudagurinn skyldi tekin snemma. Hópurinn ofan af Skaga hafði verið garnrakinn um bestu staðina og við hjónin ákváðum að byrja í Litla Sjó og láta síðan slag standa um framhaldið. Til að gera langa sögu stutta þá bar í raun ekkert til tíðinda hjá okkur yfir daginn. Maður ráfaði (ók) á milli staða, smakkaði á völdum vötnum og valdar flugur smökkuðu á óvörðu fési mínu. Gómsætasti bitinn við Litla Fossvatn var greinilega ég, átján mýbit á 5 mín. og ég stefndi hraðbyri í að leika Fílamanninn II.
Þegar kvöldaði ákváðum við hjónin að við fiskleysi yrði ekki búið þannig að við fórum í nokkuð öruggt vatn og settum í nokkrar bleikjur, svona til að geta verið með í fréttum þegar heim í Setrið væri komið. Föstudagurinn skildi tekinn með stæl, byrjað í Hraunvötnum og fikrað sig kerfisbundið til baka.

Litla Fossvatn
Litla Fossvatn

Eftir glæsilegt veður fimmtudagsins fengum við sýnishorn af norðan belgingi á föstudagsmorguninn, stillum inn á milli, þoku og þéttari þoku (sem einhverjir kalla rigningu) og svo aftur aðeins meiri belging. Eftir einhverjar tilraunir til fluguveiði í Stóra Hraunvatni gerðum við góða ferð í Hellavatn þar sem fyrsti urriðinn féll hjá undirrituðum. Skemmtilegur fiskur sem gaf ekkert eftir fyrr en í fulla hnefana. Sáttur? Já, miklu meira en það. Skipuleg yfirferð okkar hjóna um svæðið varð verulega fyrir áhrifum veðurs og að endingu gáfumst við upp fyrir vindáttinni og snérum leitinni upp í að finna skjól á bleikjuslóðum. Merkilegt þegar fiskarnir taka upp á því að vilja bara flugu konunnar, en ekki mína, en svona eru sumar ferðirnar.

Veiðivötn
Veiðivötn

Niðurstaða tveggja daga í Veiðivötnum: frábær ferð, mjög skemmtilegur félagsskapur sem var ósínkur á ráð og leiðbeiningar, dásamlegt umhverfi og endalausir möguleikar til veiði. Það er ekki spurning um ef, heldur þegar ég fer næst, að ég ætla að einbeita mér að Stóra Fossvatni, Snjóölduvatni og Skálavatni, ásamt nýja uppáhalds molanum mínum, Hellavatni.

Takk fyrir okkur, Skagamenn. Frábærir dagar og við eigum örugglega eftir að hittast einhvern tímann aftur í Veiðivötnum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 11 / 3 13 / 11 / 1 5 / 12 14 / 19

Ummæli

06.07.2014 – Siggi Kr. (Taumur): Hellavatn er ótrúlega fallegt og skemmtilegt vatn eins og Hraunvötnin eru reyndar flest. En hvert fóruð þið til að ná í bleikjur. Hef heyrt að Langavatn hafi verið að gefa þokkalegar bleikjur í sumar og Kvíslarvatn líka. Er að fara sjálfur eftir viku eftir að hafa tekið eitt sumar “off” í fyrra og spennan er hrikaleg.

Svar: Já, ég kolféll alveg fyrir Hellavatni. Kannski ekki alveg að marka fyrstu sýn á vötnin því mér skilst á kunnugum að heldur sé lágt í vötnunum núna. Við (aðallega frúin) mokaði bleikjunni upp í Langavatni (Langavatnskrika) og svo aðeins í Nýjavatni. Raunar smellti hún einnig í bleikjur í Snjóölduvatni (Hellisnef sunnanvert til austurs), þannig að það er víða hægt að krækja í bleikjuna. Mér skildist á staðarhöldurum að bleikjan sem kemur á land núna sé öllu vænni heldur en verið hefur. Hvað sem mönnum finnst um bleikjuna á þessu svæði, er ágætt til þess að vita að hún eigi sér afdrep á hálendinu, því víða er hún jú að hopa á láglendi.