Veiðivötn, 1. – 4. júlí

Með tilhlökkun sem hefur varað í að verða heilt ár lögðum við hjónin af stað í árlega ferð okkar í Veiðivötn á laugardaginn. Ferðin hafði verið undirbúin vandlega, meira að segja hafði græjum og fatnaði verið pakkað fyrir rúmri viku síðan, allt sem sagt gert klárt og aðeins eftir að renna við á Selfossi til að kaupa ferskvöru. Þegar í Vötnin var komið, tók þetta venjulega stúss við; bera mat og ýmsan varning inn í hús, taka í höndina á veiðifélögunum og kyssa þá sem slíkt heimiluðu. Þar sem við vorum aðeins með seinni skipunum vorum við hjónin síðustu út úr húsi, taka fram veiðistangir og vöðlur og gera okkur klár. Og fer þá frásögnin að æsast.

Í Veiðivötnum 2017

Þennan kafla ætla ég að ramma inn í frásögn af einstakri lipurð og þjónustulund þeirra sem reka veiðiverslanir af köllun og brennandi áhuga. Hvar í heiminum væri hægt að hringja í veiðiverslun kl.16:45 á laugardegi, með grátstafina í kverkunum frá stað sem er 130 km. í burtu og spyrja; Áttu nokkuð vöðluskó nr.38 og 44, ég gleymdi mínum heima og er kominn upp í Veiðivötn? Svarið hennar Hrefnu í Veiðisport kom mér reyndar ekkert á óvart; Jú, við hljótum að finna eitthvað passandi, hringdu bara þegar þú nálgast Selfoss og við mætum niður í búð. Ég ætla rétt að vona að veiðimenn geri sér grein fyrir því hversu ómetanleg þjónusta þeirra hjóna, Gústa og Hrefnu í Veiðisport á Selfossi er. Það verður mikill missir þegar þau loka versluninni, því allt stefnir í að svo verði innan tíðar. Við ykkur heiðurshjón vil ég ítreka þakkir mínar fyrir aðstoðina og einstaka lipurð í aulalegum vandræðum mínum á laugardaginn; Takk, þið eruð frábær.

Sem sagt; á meðan ég brá mér 260 km. til að útvega vöðluskó í stað þeirra sem stóðu einmana í bílskúrnum heima, brá veiðifélagi minn sér í göngutúr á strigaskónum inn að Langavatni, auðvitað með stöng í hönd og nokkrar vel valdar flugur í vestinu. Við hittumst síðan rétt upp úr kl.19 í Setrinu og kláruðum að græja okkur upp fyrir síðustu klukkustundir vaktarinnar, í þetta skiptið í vöðlum og brakandi nýjum vöðluskóm. Arnarpollur lá nokkuð vel við vindátt og því stoppuðum við smá stund þar en hurfum síðan á vit Snjóölduvatns í 7°C hita og norðan gjólu þar sem við lögðum okkar lóð á vogaskálar bleikjugrisjunar með því að kippa 18 þeirra upp úr vatninu með Orange og gyltum Nobblerum. Ekki voru nú allar þeirra hæfar til matar, þannig að eitthvað af þeim lenti í úrkasti.

Það rignir líka stundum í Veiðivötnum

Það hefur lengi verið á dagskrá hjá okkur hjónum að kanna ástand bleikjunnar í Skyggnisvatni og sunnudagurinn virtist ekkert verr til þess fallinn heldur hver annar dagur þannig að við ákváðum að byrja undir Skyggni. Veðrið lék við okkur þann tíma sem við vörðum á bökkum vatnsins og það var sannanlega eitthvað dásamlega fallegt við auðnina sem umlykur vatnið. Þetta er mun meira aðlaðandi veiðivatn heldur margur hefur af látið. Bleikjan hefur komið vel til og flestir þeir fiska sem við tókum þarna voru vel yfir pundið, vel haldnir og í góðum holdum. Vinsælasta fluga dagsins í Skyggnisvatni: Hot Pink Nobbler, stuttur #12.

Við Hermannsvík

Sunnudagskvöldinu eyddum við með hollinu okkar á Hrauninu við Litlasjó þar sem sumir gerðu gott mót og settu í væna fiska á meðan aðrir voru hófsamari. Vinsælasta flugan var væntanlega svartur Nobbler með kopar- eða gullbúk, alveg í stíl við hornsílin sem rekið hafði upp í fjöruna. Annars er rétt að setja þann fyrirvara að það sem er strönd við Litlasjó í dag, var vegkantur eða eitthvað þaðan af hástæðara á sama tíma í fyrra. Vatnshæðin er með ólíkindum og sumir eru hættir að tala um Hermannsvík, nú er bara talað um Hermannsflóa og í nokkrum öðrum vötnum er svipaða sögu að segja, Rauðigígur heitir til að mynda Rauðahafið í dag.

Mánudeginum eyddum við í vettvangskönnun í Stóra Hraunvatni, Hellavatni og Norðurbotni Litlasjávar sem leiddi til þeirrar niðustöðu að víðast væri mikið vatn og á sumum stöðum enn meira vatn. Nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum voru nú samt á sínum stað, eins og til dæmis Litlatá við Litlasjó sem við heimsóttum og tókum þar fimm urriða upp úr miðjum degi, en síðan ekki söguna meir.

Ekki óalgeng sjón við Litlasjó þessa dagana

Síðasta daginn okkar í veiði byrjuðum við í Ónefndavatni sem hreint og beint kraumaði í uppitökum og klaki þennan morgun. Samkeppnin var gríðarlega hörð og það var alveg sama hvaða flugur við buðum urriðanum, hann hélt sig algerlega við náttúrulegu fæðuna sem var ekki af skornum skammti. Rétt áður en túristaþyrla sveimaði yfir vatninu skaut hugmynd upp í kollinn á veiðifélaga mínum; Hvað með Higa‘s SOS? Jú, það var eins og við manninn mælt; tveir fiskar í fyrstu tveimur köstunum og svo tveir til viðbótar, en þá kom umrædd þyrla og það var hreint og beint eins og skrúfað hefði verið fyrir náttúruna í kjölfar hennar, hvorki uppi- né flugutökur eftir það.

Urriði úr Ónefndavatni

Það var svo Langavatn sem naut þess að færa okkur síðustu fiska ferðarinnar. Það er ekki af bleikjunni í vatninu skafið að hún er einstaklega væn þessi árin. Stærsta sem ég tók var 2,5 pund og skemmtileg viðureignar eftir því. Síðasti fiskur dagsins setti heildarafla ferðarinnar í þriggja stafa tölu; 100 fiskar í ferðinni hjá okkur hjónum og við þokkalega sátt við það.

Vænar bleikjur úr Langavatni

Hvað stendur þá eftir í huga manns eftir þessa ferð? Jú, það er ekki á vísan að róa með veður í Veiðivötnum. Hitastigið var ekkert til að hrópa húrra fyrir, þokkalegt samt og vindur getur blásið úr fjórum höfuðáttum auk allra átta þar á milli og svo rignir líka stundum uppi á Hálendi, svona eins og þess þurfi eitthvað sérstaklega þetta sumarið. En, það er alltaf jafn skemmtilegt að koma í Veiðivötn, taka króka vegna ófærðar og prófa ný vötn og endurnýja kynni við önnur eldri. Næsta ferð? Auðvitað að ári og ég er þegar farinn að útbúa gátlista yfir allt það sem þarf að vera með í þeirri ferð; 1. Muna eftir mínum vöðluskóm, 2. Muna eftir hennar vöðluskóm.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 46 / 42 60 / 54 / 8 14 / 10 7

Veiðivötn, 1. – 5. júlí

Eftirvænting, tilhlökkun, spenna, smá vonbrigði, sáttur. Hvar annars staðar en í Veiðivötnum er hægt að upplifa þetta allt á einu bretti? Árlegri Veiðivatnaferð er sem sagt lokið og heim erum við veiðifélagarnir komnir; þreyttir, ánægðir og staðráðnir í að mæta aftur að ári með þessum frábæra hópi núverandi og fyrrverandi Skagamanna sem fóstraði okkur nú, þriðja árið í röð.

Við hófum leika á föstudaginn með því að renna í Snjóölduvatn og tókum þar 17 bleikjur til að grynnka aðeins á sístækkanir bleikjustofni vatnsins. Þess ber að geta að sára lítill hluti þessa afla hefði dugað upp í nös á ketti, svo smár var fiskurinn. Eftir að hafa átt við kóðið rétt vestan við Snjóöldupoll afréðum við að renna á nýjar slóðir. Eftir hressingu í Hermannsvík við Litlasjó héldum við áfram út að Litlutá (einmitt, maður reynir oft að veiða síðustu góðu veiðiferð aftur og aftur) en þegar ljóst var að enginn fiskur var í augnsýn eða tilkippilegur ákváðum við að renna alveg inn að Strigaskó. Ósköp varð þessi ferð okkar snautleg, ekki einn einasti fiskur á land úr Litlasjó, en við vorum meira en sátt og full væntinga fyrir næsta degi þegar við drógum sængur upp að höku og tókum til við að hrjóta í takt.

Litlisjór við sólsetur
Litlisjór við sólsetur

Laugardagur til lukku? Tja, hann byrjaði alveg þokkalega hjá öðru okkar í Stóra Hraunvatni undir Gaukshöfða þar sem ég landaði jómfrúarfiskinum mínum í norð-austan fræsing á móti öldunni. Skömmu síðar lönduðu nærstaddir veiðimenn einum mjög góðum og í bjartsýniskasti hélt ég að nú værum við dottinn í lukkupottinn, allt að gerast. En, nei það varð nú ekki og eftir að hafa næstum rifið handlegginn af mér í köstunum upp í vindinn ákváðum við að renna inn að Nyrsta Hraunvatni, en þar var einstaklega lítið um að vera þannig að við kíktum í Skeifuna (jómfrúarferð) en stoppuðum ekki lengi.
Eftir hádegishressingu renndum við aftur inn að Snjóöldu og komum okkur að þessu sinni fyrir á Bátseyrinni. Ekki varð sú ferð til fiskjar, en áfram héldum við og nú í leit að smá hvíld frá vindsperringi þannig að Kvíslarvatnsgígur varð fyrir valinu. Einstaklega fallegt vatn, en nokkuð slungið að því mér fannst. Á baka leiðinni stoppuðum við örlítið við í Kvíslarvatni þar sem frúin tók eina bleikju sem fer í harðfisk næsta haust. Einhver óeirð var þarna í okkur og við ákváðum að renna inn að Norsaravík við Litlasjó þar sem norðaustan vindurinn hamaðist við að fylla víkina af æti fyrir urriðann. Þarna virkaði víkin sem trekt sem fljótlega fylltist af flugu og ýmsu öðru góðgæti, en það gleymdist greinilega alveg að láta fiskinn vita af þessu. Eftir nokkrar tilraunir með ýmsar flugur og misgóð köst upp í vindinn gáfumst við upp og ákváðum að ljúka deginum í Langavatni að norðan þar sem maður gæti hvílt kasthöndina örlítið. Því miður lék Langavatnið ekki við okkur eins og í fyrra og árið þar á undan.

Sólsetur handan Fossvatna
Sólsetur handan Fossvatna

Sunnudagurinn gekk í garð og bar nafnið með rentu, glampandi sól og hitastigið tosaðist heldur betur upp. Við byrjuðum daginn í jómfrúarferð í Breiðavatn þar sem við gerðum okkur smá vonir um að bleikjan léti sjá sig í uppitökum eða klaki. Því miður virtist bleikjan hafa sofið yfir sig þennan morgun og úr Breiðavatni fórum við yfir í Ónefndavatn. Síðustu óstaðfestu fréttir herma að Vatnanafnanefnd hafi komið saman og talið ótækt að enn væri ónefnt vatn á Íslandi og því ákveðið að skýra það í höfuðið á nefndinni sjálfri. Hér eftir heitir vatnið víst Nefndavatn og nú má hver sem er trúa þessari (skrök) sögu ef hann vill. Mér finnst þetta vatn nokkuð skemmtilegt og í þessari jómfrúarferð sýndi fiskurinn sig með uppitökum, byltum og ýmsum látum úti á vatninu, en af gerviflugum var hann ekki ginkeyptur þannig að við renndum enn eitt skiptið inn að Snjóöldu og nú varð Snjóöldupollur fyrir valinu.
Eitthvað var nú sólskynsskapið farið að verða skýjað þegar við fórum úr Snjóölduvatni, enn og aftur með öngulinn í setvöðvanum. Til allrar lukku fyrir geð okkar veiðifélaganna hittum við ættingja konunnar sem voru nýkomin úr Krókspolli með nokkrar bleikjur í farteskinu þannig að við snérum okkar kvæði í kross og tókum stefnuna á pollinn. Jú, hann heitir pollur og varað hefur verið við að hann hafi samgang við Tungnaá og því gæti verið á öllu von í honum, en samgangur er ekki til staðar, í það minnsta um þessar mundir og fiskurinn gæti verið stærri, en það var virkilega þess virði að skjótast í pollinn og finna aðeins fyrir tökum svangrar bleikju eftir engar tökur síðustu vatna.
Á bakaleiðinni fengum við þá hugmynd að kanna stöðuna á Nýjavatni, svona fyrst við vorum að kynna okkur smábleikjunar. Mosanef varð fyrir valinu og eins og venjulega voru bleikjurnar sár-svangar og viljugar til töku. Við veiðifélagarnir komum okkur fyrir sitt hvoru megin við nefið, ekki nema 10 metrar á milli okkar og týndum upp nokkrar bleikjur. Það var kannski tilviljun, en það var verulegur munur á stærð þeirra bleikja sem veiddar voru austan við nefið og vestan. Að vestan voru bleikjurnar næstum því í þokkalegri stærð á meðan að allt sem veiddist að austan var í sardínustærð. E.t.v. er hægt að finna þokkalegar bleikjur inn á milli í vatninu, sé vel leitað.
Eftir Nýjavatn renndum við í Langavatnið sem enn brást okkur á hefðbundnum slóðum okkar þrátt fyrir að vatnið hafi verið að gefa öðrum veiðimönnum á öðrum stöðum betur síðustu daga. Þar sem þetta var landsleiksdagurinn mikli, var ákveðið að safnast saman á Lönguströnd við Litlasjó um kvöldið, veiða og fagna hverju marki. Eitthvað var minna um fögnuð að leikslokum og það sama má segja um veiðimennsku okkar veiðifélaganna. Ekki branda á land, þótt sett væri í væna fiska sitt hvoru megin við okkur.

Það er nægt æti í Veiðivötnum
Það er nægt æti í Veiðivötnum

Ekki var mánudagurinn síðri sunnudeginum hvað veðrið snerti. Við byrjuðum á morgunverði á eiðinu á milli Draugatanga og Höfða við Litlasjó. Smurt og gómsætt í gogg en ekki uggi kominn á stjá. Sneypt héldum við til baka og tókum stefnuna á Arnarpoll, enn eitt vatnið sem við höfðum ekki prófað. Það verður ekki af þessu vatnið skafið að umhverfið er dásamlegt og gaf ágætt skjól, reyndar svo mikið að flugan var mann alveg lifandi að éta. Og það var fleira sem vatnið færði mér, stærsti fiskur ferðarinnar kom á land og bíður nú eftir því að vera grafinn og sneiddur á brauð.
Eftir Arnarpoll gerðum við enn eina tilraun til að plata bleikjurnar í Langavatni til töku. Vatnið var eins og spegill, hitastigið með besta móti en ekki ein einasta uppitaka sjáanleg og aðeins eitt skvamp var það sem við höfðum upp úr krafsinu. Stundum eru veiðimenn einfaldlega sneiddir allri gæfu og það á við um okkur hjónin þegar kom að Langavatni í þessari ferð. Það gengur bara betur næst…..
Við vorum eiginlega svolítið slegin eftir síðasta rothögg Langavatns og leituðum því á náðir Suðurbotna Snjóölduvatns. Eitthvað hafa blessuð vötnin sammælst um að gera okkur gramt í geði, því ekki urðum við vör við fisk í Suðurbotnum heldur. Nú var farið að fjúka í flest skjól og ekki síst í geð undirritaðs. Átti þessi ferð að verða sú lélegasta? Við veiðifélagarnir sammæltust um að gera eina tilraun enn við Litlasjó og komum okkur því fyrir á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Ekki leið á löngu þar til frúin benti mér á að fiskur væri í æti á yfirborðinu, nú væri lag. Til að gera langa sögu stutta, þá gerðum við hjónin alveg prýðilega veiði þarna og fiskurinn var í miklu stuði þar sem hann úðaði í sig flugum og ýmsu góðgæti sem aldan bar þarna að landi. Samtals settum við í 26 fiska, 6 fengu líf og 3 sluppu. Það voru því 17 stk. sem fóru á aðgerðarborðið laust upp úr kl.23, lagðir á ís og eru nú komnir í frystinn hér heima. Það sannaðist þetta síðasta kvöld okkar að leiknum er ekki lokið fyrr en feita hrygnan hefur sungið sitt síðasta lag. Frábær endir á frábærri ferð okkar í Veiðivötn þetta árið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 15 / 17 21 27 / 15 19 11

Veiðivötn 30.6 – 3.7

Eftir þrjá og hálfan dag, 610 km. akstur, frábæran félagsskap og ómældar ánægjustundir er árlegri Veiðivatnaferð okkar hjóna nú lokið. Það er næstum eins og Jóladagur, maður situr hérna uppi á sófa og hugleiðir allt það frábæra sem kom upp úr pökkunum, gleðst innra með sér og finnur fyrir ótrúlegu þakklæti fyrir að fá að taka þátt í veiðiferð þess frábæra hóps sem við vorum með.

Þriðjudagur

Eftir að hafa fengið nýjustu fréttir frá nokkrum félögum sem voru í vötnunum dagana á undan okkur, hófum við leika í Litlasjó. Í stað þess að fara alla leið inn á Lönguströnd létum við nægja að fara rétt innfyrir Litlutá og byrjuðum á hefðbundinn hátt; þungar flugur niður að botni. Við höfðum lítið, mjög lítið, bara ekkert upp úr krafsinu fyrstu klst. en svo varð skyndileg breyting rétt fyrir innan okkur. Þar höfðu tveir veiðimenn komið sér fyrir og í einu vetfangi fór allt af stað hjá þeim. Fiskur á í hverju kasti og heldur þyngdist brúnin á minni konu þegar annar þeirra landaði fimmta eða sjötta fiskinum án þess að hún yrði vör. Það endaði náttúrulega með því að hún óð í land og lagði leið sína til þeirra og tjáði þeim að henni þætti þetta bara ekkert fyndið lengur; Hvaða flugu eruð þið eiginlega með?  Eins og við var að búast stóð ekki á svörum; Skiptir engu, kasta bara einhverju út og strippa hratt í yfirborðinu, hann tekur allt. Með þessar upplýsingar í farteskinu kom mín til baka, valdi Dentist úr fluguboxinu, kastaði út og fékk fisk. Til að gera langa, en afskaplega skemmtilega sögu stutta, þá skipti ég yfir í flotlínu, smellti Dentist undir og reyndi að hafa mig allan við að vinna upp forskot frúarinnar sem hún hafði náð á meðan ég stóð í skiptunum. Það var ekki stórt svæðið sem við höfðum til umráða en við nýttum það til hins ítrasta og færðum okkur alveg út á Litlutá þegar veiðimenn þar létu sig hverfa þegar líða tók á kvöldið. Sannkölluð veisla hjá okkur hjónum þetta fyrsta kvöld sem færði okkur allt í allt 28 fiska, fjórum náið ég að sleppa þannig að 24 fóru með okkur í hús. Stærsti fiskurinn var 6 pund og nokkrir vænir rétt þar fyrir neðan. Það voru heldur betur ánægð hjón sem reyndu að sofna þetta kvöld eftir síðbúinn kvöldverð með veiðifélögunum.

Litlisjór 30.6 - mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.
Litlisjór 30.6 – mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.

Miðvikudagur

Heldur var þungbúið í Veiðivötnum á miðvikudaginn, alskýjað með nokkrum dropum á stangli og frekar svalt. Við og við rættist samt úr veðrinu og vonin kviknaði í brjóstum veiðimanna. Við byrjuðum í Litlasjó, trúlega með smá von í brjósti að þriðjudagurinn ætti sé bróður í miðvikudeginum. Svo reyndist þó ekki vera. Að vísu tók ég tvo fiska og frúin fimm, einum sleppt. Þegar við höfðum reynt öll trixin í bókinni; sökkva flugunni og draga lúshægt, miðlungs eða hratt án frekari árangurs, ákváðum við að renna inn í Suðurbotn Snjóölduvatns og sannreyna dásemdir þess. Jú, ég tók eina skemmtilega bleikju og við nutum þessa fallega staðs. Eigum eflaust eftir að fara þangað síðar.

Dásamlegt veður í Veiðivötnum
Dásamlegt veður í Veiðivötnum

Fimmtudagur

Langavatn var, eftir því sem við komumst næst, lítið farið að gefa þetta sumrið en það aftraði okkur samt ekki að fara inn í Langavatnskrók og spreyta okkur við bleikjuna þar. Mér liggur við að segja að eins og venjulega þá fór frúin á kostum og ég sat eftir með sárt ennið og fisklaus þegar hún hafði náð þremur á bleikan Nobbler á hröðu strippi. Ég lagði því leið mína inn fyrir krókinn og skipti yfir í hefðbundar púpur. Það fór svo að ég náði þremur og frúin bætti einni við safnið.

Fjótlega upp úr hádegi fór heldur að kólna í veðri með dumbung og nokkrum vindi af óræðum áttum. Við kíktum samt í Stóra Fossvatn en fórum síðan í Litlasjó og tókum sitthvorn urriðan rétt innan við Litlutá. Já, ætli sá staður sé ekki kominn í ákveðið uppáhald hjá mér. Eftir að við höfðum þvælst nokkuð um og tekið stöðuna á öðrum veiðimönnum ákváðum við að skjótast upp í Hraunvötn sem greinilega allir höfðu yfirgefið fyrir kraðakið á Lönguströnd við Litlasjó. Ekki höfðum við erindi sem erfiði, hvorki í Jöklavík né Auganu og héldum því heim í hús, með smá viðkomu í Langavatni.

Stóra Fossvatn að kvöldi

Föstudagur

Það getur verið lýjandi að veiða marga daga í röð og ég er ekki frá því að einhver smávæginlega þreyta hafi verið farin að gera vart við sig á föstudaginn. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur, svalt og enn kólnaði þegar þoka skall á mannskapinn. Almennt skilst mér að lítið hafi gefið þennan dag og sjálf eyddum við honum í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Litla Breiðavatni. Litlasjó og Langavatni. Þetta varð dagur bleikjunnar. Nýjavatn færði okkur 7 bleikjur í smærri kanntinum og Langavatn 3 rétt um pundið. Ég má til með að nefna það að bleikjan í Langavatni hefur heldur betur tekið sig á í ræktinni. Hún er kröftug, feit og pattaraleg þetta sumarið og það er sannanlega þess virði að spreyta sig á henni.

Sólarlag við Veiðivötn
Svona buðu Veiðivötn góða nótt

Þegar tók að húma að kvöldi þessa síðasta veiðidags okkar í Veiðivötnum reyndum við aðeins fyrir okkur á Síldarplaninu við Stóra Fossvatn en kyrrð og fegurð kvöldsins seyddi okkur til að festa stangirnar á bílinn, tylla okkur niður og njóta þess að vera ein í heiminum með stöku kríu, urriðanum í vatninu og þessari undraveröld sem Veiðivötn geta verið á góðu kvöldi. Flottur punktur yfir i-ið á frábærri ferð. Takk fyrir okkur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 11 16 / 23 14 / 23 16 / 27 7 / 10

Veiðivötn, 3. – 4. júlí

Mér varð á orði í fyrrakvöld að mér liði eins og krakka fyrir framan nammirekkann í stórmarkaði með skotleyfi á allt sem mig langaði í. Að velja eitthvað eitt uppáhalds er næstum dónalegt gagnvart öllu hinu namminu, en einhvers staðar verður maður að byrja. Þegar það kemur að nammi þá vel ég oft frekar litlu, bragðsterku stykkin, frekar en þau stóru einsleitu. Því er svolítið eins farið með mig í veiðinni og því vel ég Hellavatn. Ég var svolítið efins að upplýsa valið, hélt jafnvel að ástæðan væri sú að þar fékk ég minn fyrsta Veiðivatna urriða en það er ekki ástæðan. Hellavatn er einfaldlega bragðbesta nammið í rekkanum sem heitir Veiðivötn. Já, einmitt, karlinn komst tvo daga í Veiðivötn nú fyrir helgi ásamt frúnni og frábærum hópi veiðifélaga ofan af Skaga.

Veiðivötn - Litli Sjór
Veiðivötn – Litli Sjór

Fyrir ferðina var auðvitað hnýtt og hnýtt eftir bestu vitund um heppilegar flugur og svo var skroppið í heimsókn til Joakim‘s og fjárfest í hægsökkvandi línu á sjöu konunnar. Sjálfur þóttist ég vera þokkalega settur en út fór ég nú samt með stöng og hraðsökkvandi Veiðivatna-línu að láni til prufu. Eftir nokkur köst með stönginni var engin vafi lengur í mínum huga; arftaki MMX er fundinn.

Vopnabúrið klárt
Vopnabúrið klárt

Eftir tilhlökkunarþrungna bílferðina upp í Veiðivötn var farið tiltölulega snemma í rúmið, fimmtudagurinn skyldi tekin snemma. Hópurinn ofan af Skaga hafði verið garnrakinn um bestu staðina og við hjónin ákváðum að byrja í Litla Sjó og láta síðan slag standa um framhaldið. Til að gera langa sögu stutta þá bar í raun ekkert til tíðinda hjá okkur yfir daginn. Maður ráfaði (ók) á milli staða, smakkaði á völdum vötnum og valdar flugur smökkuðu á óvörðu fési mínu. Gómsætasti bitinn við Litla Fossvatn var greinilega ég, átján mýbit á 5 mín. og ég stefndi hraðbyri í að leika Fílamanninn II.
Þegar kvöldaði ákváðum við hjónin að við fiskleysi yrði ekki búið þannig að við fórum í nokkuð öruggt vatn og settum í nokkrar bleikjur, svona til að geta verið með í fréttum þegar heim í Setrið væri komið. Föstudagurinn skildi tekinn með stæl, byrjað í Hraunvötnum og fikrað sig kerfisbundið til baka.

Litla Fossvatn
Litla Fossvatn

Eftir glæsilegt veður fimmtudagsins fengum við sýnishorn af norðan belgingi á föstudagsmorguninn, stillum inn á milli, þoku og þéttari þoku (sem einhverjir kalla rigningu) og svo aftur aðeins meiri belging. Eftir einhverjar tilraunir til fluguveiði í Stóra Hraunvatni gerðum við góða ferð í Hellavatn þar sem fyrsti urriðinn féll hjá undirrituðum. Skemmtilegur fiskur sem gaf ekkert eftir fyrr en í fulla hnefana. Sáttur? Já, miklu meira en það. Skipuleg yfirferð okkar hjóna um svæðið varð verulega fyrir áhrifum veðurs og að endingu gáfumst við upp fyrir vindáttinni og snérum leitinni upp í að finna skjól á bleikjuslóðum. Merkilegt þegar fiskarnir taka upp á því að vilja bara flugu konunnar, en ekki mína, en svona eru sumar ferðirnar.

Veiðivötn
Veiðivötn

Niðurstaða tveggja daga í Veiðivötnum: frábær ferð, mjög skemmtilegur félagsskapur sem var ósínkur á ráð og leiðbeiningar, dásamlegt umhverfi og endalausir möguleikar til veiði. Það er ekki spurning um ef, heldur þegar ég fer næst, að ég ætla að einbeita mér að Stóra Fossvatni, Snjóölduvatni og Skálavatni, ásamt nýja uppáhalds molanum mínum, Hellavatni.

Takk fyrir okkur, Skagamenn. Frábærir dagar og við eigum örugglega eftir að hittast einhvern tímann aftur í Veiðivötnum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 11 / 3 13 / 11 / 1 5 / 12 14 / 19

Ummæli

06.07.2014 – Siggi Kr. (Taumur): Hellavatn er ótrúlega fallegt og skemmtilegt vatn eins og Hraunvötnin eru reyndar flest. En hvert fóruð þið til að ná í bleikjur. Hef heyrt að Langavatn hafi verið að gefa þokkalegar bleikjur í sumar og Kvíslarvatn líka. Er að fara sjálfur eftir viku eftir að hafa tekið eitt sumar “off” í fyrra og spennan er hrikaleg.

Svar: Já, ég kolféll alveg fyrir Hellavatni. Kannski ekki alveg að marka fyrstu sýn á vötnin því mér skilst á kunnugum að heldur sé lágt í vötnunum núna. Við (aðallega frúin) mokaði bleikjunni upp í Langavatni (Langavatnskrika) og svo aðeins í Nýjavatni. Raunar smellti hún einnig í bleikjur í Snjóölduvatni (Hellisnef sunnanvert til austurs), þannig að það er víða hægt að krækja í bleikjuna. Mér skildist á staðarhöldurum að bleikjan sem kemur á land núna sé öllu vænni heldur en verið hefur. Hvað sem mönnum finnst um bleikjuna á þessu svæði, er ágætt til þess að vita að hún eigi sér afdrep á hálendinu, því víða er hún jú að hopa á láglendi.