Langavatn 9.-11. júlí

Ágætis ferð í Langavatn í Borgarfirði.  Tókum heim með okkur 11 þokkalegar bleikjur eftir tvo daga, ef ég tel sunnudag ekki með vegna rosalegrar rigningar (hagl) rétt fyrir síðdegisveiðina sem sendi væntanlega allan fisk niður í dýpstu dýpi það sem eftir lifði dags. Frúin prófaði fluguna, en mest veiddum við á spún (svartur Toby) og eitthvað á maðk, en ‘Vinstri græn‘ og Dentist gáfu líka. Veiddum í sandfjörunni frá ósi Beilár og til norðurs. Prófuðum líka undir Réttarmúlanum og undir hrauninu að sunnan, en hvorugt gaf.

Tungufljót 6.-8. júlí

Ekki lofaði nú veðurspáin góðu með þessa veiðiferð, en það hefði nú alveg verið hægt að koma út einhverri línu með ormi á endanum þótt hann spáði 4-9 m/sek. en að koma einhverju kvikindi út í 16 – 26 m/sek. er svolítið annað mál. Gerðum heiðarlega tilraun í gærkvöldi til að leita að fiski við sleppitjörnina í Kjarnholti og ég sá einn, enn hann vildi frekar liggja á botninum heldur en eltast við spún eða maðk.  Vegna vinds var ekki viðlit að koma út flugu svo eitthvað vit væri í og svo tók steininn alveg úr þegar á okkur skall þetta kolvitlausa veður í nótt og í morgun svo ekkert varð úr hollinu kl.7 – 13.  Þegar svo veðrið gekk nánast ekkert niður eftir hádegi og fyrirséð að hollið frá 16-22 yrði tómur barningur í vindi (sbr. myndina hér að ofan), pökkuðum við okkar hafurtaski og fórum heim.  Nei, ég neita því alfarið að við höfum komið með öngulinn í rassinum, hann lá óhreyfður í veiðiboxinu og því telst þetta ekki með.

Meðalfellsvatn

Skruppum í Meðalfellsvatnið í gær, sem var lítið spennandi.  Væntanlega var eins farið með fiskinn og mig, mér fannst hávaðinn og lætin við vatnið aðeins of mikil. Látum það vera að menn slái blettinn sinn eða snyrti einn og einn runna með bensíngræjunum, en 20 feta spíttarar á fullu gasi á vatninu eru nú ekki alveg á top 10 óskalistanum mínum á fallegum laugardegi.  Já, ég er fúll enda fékk ég ekki einn einasta fisk.

Sléttuhlíðarvatn

Óhætt er að mæla með Sléttuhlíðarvatni, sjá hér.  Nægur fiskur í vatninu og virðist vera nokkuð jöfn veiði sama hvar maður er staddur á bakkanum. Að vísu fundum við ekki eina einustu af umræddum sjóbleikjum, aðeins staðbundin urriða.  Annars frábær túr og komum heim með 15 stk. á bilinu 1/2 til 1 pund.

Hítarvatn 22.-24.júní

Skruppum í jómfrúarferð í Hítarvatnið.  Komum okkur fyrir í hrauninu austan við Hólm og veiddum mest þar og inn að Hólmi, en kíktum líka í víkina vestan við tangann. Fengum 2 á spún, 2 á flugu og 8 á maðk. Ekkert síðri veiði rétt fyrir hádeg heldur en að kvöldi. Nokkur vindur sem losaði okkur við fluguna sem varð skæð þegar lygndi. Mikil traffík við vatnið og margar sögur af fyrri afrekum (60+ stykki á 4 tímum o.s.frv.) Fórum sátt miðað við afla annarra á staðnum þótt stærð fiska hafi ekki verið neitt rosaleg, frá 1/2 pundi og upp úr.

Meðalfellsvatn 21.maí

Við bræðurnir skruppum í Kjósina um kl.18 og áttum verulega rólega stund fram til kl.19 þegar ég missti einn á skerinu út frá syðri bátaskýlunum sem tók Peacock. Rólegheit alveg fram til kl.22 þegar vatnið stillti verulega og ég náði tveimur urriðum á eigin þurrflugur framan við syðri bátaskýlin.