Kleifarvatn – 25.sept.

Ég get svo svarið það að veðrið var hreint ekki eins og spáin sagði til um. Ef það sem kom ofan úr loftinu við Kleifarvatnið fyrir hádegi í dag var lítilsháttar rigning og vindurinn aðeins 1-3 m/sek. þá er eitthvað farið að slá útí fyrir mér. Ásetningurinn var að komast í það minnsta í eina veiði áður en dagatalið segði mönnum að nú væri mál að hætta og það tókst. Að vísu var lítið um aflabrögð hjá okkur þremur sem fórum, aðeins einn veiðimaður varð var við fisk undir Vatnshlíðinni, aðrir ekkert. Nú eru aðeins 5 dagar eftir af dagatalinu og ef veðurspámenn ljúga ekki þeim mun meira, þá eru nú ekki miklar líkur á að maður fari meira þetta haustið.

Úlfljótsvatn, 3.sept.

Eftir erilsama viku í vinnunni er fátt betra heldur en smeygja sér í vöðlurnar, taka nokkur skref útí og baða flugur. Svona getur maður tekið jákvæða pólinn í hæðina þegar enginn fiskur kemur á land, ekki eitt einasta högg, en veðrið leikur við mann og haustlitirnir farnir að gægjast fram í náttúrunni. Annars hef ég grun um að Mosó gengið hafi bara gert nokkuð góða ferð í Hlíðarvatn í Hnappadal þrátt fyrir nokkurn vind og eru þau örugglega komin með tæplega 30 fiska á land þegar þetta er skrifað, og kvöldið eftir.

Uppfært kl.22:30 – Lokatölur Mosó gengisins í Hlíðarvatni urðu 78 stk. mest bleikja, allt tekið á maðk. Já, Hlíðarvatn í Hnappadal lætur ekki að sér hæða.

Langavatn, 27. ágúst

Jæja, ekki varð dagsferð veiðifélagsins nein frægðarför, en ágæt samt. Í stuttu máli; fjórar bleikjur á land, tvær hjá kvennadeild Mosó á maðk (eins ræfilslegan og unnt var) og sitt hvor hjá okkur hjónunum, Héraeyra og Dentist þ.e. flugurnar ekki við hjónin. Vorum staðsett vestan við vatnið, nærri útfalli Langár og skimuðum allt svæðið frá útfalli og inn að syðri enda Langavatnsmúla. Hvorki smár né stór urriði lét sjá sig þannig að alvöru tilraunaveiði með hrognaflugur verður að bíða betri tíma. Áhrif vatnsmiðlunar í Langá og þar með lífríkið í vatninu voru nokkuð sláandi, yfirborðið hefur lækkað um hátt á annan metra frá því að við voru við vatnið í lok júlí enda vatni veitt ótæpilega í ánna. Slíkar sveiflur í vatnshæð verða eflaust til þess að fiskurinn færir sig um set og velur sér síður hentug búsvæði heldur en ella. Kjörlendi stórurriða og kuðungableikju stóðu nánast á þurru og maður fer að hallast að því að ‘Langavatn var eyðilagt með vatnsmiðlunarstíflunni’ eins og kemur fram í Stangaveiðihandbókinni 2.bindi, bls.95 .

Smá uppfærsla á leiðarlýsinguna inn að vatninu að vestan; án fellihýsis vorum við ekki nema 40 mín. frá Fjallgirðingunni inn að vatninu. Munaði þar mestu um að búið er að lagfæra veginn á verstu köflunum ofan við vaðið á Langá. Væntanlega hefur veiðifélagið annast þessar lagfæringar þar sem slóðinn þjónar veiðistöðum 81 og uppúr.

Hlíðarvatn, Hnappadal 20. & 21. ágúst

Það er viss hefð fyrir því hjá veiðifélaginu að taka eina helgi í ágúst við Hlíðarvatn og nú sem áður varð Menningarnæturhelgin fyrir valinu. Mosó mætti á staðinn síðdegis á föstudag og tók til óskiptra málanna fram í myrkur við að særa upp fiska með maðk á floti. Alveg þokkaleg viðbrögð og nokkrir fallegir fiskar lágu í kæli eftir kvöldið. Reykjavíkurdeildin mætti það seint á staðinn að stangirnar voru bara látnar hvíla sig eftir ferðalagið.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Laugardagurinn rann upp, ekki alveg eins fagur og hér á myndinni en þokkalegur samt. Nokkur vindur þannig að flugunum var leyft að sofa frameftir. Ekki var alveg eins mikið líf í tuskunum og kvöldið áður, en mér tókst samt að særa upp þrjá urriða á spún við Stjánaströnd. Þegar vind stillti eftir hádegið voru flugurnar vaktar og þær settar í vinnu. Við hjónin tókum svolítið bland í poka á Peacock og græna og orange Nobbler, bleikjur og urriða fram að og eftir kvöldmat en brósi fór alveg á kostum með hrogn á floti og reif upp rúmlega 20 urriða á stuttum tíma inn af Tótutanga. Úrræðagóður strákurinn í maðkaleysinu. Nú er bara að kynna sér hrognafræðin.

Sunnudagurinn, eða Stóri-Bleikjudagurinn eins og hann verður kallaður hér eftir, rann upp fyrir okkur hjónum um 7:30 með yndislegu veðri, hita, algjöri stillu og fiskum að vaka undan Lárulág. Jú, við hjónin drifum okkur í vöðlurnar og ætluðum aðeins að stríða þessum tittum sem voru að vaka, en svo kom áfallið. Þetta voru bara ekkert einhverjir tittir, heldur heilu torfurnar (50-80 stk. pr. torfu) af bleikju sem dreifðu sér með reglulegu millibili við ströndina í aðeins ökkladjúpu vatni. Við fyrstu skref út í vatnið varð það eins og suðupottur á að líta þegar styggð komst að fiskinum. Bleikjan var greinilega farinn að hópa sig fyrir hryggningu enda flestir fiskarnir farnir að taka á sig riðbúning, misjafnlega mikið þó og fáir svo mikið að þeir sýndu flugu ekki áhuga. Svo mikill var atgangurinn og veiðin að við hjónin vorum fljót að fá nægju okkar og settum okkur því reglu; aðeins mátti taka tvo fiska á hverja tegund flugu, þá varð að skipta. Með þessu náðum við ágætri yfirsýn og reynslu með misjafnar flugur í bleikjuna; flestar gáfu í 1 – 3 kasti, fáar ekki. Stuttur listi yfir þær flugur sem gáfu gæti verið; Peacock í öllum mögulegum stærðum og útfærslum (yfirburðir), Ripp, Rapp, Rupp, Davy Jones, Knoll, Connemara Black, Watson’s Fancy púpa, Mobuto, Tailor, hefðbundið og flashback Héraeyra. Þegar svo Mosódeildinn reis úr rekkju toppaði mágkonan ferðina með því að taka sína fyrstu fiska á flugu og þótti það sko ekki leiðinlegt. Allir prófuðu eitthvað nýtt, gerðu tilraunir með flugur, breytilegan inndrátt og æfðu sig í að bregðast við naumum tökum bleikjunnar; sannkallaður fluguveiðiháskóli.

Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að aðeins fór að draga úr veiðinni og maður þurfti að hafa aðeins meira fyrir hverjum fiski en veiðin hélst alveg fram undir kvöldmat þegar mál var komið að pakka saman og koma sér heim. Eitthvað fór talning afla á milli daga í rugl, en samtals afli var eitthvað á þá leið að Mosó var með 42 fiska, mest urriða og töldu þar mest 25 stk. á hrogn. Reykjavíkurdeildin var með 7 urriða og 54 bleikjur, samtals 61 fisk. Allt fiskar af ágætri ‘matfiska stærð’, tæpt pund og upp í tvö. Hér eru ótaldir allir fiskar sem var sleppt eða sluppu. Toppur sumarsins.

Úlfljótsvatn, 9.ágúst

Skyndiákvörðun og skreppur í Úlfljótsvatnið rétt fyrir kvöldmat hjá okkur hjónunum. Ákváðum að prófa inn af Steingrímsstöð og ekki sveik staðurinn mig. Tók eina hálfs annars punda bleikju á Knoll og svo tvo titti sem fengu líf. Einn mínus í ferðinni, það gerði nokkuð góðan austan strekking sem eyðilagði aðeins köstin hjá okkur þannig að við færðum okkur í sunnanvert vatnið gengt Brúarey á leiðinni heim. Töluvert líf á þeim slóðum og nokkrir veiðimenn. Frúin setti í einn titt á Pólskan PT, en meira varð nú ekki úr veiðinni.

Langavatn, Borgarbyggð 30.-31.júlí

Þrátt fyrir frekar óheppilega veðurspá ákvaðum við hjónin að skreppa í Langavatnið á laugardaginn. Eitthvað lét ævintýraþráin á sér kræla þannig að við ákváðum að prófa vatnið að vestan í þetta skiptið, nokkuð sem okkur hefur langar í töluverðan tíma. Fyrir þá sem hug hafa á þessari leið, þá eru hér helstu tölur og lýsingar. Frá Borgnesi að afleggjaranum að Grímsstöðum [535] eru 9 km. Næstu 13 km. eru eftir [535] og inn á [536] að Grenjum þar sem beygt er inn á slóða við Fjallahlið. Frá hliðinu, meðfram Langá, framhjá Sandvatni og inn að stíflu við Langavatn eru síðan 11 km. eftir mis lélegum slóða þar sem skiptast á brekkur, óræstir lækir með nokkuð krappri aðkomu. 4×4 vegur þar sem lágadrifið kom sér vel með fellihýsið í eftirdragi. Þessi síðasti spotti tók 1 klst. í akstri.

Smelltu fyrir stærri mynd

Langavatn tók á móti okkur með blíðu sem hvergi var getið í veðurspá og við þóttumst himinn höndum tekið, en fljótlega gekk þó á með skúrum og nokkrum vindi þannig að flugu varð vart komið út.

Sunnudagurinn rann upp með töluverðum blæstri og ljóst að ef við ætluðum að krækja í einhvern fisk yrðum við að taka fram kaststangir og spún sem við og gerðum. Eftir nokkurn barning varð ég var við einhvern óróa á spúninum sem reyndist vera 15 sm. ungviði sem kokgleypti þríkrækjuna þannig að honum varð ekki hugað líf. Eitthvað dró þetta úr áhuga mínum en hélt þó áfram.

Smelltu fyrir stærri mynd

Næsta taka var heldur hressilegri, ákveðið, þungt og tekið vel út af hjólinu, bremsan sett á. Eftir 5 mín. sýndi fiskurinn sig og fór ég þá með bænirnar mínar að 6 punda girnið mitt héldi. Næstu 5-10 mín. fóru síðan í að skiptast á inndrætti og eftirgjöf á bremsu sem lauk með því að á land kom þessi líka flotti urriði, 8 pund og 65 sm. Nokkru síðar setti konan í smábleikju sem fékk líf og þar á eftir tók ég eina rúmlega pund.

Um kvöldið gáfum við upp alla von að vindinn, sem hafði aukist verulega lægði eitthvað, tókum saman og fikruðum okkur heim á leið. Hvorugt alveg sátt við að fara að svo komnu máli því við sáum til fleiri bolta urriða á svæðinu og hefðum gjarnan viljað spreyta okkur við þá með flugu. Já, talandi um flugu. Þegar lygndi var nóg af flugu á svæðinu og ég fékk eins og venjulega að kenna á því. Í þetta skiptið hefði ég getað leikið staðgengil Rocky með bólgið auga eins og eftir hnefaleikakeppni. Já, það er til einhvers að telja upp öll möguleg ráð gegn flugnabiti og gleyma svo öllu draslinu heima.

Einkavatn, 25.júlí

Ekki lék nú lánið við mig eins og konuna í kvöld. Við skruppum í vatn sem ekki má nefna eftir kvöldmat. Ekki leið á löngu þar til frúin tók einn vænan, ég aftur á móti missti tvo og sleppti tveimur unglingum. Kom samt nokkuð sáttur heim, frábært að komast út eftir erilsaman dag í vinnunni, tæma stressið og hlaða batteríið fyrir morgundaginn.

Ónefndavatnið, 20.júlí

Við bræðurnir skruppum rétt út fyrir bæjarmörkinn í ónefnt vatn um kvöldmatarleitið. Smá gola, ekkert til að gera sér rellu út af og aðeins flugustangir með í för. Ég tók þrjá urriða á Pólskan PT fyrir ljósaskiptin og bætti svo þremur við á svartan Nobbler þegar fiskurinn leitaði upp á grunnið í kyrrðinni. Brósi hélt sig við fluguna, enda ekki um neitt annað að ræða og auðvitað tók hann einn á eigin flugu, svarta pöddu með silfurvöfum og rauðu skotti. Flottur skreppur í frábæru veðri.

Úlfljótsvatn, 16.júlí

Loksins, loksins. Úlfljótsvatn hefur verið lagt að velli. Við hjónin fórum í Úlfljótsvatnið í gær ásamt veiðifélögum okkar og tókst að brjóta múr gæftaleysis í vatninu með sjö bleikjum frá tæpu pundi og upp í eitt og hálft. Það var ekki fyrr en vel var liðið á kvöldið að fiskurinn gaf sig að einhverju ráði, allir á Rolluna og Peacock. Frúin skákaði mér með fjóra, ég með þrjá en það hefði getað orðið jafntefli hefði ég ekki asnast við að missa eina væna þegar ég ætlaði að grípa hana úti í vatni. Datt í hug nýr málsháttur; Ekki er bleikja í hendi fyrr en á bakkann er komin. Veiðifélagar okkar voru ekki eins lukkulegir þrátt fyrir lofsamlegar tilraunir með flugur á floti og flugustöng; það gengur bara betur næst.

Uppfærði kortið af álitlegum veiðistöðum í vatninu ásamt því að bæta Rollunni við sem flugu júlí-mánaðar, sjá Úlfljótsvatn.

Langavatn 8.- 10.júlí

Næstum upp á sömu daga og í fyrra, brá veiðifélagið sér í Langavatn (sjá ferð 9.-11.júli 2010) og gerði bara ágætan túr. Vatnið er alveg að smella í gang, lífríkið að kvikna og fiskurinn að færa sig upp úr dýpinu. Í þetta skiptið komum við okkur fyrir á ströndinni undir sæluhúsinu við Réttarmúla, en hreint ekki á sama stað og 21.ágúst í fyrra því þá hefðum við þurft að draga vagnana með bátum. Vatnið kemur sem sagt vel inn í sumarið, í það minnsta 1 metra hærra í því en í fyrra, spá-ný brú yfir Beilá og mikið búið að gera við veginn þarna upp eftir. Töluvert af  fiski á ferðinni, mikið af smárri bleikjur og Murtu, en einnig vænar bleikjur á bilinu 1-2 pund, þar af 4 sem lentu í kæliboxinu hjá Reykjavíkur deildinni og 3 hjá Mosó. Reykjavíkur deildin tók alla sína á ofvaxinn Peacock, en Mosó á maðk. Allri Murtu og litlum tittum sleppt, eitthvað á bilinu 8-10 stk.

Hlíðarvatn, Hnappadal 4. – 7. júlí

Eftir nokkrar vegabætur reistu báðar deildir veiðifélagsins búðir sínar á bökkum Hlíðarvatns í landi Heggsstaða að kvöldi mánudagsins 4.júlí. Veðurspáin gerði ráð fyrir léttum vindi frá 0 – 8 m/sek. úr öllum áttum sem gekk eftir þannig að maðkastangirnar voru hafðar til taks.

Við höfðum frétt af lélegri veiði í vatninu vikuna á undan, fáir og litlir fiskar, þannig að væntingarnar voru lágstemmdar sem skilaði sér í gríðarlegum fögnuði yfir hverjum fiski sem kom á land. Mánudagskvöldið var rólegt, nýttum það helst til að ná áttum við vatnið sem hafði tekið miklum breytingum frá því í fyrra. Þriðjudagurinn var ágætur, hraðfleygt logn og mest veiði um kvöldið upp í ölduna við Tótutanga. Miðvikudagurinn rann upp með logni og glampandi sól, hreinni rjómablíðu þannig að eiginkonan stóðst ekki mátið heldur vatt sér í dressið og út í vatn með flugustöngina, fyrir morgunverð. Fljótlega fór Mosó-deildinn af stað og tók til við að landa hverjum fiskinum á fætur öðrum þannig að fljótlega varð útséð um hvor deildin ætlaði sér vinninginn. Kvennpartur Mosó deildarinnar fylltist þvílíku kappi rétt fyrir kvöldmat að nánast ekkert varð eftir af fiski í vatninu fyrir kvöldveiðina og ávann sér þannig inn eitt örnefnið enn við vatnið, Lárulág. Endanlegar aflatölur urðu þær að Reykjavíkur-deildin tók samtals 21 fisk á tvær stangir, þar af 1 á Beiki, 1 á Watson’s Fancy púpu, 2 á Peacock og 1 á svartan Toby, restina á maðk. Eins og við var búist átti Mosó-deildin vinninginn með 33 fiska, allt á maðk. Hef lúmskan grun um að kynjahlutfall hafi verið okkur bræðrum óhagstætt, ekki orð um það meir.

Smellið fyrir stærri mynd

Ég notaði tækifærið til smá náttúruskoðunar og myndatöku af nokkrum íbúum vatnsins, smá efnisöflun fyrir bloggið. Náði mjög góðum myndum af nokkrum vorflugupúpum sem ég hyggst nota í smá umfjöllun um litlar flugur og trú manna á þeim. Auðvitað verður fjallað um vinsælustu eftirlíkingu vorflugupúpunnar, Peacock sem sést hér til hliðar í hópi ‘original’ púpa úr Hlíðarvatni.

Að lokum er rétt að árétta að GPS hnit örnefna við vatnið; Tótutangi, Lárubotn, Lárulág, Pétursklettur og Stjánaströnd, verða ekki gefin upp að svo komnu máli.

Ónafngreint vatn, 30.júní

Það leynast margar veiði- og náttúruperlur á Íslandi. Mér stóð til boða að prófa eina svona perlu í gær í nágrenni Reykjavíkur. Um er að ræða vatn sem er í einkaeigu, hluti jarðar þar sem aðeins ábúandinn og fjölskylda hans hafa stundað veiði. Og þvílík perla. Vatnið tók á móti okkur með fínum pundara í þriðja kasti hjá konunni og áttunda kasti hjá mér, báðir á Pólskan PT.

Ef ekki hefði verið fyrir umferð á vatninu hefði ævintýrið haldið áfram, en við nýttum tímann vel og tókum fram kaffibrúsann og matarkexið (sem kemur við sögu á hverjum degi), góndum út í loftið og nutum umhverfisins. Þegar bátsverjar höfðu fengið nóg (14 stk. held ég) héldum við áfram og dagurinn endaði í sex fínum fiskum, allir á Pólskan PT þrátt fyrir tilraunir með aðrar flugur eins og t.d. Nobbler, Krókinn o.fl. Það verður nú annars ekki af þessari flugu skafið að hún skildi fanga þessa fiska, því næstum allir voru á fullu í síli og því hefði t.d. Nobbler eða Black Ghost átt að eiga betur við. Flottur staður og ég er alveg vís með að suða í góðum fjölskyldumeðlim um leyfi til að prófa hina veiðistaðina við vatnið, því aðeins einn þeirra (suðurbakkinn) var lagður að velli í gær.

Hítarvatn, 24. – 25. júní

Hér verður hvorki sögð frægðarsaga af veiðimönnum né konum. Við hjónin brugðum okkur bæjarleið á föstudaginn vestur í Hítarvatn. Veðurspáin sagði til um NA og A átt um helgina, létta metra á sekúndu og þokkalegasta hita. Við hreiðruðum um okkur í hraunjaðrinum austan við Hólm og vorum bara nokkuð heppinn að vera ekki alveg við vatnið, slík var nepjan sem stóð af vatninu. Brugðum okkur í vöðlurnar upp úr kl.21 og vorum að í Hrauntöngunum til að ganga eitt án þess að taka eitt einasta kvikindi á land. Jæja, laugardagurinn yrði bara betri.Við tókum daginn seint, notuðum morguninn í marga Latté og fylgdumst vel með þeim sem gengið höfðu inn fyrir hrauntunguna áður en við tókum okkur til. Þar sem töluverður asi virtist á veiðimönnum við vatnið og flest sem benti til að lítið væri um afla, ákváðum við að fara inn að víkinni undir Hólmanum. Höfðum farið í þá vík í fyrra og gengið ágætlega í svipaðri vindátt. Þrátt fyrir þokkalegar aðstæður var mjög lítið um líf, en eftir langa mæðu varð ég var með Orange Nobbler (stuttur) og það var einmitt lengdin á fiskinum sem ég krækti í og endaði pönnusteiktur með smjöri og sítrónupipar í kvöldverð. Síðar um kvöldið reyndum við aftur fyrir okkur, með spún sökum vinds, á töngunum undir Hólmi og tókum sitt hvorn fiskinn, ég áfram í smáfiskinum en konan tók tæplega pundara. Síðan ekki söguna meir, og líkur þar með veiðiþætti helgarinnar, ef undan eru skilin þau orð sem höfð eru eftir Finnboga í Hítardal að þetta vor væri það lélegasta í vatninu í það minnsta í fjögur ár. Okkur tókst að telja saman 12 fiska hjá þeim tæplega 20 veiðimönnum sem við sáum til og áttum orðastað við um helgina.

Meðalfellsvatn, 21.júní

Eins gott og veðrið var í höfuðborginni í gærkvöldi, var það ekki alveg eins stillt í Kjósinni. Þegar við hjónin mættum á svæðið upp úr kl.20 var strekkings vindur og ekki álitlegt að koma út flugu en við létum okkur hafa það og komum okkur fyrir rétt vestan við Hljóðasteina. Um leið og vindur fór að ganga niður tók fiskurinn við sér og frúin setti í flottan punds urriða með Pólskum Pheasant Tail. Sjálfur var ég í ungbarnaeftirlitinu, tók þrjá titti á Peacock, Pólskan PT og Rolluna. Töluvert af fiski að vaka en mér sýndist að við værum þau einu sem eitthvað tókum af þeim 3-4 sem voru á staðnum.

Kleifarvatn, 12.júní

Báðar deildir veiðifélagsins fóru í Kleifarvatnið í gær. Byrjuðum undir Syðristapa (Indjánanum) í rjómablíðu þar sem konan fékk eitt högg og ég setti í einn titt á stuttan svartan Nobbler, aðrir ekkert. Enn og aftur má kvarta yfir veðrinu, það var allt of bjart. Síðari hluta dags tókum við okkur upp og fórum undir Vatnshlíðina miðja þar sem ég setti í tvo titti, annan á stuttan orange Nobbler en hinn á mjónu með gylltum kúluhaus. Veiðifélagarnir tóku tvo á maðk. Ég gerði mér nokkrar vonir um að fiskurinn gæfi sig þegar sólin fór að setjast á bak við Hellutinda, en það brást. Þegar við tókum okkur saman upp úr kl.22 var töluverður fjöldi veiðimanna mættur undir Vatnshlíðina og alveg inn í botn víkurinnar við Lambhaga þar sem fiskurinn (væntanlega tittir) sýndi listir sínar í yfirborðinu af miklum móð. Við hjónin teljum fullreynt með veiði í Kleifarvatni upp úr hádegi og frameftir degi. Annað mál með kvöld og miðnæturveiði ef eitthvað er að marka allt það líf sem var í vatninu á þessum slóðum rétt fyrir kl.23 í gær. Kannski við laumust eitthvert kvöldið í stillunni? 

Meðalfellsvatn, 7.maí

Karladeild veiðifélagsins, þ.e. við bræðurnir skruppum í Meðalfellsvatnið rétt fyrir hádegið í rjómablíðu. Komum okkur fyrir austan Hljóðasteina og teygðum úr taumum. Brósi átti vinninginn að öllu leiti í dag, varð fyrstur var, tók fyrsta fiskinn og flesta, samtals 8, þar af þrjá mjög þokkalega. Sjálfur vígði ég nýju Joakim’s stöngina með því að taka 3 í minni kantinum sem fengu líf. Þær flugur sem gáfu voru; Buzzer svartur/silfraður, Buzzer svartur/rauður og auðvitað Vinstri græn – wired. Frábær ferð í alla staði.

Þegar heim var komið beið skemmtilegur póstur eftir mér, haldiði að karlinn hafi ekki bara verið dreginn út af póstlista Veiðiheims og unnið flugubox ásamt tveimur öðrum. Já, það getur borgað sig að eiga vini á Facebook.  Á morgun er það svo Klambratúnið með ‘hinum’ Joakimunum.

Meðalfellsvatn, 1.maí

Loksins kom að því í ‘sumar’, fyrsti fiskurinn og það bara nokkuð vænn urriði úr Meðalfellsvatni, ríflega 1 pund sem auðvitað fékk líf. Við veiðifélagarnir og hjónin smelltum okkur upp á von og óvon í Kjósina eftir hádegið í dag þrátt fyrir frekar kuldalegt veður. Auðvitað snjór yfir öllu og aðeins 1-2°C en algjört logn og í raun einstök blíða. Reyndum ýmsar flugur, púpur og nobblera, en sú sem gaf var auðvitað Vinstri græn – wired.

Vífó, 3.apríl

Aðeins meiri kastæfingar um og eftir hádegi í Vífilsstaðarvatni. Nokkrir í svipuðum erindagjörðum þegar mig bar að, en þeim fækkaði fljótlega. Vorum aðeins tveir eftir um kl.14 en þá dreif að nokkurn mannskap. Varð svo sem var við fisk en tökurnar voru svo naumar að ekkert hékk á. Prófaði helst þyngdar púpur; Pólska Pheasant Tail með kúluhaus, Red Tag og svo svartan og rauðan Buzzer. Jæja, 46. aldursárið byrjaði alveg eins og því 45. lauk, með öngul í rassi.

Meðalfellsvatn, 2.apríl

Létt kastæfing við Meðalfellsvatnið í dag í c.a. 2 klst. Vatnið orðið íslaust að mestu, aðeins smá ræma við Hljóðasteina er þakin íshröngli ásamt Vatnsvíkinni. Sáum töluvert líf í Hjarðarholtsvík og út af Víkurtöngunum, en því miður var fiskurinn ekki í neinu stuði.

Haustveiði, Hlíðarvatn 9.okt.

Eins og tíðarfarið hefur verið síðustu vikur er fátt sem mælir gegn því að skreppa til veiða og njóta haustlita og veðurblíðu. Og, það var einmitt það sem við hjónin í ónefndu veiðifélagi ákváðum á föstudag. Við sem sagt hringdum á undan okkur vestur í Hnappadal og fengum leyfi að renna í Hlíðarvatn enn eitt skiptið á þessu ári. Afraksturinn varð nú ekkert rosalegur, eiginkonan tók 6 urriða á Black Ghost (eins og venjulega) og ég tók 2 á Svartan Dýrbít. Aðrir tveir komu á land á maðk og þar með er sagan öll. Sjálfur eltist ég töluverðan tíma við bleikjur inn að Álftatanga en þær voru greinilega í hryggningarstuði og vildu ekkert með flugurnar mínar hafa. Urriðarnir sem við hjónin tókum skiptust jafnt í hryggnur og hængi. Hryggnurnar tómar eða með óþroskuðum hrognum og hængarnir fullir af æti. Hryggningu urriðans því greinilega lokið þetta haustið og nú keppast þeir við að fita sig fyrir veturinn. Það vakti athygli mína að töluvert var af Vorflugu á ferðinni sem skv. fræðunum er með seinasta móti árs. Svona hefur nú veðráttan verið mild í haust.

Af sögunni endalausu; Vatnshæð. Við áttum smá spjall við Albert á Heggsstöðum og sagði hann okkur að yfirborðið hafi ekki orðið lægra í 70 ár í Hlíðarvatni. Hólmi einn í vatninu, sem í versta falli hafi hingað til gægst upp úr því, hafi komið allur upp í sumar og til séu mælingar m.v. eðlilega vatnshæð upp á 7 m dýpi á þennan hólma. Í byrjun ágúst skaut ég á að 3 m vantaði í vatnið og miðaði ég þá við það sem ég hef séð hæst í því, sem var greinilega vanmat. Annars hefur aðeins hækkað í vatninu síðustu vikur, lítið þó. Albert taldi að þurrkarnir í sumar og lélegur vatnsbúskapur komi örugglega til með að hafa áhrif á nýliðun næstu ára.

Til gamans útbjó ég þetta kort af vatninu og teiknaði inn í það yfirborð vatnsins eins og ég upplifði það í sumar.