Nautatangi, Krókurinn, fyrsta kast, murta …… o.s.frv. Þvílík býsn af murtu og mjög smávaxinni kuðungableikju sem var á ferðinni í dag. Ég harðneita að telja alla tittina með sem við hjónin settum í með ýmsum flugum á tanganum í dag, en svo…… færði ég mig örlítið til, nýtti mér smá kannt út frá einni tánni og skipti yfir í eins klassískan Peacock og mér var unnt og setti í þessa líka fínu bleikju og skömmu síðar eina í viðbót. Frábært að sjá að það eru ekki bara krílin sem hafa yfirtekið veiðistaðina austan Öfugsnáða núna.
Heyrði af veiðiverði sem kíkti á kortin okkar að menn hefðu lítið annað haft upp úr krafsinu síðustu daga heldur en grunnslóðarfisk, þ.e. murtu og smávaxna bleikju, þannig að ég má víst bara vel við una að ná tveimur fallegum í soðið.
Eftir flotta ferð á Melrakkasléttuna var ákveðið að fara eystri leiðina suður til Reykjavíkur. Eins og nærri má geta urðum við að stoppa í það minnsta einu sinni á leiðinni og varð Mjóavatn í Breiðdal fyrir valinu. Nokkrum sinnum hefur maður séð systurvatnið, Kleifarvatn frá þjóðveginum og oft verið hugsað til þess að bleyta færi. Þrátt fyrir að Mjóavatnið sé öllu minna en Kleifarvatnið, þá er það ekki síður aðlaðandi þar sem það kúrir á milli ásanna SSA við Kleifarvatn. Að vatninu og austur með því liggur alveg ágætis slóði og tilvalið fyrir þá sem vilja kannski örlítið meira næði að renna inn að vatninu frá þjóðveginum um Breiðdal.
Skv. upplýsingum að Innri-Kleif eru eitthvað færri en stærri urriðar í Mjóavatni heldur en Kleifarvatni, en eitthvað voru þeir uppteknir við eitthvað annað en kíkja eftir mínum flugum á þriðjudaginn. Að vísu setti ég í fjóra fiska og þar af einn þann minnsta sem ég hef í nokkurn tíma tekið á flugu. Sá var vart meira en 10 gr. og á stærð við jafn þungan Toby-spún. Því miður gafst mér ekki ráðrúm til að mynda kvikindið, svo mikið var mér í mun að sleppa krílinu en birti hér nokkuð góða eftirmynd af honum frá Abu Garcia.
10 gr. Toby
Þrátt fyrir að ég rölti hringin í kringum vatnið fann ég ekki neinn af þessum stóru en er ekki frá því að helst væri unnt að nálgast þá í suð-austur horni vatnsins þar sem hirðanleg stærð á fiski kom á hjá mér.
Það hefur verið nokkuð lengi á dagskránni að kanna Melrakkasléttuna og einhver af þeim vötnum sem þar leynast og nú varð loks af því. Í þetta skiptið vorum við hjónin ekki ein á ferð því vinnufélagi minn Reynir Ólafsson slóst í för með okkur. Raunar má segja að þetta hafi nú snúið á hinn veginn, við slógumst í för með Reyni því hann er að Norðan, uppalinn að Núpi í Öxarfirði þangað sem við renndum á fimmtudag í síðustu viku og settum upp búðir í túnfætinum.
Fyrstu vötnin sem urðu fyrir valinu á föstudag voru Veiðikortsvötnin, Hraunhafnarvatn og Æðarvatn. Heimamaðurinn, Reynir var okkar duglegastur og tók 5 bleikjur og einn urriða á meðan við hjónin vorum mest í tittunum. Frúin var með 4-6 sem öllum var sleppt sökum skorts á stærð en ég var með eina þokkalega og þremur sleppt. Við gerðum stutt hlé í eystra vatninu og skutumst í Æðarvatnið þar sem heimamaðurinn hafði nokkra reynslu af stórum urriða. Því miður voru þeir stóru ekki viðlátnir eða vildu ekkert sem við buðum en þrjár bleikjur ánetjuðust maðk Reynis. Það var ljóst að fiskurinn hélt með sínum manni.
Á bakaleiðinni prófuðum við aftur fyrir okkur í Hraunhafnarvatni, nú við veginn sem liggur eftir sjávarkambinum. Þar kræktum við hjónin í sitt hvora bleikjuna sem varð til þess að aðeins réttist úr sjálfsálitinu. Þegar svo vindurinn tók að sperra sig aðeins undir kvöldmat tókum við okkur saman og renndum aftur til baka að Núpi þar sem laugardagurinn var planaður yfir kaffibollum og töluverðum flettingum í veiðibókum. Og nú taka varúðarorð til lesenda við.
Þegar veiðimenn skipuleggja sig á síðustu metrunum er eins gott að vera öruggur á heimildum. Við studdumst töluvert við ritaðar heimildir frá árinu 2006 sem e.t.v. voru okkar mistök því margt getur breyst á 7 árum eins og sannaðist á laugardeginum. Við urðum næstum sek um veiðiþjófnað og tilviljun ein réði því að svo varð ekki. Við völdum okkur vatn eitt sem áður var utan alfaraleiðar en hefur hin síðari ár komist í ágæta tengingu við vélfákaslóðir. Meira ætla ég ekki að segja um vatnið sjálft því þannig var að þegar við mættum á staðinn og vorum búinn að koma okkur í gallana, bar þar að konu eina sem spurðist fyrir um hver við værum og hvað við hefðum í hyggju. Ég verð nú að játa að mér brá nokkuð við, kynnti mig, tjáði henni að við hefðum í hyggju að reyna fyrir okkur í vatninu og spurði til baka hvernig stæði á hennar ferðum á þessum slóðum. Og viti menn, þar var komin landeigandinn að vitja um netalagnir sínar í vatninu. Eftir vinsamlegt spjall og skoðun í aflakistu landeiganda þar sem leyndust einhverjir þeir fallegustu fiskar sem ég hef í langan tíma séð veitti hún okkur góðfúslega heimild til að reyna fyrir okkur í vatninu, en bað okkur um að hafa ekki hátt um það. Sagði hún að vatnið væri nytjað til netalagna, ekki væri algengt að fiskur kæmi á stöng og það gekk eftir. Við urðum ekki vör við fisk, en fengum þess í stað yfir okkur nokkuð hressilega rigningu sem fékk vatnið til að bulla og sjóða eins og hraðsuðuketil sem varð væntanlega til þess að fiskur leitaði nokkuð djúpt.
Hjónin í Deildarvatni – Ljósm. Reynir Ólafsson
Við ákváðum því að færa okkur austur fyrir Fjallgarðinn og athuguðum með veiðimöguleika í Kollavík en var tjáð að ekkert veiddist á stöng í þeirri góðu vík. Það er væntanlega af sem áður var og ekkert við því að segja og við renndum því eftir gamla þjóðveginum í átt til Raufarhafnar, sættum lagi og fengum leyfi að reyna fyrir okkur í Deildarvatni. Ekki fer mörgum sögum af veiði í þessu annars ágæta vatni en okkur þótti sjálfsagt að prófa. Frúin setti í fisk en missti en aðrir urðu ekki varir þrátt fyrir nokkrar tilraunir í golunni. Eftir nokkurt stopp héldum við því heim að Núpi, heldur aum með skottið á milli lappanna eftir fisklausan dag. Sunnudagurinn skildi tekinn með trompi og ókunnar slóðir kannaðar.
Eftir nokkuð vindasama aðfaranótt sunnudags í túnfætinum fetuðum við okkur hægfara torfærur frá Blikalóni og inn að Rifsæðavötnum. Okkur var tjáð að við næðum líklega ekki nær vötnunum á Grand Vitara en í 2 km fjarlægð og þyrftum því að ganga restina. Með lagni tókst okkur þó að tipla þetta aðeins lengra og gangurinn varð aðeins 1,2 km inn að vatni. Kannski rétt að geta þess að spottinn frá Blikalóni og inn að vatni er allur um 8,3 km og mjög grófur á köflum. Ég hvet menn til að lesa sér til um Rifsæðavötn í 4.bindi Stangaveiðihandbókar Eiríks St. þó ekki væri nema til kynnast átaki Árna Heiðars Gylfasonar á þessum slóðum.
Rifsæðavötn
Heldur var vatnið gruggugt eftir hressilegan gust um nóttina en smámsaman settist í vatninu og fór að sjást til botns. Þar sem við vorum öll í okkar jómfrúarferð í þetta vatn reyndum við nokkuð blint fyrir okkur beggja megin við og fyrir tanganum sem gengur fram í vatnið vestanvert án þess að verða vör við fisk. Reyndar setti frúin í titt í víkinni norðan við tangann en það var nú allt og sumt í nokkra klukkutíma. Það var ekki fyrr en heimamaðurinn lagði í gönguferð út á nesið gengt bústað Árna Heiðars að eitthvað fór að gerast. Fiskurinn hafði greinilega fært sig undan vindi upp að nesinu og það var á í næstum hverju kasti þá stuttu stund sem vindurinn stóð á land. Reynir átti vinninginn og landaði 10 urriðum og bleikjum í bland á meðan ég setti í fjóra fiska og frúin og yngra afkvæmið okkar í einn hvort um sig. Allt með eindæmum fallegir fiskar og vel haldnir. Eins og áður segir var eins og golan bæri með sér fiskinn því um leið og vindátt breyttist tók hann síður. Þar sem okkar beið sunnudagssteik í öllu sínu veldi hjá húsráðendum að Núpi var okkur hvorki til setunnar né tilfærslu boðið og við héldum til baka, meira en ánægð með þetta frábæra veiðivatn. Stór og fallegur fiskur sem tók grimmt þegar við loksins hittum á hann. Aldrei að vita nema maður leggi leið sína aftur inn að þessari paradís upp á Austursléttuheiði.
Hluti Melrakka-aflans – Ljósm. Reynir Ólafsson
Og þar með lauk þessari ‚fyrstu‘ ferð okkar um Melrakkasléttuna og nágrenni. Húsráðendum að Núpi færum við okkar bestu þakkir fyrir gestrisnina og frábæra viðkynningu um helgina, hver veit nema minningin um helgina laði mann aftur norður að ári, nóg er eftir af vötnum til að kanna á þessum slóðum.
Maður þekkir það að fiskurinn gufar upp eins og dögg fyrir sólu þegar þessi félagi sést á vötnunum. Án þess að fara út í þær pælingar hvernig stendur á því að hann er eftir sem áður, fisknasti fugl íslenskrar náttúru, þá hefði ég alveg eins getað verið himbrimi á sundi í gærkvöldi þegar ég fór í æfingaferð í Hólmsánna.
Það var alveg sama hvar og hvernig ég kom að ánni, neðan austustu brúar eða ofan túns við Gunnarshólma, alltaf sá ég bara í sporðinn á urriðanum þegar hann forðaði sér undan mér. Á tímabili leið mér svolítið eins og trölli í postulínsbúð. Var alvarlega að spá í fara úr vöðluskónum og læðast á tánum, prófaði meira að segja að læðast að ánni og gera…. ekkert í nokkrar mínútur, en það var eins og við manninn mælt, um leið og ég reisti stöngina var fiskurinn horfinn og eftir sat ég og átti ánna alveg út af fyrir mig á löngum kafla. O jæja, ég náði aðeins að æfa mig í andstreyminu.
Ég skrifa þessa ferð á daginn í dag, sunnudag, þótt við höfum í raun verið að veiða hálfan laugardag og hálfan sunnudag. Við sem sagt, renndum austur í Holtahrepp sem heitir víst orðið Ásahreppur og bönkuðum uppá að Gíslholti. Það er skemmst frá að segja að skv. venju var auðfengið leyfi til veiða, hefur að vísu hækkar frá því í fyrra, stöngin nú á 1.000 kr.
Nokkur strekkingur var á laugardaginn og vorum við hjónin því róleg við vagnin fyrir miðju vatni að sunnan, gerðum okkur e.t.v. einhverjar vonir um að hann lægði með kvöldinu, sem brást þó. Ég rölti þó fljótlega inn með vatninu til vesturs og varð fljótlega var við fisk, titti sem sóttu stíft í Pheasant. Ekki kom þó fiskur á fyrr en aflaklóin mætti á staðinn og brá sömu flugu undir og fékk urriða. Ekki stór, en hirtur þó. Á meðan gafst ég upp á sífelldu narti og setti Higa’s SOS undir og fékk þessa líka…… rosalega litlu bleikju sem fékk líf. Eitthvað fór hungrið að segja til sín fyrr en venjulega þannig að við röltum okkur aftur inn að vagni og byrjuðum að hita grillið. Á meðan smellti frúin maðki undir flot og henti út til að hafa eitthvað annað en dásamlegt útsýnið til að glápa á. Og viti menn, fyrsti alvöru fiskurinn, rúmlega punds urriði gerði sér ánamaðk að góðu af hlaðborði Tótu.
Eftir kvöldmat reyndum við aðeins fyrir okkur í Vestra Gíslholtsvatni, kannski meira svona til að sval forvitninni, en urðum ekki vör við fisk. Reyndar vorum við búin að heyra það frá ábúanda Gíslholtsvatns að vatnið gæfi stóra, mjög stóra fiska, en þeir væru heldur liðfærri en í Austara vatninu og ekki alltaf auðvelt að hitta á þá.
Sunnudagurinn rann upp og stóð undir nafni. Glampandi sól og heldur stilltara heldur en á laugardaginn. Með morgunkaffinu fékkst enn einn urriðinn á maðk sem frúin vill endilega að verði skrifaður á mig þar sem ég henti flotinu út fyrir hana. Fiskurinn lét mikið til sín taka þarna undir bakkanum hjá okkur, svo mjög að við gáfumst upp og smelltum okkur í vöðlurnar og létum vaða. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég var búinn að fá enn einn bleikjutittinn á Pólskan Pheasant varð mér hugsað til ferðar okkar hjóna í vatnið í fyrra. Ég er bara ekki að smella með þessu vatni. Frúin æfði viðbragðsflýti með þurrflugu og uppskar heilmikla æfingu þar til þokkaleg bleikja sat loks föst. Eftir piknik í hádeginu röltum við aftur vestur með bakkanum og ég ákvað að láta Pheasant alveg vera, hann færði mér bara titti, og setti Higa’s SOS undir. Já, takk fleiri tittir. Ég sem sagt fékk ekki einn einasta fisk sem ég hirti á flugu í þessari ferð. Konan hirti tvo og svo þessir tveir á maðkinn.
Við höfðum spurnir af því að vatnið hefði komið afskaplega hægt til þetta sumarið, mun síðar en í fyrra. Það munar reyndar tæpum mánuði á ferð okkar í ár og í fyrra. Í fyrra var töluverður gróður komin til í vatninu á löngum kafla meðfram suðurbakkanum, en í ár, mánuði síðar, var þar nánast ekki stingandi strá/stör. Það er svolítið sláandi að sjá það svona berlega hve vorið hefur verið okkur kalt þetta árið.
Hann var nú ekki alveg eins fiskinn í kvöld, hann Reynir Ólafsson vinnufélagi minn, eins og hann var í Fnjóská í fyrra að ég held. Hvorki gæs né fiskur kom á hjá honum í kvöld þegar hann við þriðja mann ásamt mér og konunni minni skruppum í ónefnt vatn í nágrenni borgarinnar.
Aðstæðurnar voru auðvitað ekki alveg 100%, bölvað rok og vatnið eins argasti brimgarður. En eitthvað urðum við hjónin vör, reyndar töluvert á tímabili og svo fór á endanum að ég mér tókst að setja í urriða rétt um pundið. Annars var það einkennilegt hve mikið var af narti og laufléttum tökum sem erfitt var að bregðast við í öllum ölduganginum. Það var meira eins og fiskurinn væri pirraður eða úrillur í öllum hamaganginum í veðrinu og væri bara á glefsinu, frekar en taka ákveðið sér til matar.
Ef einhver er að velta þessari mynd fyrir sér, þá er hún hrein og klár sönnun þess að góður veiðimaður getur allt með góðri flugustöng, meira að segja krækt í gæs í miðri laxveiði.