Þingvallavatn, 12.júlí

Nautatangi, Krókurinn, fyrsta kast, murta …… o.s.frv. Þvílík býsn af murtu og mjög smávaxinni kuðungableikju sem var á ferðinni í dag. Ég harðneita að telja alla tittina með sem við hjónin settum í með ýmsum flugum á tanganum í dag, en svo…… færði ég mig örlítið til, nýtti mér smá kannt út frá einni tánni og skipti yfir í eins klassískan Peacock og mér var unnt og setti í þessa líka fínu bleikju og skömmu síðar eina í viðbót. Frábært að sjá að það eru ekki bara krílin sem hafa yfirtekið veiðistaðina austan Öfugsnáða núna.

Heyrði af veiðiverði sem kíkti á kortin okkar að menn hefðu lítið annað haft upp úr krafsinu síðustu daga heldur en grunnslóðarfisk, þ.e. murtu og smávaxna bleikju, þannig að ég má víst bara vel við una að ná tveimur fallegum í soðið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 2 11 / 16 / 0 5 / 18 25

Mjóavatn í Breiðdal, 9.júlí

Eftir flotta ferð á Melrakkasléttuna var ákveðið að fara eystri leiðina suður til Reykjavíkur. Eins og nærri má geta urðum við að stoppa í það minnsta einu sinni á leiðinni og varð Mjóavatn í Breiðdal fyrir valinu. Nokkrum sinnum hefur maður séð systurvatnið, Kleifarvatn frá þjóðveginum og oft verið hugsað til þess að bleyta færi. Þrátt fyrir að Mjóavatnið sé öllu minna en Kleifarvatnið, þá er það ekki síður aðlaðandi þar sem það kúrir á milli ásanna SSA við Kleifarvatn. Að vatninu og austur með því liggur alveg ágætis slóði og tilvalið fyrir þá sem vilja kannski örlítið meira næði að renna inn að vatninu frá þjóðveginum um Breiðdal.

Skv. upplýsingum að Innri-Kleif eru eitthvað færri en stærri urriðar í Mjóavatni heldur en Kleifarvatni, en eitthvað voru þeir uppteknir við eitthvað annað en kíkja eftir mínum flugum á þriðjudaginn. Að vísu setti ég í fjóra fiska og þar af einn þann minnsta sem ég hef í nokkurn tíma tekið á flugu. Sá var vart meira en 10 gr. og á stærð við jafn þungan Toby-spún. Því miður gafst mér ekki ráðrúm til að mynda kvikindið, svo mikið var mér í mun að sleppa krílinu en birti hér nokkuð góða eftirmynd af honum frá Abu Garcia.

10 gr. Toby
10 gr. Toby

Þrátt fyrir að ég rölti hringin í kringum vatnið fann ég ekki neinn af þessum stóru en er ekki frá því að helst væri unnt að nálgast þá í suð-austur horni vatnsins þar sem hirðanleg stærð á fiski kom á hjá mér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 11 / 14 / 4 5 / 18 24

Melrakkaslétta, 5.- 7.júlí

Það hefur verið nokkuð lengi á dagskránni að kanna Melrakkasléttuna og einhver af þeim vötnum sem þar leynast og nú varð loks af því. Í þetta skiptið vorum við hjónin ekki ein á ferð því vinnufélagi minn Reynir Ólafsson slóst í för með okkur. Raunar má segja að þetta hafi nú snúið á hinn veginn, við slógumst í för með Reyni því hann er að Norðan, uppalinn að Núpi í Öxarfirði þangað sem við renndum á fimmtudag í síðustu viku og settum upp búðir í túnfætinum.

Fyrstu vötnin sem urðu fyrir valinu á föstudag voru Veiðikortsvötnin, Hraunhafnarvatn og Æðarvatn. Heimamaðurinn, Reynir var okkar duglegastur og tók 5 bleikjur og einn urriða á meðan við hjónin vorum mest í tittunum. Frúin var með 4-6 sem öllum var sleppt sökum skorts á stærð en ég var með eina þokkalega og þremur sleppt. Við gerðum stutt hlé í eystra vatninu og skutumst í Æðarvatnið þar sem heimamaðurinn hafði nokkra reynslu af stórum urriða. Því miður voru þeir stóru ekki viðlátnir eða vildu ekkert sem við buðum en þrjár bleikjur ánetjuðust maðk Reynis. Það var ljóst að fiskurinn hélt með sínum manni.

Á bakaleiðinni prófuðum við aftur fyrir okkur í Hraunhafnarvatni, nú við veginn sem liggur eftir sjávarkambinum. Þar kræktum við hjónin í sitt hvora bleikjuna sem varð til þess að aðeins réttist úr sjálfsálitinu. Þegar svo vindurinn tók að sperra sig aðeins undir kvöldmat tókum við okkur saman og renndum aftur til baka að Núpi þar sem laugardagurinn var planaður yfir kaffibollum og töluverðum flettingum í veiðibókum. Og nú taka varúðarorð til lesenda við.

Þegar veiðimenn skipuleggja sig á síðustu metrunum er eins gott að vera öruggur á heimildum. Við studdumst töluvert við ritaðar heimildir frá árinu 2006 sem e.t.v. voru okkar mistök því margt getur breyst á 7 árum eins og sannaðist á laugardeginum. Við urðum næstum sek um veiðiþjófnað og tilviljun ein réði því að svo varð ekki. Við völdum okkur vatn eitt sem áður var utan alfaraleiðar en hefur hin síðari ár komist í ágæta tengingu við vélfákaslóðir. Meira ætla ég ekki að segja um vatnið sjálft því þannig var að þegar við mættum á staðinn og vorum búinn að koma okkur í gallana, bar þar að konu eina sem spurðist fyrir um hver við værum og hvað við hefðum í hyggju. Ég verð nú að játa að mér brá nokkuð við, kynnti mig, tjáði henni að við hefðum í hyggju að reyna fyrir okkur í vatninu og spurði til baka hvernig stæði á hennar ferðum á þessum slóðum. Og viti menn, þar var komin landeigandinn að vitja um netalagnir sínar í vatninu. Eftir vinsamlegt spjall og skoðun í aflakistu landeiganda þar sem leyndust einhverjir þeir fallegustu fiskar sem ég hef í langan tíma séð veitti hún okkur góðfúslega heimild til að reyna fyrir okkur í vatninu, en bað okkur um að hafa ekki hátt um það. Sagði hún að vatnið væri nytjað til netalagna, ekki væri algengt að fiskur kæmi á stöng og það gekk eftir. Við urðum ekki vör við fisk, en fengum þess í stað yfir okkur nokkuð hressilega rigningu sem fékk vatnið til að bulla og sjóða eins og hraðsuðuketil sem varð væntanlega til þess að fiskur leitaði nokkuð djúpt.

Hjónin í Deildarvatni - Ljósm. Reynir Ólafsson
Hjónin í Deildarvatni – Ljósm. Reynir Ólafsson

Við ákváðum því að færa okkur austur fyrir Fjallgarðinn og athuguðum með veiðimöguleika í Kollavík en var tjáð að ekkert veiddist á stöng í þeirri góðu vík. Það er væntanlega af sem áður var og ekkert við því að segja og við renndum því eftir gamla þjóðveginum í átt til Raufarhafnar, sættum lagi og fengum leyfi að reyna fyrir okkur í Deildarvatni. Ekki fer mörgum sögum af veiði í þessu annars ágæta vatni en okkur þótti sjálfsagt að prófa. Frúin setti í fisk en missti en aðrir urðu ekki varir þrátt fyrir nokkrar tilraunir í golunni. Eftir nokkurt stopp héldum við því heim að Núpi, heldur aum með skottið á milli lappanna eftir fisklausan dag. Sunnudagurinn skildi tekinn með trompi og ókunnar slóðir kannaðar.

Eftir nokkuð vindasama aðfaranótt sunnudags í túnfætinum fetuðum við okkur hægfara torfærur frá Blikalóni og inn að Rifsæðavötnum. Okkur var tjáð að við næðum líklega ekki nær vötnunum á Grand Vitara en í 2 km fjarlægð og þyrftum því að ganga restina. Með lagni tókst okkur þó að tipla þetta aðeins lengra og gangurinn varð aðeins 1,2 km inn að vatni. Kannski rétt að geta þess að spottinn frá Blikalóni og inn að vatni er allur um 8,3 km og mjög grófur á köflum. Ég hvet menn til að lesa sér til um Rifsæðavötn í 4.bindi Stangaveiðihandbókar Eiríks St. þó ekki væri nema til kynnast átaki Árna Heiðars Gylfasonar á þessum slóðum.

Rifsæðarvötn
Rifsæðavötn

Heldur var vatnið gruggugt eftir hressilegan gust um nóttina en smámsaman settist í vatninu og fór að sjást til botns. Þar sem við vorum öll í okkar jómfrúarferð í þetta vatn reyndum við nokkuð blint fyrir okkur beggja megin við og fyrir tanganum sem gengur fram í vatnið vestanvert án þess að verða vör við fisk. Reyndar setti frúin í titt í víkinni norðan við tangann en það var nú allt og sumt í nokkra klukkutíma. Það var ekki fyrr en heimamaðurinn lagði í gönguferð út á nesið gengt bústað Árna Heiðars að eitthvað fór að gerast. Fiskurinn hafði greinilega fært sig undan vindi upp að nesinu og það var á í næstum hverju kasti þá stuttu stund sem vindurinn stóð á land. Reynir átti vinninginn og landaði 10 urriðum og bleikjum í bland á meðan ég setti í fjóra fiska og frúin og yngra afkvæmið okkar í einn hvort um sig. Allt með eindæmum fallegir fiskar og vel haldnir. Eins og áður segir var eins og golan bæri með sér fiskinn því um leið og vindátt breyttist tók hann síður. Þar sem okkar beið sunnudagssteik í öllu sínu veldi hjá húsráðendum að Núpi var okkur hvorki til setunnar né tilfærslu boðið og við héldum til baka, meira en ánægð með þetta frábæra veiðivatn. Stór og fallegur fiskur sem tók grimmt þegar við loksins hittum á hann. Aldrei að vita nema maður leggi leið sína aftur inn að þessari paradís upp á Austursléttuheiði.

Hluti Melrakka-aflans - Ljósm.Reynir Ólafsson
Hluti Melrakka-aflans – Ljósm. Reynir Ólafsson

Og þar með lauk þessari ‚fyrstu‘ ferð okkar um Melrakkasléttuna og nágrenni. Húsráðendum að Núpi færum við okkar bestu þakkir fyrir gestrisnina og frábæra viðkynningu um helgina, hver veit nema minningin um helgina laði mann aftur norður að ári, nóg er eftir af vötnum til að kanna á þessum slóðum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 9 / 7 11 / 14 / 3 5 / 14 23

Hólmsá, 1.júlí

Himbrimi
Himbrimi

Maður þekkir það að fiskurinn gufar upp eins og dögg fyrir sólu þegar þessi félagi sést á vötnunum. Án þess að fara út í þær pælingar hvernig stendur á því að hann er eftir sem áður, fisknasti fugl íslenskrar náttúru, þá hefði ég alveg eins getað verið himbrimi á sundi í gærkvöldi þegar ég fór í æfingaferð í Hólmsánna.

Það var alveg sama hvar og hvernig ég kom að ánni, neðan austustu brúar eða ofan túns við Gunnarshólma, alltaf sá ég bara í sporðinn á urriðanum þegar hann forðaði sér undan mér. Á tímabili leið mér svolítið eins og trölli í postulínsbúð. Var alvarlega að spá í fara úr vöðluskónum og læðast á tánum, prófaði meira að segja að læðast að ánni og gera…. ekkert í nokkrar mínútur, en það var eins og við manninn mælt, um leið og ég reisti stöngina var fiskurinn horfinn og eftir sat ég og átti ánna alveg út af fyrir mig á löngum kafla. O jæja, ég náði aðeins að æfa mig í andstreyminu.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 2 / 7 / 0 5 / 11 22

Gíslholtsvatn, 23. júní

Ég skrifa þessa ferð á daginn í dag, sunnudag, þótt við höfum í raun verið að veiða hálfan laugardag og hálfan sunnudag. Við sem sagt, renndum austur í Holtahrepp sem heitir víst orðið Ásahreppur og bönkuðum uppá að Gíslholti. Það er skemmst frá að segja að skv. venju var auðfengið leyfi til veiða, hefur að vísu hækkar frá því í fyrra, stöngin nú á 1.000 kr.

Nokkur strekkingur var á laugardaginn og vorum við hjónin því róleg við vagnin fyrir miðju vatni að sunnan, gerðum okkur e.t.v. einhverjar vonir um að hann lægði með kvöldinu, sem brást þó. Ég rölti þó fljótlega inn með vatninu til vesturs og varð fljótlega var við fisk, titti sem sóttu stíft í Pheasant. Ekki kom þó fiskur á fyrr en aflaklóin mætti á staðinn og brá sömu flugu undir og fékk urriða. Ekki stór, en hirtur þó. Á meðan gafst ég upp á sífelldu narti og setti Higa’s SOS undir og fékk þessa líka…… rosalega litlu bleikju sem fékk líf. Eitthvað fór hungrið að segja til sín fyrr en venjulega þannig að við röltum okkur aftur inn að vagni og byrjuðum að hita grillið. Á meðan smellti frúin maðki undir flot og henti út til að hafa eitthvað annað en dásamlegt útsýnið til að glápa á. Og viti menn, fyrsti alvöru fiskurinn, rúmlega punds urriði gerði sér ánamaðk að góðu af hlaðborði Tótu.

Eftir kvöldmat reyndum við aðeins fyrir okkur í Vestra Gíslholtsvatni, kannski meira svona til að sval forvitninni, en urðum ekki vör við fisk. Reyndar vorum við búin að heyra það frá ábúanda Gíslholtsvatns að vatnið gæfi stóra, mjög stóra fiska, en þeir væru heldur  liðfærri en í Austara vatninu og ekki alltaf auðvelt að hitta á þá.

Sunnudagurinn rann upp og stóð undir nafni. Glampandi sól og heldur stilltara heldur en á laugardaginn. Með morgunkaffinu fékkst enn einn urriðinn á maðk sem frúin vill endilega að verði skrifaður á mig þar sem ég henti flotinu út fyrir hana. Fiskurinn lét mikið til sín taka þarna undir bakkanum hjá okkur, svo mjög að við gáfumst upp og smelltum okkur í vöðlurnar og létum vaða. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég var búinn að fá enn einn bleikjutittinn á Pólskan Pheasant varð mér hugsað til ferðar okkar hjóna í vatnið í fyrra. Ég er bara ekki að smella með þessu vatni. Frúin æfði viðbragðsflýti með þurrflugu og uppskar heilmikla æfingu þar til þokkaleg bleikja sat loks föst. Eftir piknik í hádeginu röltum við aftur vestur með bakkanum og ég ákvað að láta Pheasant alveg vera, hann færði mér bara titti, og setti Higa’s SOS undir. Já, takk fleiri tittir. Ég sem sagt fékk ekki einn einasta fisk sem ég hirti á flugu í þessari ferð. Konan hirti tvo og svo þessir tveir á maðkinn.

Við höfðum spurnir af því að vatnið hefði komið afskaplega hægt til þetta sumarið, mun síðar en í fyrra. Það munar reyndar tæpum mánuði á ferð okkar í ár og í fyrra. Í fyrra var töluverður gróður komin til í vatninu á löngum kafla meðfram suðurbakkanum, en í ár, mánuði síðar, var þar nánast ekki stingandi strá/stör. Það er svolítið sláandi að sjá það svona berlega hve vorið hefur verið okkur kalt þetta árið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 2 / 5 2 / 7 / 1 5 / 11 21

Einkavatn, 20. júní

Reynir og gæsin
Reynir og gæsin

Hann var nú ekki alveg eins fiskinn í kvöld, hann Reynir Ólafsson vinnufélagi minn, eins og hann var í Fnjóská í fyrra að ég held. Hvorki gæs né fiskur kom á hjá honum í kvöld þegar hann við þriðja mann ásamt mér og konunni minni skruppum í ónefnt vatn í nágrenni borgarinnar.

Aðstæðurnar voru auðvitað ekki alveg 100%, bölvað rok og vatnið eins argasti brimgarður. En eitthvað urðum við hjónin vör, reyndar töluvert á tímabili og svo fór á endanum að ég mér tókst að setja í urriða rétt um pundið. Annars var það einkennilegt hve mikið var af narti og laufléttum tökum sem erfitt var að bregðast við í öllum ölduganginum. Það var meira eins og fiskurinn væri pirraður eða úrillur í öllum hamaganginum í veðrinu og væri bara á glefsinu, frekar en taka ákveðið sér til matar.

Ef einhver er að velta þessari mynd fyrir sér, þá er hún hrein og klár sönnun þess að góður veiðimaður getur allt með góðri flugustöng, meira að segja krækt í gæs í miðri laxveiði.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 2 / 1 3 / 10 20

Arnarvatnsheiði – norðan, 15. – 16. júní

Ég er ekki alveg viss hvaða hugmynd ég hafði í kollinum af Arnarvatnsheiðinni áður en við hjónin lögðum í hann á föstudaginn, en ég er nokkuð viss um að sú mynd sem blasti við mér í kvöldstillunni þegar upp á heiðina var komið var ekki sú sem ég hefði gert mér af svæðinu. Rétt eins og um önnur heiðarlönd okkar er nánast ekki hægt að finna orð sem lýsa þessu öllu. Kannski engin furða að nokkur fegurstu kvæða okkar Íslendinga eiga uppruna sinn til óspilltra heiðanna.

Við tókum laugardaginn rólega, e.t.v. örlítið lúin eftir vinnuvikuna og síðan 4 klst. ferðalagið upp á Arnarvatnsheiði síðla föstudags. Þegar við loksins höfðum okkur af stað ákváðum við að fara stutt, reyna að kynnast svæðinu og stefndum því á Langalón með það í huga að rölta síðan með Austurá yfir í Þúfulón.

Austurá við Langalón
Austurá við Langalón

Þegar við höfðum rölt frá veginum og niður að innstreymi Austurár í lónið, blasti þessi líka fallegi hylur við okkur. Frúin settir í nokkuð hressilegan fisk eftir örfá köst, en sá var ekki á því að leika sér og hvarf á braut með Watson’s Fancy straumflugu og þokkalegan hluta af taumaefni og sást ekki eftir það. Eftir töluverðar tilraunir tókst mér að setja nokkuð óvænt í fisk með rauðum Nobbler. Fiskurinn tók umsvifalaust strikið niður í hylinn og hélt sig þar og niður eftir hylnum þangað til mér tókst að þreyta hann svo að upp kom hann á bakinu. Það var ekki fyrr en þá að ég gerði mér grein fyrir hversu rosalegur þessi urriði var, 8 pund og ekkert nema vöðvar og skolturinn.

Lítið urðum við vör við annan fisk á þessum slóðum þannig að við lögðum leið okkar norður með vatninu og með Austurá yfir í Þúfulón. Ekki urðum við vör við einn einasta fisk alla þessa leið og ekki heldur í Þúfulóni sem okkur báðum þykir einkennilegt m.v. allt það ferska og súrefnisríka vatns sem streymdi í lónið. Og ekki var skortur á fæðu, hornsíli, flugur og púpur í þúsundavís, en ekki einn einasti fiskur.

Þar sem halla tók degi, tókum við okkur upp og prófuðum fyrir okkur í Sesseljuvík í Arnarvatni stóra svona rétt áður en við héldum heim í vagninn, helmingurinn af okkur þokkalega sáttur við daginn.

Arnarvatn stóra
Arnarvatn stóra – veiðihúsin og fellihýsið okkar á bakkanum

Sunnudagurinn rann upp, eins fallegur og hugsast gat og við tókum okkur saman og stefndum á Austara Grandavatn. Höfðum það fyrir satt að vatnið kæmi einna fyrst til af vötnunum á heiðinni, en hefði verið eitthvað seint til þetta vorið, kannski væri það hrokkið í gang. Og mikið hélt ég að svo væri þegar ég náði  2ja. punda bleikju á Peacock eftir skamma stund í norð-austur horni vatnsins, en það var nú öðru nær. Við eyddum töluverum tíma í vatninu eftir þetta en urðum ekki frekar vör þannig að við ákváðum að prófa fyrir okkur í Litlavatni þar sem Austuá á upptök sín og rennur til Langalóns. Skemmst er frá því að segja að við urðum ekki vör í vatninu og ekki heldur í ánni alla leið niður í Langalón. Að vísu setti í ég bleikjutitt í ‘uppáhalds hylnum mínum’ en ekki söguna meir. Frúin smellti þá þurrflugu undir, Blue Dun og rölti til baka upp Austuá í átt að Litlavatni. Loksins, loksins kom þá að því að hún fengi fisk í þessari ferð og þá tvo frekar en einn á nákvæmlega sama staðnum í ánni. Flottir pundarar sem tókur ákveðið þurrfluguna þegar hún fleytti henni yfir poll fyrir ofan flúðir, ofarlega í ánni. Glæsilegt og verður örugglega síst til þess að hún verði afhuga þurrflugum.

Ferðin hjá okkur endaði því í þessum fjórum fiskum til matar og einum sleppt. Þegar ég kvittaði í veiðibókina hjá Eiríki veiðiverði að morgni 17. sá ég að flestir sem höfðu haft helgardvöl á heiðinni voru búnir að taka sig upp og ekki voru nú veiðitölur manna neitt til að hrópa húrra fyrir. Eins og kom fram í spjalli okkar Eiríks hefur heiðin komið rólega inn þessa rúmu viku sem liðin er af tímabilinu en hún hlýtur að fara að smella inn hvað úr hverju. Eitt er víst, við hjónin náðum ekki að reyna fyrir okkur í nema örlitlum hluta þess vatnasvæðis sem tilheyrir Arnarvatni og Tvídægru þannig að trúlega liggur leið okkar þangað upp eftir aftur, þótt síðar verði og þá helst í þann tíma sem flugan er ekki alveg eins ágeng eins og hún var um helgina. Snögg talning leiddi 24 flugnabit í ljós á undirrituðum sem svíða all hressilega núna þegar heim er komið og bólgna með hverri mínútunni sem líður.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 2 0 / 2 2 / 1 3 / 9 19

Ummæli

Siggi Kr. – 17.06.2013: Innrennslið í Langalón. Þetta er nákvæmlega sami staður og ég tók 2 – 2.5 kg urriða laugardaginn á undan. (Innsk. Kristjáns: Lesið um veiðiferð Sigga og félaga hér) Þá var það stuttur orange nobbler og fiskurinn á í fyrsta kasti. Austuráin er skemmtilegt svæði sem ég bara verð að skoða nánar og okkur fannst það reyndar svolítið skondið félögunum að við fengum tvo jafnstóra fiska (og svo eitthvað af minni fiskum), annan þarna næstum efst í ánni og hinn á neðsta veiðistað svæðisins :) 

Svar: Ég hafði einmitt orð á því við konuna á leiðinni heim í dag að það væri eflaust skemmtilegt að þræða ánna eins og hægt væri. Það verður örugglega einhvern tímann af því. Annars ætti maður víst að vera rólegur í loforðum um að kanna þetta eða hitt. Undarlegt hvað tíminn fýkur hjá þessa dagana. En, mikið er ég sammála þér Siggi, þetta er alveg frábært svæði.

Siggi Kr. – 18.03.2013: Var búið að opna veginn inn að Skammá og Réttarvatni þegar þið voruð þarna og voru enn einhverjir skaflar í kringum Arnarvatn stóra?

Svar: Nei, það var ekki búið að opna veginn, formlega. Heyrði á Eiríki veiðiverði að það ætti að skoða með opnun núna um miðja viku. Veit reyndar að einhverjir fóru inn að Réttarvatni á sunnudag á ofur-jeppum og gerðu einhverja veiði. Enn voru stöku skaflar í Sesseljuvíkinni, gengt veiðihúsunum og ég veit að einhverjir náðu fiski þar undan á laugardag. Annars var nú mestur snjór óðum að hverfa. Ertu bara strax farinn að plana framhaldsferð? Heyrði í dag frá einum sem lá í tjaldi um helgina við Austuránna gengt Hólmavatni. Þeir gerðu ágæta veiði, það fylgdi samt sögunni að oft hefði nú verið meira um fisk, hvað sem það nú þýðir.

Siggi Kr. – 19.06.2013Já veistu ég bara held að ég sé farinn að plana framhaldsferð :)

Svar: Mikið skil ég þig vel, ef ekki væri fyrir tímaskort í augnablikinu, þá væri ég trúlega í Austuránni núna.

Urriði – 20.06.2013Kommon!!! 8 punda urriði (til hamingju) en engin mynd af flykkinu???

Svar: Neibb, það er þegar allt of mikið af myndum á netinu af svona stórum kvikindum. Það er önnur hver myndavél á landinu útkámuð eftir fisk sem hefur verið rekinn upp í linsuna 🙂 Satt best að segja hafði ég ekki rænu á því að taka mynd, bara settist niður og barðist við að ná hjartslættinum niður.

Urriði – 20.06.2013Þú þekkir mig nú kannski ekki persónulega en lít ég út eins og einhver sem er kominn með nóg af stórfiskamyndum? ;) Held að það sama gildi um aðra veiðimenn, annars óska ég þér aftur til hamingju með fenginn :)

Einkavatn, 12.júní

Ég og vinnufélagi minn gerðum okkur ferð í ónefnt vatn í nágrenni Reykjavíkur eftir vinnu í dag. Eins og ég hef nú dásamað veðurspár í gegnum tíðina, þá gekk spáin í dag ekki alveg eftir, og þó. Það var spáð hæglætis veðri og hita. Jú, hitinn var þarna en rigningin var ekkert hæglæti til að byrja með. Það var ekki fyrr en undir kl.20 að hætti að rigna og þá fóru jú fiskarnir á stjá. Við náðum fimm urriðum, undirritaður tveimur í pottinn og einum sleppt og félagi minn tveimur í pottinn. Ekki var stærðin þó alveg sú sama og ég hef átt að venjast í þessu vatni, en fínir matfiskar þó. Félagi minn átti flotta innkomu með sína tvo, hans fyrsta ferð í þetta vatn sem við erum svo heppnir að hafa leyfi í frá vinnufélaga okkar. Fín ferð og vatnið á eflaust eftir að koma sterkt inn í sumar þegar það hefur hlýnað aðeins.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 3 0 / 8 18

Hítarvatn, 7.- 9.júní

Veðurspá…. er sniðugt fyrirbæri. Það var spáð þetta 3-6 dropum á Snæfellsnesi austanverðu og merkilegt nokk gengu þessir þrír dropar eftir en ekki bólaði á þessum 6 nema rétt aðeins aðfararnótt laugardags og svo mjög stutta stund á laugardagskvöldið. Annars skartaði Hítardalurinn sínu fegursta og maður átti alltaf hálft í hvoru von á að hann fylltist af veiðiþyrstum mönnum og konum, en það var merkilega lítil aðsókn um helgina.

Á laugardagsmorgun afréðum við hjónin að renna vestur fyrir Hólm og ganga frá stíflunni inn með vatninu að vestan. Við vorum á eftir, undan og innan um hóp kátra veiðimanna sem voru í 19. árlegu veiðiferð sinni í Hítarvatn og það var að heyra á tali þeirra að þeir hefðu aldrei séð jafn lítið til fiskjar eins og þetta árið. Já, það fór svo sem ekki mikið fyrir fiskinum á land þennan 1,5 km. frá stíflu og inn að Votuklif sem við hjónin príluðum upp fyrir höfða eða til baka með bakkanum. Mér skilst að aðeins einn fiskur hafi komið á land hjá þeim 9-10 veiðimönnum sem eyddu 4 tímum á vesturbakkanum á laugardag. Fiskurinn svo sem sýndi sig, en það reyndist flestu erfiðara að fá hann til að taka. Það var eins gott að við hjónin vorum með íslenskt fjallalamb með okkur á grillið, annars hefðum við soltið þetta kvöldið. Eitthvað fréttum við af reitingi í hrauninu austan Hólms þannig að við íhuguðum alvarlega að setja stefnuna í átt að Foxufelli næsta morgun.

Þokuslæðingur um miðnættið
Þokuslæðingur um miðnættið

Ef laugardagurinn byrjaði fagur þá gaf sunnudagurinn honum ekkert eftir og við skelltum í okkur staðgóðum morgunmat og lögðum land undir fót. Ekki veit ég nákvæmlega hvað víkin heitir, ef hún heitir þá eitthvað yfir höfuð, sem við enduðum í og að segja til um vegalengd í hana er nánast ómögulegt því leiðin frá Hólmi var u.þ.b. 1,2 km skv. GPS tækinu, en leiðin heim var aðeins 1 km. Skýring? Jú, það eru svo margir ‘stígar’ í hrauninu að fyrir ókunnuga eins og okkur var ekkert mál að velja rangan stíg aðra leiðina og einhvern réttari hina. En, hvað um það. Ég hafði það nokkuð sterkt á tilfinningunni að fiskurinn væri eitthvað viðmótsþýðari þarna í hrauninu heldur en við vestur bakkann og það reyndist vera. Eftir stutta stund setti ég í alveg þokkalegan urriða á Higa’s SOS bara östutt frá bakka. Nokkru síðar var fiskleysismúr konunnar rofinn þegar hún náði einum á agnar litla mýflugu púpu. Ég bætti svo einum titt við sem fékk líf og öðrum sem fór í netið, þeim fyrri til samlætis.

Í rólegheitum röltum við síðan til baka að Hólmi, tókum okkur saman og renndum heim á leið. Þessi veiðiferð varð enn ein sönnun þess að það þarf ekki marga fiska til að eiga eftirminninlegar og frábærar veiðiferðir.

Við Hítarvatn
Við Hítarvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 1 / 3 1 / 5 17

Úlfljótsvatn, 6.júní

Það er bara svo gott að komast aðeins út fyrir malbikið og þá er náttúrulega frábært að hafa nokkur af bestu veiðivötnunum innan klst. frá heimilinu. Smá skreppur í blíðunni upp að Úlfljótsvatni. Jú, veðrið var alveg ágætt en mikið rosalega munar miklu á hitastigi vatnanna okkar hér við bæjardyrnar. Eins hlý og Meðalfells-og Elliðavatn eru að verða þessa dagana og allt lífríkið að komast á skrið, þá munar örugglega tveimur vikum á þeim og Úlfljótsvatni. Fín byrjun á afsökun? Nei, bara staðreynd, en það er alltaf jafn gaman að koma inn fyrir Steingrímsstöð og að Veiðitanga þó maður fái ekki einu sinni töku.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 2 16

Hraunsfjörður 1.-2. júní

Ef ég hefði áhuga á að týna til einhverjar afsakanir þá er svo sem af ýmsu að taka. Leiðinlegt veður á laugardaginn, rosalega kalt leysingavatn sem dældist út í vatnið, allt of mikil sól á sunnudag, fiskurinn ekki kominn inn í botn, nei annars það er ekki hægt að nota þá afsökun. Ef himbriminn finnur fisk þá er fiskur kominn.

Þegar við mættum á staðinn um hádegið á laugardag var heldur óveiðilegt, rigning og rok, en það rættist úr veðrinu þegar leið á daginn. Að vísu hafði öll þessi rigning þau áhrif í för með sér að leysingar ruku aðeins fram úr sér og áin í botninum varð svolítið lituð og mikið rosalega var hún köld. Vatnið inni við botn rétt náði 5°C þegar best lét. Það var töluvert reynt fyrir botninum og að vestan og svo stóðst ég ekki mátið að rölta yfir á eystri bakkann eftir seinna kaffi. Eitthvað var ég of snemma á ferðinni því ég varð ekki var við fisk, sama hvaða flugu ég reyndi þannig að ég rölti aftur í vagninn, fékk mér í gogginn og barðist við að halda meðvitund eftir allt þetta fríska loft yfir daginn. Þegar leið á kvöldið fóru nokkrir veiðimenn sem höfðu byrjað við garðinn að fikra sig inn eftir vatninu, þokkaleg vísbending að ekki væri mikið meira að gerast hjá þeim. Rétt undir hættumál (23:00) vakti himbrimi sem lónaði rétt undan eystri bakkanum athygli okkar. Og viti menn, það er sko víst fiskur kominn inn að botni. Annar eins snillingur að veiðum. Á örstuttum tíma gómaði hann þrjá alveg þokkalega fiska og ég get svarið að að maður heyrði vellíðunar stunurnar í honum þvert yfir vatnið svo klukkustundum skipti á eftir.

Sunnudagurinn rann upp, bjartur og fagur, NOT. Við notuðum tímann á meðan dagurinn hafði sig á fætur og tókum saman og renndum inn í Berserkjahraun, niður með Hraunslæk eins langt og slóðinn leyfði án þess að fara í einhverjar óþarfa torfærur. Það stóð á endum að gömul sól frá fyrra sumri tók sig upp og skein eins og hún hefði aldrei skroppið í vetrarfrí. Frábært veður en því miður varð lítið um aflabrögð, en eitthvað voru menn að rífa upp af fiski gengt Búðanesi. Veit ekki alveg hvað það er, en þegar maður er búinn að taka sig saman og er í raun lagður af stað heim, þá verður mér afskaplega lítið úr veiði í svona stuttu stoppi í leiðinni, en svona er þetta bara stundum. Fisklaus helgi en fyrsta útilega sumarsins staðreynd. Ágætt að vera komin heim með fyrra fallinu, svona miðað við margar aðrar útileguhelgar.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 2 15

Elliðavatn 25.maí

Eigum við að ræða þetta eitthvað? Konan vildi ólm athuga hvort hann væri ennþá með Nobblerinn hennar, þessi gaur undir Vatnsendahlíðinni, þannig að við tókum stuttan skrepp upp úr kl.19 undir hlíðina. Vorum reyndar ekki alveg viss hvort við reyndum fyrir okkur þar eða fyrir innan Þingnesið, en úr varð að reyna aftur við farveg Dimmu.

Ekki rakst frúin á Nobbler-þjófinn sinn frá því í gærkvöldi en ég rakst á litlu systur urriðans frá því í gær. Sú var 46 sm. og í fínum holdum og vildi endilega hvítan Nobbler. Nú eru einhverjir hlutir farnir að gerast, þrátt fyrir að veðrið sé ekki upp á marga fiska, aðeins 4°C lofthiti og vatnið komið aftur niður fyrir 9°C. Svei, hvað sumarið ætlar að láta bíða eftir sér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 1 0 / 2 14

Elliðavatn 24.maí

Ég get svo sem alveg viðurkennt að ég var byrjaður að skrifa þessa grein á meðan ég stóð í roki og rigningu undir Vatnsendahlíðinni í kvöld upp úr kl.22 Það voru ótrúlegustu yfirlýsingar sem mér komu í hug, flestar eitthvað á þá leið að nú væri nóg komið og ég ætlaði ekki að snerta á stöng fyrr en sumarið væri endanlega komið, kannski bara ekkert fyrr en seint í sumar. En það var fiskur á staðnum…..

Frúin fékk svo væna töku rétt upp úr kl.23 að taumurinn sat eftir í vatninu, flugulaus. Ef einhver rekst á þokkalegan urriða með grænan Nobbler í öðru munnvikinu, þá er skrautið í boði Þórunnar. Þegar ég svo frétti af girnd urriðans í grænan Nobbler tók ég upp boxið mitt og leitaði, en fann ekki. Ákvað að taka þann næst besta, grænan Dýrbít og setti undir. Og viti menn, í öðru kasti var tekið hressilega á móti og upp úr vatninu smaug þessi líka fallegi urriði í tignarlegum boga. Það er orðið svo langt síðan ég hef sett í fisk að ég var næstum búinn að gleyma hvað til bragðs ætti að taka. En eftir snarpa viðureign kom hann á þó á land, 52 sm. hængur og með þeim fallegri sem maður hefur náð. Hverjum þykir sinn fiskur fagur. Ef maður kíkir í töfluna góðu hjá Svarta Zulu þá hefur fiskurinn verið rétt innan við 3 pund m.v. eðlilegt holdafar og lengd.

Ég verð væntanlega með harðsperrur í kinnunum í fyrramálið, efast um að brosið þurrkist út af mér í nótt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 1 0 / 1 13

Ummæli

25.05.2013 – NafnlausStyrkja taum er kvölda tekur 10 p. Svangir urriðar á ferð.

Svar: Já, þarna hittir þú naglan á höfuðið, Nafnlaus. Ég er nokkuð viss um að frúin hafi verið með 2x (c.a. 7 p) á þegar árásin var gerð á fluguna.

25.03.2013 – Ingólfur ÖrnSæl bæði tvö. Ég hitti ykkur við bílastæðið áður en þið hélduð á veiðistað í gærkveldi og frétti af fiskleysi vorsins. Gaman að heyra að þeim álögum er létt!

Bestu kveðjur, Ingólfur

Svar: Sæll Ingólfur og takk fyrir síðast. Að vísu gaf Þingeyingurinn ekki í þetta skiptið, en annað var eftir forskriftinni frá þér og álögunum aflétt. Kærar þakkir fyrir allar upplýsingarnar og spjallið.

25.03.2013 – Þórunn: Hrmfp!…….er enn að hugsa um þennan nobbler! – Er að spá í að sækj’ann bara, þó að það hafi verið aðeins of mikið “bling” í skottinu á honum.

26.03.2013 – UrriðiTrúi þessu ekki fyrr en ég sé myndir ;-)

Svar: Sko, þetta var bara alveg undir miðnættið og ég var orðinn svolítið loppinn á fingrunum, hefði trúlega tapað símanum/myndavélinni í vatnið hefði ég vogað mér að fikta við svoleiðis tæki 🙂 þannig að skátaheiðurinn verður að duga.

Helluvatn 23.maí

Það var nú ekkert óskemmtilegt að sjá alla fluguna klekjast á Helluvatni laust upp úr kl.19 í kvöld. Vatnið að koma til í hita eftir nokkuð hressilegt fall undanfarna daga og lífið aftur komið á stjá. Fiskur að vaka úti á vatninu og alveg upp í harða grjóti, bara hinu megin. Sem sagt; ég skaust einn eftir kvöldmat, bara svona til að komast eitthvað út eftir vinnu í dag. Eitthvað meira að segja um þessa ferð? Jú, ég náði að krækja mér í eina Lippu upp af botninum einhvers staðar lengst utan úr vatni. Eigandinn verður bara að bíta í það súra, hún er kominn í spúnaboxið mitt og verður þar áfram.

Ég held sem sagt áfram að vera einn umhverfisvænsti veiðimaður landsins, ekki einn fiskur það sem af er sumri.

Helluvatn
Helluvatn 23.maí 2013

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 12

Ummæli

24.05.2013 – HilmarSmá áskorun, í næstu veiðiferð þá notar þú bara þurrflugur ! :o  

Mbk, Hilmar

Svar: Það er svo sniðugt að ég verð að styðja á hnappinn ‘Samþykkja‘ þegar mér berast ummæli á greinar hjá mér. Ég hef eiginlega aldrei verið eins sáttur við að styðja á þennan hnapp eins og núna, geta slegið tvær flugur í einu höggi; samþykkja ummælin þín Hilmar og samþykkja áskorunina. Mér varð einmitt hugsað til boxins með þurrflugunum sem varð eftir í bílnum þegar ég sá allar vökurnar á vatninu. Sem sagt; sama hvernig veðrið verður um helgina, það verða þurrflugur sem fara undir hjá mér í næsta skrepp.

Elliðavatn 20.maí

Ég er kóngur í mínu eigin ríki, þ.e. þessari síðu, annars staðar ræður eiginkonan. Það tilkynnist formlega að Kristján X (tíu veiðilausar ferðir) hefur látið af embætti og við hefur tekið Kristján XI (ellefu veiðilausar ferðir).  Þetta er nú bara ekki hægt lengur. Ég lýsi allri ábyrgð á þessari ferð á hendur eiginkonunni. Hefði hún ekki með veiðiglampa í augum blikkað mig í morgun og spurt; Eigum við að skreppa aðeins í Elliðavatnið? þá hefði ég hvergi farið og frekar setið hér heima og skrifað endurminningar mínar Ég man þá tíð er ég veiddi fisk. Veit einhver um brjálaðan útgefanda?

En mikið rosalega var vatnið kalt og mikið hefur það kólnað síðustu daga. Staðkunnugur veiðimaður, sem eitt augnablik dýfði tánni í vatnið við hlið mér í morgun hafði á orði að nú væri ekkert í gangi, ekkert klak og fiskurinn þar af leiðandi ekkert að éta. Takk og bless, og þar með var hann farinn. Annar renndi í hlað á Elliðavatnsbænum þegar við hjónin vorum að taka saman og hafði sömu sögu að segja á meðan hann nuddaði lífi í bláar hendurnar og tók síðan stefnuna á Helluvatn með þeim orðum að komast í skjól. Vonandi hefur einhverjum þeirra fjölmörgu sem þar voru, einmitt í skjóli fyrir sunnan áttinni, gengið eitthvað betur en okkur hjónum.

Vatnshitamælir við Vatnsenda
Vatnshitamælir við Vatnsenda

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 11

Ummæli

20.05.2013 – Veiði-EiðurHef nákvæmlega sömu sögu að segja yðar hátign. Fór með pabba í Elliðavatnið í morgun. Mættir um 6 og farnir um 7. Keyrðum ófærðina í gegnum Heiðmörk og að Vífilstaðavatni þar sem við börðum í svona 1 og hálfan tíma. Sáum líf en fengum ekkert.

Ég hef tekið eftir mun minni aflabrögðum eftir að ég byrjaði að blogga. Þetta er ábyggilega því að kenna, blogginu sko. Ekki mér… ;)

Svar: Ég hef verið að hamast við að finna ástæður fyrir mínu fiskieysi en enda bara alltaf á því að líta í eigin barm. Ég hlýt bara að vera að gera eitthvað vitlaust. Er núna að spá í að sleppa bleikju í tjörnina í garðinum hjá mér, kvíð því samt aðeins ef þær vilja ekki bíta heldur.

20.05.2013 – Þórunn: Ok, Ég tek fulla ábyrgð á þessari veiðiferð, enda var hún svo snemma í morgunsárið og svo stutt að hún telst ekki með. Annars er gott að þú haldir að þú ráðir öllu á þessari síðu, haltu því bara áfram :) ….blikk, blikk…eigum við að skreppa?

20.05.2013 – Árni Jónsson: Örvæntu ekki. Eigi hef ég fleiri fiska dregið á land en þú minn kæri.

Svar: O, jæja. Það  eru þá ekki alveg allir sem draga kvikasilfur að landi í Þjóðgarðinum.

21.05.2013 – Svarti Zulu: Jæja það er nú hiti í kortunum framundan ( ef 5 – 9 stig teljast hiti) þannig að nú hlýtur þetta að fara að koma. Ég var þarna við Riðhólinn á sunnudagsmorguninn og ekki urðum við varir við fisk þó margt væri reynt. Og svo er Vífilsstaðavatnið alveg að svíkja mig þetta vorið og ég sem hélt að ég væri bara nokkuð góður þar.

Svar: Mér finnst eins og það hafi verið að koma eitthvað bakslag í vorið síðustu viku eða svo. Hlýnunin hefur verið helst til lítil og svo kom þessi kuldakafli núna um helgina, birrrrr.

Úlfljótsvatn 18.maí

Ég get bara ekki ímyndað mér að nokkur taki oftar mark á heilræðum og veiðipistlum hér á þessari síðu. Auðvitað væri það skemmtilegra hefði ég getað byrjað þessa frásögn á douze points (svona í tilefni dagsins) en það er nú öðru nær, zéro point á víst betur við og tíunda veiðiferðin án fisks er staðreynd.

Úlfljótsvatn varð ofan á eftir að við hjónin renndum í gegnum þjóðgarðinn en leyst ekki á íslenska lognið sem var eitthvað að flýta sér norður, þannig að við komum okkur fyrir í eins miklu rólyndis logni og unnt var að finna við Grjótnesið í Úlfljótsvatni. Það er ekki of sögum sagt að stutt er í dýpið á þeim slóðum. Allt var reynt; straumflugur, púpur og meira að segja lét ég mig hafa það að setja dúndrandi sökkenda á línuna, en ekkert hjálpaði til. Að vísu var alveg hreint ágætt að komast út og viðra sig svona í upphafi langrar helgar.

Nú verður lagst í tölfræði og kannað hvernig okkur hjónum hefur yfir höfuð gengið í vorveiðinni undanfarin ár.

fos_os_ulfljotsvatn
© Orkustofnun – Dýptarkort Úlfljótsvatns

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 10

Ummæli

19.05.2013 – Axel Freyr: Dyntótt er veiðigyðjan Kristján eins og Björn Blöndal skrifaði svo fallega um. Ég er líka búin að núlla í mínum 5 veiðiferðum og er búinn að fá glósur um að maður sé fiskifæla og veiði aldrei neitt! svo að þú situr ekki einn að þjáningarborðinu.
En alltaf þegar ég er búinn að núlla og er á leiðinni heim þá er ég að skipuleggja næstu ferð í huganum. Alltaf fylgir þeim hugarórum að næsta skipti skal verða mok hehe.

Svar: Já, þar rataðist Birni svo sannanlega rétt orð í munn. Mér finnst nú eiginlega eins og gyðjan sú arna hafi alveg yfirgefið mig. Samt var ég búinn að heita á hana fyrsta fiski ársins eins og venjulega.

19.05.2013 – Svarti ZuluErtu nokkuð að gleyma að hnýta fluguna á enda taumsins þetta árið? ;)

Svar: Nú get ég ekkert annað en roðnað, því í fullri einlægni þá hef ég í það minnsta tvisvar verið 100% viss um að ég hefði tapað flugunni fyrst ekkert beit á hjá mér, kastandi á fisk, en…. hún hefur alltaf verið þarna greyið, bara ekki sú rétta. Hratt, hægt, djúpt, grunnt, stutt, langt, það er alveg sama hvernig ég hreyfi flugurnar þetta árið, þeir hlægja bara að þeim.

19.05.2013 – UrriðiEru ekki margir kvensjúkdómalæknar karlar? Þú þarft ekkert að hafa gengið í gegnum hlutina sjálfur til að geta sagt öðrum til ;) Þannig að fróðleikurinn á síðunni stendur alveg fyrir sínu :)

Svar: Æ, takk fyrir þetta Urriði. Mér veitir ekki af  öllu peppi núna, geng orðið undir nafninu Kristján X (tíundi) og það væri skelfilegt að verða Kristján XI.

Þingvallavatn 12.maí

Og enn héldu bloggfærslu áfram að æra veiðibakteríuna í mannskapnum. Mig grunar nú fastlega að sögur af stór-urriðum á Þingvöllum hafi verið að kitla konuna síðustu daga og þær nýjustu á veidi.is gerðu lítið annað en æra áhugann upp úr öllu valdi.

Ég brá mér reyndar strax í gær í hlutverk skóaranns og gerði við vöðlurnar mínar eftir öllum kúnstarinnar reglum og þær litu bara nokkuð vel út að verki loknu. Álagspunktar styrktir með nylon-neti og límt með Liquid Rubber frá Bison (þetta er ekki auglýsing) sem hefur reynst mér vel í gegnum árin. Þannig að með ný-viðgerð vöðlustígvél og fullt af nobblerum var lagt af stað með fyrra fallinu í morgun upp á Þingvelli.

Frábært veður, kannski aðeins of bjart en ekkert til að kvarta yfir og við komum okkur fyrir í Tóftunum, svona mitt á milli Vatnskots og Öfugsnáða sem hafa verið að gefa flotta veiði síðustu daga. Að vísu urðu við vör við nokkuð hressilegan fisk, rétt utan kastfæris, en engin fiskur kom á land, enn eitt skiptið. Níunda veiðilausa ferðin staðreynd.

Og áfram hélt vöðlusagan endalausa. Viðgerðirnar héldu eins og kosningaloforð, eins gott að ég var í plastpokum á milli sokka og stígvéla. Nú ætla ég að bregða mér í gervi fornkappa og leggjast undir feld og íhuga valkosti. Þar sem ég er óttaleg kuldaskræfa hefði ég viljað halda mig við neoprene vöðlur en þar sem ég er líka óttalegur nískupúki er ég ekki tilbúinn að kaupa nýtt eintak á hverju ári. Vitandi það að vöðluskór endast mun betur en stígvél er nærtækast að skoða skókaup og öndunarvöðlur fyrir sumarið og sjá svo til hvort Skóstofan treystir sér til að sauma vöðlusokka neðan á neoprene vöðlurnar mínar fyrir haustið og næsta vor. Engin ákvörðun komin, Þorgeir ljósvetningagoði lá jú undir sínum feldi í sólarhring, ég þarf örugglega lengri tíma en það.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 9

Ummæli

13.05.2013 – UrriðiEf það lætur þér líða e-ð betur(sem það gerir örugglega ekki) þá finnst mér mjög gott að sjá svona færslur þessa dagana. Ég var farinn að halda að hver sem er gæti mokað upp stórurriða þarna án þess að þurfa nokkuð að hafa fyrir því og var að deyja úr öfund!

Svar: Takk, Snævarr Örn. Jú, merkilegt nokk þá líður mér töluvert betur, ég var nefnilega haldin þeirri meinloku að urriðinn á Þingvöllum hefði tekið einhverja Háhyrningasótt og væri nánast í því að ganga á land þessa dagana. Hélt að ég yrði mest í því að draga þá aftur á flot þar sem þeir lægju í búnkum á ströndinni, en sem betur fer eru þeir flestir enn í vatninu og það þarf að hafa eitthvað fyrir því að ná þeim 🙂

13.05.2013 – Hrannar Örn Hauksson: Eitt sinn þá voru neoprenevöðlur föður míns farnar að leka og hringt var með hraði í skósmið (á Akranesi) til að athuga hvort hann gæti lappað upp á þær áður. Hann var á einhverjum þvælingi og gat ekki tekið þær að sér þ.a. hann ráðlagði okkur að bera bara jötungrip á lekasvæðið, maka bara svoldið vel á. Þetta er ekki fallegt útlitslega, en fiskunum er alveg sama, og þetta hefu haldið í nokkur ár.

13.05.2013 – Sigurgeir Sigurpálsson: Bara ábending. Mér skildist á þessu að þú hefðir límt vöðlurnar og svo brunað í veiði. Þá er ég ekki hissa á því að þetta hafi ekki haldið. Ég hef límt nokkrar vöðlur í drasl til að reyna að stoppa leka og er kominn með smá reynslu í þessu. Mér finnst best að láta 3 daga líða frá því að ég lími og áður en ég bleyti í þeim aftur. Svo er gott að raspa staðinn þar sem þú setur límið til að límið fái meira grip, Ef það liggur á sléttum fleti þá er það líklegra til að leka. Ekki raspa samt alveg gat en nokkuð vel samt ;-)

Svar: Góð ábending en vandamálið er að gúmmíið í stígvélunum virðist bara vera svo lélegt að það gaf sig bara aftur rétt utan við viðgerðina. Límið mitt (þetta sem ég er ekki að auglýsa) grípur á 1-2 klst. og harðnar (eins hart og það verður) á innan við 12 klst.

Leynivatnið, 22.okt.

Við hjónin stóðumst ekki mátið í dag og skutumst rétt út fyrir bæjarmörkin, veðrið var eins gott og hugsast getur að hausti. Eitthvað hafði vatnið kólnað lítillega frá síðustu helgi, en lífsmörk voru samt sem áður meiri en þá; vorflugur í tugatali á vatninu og silungurinn að vaka og úða í sig fyrir veturinn. Ég tók tvo í tveimur köstum á orange Nobbler og frúin einn á Peacock, þokkalegir fiskar á bilinu 1 – 1/2 pund. Hængurinn var ekkert farinn að skrýðast riðbúningi og hryggnurnar voru langt frá hryggningu, þéttar en ókynþroska ef marka má hrognabrækurnar sem voru afskaplega litlar. Líkt og um síðust helgi virtist fæðan samanstanda af sílum og lirfum, eitthvað af kuðungi líka.

 

Vísindaveiði – 16.okt.

50sm hængur, tæp 2 pund

Það er lengi von á einum, miður október og enn gefa vötnin. Við hjónin brugðum okkur rétt út fyrir bæjarmörkin í ónefnt vatn eftir hádegið í dag. Lofthiti aðeins um 3°C, stinningskaldi en vatnið langt því frá farið að kólna neitt að ráði. Urðum fljótlega vör við, og þótti miður, að alveg nýverið hefðu veiðimenn verið á ferð og ekki hirt um að urða eða taka með sér slóg úr í það minnsta fjórum fiskum. En hvað um það, ferðin var farin í þeirri trú að enn væri urriði á ferð og það reyndist rétt. Fljótlega setti ég í einn um pundið með bústnum Peacock en sá slapp með ótrúlegri sporðatækni og hnykkjum. Beið ekki boðanna, þóttist reikna út hvert hann hafði stefnt þegar hann losnaði og smellti á reitinn. En þá var annar mættur á staðinn, tæp tvö pund sem lék svipaðar kúnstir á sporðinum en í þetta skiptið var ég viðbúinn og náði að halda strekktu í honum þar til hann var kominn á land, glæsilegur fiskur. Leið og beið nokkur stund þar til ég varð aftur var við ágætan fisk á orange Nobbler, en sá tók heldur naumt og slapp.

Hornsíli, kuðungur og lirfur

En hvað er svo fiskurinn að éta þegar svona langt er liðið á haustið? Jú, í stuttu máli alveg nákvæmlega það sama og hann hefur verið að gera í allt sumar; hornsíli, kuðung og …. lirfur. Já, við nákvæma athugun á magainnihaldi komu í ljós 10 hornsíli, slatti af kuðung og nokkrar vorflugulirfur auk auðvitað sands og smásteina. Sem sagt, vatnið enn í fullu fjöri og ekkert sem bendir til að hrygning sé að fara af stað, fiskurinn ekkert að dökkna né dröfnur að stækka. Ætli viðmið okkar beggja, fisksins og mín sé ekki bara náttúran og veðurfarið frekar en dagatalið?

Sléttuhlíðarvatn – 7.okt.

Þetta var svo sannarlega dagur veiðifélaga míns, konunnar. Hún átti erindi norður að Hólum í Hjaltadal til að taka við Diploma í viðburðastjórnun frá Háskólanum að Hólum og ég fékk að fljóta með. Og auðvitað var athugað með veiði í leiðinni. Já, þótt það sé komið vel fram á haustið þá er enn hægt að komast í veiði, t.d. hjá bændunum að Hrauni á Sléttuhlíð rétt norðan Hofsóss. Við mættum á staðinn eftir glæsilega útskriftarveislu að Hólum upp úr kl.17 svo það var ljóst að ekki gæfist langur tími til veiða. Og það var eins og fiskurinn vissi þetta líka því ekki liðu nema örfá köst þar til konan fékk ágæta töku, en missti. Leið og beið nokkur stund og lítið urðum við vör við fisk, en vissum þó af honum. Eyddum mestum tíma í að brjóta ísinn reglulega úr lykkjunum, það var helv…. kalt en fallegt veður. Rétt um það bil sem síðustu geislar sólar náðu til okkar fékk ég ágæta töku rétt við vatnsbakkann og á sama augnabliki varð ég var við fisk á hina höndina, urriðinn var kominn upp á grunnið. Að vísu missti ég af fiskinum en frúin tók tvo væna hænga í tveimur köstum og bætti síðan um betur með einni hryggnu þegar við sáum í raun ekkert lengur til. Sem sagt; frúin með eitt diploma og þrjá urriða á Dentist, ég ekki með neinn fisk en mjög montinn af henni. Haustið getur verið fallegt og engin ástæða til að hætta veiðum strax, ullarföt og stúkur hjálpa svo til við að halda hita á manni.

Þess má til gaman geta að hryggnan var vel hrognafull, en ekkert los komið í hrognin þannig að væntanlega eru enn einhverjir dagar í hryggningu í vatninu.