Teygjur

Gúmmílappir á flugur auka verulega á aðdráttarafl þeirra í vatni og eru fáanlegar í ýmsum útfærslum. En það er ekki sama hvaða teygjur menn nota, þær þurfa að vera hæfilega stífar og umfram allt, rúnaðar. Fyrir þá sem vilja prófa, án þess að þræða allar veiðibúðir bæjarins, þá er ágætur möguleiki á að finna heppilega teygju úti í bílskúr. Kerruteygjur innihalda oft fínar teygjur og ef þú ert heppinn, í ýmsum litum. Kíktu á trosnuðu teygjurnar og athugaður hvort ekki þurfi að stytta þær um eins og 10 sm.

Blue Charm Nymph

Í einhverri veiðiferðinni sumarið 2012 hitti ég ‘eldri’ veiðimann sem varð að orði að hann saknaði bláu flugnanna, eina sem enn þekktist væri Blue Charm og hún væri aðeins notuð í laxinn. Þessu spjalli okkar yfir fluguboxunum hefur oft skotið upp í huga minn yfir væsinum og nú lét ég verða að því að bulla saman púpu sem innihéldi eitthvað blátt.

Nærtækast var að halda sig nokkurn veginn við skiptinguna úr Blue Charm og eftir nokkrar tilraunir varð þessi til. Hvort hún höfði eitthvað til silungsins næsta sumar verður bara að ráðast, litaskiptingarnar eru í það minnsta nógu áberandi sem er nú oftast til þess fallið að kveikja í honum.

Höfundur: lætur fara lítið fyrir sér
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfurvír
Búkur: Gult gerfisilki (1/3), svart gerfisilki (2/3)
Thorax: Blátt gerfisilki
Vængstæði: Svört andarfjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur

Ummæli

Hilmar – 19.janúar 2012

Glæsilegt eintak, bíð spenntur að heyra af aflabrögðum hennar í sumar.

mbk

Hilmar

Guðmundur – 19.janúar 2012

Töff :-) það væri spennandi að prófa þessa

Jón Magnús – 5.febrúar 2012

Þessa verð ég að prófa!

11.02.2012 – Árni Jónsson

Þetta er mjög veiðileg fluga!

Jock

Hér er ein sem er í raun lítið þekkt í þessu upprunalega formi sínu. Oftar en ekki hafa menn ruglað þessari saman við laxa-bróður hans, Jock Scott, en skv. heimamönnum (Skotum) eiga þær víst lítið sameiginlegt, urðu til hjá sitt hvorum aðilanum án vitundar um tilvist hvors annars, sel þetta ekki dýrara en ég las það.

Jock er sagður geysilega öflugur í urriðann þegar kvölda tekur á miðju sumri.

Eitt aðal einkenni þessarar silungaflugu er hvíti broddurinn í vængnum sem má víst alls ekki vanta.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 10 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Gul hænufjöður
Vöf: Fínt ávalt tinsel eða koparvír
Búkur: Gult floss (2:5) / Svart floss (3:5)
Vængur: Mallard með hvítum broddi
Kragi: Guinea fowl

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12

Professor

Klassískur fræðimaður frá Skotlandi, ein af elstu núlifandi flugum og þá á ég við að hylli hennar er enn gríðarleg meðal silungsveiðimanna og þá helst eins og hún var hnýtt upphaflega, með hringvafi úr langri fjöður sem nær ríflega öngullegginn.

Einhvers misskilnings gætti um tíma um uppruna hennar, jafnvel talinn Amerísk, en höfundur hennar er nú samt John Wilson frá Edinborg sem var uppi á árunum 1785-1854.

Tod Stoddart nefnir þessa flugu í bókum sínum og leggur áherslu á hún sé sérstaklega kræf í vatnaurriða á vorin og sjóbirting síðla sumars.

Höfundur: John Wilson
Öngull: Hefðbundin 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Rauð gæs
Vöf: Fínt ávalt tinsel eða koparvír
Búkur: Gult floss
Vængur: Dröfnótt önd, samanbrotin
Kragi: Brún hackle

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
8,10,12 8,10,12

Ívar í Flugusmiðunni hefur lagt sitt til málanna og setti kennslumyndaband um fluguna inn á rás Flugusmiðjunnar þar sem ýmissa grasa kennir fyrir fluguáhugamenn:

BAB – Babbinn – Kibbi

Hér er á ferðinni fluga, ekki einhöm. Margir þekkja hana sem Kibba, aðrir sem Babbann og svo þekkir einstaka maður hana undir upprunalegu nafni sínu; BAB sem hún var skírð í snarhasti árið 2000 í höfuðið á höfundi sínum.

Eins og sjá má er þetta göldrótt fluga með eindæmum, einföld og bráðdrepandi eins og margar veiðibækur á Íslandi sanna. Höfundur hennar, Björgvin A. Björgvinsson notaði hana fyrst opinberlega í Íslandsmótinu í silungsveiði árið 2000, en þá hafði hann þegar reynt hana frá árinu 1996 í nokkrum útfærslum.

Úr sömu ættkvísl flugna má nefna Amalíu Þórs Nielsen og fluguna hans Sveins Þórs, Matta sem er að vísu með roðavafning í vínilnum en sver sig alveg í ættina.

Höfundur: Björgvin A. Björgvinsson
Öngull: Grupper 10-16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil
Kragi: Orange Globrite
Haus: Gullkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ívar í Flugusmiðjunni setti saman stutt kennslumyndband sem við látum fylgja hér með:

Þurrt eða blautt

Nýlega las ég áhugaverða grein um samanburð fluguveiði með þurrflugu og púpum. Án þess endilega að taka undir það álit höfundar að púpuveiði sé langerfiðasta afbrigði fluguveiði, þá hafði hann nokkuð til síns máls þegar hann benti á þá staðreynd að veiði með þurrflugu ætti sér stað í tvívídd, þ.e. á yfirborði vatnsins í lágréttu plani á meðan púpuveiði væri í þrívídd þar sem dýpið bætist við sem þriðja víddin.

Það tók sjálfan mig nokkurn tíma að ná tökum á þriðju víddinni og ná að stilla mig, eða öllu heldur fluguna af í réttu dýpi. Þyngdar púpur, mikið þyngdar púpur og svo hægsökkvandi línur eða taumar (sem ég er enn ekki kominn upp á lagið með). Það tók mig síðan enn lengri tíma að ráða bót á enn öðru sem aðskilur þurrflugu- og púpuveiði, nefnilega blindunni. Þegar maður veiðir á yfirborðinu liggur bráðin svolítið í okkar heimi, við sjáum skordýrin á vatninu og getum valið okkur flugu eftir þeim. En þessu er ekki til að dreifa þegar kemur að púpuveiðinni. Við sjáum í fæstum tilfellum það sem fiskurinn er að éta rétt undir yfirborðinu eða á botninum. Til að ráða bót á þessu þurfum við að þekkja örlítið til aðstæðna í það og það skiptið, á hvaða stigi skordýrin eru og hvar þau leynast, í það minnsta þar til fyrsti fiskur er kominn á land og við getum skoðað magainnihald hans.

Svo er auðvitað enn eitt sem skilur þessar tvær aðferðir frá hvor annarri; fórnarkostnaðurinn. Á meðan þurrflugumaðurinn getur átt sér sína uppáhalds flugu í langan, langan, mjög langan tíma þá eiga púpurnar það til að festar í botninum og ekkert annað fyrir veiðimanninn að gera en að slíta. Það eru beinlínis margar púpur sem eiga að líkja svo eftir skordýrum á botni vatnsins að þær verður að veiða eins og botnvörpu og þá mega nú ekki margir steinar vera í veginum svo maður festi ekki stöku sinnum. Það er haft eftir reynsluboltum; Ef hún skrapar ekki botninn, þá ertu ekki að veiða nógu djúpt. Það má nú vera meiri þurrflugan sem skrapar botninn.

Augað í pung

Þegar annað augað er dregið í pung hlýtur sjónin að skerðast um helming sem er slæmt mál ef maður er eineygður eins og öngull. Ekki draga það of lengi að hreinsa flugulakkið úr auganu ef þú hefur slysast til að lakka í það. Jafnvel besti úrsnarari nær ekki að hreinsa augað ef lakkið hefur náð að fullharðna og þeir geta skilið eftir örlitlar leifar lakks sem geta auðveldlega slitið eða marið taumaenda þegar síst skildi. Annar ókostur úrsnarar er að þeir eiga það til að særa haus flugunnar, jafnvel svo að hann raknar upp og þá eru dagar flugunnar taldir.

Einfalt ráð til að þrífa lakk úr auga er að þræða ‚ljótu‘ fjöðrina (hackle) sem finnst í öllum pakkningum í gegnum augað strax og hausinn hefur verið lakkaður.

Higa’s SOS

Stundum fellur maður alveg flatur fyrir flugum sem dúkka upp á netinu. Þannig er því farið með mig og þessa flugu Spencer Higa.

Í hnýtingarleiðbeiningum og umfjöllun á netinu er mælt með þessari flugu í stærðum 16-20 en ég hef prófað að hnýta hana alveg upp í #10 og þannig kemur hún líka virkilega vel út.

Hvað það er sem kveikir í manni gagnvart þessari flugu veit ég ekki, kannski bara hvað hún ber mikinn keim af Mýslu Gylfa Kristjánssonar nema að þessi er svolítið flugulegri heldur en Mýsla.

Frá því þessi fluga kom fyrst fram hafa margir spreytt sig á litavali í hana, sjálfur hef ég snúið henni við þannig að rautt verður svart, svart verður rautt og silfrað verður gyllt. Þannig veiðir hún ekkert síður.

Höfundur: Spencer Higa
Öngull: Grupper 10 – 20
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Svört fasanafjöður / önd
Vöf: Silfurvír
Bak: Rautt floss
Kragi: Svart dub (t.d. Hareline Ice Dub)
Haus: Silfurkúla

Þess ber að geta að sumir hnýtarar hafa laumað á fluguna vængstubb úr hvítri- og svart dröfnóttri fjöður og fest hann fyrir framan kraga. Þannig klædd ber hún heldur betur keim af mörgum öðrum flugum sem líkja eftir mýflugu á leið upp að eða við yfirborð vatnsins.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10 – 20 12-14 10 – 20 10

Í myndbandinu hér að neðan setur Eiður Kristjánsson og flotta útgáfu af þessari flugu:

Hér að neðan er nokkuð eldra myndband þar sem Grant Bench hnýtir sína útgáfu:

March Brown

Þrátt fyrir að vera ein af ‘gömlu’ flugunum hefur March Brown ekki verið neitt afskaplega vinsæl hin síðari ár hjá okkur á Fróni, sem er í sjálfu sér einkennilegt því hér er á ferðinni fluga sem á ættir sínar að rekja í silungsveiði Hálanda Skotlands og fór fyrst á prent 1886 í flugubíblíu Pritt’s, North Country Flies. Fluga sem hefur alla tíð gefið vel í vatnaveiði á Bretlandseyjum og víðar.

Áhugi minn á þessari flugu vaknaði að ráði í sumar þegar ég fikraði mig áfram með áberandi gylltar útgáfu þekktra flugna eins og Pheasant Tail og fleiri, þannig að ég ákvað að koma uppskrift af henni fyrir á blogginu og þá sérstaklega þegar snillingurinn Davie McPhail setti myndband af henni á YouTube.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Rauður / orange / dökk brúnn 8/0
Skott: Bronze Mallard (sumir vilja þó sleppa skottinu)
Vöf: Gylt tinsel
Búkur: Grá-brúnn refur / íkorni / héri
Kragi: Fasanafjöður
Vængur: Fasanafjöður (væng gjarnan sleppt ef skotti er sleppt)
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér setur Davie McPhail toppinn á kökuna með því að hnýta full-klædda March Brown, með skotti, væng og kraga, glæsileg fluga.

Að halda þræði

Það getur reynst erfiðara en ætla mætti að halda þræði í svona bloggi með minnst þrjú innlegg á viku. En það eru líka fleiri þræðir sem koma við sögu þegar kemur að flugum og fluguhnýtingum. Í upphafi notuðust menn við hnýtingarþráð úr silki og valið var ekki erfitt, fáir litir og sverleiki þeirra í algjöru lágmarki. Nú á dögum er úrval hnýtingarþráða orðið slíkt að hægt er að fara algjörlega út yfir öll velsæmismörk í vali, eða hvað?

Eins og eflaust fleiri hnýtarar þá hef ég reynt að halda tegundum í lágmarki, prófað nokkrar en reynt að einskorða mig við þær sem ég hef strax fundið mig í að nota. Tvær gerðir standa upp úr hjá mér; UNI og Danville. Stærsti munurinn á þessum tveimur merkjum er að UNI þráðurinn, þessi venjulegi er úr polyester á meðan að Danville er úr nylon. Og hvaða máli skipti það svo sem, kann einhver að spyrja. Mín reynsla er að Danville þráðurinn á það frekar til að særa fjaðrir við hnýtingu, þ.e. skera á meðan UNI er aðeins mýkri en á það frekar til að hnökra og rakna upp nema maður gæti þess vel að túpan í keflishaldaranum sé hrein og vel við haldið. Hér er ég aðeins að bera saman spunninn þráð frá þessum framleiðendum, ekki flatan þráð eins og raunar flestar gerðir Danville er. Þegar kemur að flötum þræði sem á, almennt talið, að leggjast betur en spunninn og bíður upp á það að kljúfa hann fyrir döbbið, þá hef ég bara ekki komist upp á lagið með hann, ekki frekar en GSP (gel spun polyethylene) þráð eða vaxborinn. Já, æfingin skapar meistarann, ég veit.

En hvað er ég með margar tegundir á borðinu hjá mér? Jú, eins fáar og ég kemst af með og þar spilar ekki inní nein nýska. Á borðinu hjá mér er ég með brúnan (camel), ryðrauðan (rust brown), svartan, tan, ólífugrænan (olive dun) og rauðan. Ég passa uppá að eiga þessa liti í 8/0 en tek það síður nærri mér ef 6/0 klárast. Já, ég vil helst að mælieiningin sé X/0 (naught scale) í stað denier, sem er auðvitað bara sérviska hjá mér sem kemur ekki að sök því ég held mig mikið til við ofangreindar tegundir. Því er nefnilega þannig farið að X/0 merking á milli framleiðenda er nokkuð mismunandi og því getur 8/0 þráður frá UNI verið af allt öðrum sverleika heldur en þráður frá Gudebrod eða Wisp frá Gordon Griffith‘s. Þessu til viðbótar luma ég síðan auðvitað á nokkrum gerðum floss og einu og einu kefli af gerfisilki sem ágætt getur verið að grípa í þegar mig vantar áberandi lit eða blæbrigði í fluguna.

Dúskur

Einhver auðveldasta fluga sem hægt er að hugsa sér; öngull og dúskur. Þessi er í sama flokki og Hrognið bæði hvað varðar viðfang og uppskrift, eitthvað sem ég sauð saman.

Mjög einföld aðferð; þræðið tilbúinn dúskinn upp á öngulinn, dropi af lími sitt hvoru megin og þá er málið dautt.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: Grubber
Búkur: Appelsínugulur skrautdúskur (fást í pakka í Söstrene Grene)
Lím: Crazy Glue

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14  10,12,14 10,12,14 10,12,14

Hrognið

Þegar eitthvað nýtt rekur á fjörur manns er sjálfsagt að deila því. Ekki dettur mér í hug að taka mér einhvern heiður af þessari flugu, fann bara enga uppskrift af henni eins og ég prófaði, og læt því slag standa og birti þessa.

Uppskriftin er tiltölulega einföld, eina sem þarf er töluverð þolinmæði og umfram allt skipulag því þessa flugur er eins gott að hnýta margar í einu. Aðferðin en einföld; þræddu skrautperlu(r) upp á öngulinn og festu hann í vise eða korktappa (marga í krans fyrir fjöldaframleiðslu). Ef þú ætlar að nota lakk til að mynda hrognið, mæli ég með að setja einn dropa af Crazy Glue við perluna til að festa hana á öngulinn. Lakkið sem þú notar ætti helst að vera úr dósinni sem þú gleymdir að loka um daginn og varð aðeins of þykkt fyrir fluguhausa, það lekur síður. Settu aðeins lítinn dropa á perluna í hverri umferð og leyfðu því að þorna vel á milli. Sama regla gildir í raun ef þú ætlar að nota Epoxíð, leyfðu því að þorna vel á milli umferða. Umferðirnar geta orðið nokkuð margar eða allt þar til þú nærð u.þ.b. 3-5 mm kúlu á öngulinn.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: Grubber
Búkur: Appelsínugul skraut perla eða tvær (fást í Litir og föndur)
Lím/lakk: Epoxíð lím eða staðið lakk

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14  10,12,14 10,12,14 10,12,14

Ummæli

12.02.2013 – Brynjar M. Andrésson: Ertu með eitthverjar veiðisögur af þessu ‘skrípi’?

Svar: Nei, það verður nú að viðurkennast að ég hef ekki gert stóra hluti með svona flugu, en… prófaði hana eitt sinn þegar bleikja var í hryggningu og urriðinn sýndi henni töluverðann áhuga, samkeppnin var bara svo mikil í vatninu að mér varð ekkert ágengt, allt of mikið af hrognum á ferðinni.

Aðeins meira um hrognaflugur

Hrognafluga úr antron

Þegar forvitnin vaknar þá er um að gera að svala henni. Síðsumars vaknaði nokkur áhugi hjá mér á svo kölluðum hrognaflugum og auðvitað settist ég niður og hnýtti nokkrar slíkar og tók með mér í veiði, en því miður gáfust ekki mörg tækifæri til að prófa kvikindin og því læt ég nægja að taka saman smá fróðleik um þessi fyrirbrigði sem ég hef náð að viða að mér.

Þrátt fyrir einfalt útlit og byggingu þessara flugna getur það verið töluvert þolinmæðisverk að hnýta þær, þ.e.a.s. ef maður styttir sér bara ekki leið og kaupir tilbúinn dúsk og þræðir upp á öngul.

Einhverjar ‚deilur‘ eru í gangi í veiðiheiminum um það hvort hnýta eigi hrognaflugur sem stök hrogn eða í klasa. Til að byrja með valdi ég mér einfalda lausn, stakt hrogn á öngli, ekkert of stórt en áberandi samt. Þess ber að geta að hrogn bleikju og urriða geta orðið allt að 5 mm í þvermál þannig að við þurfum víst ekki að vera hræddir við stærri en þær sem ég hnýtti (2-3 mm).

En hvernig veiðir maður svona flugur? Í grunninn er um tvær aðferðir að ræða; á eða við yfirborðið með flugum sem gerðar eru úr antron eða öðru álíka gerfiefni sem ekki drekkur í sig vatn. Þessi aðferð kallar á dautt rek, þ.e. lítinn eða í besta falli alveg lús hægan inndrátt. Ekki verra að koma flugunni fyrir innan um annað rek og þá sérstaklega í froðuslóð eða hlémegin við stein eða bakka. Grannur, langur taumur rétt eins og um þurrfluguveiði væri að ræða. Hin leiðin, sú sem ég prófaði aðeins, er í raun að veiða þungar hrognaflugur líkt og þyngdar púpur; á botninum með hægum en jöfnum inndrætti, rétt eins og þær reki undan straumi eftir að hafa flosnað upp. Framþung, hægsökkvandi lína með grönnum taumenda.

Og aðeins til að árétta; það er ekki aðeins urriðinn sem hrífst af hrognum, bleikjan étur þau líka og svo auðvitað laxinn og sjóbirtingurinn.

Með rauða kúlu……

Alma Rún

Og ekki bara á maganum; kragar, broddar og hausar úr fluorescent eða neon efnum hafa verið að ryðja sér til rúms í fluguhnýtingum og þá sér í lagi eftir að Frakkar, Pólverjar og Tékkar urðu meira áberandi en áður. Við Íslendingar eigum líka okkar verðugu fulltrúa í þessum hópi. Peacock með sínum upprunalega neon kraga og Alma Rún með appelsínugula hausnum eru einmitt flugur sem eru lýsandi fyrir Hot Spot flugur.

Uppruna þessara flugna má rekja til stóru vatnanna í norðurhéruðum Englands og Skotlands þar sem menn byrjuðu á því að bæta áberandi þráðum í stél straumflugna í þeirri von að gera þær meira áberandi í augum silungsins. Til að byrja með reyndu menn nokkra mismunandi liti en þegar á reyndi nutu þeir appelsínugulu og rauðu mestra vinsælda hjá silunginum, kannski vegna þess að þessir fluorescent litir halda upprunalega lit sínum alveg sama hvort þá beri í beint sólarljós, rökkur ljósaskiptanna eða tunglsljós á meðan búk- og vængefni taka litaskiptum í mismunandi birtu.

Hot Spot PT

En hvort á að velja; brodd eða kraga? Kannski eru það bara kenjar sem ég hef tekið upp eftir mér reyndari mönnum en mitt val er nokkuð einfalt, litlar púpur fá kraga eða haus úr áberandi lit, t.d. Alma Rún og Peacock í stærðum 12-16. Stærri og bústnari flugur fá brodd. Umfram allt, ég set aldrei áberandi lit á báða enda, hvað þá á miðjuna líka. Síðan má alltaf athuga að nota fluorescent kúluhausa sem hafa verið að stinga upp kollinum í verslunum hin síðari ár. Lítill broddur á hefðbundna flugu s.s. Pheasant Tail gefur vel þar sem urriðinn er hættur að taka undir stöðugu og miklu áreiti hefðbundinna flugna.

Hot Spot Héri

En broddurinn má ekki vera of stór, lítill og áberandi kveikir meiri forvitni en stór og groddaralegur, fiskurinn byrjar að taka aftur.

Áberandi thorax úr fluorescent dub kveikir ekkert síður í silunginum, sígildar flugur eins og Héraeyrað og Pheasant Tail ganga í endurnýjun lífdaga séu þær hóflega skreyttar með áberandi litum og ekki úr vegi að eiga þær original og Hot Spot.

Montana

Hér er á ferðinni fluga sem á ættir sínar að rekja til norðurhéraða Bandaríkjanna. Upphaflega hnýtt af Lew Oatman fyrir vatnsmiklar ár Montana en flugan hefur skipað sér fastan sess meðal vinsælustu vatnaveiðiflugna á Íslandi. Upphaflega átti þessi fluga að líkja eftir steinflugu og því ekki gott að segja til um hverju hún líkist í íslenskri náttúru því við eigum aðeins eitt afbrigði þeirrar flugu, ófleyga afbrigðið Capnia vidua. 

Þessi fluga hefur gert það nokkuð gott í vötnum í nágrenni höfuðborgarinnar, svo sem Kleifarvatni, Meðalfellsvatni og eflaust víðar.

Höfundur: Lew Oatman
Öngull: Hefðbundin 6 – 14
Þráður: Svartur 8 /0
Skott: Svartar stélfjaðrir
Búkur: Svart chenille
Frambúkur: Gult chenille með svartri chenille rönd
Hringvöf: Svartar hanafjaðrir

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 6, 8,10,12,14

Killer

Ef efnt yrði til landsmóts flugna þá yrði Killer Þórs Nielsen á heimavelli á Þingvöllum. Um árabil hefur þessi fluga verið nefnd fyrst allra þegar spurt er um flugur í Þingvallavatn. Upphaflega hönnuð árið 1975 og síðan hafa komið jafnt og þétt nýir litir af henni þannig að nú þekkist hún svört, rauð, hvít, grá, orange, brún o.s.frv. Fjölbreytnin í kúlum er síðan óendanleg; gylltar, silfraðar, svartar, nefndu það bara og prófaðu.

Að veiða þessa flugu á Þingvöllum á að kosta afföll því ef þú veiðir hana ekki svo hægt að hún kraki í botninum annars lagið, þá ertu að veiða hana of hratt.

Killer – Rauður
Killer - Svartur: Júní,Júlí
Killer – Svartur

Höfundur: Þór Nielsen
Öngull: Hefðbundinn 8 – 10
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfurvír, fínn
Bak: Hvítt árórugarn (ull)
Búkur: Svart árórugarn
Kragi: Rautt globrite og svartur þráður
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
8,10 8,10

Hér að neðan gefur að líta myndband frá Ívari í Flugusmiðjunni þar sem hann hnýtir Killer:

Kopar Moli

Koparflugur hafa sótt töluvert í sig veðrið síðustu ár og að sama skapi hefur útgáfum og útfærslum þeirra fjölgað verulega. Þekkt erlend er vitaskuld Copper John sem finnst í ótal afbrigðum, en íslenska koparflugan er vitaskuld Kopar Moli.

Koparflugur hafa gefið vel í vatnaveiði og andstreymis í straumi.

Flestar koparflugur eru tiltölulega einfaldar í byggingu og efnisvalið hreint og beint; öngull, koparvír, thorax-efni og kúla, ef vill.

Höfundur: Gísli J. Þórðarson
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Búkur: Koparvír
Kragi: Héri
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Krókurinn

Enn eitt meistarastykkið úr smiðju Gylfa Kristjánssonar. Einhver vinsælasta silungafluga hér á landi, veidd hvort heldur ein sér eða sem afleggjari (dropper). Hef heyrt því fleygt að hún hafi verið skírð í höfuðið á Jóni ‘Krók’ Bjarnasyni frá Húsavík sem fékk að sögn fyrstur að prófa þessa flugu.


Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Fasanafjaðrir
Stélkragi: Rautt dubbing (Crystal antron)
Búkur: Medium svart vinyl rib
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Á vormánuðum 2020 rættist langþráður draumur margra þegar Eiður Kristjánsson útbjó myndband af hnýtingu Króksins, hér að neðan má sjá Eið fara vel og vandlega yfir ferlið:

Hrognaflugur

Þegar haustið nálgast og silungurinn fer að taka á sig riðbúning opnast alveg nýr heimur fyrir veiðimanninum. Atferli fisksins tekur breytingum, urriðinn verður grimmari og bleikjan hópar sig í vötnunum.  Fram að hrygningu er urriðinn sérstaklega sólginn í hrogn, jafnt eigin tegundar og annarra.

Hrognafluga úr antron

Í nýlegri veiðiferð varð ég vitni að þessu atferli svo um munaði og varð hugsað til þess að lítið hefur farið fyrir svo kölluðum hrognaflugum hér á Íslandi. Erlendis hafa menn notað léttar, í það minnsta léttari stangir og flotlínu í þessa veiði og auðvitað flugur. Þær flugur sem ég hef skoðað eru allar nokkuð keimlíkar; appelsínugulur hár/garn bolti á hefðbundnum stuttum öngli, þyngdar eða ekki. Auðvitað eru síðan til listaverk sem menn hafa dundað sér við að útbúa úr plastefnum, fljótandi eða föstum sem ná ótrúlegri líkingu við hrogn.

Hrognafluga úr plastefni

Hvort þessar flugur höfði eitthvað til urriðans í líkingu við raunverulegar hrognabrækur þori ég ekki að fullyrða en sjálfsagt er að hnýta nokkrar svona og taka með í veiðina þar sem urriða er von núna í haust. Nú, ef maður nær ekki tökum á svona hárboltum, þá má alltaf taka með sér stuttan orange Nobbler. Kannski er hér einmitt komin skýringin á því að urriðinn tekur það ólíkindatól. Eins og ég gat um áður er nokkuð misjafnt hvort menn þyngja hrognaflugur eða veiða þær við yfirborðið, en það er tiltölulega auðvelt að fela þyngingu undir bústnum búk hennar. Stærðirnar eru, sýnist mér frá #10 og niður í #16.

Red Tag

Merkileg fluga sem á uppruna sinn að rekja til Englands kringum 1850, hálft skordýr, hálft viðrini. Frá fyrstu tíð hefur þessi fluga verið veiðimönnum hin besta skemmtun og silunginum banvæn. Það er nokkuð misjafnt eftir heimshornum hvaða skordýri menn telja hún líkjast helst; Ástralir segja hana líkjast ákveðinni bjöllu sem þar finnst, Bandaríkjamenn flugu sem ég þori ekki að nefna á íslensku en Skotar segja hana líkjast lífvörðum hennar hátignar, Englandsdrottningar.

Hvað sem þessu líður hefur þessi fluga gefið vel í gegnum tíðina og sjálfsagt að koma uppskrift af henni hér inn.

Höfundur: Martyn Flynn
Öngull: Hefðbundin 10 – 18
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Peacock herl
Kragi: Ljós-rauð hanafjöður, hringvafin
Haus: Lítill

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14