Woolly Bugger

Einhver svipur hefur alltaf verið með Woolly Bugger og Dog Nobbler. Hvor varð til á undan veit ég ekki, en Woolly Bugger kom fram á sjónarsviðið 1967 þegar Russell Blessing útfærði fyrirmyndina Woolly Worm, setti á heilmikið marabou skott á orminn þannig að úr varð straumfluguna sem Buggerinn er í dag.

Nú er svo komið að Woolly Bugger er til í óteljandi afbrigðum lita og samsetninga þannig að Bandaríkjamenn hafa freistast til að nota heiti hennar sem almennt samheiti allra marabou straumfluga sem komið hafa fram á sjónarsviðið síðustu áratugi. Kannski ekki ósvipað því sem við hér heima höfum nefnt ótal flugur í höfuðið á Nobbler þótt því fari víðsfjarri að þær samræmis upprunalegu uppskriftinni.

Upprunaleg uppskrift Woolly Bugger er á þessa leið:

Höfundur: Russell Blessing
Öngull: Straumflugu 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Þynging: 10 – 12 vafningar af blý- eða tungstenþræði
Skott: Svart marabou með glitþráðum að eigin vali
Búkur: Svart chenille hringvafið hanafjöður
Vöf: Silfur- eða koparvír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12,14 8,10,12 8,10,12

Hér gefur að líta myndband af Woolly Bugger, að vísu olívu grænum með kúluhaus:

Woolly Worm

Woolly Worm er fluga sem er komin nokkuð til ára sinna og af henni hafa sprottið nokkrar lítið þekktar flugur en einnig ótrúlegur fjöldi flugna sem við þekkjum vel í dag. Flugan er upprunnin í Ozark fjöllum Arkansas í Bandaríkjunum fyrir margt löngu síðan, en almennri útbreiðslu náði hún þegar Don Martinez, veiðimaður og hnýtari, kom henni á framfæri upp úr 1950.

Við fyrstu sýn svipar þessari flugu nokkuð til hinnar Skosku Black Zulu, en yfirleitt er Woolly Worm hnýtt á öllu lengri krók, allt upp í 3XL og höfð nokkuð sverari um sig heldur en Black Zulu. Með tíð og tíma hefur litaval í þessa flugu aukist verulega og finnst hún víða með brúnu eða grænu búkefni, meira að segja í skærum litum eins og UV gulu, appelsínugulu og hárauðu. Allt samsetningar sem ganga í augu silungsins.

Uppskriftin hér að neðan miðast við þá uppskrift sem Don Martinez setti fram.

Höfundur: Don Martinez
Öngull: Legglangur 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Þynging: 6 – 10 vafningar af blý- eða tungsten þræði
Skott: Rauð ull eða marabou vöndull
Búkur: Svart chenille, hringvafið með hanafjöður
Vöf: Silfur-, kopar- eða gyltur vír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 12,14 8,10,12,14 8,10

Hér gefur síðan að líta alveg ágætis leiðbeiningar að því hvernig hnýta skal fluguna:

Hið appelsínugula sumar

Fyrstu fiskarnir í vor sem leið tóku nokkuð hefðbundnar flugur sem virka í köldu vatni. Mjósleginn Mobuto og mjónur með rauðu ívafi voru greinilega eitthvað sem líktust því æti sem var á ferðinni. Þetta ætti svo sem ekkert að koma á óvart, það eru ekkert endilega fullvaxta flugur sem boðið er upp á snemma vors. Á sama tíma voru Black Pennell og Teal and Black að gefa öðrum veiðimönnum fisk og svo auðvitað heimalningurinn í Selvoginum, Peacock.

Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16
Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16

Þegar fjör fór að færast í fiskinn, bæði urriða og bleikju, var eins og hálfgert kapphlaup hæfist á milli Peacock með orange skotti og stutts orange Nobblers. Og viti menn, þar sem þessum tveimur tókst að stimpla sig fljótlega inn, þá voru þær alltaf framarlega í boxinu í sumar og þar með oftast á meðal fyrsta vals það sem eftir lifði sumars. Þær flugur sem oftast eru reyndar enda vitaskuld með því að verða þær veiðnustu, svo einfalt er það. Þannig trúlega varð þetta eiginlega sumar hins stutta orange Nobblers.

Ekki dró úr áhuga fisksins á Nobbler eftir að ég brá út af vananum og hnýtti nokkra úr UV Straggle frá Veniard í stað hefðbundins undirlags og hringvafs. Þá varð þessi fluga einfaldlega bráðdrepandi, bæði í urriða og bleikju. Vel að merkja, umræddur Nobbler er stuttur, afskaplega stuttur og lítill. Ég að tala um að hnýta hann á stuttan púpukrók #12 eða #14, stundum #10 ef ég hef ekki trú á þeim sérlega litlu.

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi var annað af fjórum hnýtingar- og kynningarkvöldum Febrúarflugna og Ármanna. Það var ekki annað að sjá en gestir kvöldsins væri sáttir við dagskrá kvöldsins, margir mættu með hnýtingartól og tæki, aðrir gægðust varfærnislega á handbragð hnýtara eða kynntu sé vöruúrvalið frá Vesturröst sem kynnti hnýtingarefni, flugur og fluguveiðigræjur. Eins og vænta mátti naut handbragð og flugur Robert Nowak mikillar athygli og þá ekki síður fulltrúi yngri kynslóðarinnar, Arnar Freyr sem setti í nokkrar flottar flugur undir vökulum augum reyndari hnýtara.

Af flugum er það helst að frétta að harður kjarni hnýtara hefur birt myndir af flugum sínum á Facebook það sem af er mánaðarins og nú hafa þær náð hálfu öðru hundraði. Nú langar okkur að hvetja meirihluta þeirra ríflega 80 aðila sem enn hafa ekki sett inn flugu að smella eins og einni mynd af handverkinu og setja inn á viðburðinn, já eða senda þær með tölvupósti á fos@fos.is  Við viljum gjarnan sjá fleiri virka þátttakendur sem þannig gætu átt möguleika á óvæntum glaðningi frá styrktaraðilum okkar undir lok mánaðarins.

Svipmyndir úr Árósum 13. febrúar

Myndasmiðir: Ólafur Óskar Jónsson / Kristján Friðriksson

Þrjár tegundir eða fjórar?

Þurrflugur, púpur og straumflugur. Þarf þetta að vera eitthvað flóknara? Mér hefur verið tíðrætt um þá upplifun mína frá fyrstu dögum fluguveiðinnar þegar ég vafraði um netið og skoðaði allar straumflugurnar, t.d. frá Ray Bergman og stórbrotnar klassískar laxaflugur eins og þessar. Svo kíkti maður á allar flottu þurrflugurnar og púpurnar.

Þrjár tegundir flugna, ekki satt? Nei, ég vil gjarnan halda mig við fjórflokkunina. Eins og ég upplifði í Skotlandi s.l. haust þegar ég heimsótti Edinburgh Angling Center, þá er fjórði flokkurinn enn við góða heilsu þótt hann hafi farið hallloka fyrir púpuástríðu vestrænna veiðimanna hin síðari ár, votflugurnar lifa, meira að segja þokkalega góði lífi ennþá.

Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre
Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre

Ef eitthvað er að marka umfjöllun og úrval þurrflugna í þessari stærstu veiðiverslun Bretlandseyja, þá eru þær vinsælastar allra flugna sem eru á boðstólum. Næstar á eftir þeim koma klassískar votflugur og þeim er haldið vel aðskildum frá öllum púpunum sem eru þar á boðstólum. Held reyndar að ég hafi aldrei séð annað eins úrval og fjölda af púpum í einni verslun. Fæstar tegundir voru af straumflugum og hreint og beint engar gamlar klassískar laxaflugur eins og maður glápti úr sér glyrnurnar yfir hér um árið. Ég geri mér reyndar þokkalega grein fyrir að þær séu meira til hátíðarbrigða hjá hnýturum heldur en til daglegs brúks.

Eigum við síðan eitthvað að ræða úrval hnýtingarefnis í þessari stórverslun? Nei, það tekur því ekki. Íslenskar veiðiverslanir hafa hreint ekkert að skammast sín fyrir þegar kemur að úrvali hnýtingarefnis.

Vetrarverk

Um þessar mundir eru þeir forföllnu að hnýta eins og enginn sé morgundagurinn. En hvað verður svo um allar þessar flugur, það er að segja áður en þær fara í vatn? Fyrir einhverjum árum síðan var ég spurður, í fullri alvöru held ég, hvað ég gerði eiginlega við allar þessar flugur sem ég hnýtti, kannski 10 stk. af þeirri sömu. Ég þarf nú ekki að týna nema 5 og þá er ég lens, ég hnýti nefnilega fyrir tvo veiðimenn.

Eins þjál og meðfærileg og litlu fluguboxin geta verið, meira að segja suma þeirra á fleiri en tveimur hæðum, þá yrði fjöldi þeirra óviðráðanlegur ef ég ætlaði að koma öllum mínum flugum fyrir í þeim. Þess í stað flokka ég flugurnar gróflega niður í geymsluboxin mín og er með 2-3 minni box í vestinu sem ég fylli reglulega á eða skiptu um þemu í eftir því sem sumrinu vindur fram.

fos_flugubox_all
Fluguboxin

Hvaða reglu sem veiðimenn hafa á boxunum sínum ætti að vera undir hverjum og einum komið. Hver um sig verður að finna hentugustu aðferðina þannig að nokkuð víst sé að hann finni ákveðna flugu þegar eftir henni er sóst. Umfram allt mæli ég með því að flokka flugurnar, ekki hafa allt í belg og biðu. Mín flokkun er ekki flókin; púpur, votflugur, þurrflugur og straumflugur. Það segir væntanlega sína sögu að ég er með tvö púpubox sem er skipt eftir þemalitum púpa. Vestisboxin eru aftur á móti þrjú; púpur, vot- og straumflugur og þurrflugur. Hvað þarf maður meira?

Ljótar flugur eru ekki verri

Eflaust hafa einhverjir lenti í því að þurfa að kaupa sér flugu og komist síðan að því að hún veiddi ekkert og entist svo í þokkabót ekki neitt heldur. Ég hóf reyndar tiltölulega snemma að hnýta mínar flugur sjálfur, þannig að ég get ekki kennt neinum um þegar þær veiða ekkert og endast skemur en það tekur að hnýta þær á tauminn. En hvað er það eiginlega sem skilur góðu flugurnar frá hinum?

Ending flugu er auðvitað eitthvað sem menn vilja að sé þokkaleg, ekki síst þegar þeir hafa gefið 200 – 400 kr. fyrir stykkið. En ending og ending er ekki það sama. Af mínum athugunum að dæma, þá fer urriðinn verr með flugu heldur en bleikjan, en helst er það nú veiðimaðurinn sjálfur sem fer verst með fluguna. Ég hef verið með sömu fluguna á taumi og veitt 40 bleikjur í beit á hana, svo lengi sem ég athuga reglulega ástand taums og hnúta. Ef ég aftur á móti læt undir höfuð leggjast að athuga með hnútinn reglulega, þá er því nú þannig farið með mig og mín sígandi bakköst að ég næ ekki marktækri niðurstöðu í talninguna áður en ég verð að hnýta nýja flugu á í staðinn fyrir þá sem slapp af fyrir aftan mig eða skaust fram úr tauminum í framkastinu.

Síðan hefur það komið fyrir að ég egni fyrir urriða með svipaðri flugu, þ.e. sömu tegund og fyrir bleikjuna, eins hnýtta og úr sama hráefni, en aðeins náð að taka fjóra urriða á hana áður en hún er komin í tætlur og ekki fiski bjóðandi. Hér set ég varnagla, það hefur einnig komið fyrir að hef verið að veiða flugu svo lengi að hún er öll komin í tætlur, eiginlega ekkert eftir af henni annað en krókurinn, einhverjar efnisdruslur og spottar hingað og þangað út í loftið. Á slíka flugu hef ég tekið fjölda fiska þrátt fyrir bágborið ástand hennar, kannski einmitt vegna þess. Veiðni flugu snýst ekki síst um það hverju hún líkist og þrátt fyrir að fluga sé slétt og felld í hnýtingarþvingunni okkar, þá getur hún afmyndast verulega þegar í vatn er komin.

Þegar ég skoða flugur í veiðiverslunum, hvort heldur í rekka eða í vafra á netinu, þá horfi ég helst á hlutföll flugunnar. Ef flugu er ætlað að líkja eftir einhverju vængjuðu kvikindi, þá verða vængirnir að vera sem næst í réttri lengd m.v. búk og sverleika. Veiðiflugan er e.t.v. fallegri eins og hnýtarinn lagði hana frá sér, en það er alls ekki víst að fiskurinn sé á sama máli. Ergo; flugan er falleg en ekki góð. Ég hef enn þá trú á silunginum að hann leiti eftir sköpulagi skortdýra, ekki því úr hvaða hráefni eftirlíkingin er hnýtt eða hún líti vel út í augum okkar mannskepnunnar.

fos_blackghostinarow_big

Svo eru þessar flugur sem við hnýtum í fullkomlega óraunverulegum hlutföllum. Sem dæmi um slíkar flugur er t.d. Dog Nobbler eða Damsel. Þegar við erum sáttir og losum þær úr hnýtingarþvingunni, þá eru þetta bossamiklar flugur með ofgnótt marabou í skottinu, sundurnagaða vaskakeðju á hausnum og glitofinn, loðinn búk, jafnvel í einhverjum afkáralegum bleikum lit sem er eiginlega ekki til í skordýraflórunni. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki prófað að dýfa slíkri flugu í vatn, draga hana fram og til baka í eldhúsvaskinum, þá er tími til kominn. Marabou bossinn verður eiginlega ekki að neinu, næstum beint strik aftan af flugunni, búkurinn verður alls ekki eins loðinn og efni standa til og allt glysið hverfur inn á milli fjaðranna. Og ef vel tekst til, þá er vaskakeðjan eins og augu hornsílis eða seiðis. Allt þetta óraunhæfa er horfið og í staðinn er kominn lítill fiskur sem getur hoppað og skoppað fyrir fram svangan silunginn, engt hann til töku.

En hvað með frágang flugunnar? Ég hef alveg heyrt að menn segja flugu ljóta þegar þeim ofbýður magn og áferð lakks. Sjálfur hef ég í einhvern tíma sagt eitthvað á þessa leið, en getur ljót fluga samt ekki verið góð? Það eru væntanlega meiri líkur á að viðkomandi fluga endist þokkalega ef hún er augljóslega vel lökkuð. Falleg fluga og góð eru alls ekki það sama. Það eru líka til þær flugur sem mér finnast einfaldlega mjög ljótar að sköpulagi. Þetta eru meira að segja vinsælar flugur meðal silungsveiðimanna, ég nefni enginn nöfn, hvorki á flugum né veiðimönnum, sem ég set næstum aldrei undir. Það er eins og einhver pjattrófa togi í höndina á mér í hvert skipti sem hún nálgast ákveðnar flugur í boxinu mínu og færir hana í átt að einhverri sem mér finnst fallegri. Einmitt, ég stend sjálfan mig að því að velja fallega flugu umfram góða. Verst hvað hvað silungurinn er oft alls ekki á sama máli og ég.

Öðruvísi flugur

Vatnabjöllur hér á landi eru ekki margar, mér skilst að hér finnist aðeins 6 tegundir. Þekktust er væntanlega brunnklukkan, þá fjallaklukkan og svo vatnaklukkan. Almennt er ekki talið að bjöllur skipi stórar sess í fæðu silungsins og því kom mér nokkuð á óvart að sjá í fluguboxi veiðimanns nokkrar haganlega hnýttar bjöllur. Allar voru þær hnýttar úr ljósu, brúnu og svörtu frauði, með og án fálmara/lappa.

Mér láðist að spyrja þennan ágæta veiðimann hvort hann hefði í nokkurn tíma veitt á þessar flugur og þá sérstaklega vegna þess að þær voru greinilega hannaðar með það fyrir augum að fljóta á yfirborðinu frekar en sökkva.

Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk
Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk

Eftir því sem ég ég kemst næst, þá halda klukkur sig helst á og við botn kyrrstæðra vatna, nema þá e.t.v. vatnaklukkan sem getur fundist í straumlitlum lækjum og smærri ám. Að vísu taka klukkur sig stundum til, synda upp að yfirborðinu, stinga afturendanum örlítið upp úr og draga loft inn undir skjöldinn. Þær snúa reyndar snarlega til botns aftur og halda sig þar eða svamla um neðarlega í vatnsbolnum. E.t.v. ætti maður að prófa nokkrar svona og eiga tiltækar ef maður verður var við mikla bjölluumferð næsta sumar. Sjáum til þegar ég verð búinn að hnýta allar hinar sem eru á listanum.

Einfalt í einfaldleika sínum

Ein af mörgum greinum sem ég las fyrripart vetrar fjallaði um gildi einfaldra flugna. Þar fór Ný-Sjálendingurinn Bob Wyatt mörgum orðum um gildi þess að einfalda málin þegar átt er við styggan fisk, einhvern styggasta fisk sem þekkist í heiminum sagði hann, Ný-Sjálenska urriðann. Já, það er margt líkt með okkur, sitt hvoru megin á jörðinni. Styggustu urriðar veraldar finnast greinilega á báðum stöðum.

Í þessari grein var farið mörgum orðum um einfaldar flugur og margar nefndar til sögunnar. Meðal þeirra var Killer Bug, Frank Sawyer, flugan sem hefur svolítið fallið í skugga systur sinnar, Pheasant Tail. Svo langt gekk greinarhöfundur í skrifum sínum að hann fullyrti að hverjum veiðimanni ætti að nægja að eiga þessa flugu og aðeins hana eina. Það eru raunar mörg ár síðan ég hnýtti Killer Bug síðast og það eru enn nokkur eintök af henni í geymsluboxinu mínu. Hvers vegna? Jú, trúlega vegna þess að ég hef sjaldan haft rænu á að setja hana undir. Ég er trúlega mikið glysgjarnari heldur en urriðinn, vel frekar einhverja í lit eða með áberandi broddi úr boxinu og læt eintökin af Killer Bug því í friði.

fos_killer_bug

Ég viðurkenni það fúslega að stundum ætti maður að prófa sömu flugu, bara í annarri stærð áður en maður sleppir sér lausum í boxinu. Hversu oft hefur maður ekki staðið sig að því að vera með einfalda flugu í höndunum sem ekkert gefur og í stað þess að skipta niður í stærð eða lögun, þá æðir maður áfram og velur einhverja í allt öðrum lit og gengur ekkert betur. Þegar svo veiðibækurnar eru bornar saman í lok dags, kemur í ljós að veiðifélaginn hefur einmitt verið með sömu fluguna í höndunum, bara örlítið minni, og veitt á hana eins og enginn væri morgundagurinn.

En aftur að Bob Wyatt. Hann, ásamt stórum hópi veiðimanna á Nýja Sjálandi, vinna markvisst að því að kenna öðrum veiðimönnum að nota fáar tegundir flugna í nokkrum stærðum og leggja meira upp úr formi þeirra og lögun heldur en beinlínis útliti. Nota t.d. Killer Bug þegar þeir vilja líkja eftir skordýri á púpustigi, Pheasant Tail á næsta þroskastigi og svo Griffith‘s Gnat fyrir fullvaxta flugu. Kannski maður ætti að útbúa sér box einfaldleikans fyrir næsta sumar? Bara þrjár tegundir flugna í stærðum frá #10 og niður í #18.

Á döfinni

Þeir eru væntanlega ekki margir staðirnir á landinu þar sem haustið er ekki farið að setja mark sitt á náttúruna. Næturfrost á veðurkortunum, snjóföl í fjöllum og morgnarnir hefjast orðið á því að bregða þarf kreditkortinu á framrúðu bílsins. Hann er genginn í garð, tíminn þegar ég sest niður, rifja upp atvik frá liðnu sumri og set í greinar nokkrar hugleiðingar út frá efninu.

fos_thingvellir_kirkja

Nú þegar hafa á fjórða tug greina af ýmsum toga komist á blað og flestum þegar raðað niður til birtingar á vefnum. Þegar 39 dögum hefur verið eytt í veiði á sumrinu, er ekki nema von að fyrstu vikur vetrar fari svolítið í að gera sumarið upp, lesa í aukna innistæðu í reynslubankanum og reyna að læra eitthvað af mistökum sumarsins.

Væntanlega verða einhverjar nýjar og gamlar flugur kynntar til leiks þegar nýtt ár gengur í garð og þannig kemur eitthvað til með að bætast við þær tæplega 80 uppskriftir og upplýsingar sem þegar má finna á síðunni. Ég er þegar með nokkrar áhugaverðar í sigtinu og þær verða reyndar í hnýtingarþvingunni á næstu vikum. Ef þær verða fiskum bjóðandi fara þær í myndatöku og gerðar klárar fyrir vefinn.

FOS.IS mun á nýju ári standa eitt skiptið enn fyrir hnýtingarviðburði á Facebook undir nafninu Febrúarflugur. Eins og áður er öllum heimil þátttaka með því að skrá sig til leiks og setja inn myndir af því sem kemur úr hnýtingarþvingunni þann mánuðinn. Engar kvaðir eru á þátttakendum, þeir haga sínum innleggjum eins og hverjum hentar. Væntanlega verður viðburðurinn með svipuðu sniði og áður, en áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks með því að smella hérna. Nánar verður fjallað um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Undanfarin ár hafa rétt um 1200 greinar safnast á vefinn og fylgjendum hans fjölgað jafnt og þétt. Það er ekki sjálfgefið að allt það efni sem hér birtist verði áreynslulaust til úr eigin ranni og því er nú einfaldlega þannig farið að fæstir lesendur vefsins hafa mjög hátt um það hvaða efni þeir vilja sjá hér á síðunni. Ef lesendur hafa hug á senda mér ábendingar eða óskir um sérstakt efni, þá er það velkomið og þeim bent á senda mér tölvupóst á kristjan(hjá)fos.is eða nýta sér skilaboðaform sem nálgast má hér á síðunni.

Kate McLaren

Með árunum hafa afbrigði þessarar klassísku flugu reglulega skotið upp kollinum. Upprunaleg stendur hún alltaf fyrir sínu þegar kemur að urriðanum, eins og um svo margar aðrar álíka flugur er bara hægt að segja; það er eitthvað við hana.

Sagan á bak við fluguna er víst eitthvað á þá leið að William Robertsson hnýtti hana og skírði í höfuð eiginkonu John McLaren, Kate. John notaði fluguna í mörg ár í sjóbirting en það var ekki fyrr en sonur þeirra hjóna, Charles McLaren, veiðimaður og rithöfundur, gat hennar í bók sinni The Art of Sea Trout Fishing útg.1963 að hún varð feikilega vinsæl og hefur verið það allar götur síðan.

Höfundur: William Robertson
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull #10 – #16
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Golden Pheasant Crest
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Upprunalega selshár, en eins og svo oft nota ég svarta ull
Hringvöf: Svört og brún hanafjöður
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur

Davie McPhail fer hér höndum um Kötu

Black Pennell

Enn ein klassísk sem hefur gert góða hluti í vatnaveiðinni. Sérstaklega einföld fluga í hnýtingu og sver sig greinilega í ætt klassískra votflugna.

Mikið notuð í bleikju, staðbundna og sjógengna en það ætti alls ekki að útiloka hana í urriða, öðru nær. Flugan á uppruna í Skoskum heiðarvötnum þar sem hún tryllti urriðan alla síðustu öld og reyndist vel og það hefur hún einnig gert hér heima á Fróni. Elliðavatn, Hlíðarvatn í Selvogi og svo mætti lengi telja þau vötn þar sem þessi fluga hefur gefið vel.

Pennell var ötull talsmaður þess að búkur flugna sem þessarar ætti að vera grannur, mjög grannur og sjálfur notaði hann silki í búkinn og var spar á það. Seinni tíma uppskriftir gera ráð fyrir floss í búk, ég geng enn lengra og nota íslenska ull. Hún verður aðeins rytjulegri þannig og ég er ekki frá því að bleikjunni þyki hún girnilegri þannig.

Höfundur: Cholmondeley Pennell
Öngull: Hefðbundin #10 – #14
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svart floss
Hringvöf: Svört hænufjöður
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12,14 10, 12, 14

Það eru til mörg mjög góð myndskeið á netinu af því hvernig þessi fluga er hnýtt, en þetta er með þeim skýrari og betri sem ég hef séð. Hér fer Eiður Kristjánsson fumlausum höndum um efnið og klárar dæmið á rétt um 7 mínútum, frábært myndskeið:

Ethel the Streaking Caddis

Einhverra hluta vegna hefur þessi bráð skemmtilega þurrfluga farið hamförum í netheimum undanfarið árið. Margir hafa reynt sig við hnýtingarmyndbrot af henni, en fáum hefur tekist eins vel til og Davie McPhail þegar hann hafði hendur í elgshári og hnýtti þessa flugu fyrir framan myndavélina. Flugan er nokkuð hefðbundin m.v. flugur úr elgs- og hjartarhárum og hefur gefið einstaklega vel þar sem vorflugan er á kreiki.

Af eigin reynslu get ég fullyrt að þessi fluga er alls ekki eins erfið í hnýtingu eins og ætla mætti, sérstaklega þegar maður hefur farið nokkrum sinnum yfir myndband Davie. Sjálfur setti ég í eina sem innlegg í Febrúarflugur 2015.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Grubber #14
Þráður: ljós 8/0
Búkur: ljósbrúnt dub (ljós lopi)
Hnakki og haus: Hjartarhár

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
14 14

Hér má síðan sjá meistara Davie McPhail fara fimum höndum um hráefnið þannig að úr verður glæsileg fluga.

Að lokum

fos_nyarid

Flugur og skröksögur líta um öxl á þessum tímamótum. Það sem við sjáum er eitt besta vatnaveiðiár sem menn muna eftir. En það er langt því frá að það sé eitthvert viðmið, því minni manna er oft minna heldur en menn þykjast muna.

Endalausar verðhækkanir á stangveiðileyfum hafa orðið mörgum manninum að umfjöllunarefni síðustu mánuðina. Leynt og ljóst er óánægja manna með verðlagningu í öfugu hlutfalli við afla undangenginnar vertíðar, þ.e. færri fiskar í frystinum kalla á meiri óánægju með verð veiðileyfa. Það sannast enn og aftur að náttúran tekur ekkert mark á aukinni arðsemiskröfu eða gróðavon í veiðibransanum og veiði dróst mikið saman frá árinu 2013. Kallað hefur verið eftir auknum samtakamætti veiðimanna þannig að unnt sé að spyrna fótum við enn frekari hækkun veiðileyfa.

Svona hljómar umfjöllun fjölmiðla í meginatriðum fyrir árið 2014. Það er töluvert þynnra hljóðið í þessum sömu fjölmiðlum um afkomu vatnaveiðinnar og verðlagningu veiðileyfa. Langsamlega vinsælasti kostur vatnaveiðimanna, Veiðikortið hækkar ekkert á milli ára og veiði hefur almennt farið upp á við. Að vísu kemur sumarið 2013 eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í sögu síðustu ára en þannig er nú einu sinni stangveiðinn. Sé kalt á bakkanum er vatnið einnig kalt og þá heldur fiskurinn sig til hlés, jafnt í vötnum sem ám. Þrátt fyrir að sumarið 2014 hafi ekki verið sérstaklega sólríkt, þá var hlýtt og nóg af fersku vatni í vötnunum okkar, fiskum og veiðimönnum til ánægjuauka þannig að aflatölur voru með því besta sem sést hefur í langan tíma.

Það er ef til vill merki um aukið sambandsleysi veiðimanna við náttúruna að sveiflur í aflabrögðum virðst sífellt kom fleirum og fleirum á óvart. Það getur með sama hætti þótt vísbending um ákveðið sambandsleysi þegar menn þakka skammtíma aðgerðum mannanna aukinn afla. Langtímaáhrif inngripa okkar eru aftur á móti til þess eins fallin að spilla afrakstri þróunar sem hefur tekið náttúruna hundruði ára að byggja upp. Látum náttúruna í friði og lærum að njóta hennar af skynsemi og aðgát, þá þarf aldrei að koma til okkar afskipta, sem er væntanlega affærasælast fyrir allt og alla.

Af veiðiferðum mínum er það helst að frétta að fyrsti fiskur ársins var bjartur og fallegur 60 sm. birtingur úr Meðalfellsvatni á fyrsta í Veiðikorti, þ.e. 1. apríl. Ellefu dögum síðar skrapp ég í Eldvatnið og braut blað í sögu minni sem veiðimaður; braut toppinn á uppáhalds stönginni minni. Lítið var síðan að frétta af veiði framan af sumri sem ég skýri með lélegu tíðafari og ýmsum öðrum afsökunum. Reyndar slysaðist ég til að taka urriða á Þingvöllum þegar allur urriði átti að vera horfinn af bleikjuslóð og þykir mér enn miður að ég skyldi hafa truflað þann góða fisk. Ég er nefnilega haldinn þeirri firru að sleppa því að sleppa á Þingvöllum. Ef einhver stofn er í slíkri hættu að mælt sé með því að veiða og sleppa, þá kýs ég að sleppa því að veiða og einbeiti mér að öðrum fiskum eða vötnum, nóg er af urriða á öðrum slóðum sem má taka með sér heim í soðið.

Eftir þjóðlega heimsókn á Þingvelli þann 17.júní tók heldur að lifna yfir veiðinni og við tók ein skemmtilegasta ferð ársins, Veiðivötn í fyrsta skiptið. Síðar í júlí færðum við hjónin okkur suður fyrir Tungnaá og lögðum eiginlega Framvötnin í einelti það sem eftir lifði sumars. Aldrei spurning um að veiða og sleppa á þeim slóðum, bara veiða og taka, slík er ofgnótt bleikju á svæðinu.

Heildaryfirlit fyrir veiðiárið okkar hjóna má finna hér.

Árið á vefnum var eiginlega við það sama og verið hefur á umliðnum árum. Tæpar 81.000 heimsóknir á árinu og yfir 100 nýjar greinar og færslur. Af þessum heimsóknum skruppu yfir 2.500 yfir á önnur veiðiblogg og 25.000 á aðrar veiðitengdar síður. Samtals hafa tæplega 267.000 heimsóknir heiðrað síðuna frá því hún fór í loftið og stígandinn á milli ára er jafn og öruggur.

Ég framkvæmdi þá breytingu á árinu að færa Facebook færslur og tilkynningar yfir á sérstaka síðu fyrir Flugur og skröksögur en fram að þessu hef ég nýtt mína persónulegu síðu fyrir FOS. Fylgjendur nýju síðunnar eru nú þegar orðnir 175 en maður getur alltaf á sig blómum bætt og á nýju ári ætla ég að laumast til að efna til smá ‘like’ leiks til að afla nýrra fylgjenda. Meira um það síðar.

Til allra sem fylgst hafa með þessu pári mínu; kærar þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, nýja árið verður bara ennþá öflugra og alltaf jafn ókeypis á fos.is

Vaninn

Hér á síðunni má eflaust finna einhverjar glaðbeittar yfirlýsingar um það að láta ekki vanan festa sig í sömu sporunum. Sumt af því getur eflaust flokkast sem réttlæting á eigin æðibunugangi eða óþolinmæði, en það má heldur ekki gleyma því að reynslan er formóðir vanans. Þegar maður er að koma í annað eða þriðja skiptið í ákveðið vatn, þá leitar maður ósjálfrátt í reynslu fyrri ferða(r) og gerir eitthvað svipað, þ.e. ef vel gekk í það skiptið.

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir á ferð uppi á heiðum í nánast sama veðri og á sama árstíma og fyrir tveimur árum síðan. Aðstæður voru sem sagt mjög sambærilegar, utan þess að við komum í þetta skiptið að vatninu þegar mikið klak var í gangi og töluverður hamagangur í bleikjunni á yfirborðinu þannig að þurrflugurnar fengu að njóta sín í þetta skiptið. En, þegar þurrflugan hafði sannað sig, héldum við á ‚staðinn okkar‘ við vatnið og svipuðumst eftir fiski. Jú, hann var þarna á sínum stað og alveg jafn djöfullegt að fá hann til töku. Kom þá að reynslunni; Watson‘s Fancy púpa með silfruðum kúluhaus. Þetta var flugan sem ég prófaði síðast og fékk fiskinn á botninum til að taka. Líf- og umhverfisleg áhrif höfðu ekkert að segja um þetta flugnaval, ég var á sínum tíma bara búinn að prófa flest allt úr boxinu án árangurs þegar kom að henni. Því var það að fyrsta fluga sem ég prófaði þarna í sumar var Watson‘s Fancy og ‚auðvitað‘ var tekið í fyrsta kasti og ekkert lát á tökum næstu tvo tímanna. Það var ekki fyrr en rót komst á fiskinn að við skiptum um flugur og náðum nokkrum til viðbótar á glannalega Nobblera.

Síðar um sumarið komum við aftur að þessu vatni og staðfestum enn eitt skiptið að reynslan af Watson‘s Fancy var ekkert eins- eða tvídæmi. Svona getur nú reynslan orðið að vana.

Sólsetur á heiðum
Sólsetur á heiðum

Killer Bug

Sumar flugur eru einfaldlega svo einfaldar að það tekur því ekki að setja inn efnislista. Killer Bug er einmitt ein þessara flugna. Haft er eftir höfundi hennar, Frank Sawyer að honum nægðu fimm flugur til að geta veitt alls staðar. Auðvitað var Pheasant Tail ein þessara ásamt Killer Bug.

Ég hef lúmskan grun um að það séu frekar fáir veiðimennirnir hér á Íslandi sem þekki eða hafi prófað þessa flugu Sawyers, sem er í raun grátlegt því hún er virkilega veiðin þessi hnellna fluga. Engin uppskrift, aðeins Oliver Edwards að hnýta hana.

Að lokum; smá vísbending umefnisvalið. Íslensk ull virkar frábærlega í þessa flugu, helst Létt Lopi sem losaður er sundur á þáttunum og spunninn rangsælis eftir að hann hefur verið festur niður eða einband.

Höfundur: Frank Sawyer

Ummæli

18.07.2013 – LogiÉg hef hnýtt þessa flugu og það sem mér finnst hafa komist næst orginalinum er einband, lopi.

20.07.2013 – Siggi Kr.Gaman að sjá þessa flugu hérna, hef einmitt verið að nota einhvern lopa sem ég ég náði að gera upptækan ú prjónakörfu konunnar í hana en hún hefur því miður ekki fengið mikla notkun hjá mér. Svo langar mig líka að benda þeim á sem hafa á því áhuga að það er til mynd sem heitir Frank Sawyer’s favorite flies þar sem John Klingberg hnýtir nokkrar flugur eftir Sawyer í orginal útgáfum. Myndina er hægt að finna á netinu sem torrent en ég hef hvergi séð hana til sölu.

Svar: Já, því miður virðist þessi mynd ófáanleg á netinu, þ.e. öðruvísi en sem torrent frá þriðja aðila eða ‘öryggisafrit’ eins og það heitir. Læt mönnum leitina sjálfum eftir ef þeir vilja sækja þannig útgáfur 🙂

Af bekknum í boxin

Það er væntanlega við hæfi að óska veiðimönnum til hamingju með daginn í dag, 1.apríl. Fyrstu vötnin að opna eftir vetrarfrí sem vonandi flestir hafi notað vel til hnýtinga og lestur góðra veiðibóka.

Síðari hluta vetrar hef ég leyft mönnum að skyggnast í hnýtingarlistann minn fyrir vertíðina sem er að hefjast í dag með greinum undir heitinu ‘Af bekknum’. Nú eru flestar flugurnar komnar í geymsluboxin, sem eru auðvitað frá IcePete og klárar fyrir sumarið, þ.e.a.s. straum- og votflugur auk púpa. Þurrflugurnar eru örlítið færri eftir veturinn, geri þeim skil síðar. Eins og sjá má eru þetta nokkrar flugur, raunar nokkuð fleiri en þær sem ég hef talið til í þessum greinum mínum í vetur. Það eru ekki aðeins silungarnir sem gína við flugum, ég er ekkert skárri á ráfi mínu á veraldarvefnum, ef ég sé eitthvað spennandi verð ég bara að prófa og þannig bætast stundum nokkrar við sem ekki voru á upphaflegum hnýtingarlista vetrarins.

Geymsluboxin fyrir sumarið
Geymsluboxin fyrir sumarið

Með von um að veiðimenn láti nú sjá sig við vötnina í dag, í það minnsta til að óska hverjum öðrum til hamingju með daginn, þakka ég fyrir samfylgdina í vetur og vona að einhverjir hafa haft gaman og e.t.v. eitthvert gagn ‘Af bekknum‘.

Griffith’s Gnat – þurrfluga

Þau eru nánast óteljandi skiptin sem þessi fluga hefur komist á lista yfir ‘Bestu flugur allra tíma’. Flugan er hönnuð af George Griffith með það að leiðarljósi að vera einföld og umfram allt verðugur fulltrúi þurrflugna sem líkja eiga eftir mýflugum. Ef maður flettir þessari upp á netinu þá eru komment eins og ‘Must have’, ‘Overall best’ ekki óalgeng.

Eitt skemmtilegt afbrigði hennar er hnýtt úr svart-lituðum peacock fjöðrum með svörtu hringvafi og örlitlu rauðu skotti bætt við. Þegar ég sá þá flugu fyrst datt mér Black Zulu í hug og silungur í uppitöku þar sem galdraflugan sat á vatninu.

Höfundur: George Griffith
Öngull: Þurrfluguöngull 16 – 24
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: peacock fjöður
Vöf: hringvafin hanafjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
16,20,22,24 16,20,22,24

Elk Hair Caddis – þurrfluga

Enn ein flugan sem líkir eftir vorflugunni okkar, en í þetta skiptið þurrfluga. Al Troth, höfundur hennar ætlaði henni að vera alhliða eftirlíking vorflugunnar og það má með sanni segja að hafi tekist því þetta er ein langsamlegast útbreiddasta þurrflugueftirlíking vorflugunnar.

Hún situr hátt á vatninu og hefur reynst mönnum vel þar sem gáran drekkir öðrum flugum, hvort heldur í ám eða vötnum.

Eftir að hafa gengið sjálfur í gegnum þrautagöngu byrjandans í þurrfluguveiði þar sem allar flugur mínar vildu sökkva, þá hnýtti ég mér nokkrar í ætt við þessa sem fljóta, sama hvernig viðrar.

Höfundur: Al Troth
Öngull: Þurrfluguöngull 10 – 16
Þráður: Tanned 6/0
Vöf: fínn gullþráður
Búkur: héri
Hringvaf: palmeruð brún fjöður
Vængur: ljós fjöður
Haus: lítið eða ólakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér gefur síðan að líta Kurt Chenuz frá Kanada fara nokkuð fimum höndum um fluguna.

Ummæli

11.01.2013 – HilmarÞetta er mögnuð þurrfluga, flothæfileikinn kemur einmitt með því að nota Elk Hair, sem er notað í vænginn. (mátt kannski uppfæra uppskriftina :o ). Það er líka hægt að gera ótrúlega hluti með Elk eða Deer hair í fluguhnýtingum. Sjá t.d. Þetta http://www.flytyingforum.com/uploads/img4f09f2ae88f13.jpg

mbk, Hilmar

WD-40

Byrjum á nafninu; hún heitir ekki í höfuðið á smurefninu sem flestir fluguveiðimenn forðast eins og heitan eldinn. WD stendur fyrir Wood Duck. Hún er Amerísk og kom fyrst fram árið 1982, hnýtt af Mark Engler.

Eins og um margar aðrar flugur af svipuðum toga hefur litaafbrigðum hennar sífellt farið fjölgandi og nú er örugglega hægt að finna hana í öllum litum frá hvítu (já, ég fann eina svoleiðis á netinu) og yfir í svart.

Brún er hún í uppáhaldi hjá mér, ekkert ósvipuð Tailor. Já, einmitt, það er oft stutt á milli flugna eftir sitt hvorn höfundinn og í sitt hvorri heimsálfunni.

Höfundur: Mark Engler
Öngull: Grubber eða beinn 12 – 20
Þráður: Brúnn 8/0
Skott: Mallard (Wood Duck)
Búkur: Brúnn ullarþráður (mín sérviska) annars venjulegur þráður
Vænghús: brúnt dub
Haus: lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
12,14,16,20 12,14,16