Þessa flugu hannaði Jón Sigurðsson með Elliðavatn í huga, en flugan hefur að sögn sannað sig víðar en þar. Eins og sjá má sver flugan sig í ætt við aðrar nymphur sem ættaðar eru úr Elliðavatni.
Uppskrift flugunnar má, eins og fjölda annarra flugna, finna í Veiðiflugur Íslands sem Jón Ingi Ágústsson tók saman um árið, en Ívar Örn Hauksson (Ívar’s Fly Workshop) endurvakti áhuga landanns á flugunni fyrir skemmstu og gerði ágæt skil.
Höfundur: Jón Sigurðsson Öngull: hefðbundin púpukrókur #12 – #18 Þráður: svartur Vöf: koparvír Búkur: afturbúkur úr rauðbrúnu flosi, frambúkur úr dökkbrúnu flos Vængstubbur: vængfjöður hringfasana eða aðrar tvílitar fjaðrir Haus: svartur, lakkaður
Hér að neðan má sjá þegar Ívar hnýtir Brúnku, Jóns Sigurðssonar:
Í stað þess að birta hér uppskrift að ákveðinni flugu með ákveðnu nafni, þá ætla ég að brjóta normið og setja fram það sem ég kýs að kalla eina af ótal aðferðum til að hnýta marfló. Aðferðir, hráefni og útfærslur marflóa eru nær óendanlegar og til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá eru sumar marflær svo flóknar og útheimta sértæk hráefni að flesta rekur í strand á fyrstu mínútum hnýtingarinnar.
Flugan hér að ofan er hnýtt samkvæmt aðferð sem meistari Davie McPhail birti árið 2013. Þetta er sú aðferð sem ég hef notað frá upphafi þegar ég hnýti marfló. Hér set ég þann fyrirvara að þegar ég hnýti örsmáar marflær eða vatnakrabba, þá nota ég hefðbundin hnýtingarþráð í stað koparvírs til að klára fluguna og oftar en ekki þá sleppi ég fálmurunum og hef aðeins skott á flugunni, ef ég man þá eftir því.
Búkefnið getur verið allt frá ólituðum héra, yfir í eitthvað bleikt, appelsínugult, rautt, grænt, brúnt, svart eða drappað.
Eins og Davie McPhail er einum lagið þá er hann ekkert að flækja málið, beitir aðferð sem allir ættu að ná tökum á og heldur sig við fá hráefni sem flestir ættu að eiga. Sjálfur hef ég um árabil notað latexhanska sem ég klippti í renninga fyrir margt löngu síðan, einn hanski endist mér trúlega ævina og ég er ekkert kræsin á efnið í búkinn, hvað eina sem er í heppilegum lit getur orðið fyrir valinu.
Höfundur: Davie McPhail Öngull: grupper í stærð #10 til #16 Hnýtingarþráður og vöf: mjúkur koparvír Fálmarar og skott: stokkandarfjöður Bak: plast renningur / plast foil Búkur: héradub í æskilegum lit, gjarnan með íblönduðu glitefni
Það eru til ótal útfærslur af flugum sem hnýttar hafa verið og líkja eiga eftir marfló og vatnakröbbum eins og sjá má þegar rennt er yfir þær flugur sem komið hafa fram í Febrúarflugum síðustu ár. Hér má sjá nokkrar af þeim sem komið hafa fram:
Þessi fluga er eignuð Edward (Ted) Welling frá Arizona í Bandaríkjunum og sögð hafa komið fram á sjónarsviðið árið 1996. Það er engin ástæða til að efast um að Ted hafi gefið þessari flugu nafn sitt, en þegar ég sá þessa flugu fyrst, þá hélt ég að hún héti Black, Copper Bead-head og væri íslensk í húð og hár eftir Bjarna R. Jónsson og hafi komið opinberlega fram á sjónarsviðið í þeirri góðu bók Veiðiflugur Íslands árið 1997. Þessum flugum svipar óneytanlega töluvert saman þótt litum kúlu og vírs væri eitthvað víxlað.
Upprunalega var Zebra Midge hnýtt svört og silfruð, en með tíð og tíma hefur litum og afbrigðum hennar fjölgað ört, sumum gefin sérstök heiti en í grunninn eru þetta allt sömu flugurnar; silfraðar, gylltar eða koparlitaðar í ýmsum litum.
Flugan er gjarnan hnýtt með kúlu í yfirstærð m.v. þumalputtaregluna um stærð kúlu m.v. krók, en eitthvað hefur sú tilhneiging dalað síðustu ár og kúlurnar minnkað eitthvað með tilkomu tungsten kúla.
Þegar maður sér flugu eins og þessa, þá verður manni ósjálfrátt hugsað til þess hve margir veiðimenn hafi mögulega hnoðað í sömu fluguna, hingað og þangað um heiminn, án þess að hafa minnstu hugmynd um tilveru hennar undir einhverju ákveðnu nafni. Það var árið 1992 sem Pat Dorsey og félagar gáfu þessari flugu hans þetta nafn eftir vel lukkaða veiðiferð þar sem hún lék stórt hlutverk.
Í bók Pat, Tying & Fishing Tailwater Flies segir hann frá þessari flugu og tilurð hennar, en lesa má á milli línanna að fluguna hafi hann notað í mörg ár áður en henni var gefið nafn. Þetta var einfaldlega lítil svört púpa sem hann átti alltaf, auðveld í hnýtingu, endingargóð og veiðin.
Sjálfur hnýtti ég þessa flugu fyrst fyrir fjölda ára síðan, trúlega eftir einhverri mynd á vefnum og hafði ekki hugmynd um sögu hennar eða heiti fyrr en ég las fyrrnefnda bók, en það má víða finna umfjöllun um þessa flugu. Ýmsir hafa orðað það sem svo að Pat eigi heiðurinn af því að gefa henni nafn og halda henni á lofti, án þess að fullyrða að hann sé höfundur hennar, sem er e.t.v. rétt þegar um jafn almenna og víðþekkta flugu er að ræða sem margir hafa hnýtt.
Flugan á sér skilgetna systur sem heitir einfaldlega Mercury Midge og ættarsvipurinn er nokkuð augljós eins og gefur að líta hér að neðan.
Ef einhver er að leita að auðhnýttri, gjöfulli flugu í hvað fisk sem er, þá er þetta flugan. Gullbrá hefur glapið bleikjur í hrönnum, urriða í öðru eins magni og laxar hafa líka litið við henni og verið landað. Það eru einhver ár síðan ég setti þessa flugu fyrst í boxið mitt og þar á undan hafði ég sjálfur gert ýmsar tilraunir með Veniard UV Straggle í búk á flugum, en aldrei tekist jafn vel til eins og höfundi Gullbrár, Jóni Inga Kristjánssyni.
Flugan er afar auðhnýtt og heilagleiki hennar er ekki meiri en svo að höfundurinn hefur stundum gripið það efni í hana sem hendi er næst á hnýtingarborðinu og það virðist ekkert koma niður á veiðni hennar. Flugan hefur getið sér gott orð á Arnarvatnsheiði, í Veiðivötnum og eiginlega hringinn í kringum landið og öllum mögulegum veiðistöðum þar á milli.
Flugurnar sem hér koma fyrir sjónir eru hnýttar af höfundinum sjálfum fyrir FOS.IS og þær eru nú fyrirmyndir þeirra sem ég hnýti sjálfur.
Hverjum hefði dottið í hug að þessi fluga héti eitthvað sérstakt? En það er nú reyndar tilfellið að þessi Damsel / Nobbler / Woolly Bugger með gúmmílöppum heitir Haymaker og það sem meira er, hún er af Craven fjölskyldunni.
Í nokkur ár var höfundur flugunnar, Charlie Craven að bögglast með hana í nokkrum útgáfum þangað til hann varð sáttur við hana. Til einhverra ára var þessi fluga aðeins fáanleg í verslun Charlie’s vestur í Colorado í Bandaríkjunum, Charlie’s Fly Box Inc. en svo komst hún fyrir almenningssjónir þegar tímaritið Fly Fisherman birti grein um hana á prenti árið 2016.
Mér er það reyndar til efs að þessi fluga hafi í raun ekki þegar verið þekkt manna í millum, meira að segja hérna uppi á klakanum, löngu áður en Charlie setti á hana þetta nafn. Viðlíka flugu hefur maður séð í boxum veiðimanna hér í nokkur ár, þótt Haymaker (smáfiskur af sculpin tegund) sé ekki til hér á landi.
Þótt upprunaleg uppskrift Charlie Craven hljóði upp á svartar marabou fjaðrir og svartan kraga, þá lét ég það eftir mér að gera hana brúna og finnst hún sannast sagna ekkert minna veiðileg þannig. Sjálfur þyngi ég hana ekki eins og höfundur gerir ráð fyrir, dugar hún alveg eins og hún kemur óþyngd úr þvingunni.
Höfundur: Charlie Craven Öngull: Straumfluguöngull ( 6 – 12 ) Þráður: Svartur 8/0 Skott: Marabou Þynging: nokkrir vafningar af blýþræði Lappir: ávalar svartar gúmmílappir, gjarnan mislitar Búkur: svart/gylt chenille Kragi: svört hænufjöður Kúla: gylt (tunstend ef vill)
Greinina úr Fly Fisherman um þessa flugu má nálgast með því að smella hérna.
Þessa flugu hef ég oft og iðulega séð skráða fyrir fjölda fiska í Hlíðarvatni í Selvogi. Veiðimaðurinn er nær alltaf sá sami, en ég veit fyrir víst að þessi fluga er gjöful víða enda hönnuð eftir fyrirmynd sem fengin er beint upp úr maga ný veiddrar bleikju. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson tjáði okkur að flugan hefði gefið vel í Elliðavatni á árum áður, allt að 300 fiska á sumri, bleikjur og urriða. Hafsteinn notar þessa flugu mikið, eða eins og hann orðar það; „Það hefur engin valkvíði verið hjá mér um fluguval þegar í veiði er farið eftir að ég notaði hana í fyrsta skipti„. Fluguna notar hann til jafns á láglendi sem hálendi og hún hefur gefið fisk í öllum þeim vötnum sem hann hefur stungið henni niður í.
Flugunni hefur skotið upp kollinum í nokkrum útfærslum í gegnum árin og uppskrift hennar hefur verið nokkuð á reiki hjá þeim sem ég hef spurt um. Sumir nota ullargarn, aðrir árórugarn og enn aðrir nota einfaldlega grófan hnýtingarþráð og láta þar við sitja. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson, lét hafa eftir sér hér um árið eitthvað á þá leið að efniviðurinn í fluguna væri aðallega eitthvert járnarusl, spotti og einhver hár.
Sannleikurinn er sá að með tíð og tíma hefur Hafsteinn einfaldað fluguna enn frekar frá fyrstu útgáfu og áfram færir hún honum fisk. Í sinni einföldustu mynd hefur hann sleppt bæði vængjum og vír og notar nú eingöngu svart teygjuefni í hana sem hann lakkar síðan yfir.
Það er okkar trú að það sé alveg sama hvaða aðferð menn nota til að hnýta Burton, formið og einfaldleiki hennir er þannig að hún gefur vel í stærðum #12 og #14.
Höfundur: Hafsteinn Björgvinsson Þráður: Svartur að eigin vali + garn ef vill eða þá svart UNI Flexx Öngull: Legglangur votfluguöngull Vöf: Silfurvír, ef vill Kinnar: Hvítar stíffanir, ef vill
Langskeggur er ein þeirra flugna sem ber nafn með réttu. Skegg flugunnar er langt, mjög langt og vel umfram það sem öll púpu- og votflugufræði segja hnýturum. En það hefur alls ekki komið niður á veiðni þessarar flugu, nema síður sé. Frá því Örn Hjálmarsson kom fram með þessa flugu hefur hún fært veiðimönnum ómælanlegar ánægjustundir á bakkanum.
Lengi vel veigraði ég mér við að hnýta þessa flugu, því eins og myndirnar bera með sér þá virðist ég ekki alveg ná því glæsilega, en jafnfram óvenjulega útliti flugunnar sem mörgum öðrum er gefið. Þessi hlédrægni mín við fluguna vék sumarið 2019 þegar ég horfði lengi vel á tifandi skordýr í Hraunsfirðinum sem var eins og snýtt út úr nös Langskeggs, eða öfugt. Ég nagaði mig heldur betur í hnýtingarhendina þegar ég sá umrætt kvikindi og einsetti mér að láta slag standa og setja í nokkrar flugur.
Mælt er með að eiga þessa flugur í stærðum #12 og #14 sem lætur nokkuð nærri stærð þess kvikindis sem ég sá í Hraunsfirðinum.
Höfundur: Örn Hjálmarsson Öngull: 2XL votfluguöngull Þráður: Svartur 8/0 Vöf: Koparvír Bolur og frambolur: svart árórugarn Vængstæði: dökkbrúnt flos eða Body Stretch Skegg: Svört hanafjöður
Hér sýnir Eiður Kristjánsson hvernig hann hnýtir Landskegg:
Höfundur þessarar flugu, Dave Hise, segir hana tilvalda leitarflugu, þ.e. flugu til að kanna hvort einhver fiskur leynist í vatninu. Sumir hafa sagt þessa flugu vera bræðing af Royal Wulff og Pheasant Tail sem má til sannsvegar færa m.v. útlitið. Appelsínuguli liturinn í flugunni er alveg vís með að kveikja vel í fiski.
Þessi fluga varð töluvert vinsæl undir lok síðustu aldar, seldist vel og náði töluverðri útbreiðslu, en lítið farið fyrir henni í umfjöllun á vefsíðum hin síðari ári, hverju sem það kann nú að sæta.
Það skal tekið fram að meðfylgjandi mynd af flugunni er fenginn að láni (með samþykki) frá Dave Hise, sjálfur hef ég ekki enn hnýtt þessa flugu.
Höfundur: Dave Hise Öngull: Púpukrókur 10 – 16 Þráður: Hot Orange 6/0 Skott og vængstæði: Fasanafjöður Vöf: Koparvír Thorax: Peacock (brún frekar en græn) Kragi: Svart dub (t.d. Hareline Ice Dub) Haus: gull
Enn heldur leit mín að flugum sem hnýttar eru úr föðrum Hringfasana áfram. Þessi árlega leit mín leiddi mig á slóðir Dave Hise að þess sinni, en fyrri leit mín hefur m.a. leitt mig á slóðir Mrs. Simpson. Þó þessi fluga beri nafn sem vísar á vatnakarfa, þá fullyrðir Dave að hann hafi veitt vartara, barra og fengrana á hana, en ekki bleikju eða urriða, ekki einu sinni regnbogasilung. Það gæti því orðið spennandi að prófa þessa flugu í okkar íslensku ferskvatnsfiskum.
Carp Nasty er nokkuð þekkt fluga í Bandaríkjunum og til í ótal útgáfum. Líkt og með margar aðrar flugur sem menn eiga við, þá ættleiða hinir ýmsu hnýtarar þær með því að bæta ættarnafni sínu við heiti þeirra, þannig er því farið með þessa útgáfu en myndbandið hér að neðan er ekki nákvæmlega sama flugan.
Það skal tekið fram að meðfylgjandi mynd af flugunni er fenginn að láni (með samþykki) frá Dave Hise, sjálfur hef ég ekki enn náð að hnýta þessa flugu svo vel útlítandi sé.
Höfundur: Dave Hise Öngull: Votflugukrókur 8 – 12 / Grubber 8 – 12 Augu: Keilur eða vaskakeðja Vöf: Koparvír Fætur: Silly legs Kragi/hringvaf: Fjöður úr hringfasana Skott: Fjaðrir úr hringfasana
Þessi fluga er sérstaklega einföld í hnýtingu, svo einföld að margir hnýtingaleiðbeinendur hafa tekið hana upp á sína arma sem fyrstu flugu nemenda sinna.
Flugan líkir ágætlega eftir lirfu- og púpustigi fjölda skordýra þannig að hún gæti verið n.k. alhliða fluga í boxi veiðimanna. Litir flugunnar spanna nær allt sjáanlega litrófið og raunar vel út fyrir það eftir að UV útgáfur efnisins fóru að koma fram.
Höfundur: Jim Estes Öngull: Standard votflugukrókur 10-12 eða Jig krókur í sömu stærð Haus: Gylt brass kúla (2.8 – 3.8 mm) eða samsvarandi tungsten Búkur: Moppuefni Þráður: 8/0 í sama lit og moppan Kragi: Dub að eigin vali t.d. héri
Hér má síðan sjá hnýtingarhandbragð Brandon Mena hjá Fly Fish Food þegar hann snarar í eina svona flugu:
Þessi fluga er þekktust undir nafninu Squirmy Wormy eða einfaldlega Squirmy. Ekki að það skipti höfuð máli, en hvoru tveggja er rangt. Þessi fluga heitir Squirmito og er nokkru eldri heldur en marga grunar. Fluguna hannaði Dave Hise rétt upp úr 2010 þegar hann var að leika sér með silicone efni í San Juan orminn sem er vel þekktur vestan hafs. Dave hefur oft tekið þá flugu til kostanna og útfært á ýmsa vegu í gegnum tíðina.
Þessi fluga er ein þeirra flugna sem veiðimenn elska að hata eða einfaldlega elska. Um hana eru skemmtilega skiptar skoðanir og í raun mun skiptari heldur en margir vilja viðurkenna. Hvort menn hnýta efnið niður fyrir framan kúlu, aðeins fyrir aftan eða hvoru tveggja, virðist ekki skipta höfuð máli.
Efnisvalið í flugna er svo einfalt að það tekur því ekki að setja þar hér upp í lista, látum hnýtingarmyndband einfaldlega nægja:
Það er alls ekki jafn sjálfsagt að koma frá sér flugu eins og margur heldur. Flott fluga sem maður rekst á eða rekur augun í er ekki endilega töfruð fram á einu augabragði. Í byrjun vetrar getur verið sérstaklega erfitt að setja í fyrstu fluguna.
Nú lýsi ég eigin reynsluheimi og aðstæðum. Ég á mér afdrep þar sem hnýtingarefni og tól eiga að vera innan seilingar. Já, þau eiga að vera innan seilingar, en stundum er eins og sprengja hafi fallið á hnýtingarborðið, ekkert er þar sem það á að vera og sumt er bara alls ekki til staðar. Þá þarf að taka til, taka aðeins meira til og finna það sem mann vantar í fluguna. Skjótast út í búð og kaupa það sem ekki finnst. Finna stað fyrir það sem maður keypti og þá þarf stundum að færa eitthvað annað til, sem sagt að laga aðeins meira til. Og hvað gerist þá? Jú, maður finnur það sem maður hélt alveg örugglega að maður ætti, en fann ekki.
Hnýtingarborðið fyrir tiltekt
Svo kemst maður loksins í þau spor að geta farið að hnýta, þ.e. þegar maður er búinn að taka aðeins meira til og búa til pláss fyrir flugurnar sem þó eru ekki enn sprottnar fram úr hnýtingarþvingunni. Jæja, loksins er komið að því að setja í fyrstu fluguna. Kemur þá ekki í ljós að algengustu áhöld og efni eru ekki lengur innan seilingar. Þá þarf maður að færa aðeins til í hillunni og raða upp á nýtt.
Loksins kemur fyrsta flugan. Æ, hún var nú ekkert sérstaklega vel gerð, eitthvað skökk og skæld og hreint ekkert lýk fyrirmyndinni. Best að hnýta aðra og ef tími gefst til, þá hnýtir maður þau fimm eintök sem vantar þannig að við veiðifélagarnir höfum í það minnsta þrjú eintök í boxinu, hvort um sig.
Hnýtingarborðið eftir tiltekt
Þá er að öllum líkindum komið að því að kveikja undir kvöldmatnum og …. æ, best að kveikja líka á fréttunum, kannski vill svo illa til að enn einn hefur fengið viðbótarkvóta fyrir sjókvíaeldi og þá er dagurinn ónýtur. Ég get þó í það minnsta huggað mig við að það eru komnar 6 nýjar flugur í boxin okkar og ég hef gert enn eina tilraun til að hafa allt á sínum stað, sem ku vera til mikilla bóta fyrir hnýtarann.
Saga þessarar flugu er hreint ekki eins gömul og margir telja. Það var árið 1979 að höfundur hennar, Warren Duncan hljóp undir bagga með félaga sínum, Chris Russell sem kom til hans með snjáða og slitna flugu sem hann hafði hirt upp eftir fengsælan veiðimann við Nashwaakána í Kanada. Þrátt fyrir mikla leit í hnýtingarbókum, fundu þeir félagar ekki út hvaða fluga þetta var, þannig að Warren settist niður og hnýtti flugu sem líktist fyrirmyndinni með nokkrum breytingum þó.
Nafn flugunnar var löngu ákveðið í huga Warren, hann hafði einsett sér mörgum árum áður að ef hann hnýtti einhvern tímann flugu, þá skildi hún heita Undertaker.
Þessi fluga var upphaflega hnýtt sem laxafluga og hún sannaði sig sem slík þegar Warren tók 24 punda lax á hana í Hammond ánni og skömmu síðar bætti Chris um betur og tók 38 punda lax á hana í Kedgwick ánni. Hér kemur flugan fyrir sjónir í öllu minni útgáfu, ætluð í urriða og bleikju sem hún hefur að sögn lokkað til töku, ekkert síður en lax. Uppskriftin hér að neðan er ekki upprunaleg uppskrift, heldur sú sem ég studdist við fyrir þessa minni útgáfu.
Það sem einum dettur í hug, hefur annar örugglega prófað. Þessa flugu sá ég í tímariti í vetur þar sem hún var rómuð af veiðimönnum vestan hafs, þ.e. í Kanada og Bandaríkjunum. Höfundur hennar er Shea Gunkel og hún heitir einfaldlega Gunkel’s Radiation Baetis. Það skemmtilega við þessa flugu er að ég hnýtti hana óséða fyrir ári síðan þegar ég gerði tilraun til að einfalda Higa‘s SOS.
Flugan hefur reynst einstaklega vestan Atlantsála og þessi einfaldaða útgáfa Higa‘s sem ég hnýtti hefur gert það alveg áhætt hérna heima líka. Sjálfur hnýti ég þetta afbrigði yfirleitt einlitt og á hana í nokkrum litum. Fyrir vestan hafa hnýtarar spreytt sig á því að hnýta hana mjög mikið útfærða, bætt á hana tinsel og ýmsu glimmeri til að gera hana eftirsóknarverðari.
Höfundur: Shea Gunkel Öngull: Grubber #14 – #20 Þráður: Aðallitur flugunnar 8/0 Skott: Hænufjöður í stíl Vöf: Vír eða ávalt tinsel Vængstæði: Ice dub í stíl Glit: Flashabou Bak: UV litað lím, gjarnan svart eða glært
Það þarf ekki alltaf reynda fluguhnýtara til að setja saman flugu sem slær rækilega í gegn. Casey Dunnigan, höfundur þessarar flugu, hóf ekki fluguveiðar fyrr en árið 2007 en varð samstundis heltekinn af sportinu. 2010 var hann við veiðar í Colorado og varð vitni að töluverðu klaki grárra mýflugna og var í stökustu vandræðum með að velja flugu sem líktist þeim nægjanlega. Þegar heim var komið, settist hann niður og hnýtti þessa flugu.
Hvernig flugan rataði síðan á markaðinn fylgir ekki sögunni, en hún komast fljótlega í hóp söluhæstu flugna vestanhafs. Þetta er tiltölulega einföld fluga að hnýta og litur hennar sker sig skemmtilega úr þeim svörtu og brúnu mýflugueftirlíkingum sem hafa verið ráðandi.
Þessi litla snotra mýfluga Pat Dorsey hefur verið sérlega vinsæl meðal veiðimanna í Klettafjöllunum Bandaríkjanna á liðnum árum og ætti engan að undra. Þessari flugu svipa vitaskuld til margra annarra flugna, en einfaldleiki hennar er nægur til að allir geta hnýtt hana og það sem meira er, hún virkar.
Rétt eins og um aðrar flugur sem líkja eiga eftir mýflugu, þá er hún yfirleitt hnýtt á krók #18 eða smærri, en sjálfur hef ég hnýtt hana töluvert stærri, alveg niður í #12 og hún virkar þannig líka. Um hæfni höfundar flugunnar þarf ekki að fjölyrða, frá honum hafa komið margar snyrtilegar flugur í gegnum tíðina. Pat er einn eigenda Blue Quill Angler í Colorado og hefur sent frá sér fjölda bóka um veiði og fluguhnýtingar.
Höfundur: Pat Dorsey Öngull: Hefðbundinn- eða grubber #18 – #24 (t.d. Kamasan 100 eða B110) Þráður: Dökk brúnn 8/0 Vöf: Hvítur þráður 6/0 (má jafnvel nota UNI GloThread 3/0) eða silfraður vír Vængur: Hvítir fluor þræðir Vængstæði: Brúnt fíngert dub
Þannig að því sé haldið til haga, þá er flugan á myndinni að ofan ekki skv. upprunalegri uppskrift Pat en sú í myndbandinu hér að neðan er það:
Þegar það kemur að flugum sem bitist hefur verið um, þá dettur mér ósjálfrátt hin velska Diawl Bach í hug. Þýðing úr velsku yfir á íslensku gæti verið Skolli litli, en á enska tungu hafa menn snarað heiti hennar yfir í Welsh Devil, Little Devil eða þá jafnvel Red Devil og vísa þá til upphaflega haussins sem hún skartaði, sem var jú rauður.
Þegar höfundar þessarar flugu er getið, þá koma margir til greina, en einn þeirra hefur þó oftast komið fyrir í hnýtingarbókum og það er Wyndham Davies frá Wales. Ég læt það liggja á milli hluta hvort það sé rétt eða ekki, það hefur ekki þurft höfund flugunnar til að skapa álitamál um hana hingað til, flugan sjálf hefur verið fullfær um það.
Eftir því sem ég kemst næst, þá var aðeins haus flugunnar rauður í upphafi og Peacock búkurinn styrktur með koparvír. Síðari útgáfur hafa orðið snöggtum skrautlegri á að líta; búkvöf út rauðu holographic eða hefðbundu tinsel, marglitir kúluhausar og í sparifötunum skartar hún Jungle Cock kinnum. Allt eru þetta skemmtileg afbrigði og væntanlega alls ekki til tjóns, en eftir stendur að upprunalega var flugan heldur rengluleg og hógvær á að líta, ef undan er skilinn rauði hausinn.
Hardy’s Favourite er hugsarsmíð J.J. Hardy sem stofnaði Hardy’s Tackle Shop of Pall Mall. Hvenær honum datt þessi fluga í koll, veit ég ekki, en sagan segir að hún hafi upprunalega verið til sem bæði þurrfluga og votfluga.
Í gegnum tíðina hafa ótal afbrigði þessarar flugu komið fram á sjónarsviðið, sumar með þessu einkennandi rauða flosi í búk, aðrar ekki og svo hefur val á fjöðrum í væng og skott eitthvað verið á reiki. Miðað við upprunalega lýsingu flugunnar, þá tel ég myndina hér að ofan vera nokkuð nálægt frumútgáfunni.
Þær eru nánast óendalega margar flugurnar sem líkjast Woolly Bugger eða einhverri allt annarri flugu sem heitir eitthvað allt annað. Ein þessara flugna er Damsel straumflugan.
Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær þessi fluga kom fram á sjónarsviðið og þess þá heldur erfitt að segja hver sé höfundur hennar. Flugunni svipar vissulega til nokkurra annarra marabou flugna, t.d. Woolly Bugger. Efnisvalið og bygging flugunnar getur nánast verið sú sama, en helsti munurinn er sá að hún er yfirleitt hnýtt á minni króka þannig oft svipar henni meira til gyðlu (e: nymph) heldur en straumflugu. Þessi munur á e.t.v. ættir að rekja til þess að flugan, að því ég best kemst næst, fékk uppfærslu úr flugu sem hnýtt var skv. hefðbundum lögmálum púpu og gyðlu, yfir í það að vera smávaxið afbrigði straumflugu. Í dag má finna þessa flugu til sölu í öllum mögulegum litum og litasamsetningum, en hún var upphaflega aðeins hnýtt í litum sem má finna á Damsel flugum og nymphum, helst ólívu grænum eða fölbrúnum.
Höfundur: ókunnur Öngull: Hefðbundin 10 Þráður: Ólívugrænn 8/0 Skott: Marabou og flash þræðir í stíl Búkur: Ólívugrænt chenille Haus: Gylt kúla eða keila Vöf: Hnakkafjöður, tinsel og vír í stíl við kúlu
Bleikja
Sjóbleikja
Urriði
Sjóbirtingur
10,12,14
10,12,14
Hér að neðan má sjá meistara Davie McPail fara höndum um Damsel. Það vekur vissulega athygli að hann hefur kosið að tilgreina Woolly Bugger sem undirheiti flugunnar.