Hvenær gerist bleikja ránfiskur?

Hversu margir hafa ekki heyrt sögur af stórum ránbleikjum í Þingvallavatni sem eigra þar um djúpin og ráðast á meðbræður sína af stofni bleikju? Lengi vel hvarflaði það að mér að þessar sögur væru hindurvitni ein, fiskurinn hefði vaxið meira í augum veiðimanna heldur en í vatninu sjálfu. En svo er nú víst ekki, þær finnast þarna þó ég sjálfur hafi aldrei náð einni einustu þeirra.

Það er aftur á móti þekkt að bleikja, rétt eins og urriði, leggist í afrán á eigin stofni og taki upp á því að stækka langt umfram meðbræður sína. Helst gerist þetta í þeim vötnum þar sem því háttar þannig til að ofsetningar gæti, stofninn stækkar umfram það sem framleiðni vatnsins annar og fæðuskorts fer að gæta. Þá skera ákveðnir einstaklingar sig úr, leggjast í afrán og stækka verulega umfram það sem fjöldin gerir.

Þar með er þó ekki sagt að þessi fiskur verði að ránbleikju. Hér er um venjulega bleikju að ræða sem bregður út af vananum, dregur sig til hlés og leitar á nýjar slóðir í vatninu þar sem hún getur dulist og sótt sér æti upp á grunnslóð þar sem 3-4 ára fiskur heldur gjarnan til. Nú set ég allan fyrirvara við þetta en ég hef hvergi séð niðurstöður rannsókna sem sína fram á annað en þessi ránhegðun bleikju sé bundin við einstaklinga sem bregða á það ráð að stunda afrán sér til framfærslu. Hin eiginlega ránbleikja, sú sem finnst á Þingvöllum, er aftur á móti afbrigði bleikju sem hefur þróast til þessa háttalags og sérhæft sig til þess.

Sílableikja eða afræningi?
Sílableikja eða afræningi?

Í þeim vötnum sem þannig háttar til að fjöldi bleikja leggst í afrán, má oft veiða 3 – 5 ára fisk sem er mun vænni en gengur og gerist í bleikjuvötnum. Þetta markast af því að ránfiskurinn heldur fjölda einstaklinga í skefjum, stundar náttúrulega grisjun og gefur þannig annarri bleikju sem lifir á skordýrum og kuðungum, jafnvel murtu sem lifir á svifi, meira svigrúm til að stækka. Færri fiskar, meira æti fyrir þá sem eftir eru.

Nesti

Þegar lagt er af stað í veiðiferð er eins gott að vera þokkalega nestaður. Það er aldrei að vita hve langan göngutúr maður þarf að leggja í til að finna fisk og ef maður finnur gjöfulan stað, getur teygst á því að maður tölti til baka.

Orkuríkt nesti er málið og þá koma fyrst upp í huga manns hnetur, þurrkaðir ávextir og fræ í poka. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona hnetumix í sjoppum, en það er líka hægt að útbúa þetta sjálfur áður en lagt er af stað. Þá getur maður líka valið eitthvað sem manni finnst gott í blandið. Sem dæmi um svona orkubombu sem setja má í poka er t.d.; kassjúhnetur, jarðhnetur, möndlur, graskersfræ, sesamfræ, döðlur, þurrkaðar apríkósur og rúsínur. Og til að skjóta óvæntum glaðningi í pokann er rétt að setja nokkra mola af suðusúkkulaði með. Stærsti ókosturinn við svona blöndu er að það virðist aldrei vera nóg af henni, þetta á það til að gufa upp í einni eða tveimur kaffipásum, alveg sama hvað maður setur mikið í pokann.

Hnetumix með fræjum og ávöxtum
Hnetumix með fræjum og ávöxtum

Ef maður er síðan með kókómjólk í farteskinu eða hitabrúsa og bollasúpu, þá er maður nokkuð vel settur langt frameftir degi, jafnvel langt fram á kvöld og næg orka til staðar til að bera allan aflann til baka.

Að rífa hann upp

Það hefur lengi verið talað um að rífa upp fisk þegar mikið er um að vera, handagangur í öskjunni. Að sama skapi hefur mönnum stundum tekist að særa upp fisk þegar lítið hefur verið að gerast og aðeins einn og einn fiskur hleypur á snærið. Það var kannski einhver spéhræðsla í mér en þegar ég hóf mína fluguveiði, þá dró ég mig gjarnan nokkuð afsíðis og reyndi að framkalla þessi fallegu markvissu köst sem ég hafði séð í myndböndum á internetinu. Þannig varð það að ég blandaði ekki miklu geði við aðra fluguveiðimenn til að byrja með, var svolítið að pukrast einn með þetta.

Ég gleymi seint þeirri undran minni þegar ég síðar varð fyrst vitni að því þegar veiðimenn í grennd við mig beinlínis rifu línu og taum upp úr vatninu, löngu áður en hilla fór undir fluguna. Bíddu nú salla rólegur, hvað er þetta? Ég hafði vanið sjálfan mig á að draga fluguna inn, næstum að topplykkju og lyfta stönginni rólega upp, raska yfirborði vatnsins sem minnst. Reyndar hafði ég ofar en ekki einmitt fengið fisk þegar ég lyfti stönginni eftir síðasta inndrátt, en það er önnur saga. Ekki varð undrun mín minni þegar ég sá þessa veiðimenn leggja fluguna strax út í næsta kasti, rífa línu og taum umsvifalaust upp úr vatninu, beint í bakkastið og leggja fluguna enn og aftur út. Jæja, hef ég bara alltaf verið að gera þetta vitlaust?

Þeir koma líka á í rólegheitum
Þeir koma líka á í rólegheitum

Ákveðnar kastaðferðir beinlínis þurfa á mjög mikilli hleðslu stangarinnar að halda, helst sem fyrst og þá hafa menn þann hátt á að flýta fyrir með því að reisa stöngina löngu áður en farið er að hilla undir taum eða flugu, nýta vatnið sem mótstöðu og ná þannig meiri hleðslu á skemmri tíma. Flest þessara kasta eiga uppruna sinn að rekja til breiðra og mikilla áa þar sem straumur flytur fluguna langt úr færi við fiskinn og því lítil hætta á að fæla hann með aðförum sem þessum.

Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því að menn noti þessa tækni til að ‚ná lengra‘ í vatnaveiði, en mér er til efs að þeir nái fleiri fiskum með þessum hætti heldur en þeir veiðimenn sem reyna að raska yfirborði vatnsins sem minnst, dragi línu og taum þannig upp að flugan haldi áfram að veiða alveg inn að efstu lykkju. Ég ætla í það minnsta að halda áfram að trúa því að fiskur leiti inn að bakka vatnanna sé hann á annað borð í ætisleit, elti fæðuna alveg upp í grjót ef því er að skipta. Og svo held ég að honum sé ekkert vel við einhvern buslugang, tauma og flugur sem taka upp á því að æða áfram og upp úr vatninu og koma síðan aftur augnabliki síðar og skella með látum á yfirborðinu.

Líkamsrækt

Hún getur verið af mörgum gerðum, líkamsræktin sem menn stunda. Sumir hjóla án þess að ferðast neitt, aðrir ferðast með því að hjóla og það sama gildir um hlaup á bretti eða úti við. Svo eru þeir sem stunda jóga og næra þannig hug og hjarta á meðan aðrir þenja lungu og limi í crossfit. Gönguhópar hafa skotið upp kollinum hingað og þangað, eiginlega víðast hvar, þannig að maður er löngu hættur að kippa sér upp við að rekast á þungklossaða göngugarpa hingað og þangað uppi á fjöllum eða firnindum.

Vatnaveiði leynir líka á sér hvað varðar líkamsrækt. Ef maður ætlar að eyða góðum hluta dags við veiði þarf oft nokkurn útbúnað; kaffi, nesti, auka flíkur, veiðihjól, stangir og þar fram eftir götunum. Allt vigtar þetta eitthvað í bakpokann þegar lagt er af stað í göngu að eða meðfram vatni. Ef veiðigyðjan er síðan með í för þarf að bera aflann til baka og þegar best lætur vigtar hann nokkur kíló eða tugi. Svo má ekki gleyma því að vöðlur, jakki og skór sem tilheyra yfirleitt eru ekkert endilega af léttari gerðinni.

Hérna um árið, ég vil helst ekki segja hve langt síðan, fór ég reglulega til kroppatemjara á líkamsræktarstöð. Þar var ég látinn arka fram og til baka með lóð í báðum lúkum, taka spretti með stuttum hléum, hoppa út og suður og lyfta lóðum. Mér dettur ekki annað í hug en viðurkenna að ég fann töluverðan mun á mér eftir nokkrar vikur. Ég átti til dæmis miklu auðveldara með að beita háfinum og lyfta fallegri bleikju upp úr vatninu og göngutúrar í fullum skrúða inn með Frostastaðavatni eða Hítarvatni urðu nánast barnaleikur. Mér hefur samt alltaf fundist skemmtilegra að stunda líkamsrækt utandyra. Þar er ferskt loft í ómældu magni, ekki niðursoðið loft úr kerfi og þar er óendanlega vítt til allra átta.

Gönguleiðin kortlögð
Gönguleiðin kortlögð

Talandi um vegalengdir hingað og þangað. Hefur einhver hugmynd um hvað það er langt frá stíflu inn að Vatnsendaklifi við Hítarvatn? 4,5 km. og sama vegalengd til baka. Leiðin við austanvert vatnið að Foxufelli er 2,5 km. og er hreinasta pallaleikfimi í hrauninu. Frá bílastæðinu austanvert við Frostastaðavatn og inn fyrir hraunið eru 1,5 km. sé farin stysta leið, sem gerist nú sjaldnast. Þetta er jafn löng leið og frá bílastæðinu við Hraunslæk, inn að víkinni og út á Búðarnes við Hraunsfjörð. Þessa spotta gengur maður með gleði í hjarta, nýtur umhverfisins og eftir atvikum, jafn kátur til baka.

Grisjun grunnra bleikjuvatna

Víða hafa nytjar veiðivatna dregist mjög saman síðustu áratugi. Netaveiði hefur víða lagst af og því er hætt við að mörg vötn, sérstaklega grunn bleikjuvötn verða þá ofsetin á skömmum tíma. Ekki er einhlítt hvernig best sé staðið að grisjun bleikju, margt spilar þar inn í.

Heilbrigður stofn bleikju er samsettur úr fjölda einstaklinga á mismunandi aldri, stærð, kyni og kynþroska. Bregði verulega út frá eðlilegri samsetningu er framtíð stofnsins stefnt í hættu. Í ofsetnum vötnum má oft greina nokkur atriði sem segja til um ástand stofnsins. Eitt af því sem fyrst er tekið eftir er samþjöppun einstaklinga af ákveðinni stærð. Svo virðist sem fiskur nái aðeins tiltekinni stærð, hættir að vaxa og verður þá kynþroska eins og bleikju er háttur. Vegna harðnandi samkeppni um fæðu og afráns eldri fiska, fækkar ókynþroska fiski hratt undir þessum kringumstæðum. Með öðrum orðum, við sjáum nokkra einsleitni í þeim fiski sem veiðist í vatninu.

Nokkuð örugg vísbending um að vatn sé ofsetið er að þeir fiskar sem veiðast eru smáir en kynþroska, nokkuð höfuðstórir, ljósir á hold og tilfelli sýkinga af sníkjudýrum nokkuð hátt. Þetta verður vatn sem almennt eru nefnd ‚ónýtt‘ og hér þarf að bregðast við með þeim hætti að grisja verulega í hópi kynþroska fiska. Varast ber að grisja stærri fisk, þess sem mögulega hefur breytt um lifnaðarhætti og gerst ránfiskur í eigin stofni. Sá fiskur hjálpar til við grisjun og honum ætti að hlífa.

Löðmundarvatn
Löðmundarvatn

Sé veitt vel umfram ársframleiðslu vatnsins af kynþroska fiski, aukast lífslíkur þeirra sem yngri eru, þeir verða stærri, heilbrigðari og verða kynþroska síðar á lífsleiðinni. Með þessu móti má fækka einstaklingum, ná upp vexti og byggja heilbrigðari stofn. Umfang slíkra aðgerða er auðvitað háð fjölda kynþroska einstaklinga í vatninu, en sé það viðmið notað að grisja um tveggja ára nýliðun kynþroska fisks, má gera ráð fyrir að verkið taki 3-4 ár. Þetta kann að hljóma óyfirstíganlegt og víða hafa menn gefist upp á grisjun áður en árangur hennar hefur komið í ljós. Þrjóti menn ekki örendið má vænta þess að uppskera næstu ára verði að vísu færri fiskar en áður, en stærri, holdmeiri og nýtanlegri.

Helstu heimildir: Áhrif veiða á silungastofna og nýting veiðivatna, Tumi Tómasson, Veiðimálastofnun, 1985.

Könguló, könguló

Könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó. Eða það sem betra er, leyfðu mér að kíkja í vefinn þinn. Þeir sem hafa arkað eða staulast í gegnum hraunið við austanvert Hítarvatn kannast eflaust við köngulóavefina sem liggja þar oft þvert á gönguleiðina. Án þess að fara ítarlega í skordýrafælni, þá þekki ég nokkra aðila sem mundu væntanlega taka á sig stóran krók framhjá þessum vefum frekar en stíga í gegnum þá, sem er útaf fyrir sig bara gott.

Upplýsingabanki
Upplýsingabanki

Þegar grannt er skoðað má finna ýmsar vísbendingar um skordýralíf hvers staðar með því að kíkja á köngulóarvefi. Köngulær eru mjög iðnar og taka reglulega til í vefjum sínum, endurnýja þá og ganga úr skugga um að netið sé nægjanlega tryggt. Þess vegna má ganga að því með nokkurri vissu að í vefjunum leynast sýnishorn allra þeirra fljúgandi skordýra sem er að finna á viðkomandi stað. Þetta getur gefið okkur, veiðimönnunum dýrmætar upplýsingar um það æti sem fiskurinn er mögulega í. Því nær vatninu sem vefurinn er, því betra.

Villibráð

Hvernig hljómar nú málshátturinn? Gefðu manni fisk og hann verður mettur einn dag, kenndu honum að veiða og hann verður mettur alla ævi. Þegar maður er að meðhöndla íslenskan silung er engin ástæða til að flækja málið. Allt sem þarf er smjör, hvítlaukur og snarpheit panna.

Bestur þykir mér silungurinn þegar hann er steiktur upp úr nógu smjöri með nokkrum sneiðum af hvítlauk og kannski nokkrum sveppum til hliðar. Um leið og smjörið hefur bráðnað eru sveppirnir og hvítlaukssneiðarnar sett út í og þeim leyft að gyllast örlítið. Því næst er flakið af silunginum steikt á holdið í örstutta stund, rétt aðeins þar til það tekur lit. Þá er því snúið snarlega á roðhliðina, hvítlaukurinn lagður ofan á og steikt þangað til maður heldur að fiskurinn eigi 30 sek. eftir, þá er hann tilbúinn. Ef þú bíður í þessar 30 sek. er hann ofsteiktur.

Smjörskeiktur silungur með sveppum og gúrkusalati
Smjörskeiktur silungur með sveppum og gúrkusalati

Það þarf ekki flókið meðlæti með svona villibráð. Nýjar soðnar kartöflur eru auðvitað frábærar (með smjörbráðinni yfir) en það má líka spara sér suðuna og skera gúrku gróft og skreyta með nokkrum brauðtengingum. Ef þetta er ekki villibráð eins og hún gerist best, þá er hún ekki til.

Morgunteygjur

Kyrrsetumenn eins og ég kannast vel við að stundum þarf að standa upp og teygja úr sér. Það er sem sagt skrifstofuvinna sem tefur mig frá veiðinni. Þegar ég teygi úr mér nota ég yfirleitt tækifærið og fer fram í mötuneyti og sæki mér kaffi eða sinni aftöppun fyrra kaffiþambs. Í það minnsta, þá stend ég upp, teygi úr fótum sem hafa mögulega bögglast einhvers staðar undir skrifborðinu og handleggjum sem hafa hangið niður á lyklaborðið í allt of langan tíma. Ef maður gerir þetta ekki reglulega, þá tapast einbeitingin, vinnan verður fálmkenndari og þreyta fer að gera vart við sig.

Flugulínan og taumurinn okkar eru ekkert ósvipuð. Þegar hvoru tveggja hefur legið óhreyft á veiðihjólinu okkar í einhvern tíma verðum við að teygja á og ganga úr skugga um að línan og taumurinn myndi nokkuð beina línu í kasti. Lykkjur og snúningar á línu og taum koma í veg fyrir það að við finnum þegar fiskurinn tekur í fluguna, þær virka eins og dempari fyrir fiskinn. Hann hefur svigrúm til að hrækja út úr sér flugunni áður en strengst hefur svo línunni á að við finnum tökuna.

Flugulínur
Flugulínur

Sama ástæða gildir fyrir því að rétta sem fyrst úr línunni eftir að flugan hefur verið lögð fram. Það er glettilega oft sem fluga vekur athygli fisks á innan við 30 sek. frá því hún leggst á vatnið. Því er um að gera að rétta sem fyrst úr línunni með því að draga hæfilega í hana, halda við og finna fyrsta áhuga fisksins á henni, þá er lag að bregða við. Þetta getum við ekki nema línan og taumurinn séu í beinni línu frá stangartoppi og strengt sé hæfilega á.

Að detta úr sambandi

Síðustu tvö sumur hef ég veitt í Veiðivötnum og notið þess ómælt, bæði hvað varðar náttúru og félagsskap annarra veiðimanna í hollinu. Í bæði þessi skipti hef ég verið svo lánsamur að veður og veiði hefur leikið við mig og trúlega mundi það engu breyta fyrir mig þótt annað er bæði brygðust.

Síðastliðinn vetur hitti ég eldri veiðimann, hokinn af reynslu sem innti mig eftir upplifun minni af Vötnunum. Umsvifalaust hóf ég hástemmda lýsingu á náttúrunni, fjölbreytileikanum, mannlífinu og …. bara öllu sem ég hafði innbirgt á staðnum. Í miðri ræðunni tók ég eftir gráma og leiða sem færðist yfir ásjónu þessa reynda veiðimanns þannig að ég gleypti mína síðustu setningu, lækkaði róminn og ég laumaði út úr mér; En hvað með þig? Svarið kom mér svolítið á óvart og ég þurfti svolítinn tíma til að melta það; Ég hef nú ekkert farið síðan gemsarnir fóru að virka þarna uppfrá.

No signal
No signal

Fyrir yngri veiðimenn sem ekki þekkja neitt annað en að GSM símar virki nánast alls staðar á landinu, þá skal það upplýst að það eru ekki svo mörg ár síðan að GSM sambandi var komið á í Veiðivötnum. Fyrir þann tíma virkuðu aðeins NMT símar á svæðinu og þar á undan bara talstöðvar.

Auðvitað er gott að geta haft samband við umheiminn þegar upp á fjöll eða hálendi er komið, þó ekki væri nema vegna öryggisins sem fylgir því að geta gólað á hjálp ef eitthvað ber útaf. Sjálfur nýt ég þess út í ystu æsar að geta dottið úr sambandi við alla tækni (segi ég með GPS tæki, digital mynda- og vídeóvélar). Mér finnst það oft beinlínis óviðeigandi þegar ég er búinn að koma mér fyrir við eitthvert fjallavatn þegar skyndilega upphefst skerandi Nokia hringing handan næsta hóls og svo; Halló …. nei, ég er í Veiðivötnum …. Hva, sástu ekki myndina af mér á Facebook í gær ….

Við erum nefnilega ennþá til sem njótum þess að komast í samband við náttúruna og til þess þarf maður stundum að geta dottið úr sambandi við nútímann, í það minnsta geta stjórnað því hvenær nútíminn hringir. Þess vegna slekk ég iðulega á símanum mínum eða skil hann eftir í veiðihúsinu eða bílnum. Það er svo margfalt skemmtilegra að njóta náttúrunnar, ótruflaður.

Bleikja er lax(fiskur)

Það er næstum ómögulegt að strippa straumfluguna á of miklum hraða fyrir urriðann. Hver þekkir ekki tökurnar þegar maður spólar síðasta kastið inn á hjólið í stað þess að beita hefðbundnum inndrætti. Auðvitað geta svona síðbúnar tökur verið rosalega svekkjandi þegar maður hefur jafnvel verið að berja vatnið svo klukkustundum skiptir án þess að verða var og svo spólar maður inn í fýlukasti og…. BANG, fiskur á.
Í sumar sem leið tók veiðifélagi minn mig á örnámskeið í strippi. Nú bið ég lesendur um að róa sig, hér var um námskeið í inndrætti að ræða, ekki fatafellingum. Hvað um það, 99% af minni reynslu í fluguveiði hefur orðið til í silungsveiði þannig að ég hef ekki samanburð á strippi fyrir lax og silung. Af því sem ég hef þó séð, þá er það hreint og beint púl að strippa fyrir lax og eins og gott að hafa hraðar hendur. Nú sel ég ekkert, ekki einu sinni þann orðróm sem ég heyrði um árið að þetta ógnar stripp fyrir laxinn sé til að æsa hann til töku frekar en auglýsa eitthvert æti. Ég get svo sem samsvarað þetta að einhverju leiti við urriða. Stundum er einfaldlega nauðsynlegt að rífa fiskinn upp úr logmollunni og draga inn eins og ands…… sé á hælum flugunnar, þá tekur hann með látum og gefur ekkert eftir.

Bleikjur
Bleikjur

En víkjum aftur að örnámskeiði í strippi. Veiðifélaga mínum er lagið að egna bleikjur til að taka litla Nobblera þegar ekkert annað virkar, helst bleika Nobblera. Ég svo sem þóttist geta þetta líka, setti nákvæmlega sömu fluguna undir og strippaði, ekkert gerðist. Ég sleppti öllum pásum á stippinu, ekkert gerðist. Ég jók hraðann á strippinu og ég fékk viðbrögð, fá veiðifélaganum; Þú verður að strippa hraðar. Hraðar? Nei, hættu nú alveg. Bleikjan hefur í mínum huga alltaf haft yfir sér stimpil rólyndis og yfirvegunar, heldur orkueyðslu í lágmarki og étur aðeins það sem er innan seilingar. Á ég nú að gera ráð fyrir því að hún noti sporðinn af einhverju offorsi og göslist á eftir flugu sem flengist í gegnum vatnið á einhverjum ógnar hraða?
Ég lét það eftir félaga mínum og jók hraðann þar til mig var farið að verkja í öxl, arma og fingur. Auðvitað fékk ég bleikju og hef orðið að kyngja því fyrir lífstíð að bleikjan, þessi yndislega rólegi fiskur er greinilega af stofni laxfiska og getur því svipað hressilega til ættingja sinna, urriða og lax, þegar kemur að fæðuöflun.

Dónar

Það lá við að ég hoppaði hæð mína þegar ég renndi í fljótheitum yfir fréttir liðinnar viku. Loksins er að komast á skrið vitundarvakning um að banna dóna á veiðistöðum. Nú síðast var það Landssamband veiðifélaga sem vakti máls á þessu vandamáli. Veiðidónar eru til af ýmsum gerðum; Færðu þig, þetta er minn staður – Æ, það kemur einhver og tekur upp ruslið eftir mig, mamma? – Er ekki pláss fyrir einn enn á milli ykkar hjóna? og svo má lengi telja.

Að vísu rann fljótlega upp fyrir mér að mér hafði yfirsést einn bókstafur í fyrirsögninni, þetta voru víst drónar sem menn vildu banna. Jæja, það er alveg eins hægt að hella úr skálum reynslu sinnar af drónum eins og dónum. Eins skemmtileg og tæknin er, þá get ég alveg tekið undir með LV að drónar eiga lítið erindi á veiðistaði, nema þá veiðimenn og flugstjórar séu í þægilegri fjarlægð frá öðrum og valdi ekki ónæði með suði og lágflugi yfir hausum annarra.

Ég er annars lítið fyrir að setja boð og bönn um hitt og þetta sem í raun á að vera innifalið í almennri skynsemi og kurteisi. Það að raska kyrrð og ró næsta veiðimanns með óþarfa látum og nærgengi (nærgöngull, ganga nærri næsta manni) er einfaldlega eitthvað sem á ekki að þurfa að binda í lög og reglur. Mér er reyndar skapi nær að biðja menn um að horfa til himins á björtum degi á Þingvöllum eða inni á hálendi og leiða þá hugann að því hvort ekki sé rétt að setja einhverjar reglur um flug trukka yfir veiðistað, sjá grein mína frá í febrúar á þessu ári.

En vitaskuld verður eitthvað að gera, því á meðal okkar veiðimanna finnast ekki aðeins dónar og drónar, heldur einnig flón sem láta alltaf eins og þeir séu einir í heiminum. Það verður víst seint hægt að setja reglur sem banna þess háttar veiðimenn, við verðum víst bara að bíða eftir því að þeir þroski með sér smá kurteisi.

fos_flon

Það sem gefur þessu gildi

Það getur verið tvíeggjað að gefa ráð um stangveiði, staði eða aðferðir. Stundum er eins víst að engin ráð dugi þegar veiðigyðjan er ekki í stuði, veðurguðirnir leika einleik á rok og rigningu eða veiðimaðurinn fer ótroðnar slóðir og lendir utan veiðisvæðis. Þá getur ráðgjafinn lent á milli og verið kennt um ófarirnar.

Almennt eru veiðimenn hinir ljúfustu og tilbúnir að gefa góð ráð, jafnvel í tíma og ótíma, umbeðnir eða ekki. Fyrir utan þær óumbeðnu reynslusögur sem ég hef sett niður á þennan vef, þá kemur það annað slagið fyrir að mér berast sérstakar fyrirspurnir um góða veiðistaði. Þó ég sé ekkert sérstaklega hörundsár, þá svarar maður yfirleitt nægjanlega loðið og með nokkrum fyrirvörum þannig að ef illa fer verði manni ekki kennt um gæftaleysið.

Um daginn fékk ég beiðni um upplýsingar að barnvænu svæði, helst með fiski, fyrir tvo fisklausa unga veiðimenn með brennandi áhuga. Ég setti nokkra staði og aðferðir niður á blað og svaraði pabbanum og lagðist síðan á bæn, vonandi kæmi þetta að einhverju gagni. Og viti menn, nokkrum dögum síðar barst mér kveðja frá veiðimönnunum ungu; Meðalfellsvatnið klikkaði ekki.

Bræðurnir Daníel Hilmar (4 ára) og Ísak Heiðar (verður 6 ára á morgun)
Bræðurnir Daníel Hilmar (4 ára) og Ísak Heiðar (verður 6 ára á morgun)

Þessir bræður eiga örugglega eftir að koma fyrir á fleiri veiðimyndum í framtíðinni, flottir og þokkalega hamingjusamir með aflann úr Meðalfellsvatni. Það er ljóst hvað pabbi þeirra, Hilmar Hilmarsson kemur til með hafa fyrir stafni í sumar, hér hefur veiðibakterían komið sér hressilega fyrir. Ef eitthvað gefur ráðgjöf gildi, þá eru það þessi augnablik. Til hamingju strákar, vel gert.

Múrar

Á tímum síðari landaflutninga hefur fólk flust frá einu landi til annars í leit að betra lífi, öruggari framfærslu og þá ekki síst með framtíð afkomenda sinna í huga. Þetta þekkja Íslendingar frá árinu 2008 og allt til dagsins í dag. Það er einkennandi við landaflutninga hina síðari, að þeir eiga sér flestir stað í kjölfar náttúruhamfara, styrjalda eða annars mannlegs klúðurs. Það er fátt sem aftrar því að stórir hópar fólks flytji búferlum, nema þá vegabréfaeftirlit, girðingar eða múrar sem reistir hafa verið til að halda fólki inni á ákveðnum svæðum, eða hvað?

Hvers vegna örfáum mönnum þótti áríðandi að flytja hundruð þúsunda einstaklinga frá Evrópu yfir til Ameríku árið 1880 er ekki fyllilega ljóst. Talað var um að auka fjölbreytileika tegundanna, rétt eins og náttúran gæti ekki séð um það sjálf. Nokkrir vöruðu sterklega við þessum flutningi, hann gæti stefnt framtíð innfæddra í hættu. Fram að þessum tíma hafði náttúran óáreitt séð um að vernda innfædda fyrir ásókn þeirra erlendu, það var og gild ástæða til. Þannig fór auðvitað að þetta óþarfa káf með stofn evrópsks urriða (Brown Trout) yfir til Ameríku varð til þess að innfæddir (Brook Trout) létu undan síga og við lá að þeir þurrkuðust út. Það hefur kostað ótrúlegar fjárhæðir og vinnu að viðhalda þeim litla stofni Brook Trout í Norður-Ameríku sem eftir er. Þá er ótalin sá skaði sem orðið hefur í Suður-Ameríku þar sem urriðanum hefur verið komið fyrir á ótrúlega víðfernu landsvæði.

En viti menn, aðeins fjórum árum eftir að evrópski urriðinn var fluttur til Austurstrandar Ameríku, var Kyrrahafsurriðinn (Rainbow Trout) fluttur yfir til Bretlands. Þar hitt Skrattinn ömmu sína í öðru veldi og á Regnbogasilungurinnan við einu ári höfðu tugir þúsunda sloppið úr eldisbúrum út í nálægar ár. Þar með var framtíð Brown Trout á Bretlandseyjum stefnt í hættu sem jókst síðar enn frekar með tilkomu iðnbyltingarinnar og meðfylgjandi mengun. Í dag kemur ekki nokkrum heilvita manni til hugar að drepa Brown Trout í ám og lækjum Bretlands á meðan víða eru viðurlög gegn því að sleppa regnbogasilungi. Endurheimt fiskfarvega, hreinsun áa og lækja á Bretlandi hefur kostað ómælda vinnu og fjármuni. Því miður er svo komið að þarlendir aðilar hafa orðið að sætta sig við að regnbogasilungurinn er kominn til að vera í lífríkinu, öðrum stofnum til sífelldrar hættu.

Ég er ekki að gera því skóna að regnbogasilungur sem fluttur hefur verið til Íslands eigi eftir að verða hluti af íslenskri náttúru, til þess skortir mig framsýni og þekkingu á óorðnum breytingum á veðurfari. Okkar helsta von, að því mér skilst, er að klak regnbogasilungs á sér stað á þeim tíma sem síst er lífvænlegur fyrir hann hér á landi. Ef veðrátta breytist til einhverra muna hér næstu árin eða tugina, þá gæti málið horft öðruvísi við. Rétt eins og mannskepnan, þá leitar fiskurinn út í frelsið því mannanna verk, girðingar og múrar, mega sín lítils þegar náttúran er annars vegar. Nýleg dæmi um eldisfisk sem fundist hefur í ám Norðanlands eru áhyggjuefni, sama hvernig á það er litið.

Að sama skapi eru áform um stóriðju í laxaeldi meira en áhyggjuefni fyrir þá sem unna íslenskri náttúru og dýralífi. Sá ótrúlegi massi af úrgangi sem fellur til við laxeldi í sjó getur ekkert annað en stefnt nálægri náttúru í voða, hvort heldur náttúrulegum laxastofni, silungi eða botndýrum þröngra fjarða. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar eldis- og verkfræðinga um öryggi sjókvía er ekkert sem getur komið í veg fyrir slys, stór eða lítil, samfara þessum fyrirætlunum. Bara það að setja slíkar kvíar niður við strendur landsins er slys eitt og sér. Allt káf okkar mannanna með landaflutninga náttúrulegra fiskistofna hefur endað með hörmungum, jafnvel óafturkræfum breytingum á lífríkinu sem við skilum af okkur til komandi kynslóða. Múrar halda aldrei.

Er þessi óhultur í sinni á?
Er þessi óhultur í sinni á?

Aukinn áhugi

Mér skilst að áhugi á fluguveiði sé sífellt að aukast, sem er vel. Ég verð einna helst var við aukinn áhuga hjá vinum og kunningjum sem í ríkara mæli spyrjast fyrir um flækjustig fluguveiðinnar af hreinum áhuga í stað ‚small talk‘ spurninga yfir kaffibolla. Þær eru ýmsar spurningarnar sem maður fær um fluguveiði, en sú vinsælasta er örugglega; Er maður ekki rosalega lengi að læra þessi köst? Þá getur manni vafist tunga um tönn. Ef ég nú svara; Nei, nei, þetta er ekkert mál þá getur málið nú vandast þegar viðkomandi sér mig handleika stöngina. Nú, ertu ekki betri kastari en þetta? Sagðir þú ekki að þetta væri ekkert mál? Ef ég aftur á móti svaraði spurningunni; Jú, þetta er töluverð kúnst og útheimtir heilmikla æfingu, þá er eins víst að viðkomandi segi þetta bara gott og haldi sig bara við flot og maðk.

Svo eru þeir sem spyrja í lotningu (af því þeir hafa lesið of margar rómantískar veiðifrásagnir) hvort fluguveiði sé ekki æðst allra aðferða. Það er alveg sama hve oft ég leita að góðu svari við þessari spurningu, mér kemur aldrei neitt gáfulegt í hug. Að mínu viti er engin ein aðferð annarri æðri svo lengi sem veiðimaður sýnir bráðinni þokkalega virðingu. Þrátt fyrir allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fiskum og náttúru þá eru engar rannsóknir til sem segja okkur hvað telst virðing fyrir bráðinni. Viðmið virðingar verður hver og einn veiðimaður að finna hjá sjálfum sér; vill hann taka allan fisk sem gefst, veiða og sleppa eða bara vera á staðnum til að njóta náttúrunnar og þess sem hún gefur?

Þeir nýliðar sem slást í hóp veiðimanna í dag eru eflaust betur að sér í náttúrufræði heldur en margur eldri veiðimaðurinn og því er það tilhlökkunarefni að fá hugsandi unga veiðimenn í hópinn. Okkur veitir ekki af aukinni virðingu og bættri umgengni við náttúruna, bæði sem einstaklingar og sem hópur sem lætur sig framtíð villtra fiskistofna varða. Hver veit hvað verður þegar þessir ungu menn setjast á Alþingi, verður þá mögulega aldrei aftur rifist um virkjanir á veiðislóðum, þær verða einfaldlega ekki einu sinni til umræðu.

Veiðivötn - Litlisjór
Veiðivötn – Litlisjór

Elliðavatn 9. maí

Loksins, loksins. Nei, ekki misskilja mig, það kom ekki fiskur á land en ég fór upp að Elliðavatni seinni partinn og baðaði tvær flugur, flækti allt of grannt taumefnið og endaði á því að festa fluguna í eina trénu í mílu fjarlægð. Örlitlar ýkjur, en sagan er skemmtilegri þannig.

Það gekk á með tveimur dropum og einu til tveimur snjókornum þótt hitamælirinn segði 5°C og það kulaði óþægilega ofan úr Heiðmörkinni, en mikið rosalega var gott að komast að vatninu. Ég böðlaðist ekkert lengi í vatninu, svona rétt aðeins á meðan konan lék Joan Wulff á grasblettinum við Elliðavatnsbæinn og þangað til kuldinn gerði óþægilega vart við sig í tánum á mér. Vatnið var sem sagt heldur kalt en samt var líf, fluga á vatninu og töluvert um uppitökur.

Nú fer þetta alveg að detta í gang, held ég. Verð trúlega samt að láta sjá mig á Klambratúni á morgun; JOAKIM’s dagur og Stefán Hjaltested örugglega til í að skamma mig fyrir léleg köst.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 0 / 2

Meðalfellsvatn 3. apríl

Það var ekki beinlínis vor í lofti þegar ég lenti við Meðalfellsvatnið rétt um kl.11 í morgun. Lítilsháttar vindur og hitastigið rétt um 4°C og það brakaði og brast í íshrönglinu sem safnast hafði saman undan vindi við vestubakka vatnsins. Sú gula kúrði á bak við skýin og náði ekki alveg í gegn.

Meðalfellsvatn - vesturbakkinn
Meðalfellsvatn – vesturbakkinn

Þegar ég kom að vatninu var einn veiðimaður með spún við norðurströndina, annars ekkert um að vera. Þar sem vindur stóð af suð-austri, kom ég mér fyrir rétt austan við ós Sandár og reyndi að liðka ryðgaða kastvöðva. Eins og gefur að skilja var vatnið frekar kalt og ekkert líf að sjá utan álfta og nokkurra anda á ísskörinni við austurbakkan. Ég er nú samt ekki frá því að ég hafi fengið eitt nart, lengst, lengst út í dýpinu, en fiskur kom ekki á land. Hún er sem sagt formlega hafin hjá mér, baráttan við núllið. Það gengur bara betur næst.

Meðalfellsvatn - austubakkinn
Meðalfellsvatn – austubakkinn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 0 / 1

Einelti

Eins og margir aðrir hóf ég mína veiðimennsku með maðk undir floti. Um leið og ósinn hafði rutt sig af ís var hugað af græjunum. Nú brestur minni mitt aðeins, en mér finnst eins og fyrsta röltið vestur að Ölfusá hafi yfirleitt verið upp úr mánaðarmótum apríl-maí. Nú er ég samt ekki alveg viss, finnst það ekki alveg passa við þann fisk sem engt var fyrir. Eitt sinn þegar ég var á þessu ferðalagi mínu gekk ég fram á reyndan veiðimann af Bakkanum þar sem hann hafði lagt flot og maðk rétt utan við skurð sem féll út í ósinn. Þarna háttar því þannig til að ósinn er stilltur og nokkuð gruggugur af framburði úr skurðunum, utar þar sem straums gætti var vatnið tært. Á þessum slóðum gat maður séð glitta í fiskinn þar sem hann úðaði í sig ætinu sem skurðurinn bar með sér.

Ég man enn eftir undrun minni á veiðiaðferð þessa manns því hann lagði agnið nokkuð nálægt skurðinum og lét svo reka út að vatnaskilunum. Sjálfur hafði ég alltaf vanist því að leggja flotið miðja vegu frá bakka og að skilum, draga síðan rólega í land. Auðvitað var hans veiðiaðferð mun gáfulegri heldur en mín. Með tíð og tíma hefur skilningur minn á háttarlagi fisks aukist eitthvað og nú þykist ég gera mér grein fyrir því að það borgar sig ekki að lesa yfir hausamótunum á fiskinum eða leggja hann í einelti. Þess í stað les ég vatnið örlítið lengur og reyni af fremsta megni að kasta ekki yfir fiskinn. Flugurnar sem maður dembir út í vatnið og dregur í gegnum borðstofu fisksins gera lítið annað en stökkva honum á flótta. Mér skilst að fiskinum sé bara ekkert um að vera lagður í einelti af einhverjum smápöddum eða sílum sem ráðast beint að honum, hvað þá koma honum að óvörum aftanfrá. Betra sé að leggja fluguna inn að sjónsviði hans, dilla henni nokkrum sinnum og leyfa fiskinum að taka af skarið. Ef hann hefur áhuga, þá lætur hann sig hafa það að synda á eftir henni.

Einelti, tvíelti, þríelti
Einelti, tvíelti, þríelti

Varasalvi og PAM

Það er ekki margt sem bendir til þess þessa dagana að vorið sér á næsta leiti. Þegar þetta er ritað er töluvert frost í kortunum, að vísu þokkalega stillt veður og bjart yfir en eins gott að vera vel klæddur úti við.

Veðrið í dag
Veðrið í dag

fos_varasalviÞað hvarflaði að mér þar sem ég sat við fluguhnýtingar í morgun að það væri kannski eins gott að ég væri ekki á leið í veiði, eins kuldalegt og veðrið er. Og eitt leiddi af öðru og ég fór að rifja upp nokkur atriði gegn ísingu í stangarlykkjum. Eitt af því sem ég heyrði af var að rjóða varasalva í lykkjurnar, ekkert of miklu en nóg til þess að vatnið af línunni nái ekki að festa sig í lykkjunni og frjósa.

Ég geri mér í hugarlund að best sé að nota lyktar- og bragðlausan varasalva þannig að fiskurinn hrökkvi ekki undan einhverju mjög ókunnugu sem smellt er út í vatnið. Gloss með jarðaberjabragði gerir örugglega ekki sama gagn, bara þannig að það sé á hreinu.

fos_pamAnnað sem ég heyrði af var að úða bökunarúða á lykkjurnar áður en farið er til veiða. Væntanlega er alveg eins gott að bóna vel í lykkjurnar, en það fyrsta sem mér varð hugsað til er að fyrst maður getur nánast étið hvoru tveggja, varasalvann og bökunarúðann, þá hlýtur þetta að vera þokkalega öruggt gagnvart flugulínunni og fiskinum.

Það er kannski vert að prófa þetta í fyrstu veiðiferðum ársins, mögulega í birtinginn í fyrstu viku apríl ef þannig ber undir og ekki tekið að hlýna verulega.

Þyrilvængjur

Þyrla eða þyrilvængja er skemmtilegt orð á ekki minna skemmtilegu fyrirbæri sem ég sem veiðimaður, hef eflaust notið góðs af. Nei, mig rekur ekki minni til að hafa stigið upp í þyrlu um ævina en eflaust hafa einhverjar góðar loftmyndir sem ég hef stuðst við fyrir veiðiferðir verið teknar úr þyrlu.

Síðasta sumar lá nú samt við að ég legði það formlega til að nafni þessa fyrirbæris yrði breytt í trukk. Ég geri mér grein fyrir því að það nafn er þegar í notkun, en stórir trukkar heita hvort hið er orðið ‚stórar vinnuvélar sem þvera veginn‘ og þrýstingur hefur eiginlega útrýmt trukki í öllum vatnslögnum. Að vísu er hægt að taka eitthvað með trukki, en það á ekki við í vatnaveiði. Ef einhver hefur náð því hvað ég er að fara, þá getur sá hinn sami hætt lestrinum núna. Hinir, sem enn standa á gati, eiga þá völina að hætta eða lesa til enda og ná innihaldinu sem ég er alveg að koma að.

Þannig var að síðasta sumar var ég í nokkur skipti við veiðar þar sem seðlamenn höfðu keypt sér útsýnisflug með þyrlu. Já, náttúrufegurð á Íslandi er einstök og sjálfsagt að leita allra leiða að ná einhverju af auðmagni veraldar út á það. Ekki geri ég mér neinar grillur um að útsýnisflug þessi hafi verið farin sérstaklega til að skoða mig og því fannst mér lítil ástæða til að fljúga jafn lágt og raun bar vitni. Þegar þyrlan nálgaðist var eins og náttúran héldi niðri í sér andanum, fuglarnir hættu að flögra á milli trjágreina og vatnið kyrrðist einkennilega. Vitaskuld tók fyrir alla veiði á meðan þyrlan flögraði þarna yfir og töluverðan tíma á eftir.

Síðar um sumarið fór ég nokkrar ferðir inn á hálendið og ekki var flugumferðin minni þar. Ef eitthvað þá var hún meiri og lægri heldur en við Þingvelli og þar var fiskurinn áberandi hvekktari eftir að þyrlur höfðu flogið yfir. Friðland að fjallabaki hljómaði svolítið ankannanlega á meðan andrúmsloftið titraði undan trukki spaðanna. Vegna þessa mælist ég til um að nafnið trukkur verði heimfært yfir á þessi flygildi sem raska heiðanna ró í tíma og ótíma og umferð trukka síðan sett í sama flokk og utanvegaakstur.

Trukkur frá Airbus
Trukkur frá Airbus