Sögur úr Vatnadal

Það er ýmislegt sem maður finnur sér til dundurs þegar stangveiðitímabilinu lýkur. Hugurinn reikar víða og ósjálfrátt smitast hann af því sem efst er á baugi í fréttum. Nýlega staðfest Alþingi Íslendinga Parísarsamkomulagið svokallaða með hægri hendinni á meðan sú vinstri hélt áfram að skrúfa frá losun gróðurhúsalofttegunda. Lítið sem ekkert fer fyrir mótvægisaðgerðum, s.s. endurheimt votlendis en þeim mun meira fyrir aukinni orkuframleiðslu til stóriðju og úthlutun heimilda til gríðarlegrar aukningar á losun lífrænna úrgangsefna við strendur landsins.

Til að setja einhverjar þessara hugleiðinga minna í samhengi, upphugsaði ég dal einn á Íslandi. Eins og allir dalir í ævintýrum, þá er þessi dalur einstaklega fagur og miklum kostum búinn. Ég kýs að kalla hann Vatnadal, en hann gæti heitið hverju nafni sem er því hann á sér svo ótrúlega marga þjáningarbræður hér á landi í einni eða annarri mynd.

En hvernig dalur er Vatnadalur? Til að kynna hann til leiks er hér smá inngangur að þremur sögum úr Vatnadal.

vatnadalur_1

Náttúran ræður för

Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

Hnífar

‚Stolinn hnífur bítur best‘ segir málshátturinn, en ekki getur maður endalaust stolið sér hnífum. Ég held reyndar að ég hafi aldrei stolið hnífi, en ég hef keypt nokkra á 1 kr. af vinum og ættingjum þannig að ekki skærist á vinaböndin. Nú í lok sumars fór ég að taka eftir því að veiðihnífurinn minn var farinn að svíkja mig í aðgerð, sérstaklega ef ég var að gera að smærri fisk. Þetta lýsti sér helst þannig að ég varð að beita aðeins of miklu afli þannig að skurðurinn varð ekki hreinn og beinn, sléttur og felldur. Þegar svo roðtægjurnar voru farnar að hrannast upp við gotrauf fisksins, þá varð ekki lengur við unað.

Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu
Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu

Eins og sjá má, var ekki vanþörf á að þrífa hnífa og slíður eftir sumarið. Vel að merkja, upprunalega slíðrið sem fylgdi mínum hníf dugði rétt eitt sumar, þannig að ég saumaði mér nýtt úr reiðhjóladekki sem hefur dugað í nokkur ár. En aftur að hnífunum. Eftir gott sumar í veiði lætur eggin vitaskuld á sjá, verður svolítið skörðótt og ávöl þannig að það var kominn tími til að leggja þá á stein og brýna þá síðan á stáli. Þegar eggin er orðin eitthvað í líkingu við brotalínurnar á myndinni hér að neðan, þá er kominn tími til að skerpa hana á steini.

hnifar

Ég nota flatan stein með grófu og fínu yfirborði til að forma eggina í V og svo stálið eða nýju græjuna mína, Rapid Steel frá F.Dick til að skerpa hana.

Auðvitað nýtti ég tækifærið og þreif skefti og blöð með volgu vatni og sápu, renndi síðan yfir þau með fínum sandpappír og olíubar upp á nýtt. Ég hef aldrei skilið þá áráttu framleiðenda að lakka tréskefti, lakkið heldur sjaldnast lengi og olíuborinn viður er mun stamari heldur en lakkaður.

Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.
Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.

Á döfinni

Þeir eru væntanlega ekki margir staðirnir á landinu þar sem haustið er ekki farið að setja mark sitt á náttúruna. Næturfrost á veðurkortunum, snjóföl í fjöllum og morgnarnir hefjast orðið á því að bregða þarf kreditkortinu á framrúðu bílsins. Hann er genginn í garð, tíminn þegar ég sest niður, rifja upp atvik frá liðnu sumri og set í greinar nokkrar hugleiðingar út frá efninu.

fos_thingvellir_kirkja

Nú þegar hafa á fjórða tug greina af ýmsum toga komist á blað og flestum þegar raðað niður til birtingar á vefnum. Þegar 39 dögum hefur verið eytt í veiði á sumrinu, er ekki nema von að fyrstu vikur vetrar fari svolítið í að gera sumarið upp, lesa í aukna innistæðu í reynslubankanum og reyna að læra eitthvað af mistökum sumarsins.

Væntanlega verða einhverjar nýjar og gamlar flugur kynntar til leiks þegar nýtt ár gengur í garð og þannig kemur eitthvað til með að bætast við þær tæplega 80 uppskriftir og upplýsingar sem þegar má finna á síðunni. Ég er þegar með nokkrar áhugaverðar í sigtinu og þær verða reyndar í hnýtingarþvingunni á næstu vikum. Ef þær verða fiskum bjóðandi fara þær í myndatöku og gerðar klárar fyrir vefinn.

FOS.IS mun á nýju ári standa eitt skiptið enn fyrir hnýtingarviðburði á Facebook undir nafninu Febrúarflugur. Eins og áður er öllum heimil þátttaka með því að skrá sig til leiks og setja inn myndir af því sem kemur úr hnýtingarþvingunni þann mánuðinn. Engar kvaðir eru á þátttakendum, þeir haga sínum innleggjum eins og hverjum hentar. Væntanlega verður viðburðurinn með svipuðu sniði og áður, en áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks með því að smella hérna. Nánar verður fjallað um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Undanfarin ár hafa rétt um 1200 greinar safnast á vefinn og fylgjendum hans fjölgað jafnt og þétt. Það er ekki sjálfgefið að allt það efni sem hér birtist verði áreynslulaust til úr eigin ranni og því er nú einfaldlega þannig farið að fæstir lesendur vefsins hafa mjög hátt um það hvaða efni þeir vilja sjá hér á síðunni. Ef lesendur hafa hug á senda mér ábendingar eða óskir um sérstakt efni, þá er það velkomið og þeim bent á senda mér tölvupóst á kristjan(hjá)fos.is eða nýta sér skilaboðaform sem nálgast má hér á síðunni.

Þeir leynast víða sauðirnir

Fyrir hálfum mánuði síðan birti ég hugleiðingar mínar um slælega umgengni við náttúru Íslands. Kveikjan að þeim hugleiðingum mínum var því miður umgengni veiðimanna við Hítarvatn sem ég varð vitni að.

Í framhaldi þessa lenti ég á smá spjalli við kunningja mína í vinnunni og þá kom til tals hjarðhegðun okkar mannfólksins. Það virðist vera áberandi að þar sem einn sóði drepur niður fæti, þar spretta upp nokkrir til viðbótar og þannig getur smáræði orðið að ruslahaug. Það verður að viðurkennast að ég hef alveg fundið fyrir einkennum þessarar hjarðhegðunar hjá mér. Þegar ég kem að veiðistað þar sem umgengni hefur verið einstaklega slæleg, þá getur mig alveg brostið geð til að taka upp ruslið sem ég rekst á. Þetta eru aðeins væg einkenni og hafa blessunarlega engin áhrif á það hvernig ég hafa mínum sorpmálum, en sauðslegt engu að síður.

Taumar og taumaendar fara einfaldlega niður í vöðlurnar mínar yfir daginn. Það eru reyndar til einstaklega sniðugar græjur sem hægt er að nota til að vinda taumaenda og girni inn á og tæma þegar komið er að næstu ruslatunnu en mér dugar vöðluvasinn eða brjóstmálið til að geyma mínar afklippur.

Eftir notkun fara mínar drykkjarumbúðir einfaldlega aftur ofan í þann vasa eða bakpoka sem ég notaði til að bera þær með mér á veiðistað. Þetta er nú ekki flókið og ætti að vera á flestra færi, ekkert frekar en að ganga frá pappír eftir að hafa gengið örna sinna.

En svo kemur að slógi og beinagörðum sem falla til á veiðistað. Einn kunningi minn vakti mig til umhugsunar um að margir veiðimenn hafa bara ekki hugmynd um það sem á sér stað þegar slógi eða fiskúrgangi er skilað aftur í vötnin. Sumir veiðimenn gera þetta í þeirri góðu trú að þeir séu að fóðra fiskinn sem eftir er í vatninu. Þetta er leiður misskilningur og útbreiddur. Við það að henda slógi í vatnið eða skilja það eftir við bakkann eru veiðimenn að viðhalda hringrás bandorma í náttúrunni sem aðeins veikir fiskistofnana í nærumhverfinu. Það eru helst krabbadýr og sviflægir fiskar sem nýta sér úrgang og þannig komast egg bandorms aftur inn í fæðukeðjuna og enda með einum eða öðrum hætti í lokahýsil sínum; laxi, urriða, bleikju, fugli eða spendýrum þar sem þeir fjölga sér enn frekar. Egg ormsins skila sér síðan aftur út í náttúruna með saur og þannig hefst hringrásin upp á nýtt. Það er því engum greiði gerður að skilja slóg og fiskúrgang eftir á veiðislóð. Komum fiskúrgangi í ruslið rétt eins og öðru sem til fellur á veiðistað.

Lífsferill bandorms
Lífsferill bandorms – © FOS.IS

Veiðidagur fjölskyldunnar á sunnudaginn

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þennan dag er landsmönnum boðið að veiða í 29 vötnum, víðsvegar um landið. Það er að venju Landsssamband Stangaveiðifélaga sem bíður til þessa og í ár verða eftirtalin vötn í boði;

Austurlandi – Langavatn  í landi Staffells, Urriðavatn í Fellum, Þveit, Víkurflóð

Suðurlandi – Eyrarvatn, Geitabergsvatn, Þórisstaðavatn, Meðalfellsvatn, Elliðavatn, Þingvallavatn (þjóðgarðurinn), Gíslholtsvatn, Úlfljótsvatn

Vesturlandi – Syðridalsvatn, Vatnsdalsvatn, Langavatn á Mýrum, Hítarvatn, Haukadalsvatn, Hraunsfjörður, Hraunsfjarðarvatn, Baulárvallavatn

Norðurlandi – Hópið, Botnsvatn, Ljósavatn, Höfðavatn, Hraunhafnarvatn, Arnarvatn, Æðarvatn, Kringluvatn, Sléttuhlíðarvatn

vdf2016

FOS.IS hvetur alla sem vettlingi geta valdið að nýta sér þetta tækifæri til að kanna ný vötn eða endurnýja eldri kynni og endilega takið ungviðið með ykkur, það er aldrei of snemmt að koma þeim á bragðið.

Er mamma þín hér?

Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

Veiðimaðurinn – Ólafur Arndal Reynisson

Þegar veiðimenn smitast af bakteríunni á unga aldri er eins gott að einhver nákominn sé þeim innan handar og styðjið við áhugann og leiði menn örlítið áfram. Sem betur fer er það frekar regla heldur en undantekning að foreldrar, afar eða ömmur eru tilbúin að skjótast í veiði með ungviðinu. Við náðum taki á einum ungum veiðimanni sem hefur notið margra góðra stunda við veiði með fjölskyldu sinni og spurðumst fyrir um kveikjuna að veiðiáhuganum.

– Það voru nú pabbi og mamma sem kveiktu hjá mér áhugann með því að gefa mér veiðistöng þegar ég var 3ja eða 4ra ára, svarar Ólafur Arndal Reynisson, 17 ára námsmaður í FB.

Vænn urriði
Vænn urriði hjá Ólafi

Það hefur væntanlega verið kaststöng?

– Já, þessi líka flotta Batmann-stöng með ýmsum fylgihlutum í boxi þannig að ég kæmist með pabba í veiði.

Hann er þá svolítið í veiðinni líka?

– Já, hann stundar skot- og stangveiði á milli þess sem hann stikar upp um fjöll og firnindi. Hann hefur verið minn kennari, jú og aðrir ættingjar sem ég hef farið með í veiði.

Nú átt þú heima hérna á höfuðborgarsvæðinu, ferðu helst að veiða á þessu horni landsins?

– Nei, alls ekki. Pabbi er ættaður úr Öxarfirðinum og við förum oft norður og veiðum þar í grennd, helst norður á Melrakkasléttu þar sem annað uppáhalds vatnið mitt er einmitt, Æðarvatn. Þar hef ég sett í mína stærstu fiska og ýmislegt skemmtilegt gerst, eins og þegar pabbi stakk sér á eftir veiðistönginni minni þegar 5 punda urriði tók hana út. Það er hægt að hlæja að þessu, svona eftirá.

Þú nefnir það sem annað uppáhalds vatnið þitt, hvert er hitt?

– Það er reyndar vatn hérna í grenndinni sem ég heimsæki stundum með pabba, Stíflisdalsvatn við Kjósaskarð, frábært vatn og flottir fiskar. Pabbi þekki þar landeiganda og við fáum að kíkja annars lagið í vatnið.

Flottur afli úr Æðarvötnum
Flottur afli úr Æðarvatni

Fyrsta stöngin þín var kaststöng, hefur þú haldið þig við kaststöngina eða veiðir þú eitthvað á flugu?

– Nei, ég veiði mest á maðk eða spún í vötnunum. Annars hef ég líka farið á sjóstöng og leiðist það heldur ekki.

Þið feðgar farið væntanlega eitthvað í veiði í sumar?

– Já, það vona ég svo sannanlega, það er alltaf smá metingur í okkur og ég þarf eiginlega að ná fleiri fiskum heldur en sá gamli í sumar.

Á sjóstöng
Á sjóstöng

Við þökkum Ólafi fyrir samtalið og óskum þeim feðgum góðrar skemmtunar í sumar.

Yngri veiðimenn

Þetta er ekki eina fyrirsögn hér á síðunni sem lesa má með mismunandi áherslum. Þegar ég setti hana niður á blað var ég með ákveðið ákall í huga; það vantar yngri veiðimenn. Velta stangveiði hér á landi er áætluð tæpir 20 milljarðar á ári og sagt er að þriðjungur þjóðarinnar stundi stangveiði. Þetta eru engar smáræðis tölur og ég viðurkenni fúslega að ég á óskaplega litla hlutdeild í þeim. Ég kaupi mjög takmarkað af veiðileyfum, nota Veiðikortið og félagsskírteini í Ármönnum sem hvoru tveggja veita mér aðgengi að ríflega 40 vötnum þar sem ég get veitt eins og mig listir. Og svo ber ég heldur enga ábyrgð á fjölgun veiðimanna á Íslandi og þá komum við að innihaldi pistilsins; yngri veiðimönnum.

Þannig er að ég lét framhjá mér fara og missti af stangveiðiáhuga sona minna. Í kapphlaupi þess að koma mér örugglega fyrir í lífinu tók ég allt of lítið undir beiðnir um að fara að veiða eða taka veiðistöngina með í útilegur og í dag ég sé töluvert eftir því. Ungt fólk fer mikils á mis ef það stundar ekki útiveru og nær tengingu við uppruna sinn eins og stangveiðin bíður uppá. Í dag er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem þekkir silung aðeins sem vacum pökkuð flök í stórmörkuðum, reykt eða grafin. Þessi kynslóð þekkir aftur á móti leynda afkima veraldarvefsins út í ystu æsar, á fjölda ‚vina‘ á samfélagsmiðlum og veit allt um skræpóttar nærbuxur poppstjarna sem gægst hafa upp úr buxnastrengjum á óheppilegu augnabliki. Ungar stúlkur í dag roðna þegar maður segir Peacock og strákar segjast ekki vera neitt fyrir svoleiðis. Ég hef ekki hugmynd um hvað þau lesa út úr þessu göfuga heiti flugunnar en grunar að það sé eitthvað neðan beltis.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda Íslendinga sem leggur stund á stangveiði, þá er heilt yfir um litla nýliðun í stangveiði að ræða. Sama á við um félagsstarf stangveiðifélaganna. Félögin eldast hratt og unglingastarf þeirra á undir högg að sækja. Ef fram fer sem horfir þá verða aðalfundir félaganna haldnir á elliheimilum landsins, helst á milli fyrra kaffis og hádegishressingar þannig að menn sofni ekki undir liðnum önnur mál. En hvað er þá til ráða? Ef þú átt ungliða sem er efni í veiðimann þá eru hér mögulega nokkur atriði sem gott væri að hafa í huga:

  • Ekki arfleiða neinn að gamla dótinu þínu. Leyfðu krökkunum að velja sér stöng og annan útbúnað, þetta þarf að verða þeirra.
  • Bjóddu upp á fjölbreytta dagskrá í veiðiferð, gerðu svolítið úr þessu með því að kaupa eitthvað gott í nesti og millimál.
  • Vertu klár með myndavélina, meira að segja enginn fiskur getur orðið að myndefni.
  • Veðjaðu á nokkuð öruggt veiðisvæði þar sem fiskurinn tekur, þolinmæði krakka er ekki eins mikil og fullorðinna.
  • Ekki gera ráð fyrir löngum veiðiferðum til að byrja með og vertu sáttur við að steinar og spýtur á vatnsbakkanum gætu orðið meira spennandi en flot úti á vatni.

fos_nk

Ef allt gengur upp hjá þér ertu kominn með fullar hendur af spurningum, brennandi áhuga ungs veiðimanns og ómældar ánægjustundir.

Kláraðu skipulagið

Nú hafa flestir tryggt sér veiðileyfi fyrir sumarið og vonandi langt fram í haustið. Að vísu kemur það fyrir að menn þurfi að endurskipuleggja einhverja daga ef ekki fæst frí eða ættarmót lenda á veiðidögum. Það sem gildir í þessu er að klára endurskipulagninguna alveg, ef til hennar þarf að koma. Eitthvað hefur maður heyrt af misskilningi veiðifélaga þegar einn úr hollinu gleymdi að uppfæra dagatalið sitt og mætti í veiði á röngum degi, einn og yfirgefinn. Eins hef ég heyrt ótrúlega sögu af sjálfvirkri leiðréttingu í farsíma sem breytti SMS skilaboði um Fnjóská í Brjósk sem viðtakandinn túlkaði umsvifalaust sem Blöndu þannig að þeir félagarnir fórust á mis.

Sjálfur hef ég tekið upp á þeim óskunda að endurskipuleggja veiðivestið mitt síðla sumars án þess að klára það skipulag endanlega. Þannig var að ég ákvað með stuttum fyrirvara að skjótast í Langavatn á Mýrum, að mig minnir síðasta opna dag að hausti. Ég hafði þá verið í einhverri tiltekt í veiðivestinu mínu og gaf því ekkert endilega gaum þegar ég tók það ofan af snaga í skúrnum ásamt stöng, vöðlum og tilheyrandi. Ég man bara að þetta var yndislegur laugardagsmorgun og haustlitirnir við ofanverða Langá skörtuðu sínu fegursta og þegar ég kom upp að vatni var ekki annað hægt en bara setjast niður og njóta. Þegar ég loksins hafði mig á fætur og klæddi mig í var heldur rýrt af búnaði í vestinu. Engar klippur, engir taumar og ekkert flugubox. Það eina sem ég hafði mér til bjargar var einn sver taumur á hjóli og einhverjar afklippur í vöðluvasanum sem mér tókst að hnýta saman þannig að ég náði tæpum 9 fetum. Eins gott að ég þyrfti ekki að skipta oft um flugu því ég var aðeins með eina flugur sem ég hafði í einhverri rælni stungið í hjólatöskuna um sumarið, rauður Nobbler. Aflabrögðin urðu heldur rýr, ein bleikja sem vissi greinilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið og lét glepjast. Lærdómur: yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

Langavatn
Langavatn

Flýttu þér hægt

Það er vissulega erfitt að hemja sig þessa dagana þegar frystu vötnin koma undan ís. Já, þú last rétt ég sagði frystu vötnin því mörg vötn hafa verið á frosti síðan fyrir áramót og víða er enn ís á vötnum þótt komið sé fram undir maí. Að þessu sinni ætla ég ekki að minnast einu orði á það að fiskurinn fer sér einstaklega hægt þegar vötnin koma undan ís og því ættu veiðimenn að gefa gaum þegar þeir velja agn og inndrátt. Nei, ég ætla að segja sögu af sjálfum mér þegar ég flýtti mér of mikið.

Það þarf oft ekki stóra glufu á milli élja í fyrstu viku veiði til að maður leggi í smá ferðalag upp í Kjós. Ég held að það hafi verið 1. apríl eitthvert árið sem ég sá slíka glufu í skýjunum yfir Esjunni og myndavélin á Bæ í Kjós gaf til kynna að fært væri í Meðalfellsvatnið. Þetta var nóg til þess að óeirðin varð óviðráðanleg og ég skaust út í bílskúr, snaraði veiðivesti, vöðlum og stöng í skottið á bílnum og brenndi upp í Kjós. Já, einmitt, það sem ég taldi upp var það sem ég tók með mér. Til allrar lukku tókst mér að troða mér og vöðlusokkunum í gönguskóna mína þannig að ég gat staulast fram á bakkann með stöngina og hitt út í vatnið þar sem það var ekki undir ís. Mig minnir að einn ágætur hafi komið á land þannig að mér var hlýtt um hjartaræturnar á leiðinni heim, en mikið rosalega var mér kalt á fótunum í rennandi blautum skónum þennan spotta úr Kjós og heim til Reykjavíkur. Lærdómur: ekki gleyma vöðluskónum.

Meðalfellsvatn í byrjun apríl
Meðalfellsvatn í byrjun apríl

Skrá, já takk

Síðastliðinn vetur var ég að grúska í fjölda greina um silung og silungsveiði á Íslandi. Það er alltaf töluverður pakki af skýrslum sem lagðar eru fram á vef Veiðimálastofnunar og svo koma sjálfstætt starfandi líf- og fiskifræðingar annað slagið með áhugaverðar greinar.

Ég las til dæmis nokkrar greinar þar sem rannsóknir á silungs- og laxveiði voru bornar saman eða í það minnsta tæpt á því sem skilur þessar rannsóknir að. Það kom svo sem ekkert á óvart að rannsóknir á silungastofnum hér á landi hafa ekki verið eins viðamiklar og rannsóknir á laxi og laxagengd, en samhljómur skýrslnanna um vöntun á skráningu silungsveiði kom mér svolítið á óvart.

Veiðiskýrsla
Veiðiskýrsla

Mikið væri nú óskandi að veiðimenn tækju sig saman nú í sumar og settu sér það markmið að skrá afla eins og hann kemur upp úr vötnunum okkar þannig að hægt væri að skila skýrslum til Veiðimálastofnunar eins og mælst er til um. Þá hefðu svona nördar eins og ég eitthvað til að lesa næsta vetur.

Morgunmatur meistaranna

Nú er heldur betur farið að styttast í að ferðavagninn verði gerður klár, fyllt á matarkistuna, sængurnar viðraðar og gengið úr skugga um að nægt gas sé á kútunum. Gasið kemur ekki aðeins að góðum notum til hitunar þessa fyrstu vikur vertíðarinnar, það er forsenda þess að maður getur fyllt á eigin tank fyrir daginn.

Í veiðiferðum skiptir ekki minnstu máli að vera með nægt gas á eigin tanki yfir daginn. Staðgóður morgunverður, eða í mínu tilfelli dögurður því ég sef yfirleitt af mér morgunverðinn í útilegum, verður að vera til staðar eigi maður að halda daginn út í veiði.

Morgunmatur meistaranna
Morgunmatur meistaranna

Það getur verið of seint að fylla á orkubirgðirnar ef tankurinn tæmist á miðjum degi. Betra er að vera með fullan tank þegar lagt er af stað og bæta jafnt og þétt á hann yfir daginn til að fyrirbyggja að hann tæmist alveg.

Hér að ofan er mynd af morgunverði sem við veiðifélagarnir smellum á pönnuna hjá okkur áður en vagninn er yfirgefinn og haldið í veiði. Steikt egg, bacon, jafnvel nokkrar smápylsur, brauð með osti og sterkur kaffibolli með til að kveikja á heilabúinu og ná morgunhrollinum úr sér. Hvað sem manneldisfræðingar segja; ekki gleyma saltinu, það bindur vatn og viðheldur rafhleðslu líkamanns sem við getum auðveldlega ruglað með vatnsneyslu yfir daginn til að vinna á móti svitanum sem myndast þegar við glímum við þann stóra.

Vettlingar

Þannig að maður missi sig nú ekki alveg í óþolinmæðinni eftir næstu vertíð, má taka nokkur róleg skref í átt að henni. Mér skilst á þeim sem kunna þá list að prjóna að það sé einstaklega róandi og sefandi iðja. Og hvað er þá betra en róa óþolinmæðina eftir næstu vertíð niður með því að prjóna vettlinga fyrir sumarið?

Þar sem ég er kulsækinn í meira lagi, hef ég í gegnum tíðina þurft að vera með vettlinga bæði fyrri- og seinnipart vertíðar. Þetta getur auðvitað verið til einhverra trafala þegar maður stundar fluguveiði því það er ekki auðvelt að skipta um flugu þegar maður er dúðaður fram yfir fingurgóma. Þá getur komið sér vel að vera með ‚flapsa‘ á vettlingunum, geta lokað og opnað fyrir fingurna að vild en best hefur mér reynst að vera í grifflum, láta mig hafa það að fingurgómarnir kólni á meðan lófar og handarbök væru þokkalega heit.

Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar tegundir vettlinga; flís fingravettlinga, fóðraða gúmmívettlinga, prjónaða með flísfóðringum og svo grifflur úr íslenskri ull. Gallinn við fingravettlinga úr flísefni fannst mér helst vera að þegar þeir blotnuðu gat verið fjand… erfiðara að komast úr þeim og í þá aftur auk þess að rakir veittu þeir litla einangrun. Fóðruðu gúmmívettlingarnir voru fljótir að hverfa úr veiðitöskunni, tómt vesen; óþjálir og lítil einangrun í þeim. Þeir prjónuðu með flísfóðringunni hafa fylgt mér í nokkur ár. Mínir eru með þessum flöpsum sem ég get smeygt yfir fingurna þegar mér verður mjög kalt eða rétt á meðan ég rölti á milli veiðistaða.

Veiðifélagi minn hefur óbilandi trú á íslensku ullinni en ég er svo mikil blúnda að ég veigraði mér lengi við að nota ullarvettlinga. Helsta minning mín frá vetrum barnæsku minnar er þessi óstöðvandi kláði undan ullinni og núningur við háls og úlnliði. Það var því með töluverðum semingi að ég lét mig hafa það að þiggja handprjónaðar grifflur úr íslenskri ull sem mér voru boðnar fyrir nokkru síðan. En, þessir vettlingar hafa reynst mér einna best. Eftir nokkrar veiðiferðir hafði ulli þæfst það mikið að allur kláði og núningur var horfinn og vettlingarnir voru orðnir þéttir og mjúkir. Af því að þetta er grifflur þarf ég ekki að fara úr þeim til að skipta um flugu og ég held góðu taki á línunni og hita á höndunum. Meira að segja þótt þeir blotni í gegn, þá halda þeir einangrun sinni merkilega vel.

Á snúrunni eftir góðan veiðidag
Á snúrunni eftir góðan veiðidag

Svo er einn kostur við ullarvettlingana sem ekki má gleyma; þeir eru mun fljótari að þorna á milli veiðidaga heldur en fóðraðir- eða flísvettlingar.

Bandormar í fiski

Bandormur fjárlaga er nokkuð þekkt fyrirbæri þar sem ein breyting í fjárlögum hefur keðjuverkandi áhrif á önnur lög sem þarf því að breyta. Margir hafa horn í síðu þessa bandorms, treysta ekki alveg öllu sem laumast þarna inn og getur haft áhrif á allt annað en það sem upphafleg fjárlög innihéldu. Það sama má segja um bandorm í náttúrunni. Hann er ótukt sem smitað getur hressilega út frá sér.

Nokkuð reglulega senda veiðimenn frá sér myndir af innyflum fiska og spyrjast fyrir um hvað sé eiginlega á ferðinni, fullt af hvítum kúlum og allt gróið saman. Flesta þessara samgróninga má rekja til bandorma. Þeir teljast til flatorma, Plathelminthes og hreiðra um sig í iðrum manna og dýra. Fjöldi bandormstegunda finnast í fiski á og við Ísland. Bandormar sækja alla sína næringu til hýsilsins og festa sig gjarnan í líffæri hýsilsins með krókum sem eru staðsettir á höfði ormsins.

Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson
Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson

Bandormur í fiski er útbreiddur á Íslandi. Hér á landi finnast nokkrar tegundir bandorma en segja má að tvær þeirra séu kunnastar; Eubothrium (skúformur) og Diphyllobothrium (fiskiandarmaðkur / laxamaðkur).

Skúformur finnst nánast í öllum laxfiski á Ísland svo einfalt er það. Ormurinn notar laxfiska sem lokahýsil á lífsleiðinni og hefst helst við í meltingarvegi þeirra, gjarnan í skúflöngum og þaðan fær hann viðurnefni sitt. Egg ormsins berasta út í vatnið með saur fisksins þar sem þau eru étin af örsmáum krabbadýrum þar sem ormurinn þroskast. Hringrásin lokast svo við að sviflægur fiskur étur þessi krabbadýr eða verður sjálfur stærri fiski að bráð. Hér á landi finnast tvær tegundir skúforma, önnur herjar helst á bleikju en hin á urriða og lax. Sú síðar nefnda getur orðið allt að 1 metra að lengd, en sú fyrri aðeins þriðjungur þeirrar lengdar. Fiskur drepst sjaldnast þótt sýktur sé, en sé sýkingin veruleg dregur óhjákvæmilega úr vexti fisksins þar sem töluverð næring fer til ormsins og mótstöðuafl fiskins gegn sjúkdómum þverr. Skúformur og fiskiandarmaðkur eiga það sameiginlegt að þeir ganga sjaldnast það nærri lokahýsil að hann drepist, því það er þeim í hag að lokahýsill geti fóstrað eins marga kynþroska orma og hægt er.

Lífsferill fiskiandarmaðks er örlítið flóknari heldur en skúformsins. Þessir ormur nýtir fisk sem millihýsil því lokahýsill er fiskiæta, fuglar og spendýr. Egg berast frá lokahýsil í vatn með saur þar sem smágerð krabbadýr éta þau, rétt eins og í lífsferli skúforms. Í tilfelli fiskiandarmaðksins eru krabbadýrin aftur á móti étin af millihýsil, fiski þar sem lirfurnar brjóta sér leið út úr meltingarveginum og dreifa sér um kviðarhol hans. Lirfurnar hjúpa sig hvítleitum þolhjúp, yfirleitt kúlulaga og bíða þess að fiskurinn verði étinn af lokahýsil þar sem ormurinn nær kynþroska og fjölga sér. Verði sýking í fiski veruleg, getur ormurinn breiðst út í hold hans, þunnildi og flök, ásamt því að innyfli gróa saman og fiskurinn verður ófrjór. Ekki er óalgengt að fiskurinn verði horaður, kviðmikill og slappur sem gerir hann að auðfenginni bráð, hvort heldur annarra fiska eða lokahýsils.

Fiskifræðingar hafa orðið varir við beint samhengi smits og fjölda fugla á og við vötn og því er um að gera fyrir veiðimenn að ganga tryggilega frá slógi og rjúfa þannig hringrás ormsins í náttúrunni.

Hvorug þessara tegunda bandorms eru hættulegar mönnum, en það er vel skiljanlegt að menn veigri sér við að éta mikið sýktan fisk. Um matseld fisks gilda hér sömu reglur og við hringormi, frystið og/eða hitið fisk upp fyrir 70°C, það drepur orminn.

Heimildir

EldisbóndinnEldi bleikju, Hólaskóli

Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

Hringormar í fiski

Umræða og fyrirspurnir um sníkjudýr í silungi kemur reglulega fram á sjónarsviðið, einkum þegar veiðimenn verða varir við svæsnar sýkingar í fiski. Ég játa það fúslega þekking mín á sníkjudýrum í fiski hefur hingað til verið heldur yfirborðskennd og mörkuð af reynslu minni úr fiskvinnslu sem unglingur og því hef ég freistast til setja alla þessa óværu undir sama hatt. En svo er nú ekki.

Áður en lengra er haldið, skal það tekið fram að við efnisöflun fyrir þessa samantekt las ég ógrynni fyrirspurna og svara á ýmsum spjallvefjum um þetta efni. Ekkert af því sem ég set hér fram er ættað af umræðuvefjum, þess í stað hef ég leyft fréttum sem hafa komið fram á síðustu árum að leiða mig áfram að greinum og rannsóknum lærðra manna. Heimilda er getið í niðurlagi.

Hringormar er safnheiti yfir sníkjuþráðorma (Nematoda) sem fullorðnir lifa í maga villtra spendýra við Ísland. Þeir sem mest áberandi hafa verið í umræðunni eru; Anisakis simplex (hvalormur, síldarormur) og Pseudoterranova decipiens (selormur, þorskormur). Minna hefur farið fyrir t.d. Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae sem hvorugur hefur fengið íslensk viðurnefni að því er ég best veit. Lífsferill hringorma skiptist í fimm stig. Fullorðinn lifir ormurinn í maga sjávarspendýra (lokahýsill) og þaðan berast egg hans út í sjó með saur hýsilsins þar sem krabbadýr (millihýsill) éta þau. Í millihýsil taka lirfurnar hamskiptum, þroskast og stækka þar til þriðja stigi er náð. Þá eru þær orðnar smithæfar og éti fiskur (burðarhýsill) þetta krabbadýr, tekur ormurinn sér bólfestu í fiskinum, upprúllaður og hættir að þroskast. Á þessum tímapunkti er t.d. hvalormurinn orðinn 2 – 4 sm. langur og kominn með gadda á fram- og afturenda sem auðvelda honum að rjúfa sér braut um vefi fisksins. Éti lokahýsill þennan smitaða fisk tekur það orminn aðeins örfáa daga að þroskast yfir á fjórða stig og ná kynþroska sem er fimmta og síðasta stig lífsferilsins. Fullþroska ormar lifa í 3 – 7 vikur í lokahýsil og geta af sér allt að 7500 egg á dag.

Hvalormur í lifur þorsks - Anisakis simplex © Hans Hillewaert
Hvalormur í lifur þorsks – Anisakis simplex © Hans Hillewaert

Þekktir hýslar hringorma eru m.a. ránfiskar (þorskur, langa, steinbítur, keila) sjófuglar, selir, hvalir og sjógengnir laxfiskar (sjóbirtingur, sjóreiður og lax). Hvalormur finnst nánast eingöngu í innyflum ferskra fiska. Ef fiskurinn er aftur á móti geymdur óslægður í einhvern tíma, taka innyflin að meltast / skemmast þannig að ormurinn á greiða leið út í vöðva og önnur líffæri. Því ætti að slægja allan fisk sem fyrst til að koma í veg fyrir smit.

En það er ekki algilt að hringormur haldi sig eingöngu í innyflum. Lirfa selorms í fiski er stór, gulbrún á lit og finnst oftast í vöðvum, sérstaklega þeim sem umlykja kviðarholið. Hún er uppsnúin inn í bandvefshylki í flökum sem fiskarnir mynda sjálfir. Þannig reyna þeir að einangra orminn.

Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté
Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté

Neysla sýkts fiskjar þarf alls ekki að vera hættuleg sé gætt að geymsluháttum og matreiðslu. Nægjanlegt er að frysta fisk við -20°C í vikutíma til að drepa hringorm og sé fiskur matreiddur ferskur skal gæta þess að hann nái 70°C í eina mínútu, það skilar sama árangri. Hér ber heimildum ekki alveg saman þannig að ég hef valið að nefna lengstan tíma í frosti og hæsta hita við eldun sem getið er. Þurrkaður fiskur er meinlaus, þ.e. sé hann fullþurrkaður því hringormur þolir ekki að þorna. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort reyking sé næg forvörn, þannig að væntanlega er best að frysta fisk áður en hann er reyktur. Eins og kunnugt er losnar verulega um hold í fiski þegar hann er frystur og mörgum þykir því þýddur fiskur ekki eins heppilegur og ferskur þegar kemur að því að grafa. Því ætti að velja heilbrigðan ferskan fisk, lausan við smit og óværu ef hann er ætlaður í graf. Sjálfur hef ég fryst grafin urriða og tekið úr frysti eftir hentugleikum og alltaf þótt hann jafn góður, örlítið lausari í sér en ekkert sem orð er á gerandi.

Þrátt fyrir þessi einföldu ráð eru dæmi þess að hringormur hafi náð að þroskast á fjórða stig í mönnum hér á landi og hefur tilfellum eitthvað farið fjölgandi með breyttum matarvenjum og neyslu hrás fisks hin síðari ár. Komist selormur lifandi niður í meltingarfæri manna getur hann borað sár í maga með tilheyrandi kvölum, ógleði og uppköstum fórnarlambsins, en yfirleitt gerir hann sér fljótlega grein fyrir að hann hefur ratað í óheppilegan hýsil og leitar því útgöngu sem fyrst. Sú útþrá á sér yfirleitt stað í gegnum vélinda og munn og getur því verið miður geðsleg fyrir þann sem fyrir því verður. Leiti ormurinn ekki upp, heldur niður meltingarveginn getur svo farið að lirfa ormsins bori gat á þarmana og komist þannig inn í kviðarholið eða líffæri svo sem lifur, gallblöðru eða eitla. Slíks smits verður yfirleitt vart á innan við 12 klst. Dauður selormur veldur aldrei skaða í manneskju.

Hvalormurinn er almennt talinn hættulegri mönnum heldur en selormurinn. Hvalormurinn er gjarnari á að bori sig út úr maga og görnum fórnarlambsins og fara á flakk um kviðarholið með tilheyrandi sársauka, blæðingum og líffæraskaða. Eins er fólki hættara við ofnæmisviðbrögðum vegna hvalorms, hvort heldur hann sé lifandi eða dauður. Það er því rík ástæða til að gæta vel að fiski sem er mögulega sýktur af hvalormi. Hvalormur er orsök gotraufarblæðingar í villtum laxi sem einmitt hefur orðið vart hér á Íslandi á undanförnum árum. Þær sýkingar geta verið mjög svæsnar, allt að 150 ormar við gotrauf fisks auk þess að nánast allt kviðarholið getur sýkst, auk þunnilda og vefja. Það er því langur vegur frá að hringormur finnist ekki í laxi hér á landi.

Heimildir

Hringormar berast í fólk á Íslandi við neyslu á lítið elduðum fiski, Karl Skírnisson, Læknablaðið 1.tbl. 92.árg. 2006

Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

Hringormar, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1997, Erlingur Hauksson

Gotraufarblæðing í íslenskum laxi Sigurður Helgason og Árni Kristmundsson Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Keldum

Grisjað að vetri

Því er nú þannig farið að flest veiðivötn á Íslandi eru að hluta eða mestu leiti í eigu bænda. Auðvitað eru nokkur vötn svo nærri byggð að ákveðin sveitarfélög, einstaklingar eða stofnanir eiga land að og þar með veiðirétt í vötnum. Vötn og einstaklingar njóta þess yfirleitt ágætlega þegar sveitarfélögin eða stofnanir eiga veiðiréttinn. Þá eru töluverðar líkur á að um vötnin sé hugsað, þau undir eftirliti og breytingum í þeim gefin gaumur. Síðast en ekki síst, þá njóta veiðimenn góðs af því aðgengi að þessum vötnum er yfirleitt með ágætum.

Aðgengi veiðimanna að vötnum í umsjá bænda, beint eða í gegnum afréttarfélög er yfirleitt einnig með ágætum. Stærri veiðifélög eru þess megnug að ljá rannsóknum og eftirliti einhverja fjármuni og því er ástand þeirra vatna sem undir þau heyra yfirleitt með ágætum. Sömu söguna er ekki alveg að segja um öll vötn sem heyra undir einstaka bændur. Þar gefst sjaldnast tími né fjármunir til að sinna þeim eins og best væri á kosið og því vilja þessi vötn oft verða afskipt ef þau eru ekki nýtt af eigendum.

Mér hefur annað slagið orðið tíðrætt um ofsetin bleikjuvötn, enda af nægum vötnum að taka. Samfara minni netaveiði hafa mörg vötn orðið offjölgun bleikju að bráð og orðið nánast óveiðanleg fyrir kóði.

Á þessum árstíma, þegar mörg vötn eru undir ís hefur mér oft orðið hugsað til þess hve auðvelt það væri að grisja þau núna. Grisjun að vetri hefur marga kosti umfram grisjun að sumri. Oftar gefst meiri tími frá búskap að vetri heldur en að sumri, auk þess sem kostnaður við grisjun undir ís er lítill þar sem ekki þarf bát og tengdan útbúnað til að leggja net.

Hvað leynist undir ísnum?
Hvað leynist undir ísnum?

En hvað á svo að gera við aflann? Ég veit það fyrir víst að margur bóndinn hefur nýtt silung og annan fisk sem fóðurbæti með lélegum heyjum í gegnum árin. Eins hefur fiskur verið nýttur í minka- og refarækt með ágætum. Stærri fisk sem fellur til við grisjun má síðan örugglega nýta til manneldis og kemur þá kuldinn að vetrum í góðar þarfir ef geyma þarf fisk fyrir lengri flutninga. Það er svo ótalmargt sem mæli með grisjun undir ís. Síðast en ekki síst gætu síðan veiðimenn lagt sitt að mörkum á sumrin, tekið vötnin í fóstur, annast þau og viðhaldið fiskistofninum með hóflegri veiði.

Fuglalíf

Ég hef áður sagt frá aðdáun minni á himbrimanum, þessum fisknasta fugli okkar. Í sumar sem leið hitti ég fyrir mann sem var hreint ekki á sama máli og ég. Himbriminn er eins og hvalurinn, étur og étur frá okkur fiskinn sagði hann eða eitthvað á þá leið. Síðan nefndi hann tölu yfir þau kíló sem einn himbrimi getur látið ofan í sig af silungi á einum degi, margfaldaði það svo með 365 og fékk út svimandi fjölda kílóa sem einn himmi getur látið ofan í sig. Því miður man ég ekki þessar tölur, en ég viðurkenni að mér brá við þær.

Himbrimi
Himbrimi

Þrátt fyrir þetta er ég ennþá mikill aðdáandi himbrimans og raunar allra annarra fugla sem veiða í vötnum landsins. Mér hefur alltaf þótt það góðs viti að fugl sé á vatni, helst í æti og nái hverjum fiskinum á fætur öðrum. Það kemur oft og iðulega fyrir að ég er ekki að veiða þar sem fiskurinn heldur sig og þá er ekki mikið annað að gera en skima í kringum sig á meðan flugan er dregin inn á milli kasta. Kemur þá fyrir að maður rekur augun í fugl; kríu, máf, himbrima eða lóm. Fylgist maður með atferli fuglsins, má gjarnan sjá hvar hann sækir æti og þá kemur auðvitað til greina að færa sig um set og nálgast staðinn sem fugli veiðir á eða setja sig niður í gönguleið fisksins sjái maður fuglinn færa sig eftir ákveðnu mistri eða slóð. Sé hann aftur á móti bara að lóna fram og til baka án þess að vera nokkru sinni með fiski í goggi, þá er hann væntanlega í sömu ördeyðunni og maður sjálfur. Svona getur fuglinn gefið manni vísbendingar eða verið manni huggun í gæftaleysinu.

Meira að segja litlu vaðfuglarnir geta hjálpað okkur að velja rétta flugu. Skyggnist maður eftir þeim við vatnsbakkann er eins víst að maður geti skoðað hvað þeir eru kroppa upp undan steinum, í gróðrinum eða bara í flæðarmálinu. Þá er lag að skipta um flugu, það sem er við bakkann er oft einnig á sveimi úti í vatninu, meira að segja skemur frá bakkanum en okkur grunar.

Bleikja á rápi

Á ferðum mínum síðasta sumar vestur í Hraunsfjörðinn á Snæfellsnesi, vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar sem hafa ekki látið mig í friði það sem af er vetrar. Janúar er ágætur mánuður til að eyða í svona grúsk og því leitaði ég mér nokkurra upplýsinga, greina og rannsóknarniðurstaðna til að svala forvitni minni.

Sem inngang að þessari grein er ef til vill rétt að taka það fram að þekkt eru tvenn lífsform bleikju; sú sem elur allan sinn aldur í ferskvatni (staðbundin bleikja) og svo sú sem elst upp í ferskvatni en leitar síðan til sjávar (sjóreiður). Síðar nefnda formið, þ.e. sjóreið er að finna á öllu svæðinu kringum norðurskaut jarðar, nokkuð misjafnt hve langt til suðurs og ráða sjávarstraumar þar væntanlega mestu. Nokkrar vísbendingar eru um að útbreiðslusvæði bleikjunnar hafi verið að dragast saman hin síðari ár í kjölfar aukinnar hlýnunar sjávar á norðurhveli jarðar.

Rannsóknir eru nokkuð misvísandi um aldur bleikjunnar þegar hún leggur í sína fyrstu sjógöngu. Sumar rannsóknir segja að hún sé á bilinu 2 – 6 ára, aðrar 1 – 9 ára. Rannsóknum ber þó saman um að bleikjan fer ekkert sérstaklega langt frá ferskvatnsbóli sínu og í einhverjum tilfellum getur hún verið á töluverðu rápi á milli ferskvatns og sjávar yfir sumartímann, ræður þar mestu seltustig vatnsins. Þar sem því háttar þannig til að sjór gengur inn í ós og blandast ferskvatni er ekki óalgengt að sjóreiður fylgi sjávarföllum.

Þar sem sjóreiður finnst er ætíð staðbundin stofn bleikju sem aldrei gengur til sjávar og parast þessir stofnar óhindrað. Afkvæmi þessarar pörunar geta tekið upp hegðun hvort heldur sjóreiðar eða staðbundinnar bleikju og ekki víst hvað ræður mismunandi atferli einstaklinganna.

Fyrir veiðimenn er væntanlega áhugaverðast að vita að svo langt sem seltu gætir í ós eða lóni er von á sjóreið þegar fellur að, rétt eins og ég hef orðið vitni að í Hraunsfirðinum. Því innar í fjörðinn sem dró var meiri von á staðbundum fiski þótt sjóreiður gæfi sig töluvert inneftir firðinum.

Úr Hraunsfirði
Úr Hraunsfirði