Lækur hjalar ……

Þegar kemur að litlu ánum okkar, sem í hreinskilni sagt eru nú oft ekkert annað en lækir, þá eru nokkur atriði sem rétt er að hafa í huga. Ég ætla mér ekkert að fara í einhverja upptalningu á öllum þeim atriðum sem nefnd hafa verið í gegnum tíðina, bara rétt aðeins að tæpa á því sem ég upplifði sjálfur síðasta sumar.

Það er eins gott að gæta þess að vera ekki mikið á trampinu á bakkanum. Það er ótrúlegt hvað titringurinn undan fótum okkar getur borist í lítilli á eða læk. Eins eru skuggar okkar og stangarinnar beinlínis eins og viðvörunarflögg í augum fisksins.

Einhvers staðar las ég að maður verður að taka sig niður um nokkrar stærðir og atferli þegar maður á við fisk í litlum læk. Sjálfur hef ég svo sannanlega reynt þetta á eigin skinni. Bölvaður gassagangurinn fældi margan góðan silunginn undan mér í sumar sem leið. Hefði maður nú aðeins getað slakað á og látið aðeins minna fyrir manni fara, þá er aldrei að vita nema fleiri fiskar hefðu legið í háfi en raunin varð á.

Það sama, þ.e. að við verðum að skera niður um nokkrar stærðir á einnig við um græjurnar okkar. Það er nú svo að flestar flugustangir á markaðnum í dag eru framleiddar með það fyrir augum að ná lengra og hraðar. Hvorugt þessa skiptir máli í litlum lækjum. Þá þurfum við á einhverju að halda sem er mjúkt og létt. Að veiða með hraðri stöng í litlum læk, t.d. Hólmsá í Heiðmörk er eins og að skjóta mýflugu með fallbyssu. Trúðu mér, ég lét glepjast í roki og tók #7 með mér í sumar sem leið og ég gerði ekkert annað en kasta of langt og of þungt. Léttur búnaður, meiri nákvæmni og styttri köst. Og línan á hreint ekki að vera einhver dúndra með ógnarlöngum skothaus, hvað þá sökklína, ekki einu sinni hægsökkvandi. Klassísk flotlína, létt og lipur er línan sem þú átt að taka upp.

Lítill lækur kallar á lítillæti veiðimannsins. Sumir bloggarar leggja ofuráherslu á þekkingu veiðimannsins á réttu flugunum, stórkostlega kasttækni, sérhannaðar græjur en allt þetta er til lítils ef veiðimaðurinn heldur áfram að kasta, ekki bara flugu heldur einnig skugga á vatnið og vara fiskinn þannig við, langar leiðir að hann sé að koma, vopnaður öllu sem til á að taka. Vaddu eins og naut í flagi og þú veiðir ekki neitt. Laumastu og láttu lítið fyrir þér fara og þú getur meira að segja átt vona á fiski þótt þú þekkir ekki muninn á púpu og straumflugu, sért næstum með kústskaft í höndunum og kannt ekkert að kasta.

Lækur eða á?
Lækur eða á?