2015

Það er nokkuð öruggt merki um ánægjulega vertíð þegar maður verður hissa á fæð veiðiferða á árinu, aðeins 20 ferðir. Í minningunni voru þær til muna fleiri, kannski ræður það einhverju að dagar í hverri ferð voru nokkur fleiri, eða rétt um 35 talsins.

Eins og hjá flestum var vorið langt, kalt og vindasamt. Það náði eiginlega alltof langt inn í sumarið svo viðunandi væri. En undan aflabrögðum var svo sem ekkert hægt að kvarta; 172 fiskar sem gera 8,6 í ferð hjá mér. Veiðifélagi minn var með 136 fiska í 17 ferðum sem gera 8 að meðaltali í ferð. Þetta var gott sumar og við náðum, að okkur fannst, tökum á svæðum sem áður höfðu eiginlega fallið út af vinsældarlistanum. Má þar nefna Hraunsfjörðinn sem við tókum í sátt eftir nokkur mögur ár.

Smellið fyrir stærri mynd
Smellið fyrir stærri mynd

Annars var árið viðburðaríkt í meira lagi. Í febrúar efndi vefurinn til viðburðar á Facebook sem fékk nafnið Febrúarflugur. Það er víst óhætt að segja að þátttakan hafi farið fram úr vonum; 225 flugur frá 26 hnýturum og margfalt fleiri fylgdust með. Fljótlega var afráðið að leikurinn yrði endurtekin að ári og skráning fyrir 2016 er þegar hafin hérna.

Langþráður dagur rann síðan upp þann 24. júní þegar ég fagnaði útkomu bókarinnar Vatnaveiði –árið um kring. Heldur seint að því mörgum þótti, en þar kemur á móti að efni bókarinnar er ekki stimplað með síðasta neysludegi eins og mjólkin okkar og hún eldist vel um ókomna mánuði, hér er engin dægurfluga á ferðinni. Viðtökur bókarinnar hafa verið með eindæmum góðar og ef að líkum lætur hefur hún verið undir nokkrum jólatrjám þessi jól.

Síðasta skrefið í endurhönnun vefsins var stigið nú í desember með nokkrum breytingum sem auðvelda notkun hans á farsímum og spjaldtölvum. Aðsóknin jókst enn og aftur á milli ára, tæplega 100.000 heimsóknir 2015 á móti 85.000 árið 2014. Á vefinn bættust tæplega 140 greinar og fréttir og nú þegar er efni tilbúið fyrir fyrstu 3 mánuði næsta árs. Það er ekkert lát á ástríðu höfundar á stangveiði og tengdum málefnum. Sífellt fleiri gestir nýta sér tilkynningar um nýtt efni á tölvupósti og fylgjendum FOS á Facebook vex einnig fiskum um hrygg og nú nýverið settum við á fót spjallvef á Facebook þar sem hægt er að leggja fram fyrirspurnir um veiði og veiðitengd málefni sem meðlimir geta þá veitt svör við eftir bestu vitund og þekkingu.

Öllum fylgjendum vefsins, aðilum að spjallsvæðinu og lesendum Vatnaveiði –árið um kring sendi ég mínar bestu þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða með von um óteljandi fiska á nýju ári.

Ómælanleg streitulosun

Annað slagið reynir maður sig í veiði þar sem klukkan er á manni; veiði hefst á ákveðnum tíma, jafnvel gerð krafa um hlé á ákveðnu tímabili og svo verður maður að vera hættur ekki seinna en eitthvað ákveðið. Eftir að hafa leikið nokkuð lausum hala í veiði um árabil, veitt þegar mér sýnist og eins lengi og nennan er til, þá getur það beinlínis tekið á taugina hjá mér að fylgja klukkunni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að taka sífellt upp klukkuna, sem í mínu tilfelli er farsíminn, og þá er stór partur af ánægjunni farinn. Ég beinlínis finn að rósemdin sem veiðin færir mér að öllu jöfnu er rokinn út í buskann og ég er allur svolítið á nálum. Á þeim veiðistöðum þar sem tiltölulega margt er um manninn eða vatn er nærri byggð, þar get ég alveg skilið að ákveðin tímamörk eru sett í veiði og ég fer fúslega eftir þeim, þannig að það sé á hreinu. En þar sem maður er jafnvel einn með sjálfum sér, órafjarri öllu nema náttúrunni sjálfri, þar vil ég getað farið á fætur í rólegheitunum, sötrað morgunkaffið mitt í friði og veitt síðan inn í nóttina eins og mér sýnist.

fos_hraunsfjordur
Ekkert stress

Ég las fyrir nokkru ágæta umfjöllun í The Huffington Post um áhrif stangveiði á andlega vellíðan. Þetta var hin ágætasta grein, en hún gerði svo sem ekkert annað en setja í orð það sem ég upplifi á sjálfum mér í veiðinni. Í nútíma þjóðfélagi þar sem ríflega 80% landsmanna telja sig finna fyrir streitu eða afleiðingum hennar, þá er útivera í óspilltri náttúru, einn með sjálfum sér eða sínum nánustu, trúlega áhrifaríkasta leiðin til streitulosunar sem býðst í dag.

Það verður seint hægt að setja raunhæfan verðmiða á þann auð sem við eigum í óspilltri náttúrunni þótt einhverjir telji sig geta sett verðmiða á náttúruna þegar búið er að gelda árnar, stífla vötnin og umbreyta þeim í uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu. Mesti auður náttúrunnar verður einfaldlega aldrei virkjaður með vélum og tækjum, hann er aðeins virkjanlegur með mannsandanum.

Að detta úr sambandi

Síðustu tvö sumur hef ég veitt í Veiðivötnum og notið þess ómælt, bæði hvað varðar náttúru og félagsskap annarra veiðimanna í hollinu. Í bæði þessi skipti hef ég verið svo lánsamur að veður og veiði hefur leikið við mig og trúlega mundi það engu breyta fyrir mig þótt annað er bæði brygðust.

Síðastliðinn vetur hitti ég eldri veiðimann, hokinn af reynslu sem innti mig eftir upplifun minni af Vötnunum. Umsvifalaust hóf ég hástemmda lýsingu á náttúrunni, fjölbreytileikanum, mannlífinu og …. bara öllu sem ég hafði innbirgt á staðnum. Í miðri ræðunni tók ég eftir gráma og leiða sem færðist yfir ásjónu þessa reynda veiðimanns þannig að ég gleypti mína síðustu setningu, lækkaði róminn og ég laumaði út úr mér; En hvað með þig? Svarið kom mér svolítið á óvart og ég þurfti svolítinn tíma til að melta það; Ég hef nú ekkert farið síðan gemsarnir fóru að virka þarna uppfrá.

No signal
No signal

Fyrir yngri veiðimenn sem ekki þekkja neitt annað en að GSM símar virki nánast alls staðar á landinu, þá skal það upplýst að það eru ekki svo mörg ár síðan að GSM sambandi var komið á í Veiðivötnum. Fyrir þann tíma virkuðu aðeins NMT símar á svæðinu og þar á undan bara talstöðvar.

Auðvitað er gott að geta haft samband við umheiminn þegar upp á fjöll eða hálendi er komið, þó ekki væri nema vegna öryggisins sem fylgir því að geta gólað á hjálp ef eitthvað ber útaf. Sjálfur nýt ég þess út í ystu æsar að geta dottið úr sambandi við alla tækni (segi ég með GPS tæki, digital mynda- og vídeóvélar). Mér finnst það oft beinlínis óviðeigandi þegar ég er búinn að koma mér fyrir við eitthvert fjallavatn þegar skyndilega upphefst skerandi Nokia hringing handan næsta hóls og svo; Halló …. nei, ég er í Veiðivötnum …. Hva, sástu ekki myndina af mér á Facebook í gær ….

Við erum nefnilega ennþá til sem njótum þess að komast í samband við náttúruna og til þess þarf maður stundum að geta dottið úr sambandi við nútímann, í það minnsta geta stjórnað því hvenær nútíminn hringir. Þess vegna slekk ég iðulega á símanum mínum eða skil hann eftir í veiðihúsinu eða bílnum. Það er svo margfalt skemmtilegra að njóta náttúrunnar, ótruflaður.

Dónar

Það lá við að ég hoppaði hæð mína þegar ég renndi í fljótheitum yfir fréttir liðinnar viku. Loksins er að komast á skrið vitundarvakning um að banna dóna á veiðistöðum. Nú síðast var það Landssamband veiðifélaga sem vakti máls á þessu vandamáli. Veiðidónar eru til af ýmsum gerðum; Færðu þig, þetta er minn staður – Æ, það kemur einhver og tekur upp ruslið eftir mig, mamma? – Er ekki pláss fyrir einn enn á milli ykkar hjóna? og svo má lengi telja.

Að vísu rann fljótlega upp fyrir mér að mér hafði yfirsést einn bókstafur í fyrirsögninni, þetta voru víst drónar sem menn vildu banna. Jæja, það er alveg eins hægt að hella úr skálum reynslu sinnar af drónum eins og dónum. Eins skemmtileg og tæknin er, þá get ég alveg tekið undir með LV að drónar eiga lítið erindi á veiðistaði, nema þá veiðimenn og flugstjórar séu í þægilegri fjarlægð frá öðrum og valdi ekki ónæði með suði og lágflugi yfir hausum annarra.

Ég er annars lítið fyrir að setja boð og bönn um hitt og þetta sem í raun á að vera innifalið í almennri skynsemi og kurteisi. Það að raska kyrrð og ró næsta veiðimanns með óþarfa látum og nærgengi (nærgöngull, ganga nærri næsta manni) er einfaldlega eitthvað sem á ekki að þurfa að binda í lög og reglur. Mér er reyndar skapi nær að biðja menn um að horfa til himins á björtum degi á Þingvöllum eða inni á hálendi og leiða þá hugann að því hvort ekki sé rétt að setja einhverjar reglur um flug trukka yfir veiðistað, sjá grein mína frá í febrúar á þessu ári.

En vitaskuld verður eitthvað að gera, því á meðal okkar veiðimanna finnast ekki aðeins dónar og drónar, heldur einnig flón sem láta alltaf eins og þeir séu einir í heiminum. Það verður víst seint hægt að setja reglur sem banna þess háttar veiðimenn, við verðum víst bara að bíða eftir því að þeir þroski með sér smá kurteisi.

fos_flon

Það sem gefur þessu gildi

Það getur verið tvíeggjað að gefa ráð um stangveiði, staði eða aðferðir. Stundum er eins víst að engin ráð dugi þegar veiðigyðjan er ekki í stuði, veðurguðirnir leika einleik á rok og rigningu eða veiðimaðurinn fer ótroðnar slóðir og lendir utan veiðisvæðis. Þá getur ráðgjafinn lent á milli og verið kennt um ófarirnar.

Almennt eru veiðimenn hinir ljúfustu og tilbúnir að gefa góð ráð, jafnvel í tíma og ótíma, umbeðnir eða ekki. Fyrir utan þær óumbeðnu reynslusögur sem ég hef sett niður á þennan vef, þá kemur það annað slagið fyrir að mér berast sérstakar fyrirspurnir um góða veiðistaði. Þó ég sé ekkert sérstaklega hörundsár, þá svarar maður yfirleitt nægjanlega loðið og með nokkrum fyrirvörum þannig að ef illa fer verði manni ekki kennt um gæftaleysið.

Um daginn fékk ég beiðni um upplýsingar að barnvænu svæði, helst með fiski, fyrir tvo fisklausa unga veiðimenn með brennandi áhuga. Ég setti nokkra staði og aðferðir niður á blað og svaraði pabbanum og lagðist síðan á bæn, vonandi kæmi þetta að einhverju gagni. Og viti menn, nokkrum dögum síðar barst mér kveðja frá veiðimönnunum ungu; Meðalfellsvatnið klikkaði ekki.

Bræðurnir Daníel Hilmar (4 ára) og Ísak Heiðar (verður 6 ára á morgun)
Bræðurnir Daníel Hilmar (4 ára) og Ísak Heiðar (verður 6 ára á morgun)

Þessir bræður eiga örugglega eftir að koma fyrir á fleiri veiðimyndum í framtíðinni, flottir og þokkalega hamingjusamir með aflann úr Meðalfellsvatni. Það er ljóst hvað pabbi þeirra, Hilmar Hilmarsson kemur til með hafa fyrir stafni í sumar, hér hefur veiðibakterían komið sér hressilega fyrir. Ef eitthvað gefur ráðgjöf gildi, þá eru það þessi augnablik. Til hamingju strákar, vel gert.

Partar

Fyrstu flugustangirnar voru óttaleg prik, beinlínis. Þetta voru heppilegar pílviðargreinar með áfestum silkiþræði og öngli. Bráðinni var einfaldlega vippað upp á bakkann ef hún á annað borð festist á önglinum. Einfaldari gat stöngin ekki orðið. Löngu síðar, einhvern tímann á 17.öld fóru menn að smíða stangir úr reyr og bambus og þá fóru samsettar stangir að koma fram. Til að byrja með voru þær í tveimur pörtum, síðar þremur. Það var svo ekki fyrr en í upphafi 20.aldar að fíberstangir komu fram í dagsljósið. Samsetningar bambusstanganna höfðu eiginlega alltaf verið til vandræða, þær vildu losna í sundur þegar minnst varði og svo höfðu stífar samsetningarnar óæskileg áhrif á virkni þeirra. Þess vegna leituðu menn aftur í að fækka samsetningum niður í eina með tilkomu fíber. Síðar jókst krafan að stangirnar væru ekki hálfur annar metri að lengd, ósamsettar, þannig að pörtunum fjölgaði aftur.

Sjálfur á ég eitt svona fíber prik, fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diplomat. Slíkar stangir eru raunar enn framleiddar í tveimur pörtum, að vísu úr grafít í dag og ég hef heyrt að byrjendum sé sérstaklega bent á að byrja með stöng sem sé með sem fæstum samsetningum. Það var þá kannski einhver glóra í þessari stöng.

fos_historydame

Í dag er algengast að venjulegar einhendur séu í fjórum pörtum. Sumir framleiðendur eru enn að spreyta sig á að bjóða efsta partinn í tveimur mismunandi stífleikum eða eins og einn auglýsti um árið; Stöng fyrir stóra og litla fiska. Ókostur slíkra stanga er helstur að stífleiki næst efsta parts er aldrei annað en millilending fyrir mjúkan eða stífan topp. Stöngin vinnur því ekki eðlilega niður á annan fjórðung miðað við valið toppstykki. Annað hvort er parturinn of mjúkur eða of stífur fyrir toppinn og því njóta þessar stangir ekki neitt gríðarlegrar hylli, en sumir komast upp á lagið með þessar stangir og dásama þær í hástert.

Það færist í aukana að veiðimenn leggi land undir fót, rölta af stað þaðan sem nokkuð venjulegur fjölskyldubíllinn kemst og stefna eitthvert út í buskann. Mörgum finnst þá sem 9 feta silungastöng í 4 pörtum sé aðeins of löng og fyrirferðamikil dinglandi á bakpokanum. Koma þá til sögunnar stangir í 7 – 10 pörtum úr hágæða grafít þar sem mikil vinna og natni hefur verið lögð í samsetningarnar þannig að þær hafi sem minnst áhrif á virkni stangarinnar. Framleiðendur keppast við að bjóða sem flesta partana og sumum þeirra tekst ágætlega upp að láta þessar stangir hanga saman og þær eru til sem ekki virka bara eins og 2000 ára gömul pílviðargrein. Sem dæmi um nokkra framleiðendur sem hafa náð lagt í hönnun ferðastanga má nefna; Flextec, Airflo og Shakespeare. Allt merki sem fáanleg eru hér heima á viðráðanlegu verði. Ef einhver vill síðan kaupa flaggskipið í ferðastöngum, 9 feta listasmíð í 10 pörtum, þá er hægt að fjárfesta í March Brown Executive fyrir einhverjar 140 þ.kr. Góða ferð út í buskann í sumar.

Múrar

Á tímum síðari landaflutninga hefur fólk flust frá einu landi til annars í leit að betra lífi, öruggari framfærslu og þá ekki síst með framtíð afkomenda sinna í huga. Þetta þekkja Íslendingar frá árinu 2008 og allt til dagsins í dag. Það er einkennandi við landaflutninga hina síðari, að þeir eiga sér flestir stað í kjölfar náttúruhamfara, styrjalda eða annars mannlegs klúðurs. Það er fátt sem aftrar því að stórir hópar fólks flytji búferlum, nema þá vegabréfaeftirlit, girðingar eða múrar sem reistir hafa verið til að halda fólki inni á ákveðnum svæðum, eða hvað?

Hvers vegna örfáum mönnum þótti áríðandi að flytja hundruð þúsunda einstaklinga frá Evrópu yfir til Ameríku árið 1880 er ekki fyllilega ljóst. Talað var um að auka fjölbreytileika tegundanna, rétt eins og náttúran gæti ekki séð um það sjálf. Nokkrir vöruðu sterklega við þessum flutningi, hann gæti stefnt framtíð innfæddra í hættu. Fram að þessum tíma hafði náttúran óáreitt séð um að vernda innfædda fyrir ásókn þeirra erlendu, það var og gild ástæða til. Þannig fór auðvitað að þetta óþarfa káf með stofn evrópsks urriða (Brown Trout) yfir til Ameríku varð til þess að innfæddir (Brook Trout) létu undan síga og við lá að þeir þurrkuðust út. Það hefur kostað ótrúlegar fjárhæðir og vinnu að viðhalda þeim litla stofni Brook Trout í Norður-Ameríku sem eftir er. Þá er ótalin sá skaði sem orðið hefur í Suður-Ameríku þar sem urriðanum hefur verið komið fyrir á ótrúlega víðfernu landsvæði.

En viti menn, aðeins fjórum árum eftir að evrópski urriðinn var fluttur til Austurstrandar Ameríku, var Kyrrahafsurriðinn (Rainbow Trout) fluttur yfir til Bretlands. Þar hitt Skrattinn ömmu sína í öðru veldi og á Regnbogasilungurinnan við einu ári höfðu tugir þúsunda sloppið úr eldisbúrum út í nálægar ár. Þar með var framtíð Brown Trout á Bretlandseyjum stefnt í hættu sem jókst síðar enn frekar með tilkomu iðnbyltingarinnar og meðfylgjandi mengun. Í dag kemur ekki nokkrum heilvita manni til hugar að drepa Brown Trout í ám og lækjum Bretlands á meðan víða eru viðurlög gegn því að sleppa regnbogasilungi. Endurheimt fiskfarvega, hreinsun áa og lækja á Bretlandi hefur kostað ómælda vinnu og fjármuni. Því miður er svo komið að þarlendir aðilar hafa orðið að sætta sig við að regnbogasilungurinn er kominn til að vera í lífríkinu, öðrum stofnum til sífelldrar hættu.

Ég er ekki að gera því skóna að regnbogasilungur sem fluttur hefur verið til Íslands eigi eftir að verða hluti af íslenskri náttúru, til þess skortir mig framsýni og þekkingu á óorðnum breytingum á veðurfari. Okkar helsta von, að því mér skilst, er að klak regnbogasilungs á sér stað á þeim tíma sem síst er lífvænlegur fyrir hann hér á landi. Ef veðrátta breytist til einhverra muna hér næstu árin eða tugina, þá gæti málið horft öðruvísi við. Rétt eins og mannskepnan, þá leitar fiskurinn út í frelsið því mannanna verk, girðingar og múrar, mega sín lítils þegar náttúran er annars vegar. Nýleg dæmi um eldisfisk sem fundist hefur í ám Norðanlands eru áhyggjuefni, sama hvernig á það er litið.

Að sama skapi eru áform um stóriðju í laxaeldi meira en áhyggjuefni fyrir þá sem unna íslenskri náttúru og dýralífi. Sá ótrúlegi massi af úrgangi sem fellur til við laxeldi í sjó getur ekkert annað en stefnt nálægri náttúru í voða, hvort heldur náttúrulegum laxastofni, silungi eða botndýrum þröngra fjarða. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar eldis- og verkfræðinga um öryggi sjókvía er ekkert sem getur komið í veg fyrir slys, stór eða lítil, samfara þessum fyrirætlunum. Bara það að setja slíkar kvíar niður við strendur landsins er slys eitt og sér. Allt káf okkar mannanna með landaflutninga náttúrulegra fiskistofna hefur endað með hörmungum, jafnvel óafturkræfum breytingum á lífríkinu sem við skilum af okkur til komandi kynslóða. Múrar halda aldrei.

Er þessi óhultur í sinni á?
Er þessi óhultur í sinni á?

Aukinn áhugi

Mér skilst að áhugi á fluguveiði sé sífellt að aukast, sem er vel. Ég verð einna helst var við aukinn áhuga hjá vinum og kunningjum sem í ríkara mæli spyrjast fyrir um flækjustig fluguveiðinnar af hreinum áhuga í stað ‚small talk‘ spurninga yfir kaffibolla. Þær eru ýmsar spurningarnar sem maður fær um fluguveiði, en sú vinsælasta er örugglega; Er maður ekki rosalega lengi að læra þessi köst? Þá getur manni vafist tunga um tönn. Ef ég nú svara; Nei, nei, þetta er ekkert mál þá getur málið nú vandast þegar viðkomandi sér mig handleika stöngina. Nú, ertu ekki betri kastari en þetta? Sagðir þú ekki að þetta væri ekkert mál? Ef ég aftur á móti svaraði spurningunni; Jú, þetta er töluverð kúnst og útheimtir heilmikla æfingu, þá er eins víst að viðkomandi segi þetta bara gott og haldi sig bara við flot og maðk.

Svo eru þeir sem spyrja í lotningu (af því þeir hafa lesið of margar rómantískar veiðifrásagnir) hvort fluguveiði sé ekki æðst allra aðferða. Það er alveg sama hve oft ég leita að góðu svari við þessari spurningu, mér kemur aldrei neitt gáfulegt í hug. Að mínu viti er engin ein aðferð annarri æðri svo lengi sem veiðimaður sýnir bráðinni þokkalega virðingu. Þrátt fyrir allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fiskum og náttúru þá eru engar rannsóknir til sem segja okkur hvað telst virðing fyrir bráðinni. Viðmið virðingar verður hver og einn veiðimaður að finna hjá sjálfum sér; vill hann taka allan fisk sem gefst, veiða og sleppa eða bara vera á staðnum til að njóta náttúrunnar og þess sem hún gefur?

Þeir nýliðar sem slást í hóp veiðimanna í dag eru eflaust betur að sér í náttúrufræði heldur en margur eldri veiðimaðurinn og því er það tilhlökkunarefni að fá hugsandi unga veiðimenn í hópinn. Okkur veitir ekki af aukinni virðingu og bættri umgengni við náttúruna, bæði sem einstaklingar og sem hópur sem lætur sig framtíð villtra fiskistofna varða. Hver veit hvað verður þegar þessir ungu menn setjast á Alþingi, verður þá mögulega aldrei aftur rifist um virkjanir á veiðislóðum, þær verða einfaldlega ekki einu sinni til umræðu.

Veiðivötn - Litlisjór
Veiðivötn – Litlisjór

Varasalvi og PAM

Það er ekki margt sem bendir til þess þessa dagana að vorið sér á næsta leiti. Þegar þetta er ritað er töluvert frost í kortunum, að vísu þokkalega stillt veður og bjart yfir en eins gott að vera vel klæddur úti við.

Veðrið í dag
Veðrið í dag

fos_varasalviÞað hvarflaði að mér þar sem ég sat við fluguhnýtingar í morgun að það væri kannski eins gott að ég væri ekki á leið í veiði, eins kuldalegt og veðrið er. Og eitt leiddi af öðru og ég fór að rifja upp nokkur atriði gegn ísingu í stangarlykkjum. Eitt af því sem ég heyrði af var að rjóða varasalva í lykkjurnar, ekkert of miklu en nóg til þess að vatnið af línunni nái ekki að festa sig í lykkjunni og frjósa.

Ég geri mér í hugarlund að best sé að nota lyktar- og bragðlausan varasalva þannig að fiskurinn hrökkvi ekki undan einhverju mjög ókunnugu sem smellt er út í vatnið. Gloss með jarðaberjabragði gerir örugglega ekki sama gagn, bara þannig að það sé á hreinu.

fos_pamAnnað sem ég heyrði af var að úða bökunarúða á lykkjurnar áður en farið er til veiða. Væntanlega er alveg eins gott að bóna vel í lykkjurnar, en það fyrsta sem mér varð hugsað til er að fyrst maður getur nánast étið hvoru tveggja, varasalvann og bökunarúðann, þá hlýtur þetta að vera þokkalega öruggt gagnvart flugulínunni og fiskinum.

Það er kannski vert að prófa þetta í fyrstu veiðiferðum ársins, mögulega í birtinginn í fyrstu viku apríl ef þannig ber undir og ekki tekið að hlýna verulega.

Af ljósi í vötnum

Öll þekkjum við það þegar gróðurinn á landinu fer að taka við sér á vorin og sólar tekur að njóta. Við njótum þessa einnig, annað hvort beint undir sólu eða með því að sjá gróðurinn grænka í kringum okkur. Það léttist á okkur brúnin.

En það er fleira sem nýtur sólar en augað sér. Vötnin okkar stunda s.k. varmanám, þ.e. ljóseindir úr sólarljósinu skella á rafeindum vatnssameindanna sem mynda vatnið og þær drekka í sig orkuna ljóssins, vatnið hitnar. Hlutfallslega er mest varmanám vatnsins í efsta metranum við yfirborðið. Þar nýtist u.þ.b. 50% sólarljóssins til upphitunar. Því dýpra sem leitað er niður í vatnið, því hægara verður varmanámið. Veiðimenn þekkja þennan efsta metra vatnanna sem annað gjöfulasta veiðisvæði þeirra. Hitt svæðið er botninn, e.t.v. gjöfulli vegna þess að þar tekur botngróðurinn til sín sólarljósið og bindur í lífrænni orku sem fóstrar síðan æti fyrir fiskinn. Við getum séð hvar varmanám er í góðum gír. Vatnið virðist blátt, því blárra því heilbrigðara.

Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á þetta varmanám og þar á meðal er skortur á sólarljósi. Það segir sig sjálft að þegar lítillar sólar nýtur við þá hlýna vötnin okkar ekki eins mikið fyrir vikið. Áhrif þessa ættu að vera augljós, vatnið er kaldara, plöntur og þörungar ná ekki að beisla sólarljósið og þar með verður heldur fátt um fína drætti í gróðri, skordýrum, fiskum og á endanum hjá veiðimanninum.

Það sem getur einnig orsakað lélegt varmanám er aur og ólífrænar agnir í vatninu sem ná að tvístra sýnilega ljósinu frá sólinni áður en rafeindir vatnssameindanna ná að beisla orkuna. Endurkast þessara vatna verður því oft gráleitt eða mjólkurlitað og er þannig vísbending til okkar um lélega framleiðni. Árstíðabundnar sveiflur í framburði til stöðuvatna er oft á tíðum af hinu góða. Framburður ber með sér næringu sem kemur lífríkinu til góða, en þegar framburður er viðvarandi, allt árið um kring, þá er úti um lífríkið.

Þekkt dæmi um ‚litað‘ vatn er t.d. Lagarfljót. Það hefur alltaf verið frekar skolað að sjá en samt tekið nokkrum breytingum eftir árstíðum. Þessar smávægilegu sveiflur dugðu hér áður fyrr til þessa að varmanám átti sér stað stóran hluta ársins og þannig viðhélst lífríkið. Nú er svo komið að vatnið er ekki lengur ‚litað‘ heldur hefur það tekið massífan lit af sífelldum framburði, sveiflurnar eru horfnar og lífríkið er á öru undanhaldi. Í þessu tilfelli getum við aðeins sjálfum okkur um kennt.

Það er mál manna að við Eyjafjallagosið 2010 hafi vötn á afréttum Suðurlands orðið fyrir áföllum vegna gosefna sem í þau barst. Hvort skammtímaáhrif þessa hafi orðið til þess að vatnshiti hafi lækkað þekki ég ekki, en reikna má með að langtímaáhrifin geti orðið nokkur. Það tekur alltaf einhvern tíma fyrir ösku að veðrast og verða að salla og það er einmitt þessi fíngerði salli sem á eftir að berast í vötnin okkar og hamla varmanámi þeirra á næstu árum. Við þessu getum við lítið gert, náttúran hefur sinn gang í þessu eins og svo mörgu öðru. E.t.v. verða aðrir umhverfisþættir til þess að draga úr skaðanum, ef hann verður þá nokkur.

Vantar sól?
Vantar sól?

Kælibox

Undantekningarlítið tek ég gamla góða kæliboxið með mér í veiðina, þetta einfalda fyrir kælikubbana. Það kemur sér ágætlega að geta sett vöðluskóna í boxið þegar lagt er af stað í stað þess að hafa þá lausa í skottinu. Það virðist vera alveg sama hvað maður lemur úr filtsólanum, það er alltaf einhver sandur eftir sem virðist sækja í teppið í skottinu. Þegar svo útivistinni er lokið ræðst það af efnum og aðstæðum hvað fer í boxið fyrir heimferðina. Ef lukkan er með í för fer fiskurinn í boxið, annars fara blautu vöðluskórnir einir og sér í boxið, þá losna ég við bleytuna í teppið því sjaldnast gefst tími til að þurrka skóna áður en haldið er heim á leið. Blönduð leið er auðvitað líka til í dæminu; skórnir og kannski nokkrir silunga, vafðir þétt í plastpoka eftir að gert hefur verið að þeim. Ekki er verra að vera með nokkra vel frosna gamaldags kælikubba með í för til að halda mögulegum afla í svala á leiðinni heim.

Gamla, góða kæliboxið
Gamla, góða kæliboxið

Að lokum

fos_nyarid

Flugur og skröksögur líta um öxl á þessum tímamótum. Það sem við sjáum er eitt besta vatnaveiðiár sem menn muna eftir. En það er langt því frá að það sé eitthvert viðmið, því minni manna er oft minna heldur en menn þykjast muna.

Endalausar verðhækkanir á stangveiðileyfum hafa orðið mörgum manninum að umfjöllunarefni síðustu mánuðina. Leynt og ljóst er óánægja manna með verðlagningu í öfugu hlutfalli við afla undangenginnar vertíðar, þ.e. færri fiskar í frystinum kalla á meiri óánægju með verð veiðileyfa. Það sannast enn og aftur að náttúran tekur ekkert mark á aukinni arðsemiskröfu eða gróðavon í veiðibransanum og veiði dróst mikið saman frá árinu 2013. Kallað hefur verið eftir auknum samtakamætti veiðimanna þannig að unnt sé að spyrna fótum við enn frekari hækkun veiðileyfa.

Svona hljómar umfjöllun fjölmiðla í meginatriðum fyrir árið 2014. Það er töluvert þynnra hljóðið í þessum sömu fjölmiðlum um afkomu vatnaveiðinnar og verðlagningu veiðileyfa. Langsamlega vinsælasti kostur vatnaveiðimanna, Veiðikortið hækkar ekkert á milli ára og veiði hefur almennt farið upp á við. Að vísu kemur sumarið 2013 eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í sögu síðustu ára en þannig er nú einu sinni stangveiðinn. Sé kalt á bakkanum er vatnið einnig kalt og þá heldur fiskurinn sig til hlés, jafnt í vötnum sem ám. Þrátt fyrir að sumarið 2014 hafi ekki verið sérstaklega sólríkt, þá var hlýtt og nóg af fersku vatni í vötnunum okkar, fiskum og veiðimönnum til ánægjuauka þannig að aflatölur voru með því besta sem sést hefur í langan tíma.

Það er ef til vill merki um aukið sambandsleysi veiðimanna við náttúruna að sveiflur í aflabrögðum virðst sífellt kom fleirum og fleirum á óvart. Það getur með sama hætti þótt vísbending um ákveðið sambandsleysi þegar menn þakka skammtíma aðgerðum mannanna aukinn afla. Langtímaáhrif inngripa okkar eru aftur á móti til þess eins fallin að spilla afrakstri þróunar sem hefur tekið náttúruna hundruði ára að byggja upp. Látum náttúruna í friði og lærum að njóta hennar af skynsemi og aðgát, þá þarf aldrei að koma til okkar afskipta, sem er væntanlega affærasælast fyrir allt og alla.

Af veiðiferðum mínum er það helst að frétta að fyrsti fiskur ársins var bjartur og fallegur 60 sm. birtingur úr Meðalfellsvatni á fyrsta í Veiðikorti, þ.e. 1. apríl. Ellefu dögum síðar skrapp ég í Eldvatnið og braut blað í sögu minni sem veiðimaður; braut toppinn á uppáhalds stönginni minni. Lítið var síðan að frétta af veiði framan af sumri sem ég skýri með lélegu tíðafari og ýmsum öðrum afsökunum. Reyndar slysaðist ég til að taka urriða á Þingvöllum þegar allur urriði átti að vera horfinn af bleikjuslóð og þykir mér enn miður að ég skyldi hafa truflað þann góða fisk. Ég er nefnilega haldinn þeirri firru að sleppa því að sleppa á Þingvöllum. Ef einhver stofn er í slíkri hættu að mælt sé með því að veiða og sleppa, þá kýs ég að sleppa því að veiða og einbeiti mér að öðrum fiskum eða vötnum, nóg er af urriða á öðrum slóðum sem má taka með sér heim í soðið.

Eftir þjóðlega heimsókn á Þingvelli þann 17.júní tók heldur að lifna yfir veiðinni og við tók ein skemmtilegasta ferð ársins, Veiðivötn í fyrsta skiptið. Síðar í júlí færðum við hjónin okkur suður fyrir Tungnaá og lögðum eiginlega Framvötnin í einelti það sem eftir lifði sumars. Aldrei spurning um að veiða og sleppa á þeim slóðum, bara veiða og taka, slík er ofgnótt bleikju á svæðinu.

Heildaryfirlit fyrir veiðiárið okkar hjóna má finna hér.

Árið á vefnum var eiginlega við það sama og verið hefur á umliðnum árum. Tæpar 81.000 heimsóknir á árinu og yfir 100 nýjar greinar og færslur. Af þessum heimsóknum skruppu yfir 2.500 yfir á önnur veiðiblogg og 25.000 á aðrar veiðitengdar síður. Samtals hafa tæplega 267.000 heimsóknir heiðrað síðuna frá því hún fór í loftið og stígandinn á milli ára er jafn og öruggur.

Ég framkvæmdi þá breytingu á árinu að færa Facebook færslur og tilkynningar yfir á sérstaka síðu fyrir Flugur og skröksögur en fram að þessu hef ég nýtt mína persónulegu síðu fyrir FOS. Fylgjendur nýju síðunnar eru nú þegar orðnir 175 en maður getur alltaf á sig blómum bætt og á nýju ári ætla ég að laumast til að efna til smá ‘like’ leiks til að afla nýrra fylgjenda. Meira um það síðar.

Til allra sem fylgst hafa með þessu pári mínu; kærar þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, nýja árið verður bara ennþá öflugra og alltaf jafn ókeypis á fos.is

Jólamarkaður JOAKIM’S

joakimsmarkNú er aldeilis lag fyrir veiðimenn að gera góð kaup. JOAKIM’S opnar jólamarkað að Skútuvogi 10F þann 6.des. kl.11

Fjöldi frábærra tilboða á flugustöngum, hjólum, töskum, vöðlum og hnýtingarvörum. Markaðurinn verður opinn sem hér segir:

Laugardaga frá 11:00 – 16:00

Mánudaga frá 13:00 – 20:00

Þriðjudaga til föstudaga frá 13:00 – 18:00

Allar nánari upplýsingar má finna hér og tilboðsverðin hér.

Villigötur

Það er ekki oft sem við veiðifélagarnir bregðum okkur í veiði og gistum í öðru en ferðavagninum okkar, en það kemur fyrir. Kvöld eitt í sumar, rétt í þann mund sem við vorum að taka okkur til í kvöldveiði, kom til mín nágranni á gististað, nokkuð einkennilegur á svip. Þarna var á ferðinni erlendur ferðalangur, veiðimaður í göngutúr um hálendi Íslands án stangar, nánast guðlast en förum ekki út í þá sálma.

Maðurinn virti útbúnaðinn fyrir sér og spurði kurteislega hvort við værum á leið í veiði. Ég játti því og spurði að bragði hvort hann væri veiðimaður. Jú, eitthvað fór fyrir því, hann hefði rétt ný lokið viku veiðiferð til Alaska og gert skemmtilega veiði. ‚En hvar veiðir maður hér?‘, spurði hann og skimaði í kringum sig. Ég átti örlítið erfitt með að finna viðeigandi svar, hefði helst viljað leiðrétta spurninguna og snúa henni við ‚Hvar veiðir maður ekki hér?‘ en ég lét það vera. Þess í stað svaraði ég því til að við hefðum hugsað okkur að skjótast þarna rétt yfir ásinn og renna fyrir urriða í gíg-vatninu sem væri þar undir fjallinu.

Það var víst í ævintýri H.C. Andersen, Eldfærunum, að hundurinn var með augu á stærð við undirskálar og það var u.þ.b. stærðin á augum ferðalangsins þegar ég lét þetta út úr mér. ‚Er fiskur í þessum vötnum sem ég er búinn að labba framhjá?‘, spurði hann loks, fullur vantrúar. Það var beinlínis sárt að horfa á mann greyið þegar ég svaraði honum því til að hér væri fiskur í nánast öllum vötnum og víða allt of mikið af honum, ‘Ertu ekki með veiðistöng með þér?‘ ‚Nei, ég athugaði með veiðileyfi áður en ég kom, en hætti alveg við þegar ég sá verðlagið‘, svaraði hann og leit heldur niðurlútur á gönguskóna sína. Mér datt helst í hug að hann væri að verðleggja þá og væri til í að láta þá upp í veiðistöng á staðnum.

Vatn við enda regnbogans?
Við enda regnbogans

Þessi stuttu kynni mín af þessum veiðimanni á villigötum og spjalli okkar næsta morgun færðu mér heim óþægilega staðreynd sem mig hafði samt grunað í nokkurn tíma. Orðspor íslenskrar veiðimenningar erlendis snýst um hátt verðlag, ekki náttúrufegurð eða almennt aðgengi að veiði á skynsamlegu verði. Það er víst eitthvað til í því að útlendingum finnist eins og við séum að selja fjársjóðinn við enda regnbogans, ekki veiðileyfi. Hér eru einhverjir svo sannanlega á villigötum.

Wax on….

Á sínum tíma sagði leiðbeinandinn við litla karate strákinn; Wax on, wax off en í þetta skiptið látum við vaxið liggja. Þegar hausta tekur, er lag að huga að græjunum eftir sumarið. Haustið er að mörgu leiti miklu betri tími til að standsetja græjurnar fyrir næsta sumar heldur en að vorið því þá er sprengurinn oft svo mikill að komast í fyrstu veiðina að menn gefa sér ekki tíma til að yfirfara græjurnar eins vel og menn ættu að gera.

Eitt af því sem veiðimenn sinna e.t.v. ekki sem skildi eru samsetningar stanganna. Með tíð og tíma víkka hólkarnir þannig að vatn og óhreinindi eiga greiðari leið inn að kjarna stangarinnar heldur en æskilegt er. Auðvitað ættu allir að gæta að samsetningunum á meðan veitt er, sumir segja á hverjum hálfum tíma í veiði, aðrir láta sér nægja að þrýsta stönginni saman í hvert skipti sem skipt er um flugu eða hugað að taum.

Þegar búið er að yfirfara stöngina; lykkjur og kork, er ekki út vegi að rjóða örlitlu vaxi á samsetningarnar. Venjulegt kertavax er alveg prýðilegt til þessara nota og það þarf alls ekki mikið, oft er minna betra. Vaxið þjónar tvíþættum tilgangi. Fyrir það fyrsta þéttir það samsetningu og svo kemur það í veg fyrir að stöngin ‚grói‘ saman eins og stundum vill gerast, vax á samsetningu hindrar þennan samgróning.

Flugustöng
Flugustöng

Neisti að veiði

Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

Frá Öxará
Frá Öxará

Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service

Geðsleg veiði

Hversu öflug tenging ætli sé að milli veiðimanns og fisks? Auðvitað vill veiðimaðurinn að það sé nokkuð örugg tenging, helst lína, taumur og fluga sem er vel föst í fiskinum. En, getur verið að það sé einhver önnur tenging til staðar sem veiðimenn gera sér endilega ekki alltaf grein fyrir? Eitthvað sem fiskurinn skynjar en við ekki.

Ég er væntanlega ekki sá eini sem hef orðið fyrir því að vera eitthvað illa stemmdur þegar ég er komin í veiðina. Stundum er vinnan eitthvað að naga mann eftir daginn eða það örlar á einhverjum pirringi út af einu eða öðru þegar komið er að vatninu. Þegar best lætur undir þessum kringumstæðum þá fjarar vinnan og pirringurinn út eftir nokkur köst og maður slakar á og fer að njóta þess að bara vera og hlutirnir fara að ganga upp. En stundum nær maður bara alls ekki að losa sig við vinnuna eða pirringinn og þá er eins og fiskurinn verði var við það og ekkert gengur upp. Það er alveg saman hvar maður ber niður, hvaða flugu maður notar, stuttur taumur eða langur, ekkert gerist. Mest áberandi er þetta þegar maður fer í félagi við annan og hann veiðir og veiðir á nákvæmlega sömu stöðunum. Undir þessum kringumstæðum hefur mér reynst einna best að láta mig hverfa, rölta eitthvað út eða inn með vatninu, baða eina og eina flugu og sjá til hvort ekki rofar til í kollinum.

Engin veiði hér
Engin veiði hér

Svo eru þeir sem mæta til veiði á kolröngum forsendum. Veðrið er ómögulegt, enginn fiskur í þessu bévítans vatni og síðustu sögur af veiði tómt skrök. „Veiddir þú á þetta? Það getur ekki verið, ég prófaði og fékk ekki högg“ „Fiskur hérna? Nei, ekki séð einn einasta“, „Veiðist hérna? Nei, aldrei veitt neitt hérna“, „Það er ENGINN fiskur í þessu vatni, þetta er bara eitt stórt hrun“. Að veiða með sól í sinni er ef til vill ekki minna um vert heldur en með sól í heiði. Ekki draga dumbundinn með þér í veiði.

2014

Heilt yfir má segja að sumarið 2014 hafi verið eitt besta ár í veiðinni sem komið hefur í langan tíma hjá mér. 25 ferðir færðu mér 121 bleikju og 27 urriða. Meðalveiði í ferð voru því tæplega 6 fiskar. Munar þar lang mestu um úthald okkar hjóna í Framvötnum í júlí og ágúst. Frúin endaði sömuleiðis í 121 bleikju, en urriðarnir voru eilítið færri eða 18. Aftur á móti var meðalveiði hennar í ferð ríflega 6 stk. þannig að enn og aftur hefur hún vinninginn og er vel að honum komin.

Smellið á myndina til að stækka
Smellið á myndina til að stækka

Um tíðafar sumarsins er það helst að segja að mér fannst eiginlega alltaf vera sól og blíða, nema þá helst þegar hausta tók. Þvert ofan í mínar spár um langt og milt haust var líkt og botnin hefði verið sleginn úr einhverri tunnu á himnum og veðurguðirnir byrstu sig örlítið meir heldur en ég átti von á. Hvað um það, vertíðin var gjöful og margra góðra stunda að minnast frá bökkum vatnanna okkar.

Önnur árstíð

Þar sem mestar líkur eru á að formlegri stangveiði sé lokið í vötnunum þetta árið og lítið við að vera í þeim fáu en þó nokkuð góðu frístundum mínum sem eru framundan,  þá er komið að því að blása lífi í nýjar færslur á síðunni. Í sumar hafa þær nær einskorðast við frásagnir af veiðiferðum sem samtals urðu 25 á móti 37 í fyrra. Þetta árið taldi ég 148 fiska sem er nærri þreföldun frá árinu 2013. Það verður víst seint sagt að eitthvert hrun sé í þessari veiðimennsku.

Færslurnar á síðunni verða vonandi aldrei færri en tvær í viku hverri í vetur, vonandi fleiri þegar nær dregur vori. Eins og endranær kem ég til með að nýta mér viðburði sumarsins, reynslu og eigin mistök til að sjóða saman einhverjar hugrenningar og frásagnir sem verða vonandi einhverjum til gagns, já eða bara til gamans og aðhláturs.

Úr heimsóknartölum á síðuna má lesa að fylgjendur sækja ekkert síður inn á Flugur og skröksögur yfir sumarmánuðina heldur en á vetrum. Vissulega dregur örlítið niður í þeim þegar hæst stendur í veiðinni, en í raun mun minna heldur en ég hef alltaf átt von á. Mánaðarlega heimsóknir haldast í ríflega 9.500 yfir sumarmánuðina en aukast verulega þegar menn skila sér inn úr sumrinu og líður á veturinn. Þegar þetta er skrifað hafa yfir 255.000 heimsóknir dottið inn á síðuna frá því í maí 2010. Takk fyrir að fylgjast með og sýna þessu pári mínu áhuga.

Úr Veiðivötnum - Langavatn
Úr Veiðivötnum – Langavatn