Sérðu hana alltaf éta?

Menn eru misjafnlega mannglöggir. Ég er t.d. þannig gerður að mér er stundum lífsins ómögulegt að greina á milli manna, þekki ég þennan eða hinn? Á ég vita hver þessi eða hinn er þegar ég rekst á þá á förnum eða fáförnum vegi.  Ef einhver hefur rekist á mig í sumar, við tekið tal saman og ég virst vera fjarlægur og jafnvel ekki alveg í sambandi við umræðuefnið, þá er það alls ekki illa meint hjá mér. Ég hef trúlega bara verið að velta því fyrir mér hvar ég hafi séð eða rætt við viðkomandi áður eða verið alveg á villigötum.

Síðast liðið sumar gekk ég fram á veiðimenn sem ég taldi mig þekkja og tók þá tali. Eftir á að hyggja, hef ég væntanlega aldrei séð þessa menn áður, en við áttum ágætt spjall þar sem þeir voru að veiða með púpum og beitu niður á botni á meðan bleikjan fyrir framan þá var, að því er mér sýndist, mest í því að pikka upp flugur rétt undir yfirborðinu. Ég reyndi eins og ég gat að rífa augun af bungunum sem mynduðust á vatninu annars slagið og einbeita mér að samtalinu. Svo gat ég ekki lengur orða bundist, tók fram fluguboxið mig og valdi nokkrar votflugur úr því og rétti fluguveiðimanninum með þeim orðum að nú væri lag að skipta sökklínunni út fyrir flotlínu, setja Watson‘s Fancy undir og draga hana rólega inn, rétt undir yfirborðinu.

Ha, sérðu hana alltaf éta? spurði þá maðurinn mig. Þá vafðist mér tunga um tönn, nei, ég sé bleikjuna ekkert alltaf éta, en það eru stundum ákveðnar vísbendingar um það á vatninu hvar hún er að éta og hvað. Þegar það lítur t.d. út fyrir að það séu risa loftbólur alveg við það að stíga upp á yfirborðið, svona á stærð við handbolta, en svo gerist ekkert, þá er silungurinn væntanlega að éta flugu sem er alveg við það að brjótast upp á yfirborðið, svona á 10 – 20 sm. dýpi. Hvað geri ég þá? Jú, set votflugu eða litla mýflugu á intermediate línu og byrja að draga inn um leið og hún lendir. Þegar ég tala um intermediate línu hérna, þá verður hún að vera með sökkhraða undir tommu á sekúndu. Það er auðvitað líka hægt að stytta tauminn á flotlínunni og nota örlítið þyngri flugu, það kemur næstum út á sama stað í yfirborðinu. Hreyfing flugunnar verður að vísu svolítið önnur, en stundum verður hún einmitt rétt þannig. Það er ekkert endilega ein rétt leið að veiða silung í svona tökum.

fos_urridi_yfirbord

Svo eru það augnablikin þegar maður sér bleikjuna, já eða urriðann, velta sér í yfirborðinu. Hvað er eiginlega í gangi? Jú, væntanlega liggur ætið þá ofan á vatninu eða er við það að brjótast upp úr filmunni. Þá vandast málið hjá mér. Ég er ekkert sérstakur þurrflugukall, meira fyrir votflugur og púpur, þannig að ég fer stundum milliveginn, veiði þurrfluguna eins og votflugu. Það virkar líka, oftast. Mér er minnistætt augnablik frá því í sumar, þegar ég staldraði við þó nokkurn spotta frá vatninu og kom þá auga á svona veltur í yfirborðinu. Það var hreint ekki þannig veður að ég ætti von á að fluga væri að klekjast, goluskratti og hitastigið ekki upp á marga fiska, en bleikjan var sannanlega að veltast þarna í æti. Það kom síðar á daginn að hún var að rótast í fló sem hafði hrakist með gárunni inn á víkina sem ég kom að. Já, fiskurinn étur það sem er á boðstólum, ekki það sem við teljum okkur sjá eða sjáum bara alls ekki.

Ótækt verðmat

Það er sagt að þriðjungur þjóðarinnar leggi stund á stangveiði að einhverju marki. Þegar maður fer að hugsa út í þetta, þá er þetta skuggalega hátt hlutfall, með því langhæsta sem þekkist í heiminum. Stundum efast ég um að þetta sé fyllilega rétt og mögulega sé hér talið skv. venju lítilla þjóða sem vilja leynt og ljóst verða stórasta land í heimi. Getur verið að hér sé allt talið til, stakir veiðimenn sem fara t.d. einu sinni á ári með börnin eða barnabörnin í einhverja sleppitjörn eða getur verið að við séum að telja með erlenda veiðimenn sem  drepa hér niður fæti fáeina daga á ári og kíkja í lax?

Kannski eru þetta óþarfa vangaveltur hjá mér og kannski er það virkilega þriðjungur þjóðarinnar sem stundar stangveiði að einhverju marki. Þá get ég bara sett punktinn hér og látið allar frekari vangaveltur lönd og leið, eða hvað? Ef þriðjungur þjóðarinnar telur sig til stangveiðimanna, þá er grátlegt hve hljóður þessi hópur er þegar kemur að því að standa vörð um sportið og láta í sér heyra þegar náttúrunni okkar er ógnað af fyrirhuguðu fiskeldi í sjókvíum við strendur landsins. Því miður virðist það svo vera að háværustu andmælin komi úr röðum aðila sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af stangveiði. Það er illa fyrir þjóð komið ef aðeins peningaleg gildi ná upp á yfirborðið í umræðunni.  Það heyrist allt of lítið í hinum almenna veiðimanni sem hefur, þegar öllu er á botninn hvolft, miklu meiri hagsmuna að gæta heldur en nokkur veiðileyfasali getur sett verðmiða á. Þær eru óteljandi stundirnar sem maður hefur átt í veiði hér á landi, stundir sem aldrei verða metnar til fjár. Og merkilegt nokk, þetta eru gæðastundir sem ég hef varið við annað en laxveiði. Silungastofnum stendur ekkert síður ógn af þessum ófögnuði sem sjókvíaeldið er. Öll mengun á strandsvæðum, hvort sem hún stafar af laxalús, smitsjúkdómum, snýkjudýrum, lífrænum úrgangi eða ólífrænum, er ógn við fiskistofna og lífríkið í heild sinni.

Ómetanlegt
Ómetanlegt

Sú ógn sjókvíaeldis sem helst hefur verið haldið á lofti er hættan á erfðamengun Íslenskra laxastofna. Þótt laxastofnum yrði hlíft við mögulegri erfðablöndun, þá situr eftir meiri sóðaskapur í umhverfismálum heldur en áður hefur sést við strendur þessa lands og þar liggja hagsmunir allrar þjóðarinnar undir. Það slys yrði stærra en svo að unnt er að setja á það verðmiða og einmitt þess vegna virðist vera ómögulegt að koma því upp á yfirborðið í umræðunni. Mig langar sérstaklega að benda á grein Erlendar Steinars Friðrikssonar, Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði. Sú umfjöllun ætti að vekja menn til umhugsunar.

Hver sá sem hefur notið þess að skreppa í veiði eða óskar þess að afkomendur hans eigi þess kost þegar fram líða stundir ætti að taka afstöðu til þess hvort skammtímagróði fárra sé þessum hlunnindum meirihlutans æðri. Að sama skapi ætti hin almenni veiðimaður að standa vörð um aðgengi sitt að ómengaðri arfleið landsins án þess að þurfa að gjalda fyrir það skv. verðmati sem unnið er upp úr arðsemisútreikningum talnaspekinga á snærum innlendra eða erlendra aurapúka. Sumt verður einfaldlega aldrei metið til fjár og virðist því aldrei geta staðist samanburð við krónur og aura, hvað þá dollara eða norskar krónur.

Að þessu sögðu verð ég að játa að ég get vel sett mig í spor þeirra íbúa sjávarþorpa úti á landi sem sjá fram á bjartari tíma við uppbyggingu fyrirhugaðs fiskeldis. En það þarf enga sérfræðinga að sunnan til að segja heimamönnum hvað sé náttúrunni eða buddunni þeirra fyrir bestu, þeir eru skarpari en svo. Heimamenn hafa séð hrun og ris fiskistofna með eigin augum, fundið það á eigin skinni þegar náttúrunni er raskað. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð og sú ráðsnilld ætti að duga til koma á laggirnar öðrum atvinnutækifærum heldur en innflutningi erlendrar stóriðju, sama hvort hún fæst við málmbræðslu eða sjókvíaeldi. Hingað til hefur stóriðja laðast að fallvötnum okkar og ónýttum losunarkvóta og nú stendur til að bæta ósnortnum strandsvæðum okkar á þennan óskalista erlendra iðjuhölda. Því miður er útlit fyrir að engin breyting verði á skilum þeirra til Íslenska þjóðarbúsins, þau felast fyrst og fremst í þurrmjólkun okkar einstöku náttúru sem tekin verður út í reikning komandi kynslóða. Finnum raunhæfar leiðir til að skjóta stoðum undir hnignandi byggðir á Íslandi, segjum nei við stóriðju, sama hvaða nafni hún nefnist.

Virkjun í Vatnadal

Enn held ég áfram sögu minni úr Vatnadal með því að fikra mig eftir þessum ímyndaða dal. Sagan rennur fram dalinn og er nú komin miðja vegu til sjávar. Koma þá til sögunnar framkvæmdir sem allt eins gætu átt sér stað í dag.

Íslensk orkufyrirtæki veigra sér ekki við að auglýsa til sölu umhverfisvæna, endurnýjanlega orku. Hér eru fallvötn virkjuð eins og engir aðrir kostir séu í stöðunni vilji menn halda byggð í landinu. Skiptir þá engu hvort umhverfi eða lífríki verði fyrir barðinu á virkjunum og sífellt virðist vera þörf á að virkja, meira aðkallandi að sökkva landi undir lón, snortnu eða ósnortnu. Orka er seld áður en virkjanakostir eru samþykktir og til að skera framkvæmdaraðila úr snörunni eru kostirnir færðir úr verndarflokki í nýtingarflokk gegn loforðum og gylliboðum um mótvægisaðgerðir sem þó eru aðeins til á teikniborðinu.

vatnadalur_3

Morgunkossar

Ég er svolítill veikur fyrir rómantískum gamanmyndum, tek þær gjarnan framyfir hasarmyndir eftir langa vinnuviku og nýt þess að glápa og glotta yfir þeim á meðan ég tæmi hugann. Eitt er það samt sem ég skil ekki í þessum myndum og það er þegar ástfangna parið vaknar að morgni með hárið óaðfinnanlegt, hún með varalitinn ennþá á sínum stað og ekki vottur af krumpu á gæjanum, og svo kyssast þau. Hvað er eiginlega að mér, ég vakna yfirleitt sem ein allsherjar andfúl krumpa þannig að mér dettur ekki til hugar að leggja það á konuna að kyssa hana svona í morgunsárið. Svo veit ég líka að hún mundi frekar kjósa svona kossa eins og sjá má í morgunstillunum á vötnunum þegar silungurinn er að pikka eina og eina flugu af yfirborðinu. En hvað er þetta eiginlega sem fiskurinn er að éta?

fos_frostastadavatn_vokur2

Þessar örfínu uppitökur að morgni eru yfirleitt kallaðar kiss upp á enska tungu eða nebbing sem er eiginlega réttara, því það er rétt aðeins snjáldrið á fiskinum sem kemur upp að yfirborðinu. Ég hef reynt við svona morgunkossa með þurrflugum í ætt við þær flugur sem ég sá í lofti. Það voru væntanlega fyrstu og stærstu mistökin sem ég gat gert. Ég horfði á toppflugu, rykmý eða aðrar ágengar flugur og valdi mér þurrflugu í samræmi; Black Gnat, Adams eða Blue Quill. Allt vel hærðar, vængjaðar þurrflugur sem sátu fallega á vatninu og nutu akkúrat engrar athygli silungsins. Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég rakst á skýringuna í erlendu tímariti. Í mörgum tilfellum er fiskurinn bara alls ekkert á höttunum eftir fullvaxta flugu, hann er að pikka upp óþroska einstaklinga sem hafa orðið eftir í yfirborðinu þegar klakið var um garð gengið. Mér hefði verið nær að velja flugu eins og Bibio Hopper með topp, einhverja sem hangir hálf niður úr vatnsfilmunni og leikur sig alveg steindauða eða örmagna. Svona hef ég nú alveg misskilið þessa morgunkossa í gegnum tíðina.

Áveitan í Vatnadal

Þau eru mörg vötnin á Íslandi sem hafa verið nýtt til annars en fiskinytja. Tilbúna vatnið mitt, Vatn í Vatnadal er eitt þeirra. Hér á landi hefur það tíðkast um áratuga skeið að stífla útrennsli vatna til áveitu, vatnsmiðlunar eða virkjana. Þeir eru ófáir fiskistofnarnir sem hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir þessum mannanna verkum og fá vötn hafa verið endurheimt úr klóm virkjana hér á landi. Við Íslendingar erum miklir eftirbátar nágranna okkar í þessum málum, sérstaklega þeirra í vestri. Á sama tíma og við teljum okkur meðal fremstu þjóða í náttúruvernd, þá gerum við lítið sem ekkert til að endurheimta fiskvegi þar sem þeir hafa verið stíflaðir.

vatnadalur_2

Með morgunkaffinu

Með morgunkaffinu í dag fletti ég í gegnum mjög áhugaverðan bækling frá frændum okkar í Noregi. Hér eru taldar til nokkrar áhugaverðar staðreyndir um flesta þá umhverfisþætti og ógnanir sem steðja að laxi og urriða í Noregi. Margir áhugaverðir punktar, þ.á.m. áhrif fiskeldis og virkjana, atriði sem brenna á veiðimönnum hér heima þessa dagana.

Sögur úr Vatnadal

Það er ýmislegt sem maður finnur sér til dundurs þegar stangveiðitímabilinu lýkur. Hugurinn reikar víða og ósjálfrátt smitast hann af því sem efst er á baugi í fréttum. Nýlega staðfest Alþingi Íslendinga Parísarsamkomulagið svokallaða með hægri hendinni á meðan sú vinstri hélt áfram að skrúfa frá losun gróðurhúsalofttegunda. Lítið sem ekkert fer fyrir mótvægisaðgerðum, s.s. endurheimt votlendis en þeim mun meira fyrir aukinni orkuframleiðslu til stóriðju og úthlutun heimilda til gríðarlegrar aukningar á losun lífrænna úrgangsefna við strendur landsins.

Til að setja einhverjar þessara hugleiðinga minna í samhengi, upphugsaði ég dal einn á Íslandi. Eins og allir dalir í ævintýrum, þá er þessi dalur einstaklega fagur og miklum kostum búinn. Ég kýs að kalla hann Vatnadal, en hann gæti heitið hverju nafni sem er því hann á sér svo ótrúlega marga þjáningarbræður hér á landi í einni eða annarri mynd.

En hvernig dalur er Vatnadalur? Til að kynna hann til leiks er hér smá inngangur að þremur sögum úr Vatnadal.

vatnadalur_1

Hnífar

‚Stolinn hnífur bítur best‘ segir málshátturinn, en ekki getur maður endalaust stolið sér hnífum. Ég held reyndar að ég hafi aldrei stolið hnífi, en ég hef keypt nokkra á 1 kr. af vinum og ættingjum þannig að ekki skærist á vinaböndin. Nú í lok sumars fór ég að taka eftir því að veiðihnífurinn minn var farinn að svíkja mig í aðgerð, sérstaklega ef ég var að gera að smærri fisk. Þetta lýsti sér helst þannig að ég varð að beita aðeins of miklu afli þannig að skurðurinn varð ekki hreinn og beinn, sléttur og felldur. Þegar svo roðtægjurnar voru farnar að hrannast upp við gotrauf fisksins, þá varð ekki lengur við unað.

Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu
Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu

Eins og sjá má, var ekki vanþörf á að þrífa hnífa og slíður eftir sumarið. Vel að merkja, upprunalega slíðrið sem fylgdi mínum hníf dugði rétt eitt sumar, þannig að ég saumaði mér nýtt úr reiðhjóladekki sem hefur dugað í nokkur ár. En aftur að hnífunum. Eftir gott sumar í veiði lætur eggin vitaskuld á sjá, verður svolítið skörðótt og ávöl þannig að það var kominn tími til að leggja þá á stein og brýna þá síðan á stáli. Þegar eggin er orðin eitthvað í líkingu við brotalínurnar á myndinni hér að neðan, þá er kominn tími til að skerpa hana á steini.

hnifar

Ég nota flatan stein með grófu og fínu yfirborði til að forma eggina í V og svo stálið eða nýju græjuna mína, Rapid Steel frá F.Dick til að skerpa hana.

Auðvitað nýtti ég tækifærið og þreif skefti og blöð með volgu vatni og sápu, renndi síðan yfir þau með fínum sandpappír og olíubar upp á nýtt. Ég hef aldrei skilið þá áráttu framleiðenda að lakka tréskefti, lakkið heldur sjaldnast lengi og olíuborinn viður er mun stamari heldur en lakkaður.

Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.
Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.

Á döfinni

Þeir eru væntanlega ekki margir staðirnir á landinu þar sem haustið er ekki farið að setja mark sitt á náttúruna. Næturfrost á veðurkortunum, snjóföl í fjöllum og morgnarnir hefjast orðið á því að bregða þarf kreditkortinu á framrúðu bílsins. Hann er genginn í garð, tíminn þegar ég sest niður, rifja upp atvik frá liðnu sumri og set í greinar nokkrar hugleiðingar út frá efninu.

fos_thingvellir_kirkja

Nú þegar hafa á fjórða tug greina af ýmsum toga komist á blað og flestum þegar raðað niður til birtingar á vefnum. Þegar 39 dögum hefur verið eytt í veiði á sumrinu, er ekki nema von að fyrstu vikur vetrar fari svolítið í að gera sumarið upp, lesa í aukna innistæðu í reynslubankanum og reyna að læra eitthvað af mistökum sumarsins.

Væntanlega verða einhverjar nýjar og gamlar flugur kynntar til leiks þegar nýtt ár gengur í garð og þannig kemur eitthvað til með að bætast við þær tæplega 80 uppskriftir og upplýsingar sem þegar má finna á síðunni. Ég er þegar með nokkrar áhugaverðar í sigtinu og þær verða reyndar í hnýtingarþvingunni á næstu vikum. Ef þær verða fiskum bjóðandi fara þær í myndatöku og gerðar klárar fyrir vefinn.

FOS.IS mun á nýju ári standa eitt skiptið enn fyrir hnýtingarviðburði á Facebook undir nafninu Febrúarflugur. Eins og áður er öllum heimil þátttaka með því að skrá sig til leiks og setja inn myndir af því sem kemur úr hnýtingarþvingunni þann mánuðinn. Engar kvaðir eru á þátttakendum, þeir haga sínum innleggjum eins og hverjum hentar. Væntanlega verður viðburðurinn með svipuðu sniði og áður, en áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks með því að smella hérna. Nánar verður fjallað um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Undanfarin ár hafa rétt um 1200 greinar safnast á vefinn og fylgjendum hans fjölgað jafnt og þétt. Það er ekki sjálfgefið að allt það efni sem hér birtist verði áreynslulaust til úr eigin ranni og því er nú einfaldlega þannig farið að fæstir lesendur vefsins hafa mjög hátt um það hvaða efni þeir vilja sjá hér á síðunni. Ef lesendur hafa hug á senda mér ábendingar eða óskir um sérstakt efni, þá er það velkomið og þeim bent á senda mér tölvupóst á kristjan(hjá)fos.is eða nýta sér skilaboðaform sem nálgast má hér á síðunni.

Þeir leynast víða sauðirnir

Fyrir hálfum mánuði síðan birti ég hugleiðingar mínar um slælega umgengni við náttúru Íslands. Kveikjan að þeim hugleiðingum mínum var því miður umgengni veiðimanna við Hítarvatn sem ég varð vitni að.

Í framhaldi þessa lenti ég á smá spjalli við kunningja mína í vinnunni og þá kom til tals hjarðhegðun okkar mannfólksins. Það virðist vera áberandi að þar sem einn sóði drepur niður fæti, þar spretta upp nokkrir til viðbótar og þannig getur smáræði orðið að ruslahaug. Það verður að viðurkennast að ég hef alveg fundið fyrir einkennum þessarar hjarðhegðunar hjá mér. Þegar ég kem að veiðistað þar sem umgengni hefur verið einstaklega slæleg, þá getur mig alveg brostið geð til að taka upp ruslið sem ég rekst á. Þetta eru aðeins væg einkenni og hafa blessunarlega engin áhrif á það hvernig ég hafa mínum sorpmálum, en sauðslegt engu að síður.

Taumar og taumaendar fara einfaldlega niður í vöðlurnar mínar yfir daginn. Það eru reyndar til einstaklega sniðugar græjur sem hægt er að nota til að vinda taumaenda og girni inn á og tæma þegar komið er að næstu ruslatunnu en mér dugar vöðluvasinn eða brjóstmálið til að geyma mínar afklippur.

Eftir notkun fara mínar drykkjarumbúðir einfaldlega aftur ofan í þann vasa eða bakpoka sem ég notaði til að bera þær með mér á veiðistað. Þetta er nú ekki flókið og ætti að vera á flestra færi, ekkert frekar en að ganga frá pappír eftir að hafa gengið örna sinna.

En svo kemur að slógi og beinagörðum sem falla til á veiðistað. Einn kunningi minn vakti mig til umhugsunar um að margir veiðimenn hafa bara ekki hugmynd um það sem á sér stað þegar slógi eða fiskúrgangi er skilað aftur í vötnin. Sumir veiðimenn gera þetta í þeirri góðu trú að þeir séu að fóðra fiskinn sem eftir er í vatninu. Þetta er leiður misskilningur og útbreiddur. Við það að henda slógi í vatnið eða skilja það eftir við bakkann eru veiðimenn að viðhalda hringrás bandorma í náttúrunni sem aðeins veikir fiskistofnana í nærumhverfinu. Það eru helst krabbadýr og sviflægir fiskar sem nýta sér úrgang og þannig komast egg bandorms aftur inn í fæðukeðjuna og enda með einum eða öðrum hætti í lokahýsil sínum; laxi, urriða, bleikju, fugli eða spendýrum þar sem þeir fjölga sér enn frekar. Egg ormsins skila sér síðan aftur út í náttúruna með saur og þannig hefst hringrásin upp á nýtt. Það er því engum greiði gerður að skilja slóg og fiskúrgang eftir á veiðislóð. Komum fiskúrgangi í ruslið rétt eins og öðru sem til fellur á veiðistað.

Lífsferill bandorms
Lífsferill bandorms – © FOS.IS

Veiðidagur fjölskyldunnar á sunnudaginn

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þennan dag er landsmönnum boðið að veiða í 29 vötnum, víðsvegar um landið. Það er að venju Landsssamband Stangaveiðifélaga sem bíður til þessa og í ár verða eftirtalin vötn í boði;

Austurlandi – Langavatn  í landi Staffells, Urriðavatn í Fellum, Þveit, Víkurflóð

Suðurlandi – Eyrarvatn, Geitabergsvatn, Þórisstaðavatn, Meðalfellsvatn, Elliðavatn, Þingvallavatn (þjóðgarðurinn), Gíslholtsvatn, Úlfljótsvatn

Vesturlandi – Syðridalsvatn, Vatnsdalsvatn, Langavatn á Mýrum, Hítarvatn, Haukadalsvatn, Hraunsfjörður, Hraunsfjarðarvatn, Baulárvallavatn

Norðurlandi – Hópið, Botnsvatn, Ljósavatn, Höfðavatn, Hraunhafnarvatn, Arnarvatn, Æðarvatn, Kringluvatn, Sléttuhlíðarvatn

vdf2016

FOS.IS hvetur alla sem vettlingi geta valdið að nýta sér þetta tækifæri til að kanna ný vötn eða endurnýja eldri kynni og endilega takið ungviðið með ykkur, það er aldrei of snemmt að koma þeim á bragðið.

Er mamma þín hér?

Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

Veiðimaðurinn – Ólafur Arndal Reynisson

Þegar veiðimenn smitast af bakteríunni á unga aldri er eins gott að einhver nákominn sé þeim innan handar og styðjið við áhugann og leiði menn örlítið áfram. Sem betur fer er það frekar regla heldur en undantekning að foreldrar, afar eða ömmur eru tilbúin að skjótast í veiði með ungviðinu. Við náðum taki á einum ungum veiðimanni sem hefur notið margra góðra stunda við veiði með fjölskyldu sinni og spurðumst fyrir um kveikjuna að veiðiáhuganum.

– Það voru nú pabbi og mamma sem kveiktu hjá mér áhugann með því að gefa mér veiðistöng þegar ég var 3ja eða 4ra ára, svarar Ólafur Arndal Reynisson, 17 ára námsmaður í FB.

Vænn urriði
Vænn urriði hjá Ólafi

Það hefur væntanlega verið kaststöng?

– Já, þessi líka flotta Batmann-stöng með ýmsum fylgihlutum í boxi þannig að ég kæmist með pabba í veiði.

Hann er þá svolítið í veiðinni líka?

– Já, hann stundar skot- og stangveiði á milli þess sem hann stikar upp um fjöll og firnindi. Hann hefur verið minn kennari, jú og aðrir ættingjar sem ég hef farið með í veiði.

Nú átt þú heima hérna á höfuðborgarsvæðinu, ferðu helst að veiða á þessu horni landsins?

– Nei, alls ekki. Pabbi er ættaður úr Öxarfirðinum og við förum oft norður og veiðum þar í grennd, helst norður á Melrakkasléttu þar sem annað uppáhalds vatnið mitt er einmitt, Æðarvatn. Þar hef ég sett í mína stærstu fiska og ýmislegt skemmtilegt gerst, eins og þegar pabbi stakk sér á eftir veiðistönginni minni þegar 5 punda urriði tók hana út. Það er hægt að hlæja að þessu, svona eftirá.

Þú nefnir það sem annað uppáhalds vatnið þitt, hvert er hitt?

– Það er reyndar vatn hérna í grenndinni sem ég heimsæki stundum með pabba, Stíflisdalsvatn við Kjósaskarð, frábært vatn og flottir fiskar. Pabbi þekki þar landeiganda og við fáum að kíkja annars lagið í vatnið.

Flottur afli úr Æðarvötnum
Flottur afli úr Æðarvatni

Fyrsta stöngin þín var kaststöng, hefur þú haldið þig við kaststöngina eða veiðir þú eitthvað á flugu?

– Nei, ég veiði mest á maðk eða spún í vötnunum. Annars hef ég líka farið á sjóstöng og leiðist það heldur ekki.

Þið feðgar farið væntanlega eitthvað í veiði í sumar?

– Já, það vona ég svo sannanlega, það er alltaf smá metingur í okkur og ég þarf eiginlega að ná fleiri fiskum heldur en sá gamli í sumar.

Á sjóstöng
Á sjóstöng

Við þökkum Ólafi fyrir samtalið og óskum þeim feðgum góðrar skemmtunar í sumar.

Yngri veiðimenn

Þetta er ekki eina fyrirsögn hér á síðunni sem lesa má með mismunandi áherslum. Þegar ég setti hana niður á blað var ég með ákveðið ákall í huga; það vantar yngri veiðimenn. Velta stangveiði hér á landi er áætluð tæpir 20 milljarðar á ári og sagt er að þriðjungur þjóðarinnar stundi stangveiði. Þetta eru engar smáræðis tölur og ég viðurkenni fúslega að ég á óskaplega litla hlutdeild í þeim. Ég kaupi mjög takmarkað af veiðileyfum, nota Veiðikortið og félagsskírteini í Ármönnum sem hvoru tveggja veita mér aðgengi að ríflega 40 vötnum þar sem ég get veitt eins og mig listir. Og svo ber ég heldur enga ábyrgð á fjölgun veiðimanna á Íslandi og þá komum við að innihaldi pistilsins; yngri veiðimönnum.

Þannig er að ég lét framhjá mér fara og missti af stangveiðiáhuga sona minna. Í kapphlaupi þess að koma mér örugglega fyrir í lífinu tók ég allt of lítið undir beiðnir um að fara að veiða eða taka veiðistöngina með í útilegur og í dag ég sé töluvert eftir því. Ungt fólk fer mikils á mis ef það stundar ekki útiveru og nær tengingu við uppruna sinn eins og stangveiðin bíður uppá. Í dag er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem þekkir silung aðeins sem vacum pökkuð flök í stórmörkuðum, reykt eða grafin. Þessi kynslóð þekkir aftur á móti leynda afkima veraldarvefsins út í ystu æsar, á fjölda ‚vina‘ á samfélagsmiðlum og veit allt um skræpóttar nærbuxur poppstjarna sem gægst hafa upp úr buxnastrengjum á óheppilegu augnabliki. Ungar stúlkur í dag roðna þegar maður segir Peacock og strákar segjast ekki vera neitt fyrir svoleiðis. Ég hef ekki hugmynd um hvað þau lesa út úr þessu göfuga heiti flugunnar en grunar að það sé eitthvað neðan beltis.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda Íslendinga sem leggur stund á stangveiði, þá er heilt yfir um litla nýliðun í stangveiði að ræða. Sama á við um félagsstarf stangveiðifélaganna. Félögin eldast hratt og unglingastarf þeirra á undir högg að sækja. Ef fram fer sem horfir þá verða aðalfundir félaganna haldnir á elliheimilum landsins, helst á milli fyrra kaffis og hádegishressingar þannig að menn sofni ekki undir liðnum önnur mál. En hvað er þá til ráða? Ef þú átt ungliða sem er efni í veiðimann þá eru hér mögulega nokkur atriði sem gott væri að hafa í huga:

  • Ekki arfleiða neinn að gamla dótinu þínu. Leyfðu krökkunum að velja sér stöng og annan útbúnað, þetta þarf að verða þeirra.
  • Bjóddu upp á fjölbreytta dagskrá í veiðiferð, gerðu svolítið úr þessu með því að kaupa eitthvað gott í nesti og millimál.
  • Vertu klár með myndavélina, meira að segja enginn fiskur getur orðið að myndefni.
  • Veðjaðu á nokkuð öruggt veiðisvæði þar sem fiskurinn tekur, þolinmæði krakka er ekki eins mikil og fullorðinna.
  • Ekki gera ráð fyrir löngum veiðiferðum til að byrja með og vertu sáttur við að steinar og spýtur á vatnsbakkanum gætu orðið meira spennandi en flot úti á vatni.

fos_nk

Ef allt gengur upp hjá þér ertu kominn með fullar hendur af spurningum, brennandi áhuga ungs veiðimanns og ómældar ánægjustundir.

Silungur vs. silungur

Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.

Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.

Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.

Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.

Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.

Urriði í straumi
Urriði í straumi

Ályktun gegn sjókvíaeldi

Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.  Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.  Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.  Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.

Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.

Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu

Uppruni agnhalds

Að veiða og sleppa hefur færst mjög í aukana hin síðari ár. Veiðimálastofnun og fleiri mæla með agnahaldslausum önglum fyrir VogS. Eins og ég hef áður sagt hér frá er ég sjálfur ekki alveg eins sannfærður um ágæti agnahaldslausra öngla þegar kemur að VogS, en það er önnur saga sem lesa má hér.

Um daginn var ég á einhverju internetráfi og rakst þá á skondna grein úr Þjóðviljanum frá árinu 1939 sem ég leyfi mér að endurbirta hérna í tilefni þess að nú í byrjun vertíðar fær umræðan um VogS væntanlega byr undir báða vængi, enn eitt skiptið.

Sú gamansaga var sögð víða í fiskiverum í Noregi, að agnhaldið á önglinum væri uppfundið af kölska. Sagan er á þessa leið: Eitt sinn fyrr, á tímum voru mennirnir svo góðir og guðhræddir að allir fengu að enduðu Jarðlifi eilífa sáluhjálp, svo við sjálft lá að ríki kölska legðist í auðn söktun syndleysi mannanna. Sá gamli sá, að slíkt gat ekki gengið og kallaði alla púka sína á ráðstefnu um hvernig skyldi viðhalda og efla „rikið“! Eftir miklar bollaleggingar stendur einn púkinn upp og segir: Ég vil að fundið sé upp eitthvað, sem gerir fiskimönnum mikið gagn og þeir ekki geta verið án, en um leið ýfir skap þeirra og kemur þeim til að bölva og ákalla höfðingjann. Þegar kölski heyrði þessa uppástungu hló hann hátt og sagði: Verði agnhald á öngli! og svo varð. Agnhaldið heldur beitunni á önglinum, en veldur um leið miklum flækjum, sem seinka vinnu og ergja skapsmunina sem framleiða blótsyrði. Síðan hefur ekki heyrst að kölski hafi orðið hræddur um eyð- ingu ríkis síns.

fos_vintagehook

Ungir veiðimenn

Stangveiði er holl og góð íþrótt eins og flestir veiðimenn hér vita. En stangveiði er annað og meira, hún er kjörið tækifæri í nútíma þjóðfélagi til að tengjast uppruna sínum, náttúrunni með fjölbreyttum hætti og er alveg frábært sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar.

Víða erlendis er ungum veiðimönnum gert hærra undir höfði heldur en þeim sem eldri eru. Hér heima þekkjum við að unglingum er víða gert kleift að stunda ókeypis stangveiði, annað hvort einum eða í fylgd með fullorðnum. Nærtækast er að nefna Veiðikortið, Elliðavatn og Vífilsstaðavatn, svo einhver dæmi séu nefnd. Svo má alls ekki gleyma veiðidegi fjölskyldunnar sem Landsamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir í fjölda ára.

Því miður fer minna fyrir umfjöllun um unga hversdagsveiðimenn hér heima heldur en víða annarsstaðar. Ef frá eru taldar frásagnir af hetjuveiði einstaka ungliða, er það viðburður að þeir rati á forsíður blaða og vefmiðla. Að mínu viti skýtur þetta nokkuð skökku við því við sem eldri erum, vitum mæta vel að nýliðun hefur nokkuð dregist saman í greininni og þátttaka í félagsstarfi stangveiðifélaga er á undanhaldi.

Tíðarandinn er vissulega annar en var fyrir 10 – 15 árum síðan og því mikilvægt að halda á lofti þeim frábæru veiðimönnum af yngri kynslóðinni sem við eigum, þeir eru öðrum ungmennum fyrirmyndir, ekki við gömlu karlarnir og kerlingarnar sem enn skröltum til veiða af gömlum vana og brennandi áhuga.

Á næstu vikum ætla ég að leggja mitt lóð á vogaskálar umfjöllunar um unga veiðimenn með því að birta nokkrar greinar um unga veiðimenn og hvernig við getum aukið áhuga ungs fólks á því sem er að gerast utan tölvu- og sjónvarpsskjáa sem hafa mikið aðdráttarafl á ungt fólk nú á dögum.

Ef þú, lesandi góður þekkir einhvern veiðimann á aldrinum 10 – 20 ára sem væri tilleiðanlegur að svara nokkrum spurningum og gauka að mér veiðitengdum myndum sem ég mætti birta hér á vefnum, þá bið ég þig um að senda mér skilaboð á póstfangið kristjan (hjá) fos.is

fos_fjolskveidi

Grisjað að vetri

Því er nú þannig farið að flest veiðivötn á Íslandi eru að hluta eða mestu leiti í eigu bænda. Auðvitað eru nokkur vötn svo nærri byggð að ákveðin sveitarfélög, einstaklingar eða stofnanir eiga land að og þar með veiðirétt í vötnum. Vötn og einstaklingar njóta þess yfirleitt ágætlega þegar sveitarfélögin eða stofnanir eiga veiðiréttinn. Þá eru töluverðar líkur á að um vötnin sé hugsað, þau undir eftirliti og breytingum í þeim gefin gaumur. Síðast en ekki síst, þá njóta veiðimenn góðs af því aðgengi að þessum vötnum er yfirleitt með ágætum.

Aðgengi veiðimanna að vötnum í umsjá bænda, beint eða í gegnum afréttarfélög er yfirleitt einnig með ágætum. Stærri veiðifélög eru þess megnug að ljá rannsóknum og eftirliti einhverja fjármuni og því er ástand þeirra vatna sem undir þau heyra yfirleitt með ágætum. Sömu söguna er ekki alveg að segja um öll vötn sem heyra undir einstaka bændur. Þar gefst sjaldnast tími né fjármunir til að sinna þeim eins og best væri á kosið og því vilja þessi vötn oft verða afskipt ef þau eru ekki nýtt af eigendum.

Mér hefur annað slagið orðið tíðrætt um ofsetin bleikjuvötn, enda af nægum vötnum að taka. Samfara minni netaveiði hafa mörg vötn orðið offjölgun bleikju að bráð og orðið nánast óveiðanleg fyrir kóði.

Á þessum árstíma, þegar mörg vötn eru undir ís hefur mér oft orðið hugsað til þess hve auðvelt það væri að grisja þau núna. Grisjun að vetri hefur marga kosti umfram grisjun að sumri. Oftar gefst meiri tími frá búskap að vetri heldur en að sumri, auk þess sem kostnaður við grisjun undir ís er lítill þar sem ekki þarf bát og tengdan útbúnað til að leggja net.

Hvað leynist undir ísnum?
Hvað leynist undir ísnum?

En hvað á svo að gera við aflann? Ég veit það fyrir víst að margur bóndinn hefur nýtt silung og annan fisk sem fóðurbæti með lélegum heyjum í gegnum árin. Eins hefur fiskur verið nýttur í minka- og refarækt með ágætum. Stærri fisk sem fellur til við grisjun má síðan örugglega nýta til manneldis og kemur þá kuldinn að vetrum í góðar þarfir ef geyma þarf fisk fyrir lengri flutninga. Það er svo ótalmargt sem mæli með grisjun undir ís. Síðast en ekki síst gætu síðan veiðimenn lagt sitt að mörkum á sumrin, tekið vötnin í fóstur, annast þau og viðhaldið fiskistofninum með hóflegri veiði.

Hvenær gerist bleikja ránfiskur?

Hversu margir hafa ekki heyrt sögur af stórum ránbleikjum í Þingvallavatni sem eigra þar um djúpin og ráðast á meðbræður sína af stofni bleikju? Lengi vel hvarflaði það að mér að þessar sögur væru hindurvitni ein, fiskurinn hefði vaxið meira í augum veiðimanna heldur en í vatninu sjálfu. En svo er nú víst ekki, þær finnast þarna þó ég sjálfur hafi aldrei náð einni einustu þeirra.

Það er aftur á móti þekkt að bleikja, rétt eins og urriði, leggist í afrán á eigin stofni og taki upp á því að stækka langt umfram meðbræður sína. Helst gerist þetta í þeim vötnum þar sem því háttar þannig til að ofsetningar gæti, stofninn stækkar umfram það sem framleiðni vatnsins annar og fæðuskorts fer að gæta. Þá skera ákveðnir einstaklingar sig úr, leggjast í afrán og stækka verulega umfram það sem fjöldin gerir.

Þar með er þó ekki sagt að þessi fiskur verði að ránbleikju. Hér er um venjulega bleikju að ræða sem bregður út af vananum, dregur sig til hlés og leitar á nýjar slóðir í vatninu þar sem hún getur dulist og sótt sér æti upp á grunnslóð þar sem 3-4 ára fiskur heldur gjarnan til. Nú set ég allan fyrirvara við þetta en ég hef hvergi séð niðurstöður rannsókna sem sína fram á annað en þessi ránhegðun bleikju sé bundin við einstaklinga sem bregða á það ráð að stunda afrán sér til framfærslu. Hin eiginlega ránbleikja, sú sem finnst á Þingvöllum, er aftur á móti afbrigði bleikju sem hefur þróast til þessa háttalags og sérhæft sig til þess.

Sílableikja eða afræningi?
Sílableikja eða afræningi?

Í þeim vötnum sem þannig háttar til að fjöldi bleikja leggst í afrán, má oft veiða 3 – 5 ára fisk sem er mun vænni en gengur og gerist í bleikjuvötnum. Þetta markast af því að ránfiskurinn heldur fjölda einstaklinga í skefjum, stundar náttúrulega grisjun og gefur þannig annarri bleikju sem lifir á skordýrum og kuðungum, jafnvel murtu sem lifir á svifi, meira svigrúm til að stækka. Færri fiskar, meira æti fyrir þá sem eftir eru.