Meðalfellsvatn, 9.apríl

Þeir voru nokkuð margir sem fengu sömu hugdettuna og við hjónin í dag. Fjórir veiðimenn á slóðum Sandár og Grjótár, 12 í grennd við syðri bátaskýlin og svo nokkrir aðrir á stangli. Og það var ekkert einkennilegt að það væru svona margir við Meðalfellsvatnið upp úr hádeginu í dag, veðrið upp á sitt fegursta þó það gengi á með hraðfara logni öðru hverju. Held að lofthiti hafi verið í nánd við 7°C þegar við mættum og féll lítillega á þeim rúmlega tveimur tímum sem við eyddum við vatnið. Við hjónin vorum sammála um að vatnshitinn rokkaði töluvert eftir vindstyrk og féll verulega þegar gustaði.

Afli er ekki til umræðu í þessum pistli, ekki eitt einasta nart hvað þá meira. Ég fékk þó að berja duglega skvettu frá urriðatitti augum, vel innan kastfærist en auðvitað vildi hann ekki sjá mínar flugur og hélt væntanlega snúðugur á brott. Á heimleiðinni fengum við hjónin svo smá uppbót á skvettur því við minni Hvalfjarðar lék stórhveli sér við yfirborðið með blástri og sporðaskellum í töluverðan tíma. Ókeypis hvalaskoðun í kaupbæti ofan á flottan dag í Kjósinni.

Meðalfellsvatn 9. apríl

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 / 0 0 2

 

Meðalfellsvatn, 3.apríl

Það var næstum eins og maður þekkti sig ekki við Meðalfellsvatnið í dag, fyrsta veiðiferð ársins og alveg upp á dag ári síðar og sú fyrsta í fyrra. Ekki einn einasti ísmoli á vatninu, vor í lofti og hreint út sagt dásamlegt veður.

Þrátt fyrir þessi umskipti frá því í fyrra fylltist ég ekki neinu óöryggi, ég hafði greinilega engu gleymt. Sömu stirðu köstin, vindhnútarnir og enginn fiskur á land. Þetta var næstum allt eins og það átti að sér að vera fyrir utan þennan eina fisk sem ég sá. Í einu af þeim tilfellum sem ég þurfti að draga heldur snaggaralega inn til að lagfæra tauminn sem hafði vafið sig utan um sjálfan sig, kom þá ekki ein bleikja og elti fluguna sem hafði fest sig á miðjum taumi, alveg upp í harða land þar sem hún rankaði við sér og snéri sér í snatri við og stefndi aftur út í dýpið.

Þannig fór um veiðiferð þá og þegar ég var hættur að finna fyrir tánum fyrir kulda, hélt ég heim á leið og í sannleika sagt; töluvert sáttur við þessa fyrstu veiðiferð ársins.

Meðalfellsvatn 3.apríl 2016
Meðalfellsvatn 3.apríl 2016

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 / 0 0 1

 

Meðalfellsvatn 3. apríl

Það var ekki beinlínis vor í lofti þegar ég lenti við Meðalfellsvatnið rétt um kl.11 í morgun. Lítilsháttar vindur og hitastigið rétt um 4°C og það brakaði og brast í íshrönglinu sem safnast hafði saman undan vindi við vestubakka vatnsins. Sú gula kúrði á bak við skýin og náði ekki alveg í gegn.

Meðalfellsvatn - vesturbakkinn
Meðalfellsvatn – vesturbakkinn

Þegar ég kom að vatninu var einn veiðimaður með spún við norðurströndina, annars ekkert um að vera. Þar sem vindur stóð af suð-austri, kom ég mér fyrir rétt austan við ós Sandár og reyndi að liðka ryðgaða kastvöðva. Eins og gefur að skilja var vatnið frekar kalt og ekkert líf að sjá utan álfta og nokkurra anda á ísskörinni við austurbakkan. Ég er nú samt ekki frá því að ég hafi fengið eitt nart, lengst, lengst út í dýpinu, en fiskur kom ekki á land. Hún er sem sagt formlega hafin hjá mér, baráttan við núllið. Það gengur bara betur næst.

Meðalfellsvatn - austubakkinn
Meðalfellsvatn – austubakkinn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 0 / 1

Meðalfellsvatn + Einkavatn, 26. júlí

Hann er mikill máttur þess hvernig menn lýsa veiðinni. Í morgun leit ég sem snöggvast á veðurlýsingar í grennd og tók þær svo nærri mér að ég varð svipaður veðrinu í framan, heldur þungbúinn. En, eftir hvatningu frá öðrum veiðimanni og lokkandi tilboði um heitt á könnunni frá vinnufélaga mínum uppi í Kjós, ákvað ég að renna í Meðalfellsvatnið. Eitthvað rættist heldur úr veðrinu á meðan ég renndi upp eftir og enn betra varð veðrið á meðan ég renndi úr tveimur kaffibollum á bökkum Meðalfellsvatns. Heilmikið líf á vatninu, fiskur að taka flugu á yfirborðinu og töluvert rót á honum við innstreymi Grjótár. Ég aftur á móti náði ekki nema einni smá töku áður en skyndilega dró ský fyrir sólu og stinningskaldi læddist yfir vatnið og þar með var allt merki um líf búið. Fiskurinn hætti að taka og gáran skóflaðist yfir vatnið þannig að ég pakkaði saman og stefndi annað. Eflaust hefur fiskurinn komið aftur til upp úr hádeginu, en ég nennti bara ekki að bíða eftir honum.

Ég lagði því land undir fót og færði mig nokkuð hressilega til og fór í vatn sem sjaldan hefur brugðist. Og ekki brást það heldur í dag. Það eru nokkrar flugur sem fiskurinn virðist alltaf taka í þessu vatni en í þetta skiptið ákvað ég að láta þær allar vera til að byrja með, reyna eitthvað nýtt. Þolinmæði er ekki endilega einn minna kosta og þegar ég var búinn að prófa einhverjar 4-5 flugur, brast múrinn og ég tók fram Orange Nobbler, eiginlega Orange Dýrbít. Og viti menn, auðvitað var tekið í fyrsta kasti langt úti í vatninu á töluverðu dýpi (var nefnilega að prófa nýlega intermediate línu). Eftir hetjulega baráttu þar sem tekið var reglulega út af hjólinu án þess að ég sæi fiskinn, náði ég að landa einum 2 pundara urriða.

Afli dagsins
Afli dagsins

Aftur greip þessi kergja um sig og ég tók til við að prófa aðrar flugur, án árangurs. Eftir svo sem klukkustund brast þolinmæðin enn á ný og ég setti Orange Nobbler undir. Já, og auðvitað kom annar tæplega tvö pund á hjá mér. Sá var af einhverjum öðrum stofni heldur en sá fyrri því hann fór í loftstökkum 3-4 metra í einu eftir vatnsfletinum nokkuð ítrekað þannig að ég átti fullt í fangi með að halda honum. Að endingu náði ég þó að kom honum í háfinn og nú eru þeir félagar báðir komnir í frystinn hjá mér og bíða reykingar. Flottur dagur og sumarið komið. Næsta ferð? Tja, ætli Framvötnin séu ekki á dagskrá í næstu viku.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 16 / 11 / 2 15 / 20 16 / 22

Meðalfellsvatn, 1. júní

Ekki var nú blíðan að flækjast fyrir manni um helgina, en um leið og vind lægði aðeins í gær ákváðum við hjónina að skjótast í Kjósina rétt um kvöldmatarleitið. Meðalfellsvatnið tók á móti okkur í þokkalegasta veðri, örfáir dropar og hægur vindur úr ýmsum áttum.

Við röltum aðeins inn með vatninu að sunnan til að byrja með. Í þriðja kasti með nýju #5 stöngina setti frúin í bleikju sem stóð í þeirri trú að hún væri skilgetið afkvæmi flugfisks. Eftir nokkur hressileg stökk, þar sem bleikja afhjúpaði smágert vaxtarlag sitt þurfti frúin ekkert að hafa fyrir því að losa þann tittinn af. Grönn taka og ágætt að fiskurinn losaði sig sjálfur af. Ekki leið þó langur tími þar til frúin setti í þokkalegan urriða og það var ekki annað að sjá en frúnni þætti gaman að eiga við hann með nýju stönginni. Sjálfur setti ég í einn urriða sem tók Higa’s SOS en ég varð að hafa fyrir því að losa hann og skila honum aftur í ætið. Hann verður e.t.v. orðinn að matfisk síðar í sumar.

Frekar var nú rólegt þarna undir hlíðinni, þannig að við færðum okkur að ósum Sandár sem beljaði niður í vatnið. Góðar leysingar greinilega í gangi þarna fyrir ofan. Fyrstu köst okkar hjóna skiluðu strax narti, en engum tökum. Rétt í þá mund að konan hafði gengið frá stönginni tókst mér að setja í þokkalegan urriða á rauðan Nobbler. Þeim var ekki sleppt og bíður hann nú eftir plássi á grillinu.

Úr Meðalfellsvatni
Úr Meðalfellsvatni

Tvennt kom okkur hjónum á óvart í gærkvöldi. Fyrra var hve hækkað hefur í vatninu síðustu daga með síðbúnum leysingum. Ég er ekki frá því að yfirborðið sé einhverjum 30 sm. hærra en það var 1.apríl. Hið síðara er dræm aðsókn í vatnið þetta fallega kvöld. Kannski hafa veiðimenn bara verið svona úrvinda eftir kosningavökur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 2 1 / 7 8 / 12

Ummæli

07.06.2014 – UrriðiFlott. Hvernig stöng er nýja fimman?

Svar: Takk, löngu kominn tími til að taka fisk með sér heim. Ég gaf frúnni JOAKIM’S 9′ ELP stöng sem hún féll alveg kylliflöt fyrir eftir að hafa prófað á Miklatúni nýlega. Mjög skemmtileg stöng á fínum díl hjá þeim félögum. IM12 grafít eins og gerist í þeim bestu og flottur frágangur.

Meðalfellsvatn, 16. maí

Föstudagur, vikulokaferð efti vinnu í Kjósina til að vinda ofan af stressi vikunnar. Veðrið var alveg ljómandi mestan part leiðarinnar upp í Kjós, en svo tók smá gjóla sig upp og ýfði aðeins vatnið. Við hjónin stoppuðum ekkert rosalega lengi, en nóg samt til að ég fengi eitt, smá, agnarlítið nart, en mestu um vert, þá náðum við að hreinsa vinnuna út úr kollinum og renndum þannig fersk inn í helgina.

Meðalfellsvatn
Meðalfellsvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 4 5 / 9

Meðalfellsvatn, 7. maí

Samkeppni – það er orðið sem mér dettur einna helst í hug til að lýsa ferð minni upp að Meðalfellsvatni í kvöld. Þvílík samkeppni á milli náttúrlegrar flugu og manngerðrar. Eftir hlýindi dagsins var ekki nema von að eitthvað klak væri í gangi á vatninu og uppitökur og gleðilæti silungsins eftir því. Eftir að hafa byrjað á mínu hefðbundnu flugum var ekkert annað að gera heldur en slá þessu upp í kæruleysi og smella þurrflugu undir. Trúlega hefur allt hjálpast til við að gera mína flugu EKKI eins girnilega og þær náttúrulegu; léleg framsetning, ekki sú rétta o.s.frv. Í það minnsta varð ég ekki var fyrr en ég skipti yfir í Watson’s Fancy púpu með kúluhaus og gaf henni fullt leyfi til að sökkva eins  og henni sýndist. Þá fyrst og einmitt í fyrsta inndrætti varð ég var við fisk. Nokkrir tittir sem mér tókst að losa af án þess að taka þá í háfinn og tvo sæmilega sem ég tel til afla sem ég varð að taka í háfinn til að losa um fluguna. Ég segi sæmilega, en samt ekki nóg til að hirða þannig að þeir fengu líf líka.

Frábært kvöld og gaman að sjá lífið vera komið á fullan skrið í vötnunum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 2 0 / 4 4 / 8

Meðalfellsvatn, 23. apríl

Loksins, loksins. Ég sem var farinn að halda að það væri eitthvað að hjá mér. Við hjónin ákváðum að treysta veðurspánni og renndum upp í Kjós rétt fyrir hádegið í dag. Hitastigið rokkaði þetta frá 9 og upp í 11°C og vindurinn rokkaði frá nokkrum metrum og upp í töluvert fleiri.

Við reyndum fyrir okkur við Grjótá og framundan bænum Meðalfell, en án árangurs. Ekki eitt einasta högg hjá hvorugu okkar og þungu fargi af mér létt, loksins veiðiferð án afla. Á morgun kemur nýr dagur með nýrri árstíð, vetrarveiðinni er þar með lokið í bili.

Meðalfellsvatn
Meðalfellsvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 2 2 / 3

Meðalfellsvatn, 1. apríl

Vopnaður stöng #4 og púpuboxi, íklæddur ullarnærfötum innanundir, með taumaveski og veiðigleraugu í vasanum lét ég mig hafa það að renna upp í Kjós eftir vinnu í dag. Einhverra hluta vegna hefur það orðið að hefð hjá mér að byrja árið í Meðalfellsvatni, sama á hverju dynur. Það dundi nú svo sem ekki neitt í dag, veðrið var eins gott og það getur orðið á þessum árstíma, léttur austan andvari og hiti upp á 7 – 8 °C. Að vísu var ekki nema helmingur vatnsins komin undan ís, en það hefur nú oft verið minna þegar það opnar 1.apríl. Þar sem aðeins lítill hluti vatnsins var auður að vestan, renndi ég austur fyrir og kom mér fyrir í grennd við ósa Sandár. Loksins, ég var komin með stöngina aftur í hönd, frábær tilfinning.

Þegar ég mætti á staðinn laust eftir kl.17 voru tveir að veiðum fyrir botninum og mögulega einhverjir þrír við vestur bakkann. Fljótlega fór að bóla á fleiri veiðimönnum og mér var því ekki til setunnar boðið ef ég ætlaði að hafa eitthvert val um veiðistað svo ég smellti stönginni saman með hefðbundinni flotlínu og álíka hefðbundnum blóðormi #14 á u.þ.b. 12′ taum.

Fyrirfram ætla ég að biðja þá sem urðu vitni að næsta kafla sögunnar, afsökunar. Hann var ekki 50 sm. sjóbirtingurinn sem tók hjá mér í fjórða kasti, hann var víst 60 sm. (Ég hafði ekki tækifæri til að mæla háfinn minn sem ég notaði sem viðmið fyrr en ég kom heim) Já, ég opnaði reikning sumarsins með þessum líka glæsilega birtingi sem var að snuddast þarna örstutt frá landi og lét glepjast af blóðorminum mínum. Að fá að glíma við þennan bolta með stöng #4 var hrein og klár óska-byrjun sumarsins og gefur góð fyrirheit fyrir sumarið. Þess ber að geta að skv. venju var þessum fyrsta fiski sumarsins sleppt og var ekki annað að sjá en hann væri frelsinu feginn.

Af öðrum aflabrögðum fer ekki miklum sögum, heyrði þó af tveimur til viðbótar en síðan ekki söguna meir.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 1 0 / 1 0 / 1

Ummæli

01.04.2014 – Aron Jarl: Sæll Kristján, takk fyrir skemmtilegt spjall uppí Meðalfellsvatni í kvöld. Glæsileg byrjun hjá okkur að ná fiski fyrsta daginn þó svo ég hafi þurft að setja í minni pokann. Það er alltaf gaman að hitta menn sem eru kurteisir og til í að deila reynslu og sögum með manni á veiðistað. Ákaflega gaman og fróðlegt að skoða þetta blogg.
Bjóðormurinn stóð undir nafni sínu í kvöld. Maður sofnar með bros á vör á koddanum í nótt.
Kv. Aron Jarl

Svar: Sæll og takk sömuleiðis. Það er ekki minnst skemmtilegt að hitta aðra veiðimenn, þennan dag sem aðra, og skiptast á sögum og upplýsingum. Varðandi brosið; ég held að ég þurfi að leita mér aðstoðar, er orðinn aumur í kinnunum, næ bara ekki að þurrka þetta glott af andlitinu 🙂

02.04.2014 – Kristján Einar KristjánssonHrikalega gaman að rekast á ykkur þarna uppfrá, frábært kvöld og takk fyrir aðstoðina!

Svar: Takk, sömuleiðis. Bara óskandi að sumarið verði nú eins og gærdagurinn gaf fyrirheit um.

Meðalfellsvatn 21.apríl

Það getur nú varla talist góð frammistaða að láta 20 daga líða á milli veiðiferða. En eins og menn hafa e.t.v. orðið varir við þá virðist sem vorinu hafði verið slegið á frest þessar fyrstu vikur apríl þangað til í dag. Það var einhver reitingur manna við Meðalfellsvatnið upp úr hádeginu í dag, flestir að mér sýndist á beitu eða spún, fyrir utan okkur hjónin. Þokkalegasta veður, létt austanátt með hita upp á þetta 5-6°C. Vatnshitinn var aftur á móti einni gráðu hærri, í það minnsta við suðurbakkann sem við komum heimsóttum í þetta skiptið. Greinilega nokkuð í land að kjörhita verði náð. Lauflétt yfirferð yfir helstu púpur og nokkrar straumflugur gerði nú samt enga lukku þannig að við fórum fisklaus heim, rétt eins og í fyrstu ferð sumarsins.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 2

Ummæli

21.04.2013 – NafnlausÞurfa menn ekki að leita sér lækninga við því að fara til frostfluguveiða? (ha ha )

Svar: Jú, ætli það sé ekki nærtækast. En hefði maður slysast til að krækja í einn, þá hefði kæling aflans ekki verið vandamál 🙂 Annars var ég að spá í að hvort ekki væri hægt að fá svona hóp-meðferð því Svarti Zulu var greinilega á þessum slóðum rétt á eftir okkur eins og sjá má á blogginu hans hérna.

23.04.2013 – UrriðiOg hvar eru myndirnar úr þessari ferð? Miðað við aflatölur þá ættirðu alveg að hafa haft tíma í að smella af nokkrum myndum ;-) Ef það er e-ð hægt að setja út á bloggið þá er það skortur á myndum úr þessum ferðum þínum (að mínu mati).
Ég er reyndar rosalega mikið fyrir veiðimyndir og myndbönd eins og þú hefur líklega tekið eftir, kannski skiptir þetta minna máli fyrir aðra.

Svar: Æ, þurftir þú nú að herma upp á mig eitthvað markmið fyrir þessa vertíð, þ.e. að taka fleiri myndir. Annars er ég alveg sammála þér, myndirnar segja oft meira en þúsund orð og það hefur verið nokkuð oft á ‘listanum’, ég skal hlaða rafhlöðurnar í vélinni og taka hana með mér næst 🙂

Vel að merkja, ekkert smá flott nýja klippan hjá þér á Vimeo (sjá hér) það verður bara gaman þegar GoPro myndirnar fara að detta inn.

Meðalfellsvatn 1.apríl

Austlæg átt, þokkaleg bjart yfir og hitinn þetta á bilinu 6-7°C, næstum alveg eins og spáin hafði sagt fyrir um. Það var virkilega ánægjulegt að sjá hve margir veiðimenn tóku fyrri vaktina við vatnið þennan fyrsta dag í vertíð. Vatnið nánast íslaust, aðeins ís á víkinni undan Hjarðarholti, annars autt. Við hjónakornin potuðum okkur austast í röðina undan Meðalfelli, rétt við fyrsta bústaðinn á norðurbakkanum. Lítið varð maður nú var við fisk (ekkert) en það skemmdi nú ekki fyrir okkur ánægjuna að vera loksins komin með stöngina í hönd og fluguboxið í vasann. Ekki var að sjá að aðrir væru mikið meira að taka fisk, en okkur tókst ekki að ná tali af mönnum því rétt upp úr hádeginu hurfu nánast allir af staðnum. Væntanlega búnir að fá nóg af engu. Það er bara að vona að seinni vaktinn verði lukkulegri.

Meðalfellsvatn 1.apríl 2013
Meðalfellsvatn 1.apríl 2013

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 1

Ummæli

02.04.2013 – Eiður KristjánssonNúllaði líka, fór í Vífó eins og svo margir aðrir :) Ertu búinn að sjá þessa síðu? http://www.danica.com/flytier/ Þarna er ógrynni af flottum flugum og endalaust af hugmyndum.

Svar: Já, þessi er alltaf ofarlega á listanum hjá manni, hreinn snillingur hann Hans Weilenmann og svo eigum við líka okkar fulltrúa þarna inni, Viðar Egilsson í Litlu flugunni / Gallerí flugur

Þrenna 2. september

Öll veiði bönnuð

000 – Blíðviðrið í dag dró okkur hjónin í smá hringferð með stangirnar. En, það var eins og þetta skilti sem varð á vegi okkar  hefði sett regluna í ferðinni. Við sem sagt núlluðum á Nautatanga við Þingvallavatn, núlluðum í Einkavatni (sem við höfum lítið heimsótt í sumar) og svo fullkomnuðum við þrennuna með því að núlla við Meðalfellsvatnið.

Eini staðurinn sem við urðum vör við eitthvert líf var í Meðalfelli þar sem ég fékk eitt nart, en ekki söguna meir.

Tapað og fundið

Á rambi mínu við Nautatanga fann ég útidyralykil (ASSA) í miklu bláu bandi. Lykillinn sjálfur er afar skrautlegur og er eigandi hans beðinn að lýsa honum ef hann vill vitja hans. Væntanlega einfaldast að senda mér tölvupóst með því að smella hér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 73 / 34 14 28 / 33 4 34 14

Ummæli

03.09.2012 – Árni Jónsson: Tók einmitt tvö sjálfur og núllaði líka. Þingvelli & Úlfljóts. Sá einn fisk á Þingvöllum og hann leit á mig með svip sem að sagði “Farðu, tímabilið er að verða búið”. En gullfallegt veður og spegill í langan tíma.

03.09.2012 – UrriðiTja, það sem ykkur skorti í þolinmæði bættuð þið upp með yfirferð. Þrjú vötn á einum degi er alveg ágætt. Og ég var svosem heldur ekki var við uppítökur, sá einu sinni breskan veiðiþátt þar sem kom fram að silungur(og lax) gætu ekki lokað augunum því það vantaði á þá augnlok. þáttarstjórnandinn vildi því meina að silungur héldi sig dýpra þegar það er sól(enn dýpra ef það er logn) en í yfirborðinu þegar það er skýjað(og helst gárað). Sem stangast algjörlega á við veiðimenninguna á Íslandi, hérna taka menn ekki fram þurrflugur nema vatnið sé spegilslétt og veðrið gott en grýta svo út þungum púpum um leið og vatnið gárast! Fiskurinn er örugglega miklu meira í yfirborðinu þegar það er gárað, þá sjáum við bara ekki uppítökurnar. Enda veiða fáir betur í Laxárdal en bretarnir sem nota þurrflugur/yfirborðsflugur í öllum veðrum.

SvarJá, þetta er viðtekin skýring (augnlokin) og oft vísað í hana. Við hérna norður á hjara veraldar njótum góðs af því að stóran hluta ársins varpast sólarljósið skáhallt á yfirborðið og brotnar fyrr heldur en nær miðbaug og því fær fiskurinn hér síður glýju í augun. Þurrfluguveiði er stórlega vanmetin á Íslandi, það hef ég séð í sumar þegar konan er að rífa upp hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ég kroppa þetta með púpunum mínum 🙂  Þetta er kannski bara efni í nokkrar greinar.

03.09.2012 – UrriðiÉg fatta ekki alveg hvað menn hafa á móti sól og góðu veðri í vatnaveiði, ég hef gert mína bestu vatnaveiði í góðu veðri(kannski vegna þess að ég nenni ekki að standa lengi við vötn ef veðrið er leiðinlegt). Þessi (http://i.imgur.com/KVa4f.jpg ) tók núna um helgina í 22°C, blankalogni og glampandi sól um miðjan dag. Ég var bara á gönguskóm og kastaði frá landi, svo það er ekki eins og hann hafi verið e-ð lengst úti í dýpinu! Mér finnst veðrið skipta mun meira máli þegar maður er að veiða í straumvatni, en í vatnaveiði skiptir það mig engu máli. Silungurinn hættir ekkert að borða þó það sé gott veður, þeir skora sem þora :)

Þakka enn og aftur fyrir skemmtilega síðu!

Svar: Tvö vötn af þremur voru mjög tær, heiðskýrt og glampandi sól og við urðum ekki vör við neinar uppitökur þrátt fyrir að steinflugur væru á vatninu. Þriðja vatnið var örlítið skolað, kannski nóg til þess að sólarglampar náðu takmarkað niður í vatnið og þar urðum við vör við uppitökur. En, mikið rétt, fiskurinn hættir ekkert að borða þótt það sé glampandi sól, okkur tókst bara ekki að koma flugunum niður á rétt dýpi fyrir hann. Kannski var þolinmæðis taumurinn eitthvað stuttur í okkur 🙂

P.S. Prufan þín skilaði sér, en ég samþykkti hana ekki 🙂

02.09.2012 – ÁsiTakk fyrir sögur þínar og leiðinlegt að þú skyldir núlla. Veðrið hefur trúlega hvort tveggja lyft degingum og dregið niður. Ég snéri við í huganum í morgun og ákvað að fara heldur seinnipartinn á morgun. -Fannst allt of mikil sól.

Svar: Já, þetta er ekki ólíkt og þrá manna eftir rigningu í þurrki og svo uppstyttu í regntíð, en veðrið var einfaldlega allt of gott til að sitja heima og skrifa greinar fyrir næstu vikur. Góða skemmtun á morgun.

Meðalfellsvatn, 21.apríl

Tókum á okkur smá krók á heimleiðinni og bleyttum færi í Meðalfellsvatninu. Voru seint, en ekki nógu seint á ferðinni til að ná í kvöldveiðina og stoppið var stutt. Ekki margir veiðimenn á stjái, sáum til einhverra þriggja sem voru á förum. Höfðum engar fréttir af veiði, og stoppuðum sjálf frekar stutt.

Eitt vorum við hjónin þó sammála um; Vífilsstaðavatn er kaldast af þeim vötnum sem við höfum farið í þetta vorið sem er einkennilegt því það stendur alls ekki hæst þeirra. Miðað við útrennsli, en það er mest í Vífó miðað við stærð, þá gæti það verið skýringin á þessum kulda. Vatnið sem streymir inn í það kælir væntanlega mest. Meðalfellsvatnið hefur vinninginn í þroska, þar eru felstar flugurnar komnar á stjá og eitthvað segir mér að gróðurinn sé komin lengst.

Já, eins og ég sagði í fyrri grein í dag, þá er þetta frekar snautlegt, aðeins tveir fiskar í sex ferðum, en það var gott að komast aftur í veiðina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  6  4

Ummæli

22.apríl 2012 – Gústaf Ingvi: Er að lenda í svipuðu og þið hjónin, er búinn að núlla nokkrum sinnum við vötn sem maður var vanur að fá fiska á þessum árstíma. En að góðu fréttunum þá er maður búinn að ná af sér hrollnum og er til búinn fyrir steinsmýrina í næstu viku.

22.apríl 2012 – SvarTakk fyrir þetta, hughreystandi að heyra. Var farinn að halda að við værum algjörlega búin að missa taktinn. Ég datt auðvitað í grúskið og bar saman hitatölur frá því í fyrra og hitteðfyrra og fann stóran mun: Þegar hitastigið náði loksins þetta 3-8 °C að deginum í fyrra (voraði seint og illa) var nánast ekkert næturfrost. Sömu sögu má segja um 2010, en þá voraði um svipað leiti og í ár. Núna (2012) er aftur á móti búið að vera stöðugt næturfrost alveg frá því í byrjun apríl. Ætli fiskurinn fari sér bara ekki hægar þegar sveiflurnar eru svona miklar á milli dags og nætur.

23.04.2012 – Árni JónssonEkki ertu einn í þessu, né tvö, því almennt er ansi dræm veiði á syðri endanum samkvæmt öllum sem að ég hef rætt við. Sjálfur er ég búinn að reyna Vatnamót, Varmá, Víkurflóð, Vífó & Meðalfellsvatn og allur aflinn telur 1 saklausa bleikju, sem að fékk líf. Fisk hef ég þó séð í Víkurflóði & Grímsstaðarlæk, en ekki í neinu magni. Ég bíð ólmur eftir því að uppáhaldið mitt Þingvellir opni, enda farinn að vopnbúast bókstaflega!

Meðalfellsvatn, 8.apríl

Til að rýma til fyrir meira súkkulaði brugðum við hjónin okkur í Kjósina upp úr kl.15 í dag. Veðrið var alveg ágætt, gekk á með sólarglennum og örlítilli golu. Hitastigið var þetta rétt rúmlega 3°C á mæli en virkaði alls ekki svo svalt. Þar sem vindáttinn var af vest-suðvestan komum við okkur fyrir undir hlíðinni að sunnan, einu veiðimennirnir á staðnum. Og til að gera langa sögu stutta, frúin kvittaði í veiðibók ársins með tæplega punds urriða sem hún tók á svarta mjónu með gyltum kúluhaus. Að þessu sinni var fiskurinn settur undir smásjánna og magainnihald skoðað; eitthvað af lirfum (lítið þó) en aðallega kuðungur.

Annars virðist lífríkið vera að taka svolítið við sér, hettumáfurinn mættur á staðinn ásamt sílum og seiðum sem héldu til við bakkana. Sko, ég sagði að sumarið yrði snemma á ferðinni, mér er alveg sama hverju veðurfræðingar spá fyrir næstu daga.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
2 1  2

Meðalfellsvatn, 1.apríl

Oft hefur nú fyrsti dagur í veiði verið hráslagalegri heldur en dagurinn í dag. Veiðifélagið tók sig til í allri sinni mannmergð og tróð sér, stöngum, vöðlum og öðrum græjum í jepplinginn og tók stefnuna á Kjósina þennan fyrsta dag í vertíð. Miðað við árstíma getur víst enginn kvartað undan veðrinu, þokkalega hlýtt og gola með köflum.

Mannmergðin við vatnið var slík að engu var líkara heldur en Bubbi sjálfur væri með útitónleika á staðnum. Menn sitt hvoru megin við Bugðuós og alveg inn eftir ströndinni að norðan. Það var líka staðið þétt undir hlíðinni að sunnan þannig að við ákváðum að koma okkur fyrir á tánni gengt syðri bátaskýlunum og dreifðum úr okkur eins og kostur var. Ég hrökklaðist aðeins undan suð-vestanáttinni út á grynningarnar utanvert í víkinni. Hefði viljað koma flugu upp í vindinn en var ekki alveg að ná þeim köstum sem ég vildi svo ég lét bara vaða undan vindi út í dýpið. Prófaði Héraeyra, Pheasant Tail en tók svo loksins einn rúmlega pundara (urriða) á Svarta og rauða mjónu (Buzzer) sem hann hefur væntanlega tekið í misgripum fyrir mýlirfu. Samkvæmt venju fékk fyrsti fiskur ársins líf og ég sá ekki betur en hann hafði verið frelsinu feginn.

Ekki fór neitt meira fyrir veiði í okkar hópi, raunar held ég að lítið hafi komið á land þennan fyrsta dag. Vonandi þó nóg til að viðhalda áhuga manna þangað til fiskurinn fer að gefa sig að ráði.

Aðeins eitt að lokum: Það er ekki oft sem maður er óhress með traffíkina á blogginu, en mér finnst nú eins og þeir 203 (þegar þetta er skrifað) sem höfðu ekkert annað að gera í dag heldur en kíkja inn hefðu átt að láta slag standa og skella sér í veiði í stað þess að vafra á netinu 🙂  Nei, annars, takk fyrir öll innlitin á árinu; 14.082 fyrstu þrjá mánuðina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
1 1  1

Ummæli

Árni Jónsson 03.04.2012 – Fór Vífilstaðarvatn og þótt að fjöldi hafi verið, þá var það þolanlegt. Urðum ekkert varir, en aðeins ein bleikja rétt yfir pundi var kominn á land. Veðrið var fallegt með lítilli golu, og ekki laust við að þungu fargi vetrar sé af manni létt.

Meðalfellsvatn, 21.júní

Eins gott og veðrið var í höfuðborginni í gærkvöldi, var það ekki alveg eins stillt í Kjósinni. Þegar við hjónin mættum á svæðið upp úr kl.20 var strekkings vindur og ekki álitlegt að koma út flugu en við létum okkur hafa það og komum okkur fyrir rétt vestan við Hljóðasteina. Um leið og vindur fór að ganga niður tók fiskurinn við sér og frúin setti í flottan punds urriða með Pólskum Pheasant Tail. Sjálfur var ég í ungbarnaeftirlitinu, tók þrjá titti á Peacock, Pólskan PT og Rolluna. Töluvert af fiski að vaka en mér sýndist að við værum þau einu sem eitthvað tókum af þeim 3-4 sem voru á staðnum.

Meðalfellsvatn, 7.maí

Karladeild veiðifélagsins, þ.e. við bræðurnir skruppum í Meðalfellsvatnið rétt fyrir hádegið í rjómablíðu. Komum okkur fyrir austan Hljóðasteina og teygðum úr taumum. Brósi átti vinninginn að öllu leiti í dag, varð fyrstur var, tók fyrsta fiskinn og flesta, samtals 8, þar af þrjá mjög þokkalega. Sjálfur vígði ég nýju Joakim’s stöngina með því að taka 3 í minni kantinum sem fengu líf. Þær flugur sem gáfu voru; Buzzer svartur/silfraður, Buzzer svartur/rauður og auðvitað Vinstri græn – wired. Frábær ferð í alla staði.

Þegar heim var komið beið skemmtilegur póstur eftir mér, haldiði að karlinn hafi ekki bara verið dreginn út af póstlista Veiðiheims og unnið flugubox ásamt tveimur öðrum. Já, það getur borgað sig að eiga vini á Facebook.  Á morgun er það svo Klambratúnið með ‘hinum’ Joakimunum.

Meðalfellsvatn, 1.maí

Loksins kom að því í ‘sumar’, fyrsti fiskurinn og það bara nokkuð vænn urriði úr Meðalfellsvatni, ríflega 1 pund sem auðvitað fékk líf. Við veiðifélagarnir og hjónin smelltum okkur upp á von og óvon í Kjósina eftir hádegið í dag þrátt fyrir frekar kuldalegt veður. Auðvitað snjór yfir öllu og aðeins 1-2°C en algjört logn og í raun einstök blíða. Reyndum ýmsar flugur, púpur og nobblera, en sú sem gaf var auðvitað Vinstri græn – wired.

Meðalfellsvatn, 2.apríl

Létt kastæfing við Meðalfellsvatnið í dag í c.a. 2 klst. Vatnið orðið íslaust að mestu, aðeins smá ræma við Hljóðasteina er þakin íshröngli ásamt Vatnsvíkinni. Sáum töluvert líf í Hjarðarholtsvík og út af Víkurtöngunum, en því miður var fiskurinn ekki í neinu stuði.

Meðalfellsvatn, 19.sept.

Það fór nú eins og mig grunaði. Fallegu lýsingarnar af háttarlagi fiskanna í Meðalfellsvatni urðu til þess að við hjóninn skruppum þangað upp eftir í dag og auðvitað slóst nýjasti fluguveiðimaður Íslands með í för. Líkt og í gær var ágætis veður, aðeins kaldara þó. Eitthvað var ég slakari heldur en í gær, missti fleiri fiska sem ég kenni auðvitað slakari tökum um, en heim kom ég þó með 7 stk. Frúin tók þrjá og missti alveg helling, helst þegar þeir voru komnir á loft og stefndu í greipar henni. Sjálf hafði hún á orði að e.t.v. væri sniðugt að taka með sér háf og venja sig á að góma þá þannig. Stóri bróðir tók 7 stk., flesta á flugu sem hann hnýtti sjálfur sem bara jók á kikkið síðan í gær. Sannkallaður ‘killer’ á ferð.