Kleifarvatn, 13. ágúst

Fyrsti skreppur eftir sumarfrí í veiði var nú ekkert í líkingu við næstu á undan en ánægjulegt þó að komast loksins aðeins frá daglegu amstri. Fyrir valinu varð að skjótast í Kleifarvatn. Eftir nokkur döpur ár og frekar neikvæðar fréttir af þessu annars ágæta veiðivatni, þá virðist eitthvað vera að rofa til. Nokkrir veiðimenn hafa verið að fá fína urriða og þokkalegar bleikjur í vatninu síðustu vikur, þannig að mér fannst ekkert úr vegi að reyna við vatnið einu sinni í sumar.

Við hjónin vorum mætt nokkuð tímanlega fyrir kvöldstilluna og þreyttum sjálf okkur í nokkurn tíma á móti vindinum undir Vatnshlíðinni þar til vindurinn datt niður og stillan tók við. Og það var eins og við manninn mælt, vökurnar byrjuðu …. langt utan kastfæris. Þeir fáu fiskar sem hættu sér nærri bakkanum voru flestir undir matfiskstærð, en okkur tókst að særa upp tvö fiska á þeim skamma tíma sem stillurnar vörðu, 15 og 30 sm. bleikjur. Sú stærri var vel í holdum, fallegast fiskur og án allrar óværu. Kannski er bleikjan bara að ná sér aðeins á strik í vatninu.

Einhver reitingur af veiðimönnum voru á staðnum, en ekki þori ég að segja til um hversu mikill aflinn hafi verið hjá mönnum. Margir létu sig hverfa um leið og kulaði þannig að það er e.t.v. einhver vísbending um að ekki hafi allir verið í fiski.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 75 / 72 / 0 15 / 21 18 / 24

Kleifarvatn, 26. apríl

Smá skreppur suður að Kleifarvatni í morgun. Glampandi sól, vestan stinningskaldi og ekki einn einasti fiskur í augsýn. Hvað um það, þetta var hressileg byrjun á deginum sem ég hefði ekki viljað missa af. Kleifarvatnið vel statt hvað varðar vatn, að vísu svolítið í kaldari kantinum, en það hefur nú svo sem aldrei verið neitt sérlega hlýtt.

Við reyndum stuttlega fyrir okkur við Lambatanga en færðum okkur fljótlega að Lambhaga án þess að verða vör við fisk þannig að heim fórum við með ferskt loft í lungum og ég er ekki frá því að smá roði undan sól hafi gert vart við sig.

Kleifarnvat
Kleifarvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 2 3 / 5

Kleifarvatn, 20.maí

Það eina sem ég krækti mér í, í þessari veiðiferð var heiftarlegt kvef, hausverkur og hiti. Fæ eflaust orð í eyra frá yfirmanninum að flækjast þetta út í skítkalt vatn rétt í upphafi vinnuviku og liggja svo í bælinu á mánudaginn. Við hjónin létum glepjast af fallegu veðrinu og brugðum okkur í kvöldveiðina upp úr kl.21. Ekki leyst okkur nú samt á blikuna þegar við mættum hverjum veiðibílnum á fætur öðrum á Krísuvíkurveginum og fæstir ökumanna glaðlegir að sjá. Enda kom það á daginn að vatnið var mjög kalt þrátt fyrir hlýjan og sólríkan daginn. Við komum okkur fyrir undir Vatnshlíðinni og renndum í snarheitum í gegnum nokkrar flugur án þess að verða vör við einn einasta fisk. Töluvert var samt af rykmýi á vatninu og undir eðlilegum kringumstæðum hefði fiskurinn átt að vaka eitthvað, en það var öðru nær. Enn ein fisklaus ferðin var staðreynd.

Rétt er að setja hér fram játningu synda minna og lagfæra talningu veiðiferða. Þannig er að í síðustu viku brugðum við okkur í Kleifarvatnið eitt kvöldið og ég lét þess ekki getið hér á blogginu. Hér með hef ég játað á mig fölsunina og leiðrétti því fjölda ferða og núllin sem þeim hafa fylgt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 2 2 1  14 11

Kleifarvatn, 29.apríl

Veiðifélagið eins og það lagði sig skrapp í Kleifarvatnið í dag.

Svo mörg voru þau orð.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  9 7

Ummæli

G. Hjálmar 29.04.2012Ég kannast svo sannarlega við það sem þú ert að ganga í gegnum! Fjórar ferðir og enginn afli, ekki gott fyrir sjálfstraustið það.

Kleifarvatn, 28.apríl

Nokkuð erfiðar aðstæður; rok, rigning og kalt með köflum. Ágætis kastæfingar undir klettum Indjánans rétt fyrir kvöldmat og svo smá æfing á móti vindi undir Hverahlíðinni. Við erum sammála um það hjónin að framsetningar okkar með nýju línunum eru alveg að detta inn, skemmtilegar línur á móti vindi. Ekki eitt einasta orð um fisk. Það er nú farið að þyngjast í mér hljóðið núna.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  8 6

Ummæli

Urriði 29.04.2012: Það er búið að opna Reynisvatn ;)

Kristján 29.04.2012: Úps, hér brestur mig bara orð. Eigum við bara ekki að segja að ég hef aldrei komist upp á lagið með að veiða eldisfisk :-)

Kleifarvatn, 22.apríl

Og enn bætum við hjónin við í ‘núll’ ferðir okkar þetta vorið. Brugðum okkur í Kleifarvatnið og ætluðum nú aldeilis að láta reyna á hina marg rómuðu kvöldveiði. Vorum mætt upp úr kl.20 við syðrihluta vatnsins þar sem tveir veiðimenn höfðu barið það í nokkurn tíma en ekkert fengið. Þrátt fyrir nokkurn vind létum við okkur hafa það að særa út flugur af hinum ýmsustu gerðum allt fram í myrkur án þess að verða vör við einn einasta fisk. Annars gekk vindurinn niður og brast á með hinu fallegasta veiðiveðri og það greip um sig þessi yndislega tilfinning að fátt er betra en standa á vatnsbakka í blíðunni og velja spekingslega upp úr boxunum. Ágæt sárabót í ‘núllinu’.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  7 5

Kleifarvatn – 25.sept.

Ég get svo svarið það að veðrið var hreint ekki eins og spáin sagði til um. Ef það sem kom ofan úr loftinu við Kleifarvatnið fyrir hádegi í dag var lítilsháttar rigning og vindurinn aðeins 1-3 m/sek. þá er eitthvað farið að slá útí fyrir mér. Ásetningurinn var að komast í það minnsta í eina veiði áður en dagatalið segði mönnum að nú væri mál að hætta og það tókst. Að vísu var lítið um aflabrögð hjá okkur þremur sem fórum, aðeins einn veiðimaður varð var við fisk undir Vatnshlíðinni, aðrir ekkert. Nú eru aðeins 5 dagar eftir af dagatalinu og ef veðurspámenn ljúga ekki þeim mun meira, þá eru nú ekki miklar líkur á að maður fari meira þetta haustið.

Kleifarvatn, 13. ágúst

Það var engin frægðarför hjá veiðifélaginu í Kleifarvatnið í dag, allir núlluðu fyrir utan frúnna sem tók einn titt undir Lambhaganum á Peacock. Annars byrjuðum við á nokkuð skemmtilegum stað innan við Geithöfða en stoppuðum stutt þar sem töluverður vindur setti öll köst úr lagi. Eigum samt örugglega eftir að prófa þann stað síðar, stutt í dýpið þar sem spekingarnir segja að þeir stóru haldi sig.

Hlíðarvatn & Kleifarvatn 16.-18.júní

Eftir vel ígrundaða yfirferð allra mögulegra og ómögulegra veðurspáa ákvað veiðifélagið að smella sér í Hlíðarvatnið í Hnappadal þann 16.júní upp á þá von að vindstyrkurinn yrði ekki alveg sá sami og spáð var. Í stuttu máli; spárnar gengu eftir og vel það. Þrátt fyrir afleit skilyrði tóks veiðifélögum að særa upp eina 9 fiska, bleikjur og urriða rétt um pundið í landi Hraunholts. Einn tekinn á svartan og gylltan Tóbý, ein á Pólska Pheasant Tail (með koparkúlu og rauðum kraga) og restin á maðk.

Ferðakort

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með enn meira roki þannig að ákveðið var að renna í Borgarnes og taka veðrið þar. Þar sem við höfðum engan áhuga á að taka það veður með okkur, skildum við það bara eftir og ókum sem leið liggur (á ská með krókum) yfir Draga og í Svínadalinn ef ske kynni að lognið ferðaðist ekki eins hratt yfir á þeim slóðum. En, nei ekki varð sú raunin þannig að haldið var áfram fyrir Hvalfjörðinn, inn Kjósina og upp að Þingvallavatni sem lofaði góðu megnið af Grafningum. Hvað sem segja má um nýja svæðið á Veiðikortinu, Ölfusvatnsvík, þá er þetta nú ekki hlýlegasta svæði landsins þannig að við héldum áfram að Úlfljótsvatni (stutt stopp, samlokur og djús) og þaðan niður á Suðurlandsveg í átt til Reykjavíkur, en… sagan er ekki öll. Það er nefnilega hægt að skjótast af Suðurlandsveginum yfir í Krísuvík um Bláfjöll, sem við og gerðum. Næstum logn og blíða, hlýtt og hið ákjósanlegasta veður þannig að við komum okkur fyrir við Lambahaga, Vatnshlíðarmeginn og settum út færi. Eftir smá tilraunir með einhverjar flugur, endaði ég á því að setja Rolluna undir og viti menn, fjögurra punda bleikja greip tækifærið og festi sig kyrfilega á hjá mér en þar með er líka sögum af veiði að mestu lokið fyrir utan tvo titti sem gáfu sig veiðimönnum á vald í dag (18.) annar á svartan Buzzer en hinn á maðk. Trúlega eru þessir fiskar einhverjir dýrustu fiskar sumarsins, sé allt talið; veiðileyfi í Hlíðarvatni og bensínkostnaður tveggja bíla með fellihýsi í eftirdragi um meira eða minna allt suðvestur horn landsins, en gaman var þetta nú samt.

Kleifarvatn, 12.júní

Báðar deildir veiðifélagsins fóru í Kleifarvatnið í gær. Byrjuðum undir Syðristapa (Indjánanum) í rjómablíðu þar sem konan fékk eitt högg og ég setti í einn titt á stuttan svartan Nobbler, aðrir ekkert. Enn og aftur má kvarta yfir veðrinu, það var allt of bjart. Síðari hluta dags tókum við okkur upp og fórum undir Vatnshlíðina miðja þar sem ég setti í tvo titti, annan á stuttan orange Nobbler en hinn á mjónu með gylltum kúluhaus. Veiðifélagarnir tóku tvo á maðk. Ég gerði mér nokkrar vonir um að fiskurinn gæfi sig þegar sólin fór að setjast á bak við Hellutinda, en það brást. Þegar við tókum okkur saman upp úr kl.22 var töluverður fjöldi veiðimanna mættur undir Vatnshlíðina og alveg inn í botn víkurinnar við Lambhaga þar sem fiskurinn (væntanlega tittir) sýndi listir sínar í yfirborðinu af miklum móð. Við hjónin teljum fullreynt með veiði í Kleifarvatni upp úr hádegi og frameftir degi. Annað mál með kvöld og miðnæturveiði ef eitthvað er að marka allt það líf sem var í vatninu á þessum slóðum rétt fyrir kl.23 í gær. Kannski við laumust eitthvert kvöldið í stillunni? 

Kleifarvatn, 2.júní

Þrír fjórðu veiðifélaganna fóru í Kleifarvatn í dag. Ekki hægt að segja að ákjósanlegustu skilyrði hafi verið fyrir hendi, töluverður vindur og ekkert sérlega hlýtt. Ákváðum að byrja við hverasvæðið við Lambatanga undan vindi en urðum ekki vör við fisk. Færðum okkur síðan undir Innristapa (Stefánshöfða) og þar setti ég í einn urriða (titt) sem sleit sig af við löndun, kannski eins gott. Eftir að hafa barið vatnið í nokkurn tíma ákváðum við að renna norður fyrir vatnið undir Vatnshlíðina. Vorum frekar innarlega í smá tíma án þess að verða frekar vör. Eins og karlinn sagði um árið, það gengur bara betur næst.

E.S. ég játa að það vantar nokkrar ferðir á bloggið sem hafa verið farnar á bilinu 7.maí til dagsins í dag; 2 x Vífilsstaðarvatn, Meðalfellsvatn og Kleifarvatn. Kannski vegna þess að aflabrögð voru eins léleg og þau geta orðið, núll.

Kleifarvatn 17.júlí

Jú, verð að setja svona mynd á söguna því ég fékk einn mjög vænann urriða og missti annan.  Stóri bróðir fékk einn líka.  Betri helmingurinn kom heim með öngulinn í rassinum.

Get ekki orða bundist yfir umgengni manna við vatnið.  Maður er orðinn nokkuð vanur því að flækjast í girnisafgöngum og ýmsu drasli sem menn skilja eftir sig.  En, að festa í plastpoka í vatninu með haus og úldnum innyflum er svolítið of mikið.  Hvað í andsk….. gengur mönnum eiginlega til?  Er það virkilega til of mikils mælst að menn takið með sér og komi í sorpílát því sem menn ekki éta eða vilja hirða?  Fyrir utan það að henda slógi aftur í vatnið viðheldur aðeins ormi og óværu í fiskinum.  Ef menn geta ekki hugsað sér að taka slóg með sér, þá er skárri kostur að urða það í móanum þannig að vargurinn komist ekki í það og beri orm og egg aftur í vatnið.