Hraunsfjörður 5. og 6. júní 2021

Hann getur verið dyntóttur, Hraunsfjörðurinn, en það er alltaf eitthvað við það að setja vagninn niður í Berserkjahrauni, draga á sig vöðlur, græja stangirnar og renna jakkanum upp í háls.

Þess síðast nefnda reyndist þörf s.l. helgi þegar við eyddum laugardagseftirmiðdeginu og sunnudeginum við Hraunsfjörðinn. Það var raunar afskaplega milt og fallegt veður, sól á Stökustað, rigning eða léttur úði í Grennd og víðar, en heilt yfir hlýtt og stillt veður. Frábært til þess að eyða í kyrrðinni og fegurðinni á Snæfellsnesi.

Það var enginn sprengur á okkur á laugardaginn, þannig að við vorum frekar seint á ferðinni, ekki mætt niður við vatn fyrr en rétt um kl.14 en vorum þá búinn að tjalda vagninum í fyrsta skiptið í sumar, þ.e.a.s. í útilegu. Á leið okkar út á Búðanes mættum við þremur fræknum veiðimönnum af Skaganum sem létu lítið af veiðinni en höfðu hitt frækinn veiðimann sem hafði krækt í 6 bleikjur, skömmu síðar mætti ég nokkrum til viðbótar sem höfðu sömu sögu að segja. Hraunfjörðurinn var því greinilega í sínu dyntótta skapi þennan daginn, afar misjafnt hvort menn höfðu orðið varir og þá hvar.

Við skönnuðum vatnið frá tánni á Búðanesi og inn að eyjunni / skerinu undan hrauninu. Það sást lítið til fiskjar en það er svo sem ekkert nýtt, hún gefur sig líka þótt hún sýni sig ekkert. Eftir töluverðar tilraunir og nokkrar pásur kom að því að veiðifélagi minn tók eina væna og skömmu síðar tók ég aðra rétt við eyjuna. Hængur og hrygna sem bæði létu glepjast af Pheasant Tail.

Það leið töluvert langur tími þar til ég varð var aftur og þá var ég kominn í gamalkunnugan gír sem grípur yfirleitt um sig þegar lítið er að gerast. Eftir að hafa prófað stærri flugur, minni flugur og bleikan Nobbler ákvað ég að setja Buzzer með raunar kinnar undir, þrykkja honum vel út og ekkert leyfa honum að sökkva, heldur draga hann inn með tiltölulega hröðum rykkjum. Þetta bar þann árangur að það var nartað í fluguna. Þá var úr vöndu að ráða; átti ég að hægja á eða átti ég að auka hraðann? Úr varð að ég kastaði styttra en áður og dró hraðar og það var tekið með látum, en …… eftir stutta en snarpa viðureign með skvampi og sporðaköstum stakk bleikjan af með fluguna mína. Eins og flestir fiskar sem ekki nást á land, þá var þessi ótrúlega stór, trúlega 80 til 90 sm, tennt eins og hákarl og með sporð á við tennisspaða. Þetta er í annað skiptið í sumar sem bleikja stingur af með varaskraut úr mínum fórum. (Þegar ég verð búinn að skrifa þessa grein, þá ætla ég að ná mér í girni og æfa nokkra nýja hnúta eða vanda mig betur). Skömmu síðar létum við gott heita, fórum ásamt kunningjum okkar í náttstað, átum á okkur gat og kjöftuðum í kyrrðinni fram í nóttina.

Það var ekki sprengurinn á okkur á sunnudagsmorgun, sváfum næstum af okkur Sjómannadagsmessuna, stungum úr nokkrum kaffibollum og spáðum í veður og veiðistaði. Enn áttum við veiðifélagarnir eftir að tölta brölta smá kafla í hrauninu neðan Arnarsteins til að loka hring okkar um Hraunsfjörðinn, þannig að úr varð að klára hringinn, það hafði hvort hið er ekkert verið mikið líf við Búðanesið.

Þetta byrjaði rólega, lifnaði lítið við og það bar helst til tíðinda að kunningjakona okkar tók upp svipaðan veiðistíl og ég, missti vænan fisk rétt í þann mund sem hann hefði átt að koma á land. Veiðifélagi minn tók til við ýmsar tilraunir með afleggjara og tökuvara og uppskar væna bleikju sem fékk far með okkur heim. Annars var lítið um að vera nema að það var sérstaklega áberandi að eftir rigningarskúrina, sem voru nokkrir, var eins og bleikjan færi hamförum í uppitökum, lengst úti á vatninu.

Lengi héldum við í vonina og ekki síst þegar kvöldkyrrðin tók við, en á endanum létum við undan klukkunni og dröttuðumst yfir hraunið og að Mjósundi þar sem bíllinn beið okkar. Þar bar að garði félaga okkar sem við höfðum hitt á Búðanesi deginum áður við þriðja mann, nú var sögustund. Þeir félagar höfðu ákveðið að halda aftur á Búðanesið á sunnudag og þar lentu þeir í fínni veiði, tóku 18 bleikjur og félagar hans voru enn að þegar hann þurfti frá að hverfa. Já, Hraunsfjörðurinn getur verið dyntóttur og ekki getur maður alltaf verið á réttum stað.

Hraunsfjörður 22. maí 2020

Veiðiferðir þetta vorið hafa ekki verið margar og það er víst endalaust hægt að telja upp ástæður þess, en nú var sænskur dagur á fimmtudaginn og við veiðifélagarnir þurftum virkilega á smá tilbreytingu að halda. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað sænskur dagur er, þá er það frídagur sem ber upp á fimmtu- eða þriðjudag og ætti því með réttu að færast til um einn dag til að lengja helgina.

Hvað um það, við félagarnir vorum svo heppnir að geta látið okkur hverfa í sumarbústað í Borgarfirðinum yfir þessa löngu helgi og vitaskuld tókum við stangirnar með, ef vorið gerði nú svo lítið að láta sjá sig eitthvað um helgina, sem það og gerði upp að vissu marki. Annars er það nú helst af vorkomu fyrir vestan að frétta að það er ekki von á neinni hraðasekt á þeim bænum, vorið fer sér afskaplega rólega í þessu öllu. Eitthvað hefur vantað upp á hitatölur og gróður ber þess alveg merki að það vantar smá yl í rótina, það sást ágætlega á ferð okkar vestur Snæfellsnesið á föstudaginn.

Annars tók Hraunsfjörðurinn á móti okkur með blíðu og það var nokkurt líf með veiðimönnum, meira að segja þeim sem höfðu veitt í kalsanum á fimmtudag og gist í Berserkjahrauninu um nóttina. Aðrir höfðu lagt land undir fót um morguninn eins og við og það var töluverður fjöldi veiðimanna á staðnum, bæði austan og vestan við fjörðinn.

Við töltum niður með Þórsá og út á Búðanesið þar sem við reyndum fyrir okkur í töluverðan tíma. Hægt og rólega færðum við okkur síðan til norðurs, heldur tíðindalítið rölt hjá mér en veiðifélagi minn fékk eina hörku töku á Krókinn. Sá fiskur var greinilega vel tenntur, því flugan fór beinlínis í tætlur og lítið eftir af henni annað en kúlan sem komin var aftur að agnhaldi og einhverjar tjásur af vínil.

Mér vitandi voru flestir í svipuð sporum og við, nema þá góður kunningi okkar af Skaganum sem gerði fanta fína veiði við eyjuna. Hjá honum komu á land 6 eða 8 fiskar og þar af einhverjar þær fallegustu bleikjur sem ég hef séð í langan tíma úr Hraunsfirðinum, feitar og fallegar. Það jaðraði við að maður yrði smá abbó, en fyrst og fremst samgladdist maður honum með þessa fallegu fiska.

Upp úr miðjum degi fór að blása nokkuð af norðri, þannig að við leituðum aftur á Búðanesið sunnanvert þar sem mjög ljósar flugur, eiginlega bara hvítar, nutu smá athygli fiskanna sem þar leyndust. Það fór svo að mér tókst að plata lítinn urriðatitt á agnarsmáan hvítan og rauðan Nobbler, en þar með er nú öll sagan af afla sögð. Eftir að hvatt gamla og nýja kunningja sem voru á staðnum, héldum við til baka fyrir kvöldmat. Hef ekki heyrt af veiði eftir að við fórum af staðnum, en fyrir mína parta var ég orðinn mettur af hraðfara súrefni að norðan, en mögulega hefur eitthvað hægt á því þegar leið á kvöldið.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
0 / 3
Urriðar í ferð
0 / 1
Urriðar alls
12
Veiðiferðir
4 / 5

Hraunsfjörður 23. apríl 2020

Sumardagurinn fyrsti, til lukku með hann og allt sumarið sem er framundan. Mér er eiginlega alveg sama hvað veðurfræðingar segja, þetta skal verða frábært sumar og mér fannst það persónulega byrja alveg ágætlega í dag. Veðrið var næstum alveg eins og sum sumur hafa verið, það skiptumst á skyn og skúrir, vindur og logn, glennur og glannaskapur.

Á vissum aldri gerist það að rúmið heldur manni ekki föngnum nema rétt fram að sólarupprás, maður er kominn á fætur fyrir allar aldir, stirður og næstum lurkum laminn eftir ekki nema örfárra klukkutíma svefn. Þannig var morguninn í morgun og það var ekki fyrr en á þriðja kaffibolla að hætti að braka í liðamótum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í kroppinum á mér. Þá er bara eitt að gera; drífa sig í veiði.

Fyrir valinu varð Hraunsfjörður, eins og svo oft áður þegar sumarið gengur í garð. Þessir fordæmalausu tímar, lesist sem túristalausu tímar, eru svo frábærir. Nú hefur maður eignast aftur sitt gatslitna malbik þjóðvegakerfisins og þarf ekki að deila því með nokkrum einasta manni. Maður getur næstum bara sagt bílnum að keyra vestur á Snæfellsnes og maður þarf ekkert að hafa áhyggjur af einhverjum bílaleigubíl sem er stopp næstum hálfur inni á veginum og fólki sem gónir eins og naut á nývirki á ósaltað hrossakjöt á fæti innan næstu girðingu. Sem sagt; við veiðifélagarnir renndum vestur á nesið í morgunsárið en stoppuðum reyndar við Langá, svona rétt aðeins til að þykjast vera túristar í eigin landi. Mig langaði reyndar rosalega mikið til að gera at í einhverjum og fara inn fyrir girðinguna sem á stóð ‚Aðgangur bannaður öðrum en veiðimönnum við Langá‘. Mér fannst ég uppfylla öll skilyrði þess að mega stíga inn fyrir girðinguna; veiðimaður (í það minnsta sjálfskipaður) og ég var við Langá. Mér tókst, með einum góðum kaffibolla og góni út í loftið að svæfa púkann sem rumskaði innra í mér, settist aftur inn í bílinn og hélt ferð minni áfram.

Hraunsfjörður tók á móti okkur um kl. 10 í blíðu, eða því sem næst. Hitastigið var í það minnsta vel yfir frostmarki, vindur ekki nálægt því að vera efni í gula viðvörun og úrkoman hefði ekki einu sinni getað orsakað smá spýju af skriðuföllum. Frábært veður til gönguferðar úr Berserkjahrauni, framhjá Réttinni og inn að Búðanesi. Dásamlegt veður og það fór bara batnandi eftir því sem leið á daginn.

Á einhverjum tímapunkti tókum við okkur pásu, gæddum okkur á heimasmurðum flatkökum með hangikjöti, aðeins meira kaffi, salamipylsu og góðum osti. Maður fann það hreint og beint að íslenska sumarið sogaðist niður í lungun á manni þar sem það kraumaði og kitlaði allar útivistataugar, snerti viðkvæmar veiðibakteríur sem tóku óðara við sér, fjölgaði hratt og breiddust út um allan kroppinn.

Ha? Ertu að bíða eftir veiðifréttum og tölum? Tja, þá verður þú að bíða aðeins lengur. Það er nefnilega alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt við allar veiðiferðir. Það jákvæðasta við þessa veiðiferð, umfram allt það sem hér á undan er talið, var einfaldlega það að það var engin fiskilykt af hvorki háfum né netum á leiðinni heim, bara fullt að íslensku sumri sem gengið er í garð.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
0 / 0
Urriðar í ferð
00
Urriðar alls
1 / 1
Veiðiferðir
22

Hraunsfjörður 24. & 25. maí

Við vorum að rifja það upp um helgina að fyrsta ferð okkar að vori með færanlega veiðihúsið okkar var þann 14. maí 2016 og þá var kalt yfir nóttina og hitinn yfir daginn rétt náði 12°C. Þrátt fyrir mjög lágar hitatölur í veðurspá helgarinnar, þ.e. yfir blá nóttina, þá létum við það ekki stoppa okkur á föstudaginn og renndum með allt okkar hafurtask vestur á Snæfellsnes. Bara til að hafa það á hreinu, þá náði hitastigið að degi til töluvert yfir 12°C, hrein og klár sumarblíða í firðinum.

Það var með eindæmum fallegt veður við Hraunsfjörðinn um kvöldmatarleitið á föstudag og við biðum ekki boðanna, heldur græjuðum okkur upp og töltum meðfram Þórsá út á Búðanes. Við gerðum nú e.t.v. ekki ráð fyrir að halda það út að bíða eftir síðdegisflóðinu um kl.23:00 + þann tíma sem það tæki að ná til Búðaness, en það fór nú svo að veðurblíðan, kyrrðin og vökur bleikjunnar héldu okkur við vatnið til að ganga tvö um nóttina. Afraksturinn var nú kannski ekki alveg í takt við þann tíma sem við eyddum við vatnið, tvær bleikjur sem ég vil reyndar meina að hafi slysast á sitt hvora fluguna því þær voru margar reyndar þetta kvöld í harðri samkeppni við órætt æti sem var í vatninu.

Við vorum mætt laust upp úr hádegi á laugardag í blíðskaparveðri niður að vatni og hugsuðum okkur heldur betur gott til glóðarinnar. Nú skyldum við ná árdegisflóðinu og máta nýjar og allt aðrar flugur. Við biðum og biðum, biðum aðeins lengur og örlítið meir eftir því að bleikjan léti sjá sig í björtu og fallegu veðrinu, en sýning var ekki í boði. Alla þessa bið notuðum við til að prófa hinar og þessar flugur, mismunandi inndrátt og dýpi, en við litlar undirtektir. Einhverjir tittir voru það eina sem við sáum og svo flundru veiðifélaga míns og eina bleikju sem fékk líf.

Einhverjum kann að þykja það slitin klisja að segja að veðrið, umhverfið og fegurðin hafi vegið upp fábrotin aflabrögð, en þannig var það nú samt hjá okkur á laugardaginn. Þrátt fyrir töluverða umferð við vatnið, þá náðum við ekki fréttum af aflabrögðum og flestir stoppuðu stutt við sýndist mér. Einn veiðimaður vakti þó aðdáun mína þar sem hann eyddi töluverðum tíma í að leiðsegja tveimur ungum veiðimönnum um lendur stangveiðinnar. Gaman að sjá upprennandi veiðimenn spreyta sig við bleikjuna. Næsta skref er síðan að kenna þessum ungu veiðimönnum að taka með sér ruslið.

Við létum föstudaginn og laugardaginn duga, tókum sunnudagsmorguninn í rólegheitum með vel útilögðum hádegisverði og héldum síðan heim á leið, reyndar með örstuttu stoppi á leiðinni. Meira síðar ……

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
1 / 2 1 / 11 / 0 0 / 2 6 / 7

Hraunsfjörður 25. apríl 2019

Fyrsti bíltúr sumarsins var í gær, sumardaginn fyrsta. Bíltúr, göngutúr, útivera, veiðiferð; hver er munurinn? Jú, það síðastnefnda gæfi til kynna að einhver afli hefði komið á land, en svo var nú ekki í þetta skiptið. Allt annað stóðst og mikið meira en það.

Undanfarnar vikur hefur dagurinn verið tekið heldur snemma á mínu heimili. Sumir eru greinilega að komast á þann aldur að meira að segja sængin nær ekki að halda þeim kyrrum fram að eðlilegum fótaferðatíma. Ýmsu er kennt um; hávaða í tístandi fuglum fyrir utan svefnherbergisgluggann, einhver bíll með læti í hverfinu o.s.frv. Hvað um það, ótímabær fótaferð var nýtt í gær á fyrsta degi sumars, helt upp á kaffi í brúsa, nesti troðið í box og græjurnar bornar út í bíl. Veðurspá dagsins hljóðaði upp á einmuna blíðu, besta veður á þessum hátíðisdegi sem um getur í manna minnum og ýmislegt fleira.

Þórsá

Stefnan var tekinn á Hraunsfjörðinn að austan og þangað vorum við komin í mátulegan tíma fyrir morgunflóðið. Fyrstu fiskarnir sem tóku á móti okkur voru urriðaseiðin í Þórsá sem sprikluðu fyrir fótum okkar þegar við óðum yfir á leið okkar niður að Búðanesi. Við vorum hreint ekki þau fyrstu á svæðið, en komust samt fyrir úti á tánni. Eftir töluverðan tíma fóru að renna á mig tvær grímur, yrðu það einu fiskarnir sem við sáum þeir sem héldu til í Þórsá? Ekki ein uppitaka, ekki eitt einasta högg og eftir töluverð fluguskipti settumst við niður, fengum okkur bita og réðum ráðum okkar. Niðurstaðan var að tölta aðeins til norðurs og sjá hvort kraðak veiðimanna væri við eyjuna.

Það sem stendur upp úr af eyjunni (lengst til vinstri)

Veiðifélaga mínum tókst að smokra sér að bakkanum, en ég setti bakpokann niður við stein og beið smá stund. Viti menn, eftir smá stund voru nær allir veiðimenn á bak og burt. Það læddist ónotalegur grunur að mér að ég hefði gleymt einhverju í morgunsárið, fyrst allir létu sig hverfa svona einn, tveir og þrír þegar ég mætti á staðinn. Einhverjar getgátur heyrðust frá veiðifélaga mínum að það væri vond lykt af okkur þannig að ég brá nös undir handarkrika, en þar virtist allt vera í lagi. Niðurstaðan var annað tveggja; lítil veiði eða ég væri bara svona illa þokkaður á veiðislóð að menn létu sig hverfa.

Við veiðifélagarnir vorum því þarna tveir við eyjuna (sem er bara örfáir steinar upp úr vatninu núna) og prófuðum og prófuðum og prófuðum flugur, mismunandi línur og inndrátt, en ekkert gerðist. Reyndar var ekki alveg sömu sögu að segja af nágranna okkar á bakkanum. Sá setti í og landaði þeim stærsta og fallegasta sjóbirtingi sem ég hef séð upp úr Hraunsfirði. Það var mér eiginlega næg ánægja að fylgjast með viðureigninni við þennan fallega fisk og sjá hann síðan kominn á land, en ég klóraði nú samt aðeins lengur í bakann.  Rétt upp úr kl.17 létum við samt gott heita, tókum saman og röltum aftur upp með Þórsá í átt á bílnum okkar og héldum heim á leið.

Það kom raunar á daginn þegar heima var komið að meira að segja Hraunsfjarðarjarlinn, Bjarni Júl. fékk heldur ekki högg í firðinum þennan fallega fyrsta sumardag ársins. Það eitt lagði smá plástur á mitt særða veiðimannahjarta.

Eftir stendur að hin klassíska rómansa um dásamlegt veður, frábæra útiveru og náttúrufegurð átti svo sannanlega við um þennan fyrsta dag sumarsins 2019. Enginn fiskur á land, en svona er þetta bara stundum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 0 / 0 0 / 1 2 / 2

… og svo sagði hún (komment frá veiðifélaganum)

Dagurinn var tekin snemma með uppáhellingu og mér til ómældrar gleði mundi ég eftir að bera á mig sólarvörn nr. 173 en kom samt heim með rauðan nebba. Skelltum öllu í bílinn og það er nú engin smá farangur sem fylgir svona ferðalagi því auðvitað verða að vera tvö sett af öllu með; stöngum, hjólum, vettlingum…ef maður skyldi brjóta, slíta, blotna, festa…bara allt. Íslenski uppáhaldslistinn á Spotify var settur á í bílnum svo að hægt væri að syngja með á leiðinni, já og prjóna, maður verður að nýta tímann. Bölvað, hífað, helvítis rok undir Hafnarfjalli og ég vonaði innilega að það myndi skána á Nesinu. Það gerði það ,,,,norðanmeginn. En hvað er að frétta af þessum vegi þarna út á Snæfellsnes? Hann er stór hættulegur. Hann er eiginlega eins og ýkt gróft bárujárnsþak….sem gerir það að verkum þegar maður er að syngja með að það koma ótrúlega furðulega áherslur á fáránlegum stöðum í lögunum. (pínu fyndið samt) Eins gott að enginn heyrði í mér nema veiðifélaginn. (er reyndar farin að halda að hann heyri ílla – hlýtur eiginlega að vera) Og prjónarnir hefðu hæglega geta stungist í mig og drepið mig í þessum öldugangi ef ég hefði ekki lagt þá niður í dýpstu dýfunum. Halló Vegagerð! Allavega, við gerðum alveg ráð fyrir múg og margmenni eftir þessa fallegu bleikju sem sýnd var nýverið á Veiðidellunni á FB en það var ekki hún sem sem var hvatinn að þessari ferð í Hraunsfjörðinn heldur mjög girnilegt uppítöku myndband sem ég sá í byrjun apríl á netinu (nei, ekki þannig myndband!)
Kom mér samt á óvart hvað það voru fáir bílar, en allamalla hvað þetta er alltaf góð tilfinning að græja sig þegar maður er komin á góðan stað. Fiðringurinn var til staðar og tilhlökkunin. Það er svo gott að hlakka til. Lögðum, þar sem hann sagði hér fyrir ofan og trítluðum niðrúr…bjargaði einu ofurspræku seiði í ánni á leiðinni sem ætlaði að verða túnfiskur þegar hann yrði stór. En til að gera langa sögu stutta þá var þetta eini fiskurinn sem ég kom við og eignlega sá, í þessari ferð. Við tvö (seiðið og ég) eigum stefnumót þarna eftir fimm ár. Við prófðum á nokkrum stöðum með öllum tiltækum línum og hér um bil flugum. Nada, nix, nothing að frétta bara, tja nema kannski að ég tapaði tveimur flugum og önnur þeirra var sú minnst ljóta sem ég hnýtti í vetur. Sé pínu eftir henni. Veðrið var allskonar, aðallega dásamlegt en þó átti hann stundum erfitt með að ákveða vindátt, en hverjum er ekki sama. Á köflum var þetta svona útikúri veður sem þýðir að þá langar mann mest að leggjast út í móa og dorma. En það gengur náttúrulega ekki því ef maður myndi gera það, þá gæti veiðifélaginn fengið fisk á meðan…og einhver er að telja fiskana sem veiðast! (en geri það pottþétt næst því ég er ekki í keppni….hóst) Því ákvað ég bara að æfa köstin fyrir sumarið….og vá hvað ég náði stundum að kasta langt, alveg þangað til ég tók niður gleraugun. Þau eru nefnilega með styrk sjáðu til og því sýnast bæði köst og fiskar mun lengri og stærri en þau eru í raun. Ég er nefnilega oft, mjööööög oft með algjöra boltafiska á, ….þangað til…gleraugun, þú skilur. Fiskar komu samt, eins og áður sagði, ekki við sögu í dag. Ja nema kannski sjálfveiddi harðfiskurinn sem beið heima, og einhverjir tveir sem ég sá aðra taka.
Allavega, góður – nei bíddu,– yndislegur dagur og stórslysalaus. Sumarið er komið – njótið þess. Það er EKKERT eins fallegt og Ísland í grænu fötunum.

Þórunn Björk

Baulárvallavatn og Hraunsfjörður

Þegar ekkert gengur í veiðinni þá má alltaf segja að maður hafi farið í útilegu, skoðunarferð, átt allt annað erindi á veiðislóð heldur en einmitt að veiða. Sem sagt; á föstudaginn áttum við veiðifélagarnir erindi vestur á Snæfellsnes. Og það voru fleiri á ferðinni heldur en við, því ungviði bænda af norðanverðu nesinu var líka á rúntinum með tilheyrandi jarmi þegar því var dreift út um allar koppagrundir í fylgd mæðra sinna.

Veðurblíða föstudagsins var eflaust með eindæmum á stöku stað, en því miður vorum við ekki á þeim slóðum, heldur fórum að Baulárvallavatni þar sem einhver reitingur manna var við veiði. Helst voru menn við ósa Vatnaáar þar sem hún rennur í vatnið að vestanverðu. Engar fregnir höfum við að veiði þeirra né okkar eigin og því líkur hér með frásögn af Baulárvallavatni að þessu sinni. Á ferð okkar í náttstað var að vísu komið við í Hraunsfirði að vestan og þar setti hin helmingur okkar í eina flundru við lítinn fögnuð.

Á laugardaginn var heilsað upp á Hólmara og kastað kveðju á Kerlinguna í Kerlingarskarði sem illu heilli faldi sig að mestu í þokunni sem grúfði þétt yfir þrátt fyrir töluverðan vind. Við ferðafélagarnir vorum sammála um að leita færis og kíkja betur á þessa gömlu þjóðleið síðar.

Eftir einhverja snúninga í Berserkjahrauni drógum við á okkur veiðifatnað og töltum inn að Hraunsfirði úr gryfjunni að norðan. Fyrir okkur varð kunningi okkar við annan mann og höfðu þeir gert ágæta veiði í bleikju og stöku flundrum, en heldur hafði dregið úr tökustuði þegar leið á daginn, enda töluverður vindur og úrkoma í meira lagi. Eftir nokkurn barning tókst mér að plata eina bleikju með rauðum Higa‘s og svo eina til á toppflugu með UV dúsk. Þeirri síðari tókst mér að sleppa en sú fyrri fékk far með okkur í náttstað.

Eitthvað höfðu veðurguðirnir mislesið veðurspá sunnudagsins en þokkalegt verður var þó á nesinu að norðan fram undir seinna kaffi. Á tímabili var meira að segja svo stillt og fallegt að þurrflugur fengu að baða sig við vestanverðan Hraunsfjörðinn. Þær eru reyndar ótrúlega kræsnar bleikjurnar á það sem þeim var boðið. Þrátt fyrir að það væri afskaplega lítið líf að sjá á vatninu, var greinilega aðeins ein ákveðin fluga á matseðlinum og sú fluga fannst ekki í okkar boxum. Ein flundran kom þó á land, en hún fékk hvorki líf né far til byggða.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 11 / 12 / 0 / 1 / 6

 

Hraunsfjörður, 12. maí

Veiðifréttir síðustu viku voru eiginlega allar á einn veg; Hraunsfjörður er kominn í gang. Þetta var í það minnsta það sem ég tók helst eftir og því leitaði hugurinn vestur á Snæfellsnes í gær. Við lögðum heldur seinna af stað heldur en fyrsta áætlun gerði ráð fyrir, en vorum komin vestur rétt upp úr kl.11 og þá var nú þessi líka rjóma blíða í firðinum.

Við byrjuðum á því að renna inn með firðinum að vestan, næstum alveg inn í botn og þar drógum við á okkur vöðlur og græjuðum stangir. Þegar við sáum ungliðadeild Hraunsfjarðar vaða í æti rétt við landið, gátum við ekki hamið okkur, ötuðumst aðeins í þeim en slepptum þeim fjórum sem ösnuðust á flugurnar okkar.

Eins og við mátti búast var töluverður fjöldi veiðimanna á staðnum, ég taldi fimm bíla við vatnið að vestan, þrjá við Hraunslæk að austan og þrjá í gryfjunni að norðan. Ég ætla að leyfa mér að skjóta á að það hafi verið á bilinu 12 – 16 veiðimenn á svæðinu um hádegið. Við ákváðum að fara inn að vatninu úr gryfjunni að norðan og freista þess að komast að á einhverjum tanga eða tá sem ekki væri þegar upptekin.

Það fór svo að við gátum tyllt okkur niður við eyjuna / skerið og þar eyddum við í raun öllum deginum. Fljótlega fékk ég sjálfur alveg prýðilega töku, feit og pattaraleg bleikja sem tókst þó að losa sig af rétt áður en mér tókst að koma henni í háfinn. Raunar var það mál margra veiðimanna að bleikja tók frekar naumt í gær og því voru það nokkrar sem við heyrðum að sluppu við lítinn fögnuð veiðimanna. Sumir báru sig þó vel og nýttu frasa eins og það gengur bara betur næst eða svona er nú veiðin, ekki allt fengið en maður kenndi nú samt ákveðins undirtóns sem ekki var eins kokhraustur því bleikjurnar í Hraunsfirðinum eru algjört sælgæti og bleikja sem sleppur endar hvorki á pönnu né í munni.

Eftir að ég missti þessa fyrstu bleikju var eins og ekkert, hreint ekkert væri að gerast hjá mér á meðan að veiðifélagi minn raðaði inn hverri 40 sm + bleikjunni á fætur annarri. Það var ekki fyrr en seinni part dags að það hljóp á snærið hjá mér og ég tók tvær mjög fallegar og tókst þannig að klóra aðeins í bakkann á móti þessum 6 bleikjum sem frúin hafði þegar sett í. Reyndar var það nú svo að á innan við 10 mín. frá því ég setti í fisk, þá bætti hún í safnið til að halda forskotinu.

Þegar kvöldaði og stillti fór bleikjan hamförum í mýflugunni og rétt fyrir kl.21 var eiginlega útséð um að við næðum fleiri fiskum, samkeppnin var orðin allt of mikil við náttúrulega fæðu. Við tókum okkur því upp, töltum til baka í bílinn og héldum heim á leið, sæl og ánægð með daginn. Frábær dagur í góðum félagsskap kunningja héðan og þaðan, nýrra og gamalla sem við hittum yfir daginn. Tilvitnun dagsins á einmitt einn þeirra í lok dags; Hvað er eiginlega að þér Þórunn, þú bara veiðir og veiðir!

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 10 / 4 11 / 8 / 0 / 1 / 4

 

Hlíðarvatn í Selvogi, 3. og 4. júní

Ég lét þau ummæli falla um daginn að veður væri hugarástand. Ef svo væri, þá voru skapsveiflurnar töluverðar í Selvoginum síðustu tvo daga. Einstaka sólarglæta, norð-austan strekkingur, austar gola, logn, sunnan andvari, skýjað, ekki eins skýjað og svo ausandi rigning. Ekkert af þessu fær því breytt að veiðiferð í Hlíðarvatn er nærandi, bæði fyrir sál og líkama.

Skömmu eftir komuna í Hlíðarvatn á laugardaginn fékk ég þær fréttir að heldur hefði nú verið fátt um fisk úr vatninu þann daginn og það var látið fylgja að ekki hefði byrjað að rigna fyrr en við mættum á staðinn. En, við tókum okkur til og ákváðum að kíkja inn í Stakkavík í austanáttinni. Eftir lítil viðbrögð færðum við okkur á Mölina því það hafði sagt mér maður að þar væri von á fiski þegar hann hallaði sér í norð-austanátt sem reyndist rétt því þar tókst okkur að særa upp þrjár þokkalegar bleikjur. Flugurnar sem hjálpuðu til við þetta voru Peacock með orange skotti og Watson‘s Fancy púpa. Undir hættumál ákváðum við að fara heldur lengri leið að Hlíðarseli og renndum niður að brú þar sem ég setti í mína stærstu bleikju úr Hlíðarvatni til þessa, 46 sm ljóngrimma og stútfulla af mýlirfu.

Þokkalega sátt við kvöldið fórum við síðan í bólið með þá von í brjósti að veðrið léki kannski örlítið meira við okkur á sunnudeginum.

Jú, veðrið lék sér, en kannski ekki neitt sérstaklega við okkur. Hann rofaði til, hann dró fyrir, hann lygndi og hann hvessti og svo endaði hann eiginlega á því að hella úr sér yfir okkur. Við reyndum fyrir okkur á Mosatanga þar sem ein væn kom á land á Peacock með orange skotti og þaðan héldum við yfir á Réttarnesið þar sem einn stubbur slæddist á Prince Nymph.

Stilla í Botnavík

Eftir síðdegishressingu lægði skyndilega og við ákváðum að rölta niður í Botnavík í stillunni. Það er ekki alltaf sem maður getur skimað botninn í allri víkinni, en slík var stillan á köflum að ævafornar tunnur og annað skran varð sérstaklega vel sýnilegt, því miður. En Adam var ekki lengi í paradís, því skyndilega dró ský fyrir önnur ský og úr þeim gusaðist þvílík rigning að Nóa hefði þótt nóg um. Það merkilega við þetta var nú samt, að klak flugunnar tók kipp og inn á milli dropa mátti sjá bleikjur gæða sér á flugu. Að vísu voru flestar vökurnar vel utan kastfæris en samt sem áður tókst veiðifélaga mínum að særa upp væna bleikju í úrhellinu á; já einmitt Peacock með orange skotti.

Rigning í Botnavík

Á heimleiðinni könnuðum við nýjar slóðir við sunnanvert vatnið. Við lögðum við nýlegt bílastæði gengt Gunnutanga og röltum með vatninu að Austasta Nefi. Á leiðinni setti félagi minn í tvær bleikjur, önnur fór í netið en hinni var sleppt og því sannað að það er fiskur út um allt vatn í Selvoginum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 6 / 1 / 1 4

Hraunsfjörður, 25. og 26. maí

Það var löngu komin tími á að fara í alvöru veiðiferð. Veðurspá helgarinnar var svona og svona, helst hinsegin en samt eiginlega engin. Einn daginn var spáð stilltu veðri, skýjuðu en þurru. Hinn daginn var kominn væta í kortin, meira að segja einhvern vindur, jafnvel úr ýmsum áttum.

Eins gott að við tókum ekki mark að neinum spám, létum slag standa og tókum stefnuna vestur á Snæfellsnes á miðvikudagskvöldið og lentum í Berserkjahrauni laust upp úr kl.22.  Þar sem við komum seint og frá ýmsu að ganga í okkar færanlega veiðihúsi, ákváðum við að láta veiðigræjur alveg eiga sig og sjá til hvort þokusúldinni mundi ekki létta á fimmtudagsmorgun.

Jú, það má víst segja að þokusúldin léti undan síga með morgninum, fyrir rigningunni og goluskít sem var frekar nöpur. Við ákváðum að kíkja fyrst á Baulárvallarvatn en gerðum ekki langt stopp, hitastigið ekki upp á marga fiska og ekki veiðilegar aðstæður þannig að við renndum að Hraunsfirðinum þar sem gráðugar bleikjur veltu sér um í klaki flugunnar. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir undirritaðs kom ekki ein einasta bleikja á land en veiðifélagi minn setti auðvitað í eina við mikinn fögnuð.

Hraunsfjörður

Föstudagurinn rann upp, sínu ljósari yfirlitum en þar sem við sváfum af okkur árdegisflóðið ákváðum við að feta ótroðnar slóðir, þ.e. kanna nokkra staði í hrauninu að norðan sem við höfðum ekki prófað áður. Eftir nokkrar tilraunir við afskaplega litlar undirtektir Hraunsfjarðarfiska, ákváðum við að feta okkur aftur út á gamla þjóðveginn í stað þess að skakklappast í gegnum hraunið til baka. Rétt í þann mund sem við komum að bílnum hafði dregið svo fyrir sólu að heita mátti rökkur og þétt þokan skóflaðist inn úr austrinu. Eftir að hafa tekið smá krók inn með vatninu að vestan, ákváðum við að útbúa okkur veglegan síðdegisverð og taka á móti síðdegisflóðinu við Hraunsfjörð að vestan.

Ekki rofaði mikið til í lofti með kvöldinu, en vissulega mætti síðdegisflóðið á sínum tíma og reyndar af því umfangi sem ég hef aldrei áður séð í Hraunsfirðinum. Það flæddi mjög vel yfir alla stífluna undir brúnni og mikið hugsaði maður sér vel til glóðarinnar, allt þetta æti mundi örugglega draga með sér bleikjur í miklu mæli. Hvort þær komu ekki eða voru bara svona tregar til tökur veit ég ekki, en líf var ekki mikið að sjá í firðinum þótt háflóð væri. Ég held raunar að við höfum ekki séð eina einustu bleikju velta sér, en náðum þó sitt hvorri á land og …. tveimur sjóbirtingum sem voru vel troðnir af æti. Reyndar hafði annar þeirra greinilega lent í fuglsgoggi, för á báðum síðum og djúpt sár á kviðnum.

Aflinn

Þrátt fyrir heldur votviðrasama daga, var þessi fyrsta lengri ferð okkar þetta sumarið fyllilega þess virði að leggja í, Hraunsfjörðurinn er alltaf jafn fallegur, sama hvernig veðrið er.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 1 / 1 / 1 3

Hraunsfjörður 14. – 15.maí

Sjaldan ef í nokkurn tíma hefur ferðavagninn verið dreginn út fyrir borgarmörkin jafn snemma og í ár, 14. maí og stefnan var tekin vestur á Snæfellsnes. Hvort sem menn trúa því eða ekki, þá var hreint út sagt frábært veður, fyrir utan smá gjólu, í Hraunsfirðinum um helgina. Á laugardaginn var hitastigið þetta rétt innan við 9°C og sól á köflum en í gær, sunnudaginn náði hitastigið 13°C og sólin lagði undir sig allan sjóndeildarhringinn og var ekkert að fela sig á bak við ský. Að vísu var þessi skollans vindsperringur eiginlega úr öllum áttum, en veðrið var frábært.

Við tókum eiginlega seinni vaktina á laugardaginn, vorum seint á ferðinni og ekkert að flýta okkur úr Berserkjahrauninu, en fyrst lá leið okkar út á Búðanes og ströndina þaðan til norðurs. Það var ekki eins og vatnið kraumaði af lífi, þ.e. silungi, en nóg var af æti á ferðinni; marfló, mýpúpur og ýmislegt annað góðgæti. Gamall hundur greip greinilega um sig og við þræddum þá staði; tanga, nes og hólma sem við höfðum áður gert góða veiði á en það eina sem koma að landi var ein flundra á eyjunni. Að vísu setti veiðifélagi minn í mjög væna bleikju rétt við tánna á Búðanesi, en sú setti í fluggírinn, sýndi sig nokkuð hressilega í loftinu, vatt snarlega upp á sig og braut legginn á flugunni rétt fyrir neðan augað. Það er sem sagt einhver pönkara bleikja á ferðinni í Hraunsfirði með ‚piercing‘ í annarri vörinni, litla svarta toppflugu. Eftir að veiðifélagi minn hafði bölvað lélegum önglinum í töluverðan tíma, röltum við til baka inn í Berserkjahraun og renndum að vatninu vestanverðu. Þar reyndum við fyrir okkur í smá tíma fyrir sunnan grjótgarðinn, en það eina sem hafðist upp úr krafsinu var enn ein flundran.

Á sunnudaginn fórum við út með Búðavíkinni að sunnan þar sem frúin tók væna bleikju á Bleik og blá straumflugu og ég reyndi eins og ég gat til að fá Hraunsfjarðarfíflið sem ítrekað elti fluguna mína, til að taka, en án árangurs. Þegar fór að síga á daginn, röltum við til baka og leituðum á gamalkunnar slóðir á Búðanesinu þar sem mér tókst að setja í þokkalega bleikju á Mobuto. Þær hafa greinilega svipaðan smekk, bleikjurnar í Hraunsfirðinum og í Hlíðarvatni í Selvogi. Feitar og fallegar bleikjur, fullar af púpum og marfló og einstaklega skemmtilegar viðureignar.

Afli helgarinnar á leið á pönnuna
Afli helgarinnar á leið á pönnuna

Fyrst kvöldverðinum var reddað, töltum við af stað inn í Berserkjahraun, gerðum að og smjörsteiktum ferska bleikju með sveppum og gerðum okkur að góðu með hvítvínsglasi og bjór. Flottur endir á góðum degi við Hraunsfjörð.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 8 / 0 0 7

Hraunsfjörður 29. & 30. ágúst

Skv. orðabók er kvenkynsorðið branda; 1. lítill silungur, 2. fiskur, 3. glíma, 4. raftur yfir dyrum. Ekkert af þessu kom við sögu í veiðiferð helgarinnar hjá okkur hjónum, þ.e. ef undan er skilin ein flundra sem í ótuktarskap sínum tók Peacock með orange skotti hjá mér rétt við Búðanes.

Síðsumar í Hraunsfirði
Síðsumar 2015 í Hraunsfirði

Eins og stundum hefur komið fyrir, gekk veðurspá helgarinnar ekki alveg eftir og við vorum því ekki í þeirri blíðu í dag sem spáð var og hitastigið var heldur ekki það sem kom fram í auglýsingu Veðurstofunnar. Raunar vil ég einmitt kenna hitastiginu um þetta gæftaleysi í firðinum sem raun varð á. Mér skilst að á aðfaranótt laugardags hafi hitastigið rétt marið að vera yfir frostmarki og það var frekar kalt, langt fram eftir laugardagsmorgni og það gránaði heldur í fjöllum. Maður má víst eiga von á svona dögum inn á milli úr því sem komið er fram í árið.

Ekki vantaði veiðimennina í firðinum en afskaplega fáum sögum fór af aflabrögðum. Tveir veiðimenn eru þó líklegir til að hafa komið fiski á land, en ég náði ekki fréttum frá þeim áður en við tókum okkur saman í dag og héldum heim á leið. Þar voru á ferðinni gallharðir lesendur FOS sem við hittum á Búðanesi í gærkvöldi, klárir í slaginn með tjald, varðeldivið og vel útbúnir veiðigræjum. Sjáum til hvort við fáum ekki komment inn á þessa færslu með fréttum af aflabrögðum. Takk annars fyrir skemmtilegt spjall, strákar.

Þessi vakti yfir okkur s.l. nótt
Þessi bauð okkur góðrar nætur í gærkvöldi

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 103 / 123 / 0 17 / 27 14 / 18

 

Hraunsfjörður, 14.- 15. ágúst

Ef maður tæki alltaf mark á veðurspánni, þá færi maður trúlega aldrei neitt. Ef það er ekki spáð brjáluðu veðri á áfangastað, þá er næsta víst að það er spáð klikkuðu veðri á leiðinni. En, það er líka hægt að skella skollaeyrum við öllum spám og taka stefnuna bara eitthvert út í bláinn eins og við hjónin gerðum á föstudaginn; Hraunsfjörður þrátt fyrir hundleiðinlega spá.

Hraunsfjörður 15.ágúst 2015
Hraunsfjörður 15.ágúst 2015

Við vorum mætt tímanlega í Berserkjahraunið til að fá okkur bita, draga á okkur vöðlur og rölta niður að vatni til að ná síðdegisflóðinu. Fyrir valinu varð að fara út með víkinni við Búðanes til suðurs. Vatnið skartaði sínu fegursta í blíðunni og fiskur um allt vatn, sjóreiður og lax að stökkva og ólmast í kvöldkyrrðinni. Eitthvað gekk okkur samt illa að ná athygli bleikjunnar, ýmsar flugur prófaðar þangað til mér tókst að setja í eina feita á Watson’s Fancy púpu með kúluhaus.

Eftir að veðurguðirnir höfðu haft sig örlítið í frammi á laugardagsmorguninn renndum við niður að stíflu og áttum mjög áhugavert spjall við innfæddan veiðimann sem fræddi okkur um ýmsa leyndardóma Hraunsfjarðar og göngur laxa og manna. Takk fyrir gott spjall, Rafn Ólafsson. Við röltum síðan eftir gömlu reiðgötunni inn að Búðanesi þar sem við reyndum fyrir okkur án árangurs í öllum tegundum veðurs; sól og blíðu (sjá mynd að ofan) ásamt rigningu og töluvert meiri rigningu fram eftir degi. Þegar fór að draga að háflóði síðdegis, héldum við til baka, fengum okkur bita og fórum aftur út með Búðavíkinni að sunnan. Áfram hélt laxinn að sýna loftfimleika og stöku sjóbleikja tók undir með léttum skvettum. Og sagan frá því kvöldið áður endurtók sig með þeirri undantekningu að frúin setti í tvo smálaxa sem hún sleppti og ég í einn sem einnig fékk líf. Bleikjan hélt áfram að reynast okkur erfið og það var ekki fyrr en frúin hafði náð sýnishorni af marfló sem ég paraði saman við minnsta Héraeyrað sem ég fann í boxinu mínu að mér tókst að setja í eina feita og fallega rétt áður en fór að falla út. Frábært kvöld, fallegt og rólegt.

Berserkjahraun 16. ágúst 2015
Berserkjahraun 16. ágúst 2015

Sunnudagurinn vakti okkur með töluverðri vætu og heldur þungbúnum himni, þannig að við tókum lífinu bara með ró og héldum heim á leið upp úr miðjum degi, meira en sátt við þessa krossferð okkar gegn veðurspánni. Þess ber að geta að þegar við héldum heim á leið úr Berserkjahrauninu í logni og hlýju veðri (sjá mynd að ofan) sagði Vegagerðin 7 m/sek. og 7°C hita vera á Vatnaleið. Svona getur nú veðrið verið dásamlegt í og við Hraunsfjörðinn þótt veðurstöðvar í grennd séu á yfirsnúningi.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 89 / 107 / 0 17 / 27 12 / 16

 

Hraunsfjörður, 13. og 14. júní

Eins og margir vita og þekkja af eigin raun, er Hraunsfjörðurinn s.k. snemmsumars vatn. Og það er ennþá svolítið snemmsumars hjá okkur þessa dagana og því tilvalið að smella stöngum í bíl og renna vestur á Snæfellsnes. Við fórum hefðbundna leið vestur á nesið og yfir það um Vatnaleið. Ekki var nú hægt að kvarta yfir veðrinu á föstudaginn, blíða, blíða og blíða hvar sem litið var. Að vísu var hitastigið ekki í hærri kantinum, en dugði þó til ef sofið var undir sæng og með teppi.

Hraunsfjörðurinn að kvöldi 13.júní
Hraunsfjörðurinn að kvöldi 13.júní

Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur og eftir staðgóðan bita var haldið af stað úr Berserkjahrauninu inn að vatni. Töluverður fjöldi veiðimanna hafði þegar raðað sér niður við víkina að norðan og út að Búðarnesi þannig að við lögðum land undir fót og röltum inn með nesinu til norðurs. Fyrsti fengur dagsins var ekki glæsilegur; flundra. Næsti fengur var ekkert skárri; önnur flundra þannig að brúnin var heldur farinn að þyngjast á mér. Var þessi óskapnaður búinn að leggja undir sig allan fjörðinn?

Þegar við svo fengum fregnir af því að víkverjar hefðu splittast upp og yfirgefið svæðið, héldum við sem leið lá út á nef Búðartanga rétt um kl.15  Það var eins og við manninn mælt að þremur korterum fyrir flóð fór að lifna yfir tilverunni. Fyrst kom ein þokkaleg hjá mér á Peacock kúluhaus með Orange skotti. Takið eftir; Orange skotti, það skiptir öllu. Skömmu síðar var tekið djúpt og af miklu afli. Eins og vera ber reisti ég stöngina til að tryggja fluguna og þá var eins og sá í neðra hefði verið leystur úr læðing. Ef takan var af afli, þá var það sem fylgdi á eftir af tífaldri fyrstu snertingu. Og svo varð allt laust. Heldur skjálfhentur dró ég inn og kannaði ástand taums, vitandi að flugan var á bak og burt, og komst þá að því að 8 punda taumurinn hafði tognað niður í fjórðung. Ég trúi því að þótt menn hefðu gengið í birgðir hákarlaveiðimanna í Bjarnarhöfn og fengið lánaðan útbúnað, þá hefði það ekki dugað til að koma þessari bleikju á land. Goðsögnin um Hraunsfjarðarskrímslið var fædd.

Frúin hóf sínar tökur með ódrætti af flundrugerð en tók síðan tvær mjög fínar sjóbleikjur áður en dagur leið að kveldi. Líkt og ég, glataði hún Peacock með Orange skotti eftir mjög snarpa töku sem bætti nokkrum slögum inn í hjartlínuritið hjá henni. Ég er sannfærður um að þar hafi fyrrnefnt Hraunsfjarðarskrímsli verið á ferð að bæta í Peacock safnið sitt. Frúin var samt með einhverjar undanbárur og vildi halda þeim valkosti á lofti að fleiri stórar bleikjur væru í firðinum, það væri alls ekki víst að þetta hefði verið sú sama og stal minni flugu. Þar sem ég er ekki mikið fyrir órökstuddar getgátur, hvað þá skröksögur, tel ég víst að einungis eitt skrímsli sé í firðinum, tvö væru of mikið og kynnu að fæla veiðimenn frá.

Dagurinn endaði sem sagt í fjórum hjá mér, tveimur hjá frúnni og samtals þremur flundrum sem verða ekki færðar til bókar.

Hraunsfjörður í blíðunni
Hraunsfjörður í blíðunni

Sunnudagurinn var tekinn snemma og þrátt fyrir áætlun um langan göngutúr um nágrennið varð minningin um sjóbleikjuna við Búðartanga öllu yfirsterkari og þangað vorum við mætt rétt upp úr kl.8  Heldur var nú rólegra yfir tökunum, stöku nart en tvær komu þó á land, ein hjá hvoru okkar og svo ein flundra til viðbótar hjá frúnni. Gönguferðin frestaðist því fram yfir hádegið, ég geri henni skil síðar.

Þrátt fyrir að hafa oft áður farið í Hraunsfjörðinn, held ég að þessi ferð hafi smellt honum endanlega inn á topp 10 listann hjá okkur. Veðrið, fiskurinn og makalaus náttúrufegurðin í Hraunsfirðinum lögðust á eitt og gerðu þessa ferð okkar að einni bestu veiðiferð á þessar slóðir til þessa.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 11 / 0 0 / 4 5 / 8

Hraunsfjörður, 28. júní

Það er ekki lóan sem segir mér að sumarið sé komið, það eru föstudagsferðirnar út á land með skuldlausan halann í eftirdragi. Veðurspáin; Snæfellsnes lofaði góðu. Humm…. annað hvort hefur veðurspá laugardagsins misritast eða mislesist. Hvað um það, við hjónin drifum okkur af stað eftir vinnu á föstudaginn og tókum stefnuna á Hraunsfjörð því stórstraumur var víst í kortunum og þá á fjörðurinn að fyllast af sjóreið. Eitthvað er nú lítið eftir af sjóreið í hafinu ef þetta er að fyllast. Heldur þótti viðmælendum mínum á staðnum þetta dapurt. Flestir fengu lítið, sumir eitthvað en mjög margir ekki neitt.
Af okkur hjónum er það að frétta að við lögðum leið okkar í víkina inn af Búðanesi á laugard.morgun. Ekki leið á löngu þar til ég setti í eina ljónsterka 43 sm. sjóbleikju á Peacock með orange skotti. Sú gerði sko ekki kröfu til tökuvara, meira að segja dauður maður hefði ekki misst af þeirri töku. Skemmtileg viðureign þar sem hún reif ítrekað út af hjólinu hjá mér, en náðist að lokum að landi. Ekki leið á löngu þar til önnur bleikja tók sömu flugu, en þeirri sleppti ég vegna smæðar. Frúin setti í eina í smærri kantinum, en matfisk þó, á eins Peacock. Litlum sögum fer af framhaldi í veiði okkar hjónar, þ.e. aflabrögðum, en ýmislegt var reynt í staðsetningu og flugum allt fram yfir miðnættið, en án árangurs.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 / 8 / 0 5 / 11 13 / 18

Hraunsfjörður 1.-2. júní

Ef ég hefði áhuga á að týna til einhverjar afsakanir þá er svo sem af ýmsu að taka. Leiðinlegt veður á laugardaginn, rosalega kalt leysingavatn sem dældist út í vatnið, allt of mikil sól á sunnudag, fiskurinn ekki kominn inn í botn, nei annars það er ekki hægt að nota þá afsökun. Ef himbriminn finnur fisk þá er fiskur kominn.

Þegar við mættum á staðinn um hádegið á laugardag var heldur óveiðilegt, rigning og rok, en það rættist úr veðrinu þegar leið á daginn. Að vísu hafði öll þessi rigning þau áhrif í för með sér að leysingar ruku aðeins fram úr sér og áin í botninum varð svolítið lituð og mikið rosalega var hún köld. Vatnið inni við botn rétt náði 5°C þegar best lét. Það var töluvert reynt fyrir botninum og að vestan og svo stóðst ég ekki mátið að rölta yfir á eystri bakkann eftir seinna kaffi. Eitthvað var ég of snemma á ferðinni því ég varð ekki var við fisk, sama hvaða flugu ég reyndi þannig að ég rölti aftur í vagninn, fékk mér í gogginn og barðist við að halda meðvitund eftir allt þetta fríska loft yfir daginn. Þegar leið á kvöldið fóru nokkrir veiðimenn sem höfðu byrjað við garðinn að fikra sig inn eftir vatninu, þokkaleg vísbending að ekki væri mikið meira að gerast hjá þeim. Rétt undir hættumál (23:00) vakti himbrimi sem lónaði rétt undan eystri bakkanum athygli okkar. Og viti menn, það er sko víst fiskur kominn inn að botni. Annar eins snillingur að veiðum. Á örstuttum tíma gómaði hann þrjá alveg þokkalega fiska og ég get svarið að að maður heyrði vellíðunar stunurnar í honum þvert yfir vatnið svo klukkustundum skipti á eftir.

Sunnudagurinn rann upp, bjartur og fagur, NOT. Við notuðum tímann á meðan dagurinn hafði sig á fætur og tókum saman og renndum inn í Berserkjahraun, niður með Hraunslæk eins langt og slóðinn leyfði án þess að fara í einhverjar óþarfa torfærur. Það stóð á endum að gömul sól frá fyrra sumri tók sig upp og skein eins og hún hefði aldrei skroppið í vetrarfrí. Frábært veður en því miður varð lítið um aflabrögð, en eitthvað voru menn að rífa upp af fiski gengt Búðanesi. Veit ekki alveg hvað það er, en þegar maður er búinn að taka sig saman og er í raun lagður af stað heim, þá verður mér afskaplega lítið úr veiði í svona stuttu stoppi í leiðinni, en svona er þetta bara stundum. Fisklaus helgi en fyrsta útilega sumarsins staðreynd. Ágætt að vera komin heim með fyrra fallinu, svona miðað við margar aðrar útileguhelgar.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 2 15

Hraunsfjörður 3.maí

Ég hafði leitað töluvert fyrir mér að veiði dagana 3. – 5. maí út frá Borgarnesi þar sem ég hafði aðsetur yfir helgina vegna algjörlega óveiðitengdra ástæðna. Allar tilraunir mínar til að athuga með veiði báru þann eina árangur að mér finnst að veiðirétthafar séu álíka seinir í gang og vorið almennt. Þeir fáu sem svöruðu fyrirspurnum sáu sér ekki fært að verða við bón minni að bleyta flugu eða veiði var einfaldlega ekki hafin.

Enn og aftur varð Veiðikortið til bjargar þannig að ég lagði nokkra kílómetra undir hjólbarða og brenndi vestur í Hraunsfjörð um hádegið þann 3. maí. Veðrið var nokkuð skaplegt svo lengi sem leið lá sunnan fjalla en um leið og komið var niður að norðan var líka þetta fína rok. Lét mig samt hafa það að renna inn Berserkjahraunið og ganga í ‘blíðunni’ inn að víkinni sunnan Búðaness. Að vísu var blíðan slík að ég fauk einu sinni um koll á leiðinni að vatninu þegar einhver ólukkans strengur skellti sér niður í víkina. Hvað um það, mér tókst að setja stöngina saman og berja út flugur í smá tíma en lét gott heita þegar ég í næsta streng fauk beinlínis út í vatnið. Það jákvæða við ferðina var að ég sá til fiskjar í víkinni en væntanlega hefur hann ekki einu sinni séð fluguna mína í öllu öldurótinu. Fimmta ferð vorsins varð heldur endasleppt og ég skreiddist í heita sturtu á Hótel Borgarnesi og þaðan undir sæng.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 5

Hraunsfjörður, 22.-23.júní

Við hjónakornin skelltum okkur í Hraunsfjörðinn á föstudag eftir vinnu og komum okkur fyrir (næstum) inni í botni fjarðarins. Það kom okkur annars á óvart hve fáir voru á staðnum miðað við stórkostlegar lýsingar af aflabrögðum síðustu vikna. Við vorum það seint á ferðinni á föstudaginn að lítið tími varð til veiði, en konan setti þó út flugu og…. náði þeim minnsta jómfrúarfisk sem um getur. Hefði þessi litli kútur ekki kokgleypt Hérann hefði hann örugglega fengið líf. En, fyrsti fiskur frúarinnar í Hraunsfirði var staðreynd. Annars var ekkert sérstaklega mikið líf á vatninu þarna um kvöldið, nema þá rétt um það leiti sem hætta bar veiði. Ég er annars enn að velta því fyrir mér hvers vegna veiðitími í vatni svo langt utan byggðar sér bundin við 7 – 23.

Laugardagurinn byrjaði mildur og bjartur, hæg breytileg átt sem hélt því áfram allan daginn, þó mismunandi hægt. Við tókum daginn snemma, vel hvíld enda veiðum hætt samviskusamlega við tímamörk á föstudaginn. Til að gera langa sögu stutta, þá kom ekki kvikindi á land allan laugardaginn og okkur er ekki kunnugt um að neinn fiskur hafi komið á land hjá þeim sem voru við veiðar í firðinum sjálfum. Hvort stíflugengið hafi náð einhverju veit ég ekki, en þeir 6 – 8 sem voru í grennd við okkur riðu nú ekki feitum hesti frá þessum degi. Það er sagt að Hraunsfjörðurinn sé ekki allra og það á greinilega við mig. Oft hefur maður nú núllað, en yfirleitt verður maður þó var við eitthvert líf.

Það sem jafn lítið líf var að sjá á sunnudagsmorgun, pökkuðum við saman og færðum okkur suður á nesið, Veiðidagur fjölskyldunnar lokkaði okkur á ókunnar slóðir.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 35 10 30 2 20 11