Hlíðarvatn í Selvogi 9. maí 2021

Eins og ásóknin er í Hlíðarvatn í Selvogi þá er víst óhætt að segja að sunnudagurinn hafi verið Dagurinn sem við veiðifélagarnir förum í vatnið þetta árið, ekki nema lausir dagar finnist í vefsölu þegar líður tekur á sumarið. Undanfarnar vikur hefur eitthvert bévítans háþrýstisvæði verið hangandi hérna yfir landinu, kalt loft og víða næturfrost sem hefur aðeins tafið fyrir sumrinu. Samt sem áður hefur veiðin í Selvoginum verið með ágætum og töluvert af vænum fiski komið á land.

Það er alltaf gott að geta kúplað sig frá vinnu og daglegu amstri, ekki síst síðustu mánaða þar sem þú veist hvað hefur lokað mann inni og því ekki laust við að við veiðifélagarnir værum svolítið spennt að eyða degi í veiði við þriðja mann. Eftir stuttar vangaveltur við mætingu á laugardagskvöldið, var ákveðið að renna niður að Mosatanga, staður sem á það alveg til að detta inn í byrjun tímabils. Og jú, við hittum á vott að stillu og bleikjan var að sýna sig og við þrjú skiptum okkur niður á Mosatanga.

Ég held að það hafi verið í þriðja eða fjórða kasti að aukahjólið undir vagninum setti í fisk. Mér varð litið á strekkta línuna og bogna stöngina og hugsaði með mér þetta er vænn fiskur. Og það kom heldur betur í ljós, 60 sm hængur kom á land og lengdin sagði ekki allt um stærðina, sérstaklega sver og vel haldinn fiskur. Auðvitað hljóp veiðimönnum kapp í kinn við þennan fisk, en fljótlega fór að kula og það var eins og við manninn mælt að bleikjan hætti að sýna sig. Þó komu tveir fiskar á land, öðrum sleppt en hinn fékk að fylgja með tröllinu í netið.

Sunnudagsmorguninn var kaldur og augljóst að það hafði slegið í næturfrost enn eina nóttina því kl.7:00 hafði mælirinn á veiðihúsinu ekki náð í 1°C og hann mjakaðist afar hægt upp enda goluskítur sem ekki dró úr kuldanum. Við fórum okkur því í engu óðslega, sumir sváfu langt (mjög langt) frameftir en eftir staðgóðan dögurð skiptum við liði og ákváðum að skyggna helstu veiðistaði í leit að lífi. Seint og um síðir ákváðum við að fara aftur á Mosatanga þótt gjólan væri beint í fangið og eyddum síðdeginu þar í mismiklum vindi.

Það tók svo sem ekkert langan tíma að smella í stæðilega rúmlega 40 sm bleikju og fleiri fylgdu á eftir þannig að í lok dags höfðum við nokkrar til að skrá í bók, ekki alveg eins margar í kistu, en nóg til þess að það verður gómsæt bleikja í matinn á einhverjum heimilum næstu daga.

Vonandi fer þessi hæðarhryggur að gefa aðeins eftir yfir landinu, næsta veiðiferð er alveg rétt handan við hornið og maður gæti þegið aðeins hlýrra veður næstu daga þó spáin segi eitthvað annað, en þetta er jú bara spá.

Hlíðarvatn í Selvogi 25. maí 2020

Hefði maður nú haft dug í sér að vakna fyrir allar aldir í morgun, þá hefði maður kannski verið eitthvað fyrr á ferðinni en um kl. 9 í Selvoginum. Veðurspá morgunsins stóðs sem sagt ekki og það var miklu betra veður í Selvoginum í morgunsárið heldur en um var rætt. En, veðurspá er jú bara spá og ekki eru allir spámenn í sínu föðurlandi o.s.frv. þannig að maður snéri sér bara á hina hliðina við fyrsta rumsk í morgun.

Dagurinn byrjaði mjög skaplega, þokkaleg birta og vindur alveg viðráðanlegur. Sömu sögu má segja af hitastiginu. Það hefði því átt að vera allt í liði með okkur, en eitthvað sá Kári sig knúinn til að bæta í þegar leið á daginn og þegar svo rigningin hætti að vera á Stökustað og færði sig yfir í að vera Víðasthvar og eiginlega Mestmegnis, þá fór heldur að draga úr tökugleði fiska og veiðigleði manna. Það er orðið spurning um veiðiveður þegar himbriminn leita að skjóli frekar en fiski.

Í Guðrúnarvík

Nú hljómar þetta eins og allt hafi gengið okkur í mót í dag, en það var nú ekki svo. Frásögnin litast vitaskuld af því að sögumaðurinn veiddi ekki einn einasta fisk, bar skarðan hlut frá borði og uppskar endalausar glósur og varð vitni að umtalsverðum gorgeir tveggja veiðifélaga. Fyrsti fiskur dagsins kom á í Guðrúnarvík utanverðri, tittur sem fékk líf. Næsti fiskur kom á sama stað, hjá sama veiðimanni, og endar væntanlega á pönnunni á morgun með nægu smjöri. Síðan gerðist nánast ekki neitt nema stöku nart, af og til, en sjaldan þó. Yfir síðbúnum hádegisverði réð hópurinn ráðum sínum og úr varð að prófa á Réttarnesinu. Réð þar einhverju að undirritaður þóttist hafa trú á staðnum og hann lá ágætlega við vindátt.

Við Réttarnes

Raunar varð það nú svo að veiðifélagi minn og ektakvinna setti í og landaði mjög fallegri bleikju á Réttarnesinu á meðan ég hamaðist við að skipta um flugur, inndrátt og sökk eins og enginn væri morgundagurinn. Af þriðja manni er lítið að frétta nema það að forkunnar fögur bleikja í XXL stærð setti hann svo út af laginu að annað eins hefur ekki sést né frést í áraraðir. Snaggaralegt viðbragð og vel úthugsað kast reynist vera klúður frá upphafi til enda og sú stóra synti í hægðum sínum á brott á meðan viðkomandi eyddi töluverðum tíma í að finna upphaf og endi taums sem hafði vafið sig utan um öll 9 fetin af flugustönginni. Kannski er þessi lýsing örlítið stílfærð, en bleikjan var í það minnsta stór, mjög stór.

Þar sem sögumaður hefur litlu við þessar lýsingar að bæta, nema þá að þetta var í raun alveg frábær dagur, góður félagsskapur og mikið spaugað, þá kemur hér . á eftir efninu

Bleikjur í ferð
1 / 0
Bleikjur alls
2 / 3
Urriðar í ferð
0 / 0
Urriðar alls
2 / 3
Veiðiferðir
6 / 7

Hlíðarvatn 1. maí 2020

Hann byrjaði kaldur og var með vindsperring fram yfir hádegið. Vissulega eru teikn á lofti að vorið sé á næsta leiti í Selvoginum, en ég verð að viðurkenna að mér fannst eins og það vantaði eitthvað örlítið uppá það í gær. Í það minnsta framan af degi.

Í áraraðir hefur veiðifélagið mitt haft þann sið að stjórn og tilheyrandi nefnd opni Hlíðarvatn í Selvogi, en að þessu sinni var þetta örlítið snúnara. Það er nefnilega ákveðið samkomubann í gildi og það kom sjálfkrafa í veg fyrir samveru okkar fyrir opnun. Þess í stað var hver meðlimur útbúinn sínu nesti og rúmlega stangarlengd á milli manna.

Hefði ég sjálfur ekki átt eftir að klára smá viðvik í veiðihúsinu okkar, þá hefði ég væntanlega beðið af mér mesta vindsperringinn og kalsann sem var alveg fram undir hádegi. Þótt hitatölur á mæli hafi sagt að það væru 4°C þegar ég mætti árla dags, þá fannst mér eins og það vantaði eins og eitt bandstrik framan við þessa tölu. En, það réttist aðeins út hita þegar leið að hádegi og vindinn lægði.

Og um leið og hitatölur fóru að narta í 7°C þá tók líf að færast í bleikjuna sem sýndi sig um mest allt vatn. Sá veiðifélagi sem var næstur mér á Mosatanga fór hamförum og reddaði hverri máltíðinni á fætur annarri fyrir sitt fólk á meðan mér gekk lítið sem ekkert að tæla þetta syndandi sælgæti sem var á ferðinni. Ég gríp til gamalkunnugra afsakana, tökurnar voru grannar með eindæmum þannig að hálf freðinn eftir morguninn, missti ég af þeim eða var ekki nógu umburðarlyndur þegar kom að löndun þannig að ég tapaði einhverjum þannig líka. Tókst samt að setja tryggilega í tvær, en sleppti þeim vegna skorts á sentímetrum.

Þegar leið að kvöldi, vantaði ekki að umhverfið skartaði sínu fegursta, en það vantaði kannski örlítið upp á hitastigið þannig að aukið líf færðist í toppfluguna sem hafði aðeins látið sjá sig yfir heitasta tíma dagsins þegar bleikjurnar settu upp sína sýningu. Vorið er alveg á næsta leiti í Selvoginum, nokkrir góðir dagar í viðbót og veiðimenn fá sýnishorn og bragðprufur af bleikjunni í Hlíðarvatni.

Bleikjur í ferð
0 / 2
Bleikjur alls
0 / 3
Urriðar í ferð
00
Urriðar alls
1 / 1
Veiðiferðir
3 / 4

Hlíðarvatn 26. apríl 2020

Helgin fór að mestu í ýmislegt stúss við veiðihús Ármanna við Hlíðarvatn í Selvogi, þrífa og gera klárt fyrir sumarið. Þar sem þrifnaðaræðið fór út yfir öll velsæmismörk í gær, laugardag, og einhverju þurfti að stinga í þvottavél var bónusdagur hjá okkur hjónum í Selvoginum í dag. Eftir að hafa stússast við veiðihúsið í eins og hálfan skrifstofumannavinnudag, tókum við út ónotað veiðileyfi tiltektardagsins og brugðum okkur niður í Stakkavík sem ku geyma nokkrar fallegar bleikjur.

Stakkavík – smellið fyrir stærri mynd

Víkin skartaði sínu fegursta í sólinni í dag og stöku bleikjur stungu snjáldrinu upp úr vatninu, svona rétt aðeins til að smakka á sumrinu, en lítið meira en það. Það sem ég bauð þeim niðri í vatninu þótti ekkert sérstaklega gómsætt, aðeins ein þeirra gerði sig líklega til að festast á flugu, en trúlega hefur henni snúist hugur þegar bragðið á Krókinum var ekki eins og hún gerði ráð fyrir.

Eftir nokkrar tilraunir til viðbótar með aðrar flugur færðum við okkur yfir í Guðrúnarvík sem mér hefur alltaf komið sérstaklega vel saman við í upphafi sumars. Við höfðum haft spurnir af einhverjum bleikjum þar sem vildu ekkert sem að þeim hefði verið rétt, þannig að við ætluðum í smá skoðunarferð til að berja þessar elskur augum.

Það fór nú svo að mér tókst að plata eina af þessum matvöndu bleikjum til að taka Peacock með rauðu skotti. Áður en einhverjum dettur í hug að spyrja mig hvort þessi 50 sm. bleikja hafi fengið líf, þá er svarið; Já, hún fær framhaldslíf í mínum líkama, smjörsteikt með hvítlauk og nægu salti.

 

Bleikjur í ferð
01
Bleikjur alls
0 / 1
Urriðar í ferð
00
Urriðar alls
1 / 1
Veiðiferðir
33

Hlíðarvatn í Selvogi 19. & 20. júlí 2019

Það hefur verið rólegt yfir veiðiferðum síðustu vikur vegna anna í öðrum störfum, en til tilbreytingar þá smelltum við veiðifélagarnir okkur á laugardaginn í Hlíðarvatn í Selvogi. Farsíminn var skilinn eftir inni í veiðihúsi og þar með var 80% af áreitinu útilokað. Þau 20% sem útaf stóðu voru af mjög náttúrulegum uppruna og það var meira en nóg af því í loftinu í Selvoginum. Ef marka má það sem sloppið hefur upp úr vatninu af mýflugu þá er ætið yfirdrifið og bleikjan hefur haft úr nógu að moða síðustu daga.

Við mættum á föstudaginn í fyrirtaks veðri og það var rólegt yfir bleikjunni í vatninu, hún var ekkert að sýna sig og fáum sögum fór af veiði þeirra sem við hittum við vatnið. Eitthvað hafði Kári verið að sperra sig í hitanum í Selvoginum og það var eins og bleikjan hefði bara komið sér fyrir í svalanum niðri í vatninu, södd og sæl á meltunni.

Við fórum hring um vatnið, kíktum við á Brúarbreiðunni en köstuðum ekkert, bleyttum færi frá Urðarvík og út að Kaldós en urðum ekki vör við fisk. Við enduðum kvöldið á því að tölta út með Botnavík þar sem mér tókst að plata eina bleikju undir 30 cm á Krókinn #14. Fiskurinn fékk frelsi og flugan fékk frí því fljótlega eftir þetta röltum við í hús og tókum á nokkur náðir.

Þessi vakti yfir okkur aðfaranótt laugardags

Ég byrjaði laugardaginn á því að kíkja niður í Guðrúnarvík og á Gunnutanga þar sem ég er nú ekki frá því að eitthvert líf hafi verið með bleikjunni en því miður náði ég engri sönnun á land. Við fórum síðan út á Réttarnes og prófuðum þar í nokkur tíma áður en ég tók mér göngutúr inn að Gömluvör. Á leiðinni varð ég var við bleikju að veltast í æti beint suður af húsi Stakkavíkur, en náði ekki til hennar. Annað líf varð ég ekki var við fyrr en í Stakkavíkinni sjálfri þar sem sund- og veiðikennsla himbrimahjóna var í gangi.

Úr Stakkavík

Síðustu þurru mínútum dagsins eyddu við félagarnir síðan í Guðrúnarvík og þar í grennd en þegar hitaskúrir síðdegisins skullu hressilega á okkur, þá héldum við í hús, tók saman okkar hafurtask, þrifum og kvittuðum í veiði- og gestabók Hlíðarsels. Þrátt fyrir lítil aflabrögð var þetta kærkomin tilbreyting frá öðru stússi síðustu vikna.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 1 55 / 71 0 / 0 7 / 14 15 / 15

Hlíðarvatn í Selvogi 12. júní 2019

Harmkvælasaga mín af samskiptum við veiðigyðjuna hélt áfram í vikunni. Nú var komið að gyðju Hlíðarvatns í Selvogi að kenna mér lexíu í auðmýkt og hógværð. Forsaga þess tímabils sem stendur yfir um þessar mundir má rekja til einfalds hrekks sem ég lét út úr með við Hlíðarvatn í Hnappadal fyrir nokkrum vikum, sjá þessa færslu. Veiðigyðjan túlkaði gáleysislega upptalningu mína á fjölda fiska sem rembing og mont og nú er ég látinn gjalda þess í algjöru fiskleysi.

Við Kaldós

Eftir að hafa eitt s.l. Hvítasunnudegi við móttöku gesta við Hlíðarvatn í Selvogi var komið að því að veiða svolítið í vatninu, nokkuð sem mér gafst ekki tími til á sunnudaginn. Vel að merkja, veiðifélagi minn eyddi lunganu úr sunnudeginum við veiðar í Hlíðarvatni þannig að fjöldi veiðiferða hefur þar með verið jafnaður og aflatölur því fullkomlega samanburðarhæfar. Af fullkominni tillitssemi ætla ég ekki að minnast einu orði á afleysi hennar á sunnudaginn.

Fiskafóður undir Hlíð

En að veiðiferð okkar hjóna á þriðjudagskvöldið og fram á miðvikudag. Síðla þriðjudags héldum við af stað í Selvoginn, bíll pakkaður af græjum og gómsætu nesti sem hæfði tilefni. Selvogurinn tók á móti okkur með ágætis veðri, örlítlu kuli og hitastigi með ágætum. Eftir að hafa komið dóti fyrir í Hlíðarseli, veiðihúsi Ármanna, tókum við stefnuna á suðurströnd vatnsins með fyrsta stoppi á Brúarbreiðunni. Lítið var að frétta þar fyrir utan eina töku hjá veiðifélaganum þannig að við færðum okkur í Guðrúnarvíkina og á Flathólma. Enn færri fréttir þaðan þannig að við renndum í gegnum flugnagerið undir Hlíð en snérum við og fórum í Botnavík og Skollapolla þar sem veiðifélaginn opnaði reikning sumarsins í Hlíðarvatni með mjög fallegri bleikju sem tók Hatara útgáfu af mýpúpu. Þegar sólin gekk til viðar og máninn að spegla sig í Botnavíkinni, héldum við í hús, fengum okkur bita og fórum í koju.

Máninn á lofti og í Botnavík

Miðvikudagurinn rann upp, heiðskír og fagur með örlítið meira kuli úr því sem veiðifélaginn kallaði allar mögulegar vestlægar áttir sem raunar spönnuðu 360° og stundum úr öllum þessum áttum í einu. Þriðja stöngin sem mætti á slaginu kl. 8 fékk laufléttar leiðbeiningar um að fiskur hefði látið sjá sig í og við Urðarvíkina kvöldið áður og þangað fór hún í öruggum höndum. Við félagarnir fórum aftur á móti út á Mosatanga þar sem vestanáttin var einmitt af vestri um þær mundir og því ágætt að byrja þar.

Við Mosatanga

Sjaldan hefur Mosatanginn brugðist, en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og við færðum okkur yfir í Stakkavík sem skartaði sínu fegursta í glampandi sólinni. Ég óð víkina endilega frá vestri til austurs, alveg út að dýpinu utan við Gömluvör þar sem ég fékk jákvæðasta viðbragð ferðarinnar, örlítið nart. Þar sem lítið líf var að sjá í víkinni tókum við hádegishlé og skeggræddum næstu skref. Ákveðið var að leggja land undir fót, fara um Botnavík og Skollapolla út á Austurnes þar sem vestanáttin lék sér að því að vera úr áðurnefndum öllum áttum og af miklum eða ofsafengnum vindstyrk. Það er skemmst frá því að segja að auðvitað setti veiðifélagi minn í eina væna bleikju austur af nesinu á meðan ég sættist við örlög mín og þá lexíu sem veiðigyðjan var að kenna mér. Sannast sagna vissi ég upp á hár að ég mundi ekki fá fisk í þessari ferð. Í mér var sú tilfinning að svona mundi fara og ég var tilbúinn að sættast við það löngu áður en kom að hættumálum.

Á Austurnesi

Þær þrjár stangir sem voru á leyfum Ármanna þennan sólarhring náðu 10 fiskum sem verður að teljast harla gott, sérstaklega þegar þriðjungur stanganna náði ekki einni einustu bröndu. Smá skilaboð til veiðigyðjunnar; ég hef lært mína lexíu og skal passa mig betur í orði og athöfnum í næstu ferð.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
2 / 0 4 / 12 0 / 0 3 / 7 11 / 11

Hlíðarvatn 1. maí 2019

1.maí er hátíðisdagur og fólk heldur upp á hann með nokkuð misjöfnum hætti. Ég t.d. held upp á daginn með því að fara með sérstaklega góðum félögum í opnun Hlíðarvatns í Selvogi. Veðrið í Selvoginum á undanförnum vikum hefur verið með eindæmum, hlýtt og nokkuð stöðugt, hæfilega mikill raki í lofti og þó nokkrir sólardagar. Mér skilst að þessi mánuður hafi slegið met, sé hlýjasti mánuður frá því mælingar hófust og slái meira að segja 1974 og 2003 við sem þóttu nokkuð góðir.

Við Stakkavík – Ath. linsan var ekki óhrein, þetta er sveimandi bleikjufæði

Það var ekki stressið á mér í gærmorgun, fór ekki á fætur fyrr en 9:30 en var mættur út á Mosatanga kl.10, maður er ekki lengi að smeygja sér í brækurnar þegar veðrið leikur við hvern sinn fingur úti við. Það var mikið líf við, á og í vatninu við Mosatanga. Það sem ég hélt að væri bara bleikja var að veltast í ætinu sem greinilega var nóg af. Svo mikið framboð ætis var til staðar að mér tókst heldur illa að koma mínum flugum á framfæri innan um allt úrvalið sem fiskurinn hafði úr að moða. Eftir smá stund fékk ég þó mjög einkennilega töku, af bleikjutöku að vera, enda kom fljótlega í ljós að þarna var eldhress sjóbirtingur á ferðinni sem tók loftköst af andstöðu við þessa blekkingu. Greinilega ekki jafn matvandur og bleikjurnar sem litu nánast ekkert við því sem ég hafði fram að færa.

Birtingur á Mosatanga

Við félagarnir renndum við á nokkrum stöðum og víðast var sama sagan, allt fullt af fiski að úða í sig í blíðunni og greinilegt að vatnið er að koma vel undan vorinu. Af afspurn má ráða að hver einasti þekkti veiðistaður við vatnið, sem eru nokkuð margir eins og sjá má á þessu korti, er kominn í gírinn. Fiskur að vaka og velta sér í lirfum og flugu á öllum veiðistöðum.

Bleikja úr Stakkavík

Þeir veiðistaðir sem vinsælastir voru hjá mínum hópi voru; Gamlavör, Stakkavík, Mosatangi og Guðrúnarvík sem einmitt kom skemmtilega á óvart og færði okkur eina 16 fiska rétt fyrir seinna kaffi. Sannkallað ævintýri og það var haft á orði að tökurnar væru ekkert hálfkák, hressilegar og ákveðnar hjá flestum.

Ármenn við Guðrúnarvík

Það fór svo að ég var með samtals 10 fiska og þar af meirihlutinn vel yfir 42 sm. þannig að það verður veisla á pönnunni hjá mér á næstunni. Þegar ég leit yfir veiðibók Ármanna í lok þessa fyrsta dags í Hlíðarvatni, þá taldi ég 60 fiska og þar af var ánægjulegur fjöldi (meirihluti) mjög vænir fiskar og vel haldnir. Flottur dagur í opnun og það bíður greinilega ævintýri þeirra sem eiga bókaða daga í Hlíðarvatni á næstunni.

Þær flugur sem ég veit að bleikjurnar voru sólgnar í voru: Black Pennell, Buzzer, Copper John, Black GnatKrókurinn, Mýpúpa, Peacock og Teal and Black.  Eflaust hafa fleiri flugur gefið í gær, en þessum man ég helst eftir úr veiðibókinni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 9 0 / 9 / 1 0 / 2 2 / 3

 

Hlíðarvatn í Selvogi 15. – 17. júní

Það er varla að maður þori að játa að ég tók veiðiferð og afmælisveislu fram yfir landsleik í fótbolta um helgina, en það var nú samt svo. Við veiðifélagarnir áttum sitt hvorn daginn í Hlíðarvatni í Selvogi og buðum með okkur afmælisbarni helgarinnar sem varð sextugur á laugardaginn.

Við vorum mætt í Selvoginn rétt upp úr skiptitíma á föstudagskvöldið, fengum okkur í gogginn og tókum lauflétta hringferð um vatnið. Þar sem vindátt var norðanstæð ákváðum við að byrja á Brúarbreiðunni í þeirri von að æti hefði safnast þar saman undan vindi og fiskurinn léti öllum illum látum þar. Það hefur yfirleitt ekki tekið veiðimenn langan tíma að sjá hvort fiskurinn sé til staðar á breiðunni, þannig að eftir árangurslaus köst þriggja veiðimanna með ýmsum tegundum flugna í að verða 1 klst. þá ákváðum við að færa okkur um set og þá ekki síst koma okkur í skjól við töluverðan strekking sem tók sig upp um kvöldið. Stakkavík varð fyrir valinu og þar leyndist líf í öðrum hverjum hólma og í vatni; álftir, himbrimi og bleikja.

Ekki leið á löngu þar til afmælisbarnið fékk ágæta töku á Peacock og fyrsti fiskur hans í Hlíðarvatni var staðreynd. Fljótlega kom þó í ljós að þarna var á ferðinni fiskur sem hefði mátt eyða í að minnsta tveimur árum til viðbótar í vatninu, þannig að tekið var heldur mildum höndum á honum. Skyndilega kom þó sterklegur goggur í ljós sem vildi gera sér bleikjuna að góðu og small utan um fiskinn. Var þar kominn sjálfskipaður óðalsherra Stakkavíkur, háttvirtur Himbrimi. Fyrir snarræði veiðimanns var fiskurinn endurheimtur í goggi fuglsins, en ekki vildi þó betur til að hin tví-veidda bleikja hafði andast í öllum látunum og varð ekki sleppt. Af himbrimanum er það aftur á móti að segja að hann lónaði fyrir framan okkur þrjú það sem eftir lifði og ekkert okkar fékk högg þaðan í frá.

Stangirnar hvíla við Hlíðarsel á föstud.kvöldið

Laugardagurinn var tekin heldur rólega fram undir hádegi, fyrir utan að ég fór niður í Botnavík í austanáttinni og gerði heiðarlega tilraun frá því um 9 – 11 að líkja eftir ætinu sem bleikjurnar veltust í rétt utan Fóellutjarnar. Þær tilraunir báru engan árangur þannig að ég var heldur framlágur þegar ég tölti til baka í Hlíðarsel. Á leiðinni fékk ég fréttir í Árbliki þess efnis að himbriminn í skerjunum við Skollapolla hefði tekið illa í heimsókn veiðimanns kvöldið áður og beinlínis lagt til hans bæði ofan vatnsborðs og neðan. Einhverjum sögum fór af hlátrarsköllum veiðifélaga viðkomandi þegar hann átti fótum fjör að launa undan reiði himbrimans. Ég sel söguna ekki dýrar en ég keypti hana, en eitt er víst, himbriminn í Botnavík er ekkert að gefa sitt svæði eftir.

Eftir hádegið á laugardag skiptum veiðifélagarnir liði og völdum okkur veiðistaði eins og okkur sýndist við vatnið, því fækkað hafði verulega á staðnum þegar nær einhverjum fótboltaleik dró. Veiðifélagi minn stundaði ýmsa hrekki við Fóellutjörn, m.a. að kenna ungum bleikjum að fljúga eftir að hafa tekið þurrflugu. Ef einhver rekst á c.a. 5 sm. langa bleikju í kjarri við Fóellutjörn þá er það eitt slíkt ungviði sem óvart var kippt heldur harkalega á land og fannst síðan ekki þegar átti að sleppa. Hvort sem sagan er sönn eða ekki, þá var íturvaxin móðir þessa fisks eitthvað óhress með þessar aðfarir og tók púpu félaga míns mjög harkalega og gerði ítarlegar tilraunir til að hefna fyrir ungviðið og draga veiðimanninn út í vatnið. Eftir að hafa glímt lengi og vel við hvort annað, ákvað bleikjan að gefa eftir og sleppti púpunni og lét sig hverfa.

Við bræðurnir byrjuðum aftur á móti innarlega í Botnavíkinni en færðum okkur síðan út á Réttarnes þar sem mér tókst að setja í væna, klassíska Hlíðarvatnsbleikju af alþekktri punds stærð. Var þá farið að blása af suðri og eitthvert æti lagði upp að Réttarnesinu sem bleikjan sótti í. Að vísu varð ég frá að hverfa um seinna kaffi til að taka á móti gestum sem bar að garði í Hlíðarseli og fyrir kvöldmat voru allir hættir veiði og sestir að kræsingum í húsi.

Sunnudagurinn var heldur þungbúinn, gekk á með skúrum og hitastigið hefði alveg mátt vera hærra. Samt sem áður voru bleikjur í æti í Botnavík og þangað skunduðum við félagarnir um hádegið. Í Fóellustjörninni tók veiðifélagi minn væna bleikju undir vökulu auga himbrimans, aðra í algjörum friði við Kaldóshólma og síðan tvær mjög fallegar á leiðinni í til baka við Fóellutjörnina. Sjálfur reyndi ég allt mögulegt við Skollapolla og út af Fóellutjörninni, en varð ekki var við neinn fisk sem var kominn í matfiskastærð. Man í svipinn ekki fjölda þeirra sem ég setti í sem voru á bilinu 4 – 10 sm. sem vitaskuld var öllum sleppt eða sluppu sjálfir.

Alltaf slæðist ein og ein ný fluga í box okkar veiðifélagana og að þessu sinni prófaði veiðifélagi minn þessa flugu í gárunni á vatninu og hún sló greinilega í gegn hjá bleikjunni.

Black Foam Buzzer – ekki góð mynd, en dugar samt

Ef einhver hefur rekist á fuglahræðu sem virkar á himbrima á hreiðri, þá má hinn sami senda mér línu, því það var áberandi að fiskur hélt ekki til í næsta nágrenni við óðal himbrimans. Meira segja pottþéttir veiðistaðir við Skollapolla voru nánast fisklausir, helst hægt að finna smáfisk sem himbriminn nennti ekki að eltast við. Eins vænt og mér þykir nú almennt um himbrimann, þá finnst mér tvö pör á ekki stærra svæði en frá Botnavík og inn að Mosatanga vera heldur of mikið af því góða. Að vera með 2,5% himbrimastofnsins á þessu svæði er aðeins og mikið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 15 / 13 / 0 / 1 / 7

Hlíðarvatn í Selvogi, 30.4 – 1.5

Það skiptust ekki á skin og skúrir, kannski meira svona sól og slydda þegar Hlíðarvatn í Selvogi var opnað í dag, 1.maí. Veðurspá dagsins var í sem fæstum orðum; kuldi með roki og hún gekk að mestu eftir en inni á milli komu augnablik þar sem bæði fiskar og menn fóru á kostum.

Ég var svo heppinn að ná að ljúka ákveðnum skylduverkum við vatnið í gær, þannig að þá tókst mér og félaga mínum að laumast út á Mosatanga, þaðan sem við tókum með okkur sitt hvora bleikjuna, aðra rétt undir 40 sm. og hina rétt yfir. Í morgun fór ég niður á Brúarbreiðu, en eitthvað var nennan ekki mikil hjá mér þannig að ég eftirlét öðrum að taka vel á þriðja tug fiska upp úr vatninu. Þar á meðal var ein sem náði 57 sm. í mælingu og var einstaklega vel haldin og falleg.

Eftir hádegishlé fórum við félagarnir aftur út á Mosatanga þar sem ég tók tvær hraustlegar bleikjur sem báðar voru yfir 30 sm. þannig að deginum var borgið. Þess má geta í framhjáhlaupi að í loka þessa fyrsta veiðidags míns félags, Ármanna, voru skráðir 91 fiskur í veiðibók félagsins, nokkuð sem gefur fyrirheit um gott sumar í Selvoginum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 / 4 / 0 / 1 / 3

 

Hlíðarvatn í Selvogi, 28. apríl

Þó meginmarkmið ferðar í gær austur í Selvog hafi verið að plokka rusl, þá fór nú svo að flugur voru baðaðar í lok vinnudags.

Hópur Ármanna við Hlíðarsel

Veðrið lék við veiðifélögin við Hlíðarvatn þegar félagar þeirra tóku til hendinni og tíndu rusl, dyttuðu að húsum og húsbúnaði. Þrátt fyrir nokkurn strekking og ekkert of hátt hitastig, þá var veiðilegt við vatnið þannig að við veiðifélagarnir stóðumst ekki mátið og kíktum í Stakkavík. Þar voru fyrir þrír veiðimenn sem höfðu gert misjafnlega gott mót, einhver fékk nart, annar ekki neitt en einn stóð uppúr með bleikjur á land og einhverjum sleppt.

Fljótlega hljóp á snærið hjá veiðifélaga mínum sem fékk 40 sm. einstaklega vel haldna og góða bleikju á blóðorm, en eitthvað þurfti ég að hafa meira fyrir því að ná fyrsta fisk sumarsins í Hlíðarvatni, en það tókst áður en yfir lauk og ég setti í eina 40 sm. á Peacock með rauðum kúluhaus.

Af öðrum veiðimönnum við vatnið er það helst að frétta að veiði dagsins var þetta á bilinu 6 – 20+ bleikjur. Mosatangi kom sterkur inn að vanda að vori og töluvert var um fisk á Brúarbreiðunni, þótt hann væri nokkuð smærri en þeir sem komu á land í Stakkavík og Mosatanga. Hlíðarvatn ætlar að koma sterkt inn þetta vorið, ef eitthvað er að marka niðurstöðu þessa fyrsta en óformlega veiðidags því vatnið opnar ekki formlega fyrr en 1.maí að vanda.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 1 / 0 / 1 / 2

 

Hlíðarvatn í Selvogi, 30. sept.

Á fimmtudag fékk ég SMS frá veiðifélaga mínum sem hafði alveg óvart kíkt á veðurspá helgarinnar fyrir Selvoginn og enn meira óvart rambað inn á leyfi.is þar sem við blasti síðasti dagur tímabilsins laus hjá Ármönnum. Það er alveg hreint ótrúlegt hve góðan veiðifélaga ég á, að detta niður á þessar upplýsingar og stinga upp á því að við tækjum þennan dag. Þetta varð nú kveikjan að því að veiðidótinu var hlaðið í bílinn eftir vinnu í gær, komið við í matvöruverslun og brunað austur í Selvog.

Haustlitirnir við Hlíðarsel

Það er svolítið tregablandin ánægja að ljúka tímabilinu í Hlíðarvatni, en kannski við hæfi að vera á staðnum bæði fyrsta og síðasta dag veiðitímabilsins og kannski enn meira við hæfi að þeir enduðu í sömu aflatölu. Annars var einn mjög stór munur á þessum dögum, veðrið í dag var svo margfalt betra og fallegra heldur en 1. maí þegar stjórn Ármanna opnaði vatnið. Sumarið hefur annars verið alveg með ágætum hjá okkur í Hlíðarvatni, þótt auðvitað hafi skipst á skyn og skúrir og afaltölur hafi ekki alltaf verið upp á marga fiska.

Ekki amalegt veðrið við Djúpanef

Við hófum veiði í morgun á nokkuð hefðbundnum slóðum Ármanna, í Botnavík. Stutta yfirlitið; bleikjurnar hafa greinilega lokið sér af í Botnavík og horfið á vit annarra ævintýra á öðrum slóðum í Hlíðarvatni. Sömu sögu er að segja af Skollapollum, Djúpanefni og Mölinni. Á Brúarbreiðu var í það minnsta ein bleikja enn á svæðinu, en hún var frekar viðskotailla og bara rétt glefsaði í flugu frúarinnar. Fleiri fréttir af fiskum í Hlíðarvatni kann ég því miður ekki að segja eftir daginn í dag.

Við Brúarbreiðuna í 12 stiga hita í dag

Það gladdi samt okkar litlu hjörtu að sjá að við vorum ekki einu veiðimennirnir í Selvoginum í dag. Í húsi Selfyssinga voru tveir veiðimenn sem voru á svipuðu róli og við, prófuðu Urðarvíkina, Kaldós, Réttarnes og svo Botnavíkina núna síðdegis. Ég kann því miður ekki að segja neinar veiðisögur af þeim félögum, vonandi hefur þeim gengið eitthvað betur en okkur hjónum.

Uppfært 02.10.2017: Jú, þeir félagar úr húsi Selfyssinga urðu varir og gott betur en það. Hann Þórarinn sendi okkur skilaboð og hér má lesa frásögn hans af ferð þeirra feðga í Hlíðarvatn.

Nú eru aðeins örfáir mánuðir þar til við mætum aftur í Hlíðarvatn, tökum til hendinni í vorhreinsun og fáum e.t.v. að bleyta færi að launum fyrir vel unnið verk. Þangað til ætla ég að ylja mér við endurminningar sumarsins úr Selvoginum og ekki síst þennan síðasta dag okkar þar þetta árið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 115 / 157 / 0 32 / 31 16 / 18

Hlíðarvatn í Selvogi, 13. & 14. ágúst

Allt of langt síðan, en alls ekki langt. Þessu skaut niður í kollinn á mér í gær, sunnudaginn, þegar við veiðifélagarnir renndum suður að Hlíðarvatni í Selvogi. Við áttum fyrir höndum heilan sólarhring í veiði við Hlíðarvatnið og það var ekki laust við að maður gleymdi næstum alveg kvefi og pestarvotti sem var eitthvað að hrjá mig. Þegar suður í Selvog var komið var stillt og fallegt veður, næstum alveg eins og veðurspáin hafði lofað.

Eftir að hafa tekið félaga úr síðasta holli hjá Ármönnum tali, var ekki laust við að tvær grímur rynnu á okkur; var bleikjan bara hætt við eftir allt saman? Það var aðeins eitt til ráða, drífa sig í gallann og renna á einhvern þeirra ótal veiðistaða sem vatnið geymir. Vestasta-Nef varð fyrir valinu og þar setti annað okkar í væna bleikju eftir smá tíma, mér liggur við að segja að segja að það hafi „auðvitað“ verið veiðifélagi minn. Ég er reyndar viss um að bleikjan sú arna hafi verið sú sem slapp frá mér, nokkrum mínútum áður.

Horft yfir Hlíðarvatn til norðurs

Þegar fór að halla í kvöldið, fórum við að Brúarbreiðu þar sem við höfðum séð eitthvert líf þegar við renndum í hlað fyrr um daginn. Það líf var greinilega farið að sofa þegar við mættum með flugurnar, þannig að við héldum áfram inn með vatninu að austan eftir stutt stopp. Mölin varð fyrir valinu og við lá að maður hefði sig varla til að eyðileggja stilluna með flugulínunni, svo fallegt var síðkvöldið og útsýnið eftir því. Eftir tíðindalaus köst ákváðum við að fara tiltölulega snemma í bólið og taka daginn í dag snemma.

Sunnudagskvöld við Hlíðarvatn

Já, einmitt. Blessunarlega getum við þakkað fyrir að vera á Íslandi þegar kemur að veðri. Ef það er leiðinlegt, þá þarf maður í mesta lagi að bíða í eins og klukkutíma, þá hefur það örugglega breyst annað hvort til hins verra eða til hins betra. Þannig var það í morgun, heldur mikil gjóla og eiginlega bölvanlega blautt þegar við fórum á fætur, en eftir smá tíma hafði auðvitað lægt og næstum því stytt upp. Raunar var veðrið meira og minna í því að stytta upp í allan dag á milli þess að það var algjört logn, sól, þoka, rigning, gola og svo ágætis hiti. Þetta var sem sagt alveg týpískt íslenskt sumarveður sem fylgi okkur úr Kaldós út á Djúpanef, Austurnes og inn að Skollapollum. Á þessu ferðalagi okkar setti ég í þrjár mjög góðar bleikjur og veiðifélagi minn í eina áður en við héldum til baka í hús og fengum okkur mjög síðbúinn hádegisverð.

Skyggnst í átt að Mölinni

Deginum lukum við á Réttarnesinu þar sem ég tók grunnnámskeið í almennu skeytingarleysi. Kennarinn var alveg ágætis bleikja sem ég sá vel til, rétt innan við Réttarnes. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að fylgjast með því hvernig hún brygðist við þeim flugum sem ég setti fyrir hana. Í stuttu máli, ég hef greinilega alls ekki sama smekk á flugur og bleikjurnar. Það sem mér fannst að hefði átt að gera þessa bleikju alveg brjálaða, lét hún bara eins og hún sæi ekki. Í besta falli sýndi hún misheppnuðum köstum mínum einhvern áhuga og þá helst ef línan kipptist til og lenti í einhverri bendu á vatninu. Trúlega varð henni bara svona skemmt yfir þessum aulaskap. Á meðan ég sat á skólabekk bætti veiðifélagi minn einni bleikju við í netið, þannig að við enduðum í 3 + 3 bleikjur á bilinu 30 – 38 sm. Öðrum eins fjölda var trúlega sleppt, þær verða orðnar veiðanlega að ári og þá munu veiðimenn örugglega bítast um þær. Það voru sælir og sáttir veiðimenn sem héldu heim úr Hlíðarvatni í kvöld og nú bíða 6 gómsætar bleikjur eftir því að verða matreiddar í vikunni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 107 / 113 / 0 23 / 16 12 / 12

Hlíðarvatn í Selvogi, 11. júní

Ég og veiðifélagi minn vorum náttúrulega við Hlíðarvatn í Selvogi í gær, sunnudag. Að vísu fór mestur okkar tími í önnur verk heldur en að veiða, en þegar um hægðist í gestamóttöku í Hlíðarseli Ármanna, skrapp veiðifélagi minn með góðum kunningjum okkar suður að Mið-Nefi og gerði þar gott mót á þeim stutta tíma sem hún staldraði við. Fórnarlambið var auðvitað bleikja, rétt um 30 sm. sem féll alveg í stafi fyrir Peacock með orange skotti.

Annars var fjölmennt við vatnið í gær en bleikjan sýndi gamalkunna takta og sá við ansi mörgu agni veiðimanna sem reyndu allt hvað af tók frá um kl. 7:00 fram yfir kl. 17:00 að ná henni á sitt band.

Það skal tekið fram að kortið af vatninu sem er að finna hér á síðunni hefur verið uppfært lítillega þannig að vinsælir veiðistaðir við sunnanvert vatnið eru nú inni á kortinu, þ.á.m. vinsæll veiðistaður ofan flundrugildrunnar sem hefur tekið að festast í sessi sem Brúarbreiða. Kortið er að finna í umfjöllun um vatnið hérna.

Veðursældin við Hlíðarvatn í gær
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 6 / 0 / 1 4

Hlíðarvatn í Selvogi, 3. og 4. júní

Ég lét þau ummæli falla um daginn að veður væri hugarástand. Ef svo væri, þá voru skapsveiflurnar töluverðar í Selvoginum síðustu tvo daga. Einstaka sólarglæta, norð-austan strekkingur, austar gola, logn, sunnan andvari, skýjað, ekki eins skýjað og svo ausandi rigning. Ekkert af þessu fær því breytt að veiðiferð í Hlíðarvatn er nærandi, bæði fyrir sál og líkama.

Skömmu eftir komuna í Hlíðarvatn á laugardaginn fékk ég þær fréttir að heldur hefði nú verið fátt um fisk úr vatninu þann daginn og það var látið fylgja að ekki hefði byrjað að rigna fyrr en við mættum á staðinn. En, við tókum okkur til og ákváðum að kíkja inn í Stakkavík í austanáttinni. Eftir lítil viðbrögð færðum við okkur á Mölina því það hafði sagt mér maður að þar væri von á fiski þegar hann hallaði sér í norð-austanátt sem reyndist rétt því þar tókst okkur að særa upp þrjár þokkalegar bleikjur. Flugurnar sem hjálpuðu til við þetta voru Peacock með orange skotti og Watson‘s Fancy púpa. Undir hættumál ákváðum við að fara heldur lengri leið að Hlíðarseli og renndum niður að brú þar sem ég setti í mína stærstu bleikju úr Hlíðarvatni til þessa, 46 sm ljóngrimma og stútfulla af mýlirfu.

Þokkalega sátt við kvöldið fórum við síðan í bólið með þá von í brjósti að veðrið léki kannski örlítið meira við okkur á sunnudeginum.

Jú, veðrið lék sér, en kannski ekki neitt sérstaklega við okkur. Hann rofaði til, hann dró fyrir, hann lygndi og hann hvessti og svo endaði hann eiginlega á því að hella úr sér yfir okkur. Við reyndum fyrir okkur á Mosatanga þar sem ein væn kom á land á Peacock með orange skotti og þaðan héldum við yfir á Réttarnesið þar sem einn stubbur slæddist á Prince Nymph.

Stilla í Botnavík

Eftir síðdegishressingu lægði skyndilega og við ákváðum að rölta niður í Botnavík í stillunni. Það er ekki alltaf sem maður getur skimað botninn í allri víkinni, en slík var stillan á köflum að ævafornar tunnur og annað skran varð sérstaklega vel sýnilegt, því miður. En Adam var ekki lengi í paradís, því skyndilega dró ský fyrir önnur ský og úr þeim gusaðist þvílík rigning að Nóa hefði þótt nóg um. Það merkilega við þetta var nú samt, að klak flugunnar tók kipp og inn á milli dropa mátti sjá bleikjur gæða sér á flugu. Að vísu voru flestar vökurnar vel utan kastfæris en samt sem áður tókst veiðifélaga mínum að særa upp væna bleikju í úrhellinu á; já einmitt Peacock með orange skotti.

Rigning í Botnavík

Á heimleiðinni könnuðum við nýjar slóðir við sunnanvert vatnið. Við lögðum við nýlegt bílastæði gengt Gunnutanga og röltum með vatninu að Austasta Nefi. Á leiðinni setti félagi minn í tvær bleikjur, önnur fór í netið en hinni var sleppt og því sannað að það er fiskur út um allt vatn í Selvoginum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 6 / 1 / 1 4

Hlíðarvatn í Selvogi 3. & 4. sept.

Ef einhver heldur að það sé snúður á mér eftir veiðiferð helgarinnar, þá er það nú ekki svo. Þannig að það sé fært strax til bókar, þá fékk ég eina 25 sm. bleikju á laugardagskvöldið og svo ekki söguna meir. En, ég er miklu meira en sáttur við ferð okkar veiðifélaganna í Hlíðarvatn í Selvogi.

Hlíðarvatn í Selvogi - 4. sept .2016
Hlíðarvatn í Selvogi – 4. sept .2016

Eins og sjá má skartaði Selvogurinn sínu fegursta um helgina, þótt sunnudagurinn hefði mátt vera örlítið hæglátari framan af heldur en raunin varð á. Bleikjurnar tóku á móti okkur á laugardaginn með ærslafullum skvettum og greinilega í töluverðu tökustuði í Botnavíkinni. Frúin setti í fyrsta fisk, sem var aðeins of lítill á pönnuna og fékk því líf. Ég setti í næsta, sem sömuleiðis stóðst ekki mál sem varð honum til lífs, en svo tók frúin öll völd og smellti í þrjár sem smellpassa á pönnuna, rétt pláss fyrir smjör og nokkrar hvítlaukssneiðar með flökunum. Nýjar kartöflur úr garðinum og það verður veisla á morgun. Vel að merkja, bleikjurnar tóku Peacock með orange skotti í stærð #12 og #14. Við þurftum reyndar ekki að bíða eftir því að opna þær til að sjá hvað þær voru að éta því þegar frúin hugaði að fiskinetinu sem lá í fjöruborðinu, var það svart af marfló, nokkuð sem ég hef ekki áður séð við Hlíðarvatn.

Það er eiginlega ekki einleikið hvað veðrið hefur leikið við okkur í sumar og sunnudagurinn varð eiginlega engin undantekning þar frá. Veðurspáin hljóðaði upp á töluverða rigningu, svona eins og 10 dropa á korti, en þeir urðu nú bara 10 droparnir sem smelltu sér niður í Selvogin rétt á meðan við létum renna á könnuna um morguninn. Að vísu var vindurinn eitthvað svipað og spáð var, þannig að við tókum bara sjöurnar með okkur út að Skollapollum, inn í Botnavík, Stakkavík og út að Hlíðarey. Eitthvað varð frúin vör við fisk, smá nart og stöku bleikja sýndi sig, en ég var algjörlega lánlaus, ekki eitt nart og virtist missa af öllum byltum bleikjunnar í yfirborðinu. Svona eru bara sumir dagar í veiði, stundum gengur bara ekkert upp, í það minnsta hjá mér.

Við Stakkavík
Við Stakkavík

Þegar við höfðum tekið veiðistangirnar saman í lok dags, vopnuðumst við öðrum tækjum og tólum og héldum til annarskonar veiða. Frúin kíkti til berja, vopnuð berjatínum og ég skaut á allt sem fyrir varð með myndavélum. Það stóð á endum að þegar veiðitíma okkar lauk, stillti vind svo um munaði og þá fóru flugur á stjá, gárurnar hurfu í Stakkavíkinni og ég er handviss um að þeir sem áttu veiði á eftir okkur, hafa fengið að kynnast tökustuði bleikjunnar, rétt eins og við urðum vitni að á laugardagskvöldið. Svo lengi sem flugurnar klekjast og fara á stjá, þá er bleikjan í Hlíðarvatni til í tuskið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 216 / 237 / 0 36 / 43 19 21

Hlíðarvatn, 12. júní

Hlíðarvatnið skartaði sínu fegursta þegar við renndum í hlað við Hlíðarsel Ármanna upp úr hádeginu í dag. Fjöldi fólks nýtti sér fría veiði og leiðsögn á árlegum Hlíðarvatnsdegi veiðifélaganna, enda hefur vatnið verið í sínum gamla ham þetta árið, flott veiði og vænn fiskur.

Það var gestkvæmt hjá Ármönnum í dag
Það var gestkvæmt hjá Ármönnum í dag

Heimsókn okkar var e.t.v. ekki sérstaklega til þess ætluð að taka fram stangirnar, meira svona til að sýna sig og sjá aðra. Engu að síður settum við saman þegar u.þ.b. klukkustund var eftir af veiðideginum og tókum stefnuna á Mosatanga með stuttu stoppi á Flathólma. Það fór svo að lokum, þ.e. eftir að hafa prófað næstum allar flugur í bókinni að ég setti rauðan Higa’s SOS undir (tilraundýr frá því í vetur) að ég setti í tvær bleikjur, 25 og 35 sm. Sú minni fékk líf, en hin bíður matreiðslu á morgun.

Vitaskuld renndum við að Hlíðarseli eftir veiði og kvittuðum fyrir þessum fiskum í veiðibókina og settum trúlega þar með punktinn fyrir aftan i-ið þennan dag og þar með voru skráðir 37 fiskar hjá Ármönnum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 10 / 0 2 9

Hlíðarvatn, 2. maí

Það var ljóst að það yrði ekki auðvelt fyrir okkur veiðifélagana að feta í fótspor fyrsta dags sumarsins í Hlíðarvatni í Selvogi. Engu að síður renndum við glaðbeitt úr bænum upp úr kl.16 á sunnudag og stefndum á Selvoginn. Á leiðinni renndum við í gegnum ýmis sýnishorn af veðri og ekki leyst okkur á blikuna þegar við komum á Suðurstrandaveginn. Ausandi rigning, hitastigið lækkaði og lækkaði og á köflum bætti hressilega í vind. En þegar í Selvoginn var komið, skein sú gula í heiði, hitastigið vel ásættanlegt og á móti okkur tóku stór bros þeirra sem voru að klára fyrsta daginn. Nálega 60 fiskar höfðu komið á land á einum sólarhring.

Við biðum ekki boðanna, smelltum okkur í gallana og tókum stefnuna á Stakkavík. Ef einhver hefur efast um að Hlíðarvatn geymi fisk, þá hefði útsýnið sem mætti okkur í Stakkavík tekið af allan vafa um það. Uppitökur bleikju um alla vík, þær beinlínis veltu sér um í toppflugunni sem klaktist út eins og enginn væri morgundagurinn.

Afrakstur síðdegisins voru 5 bleikjur  á bilinu 35 – 42 sm. auk einnar 25 sm. sem auðvitað fékk líf. Það voru því sáttir veiðifélagar sem stungu sér inn í nýmálað Hlíðarsel í síðbúinn kvöldverð og svo beint í bólið. Morguninn skyldi tekinn með stæl.

Þær eru ekkert í megrun, bleikjurnar í Hlíðarvatni
Þær eru ekkert í megrun, bleikjurnar í Hlíðarvatni

Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur, en skollanum kaldari. Það hafði heldur betur kólnað um nóttina og hitastigið aðeins tæpar 2°C kl. 7:00  Við ákváðum því að leyfa kvikasilfrinu að lifna aðeins betur við í mælunum  áður en við héldum af stað, helltum upp á kaffi og snæddum morgunverð í rólegheitum. Rétt um kl. 9:00 sýndi mælirinn 4°C og við héldum af stað. Höfðum raunar hug á að kíkja á Mosatanga sem hafði gert góða hluti á sunnudaginn, en þar var þegar mættur hópur með allar flugur úti til að fanga bleikjurnar. Stakkavík varð því aftur fyrir valinu, en í þetta skiptið sáum við ekki eina einustu bleikju, ekkert klak og afraksturinn varð eftir því, enginn. Við héldum því í Botnavíkina, heilsuðum upp á einn sem greinilega leiddist við Fóellutjörn, eða ekki. Sá hafði heldur betur dottið niður á bleikjupott sem hann fiskaði hverja bleikjuna á fætur annarri upp úr. Glæsilegur dagur hjá honum, sem ekki verður sagt um okkar tilraunir þótt veiðifélaginn hafi rétt aðeins úr aflatölum með einni bleikju á Austurtanga.

Hlíðarvatn að morgni 2.maí
Hlíðarvatn að morgni 2.maí

Eftir heldur snautlega ferð frá Botnavík að Austurtanga héldum við í hús, helltum upp á kaffi og hugsuðum okkar gang. Vindinn, sem hafði aukið jafnt og þétt yfir daginn, virtist vera að lægja og heldur hafði hitastigið togast upp, ekki mikið, en þó örlítið. Ættum við ekki bara að athuga hvort eitthvað væri um að vera á Mosatanga og eyða þessum tveimur tímum sem eftir voru dagsins þar. Þegar til kom var hópurinn frá því um morguninn mættu aftur enda höfðu þeir gert ágæta veiði að sögn, þannig að við fórum með heldur hálfum huga í Stakkavíkina. En viti menn, klak komið á fullt og bleikjur að velta sér í yfirborðinu. Það fór svo að við náðum 5 bleikjum til viðbótar í víkinni, en þurftum að standa af okkur vind úr öllum áttum, sól, rigningu og undir það síðasta, slyddu þannig að um 17:30 létum við gott heita og drifum okkur í hús og heim.

Af flugum sem hafa verið að gefa þessa dagana er þetta helst að frétta; Burton (Stakkavík), Black Zulu (Stakkavík), Teal and Black (Mosatanga), Toppflugan (Stakkavík), Mobuto (Stakkavík), Peacock með orange skotti (Réttarnes), Krókurinn (Fóellutjörn) og svo ýmsar mýflugu eftirlíkingar á flestum stöðum.

11 fiskar á land, allt fallegir fiskar, og við veiðifélagarnir miklu meira en sátt við þessa fyrsti alvöru veiðiferð sumarsins. Þegar við skutumst í Hlíðarsel til að skrá síðustu fiskana og kvitta í gestabókina, töldum við upp úr veiðibókinni; 77 fiskar skráðir hjá Ármönnum og aðeins dagur nr. 2 á tímabilinu að kvöldi kominn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 7 7 / 0 1 5

Hlíðarvatn, 23. & 24.apríl

Fylgifiskur Hlíðarvatnshreinsunar Ármanna ár hvert er að þeir sem leggja gjörva hönd á plóg fá að baða flugur sínar að loknum vinnudegi í Hlíðarvatni. Það var einmitt það sem ég hafði fyrir stafni þessa helgi.

Uppbyggilegi hluti þessarar frásagnar er að það safnaðist í þrjá stóra svarta af rusli á laugardaginn á svæði Ármanna. Hreint land, fagurt land. Eins og kunnugt er þá er alltaf gott verður í Selvoginum og þannig var því einnig farið á sunnudaginn. Á meðan höfuðborgarbúar og nærsveitungar fóru á fætur í rigningu og súld, var hreint og beint glampandi sól og blíða við Hlíðarvatnið og ekki eftir neinu að bíða, Hlíðarsel skildi málað.

Af veiði undirritaðs er ekkert að frétta, punktur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 / 0 1 4

Hlíðarvatn í Selvogi, 25. júní

Formlega var þetta fyrsta ferð mín í Hlíðarvatn í Selvogi, sem Ármaður. Við hjónin eru lukkunnar pamfílar, svo ekki verður nú meira sagt. Við eigum frábæra veiðifélaga, bæði tvö og svo eigum við hreint út sagt frábæra sameiginlega vini og kunningja. Einn þeirra, Stefán Hjaltested bauð í Hlíðarvatnið í gær / dag og auðvitað þáðum við boðið og vorum mætt á þennan dásamlega stað rétt um kvöldmatarleitið í gær. Þokkalegasta veður, léttur austanstæður andvari a’la Hlíðarvatn með örlítilli vætu og hitinn vel yfir 10°C.

Við vorum svo sem ekkert að þeytast út, né suður, heldur fórum beinustu leið í Botnavík. Ég held það hafi verið strax í öðru eða þriðja kasti hjá frúnni að harkalega var tekið í fluguna, en svo ekki söguna meir. Ég aftur á móti prófaði ýmsar þekktar og viðurkenndar flugur áður en Higa’s SOS fór undir og fljótlega rann þessi líka fína 38 sm. bleikja á færið og skömmu síðar önnur 48 sm. á sömu flugu. Góð byrjun og maður smaug þreyttur, en ánægður í bólið laust eftir miðnættið.

Eftir að ég hafði rifað annað augað á ská út yfir vatnið í morgun, ákvað ég einfaldlega að snúa mér á hina hliðina og kúra af mér rigninguna sem grúfði yfir. Eftir að meistari Stefán hafði rifið okkur fram úr og við stungið úr nokkrum kaffibollum og kjaftar hvert annað í kaf, hafði Hlíðarvatnið náð að rífa af sér dumbunginn svo okkur var ekki lengur til setunnar boðið. Botnavík, Fóellutjörn og Skollapollar, allt var þetta prófað án þess að fiskur kæmi á land. Trúlega var ég næstur því að ná fiski, setti tvisvar í mjög þokkalegar bleikjur út frá Skollapollum en náði ekki að koma þeim í netið. Báðar tóku Peacock svo naumt að ekki varð haldið.

Það var svo ekki fyrr en undir hættumál að frúin setti í þessa líka fínu 44 sm. bleikju á Mölinni, rétt áður en flóðgáttir himinns opnuðustu svo um munaði. Ánægjulegur endir á skemmtilegri og afslappandi ferð. Takk fyrir okkur, Stefán, Ármenn og Hlíðarvatn.

Kvöldvaktin
Afrakstur kvöldvaktarinnar

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 / 6 / 0 5 / 11 12 / 17

Ummæli

26.06.2014 – Þórunn Björk:  Mér finnst þessar lokatölur samt eitthvað svoooo furðulegar! Getur verið að það sé rangt talið- er hægt að fara fram á endurtalningu? …er ég bara komin með ….xyz og %&/ fiska? dem!

Svar: Ég vísa öllum dylgjum um misferli í talningu á bug, og nei….. hér verður ekki talið aftur þótt einhver sé óánægður með útkomuna, ekki frekar en í kosningum til Alþingis eða sveitastjórna. Ég er með 100% nýtingu veiðiferða, 17 fiskar í jafn mörgum ferðum, þú ert einfaldlega með 1/2 fisk í ferð. Masa minna, veiða meira. P.S. takk fyrir daginn við Hlíðarvatn, veiðifélagi góður.

Hlíðarvatn í Selvogi, 8. sept.

Þær fóru mjög seint fram úr í dag, bleikjurnar í Hlíðarvatni í Selvogi. Raunar fór aðeins ein þeirra fram úr eftir því sem ég fékk best séð og hún var eiginlega ekki til viðræðu. Mig grunar nú helst að aust-suðaustan áttin sem beljaði á vatninu í gær frá kl.15 og vel fram yfir miðnættið hafi eitthvað sett blessaðar bleikjurnar úr stuði þarna í Selvoginum.

Við reyndum fyrir okkur á ýmsum stöðum við vatnið, allt frá Réttarnesinu og inn að Hlíðarey, án árangurs frá því um kl.8:30 og fram yfir kvöldmat. Annars var ekkert út á veðrið að setja í dag, þvert á móti, það var alveg frábært.

Og svona að lokum; Þú sem gleymdir niðursuðudósinni þinni með niðursoðinni þorskalifur, ekki hafa áhyggjur, ég fann hana og kom henni í ruslið. Þú ættir kannski að venja þig á að klára matinn þinn því ekki dettur mér í hug að þú hafi verið að beita þessu því þú veist væntanlega alveg eins vel og ég að öll beituveiði er bönnuð í Hlíðarvatni.

Af bökkum Hlíðarvatns
Af bökkum Hlíðarvatns

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 25 / 0 9 / 25 37