Hítarvatn 17. júní 2020

Hvað er hátíðlegra á þessum degi heldur en fara út í guðs græna náttúruna og renna fyrir fisk? Ég veit það ekki og mér er eiginlega alveg sama, því við veiðifélagarnir tókum okkur til rétt um hádegið og renndum vestur í Hítardal.

Oft hefur dalurinn tekið vel á móti okkur, en sjaldan eins og í dag. Hann skartaði sínu fegursta, þó oft hafi hann verið grænni en einmitt núna. Hann er svona meira alveg út í blátt þessar vikurnar, því borðum hefur verið skotið í allar gáttir stíflunnar vestan við Hólm og það hefur hækkað MJÖG mikið í vatninu, við misjafnar undirtektir veiðimanna.

Fyrir rúmri viku síðan gerðum við stutt stopp í dalnum og virtum fyrir okkur umtalaða hækkun og ég játa það alveg að mér stóð eiginlega ekki á sama. Allir þekktir veiðistaðir voru horfnir niður í dýpið og vatn flæddi um allar koppagrundir austan við Hólm.

Hafi ég haft einhverjar áhyggjur af stöðunni áður, þá var líka alveg tilefni í áhyggjur í dag þar sem enn hefur hækkað í vatninu. Þar sem grængresið stakk sér upp í hrauninu áður, þar renna nú lækir í öfuga átt.

Þessi litli sæti lækur er einn þeirra sem rennur í öfuga átt. Hann rennur ekki til vatnsins eins og flestir aðrir á þessum slóðum, hann rennur úr því og inn á eitthvert besta tjaldstæðið í dalnum.

Og svona lítur tjaldstæðið út í dag, stöðuvatn sem hækkar og hækkar og nær nú yfir ansi drjúgan spöl af veginum austan við Hólm. Þá sem eiga erindi um þetta svæði, langar mig að biðja um að sleppa því alveg að böðlast yfir þetta stöðuvatn, ávinningurinn verður lítill í tíma talið en skemmdir á gróðir miklar.

En víkjum nú aftur að veiðiferð okkar í dag. Við sem sagt lögðum bílnum þarna einhversstaðar Langíburtistan og töltum drjúgan spöl niður að vatnsbakkanum, þ.e. þeim sem er núna við vatnið en var áður upp í miðri hlíð. Svolítið ýkt, en sagan er betri þannig. Það leið ekki á löngu þar til ég varð var við einhverja hreyfingu í vatninu og skömmu síðar var tekið hraustlega í fluguna, en sleppt jafn harðan. Takk, þetta var greinilega of hægur inndráttur og bleikjunni gafst því færi á að sleppa Higa‘s SOS sem var undir. Breyttur inndráttur, styttri og sneggri, og bleikjan stóðst ekki mátið. Þokkalegur fiskur kom á land og í fyrsta kasti eftir löndun var tekið aftur í fluguna. Jæja, þetta gæti bara orðið ágætis ferð.

Áður en lengra er haldið í frásögninni, skulum við fara á slóðir fyrri veiðiferða. Fyrir rúmu ári síðan ávann ég mér töluverðar óvinsældir veiðifélaga míns þegar ég fagnaði heldur ótæpilega hverjum þeim fiski sem ég náði umfram hana. Minnugur þeirra viðbragða og undirtekta sem ég fékk, þá fór ég hljóðlegar með þá fiska sem ég tók í Hítarvatni í dag. Ég var ekkert að telja þá hátt og snjallt eða vega þá og meta við hennar fiska, sem á sér einfalda skýringu sem sést best á aflatölum hér að neðan.

Þegar annað okkar hefði veitt nægju sína og sleppt því sem annars hefði horfið á pönnunni, þá tókum við félagarnir okkur upp og færðum okkur vestur fyrir Hólm til að bera saman upplifun okkar fyrir rúmri viku síðan við daginn í dag.

Vestan við Hólm er þessi stífla sem er nú nær alveg stífluð. Fyrir rúmri viku flaut rétt aðeins yfir hana og lítið sem ekkert lak út um lokurnar. En í dag, þá flaut vel yfir og eitthvað hafa borðið í lokunum látið undan öllum þeim massa af vatni sem safnast hefur saman. Manni verður e.t.v. spurn; hvað ætla menn að gera við allt þetta vatn? Mögulega vilja menn geyma vatnið fyrir Hítará, eiga það uppá að hlaupa ef það hættir nú alveg að rigna í sumar þannig að laxinn hafi nú eitthvað vatn til að hreyfa sig í? Kannski vilja menn eiga þetta til að skola hinn nýja Panamaskurð sem stendur til að grafa í gegnum skriðuna neðar í dalnum? Hvað veit ég, en hitt veit ég að við félagarnir áttum góðan dag við Hítarvatn í dag og við þurfum ekki að svelta á næstu dögum, ekki frekar en fiskarnir í Hítarvatni sem hafa greinilega úr nógu að moða sem berst til vatnsins þessa dagana.

Þeir lesendur sem  hafa dulda unun af því að bera veiðitölur okkar hjóna saman taka eftir því að nú hefur fjöldi ferða allt í einu orðið jafn, þ.e. 11 veiðiferðir. Þetta skýrist af því að í síðustu ferð okkar veiddi aðeins annað okkar á meðan hitt þóttist sinna embættisverkum.

Bleikjur í ferð
0 / 5
Bleikjur alls
3 / 8
Urriðar í ferð
0 / 1
Urriðar alls
3 / 7
Veiðiferðir
11 / 11

Hítarvatn, 17. – 18. júní

Veiðipirringur og löng helgi. Þetta var auðvitað ávísun á eitthvert ferðalag. Veðurspá? Tja, hvað getur maður sagt fyrst maður er búsettur á þessu dásamlega landi. Skást var spáin á fimmtudag fyrir vestanvert landið og við ákváðum að negla áfangastaðinn á Borgarfjarðarbrúnni þegar við sæjum vestur eftir Mýrunum. Hítarvatn varð fyrir valinu.

Hítardalur var baðaður á fimmtudagskvöldið, ekki sólskyni, bara baðaður, en við létum það ekki á okkur fá og renndum eftir nýviðgerðum slóðanum austan við Hólm. Já, slóðinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga og það hefur verið borið í hann alveg frá gatnamótum og niður að vatni. Snilld, takk fyrir það. Föstudagurinn, þjóðhátíðardagurinn sjálfur rann upp með smá dumbungi, hlýr og í alla staði ákjósanlegur til stangveiði þannig að við töltum okkur út í hraunið að austan og komum okkur fyrir á einu af óteljandi nesjunum við vatnið. Eitthvað var fiskurinn ekki alveg á sama málið og við með ákjósanlegt veiðiveður, en okkur tókst samt að særa upp sitt hvorn urriðann eftir nokkrar tilraunir með flugur.

Hítarvatn að kvöldi 17.júní
Hítarvatn að kvöldi 17.júní

Þegar degi tók að halla töltum við til baka í vagninn og huguðum að síðdegishressingu, en þá brast á með þessari svakalegu blíðu og fiskurinn sýndi sig um nánast allt vatn. Nei, nú var ekki staður né stund fyrir mat og stangirnar voru teknar aftur fram. Eitthvað var framboð ætis á vatninu gómsætara heldur en flugurnar okkar og það leið nokkur tími þar til mér tókst að særa einn urriða upp á Black Zulu. Svona getur þetta verið.

Rétt um kvöldmatar bil renndu í hlað gamlir og góðir veiðifélagar okkar við þriðja og fjórða mann, ánægjulegt að sjá þau aftur við vatnsbakkann. Öll hersingin reyndi síðan fyrir sér með allar tegundir löglegra veiðarfæra fram yfir miðnættið. Einn urrið féll fyrir flugu Mosfellings þetta dásamlega kvöld í Hítardalnum, hreint út sagt frábært íslenskt sumarkvöld á þjóðhátíðardaginn.

Við reyndum aðeins fyrir okkur á laugardaginn, en stutt var það og einstaklega lítið um aflabrögð í suð-suð-austan golunni sem var undanfari rigningarinnar sem skall á seinni partinn, þannig að við tókum okkur upp, stilltum á langbylgjuna og hlustuðum á beina útsendingu frá Frakklandi á leiðinni heim.

Ég hef það á tilfinningunni að margir hafi gert góða veiði í Hítarvatni þessa daga, aðrir ekki svo mjög en trúlega hafa allir verið sáttir í lok ferða. Eitt er það þó sem mig langar afskaplega að nefna, en ætla að eiga það inni fram til miðvikudagspistils míns hérna á síðunni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 10 / 2 4 10

Hítarvatn, 25. – 27. júní

Það var nokkuð snöggsoðinn ákvörðun á fimmtudaginn að skjótast upp í Hítardal og hita okkur aðeins upp fyrir Veiðivötnin í næstu viku. Mér skilst að ekki sé vanþörf á hita á þeim slóðum þessa dagana. Eins og vera ber var rennt við að Hítardal áður en haldið var inn að vatni, kortin skráð og spurt frétta af slóðanum að austan. Jú, hann væri ekki góður, við yrðum bara að sjá til hve langt við færum með vagninn. Þegar til kom var slóðinn ekki góður en alls ekki ófær með vagn væri varlega farið. En, það er annað á ferðinni þarna sem mig langar að nefna. Mikið rétt, slóðinn er ekki góður, en hann er alls ekki svo slæmur að það kalli á akstur utan hans eins og mér sýnist vera að aukast verulega þarna. Gróðurinn í Hítardalnum er viðvæmur, sérstaklega í árferði eins og verið hefur síðustu mánuði. Í guðanna bænum, ef þið treystið ykkur ekki eftir slóðanum, snúið þá frekar við eða leggið bílnum og töltið þennan stutta spotta inn að veginum. Ef fram fer sem horfir, þá verður slóðinn orðinn tví- eða þríbreiður á köflum og væntanlega eitt risa-drullusvað næsta vor. Það væri synd og skömm að skemma þetta fallega svæði fyrir einhvern 100-200 metra sparnað í göngu.

En að veiðinni. Þegar við höfðum komið okkur fyrir við hraunjaðarinn á fimmtudagskvöldið tókum við okkur til og röltum niður að vatni. Það var nokkur gjóla úr norð-vestri, en ekki meiri en svo að flugu væri út komandi, hlýtt og bjart yfir. Til að gera langa sögu stutta, þá setti veiðifélaginn í fínasta urriða en sjálfur náði ég engum þrátt fyrir töluvert nart þannig að við létum gott heita laust eftir miðnættið og skriðum í kojur.

Við ákváðum að bregða okkur á milli dala á föstudaginn, skruppum í vöflur í Skorradalinn og komum ekki aftur að vatninu fyrr en seinni part dags. Hitastigið var með því hæsta sem orði hefur á þessu sumri, 23°C og heiðskírt. Eftir staðgóðan kvöldverð, tókum við okkur til og gengum í gegnum hraunið að austan inn að Foxufelli í þessum steikjandi hita. Þar fóru nokkrir lítrar af vatni í svita. Frá Foxufellinu veiddum við okkur til baka með ströndinni og á leiðinni tók frúin einn urriða til og svo þá feitustu og flottustu bleikju sem ég hef séð úr Hítarvatni. Sjálfur náði ég að redda mér fyrir horn með því að taka eina bleikju þannig að bæði vorum við með fisk þegar í vagninn var komið kl.03:00 um nóttina.

Horft til suðurs frá 'græna hólinum'
Horft til suðurs frá ‘græna hólinum’

Það verður ekki af Hítardalnum skafið að náttúrufegurð er það einstök og ekki var hún síðri um nóttina þegar sólin settist eitt augnablik áður en hún hóf sig aftur á loft í nýjan dag.

Hítarvatn um miðnættið
Sólarlagið við Hítarvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 12 / 0 2 / 4 6 / 9

Hítarvatn, 6. – 8. júní

Þegar veðurspá helgarinnar hljóðar upp á sólbruna og svitaköst, er ekkert annað að gera en koma sér af stað. Eina vandamálið var að velja; vestur eða austur. Fyrir austan hljómaði Gíslholtsvatnið ekki illa, nema þá að fljótlega á föstudag var mættur þar fjöldi fólks og við hjónin heldur sein til að komast af stað. Hítardalur var því næstur í símaskránni. Jú, töluverður fjöldi hafði tilkynnt sig á staðinn, en á móti kemur að vatnið er stórt og alltaf pláss fyrir eitt fellihýsið enn.

Eftir að við höfðum komið okkur fyrir austan við Hólm á föstudagskvöldinu, var einfaldlega lagst til hvílu og látið ráðast hvenær vaknað yrði á laugardagsmorgun. Aldrei sefur maður nú betur en í útilegu og við vorum heldur lengi að komast á lappir og vorum því ekki klár í slaginn fyrr en undir hádegið á laugardag. Nokkuð ljóst að við yrðum að ganga smá spöl því fjöldi fólks var þegar á veiðum næst Hólmi og tjaldborginni sem risið hafði þar í grennd. Spölurinn sem við lögðum að baki, báðar leiðir hefur verið rétt um 5 km. í 18 – 20°C og glampandi sól. Mér er ómögulegt að segja til um tíman sem fór í þenna spöl (bláa línan á kortinu) því viljandi var engin klukka með í för.

Rölt helgarinnar við Hítarvatn
Rölt helgarinnar við Hítarvatn

Af veiði fer aftur á móti fáum sögum hjá mér. Að vísu setti ég fljótlega í fisk á Watson’s Fancy púpu með kúluhaus, en eitthvað sveik hnúturinn mig  og áður en mér tókst að landa þeim fiski var hann á bak og burt með fluguna mína. Frúin setti aftur á móti í fínan urriða á Mýpúpu #14 (efri rauði punkturinn) og varð mikið var við fisk á þeim stað en tókst ekki að ná fleirum á land. Þegar við höfðum fært okkur örlítið sunnar setti hún aftur í urriða, í það skiptið á Peacock með orange skotti, flottur fiskur. Dagsform veiðimann er misjafnt og mér gekk flest í móti þennan dag. Ótrúlegur fjöldi flugna týndist, taumur í bölvuðu rugli, hnútar sviku og veiðimaðurinn hreint ekki á staðnum í huganum. Það er eins og fiskurinn finni það þegar veiðimaðurinn er ekki með á nótunum, hefur jafnvel tekið vinnuvikuna með sér í veiðina eins og tilfellið var með mig þennan dag.

Þegar heim í vagn var komið, föt lögð til þerris (sviti, ekki rigning) og stungið út úr eins og einu hvítvínsglasi á meðan grillið hitnaði, var gert að afla frúarinnar og hann settur á grillið. Eftir síðbúinn kvöldverð áttum við skemmtilega stund með kunnugum veiðimanni ofan af Skaga sem var ósínkur að miðla af 30 ára reynslu sinni af Hítarvatni og bleikjunni. Alveg bráðskemmtilegt spjall og fullt af gagnlegum upplýsingum + sýnishorn af Hítarvatnspúpu sem hann hafði þróað. Takk fyrir ánægjulega stund, Lúðvík Björnsson, nú verða hnýttar Hítarvatnspúpur í boxin.

Sunnudagurinn vaknaði töluvert á undan okkur hjónum. Alveg makalaust hvað maður getur sofið eftir 5 km. hraunbrölt. Það var nokkurs konar sárabót að frétta að morgunveiðin sem maður svaf af sér hafði eiginlega brugðist algjörlega þennan morgun, ekki tittur á land og sumir urðu ekkert varir. Það er einnig misjafnt dagsform fisksins. Við ákváðum að taka okkur saman og reyna fyrir okkur að vestan áður en við héldum heim á leið fyrst ekkert var að frétta af veiði úr hrauninu. Heldur var nú meiri vindur og skýjað þegar við héldum af stað og röltum inn fyrir Stóraklif þar sem við komum okkur fyrir við lítinn læk við rætur hlíðarinnar. Ekki leið á löngu þar til ég setti í urriða með Peacock en sá var ekki alveg af stærðargráðu matfiskjar þannig að hann fékk líf. Fljótlega fór að bæta í vind, en þó ekki þannig að sjálfhætt væri veiði. Við færðum okkur að næsta læk þar sem ég setti í annan eins urriða, en í það skiptið með stuttum Orange Nobbler. Af tökum og veiði frúarinnar fer engum sögum. Dagsform? Eftir að hafa fikrað okkur í rólegheitum til baka þar sem við prófðum fyrir okkur á nokkrum stöðum var haldið heim á leið án frekari tíðinda. Af öðrum veiðimönnum og afla var það helst að sjá að sunnudagurinn hafi verið í smærri kantinum hjá flestum, frekar rýr fiskur og smár, en nokkuð af honum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 2 3 / 9 9 / 13

Hítarvatn, 10. – 11. ágúst

Hún var nú ekkert svo rosaleg veðurspáin að maður yrði að hanga heima við alla helgina þannig að eftir snögga yfirferð spásvæða ákváðum við hjónin að renna vestur í Hítardal á laugardagsmorgun. Það var svo sem engin asi á okkur vestur og þá ekki heldur þegar við vorum komin á staðinn. Lögðum þó hraun undir fót og röltum inn með vatninu að austan. Á þessum tveimur mánuðum frá því við vorum síðast við Hítarvatn, hefur verið hleypt ansi duglega úr vatninu. Ætli við höfum ekki horft á allt að 1 metra lækkun á þessum tveimur mánuðum, það munar um minna. Mikil ósköp þarf laxinn í Hítará að drekka.

Það var nú ekki mikið um að vera hjá okkur þarna í hrauninu, utan smá narts hjá mér, ekkert hjá konunni. Maður er nú orðinn ýmsu vanur í sumar, svo þessi rólegheit voru ekkert til að æsa sig yfir. Á baka leiðinni stoppuðum við aðeins hjá polli, sem fyrir 2 mán. var vík, þar sem nokkrir unglingar voru að fíflast í flugum á yfirborðinu. Frúin gerði nokkrar skemmtilegar tilraunir til að leggja þurrflugu fyrir tittina og skemmti sér ágætlega við mislukkaðar tökur. Ég ákvað því að lengja aðeins í taumi og smella Black Gnat þurrflugu á endann. Eftir 2-3 köst tók þessi líka spræki urriði fluguna og smellti henni örugglega í neðri vörina. Ég gætti allrar varúðar en dró hann ákveðið að landi og hann reyndist þessi ljóngrimmi urriði vera 8 ……. sentímetrar og var vitaskuld sleppt. Þessi putti verður ekki einu sinni færður til bókar.

Skömmu áður en við gengum til náða þurfti ég, svona eins og gengur, að bregða mér niður að vatni og varð litið inn með ströndinni. Eitthvað vafðist steinn í flæðarmálinu fyrir mér og datt mér fyrst í hug að hópur fólks sem hafði verið í víkinni um daginn hefði tapað flíspeysu eða einhverju álíka þannig að ég rölti af stað til að kanna málið betur. Flíspeysan reyndist vera himbrimi sem lagst hafði fyrir í flæðarmálinu. Vitandi að himbrimi gengur sárasjaldan á land, fannst mér rétt að athuga þetta betur og kom þá í ljós að greyið var með girni vafið um og í gegnum gogginn þannig að hann gat nánast ekkert opnað hann og var heldur af fuglinum dregið.

Himmi frá Hítarvatni
Himmi frá Hítarvatni

Ég sótti háf og taumaklippur í snarhasti og í sameiningu tókst okkur hjónum að klippa girnisflækjurnar úr og utan af fuglinum. Himmi varð síðan frelsinu feginn og brölti út á vatnið, þar sem hann hélt sig skammt undan það sem eftir lifði kvölds við töluverðar fjaðrasnyrtingar og snurfuss. Að morgni var hann horfin til félaga sinna, vonandi farnast honum vel það sem eftir lifir sumars, óhultur fyrir sóðaskap veiðimanna. Því er ekki að leyna að þessi upplifun, þrátt fyrir ánægjuna af því að geta orðið varnarlausum fuglinum til bjargar var sár ef ekki beinlínis ömurleg þegar maður hugsar til þess ótrúlega skeytingaleysi sem veiðimenn viðhafa á veiðislóð. Girnisafgangar og taumaefni geta svo hæglega orðið banabiti fugla sé því einfaldlega fleygt hugsanalaust frá sér á bakkanum. Þessi upplifun varð mér umhugsunarefni í nokkra daga og ég mun gera henni betri skil í annarri færslu.

Við tókum sunnudaginn heldur rólega, röltum aðeins vestur með suðurbakkanum en án stórra tíðinda. Að vísu setti ég í tvær bleikjur, heldur grannar tökur þannig að báðir sluppu eftir skamma viðureign. Ég verð að segja að mér hlýnaði svolítið um hjartaræturnar að finna þær þarna því ég hef ekki orðið var við bleikju í Hítarvatninu í síðustu skipti sem við höfum heimsótt það.

Þar sem nokkuð var liðið á daginn, ákváðum við að taka okkur saman og renna heim á leið, vera komin heim á sómasamlegum tíma svona einu sinni.

Himmi - frelsinu feginn
Himmi – frelsinu feginn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 24 / 0 7 / 24 34

Ummæli

14.08.2013 – Sigurgeir Sigurpálsson: Vel gert, sorglegt þegar menn geta ekki stungið fisléttu girninu í vasa og komið svo í ruslatunnu.

15.08.2013 – Siggi Kr.: Mér finnst þetta hafa verið að aukast mikið undanfarin ár að maður gangi fram á girnisflækjur á bakkanum sem virðast jafnvel vera af hálfu hjólunum. Og ekki getur maður klínt þessu á blessað veiðikortið, eins og svo oft er reynt að gera því ég hef líka orðið var við aukinn veiðisóðaskap á svæðum sem eru ekki í kortinu og jafnvel langt inni á hálendi. Ég vil gjarnan benda fólki á græjur sem eru gagngert til að geyma svona girinstubba og hvet menn til að splæsa í svoleiðis. Og ég tek undir með Sigurgeiri að þetta var vel gert að frelsa Himma!

Hítarvatn, 7.- 9.júní

Veðurspá…. er sniðugt fyrirbæri. Það var spáð þetta 3-6 dropum á Snæfellsnesi austanverðu og merkilegt nokk gengu þessir þrír dropar eftir en ekki bólaði á þessum 6 nema rétt aðeins aðfararnótt laugardags og svo mjög stutta stund á laugardagskvöldið. Annars skartaði Hítardalurinn sínu fegursta og maður átti alltaf hálft í hvoru von á að hann fylltist af veiðiþyrstum mönnum og konum, en það var merkilega lítil aðsókn um helgina.

Á laugardagsmorgun afréðum við hjónin að renna vestur fyrir Hólm og ganga frá stíflunni inn með vatninu að vestan. Við vorum á eftir, undan og innan um hóp kátra veiðimanna sem voru í 19. árlegu veiðiferð sinni í Hítarvatn og það var að heyra á tali þeirra að þeir hefðu aldrei séð jafn lítið til fiskjar eins og þetta árið. Já, það fór svo sem ekki mikið fyrir fiskinum á land þennan 1,5 km. frá stíflu og inn að Votuklif sem við hjónin príluðum upp fyrir höfða eða til baka með bakkanum. Mér skilst að aðeins einn fiskur hafi komið á land hjá þeim 9-10 veiðimönnum sem eyddu 4 tímum á vesturbakkanum á laugardag. Fiskurinn svo sem sýndi sig, en það reyndist flestu erfiðara að fá hann til að taka. Það var eins gott að við hjónin vorum með íslenskt fjallalamb með okkur á grillið, annars hefðum við soltið þetta kvöldið. Eitthvað fréttum við af reitingi í hrauninu austan Hólms þannig að við íhuguðum alvarlega að setja stefnuna í átt að Foxufelli næsta morgun.

Þokuslæðingur um miðnættið
Þokuslæðingur um miðnættið

Ef laugardagurinn byrjaði fagur þá gaf sunnudagurinn honum ekkert eftir og við skelltum í okkur staðgóðum morgunmat og lögðum land undir fót. Ekki veit ég nákvæmlega hvað víkin heitir, ef hún heitir þá eitthvað yfir höfuð, sem við enduðum í og að segja til um vegalengd í hana er nánast ómögulegt því leiðin frá Hólmi var u.þ.b. 1,2 km skv. GPS tækinu, en leiðin heim var aðeins 1 km. Skýring? Jú, það eru svo margir ‘stígar’ í hrauninu að fyrir ókunnuga eins og okkur var ekkert mál að velja rangan stíg aðra leiðina og einhvern réttari hina. En, hvað um það. Ég hafði það nokkuð sterkt á tilfinningunni að fiskurinn væri eitthvað viðmótsþýðari þarna í hrauninu heldur en við vestur bakkann og það reyndist vera. Eftir stutta stund setti ég í alveg þokkalegan urriða á Higa’s SOS bara östutt frá bakka. Nokkru síðar var fiskleysismúr konunnar rofinn þegar hún náði einum á agnar litla mýflugu púpu. Ég bætti svo einum titt við sem fékk líf og öðrum sem fór í netið, þeim fyrri til samlætis.

Í rólegheitum röltum við síðan til baka að Hólmi, tókum okkur saman og renndum heim á leið. Þessi veiðiferð varð enn ein sönnun þess að það þarf ekki marga fiska til að eiga eftirminninlegar og frábærar veiðiferðir.

Við Hítarvatn
Við Hítarvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 1 / 3 1 / 5 17

Hítarvatn, 24. – 25. júní

Hér verður hvorki sögð frægðarsaga af veiðimönnum né konum. Við hjónin brugðum okkur bæjarleið á föstudaginn vestur í Hítarvatn. Veðurspáin sagði til um NA og A átt um helgina, létta metra á sekúndu og þokkalegasta hita. Við hreiðruðum um okkur í hraunjaðrinum austan við Hólm og vorum bara nokkuð heppinn að vera ekki alveg við vatnið, slík var nepjan sem stóð af vatninu. Brugðum okkur í vöðlurnar upp úr kl.21 og vorum að í Hrauntöngunum til að ganga eitt án þess að taka eitt einasta kvikindi á land. Jæja, laugardagurinn yrði bara betri.Við tókum daginn seint, notuðum morguninn í marga Latté og fylgdumst vel með þeim sem gengið höfðu inn fyrir hrauntunguna áður en við tókum okkur til. Þar sem töluverður asi virtist á veiðimönnum við vatnið og flest sem benti til að lítið væri um afla, ákváðum við að fara inn að víkinni undir Hólmanum. Höfðum farið í þá vík í fyrra og gengið ágætlega í svipaðri vindátt. Þrátt fyrir þokkalegar aðstæður var mjög lítið um líf, en eftir langa mæðu varð ég var með Orange Nobbler (stuttur) og það var einmitt lengdin á fiskinum sem ég krækti í og endaði pönnusteiktur með smjöri og sítrónupipar í kvöldverð. Síðar um kvöldið reyndum við aftur fyrir okkur, með spún sökum vinds, á töngunum undir Hólmi og tókum sitt hvorn fiskinn, ég áfram í smáfiskinum en konan tók tæplega pundara. Síðan ekki söguna meir, og líkur þar með veiðiþætti helgarinnar, ef undan eru skilin þau orð sem höfð eru eftir Finnboga í Hítardal að þetta vor væri það lélegasta í vatninu í það minnsta í fjögur ár. Okkur tókst að telja saman 12 fiska hjá þeim tæplega 20 veiðimönnum sem við sáum til og áttum orðastað við um helgina.

Hítarvatn 22.-24.júní

Skruppum í jómfrúarferð í Hítarvatnið.  Komum okkur fyrir í hrauninu austan við Hólm og veiddum mest þar og inn að Hólmi, en kíktum líka í víkina vestan við tangann. Fengum 2 á spún, 2 á flugu og 8 á maðk. Ekkert síðri veiði rétt fyrir hádeg heldur en að kvöldi. Nokkur vindur sem losaði okkur við fluguna sem varð skæð þegar lygndi. Mikil traffík við vatnið og margar sögur af fyrri afrekum (60+ stykki á 4 tímum o.s.frv.) Fórum sátt miðað við afla annarra á staðnum þótt stærð fiska hafi ekki verið neitt rosaleg, frá 1/2 pundi og upp úr.