Svínadalurinn 24. maí

Ótvírætt merki um að þetta sé að smella í gang er þegar við setjum kaffi á brúsa, kleinur og smurt í box og látum okkur hverfa út í buskann. Við ákváðum að heilsa upp á gamla kunningja og renndum því inn Hvalfjörðinn og yfir í Svínadal þar sem Eyrarvatn, Glammastaðavatn og Geitabergsvatn eru aftur kominn á kortið, þ.e. Veiðikortið. Eftir stutt, en áhugavert spjall við nýja staðarhaldara á Þórisstöðum kíktum við á Eyrarvatnið austanvert en stoppið var heldur stutt í stífri vestanáttinni.

Næst lá leiðin í Geitabergsvatnið þar sem sólarglætan náði að ylja sálartetrin okkar í tvígang með undursamlegum árangri, sumarið blasti við. Að vísu vorum við sammála um að lítið væri komið í gang af skordýrum, ekki ein einasta náttúruleg fluga á sveimi og ekki eitt einasta hornsíli að sjá. Að vísu var himbriminn mættur og á einum tímapunkti tókst honum að hræða einn urriða í áttina til mín, en ekki lét sá glepjast af mínum flugum og synti rösklega aftur út í djúpið.

Að lokum renndum við inn að Glammastaðavatni og gerðum heiðarlega tilraun við ós Kúhallarár en lítið urðum við vör við fisk á þeim slóðum. Þegar svo sólin dró sig í hlé létum við gott heita og eftirlétum vatnið nokkrum fjölda veiðimanna sem voru mættir á staðinn. Það verður trúlega ekki langt þangað til við kíkjum aftur í Svínadalinn, þá er aldrei að vita nema sumarið hafi gengið í garð fyrir alvöru.

fos_geitabergsvatn
Geitabergsvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 2 / 4