Eitt sinn ljómaði mælaborðið á bílnum mínum skærrauðu aðvörunarljósi framan í mig þegar ég startaði bílnum. Hann fór í gang og ég komst á honum á verkstæðið, hann sem sagt komst áfram og gerði eiginlega sitt gagn en gangurinn var ekki sérstaklega þíður, eiginlega hundleiðinlegur og ekkert skemmtilegt að keyra bílinn. Um leið og tölvan las af bílnum kom í ljós hvað angraði hann, einni stillingu breytt og hann komst í samt lag. Stundum vildi ég óska þess að það væri hægt að bilanagreina fluguköstin mín svona auðveldlega.

Líkt og flestir fluguveiðimenn byrjaði ég á einföldu framkasti, bætti svo togi við til að lengja köstin örlítið og svo tvítogi til að ná enn lengra. Það var ekki fyrr en eftir að hafa legið yfir nokkrum tímaritsgreinum að ég gerði mér fyllilega ljóst að lykillinn í öllu þessu var að ná þrengri línuboga. Með því að fylgjast með línuboganum sem myndaðist við tvítogið sé ég að því þrengri línuboga sem ég náði, því meira togaði línan í vinstri hendina sem ég notaði til að halda við. Jamm, þetta virkaði greinilega ágætlega. Svo hætti ég að fylgjast með línuboganum og einbeitti mér að því að lengja í línunni. Þá gerðist bara ekkert og ég stóð eftir og vissi ekki mitt rjúkandi ráð
Það var síðan eftir ábendingu góðs vinar míns og kastkennara að ég komst að því hvað var að. Hraðinn og lengdin á tvítoginu mínu virkaði mjög vel í hæga, stutta kastinu sem ég notaði á meðan ég æfði mig. Þegar til átti að taka og meiri lína lá undir eða öllu heldur úti, þá vantaði töluvert upp á hraðann í tvítoginu og togið var allt of langt hjá mér. Um leið og ég herti á toginu og hafði það aldrei lengra en sem nemum 12“ (þvermál pizzukassa) þá fóru tvítogin mín að virka fyrir lengri línu, línuboginn þrengdist aftur, lína fór að ferðast hraðar og allt féll í ljúfa löð.