Útfjólublátt ljós við barinn

Ég hef áður haft orð á því að vöruúrval veiðiverslana hér heima er eiginlega ótrúlega gott, í það minnsta m.v. þær erlendu verslanir sem ég hef heimsótt. Þetta á ekki síst við um hnýtingarvörur og þar hefur Vesturröst heldur betur bætt í úrvalið síðustu vikur og gott var það þó fyrir.

Eftir áhugavert kvöld með Robert Nowak í Árósum á mánudaginn, hef ég aðeins verið á höttunum eftir UV efni. Á þeim buxunum kíkti ég við í Vesturröst og skoðaði aðeins úrvalið sem þeir voru að taka upp úr kössunum. Ég verð nú eiginlega að játa að mér hafði ekki komið til hugar allar þær fjaðrir, þræðir og kúlur sem hægt er nálgast til að nýta í UV útgáfur af flugum. Rekkarnir eru beinlínis fullir af nýju skemmtilegu hnýtingarefni og ekki síst nýjum áhugaverðum UV flugum. Ég þarf í það minnsta að taka örlítið til í mínum boxum til koma einhverjum UV flugum þar fyrir.

Mjög litlar flugur

Mér finnast flugur fara minnkandi með árunum, í það minnsta eins og ég sé þær. Fyrir einhverjum árum var ekkert mál að hnýta flugu #16 á tauminn og leggja hana út á vatnið. Og þetta er nú minnst, þessir litlu krókar og smágerða efni sem maður er bauka við í hnýtingarþvingunni eru eitthvað að skreppa saman með árunum.

Krókur #18 og #10
Krókur #18 og #8

Það er að vísu langt síðan ég tók upp á því að hnýta í gegnum stækkunargler, en þessir litlu krókar halda bara áfram að minnka, ég bara skil ekkert í þessum framleiðendum. Og ég er ekki einn um þetta, því ekki alls fyrir löngu datt ég niður á sambærilegt vandamál eins bloggara og atvinnuhnýtara vestur í BNA. Hann fann eitthvað fyrir þessu líka og þá sérstaklega þegar hann var að spreyta sig á nýrri flugu. Mér fannst það nokkuð sniðugt hjá honum að taka stærri krók, sverara efni og lengri fjaðrir og hnýta eins og tvær til þrjár flugur í yfirstærð áður en hann reyndi við #16 eða #18. Ég prófaði þetta og svei mér þá, það var eins og handbragðið við fluguna sæti eftir í fingrunum þegar ég tók smærri krókinn fram og hnýtti fluguna í réttri stærð.

Að ruglast í talningunni

Það kemur reglulega fyrir að maður ruglast í talningunni, sérstaklega þegar maður er að hnýta eitthvað lítið kvikindi og allt í einu eru komnir mun fleiri fætur eða fálmara á púpuna heldur en fyrirmyndin segir til um. Sumar sexfætlur eru orðnar að áttfætlum eða þaðan af meiru, hafa tekið á sig mynd margfætlu. Ég hef alltaf látið mér fátt um þennan rugling finnast, enda kunna fiskar ekki að telja síðast þegar ég vissi. Sumar flugur eru einfaldlega þannig að fleiri fætur gera þær bara girnilegri, held ég.

Ekki bara sex færur á þessari
Ekki bara sex fætur á þessari

Aðrar flugur þurfa einfaldlega á mun fleiri fótum að halda heldur en líffræðileg fyrirmynd þeirra segir til um. Tökum sem dæmi þurrflugur. Síðast þegar ég vissi eru flestar flugur með sex fætur en þær einfaldlega fljóta ekki ef við veljum aðeins sex fanir og hnýtum á frambúkinn sem lappir. Stundum verður við einfaldlega að láta fyrirmyndina lönd og leið og hnýta fluguna úr því efni sem höfum til umráða og reyna að líkja meira eftir heildarútliti heldur en smáatriðum. Þær eru nú samt fallegar, þessar veiðiflugur sem maður sér og bíður ósjálfrátt eftir því að þær hreyfist, labbi af stað eða taki sig á loft.

Sunray.is

Þeir sem fylgdust með nýafstöðnum Febrúarflugum tóku margir eftir hinum dularfulla styrktaraðila átaksins, sunray.is og spurðu ítrekað um þessa væntanlegu vefverslun. Nú hefur hún verið formlega opnuð og okkur finnst ekki nema sjálfsagt að upplýsa lesendur um þessa nýjustu vefverslun fluguhnýtara á Íslandi. Á bak við verslunina stendur Erlendur Steinar Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur og annar tveggja sem standa að veiðileyfavefnum Veiðitorg.

feb2017_sunray

Vöruframboð sunray.is samanstendur af úrvali hnýtingarhárs, keiluhausa, plaströra og málmbúka eða eins og segir á síðunni; Sum málmboddýin henta sérstaklega vel fyrir Sunray, Frances, Snældu.  Við erum líka með mjög löng og skemmtileg hár sem henta í Sunray.

Það sem ég hef skoðað af þessum vörum, sýnist mér að hér séu á ferðinni vandaðar og góðar vörur á hagstæðu verði sem stenst fyllilega og er yfirleitt ódýrar en það sem finnst á erlendum vefverslunum.

Við óskum Ella Steinari góðs gengis með verslunina og þökkum honum enn og aftur fyrir stuðninginn við Febrúarflugur.

Geymdu minningarnar

Það verður enginn óbarinn biskup og það á við um mig eins og flesta aðra. Fyrstu flugurnar mínar voru ekki merkilegar, beinlínis öll mistök sem hægt var að gera í hnýtingum hrönnuðust upp hjá mér í fyrstu. Þær voru nokkrar sem lentu undir hnífnum og ég skar allt af þeim til að endurnýta krókinn. Fljótlega gerði ég þó verðsamanburð á krókum og lærdómi sem reyndist lærdóminum í vil og ég hætti að skera ljótu flugurnar mínar niður.

Minningakort
Minningakort

Í staðin setti ég smá svamp á pappaspjald og festi upp á vegg við hliðina á þvingunni minni þar sem ég safnaði þeim flugum sem aldrei áttu að koma fyrir fiska augu. Í einhverju bjartsýniskasti útbjó ég aðeins eitt svona spjald til að byrja með. Fljótlega bættust reyndar nokkur önnur spjöld við, en þeim tilfellum fer nú fækkandi sem ég hengi flugu á þessi spjöld. Samt sem áður kíki ég reglulega á spjöldin mín, hristi hausinn svolítið og hugsa með mér; þvílíkt samansafn af ruslflugum. Eftir situr að ég á þarna nokkur víti til varnaðar og hef innan seilingar, það er aldrei að vita nema maður læri eitthvað af þessum mistökum ef maður kíkir annað slagið á þau.

Lokaður og niðursveigður

Nú fer ég alveg að hvíla lesendur af grúskinu mínu um vængi á votflugum, bara einn í viðbót. Þegar ég renndi í gegnum boxið mitt voru nokkrar svona flugur inni á milli; niðursveigður, lokaður vængur og það kæmi mér ekkert á óvart að svona vængir leynist í mörgum boxum veiðimanna.

Lokaður vængur, niðursveigður endi
Lokaður vængur, niðursveigður endi

Enn og aftur vitna ég í Don Bastian og grein hans frá 2010 í Hatches Magazine. Þar segir Don frá ástríðu Dave Hughes fyrir þessum flugum. Það eitt, að hann hnýti sínar votflugur svona er mér næg ástæða til að halda áfram að nota mínar. Ein af mínum uppáhalds bókum, þ.e. það sem ég hef komist yfir af efni úr henni, er Essential Trout Flies sem hefur komið út í nokkrum upplögum frá árinu 2000 og nú síðast sem rafbók fyrir Kindle.

Fréttir af Febrúarflugum

Ertu í minnsta vafa um það hvaða flugur þú ætlar að nota næsta sumar? Ef svo, þá gæti verið tilvalið að kíkja á þær 240 flugur sem hafa verið settar inn á Febrúarflugur. Það getur þú einmitt gert með því að smella hérna.

Ef þú veist síðan alveg hvaða flugur þú ætlar að hnýta og prófa, en átt ekki gæjurnar til verksins, þá gæti verið sniðugt að koma í Árósa, Dugguvogi 13 á mánudaginn kl. 20 og skoða hnýtingargræjurnar frá Árvík sem þar verða kynntar. Svo verða örugglega einhverjir snillingar á staðnum sem verða að hnýta og enn aðrir sem koma bara til þess að hitta mann og annan og tilvalið er að góma í spjall um hvað eina sem þig langar að fræðast um.

feb_armenn_hk4

Fréttir af Febrúarflugum

Næstkomandi mánudag verður lokakvöld Febrúarflugna í Árósum, Dugguvogi 13. Hjörtur Oddsson verður við þvinguna og leiðir gesti um slóðir gúmmílappa á flugum. Hjörtur hefur einmitt verið að setja nokkrar þannig flugur inn á Febrúarflugur síðustu daga og eflaust eru margir sem vilja ólmir kynnast þessari tækni.

Vörukynning kvöldsins verður í höndum Árvíkur, þar sem hnýtingargræjurnar verða allsráðandi enda bíður Árvík upp á ótrúlega gott úrval og gæði slíkra áhalda frá heimsþekktum framleiðendum, þar á meðal má nefna Loon, Stonfo, Griffin, C&F design, Fishpond og svo auðvitað Kamasan önglana sem allir þekkja.

feb_arvik6

Þess ber síðan að geta að á þessu síðasta kvöldi ætlum við að draga nöfn nokkurra heppinna hnýtara úr hópi þátttakenda og veita þeim viðurkenningu fyrir þeirra framlag til Febrúarflugna þetta árið. Styrktaraðilar átaksins hafa verið svo rausnarlegir og láta okkur í té nokkra glaðninga sem við látum renna til þátttakenda þetta árið með von um að þeir komi sér vel hjá þeim sem hljóta. Auðvitað þætti okkur vænt um að sem flestir þátttakendur sæju sér fært að mæta í Árósa, mánudagskvöldið 27. febrúar á milli kl. 20 og 22 og vera viðstaddir athöfnina.

Fréttir af Febrúarflugum

Það er ekkert lát á flugunum sem hnýtarar deila með áhugamönnum á Febrúarflugum, nú eru þær komnar upp í 219 og eflaust verða fleiri til á hnýtingar- og kynningarkvöldinu í Árósum, Dugguvogi 13 í kvöld á milli kl.20 og 22.  Auðvitað er búið að uppfæra myndasafnið hér á FOS.IS og hægt er að skoða allar flugurnar með því að smella hérna.

Það er þegar byrjað að hita undir kaffikönnunum, kexið er borið inn í bunkum og kjúkusmellir heyrast um allt höfuðborgarsvæðið þegar hnýtarar setja sig í stellingarnar fyrir kvöldið. Ingvar Ingvarsson mætir á svæðið og Flugubúllan kemur með það nýjasta úr sínum fórum. Stóra spurningin er hvort aðsóknarmetið frá því í síðustu viku verður jafnað, já eða slegið.

feb_armenn_hk3

Baksýnisspegill

Yfirleitt er það nú þannig að þegar maður hnýtir flugur, þá snýr sama hlið hennar að manni 90% tímans. Engu að síður er nauðsynlegt að horfa á fluguna frá fleiri sjónarhornum, sjá hvernig skeggið lítur út neðan frá, vængurinn að ofan og skoða sitt lítið af öðru. Ég hef meira að segja verið að temja mér að skoða fluguna að aftan, jafnvel kíkja uppundir hana, en það er önnur saga.

Stækkunarspegill á kantinum
Stækkunarspegill á kantinum

Þeir sem eiga hnýtingarþvingu sem hægt er að snúa á alla kanta (rotating vise) ættu því að nýta sér tólið til fullnustu og snúa flugunni á alla kanta til að skoða áferðina, þó ekki væri nema til að dást að henni. Þeir sem eru ekki svo vel settir að eiga svona hnýtingarþvingu verða að losa fluguna úr þvingunni eða það sem er mun einfaldara, vera með snyrtispegil við höndina og bregða honum á bak við fluguna, undir hana og aftanvið. Þá þurfa þeir ekki að losa fluguna ef svo ólíklega vildi til að eitthvað þurfi að lagfæra. Það er ekki verra ef spegillinn er tvöfaldur, þ.e. venjulegur öðru megin og með stækkun hinu megin, þá sér maður öll smáatriðin betur.

Fréttir af Febrúarflugum

Nú eru nánast 200 flugur komnar inn á viðburðinn þetta árið og rétt 10 dagar eftir af mánuðinum. Okkur telst til að 28 hnýtarar hafi lagt þessar flugur til og þeir eiga þar með möguleika á detta í lukkupottinn þegar við drögum út nokkrar viðurkenningar sem styrktaraðilar okkar hafa lagt okkur til. Allar flugurnar má sjá með því að smella hérna.

Á mánudaginn verður þriðja hnýtingar- og kynningarkvöld Febrúarflugna og Ármanna í Árósum og að þessu sinni mætir Ingvar Ingvarsson hnýtari og Flugubúllan verður með vörukynningu. Það er óhætt að segja að þátttaka á þau kvöld sem þegar hafa farið fram hefur farið fram úr björtustu vonum og ef að líkum lætur, þá verður þátttakan á mánudag ekki síðri.

feb2017flugubullan

Opinn og niðursveigður

Enn held ég áfram grúskinu um vængi votflugna. Í síðustu viku nefndi ég rök Don Bastian fyrir opnum, uppsveigðum væng og að ég hefði fundið nokkrar slíkar í boxinu mínu. En ég fann fleiri tegundir. Með hliðsjón af ráðleggingum góðs vinar míns um niðursveigðan væng fyrir vatnaveiði, þá voru flestar þeirra þannig hnýttar og það sem meira er, vængurinn var yfirleitt örlítið opinn.

Opinn vængur, niðursveigður endi
Opinn vængur, niðursveigður endi

Að þessu leiti fellur smekkur okkar félaganna greinilega vel að uppáhalds flugum J. Edson Leonard, enn eins votfluguspekingsins. Eftir hann liggja nokkrar frábærar bækur og blaðagreinar um flugur, hnýtingar og fluguveiði. Ef einhver hrasar um eina slíka, endilega nælið ykkur í hana og skoðið, þið verðið ekki sviknir.

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi var annað af fjórum hnýtingar- og kynningarkvöldum Febrúarflugna og Ármanna. Það var ekki annað að sjá en gestir kvöldsins væri sáttir við dagskrá kvöldsins, margir mættu með hnýtingartól og tæki, aðrir gægðust varfærnislega á handbragð hnýtara eða kynntu sé vöruúrvalið frá Vesturröst sem kynnti hnýtingarefni, flugur og fluguveiðigræjur. Eins og vænta mátti naut handbragð og flugur Robert Nowak mikillar athygli og þá ekki síður fulltrúi yngri kynslóðarinnar, Arnar Freyr sem setti í nokkrar flottar flugur undir vökulum augum reyndari hnýtara.

Af flugum er það helst að frétta að harður kjarni hnýtara hefur birt myndir af flugum sínum á Facebook það sem af er mánaðarins og nú hafa þær náð hálfu öðru hundraði. Nú langar okkur að hvetja meirihluta þeirra ríflega 80 aðila sem enn hafa ekki sett inn flugu að smella eins og einni mynd af handverkinu og setja inn á viðburðinn, já eða senda þær með tölvupósti á fos@fos.is  Við viljum gjarnan sjá fleiri virka þátttakendur sem þannig gætu átt möguleika á óvæntum glaðningi frá styrktaraðilum okkar undir lok mánaðarins.

Svipmyndir úr Árósum 13. febrúar

Myndasmiðir: Ólafur Óskar Jónsson / Kristján Friðriksson

Opinn og hæfilega uppsveigður

Í síðustu viku smellti ég hér inn greinarkorni um lokaðan, uppsveigðan væng votflugu. Það er ekkert leyndarmál að ég hef horft töluvert til flugna Don Bastian þegar kemur að votflugum. Hann hefur haldið því fram að mismunandi vængir votflugu væru mögulega meira fyrir veiðimanninn heldur en silunginn. Á sama tíma tekur hann fram að helst vilji hann veiða votflugu þar sem vængurinn sé hæfilega uppsveigður og vængirnir örlítið aðskildir.

Opinn vængur, uppsveigður endi
Opinn vængur, uppsveigður endi

Don færir rök fyrir því að hæfilega opinn vængur færi flugunni meiri stöðugleika, en á sama tíma líf þegar hann leggst saman og opnast, allt eftir því hvort flugan sé dregin inn eða í pásu. Jú, ég held að ég kaupi þessi rök en síðan er það allt önnur saga hvort þetta skiptir fiskinn einhverju máli.

Þegar ég fór í gegnum votfluguboxið mitt, þá voru mína ýmist með vænginn lokaðan eða opinn og það sem meira var og það sem meira er; ýmist með uppsveigðan væng eða niðursveigðan.

Fréttir af Febrúarflugum

Nú hafa ríflega 100 flugur komið fram í Febrúarflugum þetta árið og greinilega mikið líf með hnýturum landsins. Síðastliðið mánudagskvöld var fyrsta hnýtingar- og kynningarkvöldið á vegum Febrúarflugna og Ármanna haldið í Árósum og aðsókn var hreint út sagt frábær. Á fjórða tug hnýtara og áhugamanna um fluguveiði mættu og áttu góða stund saman.

rnNæsta mánudag, 13. febrúar, kemur svo Robert Nowak og sýnir okkur hvernig hann ber sig að við að hnýta sínar glæsilegu flugur og ef við þekkjum hann rétt, þá mun ekki standa á svörum eða ráðleggingum til þeirra sem vilja fræðast af honum. Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að mæta í Árósa á mánudaginn. Ef að líkum lætur verður þétt setinn bekkurinn við hnýtingarborðið og því eins gott að taka með sér tól og tæki og mæta á slaginu kl. 20.

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að hnýtingar- og kynningarkvöldin í Árósum eru öllum opin og allir áhugamenn um flugur og fluguveiði eru hvattir til að mæta, byrjendur jafnt sem lengra komnir.

Þetta kvöld verður Vesturröst líka á staðnum með sýnishorn af vöruúrvali sínu og aldrei að vita hvað þeir draga skemmtilegt fram og sýna okkur, af nógu er að taka í versluninni.

Sömuleiðis verða Ármenn á staðnum, reiðubúnir að uppfræða gesti um starfsemi félagsins, leiðbeina og svara spurningum ef eftir því verður leitað. Tilvalið að kíkja við og grípa með sér eintak af félagsriti Ármanna, Áróð eða kynningarbæklingi um félagið. Nánar má fræðast um starfsemi Ármanna á nýrri heimasíðu þeirra armenn.is

feb2017_armenn

Vetrarverk

Um þessar mundir eru þeir forföllnu að hnýta eins og enginn sé morgundagurinn. En hvað verður svo um allar þessar flugur, það er að segja áður en þær fara í vatn? Fyrir einhverjum árum síðan var ég spurður, í fullri alvöru held ég, hvað ég gerði eiginlega við allar þessar flugur sem ég hnýtti, kannski 10 stk. af þeirri sömu. Ég þarf nú ekki að týna nema 5 og þá er ég lens, ég hnýti nefnilega fyrir tvo veiðimenn.

Eins þjál og meðfærileg og litlu fluguboxin geta verið, meira að segja suma þeirra á fleiri en tveimur hæðum, þá yrði fjöldi þeirra óviðráðanlegur ef ég ætlaði að koma öllum mínum flugum fyrir í þeim. Þess í stað flokka ég flugurnar gróflega niður í geymsluboxin mín og er með 2-3 minni box í vestinu sem ég fylli reglulega á eða skiptu um þemu í eftir því sem sumrinu vindur fram.

fos_flugubox_all
Fluguboxin

Hvaða reglu sem veiðimenn hafa á boxunum sínum ætti að vera undir hverjum og einum komið. Hver um sig verður að finna hentugustu aðferðina þannig að nokkuð víst sé að hann finni ákveðna flugu þegar eftir henni er sóst. Umfram allt mæli ég með því að flokka flugurnar, ekki hafa allt í belg og biðu. Mín flokkun er ekki flókin; púpur, votflugur, þurrflugur og straumflugur. Það segir væntanlega sína sögu að ég er með tvö púpubox sem er skipt eftir þemalitum púpa. Vestisboxin eru aftur á móti þrjú; púpur, vot- og straumflugur og þurrflugur. Hvað þarf maður meira?

Lokaður og uppsveigður

Í fyrravetur hnýtti ég nokkrar tegundir votflugna, svona til þess að eiga í boxinu ef mér sýndist sem svo að nota þær s.l. sumar. Það fór nú reyndar þannig að flestar þeirra fóru undir í einhvern tíma og nokkrar þeirra færðu mér fisk. Þegar ég mætti á eitt hnýtingarkvöldið í mínu veiðifélagi, fékk ég ábendingu frá góðum vini mínum þess efnis að ef ég hnýtti vænginn uppsveigðan, þá kæmi hún mér síður að notum í vatnaveiðinni. Uppsveigður vængur væri heppilegri í straumvatni heldur en kyrru.

Lokaður vængur, uppsveigður endi
Lokaður vængur, uppsveigður endi

Ég hafði reyndar heyrt þetta áður og tengdi þetta helst við það hvort vængurinn væri hástæður á flugunni, þ.e. hvort hann vísaði meira upp heldur en lægi með önglinum. Þegar ég fór á stúfana og las mér til um þetta, þá kom náttúrulega í ljós að fluguspekingar eru alls ekki á eitt sáttir þegar kemur að væng á hefðbundinni votflugu. Þegar ég skoðaði teikningar Edgar Burk frá því um miðja síðustu öld, þá voru allar flugurnar hans með uppsveigðan, lokaðan væng. Flestar flugur Ray Bergman frá þessum árum voru hnýttar á sama hátt. Kannski var þetta tískan á þessum tíma. Hvað um það, ég er alveg sáttur við að nota hástæðan væng í straumvatni og lágstæðan væng í vatnaveiðinni eins og félagi minn benti mér á.

Það sem komið er

Nú er langt liðið á annan dag Febrúarflugna og þegar hefur mikill fjöldi flugna verið settur inn á viðburðinn á Facebook.

Eins og okkur grunaði, þá eru alls ekki allir áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar á Facebook og því höfum við orðið við þeirri áskorun að setja myndir af flugunum inn á FOS.IS  Ætlunin er að uppfæra myndasafnið reglulega, en það sem komið er inn má sjá hérna.

Við viljum vekja athygli á að þeir sem ekki eru á Facebook er velkomið að senda okkur myndir með tölvupósti á fos@fos.is

fos_feb2017

Það er byrjað

Þriðja árið í röð stendur FOS.IS fyrir hnýtingarviðburðinum Febrúarflugur. Eins og áður fer viðburðurinn fram á Facebook þar sem hnýtarar setja inn myndir af þeim flugum sem þeir eru að hnýta og áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar geta virt afraksturinn fyrir sér.

Að þessu sinni verður aukið verulega við dagskránna því í samstarfi við Ármenn verða haldin fern hnýtingarkvöld í Árósum, Dugguvogi 13, frá kl. 20 – 22, alla mánudaga í febrúar. Þar gefst gestum kostur á að kynnast handbragði nokkurra þekktra hnýtara, s.s Stefáns Hjaltested, Robert Nowak, Ingvars Ingvarssonar og Hjartar Oddssonar, auk þess sem gestum er boðið að nýta sér aðstöðu Ármanna til hnýtinga og fluguspjalls yfir rjúkandi kaffibolla. Að auki munu styrktaraðilar Febrúarflugna vera á staðnum og kynna hnýtingar- og stangveiðivörur sínar fyrir gestum og gangandi.

fos_februarflugur_logo

Í fyrra bárust hátt í 400 flugur í viðburðinn og vonir okkar standa til að enn fleiri berist að þessu sinni. Ungir og upprennandi hnýtarar eru eindregið hvattir til að leggja sitt að mörkum, sýna flugur sínar og handbragð og njóta leiðsagnar reyndari hnýtara á hnýtingarkvöldunum.

Þess má geta að nöfn nokkurra heppinna þátttakenda verða dregin út í lok mánaðarins og hljóta veglegar viðurkenningar frá styrktaraðilum viðburðarins sem eru Árvík, Flugubúllan, Joakim‘s, Sunray.is, Veiðikortið og Vesturröst.

Allar nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast hér á síðunni.

Öðruvísi flugur

Vatnabjöllur hér á landi eru ekki margar, mér skilst að hér finnist aðeins 6 tegundir. Þekktust er væntanlega brunnklukkan, þá fjallaklukkan og svo vatnaklukkan. Almennt er ekki talið að bjöllur skipi stórar sess í fæðu silungsins og því kom mér nokkuð á óvart að sjá í fluguboxi veiðimanns nokkrar haganlega hnýttar bjöllur. Allar voru þær hnýttar úr ljósu, brúnu og svörtu frauði, með og án fálmara/lappa.

Mér láðist að spyrja þennan ágæta veiðimann hvort hann hefði í nokkurn tíma veitt á þessar flugur og þá sérstaklega vegna þess að þær voru greinilega hannaðar með það fyrir augum að fljóta á yfirborðinu frekar en sökkva.

Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk
Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk

Eftir því sem ég ég kemst næst, þá halda klukkur sig helst á og við botn kyrrstæðra vatna, nema þá e.t.v. vatnaklukkan sem getur fundist í straumlitlum lækjum og smærri ám. Að vísu taka klukkur sig stundum til, synda upp að yfirborðinu, stinga afturendanum örlítið upp úr og draga loft inn undir skjöldinn. Þær snúa reyndar snarlega til botns aftur og halda sig þar eða svamla um neðarlega í vatnsbolnum. E.t.v. ætti maður að prófa nokkrar svona og eiga tiltækar ef maður verður var við mikla bjölluumferð næsta sumar. Sjáum til þegar ég verð búinn að hnýta allar hinar sem eru á listanum.