Veiðivötn 19. & 20. júlí

Það eru rétt rúmar tvær vikur síðan við fórum í okkar árlegu Veiðivatnaferð en síðasta daginn í þeirri ferð vorum við sammála um að við værum einfaldlega ekki búinn að fá nóg af Vötnunum þetta árið og því stefndum við leynt og ljóst á að kíkja þangað aftur. Úr Hrauneyjum er aðeins um 1 klst. akstur upp í Veiðivötn og fyrst við vorum með allt við höndina; veiðigræjur, veiðihús og mat, þá var alveg tilvalið að slá á þráðinn upp í Veiðivötn og athuga hvort ekki væri pláss fyrir eitt fellihýsi og tvær stangir í vötnunum, fimmtudag og föstudag. Jú, það var sjálfsagt mál og þar með vorum við lögð af stað.

Á leið í Veiðivötn – Fossarnir í Vatnakvísl

Þar sem við vorum tímanlega á ferðinni höfðum við nægan tíma til að koma okkur fyrir undir hólnum gengt Ampahól og biðum fimmtudagsins í ofvæni. Að vísu var það einkennileg tilfinning að sjá yfir í Setur þar sem allt aðrir bílar stóðu fyrir utan heldur en við þekktum og annað fólk á ferðinni. Það var ekki laust við að það vantaði einhverja sex góða veiðifélaga í hópinn, við vorum þarna ein án stuðnings og félagsskapar sem við höfum átt að venjast síðustu ár.

Færanlega veiðihúsið okkar í Veiðivötnum

Þið sem í Veiðivötn hafa komið vita auðvitað að svæðið er ekki aðeins veiðisvæði, þarna er náttúrufegurð einstök og þegar maður vaknar til veðurblíðu eins og hún getur best orðið þá er ekkert sem dregur úr aðdáun manns á svæðinu, nema þá helst flugan. Þar sem ákveðin álög virðast loða við mig í Veiðivötnum sem tengjast vöðluskóm, skal það tekið skýrt fram að ég gleymdi þeim ekki heima í þetta skiptið. Aftur á móti gleymdi ég þeim við vagninn þennan morgun og varð því að skjótast til baka eftir þeim úr Hermannsvíkinni austanverðri þar sem veiðifélagi minn byrjaði daginn.

Hellavatn í morgunsárið

Þegar ég var loksins kominn í vöðlur og skó, þótti félaga mínum fullreynt í Hermannsvík þannig að við kíktum í Hellavatn þar sem fiskurinn vakti og át á sig gat af flugu / púpum sem hvorugu okkar tókst að keppa við. Næst kíktum við í Stóra Hraunvatnið en eins og nokkur skipti áður, náðum við ekki miklu sambandi við vatnið, þannig að við héldum til baka að Litlasjó og stoppuðum í Fyrstuvíkinni.

Fyrstavík um nón

Veðrið var gott um morguninn og batnaði bara þegar leið á daginn. Ekki skemmdi fyrir að um alla Fyrstuvík vakti fiskur í óræðu æti, velti sér og hafði greinilega ekkert annað fyrir stafni en fylla kviðinn. Stutta útgáfan hljómar einfaldlega þannig að við yfirgáfum víkina ekki fyrr en við hættumál, rétt fyrir kl. 23:00

Lengri útgáfan hljómar þannig að til að byrja með settum við í nokkra undirmálsfiska sem allir fengu líf, en þegar við færðum köstin örlítið lengra út á víkina komu stærri og stæðilegir fiskar, þetta á bilinu 2 til 4 pund og þeir voru ekki fáir.

Fyrstavík í síðdegissólinni

Hermann kom reglulega við hjá okkur og fékk fréttir af aflabrögðum og flugum sem gáfu; Olive Nobbler með gulum rassi, Svartur og gylltur Nobbler, Veiðivatnagullið, Svartur Nobbler með grænum rassi, sem sagt allar helstu Veiðivatnaflugur sem maður hafði tiltækar í vestinu. Svo voru það aðrar flugur sem ekki gáfu, þær tóku og stundum helst til hressilega. Auk þeirra fiska sem ég tók fékk ég óræðan fjölda af flugnabiti á víð og dreif um kroppinn og eflaust hefur það verið spaugilegt í meira lagi að sjá til mín, berjandi flugur frá mér þegar verst lét. Ég reyndi eins og mögulegt var að fela mig undir flugnanetinu, en mér finnst það bara svo pirrandi að ég laumast ítrekað til að taka það af mér og auðvitað verð ég þá umsvifalaust stunginn.

Á einhverjum tímapunkti, hvenær er mér ómögulegt að tilgreina því tímaskynið hverfur algjörlega á stað sem þessum, duttu tökur aðeins niður eins og gengur. Eftir stutta ládeyðu í aflabrögðum sem við nýttum fyrir kaffi og kleinur tóku fiskarnir aftur við sér þegar leið að kvöldi. Ég er ekki frá því að almennt hafi uppitökur og veltur væru heldur svifaseinni þennan síðari helming og þá helst á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Þar sem það var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér í víkinni færði ég mig út að Hrauni og fylgdist grannt með yfirborðinu. Jú, það var ekki um að villast, þarna var einhver að velta sér í sílinu. Þar sem Veiðivatnagullið var þegar undir var aðeins að velja hvar ég skildi setja fluguna niður; utan við byltuna eða austan við hana? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá man ég ekkert lengur hvar ég setti hana niður, en við fyrsta inndrátt var tekið í fluguna og henni var ekki sleppt fyrr en yfir lauk. Fiskurinn sem tók fór nokkuð víða með fluguna, tók t.d. næstum alla línuna út af hjólinu þar til fór að glitta í undirlínu, rauk til hægri og vinstri, út og þó helst suður. Eftir nokkrar rokur sýndi hann loksins öll sín 8 pund í loftinu með góðu stökki og töluverðu skvampi. Eftir þetta stökk tekur við annað óminni hjá mér, það næsta sem ég man eftir er að fyrir fótum mér liggur þessi glæsilega hrygna í sandinum sem ég tek upp og rölti með til baka að bílnum.

Við bættum síðan nokkrum vænum fiskum við vestast á Hrauninu áður en við pökkuðum saman, vigtuðum okkar 14 fiska og gerðum að, elduðum okkur mjög síðbúinn kvöldverð og lögðumst sæl og ánægð til svefns eftir daginn.

Fyrstavík eins og hún leggur sig

Meira að segja í 10 m/sek og rigningu eru Veiðivötn fallegur staður, en kannski ekkert sérstaklega veiðilegur. Þannig var nú veðrið meira og minna allan föstudaginn. Eins og oft áður reynir maður alltaf að veiða fiskana aftur sem veiðst hafa áður og því byrjuðum við í Fyrstuvíkinni. Eins veiðilegt og það var nú þarna í öldurótinu á móti 8 m/sek, þá urðum við lítið vör við fisk. Held raunar að það hafi aðeins verið nartað lauslega hjá öðru okkar einu sinni. Þegar suðaustanáttin náði spáðum 10 m/sek. tókum við að leita fyrir okkur um veiðistað með hentaði betur fluguveiði í roki.

Við höfðum fregnir af vænum fiskum úr Stóra Hraunvatni og þangað héldum við. Þegar við mættum á staðinn var þar nokkur fjöldi veiðimanna en enginn hafði komið sér fyrir á austanverðu rifinu við Augað þannig að þar settum við okkur niður. Ýmsar flugur reyndar og kastar fram af rifinu inn í Augað. Þegar svo nartað var í Svartan Nobbler með grænum rassi fór hann undir hjá okkur báðum og endaði með því að góður þriggja pundari náðist á land. Þar með er veiði dagsins talin, grín laust. Þrátt fyrir töluvert nart og lausatökur í Auganu, náðum við ekki fleiri fiskum á land og eftir að við prófuðum að veiða beggja vegna við eyðið á milli Augans og Jöklavíkur í smá tíma, héldum við til baka og kíktum á önnur vötn.

Það var einfaldlega ekkert sérstaklega veiðilegt í vötnunum það sem eftir lifði dags. Fámennt var á aðgerðarborðinu um kvöldið, en því fjölmennara í öllum skálum. Sem dæmi um rok og ölduhæð í suðurvötnunum, þá heyrði ég frá einum sem kroppaði nokkrar bleikjur upp úr Snjóöldunni að þar hefðu menn helst verið að halda í við spúninn, ekki hefði verið um eiginlega inndrátt að ræða því hann kom sjálfur á móti mönnum í öldunni, ef hann þá flaug ekki beinlínis í fangið á mönnum.

Svona getur það nú verið í Veiðivötnum, alltaf frábært en stundum ekki mikil veiði í veðrum. Það var nú reyndar ekkert til að kvarta yfir, veðrið á laugardaginn þegar við tókum okkur saman, en því miður lá leið okkar heim á ný og ekki um annað að ræða heldur en koma sér heim, flaka og koma 15 gómsætum urriðum í frystinn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 65 / 6 39 / 30 15 / 18

Kvíslavatn 17. & 18. júlí

Ekki dugði landsfjórðungaferð okkar í síðustu viku til þess að svala veiðifýsninni nema í örfáa daga. Óbyggðirnar kölluðu svo sterkt á okkur í vikunni að við vorum hreint og beint að ærast hér á malbikinu, létum undan á þriðjudaginn og pökkuðum veiðidóti í færanlega veiðihúsið okkar og héldum af stað út úr bænum. Fyrsta stopp voru Hrauneyjar þar sem leitað var upplýsinga um ástand Sprengisandsleiðar, verð á veiðileyfi í Kvíslavatni og hvort ekki væri örugglega hægt að kaupa hálfan og hálfan dag.

Síðast þegar við fórum Sprengisandsleið komu ítrekað upp í huga mér orð eins veiðibloggara með meiru; þessi volaði vegur en að þessu sinni var vegurinn ekki svo volaður og við komumst með veiðihúsið okkar í heilu lagi inn að Kvíslavatni rétt fyrir kvöldmat. Við komum okkur fyrir gengt Þjófanesi, rétt norðan Svartáróss, settum saman stangir og stefndum inn að Svörtubotnum. Við höfðum verið vöruð við því í Hrauneyjum að þann daginn hefði verið seldur nokkur fjöldi veiðileyfa í Kvíslavatn, en ég átti satt best að segja ekki von á að annar hver merktur veiðistaður við vatnið væri setinn, en sú var raunin.

Kerlingarfjöll séð frá Kvíslavatni

Við eyddum lunganu úr kvöldinu á sama staða við Svörtubotna enda engin ástæða til að færa sig þegar fiskurinn hefur áhuga á því sem honum er boðið. Við félagarnir tókum sitt hvora tvo urriðana áður en við héldum til baka að fellihýsinu. Þar sem klukkan var ekki nema rétt um 22:00 og allir sem verið höfðu við Svartárós voru á bak og burt, þá ákváðum við að renna út á tánna og veiða skil Svartár og Kvíslavatns. Kvöldið lék hreint og beint við hvern sinn fingur og sólarlagið á bak við Hofsjökul smellti rauðleitum blæ á himinn.

Ómetanlegt KODAK moment á fjöllum

Kvöldinu lauk þannig að veiðifélagi minn setti í tvö prýðilega urriða í skolaða hlutanum á meðan ég rembdist eins og rjúpa við staur að ná þessum skemmtilega sem var að skvetta sér í tæra hlutanum, án árangurs.

Morguninn eftir fórum við alveg inn að botni í Svörtubotnum, þóttumst alveg vera með þetta þar sem vindurinn stóð inn víkina og að öllu gefnu þá hefði urriðinn átt að vera að rótast í ætinu þar. Annað kom nú á daginn og við enduðum á því að fara aftur á staðinn þar sem við höfðum verið kvöldið áður. Það sem hafist upp úr því krafsi voru fimm rígvænir urriðar hjá veiðifélaga mínum og þrjú hressileg flugnabit hjá mér.

Tilraun til sköturoms

Vel að merkja, allir urriðarnir sem við tókum voru smekkfullir af skötuormi en enginn þeirra leit við tilraunum mínum með flugu sem á að líkjast því kvikindi. Kannski þarf ég aðeins að spá betur í inndrætti o.s.frv. þegar ég prófa þá flugu næst. Hvað um það, eftir að við kláruðum síðari hálfan daginn okkar renndum við aftur niður í Hrauneyjar, fylltum á bílinn og héldum ferðalaginu okkar áfram ….

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 65 / 2 30 / 24 14 / 17

Ferðalok 13. júlí

Eftir sérstaklega ánægjulegt ferðalag okkar um Austfirðina og Hérað í síðustu viku, lá leið okkar heim á leið að kvöldi 13. júlí og valið stóð um að keyra í einni lotu eða koma við á einum stað, hvort heldur til að gista eða bleyta færi. Fyrir valinu varð að staldra við rétt austan Jökulsár á Breiðamerkursandi.

Breiðamerkursandur geymir nokkur áhugaverð vötn sem eiga samgang við Jökulsárlón. Þetta svæði er viðkvæmt frá náttúrunnar hendi, sand- og urðaröldur með víkjandi gróðri og því sérstaklega áríðandi að menn virði lokanir slóða og haldi sig sem mest á fæti, sleppi eins og mögulegt er að aka um svæðið.

Jökulsárlón á miðnætti

Stoppið okkar var ekki langt, en nóg til þess að við tókum með okkur eina sjóbleikju og átta mjög góða urriða, fylltum þannig á orkubirgðirnar og ókum heim á leið rétt fyrir miðnættið.

Þessi ferð okkar hjóna austur á land var tvíþætt. Í fyrsta lagi vorum við hreint og beint búin að fá upp í kok af sunnlenska sumrinu og svo hefur okkur lengi langað að leggja í svona óvissuferð um Austfirðina, leita veiðileyfa þar sem okkur þóknaðist, helst beint frá bónda án nokkurs milliliðakostnaðar, prófa eitthvað nýtt.

Við leituðum víða upplýsinga, gættum þó hófs í að banka uppá hjá ábúendum, en alls staðar þar sem okkur bar að garði var okkur vel tekið og elskulega. Mér tókst að afla töluverðra upplýsinga um svæðið og ástand bleikjunnar, eitthvað sem ég kem örugglega til með að nýta í pælingum mínum næsta vetur. Í þessum greinarkornum mínum frá 11. til 13. júlí hefur berlega komið í ljós að við gerðum ekki feita för í afla þar sem okkur bar niður. Við leituðum fyrir okkur á nokkrum stöðum, bæði fyrir ferðina og eftir því sem okkur miðaði áfram, staðir sem ekki hafa verið nefndir hér en fengu því miður umsagnir eins og; áin er hreint og beint ónýt, fiskur úr Lagarfljóti hefur alveg horfið, engin veiði síðustu ár, alveg drepist eftir að fiskeldið kom í fjörðinn o.s.frv. Þetta eru ljótar lýsingar, en því miður koma þær ekki allar á óvart en vekja ótal spurningar í huga mér um það gildismat sem þessi þjóð leggur til grundvallar þegar kemur að framkvæmdum og atvinnubótum. Úr þessari ferð tek ég með mér fullvissu um endalausa möguleika á ferðatengdri þjónustu við stangveiðimenn, möguleika sem geta skapað viðvarandi störf en eiga enga samleið með núverandi framkvæmdagleði og útþennslu fiskeldis í sjó.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 65 / 2 21 / 22 13 / 16

Hamarsá 12. & 13. júlí

Eftir ánægjulega dvöl okkar við Stöðvará héldum við ferð okkar áfram um austfirðina og við tók róleg heimför. Við vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að keyra enn eitt skiptið síðasta ómalbikaða spotta þjóðvegar nr. 1 á leið okkar um Berufjörð á leið okkar til Djúpavogs. Frá Djúpavogi lá leið okkar inn Hamarsfjörð þar sem við ætluðum að leita færis á veiðileyfi í Hamarsá. Kunnugir muna væntanlega eftir stórfelldum vatnavöxtum í Hamarsá s.l. haust og enn má sjá nokkur merki þeirra í farvegi og umhverfi árinnar.

Veiðileyfi fengum við á Bragðavöllum og með þeim heldur daprar fréttir af bleikjuveiði í ánni. Svo virðist sem viðkoma bleikjunnar hafi algjörlega brugðist á liðnum árum og er ekki nema svipur hjá sjón m.v. það sem áður var. Enn og aftur, vel getur verið að við höfum verið heldur snemma á ferðinni í sumrinu, en mér skilst að tveir veiðimenn hafi eytt heilum degi við að berja ána fyrir nokkru og aðeins uppskorið tvær bleikjur.

Snædalsá

Við renndum inn að Snædalsá ofan við Bragðavelli, skimuðum nálægt alla ána niður að ármótum við Hamarsá en sáum ekki nein ummerki bleikju. Það eitt að hvorki seiði né uppvaxta fiskur sæist í Snædalsá var ekki góðs viti, því að sögn er áin mjög mikilvæg hrygningar- og uppeldisá bleikjunnar í Hamarsá.

Kvöldinu eyddum við í dásamlegu veðri, gengum með Hamarsá og skimuðum eftir fiski alveg niður að gömlu brúnni við Bragðavelli. Það var huggun harmi gegn að við sáum töluvert af veturgömlum bleikjuseiðum í aflænu undir hömrunum rétt ofan Bragðavalla, þar sem er ungviði, þar er von.

Hamrarnir neðan Bragðavalla

Þegar okkur þótti fullreynt þetta kvöldið, drógum við okkur í bólið og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar á flóðinu morguninn eftir.

Gamla brúin yfir Hamarsá

Næsta morgun bar svo við að langþráð úrkoma Austfirðinga lét á sér kræla. Fyrir okkur var léttur úðinn aðeins áminning þess hvernig sumarið hefur verið sunnan heiða það sem af er, en hitastigið var samt sem áður með því besta sem gerst hefur þannig að úrkoman kom ekki að sök. Við hófum leika fyrir neðan brúnna á þjóðveginum, veiðifélaginn stefni út að ós en ég upp að brú. Aðfallið kom, liggjandinn leið og ekkert gerðist þrátt fyrir að allar þekktar sjóbleikjuflugur væru viðraðar, hnýttar á og baðaðar. Að vísu fékk veiðifélagi minn einhver viðbrögð (bleikjunart fullyrti hún) niður undir ós, en síðan ekki söguna meir. Í sameiningu töltum við upp með ánni að gömlu brúnni, prófuðum ýmsa álitlega staði og þekktar flugur, en ekkert kom á land. Að lokum fórum við síðan bæði niður undir ós, þöndum línur út á breiðuna, skiptum um flugur í nokkur skipti til viðbótar, en gáfumst fljótlega upp og pökkuðum saman.

Eftir að hafa komið veiðifréttum áleiðis til ábúenda að Bragðavöllum, renndum við sem leið lá inn í sunnlensku rigninguna sem tók mjög ákveðið á móti okkur upp af Hamarsfirði og fylgdi okkur allt til Reykjavíkur. Að vísu áttum við smá viðkomu rétt austan Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi um kvöldið sem sagt verður frá síðar. Að lokum langar mig að geta þess fyrir þá sem ekki draga veiðihúsið sitt með sér eins og við hjónin, þá er afskaplega snotur smáhýsaútgerð að Bragðavöllum og vel þess virði að staldra þar við og njóta umhverfis og aðbúnaðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 12 / 15

Stöðvará 12. júlí

Áður en kemur að frásögn úr Stöðvará, þá kemur hér formáli í nokkrum liðum. Á leið okkar um Berufjörð og inn að Öxi keyrðum við yfir og meðfram Berufjarðará. Mér er eiginlega ómögulegt að leggja mat á hvort þessi fallega á beri einhvern fisk því það mátti vart sjá í hana fyrir haugum af möl sem ýtt hafði verði upp úr farvegi hennar. Það er greinilegt að þar sem meiri peningur fæst fyrir möl heldur en sölu veiðileyfa, þá er lífríkið látið víkja. Það getur eiginlega ekki annað verið heldur en þessi snotra á hafi, einhverra hluta vegna þegar verið ónýt, því annars hefði Fiskistofa ekki heimilað efnistökuna eina og hún var framkvæmd þarna.

Eftir heimsókn okkar í Skriðuvatn og stuttan stans á Egilsstöðum renndum við yfir á Reyðarfjörð og þaðan yfir á Eskifjörð því við höfðum haft spurnir af því að bleikjan væri farin að sýna sig þar. Mér dettur ekki í hug að tala ár niður í ræðu eða riti, en vegsummerki efnistöku og almennt umhverfi Eskifjarðaár var hreint og beint ekki til þess fallið að við hefðum hug á að bleyta þar færi. Auðvitað er það gulls í gildi að hafa sjóbleikjuá við bæjardyrnar og ég sá ekki betur en bæjarbúar, og mögulega gestir, væru sáttir við þessa á og nýttu hana. Ekki sá ég neinn taka fisk, en ég stoppaði heldur ekki lengi á bökkunum og hélt þess í stað aftur inn á Reyðarfjörð og þaðan yfir til litla Frakklands, Fáskrúðsfjarðar þar sem við náttuðum.

Fyrir botni Stöðvarfjarðar, næsta fjarðar sunnan Fáskrúðsfjarðar, rennu Stöðvará til sjávar um fallegt ósasvæði. Eftir því sem mér skilst er helst von á bleikju á neðsta svæði árinnar fram undir ágúst en þá fikrar hún sig ofar í ána. Ósasvæðið er í sölu hjá ferðaþjónustunni að Óseyri og þangað snérum við okkur um leyfi sem var auðsótt mál.

Stöðvará ofan brúar

Það má segja að ósasvæði árinnar skiptist við brúnna. Neðan brúar er víðfermt svæði og ofan brúar er töluverður spotti áður en kemur að landamerkjum Óseyrar og Stöðvar. Við vorum svo heppin að vera á staðnum á aðfallinu og vel fram fyrir liggjandann sem kunnugir segja mér að sé besti tíminn í sjóbleikjunni. Ekki urðum við mikið vör við fisk, sáum tvo rétt innan við brú á liggjandanum, en þeir vildu ekkert sem ég bauð þeim og voru víst meira á leiðinni til sjávar en lengra upp ána.

Hreiður við Stöðvará

Hvort við vorum yfir höfuð of snemma á ferðinni, þ.e. á sumrinu skal ég ósagt látið en þetta var eina lífið sem við sáum í ánni. Öðru máli gegnir um lífið á óseyrinni, þar voru kollur með unga sína, kríur í ham og töluvert af fugli í flæðarmálinu. Það er því vissara að gæta sín hvar stigið er niður fæti á þessum slóðum. Þetta er fallegt svæði og ætti að vera auðvelt viðureignar, meira að segja fyrir byrjanda eins og mig og ég mæli hiklaust með því að leita fyrir sér um leyfi í ósnum þegar líður á sumarið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 11 / 14

Skriðuvatn 11. júlí

Það verður að teljast mikil blessun að til séu vötn sem maður á eftir að prófa. Þótt skömm sé frá því að segja, þá hef ég í ótal skipti keyrt framhjá Skriðuvatni í Skriðdal en á miðvikudaginn skyldi ekki keyrt framhjá. Þegar við komum niður að vatninu að norðan lifnaði heldur betur yfir okkur veiðifélögunum, stinningskaldi úr suðri, hlýtt og þurrt veður og aldan boðaði eitthvert rót af æti við bakkann.

Rétt í þann mund sem við vorum að draga á okkur veiðigallann, mættu fleiri veiðimenn á svæðið vopnaðir kast- og flugustöngum. Á daginn kom að þar var mættur við annan mann veiðimaður sem hafði þegar farið þrisvar í vatnið án þess að verða var við fisk. Allt er þegar þrennt er, fullkomið í fjórða og nú hafði hann hug á næla í fisk. Miðað við allt og fyrri reynslu okkar af urriðavötnum eins og Skriðuvatni, þá hefði það átt að vera auðvelt mál. En svo bregðast krosstré sem önnur og það fór svo að enginn fiskur lét sjá sig og samtals voru það fjórir veiðimenn sem fóru heim með öngulinn í rassinum eftir ýmsar tilraunir meðfram norðurbakkanum og allt niður að landamerkjum í Múlaá.

Espresso að malla við Skriðuvatn

Það verður víst að bíða betri tíma að ná fiski úr þessu vatni, en það er þó loksins búið að prófa það. Sárabót dagsins var að espressokaffið smakkaðist sérstaklega vel beint af ferðaprímusinum áður en við héldum ferð okkar áfram niður á Egilsstaði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 10 / 13

Búlandsá 11. júlí

Það voru ekki aðeins sleitulausar rigningar síðustu mánaða sem urðu til þess að við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í víking í vikunni. Okkur hefur lengi langað til að kanna veiðimöguleika á suðaustan- og austanverðu landinu. Þriðjudagur er ekkert verri dagur en hver annar til að leggja af stað í veiðiferð, sérstaklega ekki þegar maður er í sumarfríi.

Rétt norðan Djúpavogs er lítil, mjög lítil og krúttleg á sem forðum var orðlögð fyrir öflugar göngur sjóbleikju en hefur hin síðari ári lotið í lægra haldi fyrir almennu áhugaleysi sjóbleikjunnar á uppgöngu í hana sem viðmælandi minn á miðvikudaginn vildi tengja á einhvern óskiljanlegan hátt við uppbyggingu sjókvíaeldis í Berufirði hin síðari ár. (Vonandi fer kaldhæðni mín ekki á milli mála hér að framan).

Búlandsá

Eftir að við höfðum tryggt okkur leyfi til veiða voru léttari græjurnar teknar fram, þurrflugur hnýttar á tauma og haldið að Silungahyl sem er einn margra veiðilegra staða í Búlandsá. Það er ekki ofsögum sagt að áin er ekki vatnsmikil en falleg er hún og sömu sögu má segja af umhverfinu. Það leið ekki löng stund þar til fyrsti fiskurinn óð í þurrfluguna sem ég lagði niður með öllu hinu ætinu sem safnast hafði saman við hylinn. Lítil á, lítill fiskur skaust upp í huga mér þegar ég losaði fluguna varlega úr bleikjunni og sleppti henni aftur út í hylinn.

Ég rölti upp að Brekkuhyl og Nafnlausahyl í leit að fiski en því miður var lítið um stærri fisk í ánni heldur en sem samsvarar 15 gr. Toby spún. Þegar nálgaðist liggjandann færðum við okkur á neðri svæði árinnar, skönnuðum hverja einustu breiðu, hyl og poll, vel niður fyrir brú á þjóðveginum og út að ós. Veiðifélagi minn setti í einn titt á breiðunni ofan við brú, en síðan ekki söguna meir.

Tittur úr Búlandsá

Það er greinilega af sem áður var með á þessa og hver sem orsök þess er, þá er það miður. Áin er falleg og þótt hún sé ekki með vatnsmestu fljótum landsins, þá getur hún örugglega fóstrað nokkrar sjóbleikjur ef þær væru til staðar á annað borð.

Veiðileyfi í þessa krúttlegu á má nálgast hjá landverði að Teigarhorni, veiðistaðakort á vef Teigarhorns og þá ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir tvo veiðimenn að sitja fyrir sjóbleikjunni ef hún lætur sjá sig. Að því gefnu að eitthvað sé eftir að lifandi bleikju í Berufirði þá gæti það gerst á næstu vikum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 64 / 0 15 / 20 / 12