Febrúarflugur

Markmið Febrúarflugna

Frá upphafi hefur markmið þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og gefa hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum með einföldum og auðveldum hætti.

Átakið hefur alla tíð fylgt sama sniði og FOS.IS þ.e. rekið án þátttökugjalds eða í hagnarskyni, fyrst og fremst með það markmið að leiðarljósi að svala forvitni þeirra sem áhuga hafa á flugum og fluguveiði almennt.

Febrúarflugur 2022

Febrúarflugur 2022 voru enn og aftur þær fjölmennustu og umfangsmestu frá upphafi. Meðlimir í hópinum Febrúarflugur á Facebook voru 1267 í lok mánaðarins, flugurnar urðu 1.888 og aldrei hafa fleiri hnýtarar leyft öðrum að njóta verka sinna, alls 246 hnýtarar.

Saga Febrúarflugna

Árið 2014 efndi FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar.

Átakið hefur alla tíð notið mikils velvilja verslana og veiðileyfasala sem hefur gert okkur kleyft að veita heppnum þátttakendum veglegar viðurkenningar fyrir þátttökuna á hverju ári. Þessi stuðningur er okkur ómetanlegur og verður seint nægjanlega þakkaður.