Þeir sem þekkja til Úlfljótsvatns fara nokkuð nærri um það að það er frekar kalt. Ekki eins kalt og Þingvallavatn, en kalt er það. Mér skilst að meðalhiti vatnsins ætti að vera eitthvað á bilinu 5 – 6 °C um mánaðarmótin maí, júní og það lét nærri að svo væri s.l. sunnudag. Í Hagavík var vatnið rétt rúmar 5°C og við utanverða Borgarvík var það tæpar 5°C sem sagt, örlítið undir meðalhita eins og flest vötn á landinu þetta vorið.

Þessir tveir staðir voru sem sagt þeir staðir sem við veiðifélagarnir heimsóttum í skreppnum okkar á sunnudaginn. Byrjuðum við Veiðitanga rétt utan við Hagavík og …. urðum ekki vör við fisk, en flugan var komin á kreik og smáfuglarnir gerðu sér hana á góðu þar sem hún kom upp eða settist á vatnið.

Þarna stoppuðum við dágóða stund, en héldum síðan austur og suður fyrir vatnið, en stoppuðum ekkert á leiðinni, það voru greinilega fleiri veiðiþyrstir á ferðinni. Nánast hver einasti staður var setinn frá Grjótnesi og inn að kirkju, þannig að við fórum niður í Borgarvík og nutum þess að rigningunni sem dunið hafði á okkur í Hagavík hafði slotað.

Þegar við höfðum teygt nægjanlega úr línunum okkar við Borgarvíkina og vorum að taka okkur saman, rifjaðist upp fyrir okkur upplifun frá því fyrir mjög mörgum árum síðan. Þannig var að mættum eitt sinn í Borgarvík, var þar veiðimaður að hætta sem hafði orðið mjög lítið ágengt og var heldur þungur á brún og ómyrkur í máli. Við vorum aftur á móti þokkalega vongóð, veðrið með ágætum og fluga á ferð. Eftir stutt orðaskipti við forvera okkar á staðnum, þá hvarf öll okkar von út í veður og vind þannig að maður beinlínis var orðinn niðurlútur þegar fyrsta fluga var hnýtt á tauminn og nennan til að vera á staðnum var horfinn áður en hún lenti á vatninu, slíkar voru bölbænir veiðimannsins ófarsæla um vatnið, veðrið og aðstæður allar.

Kveikjan að þessari upprifjun var að þegar við vorum að pakka saman, komu ungir og gallvaskir veiðimenn niður í Borgarvík sem flúið höfðu mannmergðina og aflaskort austan við Skátasvæðið. Þrátt fyrir dræmar undirtektir við okkar flugunum, reyndum við að vera eins jákvæð og okkur var unnt. Í stað þess að mála skrattann á vegginn, þá tókum við þann pól í hæðina og okkur hefði að vísu ekkert orðið ágengt, en fiskurinn væri eflaust að bíða eftir þeim strákunum, allt gæti gerst og dagurinn væri fallegur og vatnið veiðilegt.
Fyrsta upplifun veiðimanna hefur mikið að segja um upplifun þeirra, vonandi hefur þeim strákunum gengið betur en okkur, en við héldum heim á leið með lungun full af fersku lofti og eins og eitt mýflugubit á handarbaki.
0 / 0
2 / 3
0 / 0
2 / 3
7 / 8