2014

Heilt yfir má segja að sumarið 2014 hafi verið eitt besta ár í veiðinni sem komið hefur í langan tíma hjá mér. 25 ferðir færðu mér 121 bleikju og 27 urriða. Meðalveiði í ferð voru því tæplega 6 fiskar. Munar þar lang mestu um úthald okkar hjóna í Framvötnum í júlí og ágúst. Frúin endaði sömuleiðis í 121 bleikju, en urriðarnir voru eilítið færri eða 18. Aftur á móti var meðalveiði hennar í ferð ríflega 6 stk. þannig að enn og aftur hefur hún vinninginn og er vel að honum komin.

Smellið á myndina til að stækka
Smellið á myndina til að stækka

Um tíðafar sumarsins er það helst að segja að mér fannst eiginlega alltaf vera sól og blíða, nema þá helst þegar hausta tók. Þvert ofan í mínar spár um langt og milt haust var líkt og botnin hefði verið sleginn úr einhverri tunnu á himnum og veðurguðirnir byrstu sig örlítið meir heldur en ég átti von á. Hvað um það, vertíðin var gjöful og margra góðra stunda að minnast frá bökkum vatnanna okkar.

2013

Sumarið 2013 var mörgum veiðimönnum, þ.e. silungsveiðmönnum erfitt. Tíðarfar var heldur dapurt lengi fram eftir sumri og haustið skall snemma á okkur. Eftir því sem ég hef heyrt af mönnum má ég víst nokkuð vel við una með mína 50 fiska í því sem ég vil nú samt meina að sé lélegasta veiðisumar frá því ég byrjaði að skrá aflan með skipulögðum hætti.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

ATH: hér urðu mér á þau mistök að gleyma einni ferð; Arnarvatnsheiði 15.- 16. júní þar sem frúin setti í tvo og ég í þrjá. Þar á meðal var minn stærsti sumarsins; 8 punda urriða í Austurá. Árið endaði sem sagt í 50 fiskum hjá mér sem var bróðurlega skipt 25/25 á milli urriða og bleikja. Frúin endaði í 28 stk. 19 bleikjum og 9 urriðum.

2012

Hér er svo uppgjör ársins 2012 hjá okkur hjónum. Enn og aftur sannast það hvað hitastigið hefur mikið að segja, þ.e. ef maður leyfir sér að horfa fram hjá eigin klúðri sem auðvitað hefur mikið að segja í veiðinni. Það er svo sem ekki mikils fiskjar að vænta þegar meðalhitinn nær vart 5°C sem sannar  sig yfirleitt í apríl.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

2011

Þegar meðalhiti mánaða er skoðaður í samhengi við afla, þá má glögglega sjá að upp úr 8-9°C hita í nokkra daga fer aflinn aðeins upp á við. Að vísu hefur hitinn ekki aðeins áhrif á fiskinn, sjálfur er maður oft óttalegur innipúki þegar kalt er í veðri og fer lítið á stjá. Svona verkaðist árið 2011 hjá okkur hjónum.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

Eins og venjulega  á ég bláu línurnar og frúin þær rauðu.

2010

Fyrsta árið sem ég tók upp á þeim óskunda að skrá veiðiferðirnar inn á þetta blogg var árið 2010. Að vísu vantar einhverjar ferðir í upphafi sumars hér inn. Bláu línurnar er afli undirritaðs en þær rauðu eru ættaðar frá eiginkonunni.

fos_upp2010
Smelltu fyrir stærri mynd

Upplýsingar um veður og tíðarfar eru fengnar frá Veðurstofu Íslands.

Veiðisumarið 2013

Ætli manni sé ekki óhætt að segja veiðisumrinu 2013 formlega lokið. Komið fram í nóvember og græjurnar eru komnar í geymslu og maður farinn að huga að vetrarstarfinu. Ég hef síðustu árin sett saman smá klippu með völdum myndum úr veiðiferðum sumarsins og nú er komið að frumsýningu þessa árs.

Annars var veiðin frekar í rólegri kantinum þetta sumarið. Að vísu lagði ég 39 sinnum af stað með stöng í farteskinu, en veiðin var aðeins 25 urriðar og 25 bleikjur. Oft verið meiri og oft verið í betra veðri. Engu að síður var þessum stundum vel varið, einn eða í góðra vina hópi. Ætli þetta sumar hafi ekki verið met-sumar að því leitinu til að ég hef trúlega aldrei komið jafn oft heim með öngulinn í rassinum, alls 21 skipti. En, veiðnar ferðir voru því 18 sem gáfu mér 50 fiska sem gerir þá tvo og þrjá-fjórðu fisk þegar gaf á annað borð.