Ferðalok 13. júlí

Eftir sérstaklega ánægjulegt ferðalag okkar um Austfirðina og Hérað í síðustu viku, lá leið okkar heim á leið að kvöldi 13. júlí og valið stóð um að keyra í einni lotu eða koma við á einum stað, hvort heldur til að gista eða bleyta færi. Fyrir valinu varð að staldra við rétt austan Jökulsár á Breiðamerkursandi.

Breiðamerkursandur geymir nokkur áhugaverð vötn sem eiga samgang við Jökulsárlón. Þetta svæði er viðkvæmt frá náttúrunnar hendi, sand- og urðaröldur með víkjandi gróðri og því sérstaklega áríðandi að menn virði lokanir slóða og haldi sig sem mest á fæti, sleppi eins og mögulegt er að aka um svæðið.

Jökulsárlón á miðnætti

Stoppið okkar var ekki langt, en nóg til þess að við tókum með okkur eina sjóbleikju og átta mjög góða urriða, fylltum þannig á orkubirgðirnar og ókum heim á leið rétt fyrir miðnættið.

Þessi ferð okkar hjóna austur á land var tvíþætt. Í fyrsta lagi vorum við hreint og beint búin að fá upp í kok af sunnlenska sumrinu og svo hefur okkur lengi langað að leggja í svona óvissuferð um Austfirðina, leita veiðileyfa þar sem okkur þóknaðist, helst beint frá bónda án nokkurs milliliðakostnaðar, prófa eitthvað nýtt.

Við leituðum víða upplýsinga, gættum þó hófs í að banka uppá hjá ábúendum, en alls staðar þar sem okkur bar að garði var okkur vel tekið og elskulega. Mér tókst að afla töluverðra upplýsinga um svæðið og ástand bleikjunnar, eitthvað sem ég kem örugglega til með að nýta í pælingum mínum næsta vetur. Í þessum greinarkornum mínum frá 11. til 13. júlí hefur berlega komið í ljós að við gerðum ekki feita för í afla þar sem okkur bar niður. Við leituðum fyrir okkur á nokkrum stöðum, bæði fyrir ferðina og eftir því sem okkur miðaði áfram, staðir sem ekki hafa verið nefndir hér en fengu því miður umsagnir eins og; áin er hreint og beint ónýt, fiskur úr Lagarfljóti hefur alveg horfið, engin veiði síðustu ár, alveg drepist eftir að fiskeldið kom í fjörðinn o.s.frv. Þetta eru ljótar lýsingar, en því miður koma þær ekki allar á óvart en vekja ótal spurningar í huga mér um það gildismat sem þessi þjóð leggur til grundvallar þegar kemur að framkvæmdum og atvinnubótum. Úr þessari ferð tek ég með mér fullvissu um endalausa möguleika á ferðatengdri þjónustu við stangveiðimenn, möguleika sem geta skapað viðvarandi störf en eiga enga samleið með núverandi framkvæmdagleði og útþennslu fiskeldis í sjó.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 65 / 2 21 / 22 13 / 16

Hamarsá 12. & 13. júlí

Eftir ánægjulega dvöl okkar við Stöðvará héldum við ferð okkar áfram um austfirðina og við tók róleg heimför. Við vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að keyra enn eitt skiptið síðasta ómalbikaða spotta þjóðvegar nr. 1 á leið okkar um Berufjörð á leið okkar til Djúpavogs. Frá Djúpavogi lá leið okkar inn Hamarsfjörð þar sem við ætluðum að leita færis á veiðileyfi í Hamarsá. Kunnugir muna væntanlega eftir stórfelldum vatnavöxtum í Hamarsá s.l. haust og enn má sjá nokkur merki þeirra í farvegi og umhverfi árinnar.

Veiðileyfi fengum við á Bragðavöllum og með þeim heldur daprar fréttir af bleikjuveiði í ánni. Svo virðist sem viðkoma bleikjunnar hafi algjörlega brugðist á liðnum árum og er ekki nema svipur hjá sjón m.v. það sem áður var. Enn og aftur, vel getur verið að við höfum verið heldur snemma á ferðinni í sumrinu, en mér skilst að tveir veiðimenn hafi eytt heilum degi við að berja ána fyrir nokkru og aðeins uppskorið tvær bleikjur.

Snædalsá

Við renndum inn að Snædalsá ofan við Bragðavelli, skimuðum nálægt alla ána niður að ármótum við Hamarsá en sáum ekki nein ummerki bleikju. Það eitt að hvorki seiði né uppvaxta fiskur sæist í Snædalsá var ekki góðs viti, því að sögn er áin mjög mikilvæg hrygningar- og uppeldisá bleikjunnar í Hamarsá.

Kvöldinu eyddum við í dásamlegu veðri, gengum með Hamarsá og skimuðum eftir fiski alveg niður að gömlu brúnni við Bragðavelli. Það var huggun harmi gegn að við sáum töluvert af veturgömlum bleikjuseiðum í aflænu undir hömrunum rétt ofan Bragðavalla, þar sem er ungviði, þar er von.

Hamrarnir neðan Bragðavalla

Þegar okkur þótti fullreynt þetta kvöldið, drógum við okkur í bólið og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar á flóðinu morguninn eftir.

Gamla brúin yfir Hamarsá

Næsta morgun bar svo við að langþráð úrkoma Austfirðinga lét á sér kræla. Fyrir okkur var léttur úðinn aðeins áminning þess hvernig sumarið hefur verið sunnan heiða það sem af er, en hitastigið var samt sem áður með því besta sem gerst hefur þannig að úrkoman kom ekki að sök. Við hófum leika fyrir neðan brúnna á þjóðveginum, veiðifélaginn stefni út að ós en ég upp að brú. Aðfallið kom, liggjandinn leið og ekkert gerðist þrátt fyrir að allar þekktar sjóbleikjuflugur væru viðraðar, hnýttar á og baðaðar. Að vísu fékk veiðifélagi minn einhver viðbrögð (bleikjunart fullyrti hún) niður undir ós, en síðan ekki söguna meir. Í sameiningu töltum við upp með ánni að gömlu brúnni, prófuðum ýmsa álitlega staði og þekktar flugur, en ekkert kom á land. Að lokum fórum við síðan bæði niður undir ós, þöndum línur út á breiðuna, skiptum um flugur í nokkur skipti til viðbótar, en gáfumst fljótlega upp og pökkuðum saman.

Eftir að hafa komið veiðifréttum áleiðis til ábúenda að Bragðavöllum, renndum við sem leið lá inn í sunnlensku rigninguna sem tók mjög ákveðið á móti okkur upp af Hamarsfirði og fylgdi okkur allt til Reykjavíkur. Að vísu áttum við smá viðkomu rétt austan Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi um kvöldið sem sagt verður frá síðar. Að lokum langar mig að geta þess fyrir þá sem ekki draga veiðihúsið sitt með sér eins og við hjónin, þá er afskaplega snotur smáhýsaútgerð að Bragðavöllum og vel þess virði að staldra þar við og njóta umhverfis og aðbúnaðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 12 / 15

Stöðvará 12. júlí

Áður en kemur að frásögn úr Stöðvará, þá kemur hér formáli í nokkrum liðum. Á leið okkar um Berufjörð og inn að Öxi keyrðum við yfir og meðfram Berufjarðará. Mér er eiginlega ómögulegt að leggja mat á hvort þessi fallega á beri einhvern fisk því það mátti vart sjá í hana fyrir haugum af möl sem ýtt hafði verði upp úr farvegi hennar. Það er greinilegt að þar sem meiri peningur fæst fyrir möl heldur en sölu veiðileyfa, þá er lífríkið látið víkja. Það getur eiginlega ekki annað verið heldur en þessi snotra á hafi, einhverra hluta vegna þegar verið ónýt, því annars hefði Fiskistofa ekki heimilað efnistökuna eina og hún var framkvæmd þarna.

Eftir heimsókn okkar í Skriðuvatn og stuttan stans á Egilsstöðum renndum við yfir á Reyðarfjörð og þaðan yfir á Eskifjörð því við höfðum haft spurnir af því að bleikjan væri farin að sýna sig þar. Mér dettur ekki í hug að tala ár niður í ræðu eða riti, en vegsummerki efnistöku og almennt umhverfi Eskifjarðaár var hreint og beint ekki til þess fallið að við hefðum hug á að bleyta þar færi. Auðvitað er það gulls í gildi að hafa sjóbleikjuá við bæjardyrnar og ég sá ekki betur en bæjarbúar, og mögulega gestir, væru sáttir við þessa á og nýttu hana. Ekki sá ég neinn taka fisk, en ég stoppaði heldur ekki lengi á bökkunum og hélt þess í stað aftur inn á Reyðarfjörð og þaðan yfir til litla Frakklands, Fáskrúðsfjarðar þar sem við náttuðum.

Fyrir botni Stöðvarfjarðar, næsta fjarðar sunnan Fáskrúðsfjarðar, rennu Stöðvará til sjávar um fallegt ósasvæði. Eftir því sem mér skilst er helst von á bleikju á neðsta svæði árinnar fram undir ágúst en þá fikrar hún sig ofar í ána. Ósasvæðið er í sölu hjá ferðaþjónustunni að Óseyri og þangað snérum við okkur um leyfi sem var auðsótt mál.

Stöðvará ofan brúar

Það má segja að ósasvæði árinnar skiptist við brúnna. Neðan brúar er víðfermt svæði og ofan brúar er töluverður spotti áður en kemur að landamerkjum Óseyrar og Stöðvar. Við vorum svo heppin að vera á staðnum á aðfallinu og vel fram fyrir liggjandann sem kunnugir segja mér að sé besti tíminn í sjóbleikjunni. Ekki urðum við mikið vör við fisk, sáum tvo rétt innan við brú á liggjandanum, en þeir vildu ekkert sem ég bauð þeim og voru víst meira á leiðinni til sjávar en lengra upp ána.

Hreiður við Stöðvará

Hvort við vorum yfir höfuð of snemma á ferðinni, þ.e. á sumrinu skal ég ósagt látið en þetta var eina lífið sem við sáum í ánni. Öðru máli gegnir um lífið á óseyrinni, þar voru kollur með unga sína, kríur í ham og töluvert af fugli í flæðarmálinu. Það er því vissara að gæta sín hvar stigið er niður fæti á þessum slóðum. Þetta er fallegt svæði og ætti að vera auðvelt viðureignar, meira að segja fyrir byrjanda eins og mig og ég mæli hiklaust með því að leita fyrir sér um leyfi í ósnum þegar líður á sumarið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 11 / 14

Skriðuvatn 11. júlí

Það verður að teljast mikil blessun að til séu vötn sem maður á eftir að prófa. Þótt skömm sé frá því að segja, þá hef ég í ótal skipti keyrt framhjá Skriðuvatni í Skriðdal en á miðvikudaginn skyldi ekki keyrt framhjá. Þegar við komum niður að vatninu að norðan lifnaði heldur betur yfir okkur veiðifélögunum, stinningskaldi úr suðri, hlýtt og þurrt veður og aldan boðaði eitthvert rót af æti við bakkann.

Rétt í þann mund sem við vorum að draga á okkur veiðigallann, mættu fleiri veiðimenn á svæðið vopnaðir kast- og flugustöngum. Á daginn kom að þar var mættur við annan mann veiðimaður sem hafði þegar farið þrisvar í vatnið án þess að verða var við fisk. Allt er þegar þrennt er, fullkomið í fjórða og nú hafði hann hug á næla í fisk. Miðað við allt og fyrri reynslu okkar af urriðavötnum eins og Skriðuvatni, þá hefði það átt að vera auðvelt mál. En svo bregðast krosstré sem önnur og það fór svo að enginn fiskur lét sjá sig og samtals voru það fjórir veiðimenn sem fóru heim með öngulinn í rassinum eftir ýmsar tilraunir meðfram norðurbakkanum og allt niður að landamerkjum í Múlaá.

Espresso að malla við Skriðuvatn

Það verður víst að bíða betri tíma að ná fiski úr þessu vatni, en það er þó loksins búið að prófa það. Sárabót dagsins var að espressokaffið smakkaðist sérstaklega vel beint af ferðaprímusinum áður en við héldum ferð okkar áfram niður á Egilsstaði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 10 / 13

Búlandsá 11. júlí

Það voru ekki aðeins sleitulausar rigningar síðustu mánaða sem urðu til þess að við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í víking í vikunni. Okkur hefur lengi langað til að kanna veiðimöguleika á suðaustan- og austanverðu landinu. Þriðjudagur er ekkert verri dagur en hver annar til að leggja af stað í veiðiferð, sérstaklega ekki þegar maður er í sumarfríi.

Rétt norðan Djúpavogs er lítil, mjög lítil og krúttleg á sem forðum var orðlögð fyrir öflugar göngur sjóbleikju en hefur hin síðari ári lotið í lægra haldi fyrir almennu áhugaleysi sjóbleikjunnar á uppgöngu í hana sem viðmælandi minn á miðvikudaginn vildi tengja á einhvern óskiljanlegan hátt við uppbyggingu sjókvíaeldis í Berufirði hin síðari ár. (Vonandi fer kaldhæðni mín ekki á milli mála hér að framan).

Búlandsá

Eftir að við höfðum tryggt okkur leyfi til veiða voru léttari græjurnar teknar fram, þurrflugur hnýttar á tauma og haldið að Silungahyl sem er einn margra veiðilegra staða í Búlandsá. Það er ekki ofsögum sagt að áin er ekki vatnsmikil en falleg er hún og sömu sögu má segja af umhverfinu. Það leið ekki löng stund þar til fyrsti fiskurinn óð í þurrfluguna sem ég lagði niður með öllu hinu ætinu sem safnast hafði saman við hylinn. Lítil á, lítill fiskur skaust upp í huga mér þegar ég losaði fluguna varlega úr bleikjunni og sleppti henni aftur út í hylinn.

Ég rölti upp að Brekkuhyl og Nafnlausahyl í leit að fiski en því miður var lítið um stærri fisk í ánni heldur en sem samsvarar 15 gr. Toby spún. Þegar nálgaðist liggjandann færðum við okkur á neðri svæði árinnar, skönnuðum hverja einustu breiðu, hyl og poll, vel niður fyrir brú á þjóðveginum og út að ós. Veiðifélagi minn setti í einn titt á breiðunni ofan við brú, en síðan ekki söguna meir.

Tittur úr Búlandsá

Það er greinilega af sem áður var með á þessa og hver sem orsök þess er, þá er það miður. Áin er falleg og þótt hún sé ekki með vatnsmestu fljótum landsins, þá getur hún örugglega fóstrað nokkrar sjóbleikjur ef þær væru til staðar á annað borð.

Veiðileyfi í þessa krúttlegu á má nálgast hjá landverði að Teigarhorni, veiðistaðakort á vef Teigarhorns og þá ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir tvo veiðimenn að sitja fyrir sjóbleikjunni ef hún lætur sjá sig. Að því gefnu að eitthvað sé eftir að lifandi bleikju í Berufirði þá gæti það gerst á næstu vikum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 64 / 0 15 / 20 / 12

Veiðivötn 1. – 5. júlí

Þrátt fyrir misjafnar fréttir veiðimanna ofan úr Veiðivötnum, þá er alltaf jafn mikil spenna í loftinu þegar árleg Veiðivatnaferð okkar brestur á. Veðurspá, misjafnar aflatölur og almennur barlómur hefur engin áhrif á mann þegar malbikinu hefur sleppt og nýlendan við Tjaldavatn blasir við manni, maður er eiginlega kominn heim. Hitastig og tíðarfar uppi á hálendi hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir það sem af er sumri en um leið og það hlýnar örlítið, þá fara ævintýrin að gerast.

Skálavatn, Langavatn og Tjaldavatn 2018

Fyrsti dagurinn okkar í Veiðivötnum, sunnudagurinn 1. júlí var víst óvenju góður hvað hitastig varðar og við veiðifélagarnir ákváðum að kanna syðri vötnin til að byrja með og þá helst einhver þeirra smærri. Arnarpollur varð fyrir valinu enda hefur sá pollur alltaf togað í mig frá því ég fékk minn fyrsta fisk þar, stór og vænn drjóli sem kúrði sig á næstum 13 metra dýpi í gígnum. Að vísu hljóp enginn slíkur á mína flugu í þetta skiptið, en veiðifélagi minn tók einn vænan urriða eftir skamma stund við vatnið. Þess má geta að síðar í ferðinni fóru tveir félagar okkar í Arnarpoll og krydduð sagan segir að einn rosalegur drjóli í vatninu sé að safna skrautlegum tannfyllingum. Í þessari ferð hópsins safnaði hann koparlituðum Nobbler með taum og alles og til viðbótar hirti hann glitrandi spún af öðrum veiðimanni sem hann er nú með í hinu munnvikinu. Ef einhverjir hafa hug á að næla í þennan fisk eru þeir hvattir til að tryggja alla hnúta vel og vandlega áður en haldið er til veiða.

Ekki stöldruðum við lengi við í Arnarpolli því fljótlega bárust fréttir frá félögum okkar af góðri veiði í Fyrstuvík við Litlasjó. Það var eins og við manninn mælt að hækkað hitastig hafði hvetjandi áhrif á fiskinn til að sýna sig og þegar ætið fór að rótast upp við bakkann fór urriðinn hamförum. Því miður tók vind að hvessa svo hressilega eftir að við komum í Fyrstuvík að við, vegna þess að flugurnar okkar náðu ekki eins langt út og spúnar og beitur, urðum svolítið af öllu fjörinu. Mér tókst þó að særa einn fisk upp með Orange Nobbler eftir töluverðan barning við Kára karlinn.

Orange Nobbler með UV ívafi

Ekki var nú alveg sama hitastigið á mánudagsmorgun og daginn áður, en við kíktum aðeins á Stóra Hraunvatn og Hellavatn þar sem töluvert líf var með fiski sem óð þar í klakflugu. Veiðifélagi minn gerði ítrekaðar tilraunir til að keppa við náttúrulegu fæðuna en án árangurs þannig að við stoppuðum ekki lengi.

Eftir smá viðkomu í Ónefndavatni þar sem stórir fiskar ku leynast, fórum við aftur í Arnapollinn og þá helst með það fyrir augum að hvíla kastvöðvana og komast í örlítið stilltara veður því vind hafði tekið að sperra. Þar fækkuðum við urriðum vatnsins um þrjá, engir risar en ágætur fiskur sem lét glepjast af nokkuð klassískum útfærslum Veiðivatnaflugna, s.s. gyltum og brúnum Damsel afbrigðum.

Brúnn og gylltur Damsel

Blíða þriðjudagsmorguns var slík að við gátum ekki annað en stoppað í Fyrstuvík við Litlasjó og spreytt okkur með þurrflugur og ýmsar aðrar þar sem urriðinn vakti og velti sér í flugunni. Þar sem okkar flugur vöktu ekki neina sérstaka lukku, tókum við stefnuna að Hraunvötnunum, stöldruðum við á bökkum Nýrans og fengum okkur bita í blíðunni. Það hljóta að teljast forréttindi að geta snætt árdegisverð með útsýni sem þetta fyrir augunum, stund sem ekki gleymist.

Nýrað og Rauðigígur

Leynt og ljóst ætluðum við reyndar í Hellavatnið, en þegar þangað var komið reyndist margmenni þar nokkuð og því snérum við undan og leituðum til suðurs á ný.

Eskivatn er eitt þeirra vatna sem geyma urmul af bleikju sem við höfðum aldrei spreytt okkur á. Þegar við keyrðum framhjá Eskivatnskjafti var svo mikið líf þar að við gátum ekki setið á okkur og smelltum í nálega tug bleikja á mjög stuttum tíma. Eins og kunnugir vita, þá er nokkur stærðarmunur á bleikjunni í Eskivatni og þeirri sem hefur komið sér fyrir í Langavatni þar austanvið og það sannaðist heldur betur á þessum fiski sem við tókum. Heldur var hann smár og er greinilega liðmargur í Eskivatni.

Á vatnahringi okkar þennan dag reyndum við fyrir okkur á nokkrum stöðum, en heldur var fátt um fína drætti þannig að þegar vindur tók sig upp síðdegis og okkur taldist til að hann stæði næstum beint á Litlutá við Litlasjó, tókum við stefnuna þangað. Þar enduðum við daginn með því að taka sjö væna urriða á land á klassískar Veiðivatnaflugur. Litlatá hefur alltaf reynst okkur vel og það brást ekki frekar í þetta skiptið.

Svartur og gylltur Damsel

Síðasta daginn okkar í Veiðivötnum höfðum við ákveðið að byrja á bíltúr inn að Skyggnisvatni minnug þeirra ágætu fiska sem við tókum þar í fyrra. Eins og ég lét út úr mér, það gekk á með blíðu við vatnið og dulúð umhverfisins fékk heldur betur að njóta sín.

Útfall Skyggnisvatns
Sama sjónarhorn 15 mín. síðar

50 Shades of Grey hafði konan mín orði á þegar við ókum í dumbungi niður að vatninu. Hvergi aðra liti að sjá og kyrrðin algjör þegar þokuslæðingurinn lagðist yfir. Ég er ekki viss um að lesendur geti gert sér í hugarlund þvílík þögn getur orðið í veðri sem þessu. Það heyrist ekki einu sinni í línunni renna í lykkjum, flugan fellur hljóðlaust á vatnið, fuglar halda niðri í sér andanum og smágerð gáran fellur hljóðlaust að landi. Inni á milli braust sólin fram og baðaði Skyggni geislum sínum og bleikjan fór hamförum í uppitökum.

Rétt fyrir seinna kaffi fórum við niður í Norsaravík og tókum sitthvorn urriðann, en þegar verulega hægðist þar um ætluðum við að færa okkur inn á Litlutá eða þar í grennd. Reyndar fór það nú svo að við fórum aldrei lengra en inn í Fyrstuvík og eyddum kvöldinu þar í ævintýri eins og þau gerast skemmtilegust við Litlasjó. Létt gola stóð á ská upp á ströndina og fiskur óð þar um allar fjörur í æti þannig að við settum hefðbundnar Veiðivatnaflugur undir, þöndum köstin út að vöðunni og drógum hratt inn. Það má segja að fiskur hafi verið vaðandi alveg frá Hrauni og inn að miðri Fyrstuvík og þeir voru sérlega vænir. Veiðifélagi minn missti fjóra bolta sem höfðu betur í baráttunni, nýttu sér þreytta hnúta á taumaendum og flugum, sjálfur missti ég tvo, en þeir voru töluvert fleiri sem komu á land. Við urðum líka vitni að því þegar tröll eitt mikið tók alla línuna + undirlínu út hjá félaga okkar. Krafturinn í þeim fiski var slíkur að ekkert varð við ráðið og fór svo að hann losaði sig af og kvaddi með miklu skvampi.

Á ákveðnum tímapunkti var eins og brúnu- svörtu og orange flugurnar hættu að vera spennandi og það var ekki fyrr en félagi okkar datt niður á olive Nobbler að fjörið upphófst að nýju. Hvort það var birtustig eða fæðuframboð sem breyttist, þá sannaði þessi fluga sig heldur betur þetta kvöld.

Olive Nobbler

Í svona ævintýri hverfur allt tímaskyn, fjöldi kasta verða óteljandi og fingur sem halda við línu fara fljótlega að láta á sjá. Lærdómum kvöldsins varð helstur; tryggja hnúta, nota sterkara taumaefni og nota stripp-smokk áður en fer að blæða úr fingrum. Til marks um tökugleði urriðans þetta kvöld má nefna að á hálftímanum frá 22:30 – 23:00 tók félagi minn þrjá væna fiska og ég fimm, alla á sama staðnum og á sömu fluguna.

Heilt yfir þá var þessi Veiðivatnaferð hópsins mjög góð, átta veiðimenn veiddu nánast 300 fiska þessa daga, misjafnlega mikið hvern dag en alltaf einhver með flotta veiði. Sumir fóru sérstaklega rólega af stað (eins og ég og veiðifélagi minn) á meðan aðrir tóku fyrsta daginn með trompi og héldu góðum dampi alla dagana. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég horfði á aflatölur eftir fyrstu dagana, þá var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér, en síðan fór heldur betur að réttast úr þessu og eins og svo oft áður var síðasta kvöldið það besta. Ég og veiðifélagi minn enduðum ferðina í samtals 76 fiskum á land og ótöldum fiskum sem var sleppt. Það verður ánægjulegt að rifja upp stemminguna úr þessari veiðiferð þar til á næsta ári þegar við mætum aftur, full tilhlökkunar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
18 / 24 36 / 63 15 / 19 15 / 20 / 11