Fullsæll, Brúará, Þingvallavatn 22. júní

Það er alltaf gaman að skipuleggja veiðiferðir með töluverðum fyrirvara, bíða eftir stóra deginum, hlakka til í það sem virðist vera óendanlegan tíma þar til loks kemur að ferðinni. En það er líka skemmtilegt að láta sleggju ráða kasti, pakka veiðigræjunum í bílinn og bruna bara eitthvað út í buskann. Við veiðifélagarnir áttum erindi austur að Laugarvatni í gær, þannig að það lá beinast við að keyra í gegnum Þjóðgarðinn á Þingvöllum og yfir Lyngdalsheiðina og athuga með veiðimöguleika í Tungunum.

Eftir erindi okkar á Laugarvatni datt okkur í hug að renna niður að Syðri Reykjum og spyrjast fyrir um veiði í Fullsæl. Einhver hafði sagt mér að þetta væri lítill og nettur lækur sem rynni í Brúará milli Efri- og Syðri Reykja. Smá misskilningur eða misminni hjá mér; Fullsæll er ekkert lítill lækur, í það minnsta fyrir óvanan straumveiðimann eins og mig. Kannski hafa rigningar síðustu daga eitthvað með það að gera, en mér fannst yfirdrifið vatn í þessari nettu á.

Fullsæll

Við hófum leika neðan brúar og fikruðum okkur niður með ánni. Ég eyddi töluverðum tíma í að losa fluguna mína úr nálægum birkihríslum á meðan veiðifélagi minn setti í væna bleikju á þurrflugu rétt ofan við Byrgishyl. Því neðar sem kemur í ánni, fellur hún hraðar og ég átti fullt í fangi með að strippa fluguna mína á milli þess sem ég losaði hana úr nálægum gróðri fyrir aftan mig og bægði mýflugum frá andlitinu á mér.

Flúðir í Fullsæl

Það verður ekki af umhverfi Fullsæls skafið að það er fallegt og ekki síðra þar sem árin rennur í Brúará. Það var einmitt við ármótin sem veiðifélagi minn tók þokkalegan urriða á Dentist og ég hélt áfram að losa fluguna mína úr nálægum gróðri. Áfram héldum við niður eftir Brúará með viðkomu á þeim stöðum sem við héldum að gætu gefið okkur fisk. Það stóðst auðvitað hjá veiðifélaga mínum sem veifaði skyndilega öllum öngum og bað um aðstoð við að landa enn einum fiskinum sem sótti stíft í að renna sér undir bakka Brúarár og vildi hreint ekki í háfinn. Auðvitað varð ég við þessari beiðni, um leið og ég hafði losað fluguna mína úr nálægum trjágróðri og aðstoðaði við að landa glæsilegum, rúmlega tveggja punda urriða sem kom á Prince #12.

Ármót Brúaráar og Fullsæls

Þegar hér var komið sögu var kast og stripp þreyta farin að segja eitthvað til sín og við röltum aftur upp með Brúará og Fullsæl þar til við vorum komin aftur í beygjuna neðan brúar. Það þarf töluverða jákvæðni til að segja að urriðinn sem ég fékk þarna á breiðunni hafi verið tittur, en hann var það mikill kjáni að eltast þrisvar við þurrfluguna mína þar til hann náði loksins að opna munninn það mikið að hann náði að bíta í krók #16. Auðvitað fékk stýrið líf og vonandi nær hann að éta eitthvað af þessum mýflugum við Fullsæl sem annars munu herja á andlitið á mér í næstu veiðiferð, því það er næsta víst að við eigum eftir að leggja leið okkar að Fullsæl aftur. Skemmtileg veiði í fallegu umhverfi fyrir lítinn pening; hálfur dagur á 1.500,- kr.

Á heimleiðinni stoppuðum við í blíðunni á Nautatanga við Þingvallavatn þar sem ég náði að klóra örlítið í aflatölur veiðifélaga míns með því að taka eina fallega bleikju. Ég naut aðstoðar innfædds íbúa Þjóðgarðsins við veiðarnar því lítil hagamús trítlaði þarna rétt við fætur mér á tanganum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af lífi í vatninu er það að segja að það var merkilega lítið þrátt fyrir stillu kvöldsins og þegar fór að halla í miðnættið létum við gott heita og héldum heim á leið eftir skemmtilega óvissuferð, eitthvað út og suður.

Annar af veiðifélögum mínum við Þingvallavatn
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 14 / 12 / 0 10 / 2 6

Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. – 18. júní

Stundum smellur maður einfaldlega ekki í gírinn. Því var næstum því þannig farið með mig um helgina þegar við veiðifélagarnir fórum í Hlíðarvatn í Hnappadal. Þegar við mættum á staðinn á föstudagskvöldið varð manni eiginlega ekki til setunnar boðið, vatnið skartaði sínu fegursta í kvöldkyrrðinni og við gátum ekki annað en smellt í okkur smá bita og fórum út í vatn. Ekki skemmdi það fyrir eða dró úr eftirvæntingu okkar að húrrahróp og glaðhlakkalegur hlátur nokkurra yngir veiðimanna ómaði úr víkinni við Jónsbúð, veiðihúsi Borgnesinga. Það var greinilega fiskur í tökustuði á ferðinni.

Hlíðarvatn í Hnappadal á 17. júní

En, það var ekki mikið tökustuð á þeim fiskum sem ég engdi fyrir þannig að aðeins ein bleikja lá í mínu neti eftir kvöldið. Veiðifélagi minn small aftur á móti alveg í gírinn og setti í fjóra væna fiska þetta kvöld.

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með allt öðru veðri heldur en spáð var og við héldum okkur á svipuðum slóðum, þ.e. i grennd við Rifið sem vel að merkja stendur orðið allt upp úr vatninu. Síðast þegar við kíktum við í Hnappadalnum vatnaði nefnilega á milli lands og Rifs, það stóð sem sagt mjög hátt í vatninu í lok maí en það hefur heldur sjatnað í því. Ég vil reyndar meina að það lækki hratt í vatninu, á þessum rúmlega tveimur dögum sem við stoppuðum þar um helgina mátti merkja mun á flæðarmálinu við Rifið.

Heilt yfir vorum við frekar slök við veiðarnar, byrjuðum seint og hættum snemma á laugardag og sunnudag en náðum engu að síður 19 fiskum samanlagt. Það gefur alltaf Hlíðarvatnið, meira að segja þegar maður er hreint ekki í stuði. Þeir fiskar sem við tókum voru almennt vel haldnir og í góðu standi, þannig að það er eins víst að gott sumar er í vændum í vatninu. Eitt langar mig þó að nefna að lokum; skráning í veiðibókina við Jónsbúð mætti vera betri. Þessa daga sem við vorum að veiða var alltaf einhver slæðingur af veiðimönnum við vatnið sem tóku fisk, en aðeins við og einn annar kvittuðu afla í bókina.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 13 / 11 / 1 / 2 5

Hlíðarvatn í Selvogi, 11. júní

Ég og veiðifélagi minn vorum náttúrulega við Hlíðarvatn í Selvogi í gær, sunnudag. Að vísu fór mestur okkar tími í önnur verk heldur en að veiða, en þegar um hægðist í gestamóttöku í Hlíðarseli Ármanna, skrapp veiðifélagi minn með góðum kunningjum okkar suður að Mið-Nefi og gerði þar gott mót á þeim stutta tíma sem hún staldraði við. Fórnarlambið var auðvitað bleikja, rétt um 30 sm. sem féll alveg í stafi fyrir Peacock með orange skotti.

Annars var fjölmennt við vatnið í gær en bleikjan sýndi gamalkunna takta og sá við ansi mörgu agni veiðimanna sem reyndu allt hvað af tók frá um kl. 7:00 fram yfir kl. 17:00 að ná henni á sitt band.

Það skal tekið fram að kortið af vatninu sem er að finna hér á síðunni hefur verið uppfært lítillega þannig að vinsælir veiðistaðir við sunnanvert vatnið eru nú inni á kortinu, þ.á.m. vinsæll veiðistaður ofan flundrugildrunnar sem hefur tekið að festast í sessi sem Brúarbreiða. Kortið er að finna í umfjöllun um vatnið hérna.

Veðursældin við Hlíðarvatn í gær
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 6 / 0 / 1 4

Hlíðarvatn í Selvogi, 3. og 4. júní

Ég lét þau ummæli falla um daginn að veður væri hugarástand. Ef svo væri, þá voru skapsveiflurnar töluverðar í Selvoginum síðustu tvo daga. Einstaka sólarglæta, norð-austan strekkingur, austar gola, logn, sunnan andvari, skýjað, ekki eins skýjað og svo ausandi rigning. Ekkert af þessu fær því breytt að veiðiferð í Hlíðarvatn er nærandi, bæði fyrir sál og líkama.

Skömmu eftir komuna í Hlíðarvatn á laugardaginn fékk ég þær fréttir að heldur hefði nú verið fátt um fisk úr vatninu þann daginn og það var látið fylgja að ekki hefði byrjað að rigna fyrr en við mættum á staðinn. En, við tókum okkur til og ákváðum að kíkja inn í Stakkavík í austanáttinni. Eftir lítil viðbrögð færðum við okkur á Mölina því það hafði sagt mér maður að þar væri von á fiski þegar hann hallaði sér í norð-austanátt sem reyndist rétt því þar tókst okkur að særa upp þrjár þokkalegar bleikjur. Flugurnar sem hjálpuðu til við þetta voru Peacock með orange skotti og Watson‘s Fancy púpa. Undir hættumál ákváðum við að fara heldur lengri leið að Hlíðarseli og renndum niður að brú þar sem ég setti í mína stærstu bleikju úr Hlíðarvatni til þessa, 46 sm ljóngrimma og stútfulla af mýlirfu.

Þokkalega sátt við kvöldið fórum við síðan í bólið með þá von í brjósti að veðrið léki kannski örlítið meira við okkur á sunnudeginum.

Jú, veðrið lék sér, en kannski ekki neitt sérstaklega við okkur. Hann rofaði til, hann dró fyrir, hann lygndi og hann hvessti og svo endaði hann eiginlega á því að hella úr sér yfir okkur. Við reyndum fyrir okkur á Mosatanga þar sem ein væn kom á land á Peacock með orange skotti og þaðan héldum við yfir á Réttarnesið þar sem einn stubbur slæddist á Prince Nymph.

Stilla í Botnavík

Eftir síðdegishressingu lægði skyndilega og við ákváðum að rölta niður í Botnavík í stillunni. Það er ekki alltaf sem maður getur skimað botninn í allri víkinni, en slík var stillan á köflum að ævafornar tunnur og annað skran varð sérstaklega vel sýnilegt, því miður. En Adam var ekki lengi í paradís, því skyndilega dró ský fyrir önnur ský og úr þeim gusaðist þvílík rigning að Nóa hefði þótt nóg um. Það merkilega við þetta var nú samt, að klak flugunnar tók kipp og inn á milli dropa mátti sjá bleikjur gæða sér á flugu. Að vísu voru flestar vökurnar vel utan kastfæris en samt sem áður tókst veiðifélaga mínum að særa upp væna bleikju í úrhellinu á; já einmitt Peacock með orange skotti.

Rigning í Botnavík

Á heimleiðinni könnuðum við nýjar slóðir við sunnanvert vatnið. Við lögðum við nýlegt bílastæði gengt Gunnutanga og röltum með vatninu að Austasta Nefi. Á leiðinni setti félagi minn í tvær bleikjur, önnur fór í netið en hinni var sleppt og því sannað að það er fiskur út um allt vatn í Selvoginum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 6 / 1 / 1 4

Hraunsfjörður, 25. og 26. maí

Það var löngu komin tími á að fara í alvöru veiðiferð. Veðurspá helgarinnar var svona og svona, helst hinsegin en samt eiginlega engin. Einn daginn var spáð stilltu veðri, skýjuðu en þurru. Hinn daginn var kominn væta í kortin, meira að segja einhvern vindur, jafnvel úr ýmsum áttum.

Eins gott að við tókum ekki mark að neinum spám, létum slag standa og tókum stefnuna vestur á Snæfellsnes á miðvikudagskvöldið og lentum í Berserkjahrauni laust upp úr kl.22.  Þar sem við komum seint og frá ýmsu að ganga í okkar færanlega veiðihúsi, ákváðum við að láta veiðigræjur alveg eiga sig og sjá til hvort þokusúldinni mundi ekki létta á fimmtudagsmorgun.

Jú, það má víst segja að þokusúldin léti undan síga með morgninum, fyrir rigningunni og goluskít sem var frekar nöpur. Við ákváðum að kíkja fyrst á Baulárvallarvatn en gerðum ekki langt stopp, hitastigið ekki upp á marga fiska og ekki veiðilegar aðstæður þannig að við renndum að Hraunsfirðinum þar sem gráðugar bleikjur veltu sér um í klaki flugunnar. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir undirritaðs kom ekki ein einasta bleikja á land en veiðifélagi minn setti auðvitað í eina við mikinn fögnuð.

Hraunsfjörður

Föstudagurinn rann upp, sínu ljósari yfirlitum en þar sem við sváfum af okkur árdegisflóðið ákváðum við að feta ótroðnar slóðir, þ.e. kanna nokkra staði í hrauninu að norðan sem við höfðum ekki prófað áður. Eftir nokkrar tilraunir við afskaplega litlar undirtektir Hraunsfjarðarfiska, ákváðum við að feta okkur aftur út á gamla þjóðveginn í stað þess að skakklappast í gegnum hraunið til baka. Rétt í þann mund sem við komum að bílnum hafði dregið svo fyrir sólu að heita mátti rökkur og þétt þokan skóflaðist inn úr austrinu. Eftir að hafa tekið smá krók inn með vatninu að vestan, ákváðum við að útbúa okkur veglegan síðdegisverð og taka á móti síðdegisflóðinu við Hraunsfjörð að vestan.

Ekki rofaði mikið til í lofti með kvöldinu, en vissulega mætti síðdegisflóðið á sínum tíma og reyndar af því umfangi sem ég hef aldrei áður séð í Hraunsfirðinum. Það flæddi mjög vel yfir alla stífluna undir brúnni og mikið hugsaði maður sér vel til glóðarinnar, allt þetta æti mundi örugglega draga með sér bleikjur í miklu mæli. Hvort þær komu ekki eða voru bara svona tregar til tökur veit ég ekki, en líf var ekki mikið að sjá í firðinum þótt háflóð væri. Ég held raunar að við höfum ekki séð eina einustu bleikju velta sér, en náðum þó sitt hvorri á land og …. tveimur sjóbirtingum sem voru vel troðnir af æti. Reyndar hafði annar þeirra greinilega lent í fuglsgoggi, för á báðum síðum og djúpt sár á kviðnum.

Aflinn

Þrátt fyrir heldur votviðrasama daga, var þessi fyrsta lengri ferð okkar þetta sumarið fyllilega þess virði að leggja í, Hraunsfjörðurinn er alltaf jafn fallegur, sama hvernig veðrið er.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 1 / 1 / 1 3

Þingvallavatn, 21. maí

Loksins, loksins, loksins. Nei, ekki fiskur en við veiðifélagarnir fórum sérstaka ferð í þeim eina tilgangi að veiða og njóta þess að vera úti við, án þess að þurfa að óttast frostbit eða kal á fingrum og tám. Þingvellir urðu fyrir valinu, smurt nesti og kaffi á brúsa og við mætt í Þjóðgarðinn rétt upp úr kl.9 í morgun.

Dásamlegt veður í Vatnskotinu og þó nokkri veiðimenn á stjái, en engar bleikjur. Þannig fór nú um sjóferð þá, en nokkurra vikna múr veiðileysis rofinn í það minnsta. Næsta veiði? Þegar færi gefst.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 2

Gíslholtsvatn, 1. apríl

Veðurguðirnir og sérlegir fulltrúar þeirra hér á landi, Veðurstofan, stóðu við allt sitt í dag. Það var kalt og dumbungur við Gíslholtsvatn fyrir hádegið í dag, en það rofaði heldur betur til upp úr því. Hæst náði hitinn í 8°C og sól skein í heiði allt þar til ég hélt heim á leið rétt fyrir kl.16

Vatnið er trúlega laust undan ís fyrir einhverju síðan, en hitastig þess náði 6°C í dag og skordýrin fara væntanlega á stjá hvað úr hverju og þá lifnar heldur yfir tilverunni. Ég var mátulega vongóður þegar ég rölti inn fyrir Svanhildartanga og prófaði á leiðinni allar mögulegar og ómögulegar flugur, hægan inndrátt, hraðan og með rykkjum eða bara hreint ekki neinn inndrátt.

Þannig að stutt saga verði ekki of löng, þá varð ég ekki var við fisk þá fimm klukkutíma sem ég var við vatnið. Reyndar fór drjúgur tími hjá mér í röltið inn með vatninu að norðan og annað eins í að sitja bara og njóta þess að vera loksins kominn aftur fram á vatnsbakkann, glápa út í loftið og njóta rjúkandi kaffibolla úti í guðsgrænni náttúrunni.

Þrátt fyrir fiskleysið, þá var þetta kærkominn dagur og langþráður eftir alla biðina í vetur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 1