Pheasant Tail

Frank Sawyer
Frank Sawyer

Með þessari grein lýkur í raun yfirferð minni yfir nokkrar af þeim flugum sem ég hnýtti í vetur. Það er ekki seinna vænna því ekki á morgun, heldur hinn, hefst tímabilið formlega og eflaust láta einhverjir sig hafa það, hvernig sem viðrar, að heimsækja einhver veiðistað og reyna fyrir sér í vorinu.

Síðasta flugan af bekknum er auðvitað Pheasant Tail. Höfundur flugunnar, Frank Sawyer lagði mikla vinnu í og prófaði sig lengi áfram með ýmsar útfærslur af henni áður en hann var sáttur. Gaumgæfilegar athuganir hans á lífríki árinnar Avon leiddu smátt og smátt af sér þessa ódauðlegu flugu sem vel flestir veiðimenn þekkja. Einfaldleika hennar verður best lýst með efnisvalinu; öngull, koparvír og fasanafjaðrir. Fæstir hnýta hana eins einfalda í dag og Sawyer gerði á sínum tíma. Flestir bæta í það minnsta hnýtingarþræðinum við, ef ekki, þá í það minnsta tonnataki til að tryggja hausinn.

Ég nota þráð og ég nota e.t.v. meiri og grófari koparvír heldur en mörgum þykir við hæfi. Í vængstæðið er ég líka óhræddur við að nota brúnleitt dub úr íslensku fjallalambi. Eflaust þykir einhverju svo mikið út frá upprunalegu uppskriftinni bera að nefna ætti kvikindið eitthvað annað en Pheasant Tail, en….. Nei, ég nefni hana Pheasant Tail, punktur og basta. Já, og stærðirnar mínar eru legglangur #12 og #14 og stuttur #12, #14 og #16.

Pheasant Tail
Pheasant Tail

En fyrir hreintrúarmenn, þá er hér smá klippa þar sem Oliver Edwards sýnir hvernig Frank hnýtti fluguna upprunalega.

Héraeyra

Héraeyrað hefur fylgt fluguveiðimönnum frá örófi alda liggur mér við að segja. Mér hefur flugan fylgt alveg frá því ég eignaðist fyrstu hnýtingargræjurnar. Fyrst var hún bústin, síðar enn bústnari en hin síðari ár hefur hún gengið í gegnum nokkuð alvarlegan niðurskurð og á sama tíma hef ég fært mig frá tinsel vöfum og flash-back útgáfum í mjóslegna flugu með nokkuð áberandi koparvír. Svo hef ég látið það eftir mér að framkvæma þau helgispjöll að nota hár úr íkorna í skottið á henni.

Fátt er vitað um höfund flugunnar, margir verið nefndir en fáir tilnefndir fyrir alvöru. Hvað um það, þessi fluga er önnur vinsælasta fluga silungsveiðimanna á heimsvísu, hvort sem hún er nú veidd ein og sé í löngum taumi eða í félagi við aðrar sem afleggjari (dropper). Í mínu boxi er hún í stærðum #12, #14 og #16 með haus úr Rusty Brown hnýtingarþræði, sem eru náttúrulega bara tiktúrur í mér, ekki of brúnt og ekki of rautt. Uppskrift og alveg stórfína klippu má finna hér.

Héraeyrað #12, #14 & #16
Héraeyrað #12, #14 & #16

Watson’s Fancy – púpur

Í gegnum tíðina hef ég alltaf átt Watson’s Fancy púpu með silfurvafi og silfurkúlu í boxinu. Einstaka sinnum hefur síðan gyðla í stíl slæðst í boxið og svo berrassaður grubber sem hefur fengið að halda viðurnefninu Watson’s þó hann ætti e.t.v. frekar að vera kenndur við orm, blóðorm. Hvað um það, í minningunni er Watson’s Fancy púpan eina flugan með silfruðum kúluhaus sem hefur krækt í bleikju fyrir mig. Trúlega er þetta bara eitthvert bull í mér, en ég verð eiginlega að eiga nokkur svona kvikindi, annars finnst mér eitthvað vanta í boxið. Kannski er það vegna þess að ég hef ekki alveg fundið mig með Killer, frekar veðjað á þessa klassísku rauðu og svörtu púpu sem flestir silungsveiðimenn kannast við. Stærðirnar; smærri frekar en stærri, #12, #14 og #16.

Watson's afbrigði
Watson’s afbrigði

Hérinn

Þær þurfa ekki allar að vera flóknar eða fancy til að ganga í augun á silunginum og hér er ein sönnun þess. Afskaplega einföld fluga; krókur, kúla, tan þráður, koparvír og héradub. Ef fyrsta fluga byrjenda í fluguhnýtingum er t.d. Peacock, þá gæti þessi verið ágæt #2 ef menn vilja æfa sig í meðferð dub’s, mistök skipta engu máli, það má alltaf bæta við og mér hefur fundist hún nánast aldrei geta orðið of bústinn.

Hérinn er auðvitað bara einfölduð útgáfa að Héraeyranu heimsfræga og hefur fyrir löngu tekið frá fast sæti í boxinu mínu. Auðvitað verður hann með í för næsta sumar, bæði beinn og boginn (grubber) í stærðum #10, #12 og #14.

Hérar, bognir og beinir
Hérar, bognir og beinir

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiÉg er pínu forvitinn um ykkur sem eruð álíka afkastamiklir í hnýtingum og meðalstór verksmiðja… þurfið þið allar þessar flugur? Ég er að missa svona 5-10 flugur á sumri, ef ég hnýtti svona mikið fyrir hvert sumar þá yrði ég að kaupa mér fleiri tugi veiðiboxa. Ætli ég hafi ekki hnýtt innan við 10 nýjar flugur fyrir þetta sumar og gert við svona 10 gamlar sem voru farnar að tætast.
Skil reyndar að það sé gaman að hnýta, sérstaklega í góðra vina hópi :)

Svar: Sko, ég er náttúrulega svo heppinn að vera að hnýta fyrir okkur bæði, hjónin. Annars er svarið auðvitað nei, ég hef örugglega ekkert að gera við allar þessar flugur en mér finnst kvöldunum ekkert síður varið í hnýtingar heldur en sjónvarpsgláp. Því miður hefur mér ekki tekist að ná saman ‘góðra vina hóp’ í hnýtingar t.d. á mínum vinnustað og svo er ég náttúrulega svolítið sér á parti, vinn mér inn efni og flugur langt fram í tímann fyrir þessa síðu. Er t.d. kominn með efni og búinn að setja á schedule greinar fram til loka júní.

16.03.2013 – Eiður KristjánssonÉg hnýti oftast 5 stykki í tveimur stærðum af hverri flugu fyrir sig. Er svo með 4-5 box með mér í bakpoka þegar ég fer að veiða en eitt í vöðlujakkanum/vestinu sem ég vel í.

Ég hnýti líka oftast aðeins extra þar sem mér finnst afar ánægjulegt að hafa flugur aukalega til að gefa ef ég lendi á spjalli við einhvern veiðimann á bakkanum.

Vorflugupúpur

Á meðan ég var að hnýta Peacock í gríð og erg reikaði hugurinn út og suður og upp í kollinn á mér kom þessu spurning; Er líf eftir Peacock? Já, auðvitað. Þegar vorflugupúpan skríður loks út úr húsinu sínu, svamlar hún um í nokkrun tíma þar til hún rís upp að yfirborðinu og verður að fullvaxta flugu. Á þessum tíma kemur eiginlegur litur púpunnar í ljós og oftar en ekki er hún ljósleit og nokkuð áberandi í vatninu. En, vitaskuld er hún til í ýmsum litum sem mér skilst að ráðist mest af þeirri fæðu sem hún leggur sér til munns á meðan hún lifir í hylkinu.

Þegar svo ber undir að maður verður var við einhvern fjölda á þessu stigi í vötnunum, er ekki óalgengt að maður grípi til Héraeyrans eða Héranns, en svo má líka vera með eitthvað þessu líkt í boxinu. Þannig verðu það í það minnsta í sumar hjá mér. Hnýtt á grubber #10, feit og pattaraleg.

Húsnæðislausar vorflugupúpur
Húsnæðislausar vorflugupúpur

Ummæli

06.03.2013 – HilmarÞetta er nú besta nafngift sem ég hef séð lengi á púpum, þú átt eftir að moka inn á þessa í sumar.

mbk, Hilmar

08.03.2013 – Kristinn / veida.isÞessi er flott, veiðileg – hún yrði líklega framarlega í röðinni hjá (mér) að fara undir.

15.03.2013 – UrriðiÉg án djóks hnýtti nákvæmlega eins flugur fyrir nokkrum árum. Hef samt af einhverjum ástæðum aldrei notað þær. Hef reyndar notað aðra útgáfu af heimilislausri vorflugupúpu með góðum árangri :)

Svar: Já, nú held ég bara áfram að ergja þig, Urriði. Hvernig væri nú að þú kæmir þér upp bloggi og settir eitthvað af þínum verkum á framfæri. Þú hefur sýnt það svo um munar að þú lumar á ýmsu skemmtilegu sem við hinir veiðinördarnir súpum hveljur yfir.

16.03.2013 – UrriðiÞetta kemur allt á netið á einn eða annan hátt, hvort sem það er á veidi.is eða veiðidelluhópnum :) Ég nenni ekki að sjá um það sjálfur að halda úti vefsíðu, plús efnið yrði 99% eintómar montsögur frá leynistöðum sem yrði fljótt þreytt.

Peacock

Jú, auðvitað er Peacock í boxinu og ekki bara hefðbundinn. Svona í fljótu bragði dettur mér engin önnur ‘Íslensk’ fluga í hug sem hefur komið fram í eins mörgum og mismunandi útgáfum eins og Peacock. Að sama skapi held ég að fáar flugur hafi fengið eins mikla umfjöllun í gegnum tíðina. Í einfaldleika sínum hefur hún virkað prýðilega vel alveg frá því Kolbeinn Grímsson sauð hana saman á bökkum Hlíðarvatns í Selvogi. Síðar hafa svo veiðimenn flækt málið, leyft flugunni að nálgast frænkur sínar erlendis og eflaust þykir einhverjum sem hér sé ekki lengur um sömu fluguna að ræða.

En, hvað um það. Stuttur, langur og svo bústinn með brúnum haus og urriðabaninn með rauðum haus, þetta eru helstu afbrigðin sem ég hef í boxinu mínu. Svo slæðast auðvitað nokkur önnur afbrigði með, svona allt eftir því hvað manni dettur í hug við hnýtingarnar. Stærstur finnst hann #8 hjá mér með ríkulegu undirvafi til að gera hann bústnari. Uppskrift hér og ýmislegt annað hér, hér og hér.

Stuttur, Langur, Feitur og Rauðhaus
Stuttur, Langur, Feitur og Rauðhaus

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiDjöfull eru þessar flottar!

Svar: Já, sá gamli (Peacock) stendur alltaf fyrir sínu.

Blóðormur

Nú í vetur las ég nokkuð skemmtilega grein eftir Simon Gawesworth um Buzzer og það sem aðskilur hann frá Blóðormi. Í stuttu máli; Buzzer er bara samheiti veiðimanna yfir lirfur rykmýs, ekki bitmýsins, sem finnast á stjái í vötnum norðanverðrar Evrópu þegar kemur að því að flugan klekst út. Simon er afar stífur á því að Buzzer getur aldrei verið rauður, þá heitir hann Blóðormur (Bloodworm) og er fastur við botninn. O, jæja, hugsaði ég með mér, hverju skiptir hvað við köllum kvikindið, svo lengi sem það gefur fisk. Síðan settist ég niður og hnýtti nokkrar útgáfur af Blóðormi (þessum rauða) til að hafa í boxinu í vor, já og raunar langt fram á sumarið.

Ég get svo sem verið sammála Simon að Buzzer og Blóðormur séu bara samheiti flugna og því eru Blóðormarnir mínir afskaplega mismunandi í útliti og lögun. Þegar svo kemur að því að velja Blóðorm fyrir fisk ræður skap mitt í það og það skiptið væntanlega meiru um valið heldur en gaumgæfileg skoðun á útliti þeirra í vatninu. Það er nefnilega alls ekki svo einfalt að greina útlit þeirra í vatninu, maður velur bara einn og skiptir um þangað til hann bítur á.

Nokkrir af blóðormunum mínum
Nokkrir af blóðormunum mínum

WD-40

Þegar þessi verður til í skotinu mínu og fyrir valinu verður grubber öngull þá heitir hún WD-40. En þegar beinn öngull verður fyrir valinu, þá fær hún í mínum huga heitið Tailor. Auðvitað eru þær ekki eins, meira að segja töluverður munur á þeim m.v. uppskriftirnar en þegar upp er staðið og þær komnar í vatnið er lítill munur á þeim, í það minnsta eins og ég hnýti þær. Ég hnýti þessa flugu (WD-40) með Ultra Dark Brown 70 þræði til að ná fram áberandi skilum í búk flugunnar þegar hún er komin í vatnið, það myndast skemmtilegur contrast á milli ullar og þráðar sem silungurinn virðist alveg gleypa við.

Þessar flugur eru hluti ættartrés Pheasant Tail þótt hráefnið sé allt annað. Allar þrjár eru ómissandi í boxinu þegar gráðugur silungurinn er annars vegar.

WD40 - #10 & #14
WD40 – #10 & #14

Higa’s SOS

Sú fluga sem kom mér mest á óvart árið 2012, Higa’s SOS. Það var í lok árs 2011 að ég rakst á skemmtilega grein um þessa sára einföldu flugu sem gert hafði góða hluti vestan hafs þá um árið. Eftir að hafa prófað að hnýta kvikindið setti ég uppskriftina að henni hingað á síðuna og reyndi hana svo fyrir alvöru s.l. sumar. Í sem fæstum orðum; stórkostleg fluga sem ég veit að fleiri hafa prófað með mjög góðum árangri.

Þó upprunalega uppskriftin nefni silfurkúlu, þá hef ég látið það eftir veiðifélaga mínum að setja á hana svarta kúlu fyrir næsta sumar. Það kemur síðan í ljós hvor virkar betur, silfur eða svört. Ég fer ekki í veiði án þessarar flugu í stærðunum #10 – #16 og nú er búið að fylla á tvö box af þessu undrakvikindi.

Higa's SOS
Higa’s SOS

Ummæli

Ingó – 10.02.2013Ég hnýtti haug af þessari síðasta vetur og hún gaf ótrúlega vel í Þingvallavatni eftir miðjan júní. Þá virtist engu máli skipta hvort hún var hnýtt með vængstubb úr glitþræði eða ekki. Spennandi að sjá hvort bleikjan tekur hana jafnt grimmt næsta sumar eða hvort hún verður komin úr tísku :) Ingó

Palli G. – 13.02.2013: Þessari verður klárlega bætt í rotation-ið.

Black Ghost

Bráðdrepandi fluga sem fyrir löngu er búin að sanna sig. Mér liggur við að segja að hún eigi það til að skipa einhvers konar heiðurssess hjá sumum veiðimönnum, hvort sem það er nú verðskuldað eða bara hefð. Ég þekki einn veiðimann sem fékk sinn fyrsta fisk á flugu, einmitt á Black Ghost og eftir það hefur nánast aldrei verið farið í veiði öðruvísi en hann fari undir í lengri eða skemmri tíma. Auðvitað hefur þessi fluga þá gefið viðkomandi veiðimanni marga fiska. Ég hnýti drauginn í stærðum 6 og niður í 12 fyrir þennan aðila, með og án orange ívafi í vængfjöður því stundum er hann spennandi þannig en stundum ekki.

Black Ghost - #6 - #8 - #10 - #12
Black Ghost – #6 – #8 – #10 – #12

Ummæli

03.02.2013 – ÞórunnUppáhalds :)

Pheasant

Náskyldur ættingi Pheasant Tail, Pheasant, er alltaf í boxum okkar hjóna. Til að byrja með var hann aðeins í mínu boxi, en fljótlega fluttu nokkrir þeirra sig um í set í box frúarinnar og hafa átt fasta búsetu þar síðan, nánast lögheimili. Afskaplega einfaldur í hnýtingu og líkt og náfrændi hans, Pheasant Tail dugir hann undir ýmsum kringumstæðum. Ég hnýti hann í stærðum; 8, 10, 12, 14 og 16, bæði á beina króka og grubber. Það eru einhverjar tiktúrur í mér að hnýta hann aðeins með koparkúlu og byggja örlítið undir fjaðrirnar næst hausnum með brúnu ullargarni. Það hefur kannski ekkert að segja, en þannig líður mér betur með hann.

fos_pheasant8-10-12-14-16
Pheasant #10, #12, #14 & #16

Pólskur Pheasant Tail

Mér er það stórlega til efs að nokkur silungsveiðimaður fari til veiða án þess að vera með eitthvert eitt eða fleiri afbrigði af Pheasant Tail í farteskinu. Ég er yfirleitt með nokkur afbrigði í boxinu og helst fer ég aldrei af stað án þess að vera með uppáhaldið mitt með; Pheasant Tail með kúluhaus, hringvöfðu skeggi og rauðum kraga. Klassískur er hann líka með og svo Pólskur þar sem rauðum broddi er bætt við. Fyrir konuna hef ég svo bætt örfáum rauðum fjöðrum í skottið, þannig vill hún hafa hann. Svona er nú smekkur manna misjafn og eitt er víst, þessi fluga væri aldrei til í öllum þessum afbrigðum ef smekkur fiskanna væri ekki álíka misjafn. Uppskriftirnar; Pólskur og original og svo er bara um að gera að bregða út af og prófa eitthvað nýtt.

Pheasant Tail - Kúluhausar
Pheasant Tail – Kúluhausar

Ummæli

Urriði – 26.01.2013Bara svo þú vitir það þá veiðist ekkert á PT með svona hringvöfðu skeggi! Það er bara svoleiðis! En svona í alvöru þá eru þettar flottar flugur hjá þér og örugglega ein best uppfærða veiðisíðan svona yfir háveturinn!

Svar: Ljótt að heyra, Urriði. Þú verður að kenna urriðunum þínum, þarna fyrir austan betri siði. Frændur þeirra hérna fyrir sunnan eru alveg vitlausir í þessa 🙂

BAB – Kibbi

Annar af bekknum er sjálfur Kibbi (Ormurinn Kibbi). Þó ég hafi valið Kibba í boxið mitt, þá er hann ekkert endilega heilagur. Það eru nefnilega svo margar flugur sem svipar verulega til hans að oft verður það hálf vandræðalegt að nefna þær réttum nöfnum, þessar svörtu úr vínyl rib sem finnast í boxum nánast allra veiðimanna.

Þessar flugur hnýti ég jafnt á grubber og beina öngla. Ég kannast ekki við að þyngja þær neitt umfram kúluna, en hef heyrt að sumir leggi drjúgt undir vínylinn af blýi til að koma þeim örugglega niður í kalt Þingvallavatnið. Sjálfum finnst mér alltaf skemmtilegast að draga hann löturhægt inn, jafnvel láta hann liggja vel og lengi áður en ég hreyfi við honum. Uppskriftina má nálgast hér.

Kibbi – Stærðir 10,12,14

Ummæli

12.01.2013 – Stefán HjaltestedFyrir mér heitir þessi púpa ekkert annað en Mobuto með rauðum kraga.

Svar: Stórkostlegt að þú skuli nefna þetta. Þegar ég var rétt ný sýktur af veiðidellunni fór ég í veiðivöruverslun hér í bænum og bað um .. svona svartan Mobuto með kraga‘. Ef ég hef í einhvern tíma viljað sökkva niður um gólfið, þá var það þegar ég sá hneykslunina í svip afgreiðslumannsins þegar hann svaraði mér þurrlega ‘Mobuto er ekki með kraga’ og þar með var málið dautt af hans hálfu. Svona getum við greinilega alltaf nefnt sama hlutinn mörgum nöfnum. En fyrst Mobuto kom til umræðu, þá er uppskrift af honum hérna.

14.02.2013 – SkúliMóbútó. Mustad 3906B #10. svartur sterkur tvinni og reyklitað swannund.

Black Zulu

Núna er maður að hamast við að fylla á fluguboxin fyrir næsta sumar. Næstu vikurnar ætla ég að gefa lesendum smá innsýn í það sem ég er að hnýta hverju sinni með því að velja eina flugu á viku og fjalla smávegins um hana hérna á síðunni.

Fyrst af bekknum er Black Zulu. Klassísk silungafluga sem hefur fylgt okkur flugunördunum í fjölda ára, stendur alltaf fyrir sínu, líkist engu en samt öllu. Mér hefur hún gefið best í stærðum #10 og niður í #14. Ég veit um nokkra sem hnýta hana enn smærri og hef prófað hana þannig, en einhverra hluta vegna ekki tekist að festa hana þannig í fiski. Þegar sagt er að hún líkist engu en samt öllu, verður mér alltaf hugsað til Galdralapparinnar og systur hennar hér sunnan heiða, Þerrilöpp. Kannski er það bara áberandi rauða skottið sem kveikir þetta hjá mér. Hvað sem því líður verður Black Zulu í boxinu mínu í sumar. Uppskriftina má nálgast hér.

Black Zulu – Stærðir 10,12,14

Ummæli

03.01.2013 – Svarti ZuluKlárlega besta flugan :)

SvarJá, alveg átti ég nú von á að eitthvað komment kæmi frá þér, Svarti Zulu 🙂

06.01.2013 – Ragnar Hólm (flugur.is)Já, Zulu minnir einmitt á Galdralöppina! Mögnuð fluga/púpa.

Boxið mitt

Það eru þó nokkrir sem setja saman lista yfir ‘sínar’ flugur, þ.e. hvað leynist í boxinu. Sjálfur hef ég verið að fylgjast með nokkrum svona hlekkjum og þrælað mig í gegnum vinsælustu flugurnar hér og þar. Ef ég klára nú einhvern tíman að hnýta ‘mínar’ flugur þá gæti boxið mitt litið einhvern veginn svona út:

Black Ghost
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Straumfluga 8, 10 & 12
Sjóbirtingur: Straumfluga 6, 8 & 10
Blae and Black
Bleikja: Votfluga 10, 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Bleik og blá
Bleikja: Kúluhaus 8 & 10 / Púpa á grubber 10 & 12
Sjóbleikja: Straumfluga 6, 8 & 10
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Bloody Butcher
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: Votfluga 6, 8 & 10
Urriði: Votfluga 8,10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Blue Charm
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Straumfluga 8 & 10
Sjóbirtingur: Straumfluga 8 &10
Butcher
Bleikja: Votfluga 10, 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Connemara Black
Bleikja: Votfluga 8, 10 & 12
Sjóbleikja: N/A
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Copper John / Kopar moli / Rafm.flugan
Bleikja: 10, 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: 10, 12 & 14
Sjóbirtingur: N/A
Dentist
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: Straumfluga 6, 8 & 10
Urriði: Straumfluga 8, 10 & 12
Sjóbirtingur: Straumfluga 6, 8 & 10
Dýrbítur
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: Bleikur 6, 8 & 10
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: Svartur 6, 8 6 10
Flæðarmús
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Straumfluga 8 & 10
Sjóbirtingur: Straumfluga 6, 8 & 10
Heimasætan
Bleikja: Straumfluga 8 & 10 / Púpa á grubber 10 & 12
Sjóbleikja: Straumfluga 6, 8 & 10
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Héraeyra
Bleikja: 10 & 12
Sjóbleikja: N/A
Urriði: 10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Mickey Finn
Bleikja: Straumfluga 6, 8 & 10
Sjóbleikja: Straumfluga 6, 8 & 10
Urriði: Straumfluga 8 & 10
Sjóbirtingur: Straumfluga 6, 8 & 10
NobblerBleikja: Orange & bleikur 8, 10 & 12
Sjóbleikja: Orange, rauður & bleikur 8, 10 & 12
Urriði: Olive & svartur 8, 10 & 12
Sjóbirtingur: Orange 8, 10 & 12
Peacock
Bleikja: Gjarnan með kúluhaus 8, 10 & 12
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Með og án kúluhauss 8, 10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Peter Ross
Bleikja: Votfluga 10 & 12 / Púpa 12 & 14
Sjóbirtingur: Votfluga 10, 12 & 14
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Pheasant Tail
Bleikja: 10, 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: 10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Royal Coachman
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: Votfluga 10 & 12
Urriði: N/A
Sjóbirtingur: N/A
Teal and Black
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Votfluga 10, 12 & 14
Sjóbirtingur: N/A
Teal, Blue and Silver
Bleikja: Votfluga 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Votfluga 12 & 14
Sjóbirtingur: N/A
Vinstri græn
Bleikja: Púpa á grubber 10 & 12 / Straumfluga 10 & 12
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Straumfluga 8, 10 & 12 / Púpa á grubber 10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Watson’s Fancy
Bleikja: Kúluhaus 10, 12 & 14
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Votfluga 10 & 12
Sjóbirtingur: N/A
Þingeyingur
Bleikja: N/A
Sjóbleikja: N/A
Urriði: Straumfluga 6, 8 & 10
Sjóbirtingur: Straumfluga 6, 8 & 10

Eins og sjá má þá er þetta all þokkalegur listi og greinilega nóg að gera á næstunni að fylla á boxið. Fyrir þá sem áhuga hafa er hægt að nálgast þennan lista hér á PDF formi. Uppskriftir að þessum flugum má nálgast með því að smella á nafn flugunnar.