Veiðifélagi

Veiðifélagi
Veiðifélagi

Jafnvel þegar maður leggur einn í langferð til að veiða þá er alltaf von á veiðifélaga. Þessi smyrill veiddi töluvert betur og fallegar heldur en ég uppi við Langavatn í Borgarbyggð. Myndina varð ég að taka af töluverðu færi því honum var ekkert of vel við mig þarna á hans heimavelli.

Til að ná flottustu augnablikunum hefði ég væntanlega þurft að vera með einhverja ofurlinsu og margfallt dýrari búnað en ég á, en einföld myndin hér að ofan nægir mér til að kveikja á minningunni um þá loftfimleika sem hann sýndi á sínum veiðum þennan eftirmiðdag.

Feluleikur

Felumynd
Felumynd

Þegar fiskurinn er styggur þá er veiðimönnum ráðlagt að hreyfa sig hægt og láta lítið fyrir sér fara. Hvort þessi veiðimaður hefur tekið ábendingu aðeins of alvarlega, skal ósagt látið, en eitt er víst hann sést ekki mikið á þessari mynd.

Nú kann einhver að spyrja; Veiðimaður á þessari mynd? Jú, þarna er veiðimaður á ferð. Vísbending: leitaðu að stangartoppi. Annars minnir mig að veiðin hafi nú ekkert verið of mikil þetta kvöld á Skaga og líklegri skýring á síðbúnum veiðimanni í náttstað sé frekar sú að hann hafi viljað njóta kyrrðarinnar og fegurðarinnar eins lengi og unnt var.

Síðsumar

Síðsumar
Síðsumar

Það er með ólíkindum hve oft það geta verið stillur við Langavatn í Borgarbyggð. Eitt skipti náði ég mörgum góðum myndum við vestanvert vatnið þar sem umhverfið tvöfaldaðist í vatninu, sama hver litið var.

Einhverjar þessara mynda hafa ratað til vina og kunningja sem hafa fengið að nota þær í kynningarefni, m.a. sú sem er hér fyrir neðan.

Spegill, spegill, herm þú mér.....
Spegill, spegill, herm þú mér…..

Vindur

Vindur í lofti
Vindur í lofti

Og enn ein myndin þar sem tveir uppáhalds bláu litirnir mínir koma fyrir. Einhver spurði mig hvort ég hefði tekið þessa mynd á tíma, skýin væru eitthvað svo hreyfð. Það hefði mátt ætla að sá hin sami hefði aldrei litið til lofts á Íslandi, skýin eru oftar en ekki á hreyfingu hérna.

Myndin er tekin við Frostastaðavatn, töluverður vindur í lofti frá norðri en niðri við vatnið var hann úr vestri og til að kóróna andstæðurnar sem er að finna á hálendinu var lofthitin vel á annan tug gráða þótt vatnið virki svolítið kalt að sjá. Dásamlegur staður.

Himininn

Fossvatn á Skagaheiði
Fossvatn á Skagaheiði

Það er tvennt blátt sem ég heillast af; vatnið og himininn. Einhver ljósmyndari lét hafa eftir sér að þetta væri útslitnasta myndefni veiðimanna fyrir utan það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna. Mér gæti ekki staðið meira á sama um hvoru tveggja. Ég fæ aldrei nóg af því að festa bláma vatns og himins á mynd og ég er afskaplega lítið fyrir það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna til að lengja hann um nokkra sentimetra eða bæta á hann pundum, þá læt ég það frekar eiga sig að taka mynd af aflanum. Svona geta nú mennirnir verið misjafnir.

Nágrannar

Straumendur
Straumendur

Það er svo langt því frá að maður sé einn á veiðum. Maður eignast nágranna í hverju vatni, stundum himbrima sem vísar manni á fisk, stundum kríur sem vísa manni á síli og stundum straumendur sem vísa manni á ætið sem fiskurinn og sílið eltist við.

Að lesa náttúruna er leikur veiðimannsins sem vill setja sig inn í atferli fisksins. Myndina tók ég á stað við eitt af uppáhalds vötnunum mínum, Hlíðarvatn í Hnappadal , snemma sumars þegar yfirborð vatnsins stóð enn hátt eftir leysingar vorsins. Staðurinn þar sem straumendurnar sóttu í er að öllu jöfnu vaðfær á venjulegum gönguskóm, en þarna dugðu ekki einu sinni stígvél til að halda sér þurrum.

Kyrrð

Bloggarinn
Bloggarinn

Þessa mynd á ég ekki, þ.e. hún er tekin af mér en ekki af mér. Myndina tók sem sagt konan mín af mér þar sem ég þráaðist við úti í vatni langt fram í nóttina eftir tíðindalausan dag í veiðinni. Fyrir mér er þessi mynd ekki einhver sönnun þrákelkni minnar, heldur nær hún í öllum einfaldleika sínum þeirri kyrrð og ró sem vatnaveiðinn felur í sér.

Þegar maður er ekki á klukkunni, þ.e. getur hagað veiðinni eins og manni og náttúrunni sýnist, ekki bundin af tímamörkum einhverra sem hvergi koma nærri, þá er getur maður notið sín 100%, sama hvernig gengur.

Gíslholtsvatn

Gíslholtsvatn
Gíslholtsvatn

Austur í Landsveit kúrir þetta annars ágæta veiðivatn, Eystra-Gíslholtsvatn. Þegar ég fór fyrst þarna austur stóð ég í þeirri trú að vatnið væri aðeins eitt en ætti sér frænku í vestri, Herríðarhólsvatn. En svo kemur á daginn að þetta var meinleg villa sem læðst hafði inn í ýmsar veiðistaðalýsingar og handbækur. Réttara reyndist að vötnin eru systur; Eystra- og Vestara-Gíslholtsvatn og hafa aldrei heitið neitt annað.

Þokublámi
Þokublámi

Myndin hér að ofan er tekin skömmu fyrir hádegi í lok maí eftir nokkuð napurt kvöld og enn napurri nótt. Kvöldið áður hafði þokan náð að drepa allan rauðan lit sólsetursins og sveipa umhverfið blárri slæðu. Morgunin eftir var eins og himininn væri ný þveginn, vatnsflöturinn bónaður og hvoru tveggja steypt saman í eina spegilmynd.

Ég fæ raunar aldrei nóg af því að taka þessar kyrralífsmyndir af veiðivötnunum okkar þegar þau skarta sínu fegursta í kyrrðinni.

Afdrep að vori

Vífilsstaðavatn
Vífilsstaðavatn

Á vorin er þetta fyrsta afdrep margra veiðimanna eftir innilokun vetrarins. Raunar eru menn oft aðeins of snemma á ferðinni því fiskurinn er enn í slow motion og bara alls ekki til í slaginn. En veiðibakterían pirrar margan veiðimanninn bara svo hressilega þegar vorsólin vermir okkur fyrir innan gluggan að við látum hitatölur vorsins lönd og leið, skellum okkur í rykfallnar vöðlurnar og út í þetta litla og nærtæka vatn við höfuðborgina.

Myndina tók ég á gemsann rétt eftir að ísa leysti og fyrstu veiðimennirnir voru komnir á stjá. Ef ég man rétt, þá var ekki einn einasti fiskur farinn að hreyfa sig en mikið ósköp þótti veiðimönnum samt gaman að sýna sig og sjá aðra þennan dag.

Hólmavatn

Hólmavatn
Hólmavatn

Hólmavatnsheiði norðan Laxárdals í Dölum dregur nafn sitt af þessu vatni. Þegar ég kom fyrst að því fann ég fyrir einhvers konar loforði, næstum fyrirheiti um fleiri vötn innan seilingar sem gaman væri að heimsækja. Rétt norðan og eilítið austan Hólmavatns er Reyðarvatnshæð og þar undir Reyðarvatn. Nafnið gefur okkur til kynna að þar leynist bleikja sbr. nafnið reyður sem þýður jú bleikja.

Fleiri lofandi nafngiftir eru í næsta nágrenni eins og  Fiskivötn sem eru beint norðan Hólmavatns. Önnur og e.t.v. þekktari veiðivötn eru nokkru vestar og eilítið sunnar; Ljárskógarvötnin upp af bænum Ljárskógum í Dölum sem stendur nánast á bökkum Fáskrúðar. Vötn sem margir veiðimenn hafa heimsótt í gegnum tíðina.

Myndin hér að ofan er tekin á ómerkilega skyndimyndavél í farsíma, rétt fyrir miðnætti kvöld eitt í miðjum júlí. Gæðin eru léleg, birtan eitthvað broguð en svona kom nú vesturhimininn mér fyrir sjónir þarna um kvöldið og ég lét vaða á útsýnið með farsímanum þar sem ég hafði gleymt myndavélinni heima eins og svo oft áður og oft síðan.