Veiðimaðurinn – Ólafur Arndal Reynisson

Þegar veiðimenn smitast af bakteríunni á unga aldri er eins gott að einhver nákominn sé þeim innan handar og styðjið við áhugann og leiði menn örlítið áfram. Sem betur fer er það frekar regla heldur en undantekning að foreldrar, afar eða ömmur eru tilbúin að skjótast í veiði með ungviðinu. Við náðum taki á einum ungum veiðimanni sem hefur notið margra góðra stunda við veiði með fjölskyldu sinni og spurðumst fyrir um kveikjuna að veiðiáhuganum.

– Það voru nú pabbi og mamma sem kveiktu hjá mér áhugann með því að gefa mér veiðistöng þegar ég var 3ja eða 4ra ára, svarar Ólafur Arndal Reynisson, 17 ára námsmaður í FB.

Vænn urriði
Vænn urriði hjá Ólafi

Það hefur væntanlega verið kaststöng?

– Já, þessi líka flotta Batmann-stöng með ýmsum fylgihlutum í boxi þannig að ég kæmist með pabba í veiði.

Hann er þá svolítið í veiðinni líka?

– Já, hann stundar skot- og stangveiði á milli þess sem hann stikar upp um fjöll og firnindi. Hann hefur verið minn kennari, jú og aðrir ættingjar sem ég hef farið með í veiði.

Nú átt þú heima hérna á höfuðborgarsvæðinu, ferðu helst að veiða á þessu horni landsins?

– Nei, alls ekki. Pabbi er ættaður úr Öxarfirðinum og við förum oft norður og veiðum þar í grennd, helst norður á Melrakkasléttu þar sem annað uppáhalds vatnið mitt er einmitt, Æðarvatn. Þar hef ég sett í mína stærstu fiska og ýmislegt skemmtilegt gerst, eins og þegar pabbi stakk sér á eftir veiðistönginni minni þegar 5 punda urriði tók hana út. Það er hægt að hlæja að þessu, svona eftirá.

Þú nefnir það sem annað uppáhalds vatnið þitt, hvert er hitt?

– Það er reyndar vatn hérna í grenndinni sem ég heimsæki stundum með pabba, Stíflisdalsvatn við Kjósaskarð, frábært vatn og flottir fiskar. Pabbi þekki þar landeiganda og við fáum að kíkja annars lagið í vatnið.

Flottur afli úr Æðarvötnum
Flottur afli úr Æðarvatni

Fyrsta stöngin þín var kaststöng, hefur þú haldið þig við kaststöngina eða veiðir þú eitthvað á flugu?

– Nei, ég veiði mest á maðk eða spún í vötnunum. Annars hef ég líka farið á sjóstöng og leiðist það heldur ekki.

Þið feðgar farið væntanlega eitthvað í veiði í sumar?

– Já, það vona ég svo sannanlega, það er alltaf smá metingur í okkur og ég þarf eiginlega að ná fleiri fiskum heldur en sá gamli í sumar.

Á sjóstöng
Á sjóstöng

Við þökkum Ólafi fyrir samtalið og óskum þeim feðgum góðrar skemmtunar í sumar.

Yngri veiðimenn

Þetta er ekki eina fyrirsögn hér á síðunni sem lesa má með mismunandi áherslum. Þegar ég setti hana niður á blað var ég með ákveðið ákall í huga; það vantar yngri veiðimenn. Velta stangveiði hér á landi er áætluð tæpir 20 milljarðar á ári og sagt er að þriðjungur þjóðarinnar stundi stangveiði. Þetta eru engar smáræðis tölur og ég viðurkenni fúslega að ég á óskaplega litla hlutdeild í þeim. Ég kaupi mjög takmarkað af veiðileyfum, nota Veiðikortið og félagsskírteini í Ármönnum sem hvoru tveggja veita mér aðgengi að ríflega 40 vötnum þar sem ég get veitt eins og mig listir. Og svo ber ég heldur enga ábyrgð á fjölgun veiðimanna á Íslandi og þá komum við að innihaldi pistilsins; yngri veiðimönnum.

Þannig er að ég lét framhjá mér fara og missti af stangveiðiáhuga sona minna. Í kapphlaupi þess að koma mér örugglega fyrir í lífinu tók ég allt of lítið undir beiðnir um að fara að veiða eða taka veiðistöngina með í útilegur og í dag ég sé töluvert eftir því. Ungt fólk fer mikils á mis ef það stundar ekki útiveru og nær tengingu við uppruna sinn eins og stangveiðin bíður uppá. Í dag er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem þekkir silung aðeins sem vacum pökkuð flök í stórmörkuðum, reykt eða grafin. Þessi kynslóð þekkir aftur á móti leynda afkima veraldarvefsins út í ystu æsar, á fjölda ‚vina‘ á samfélagsmiðlum og veit allt um skræpóttar nærbuxur poppstjarna sem gægst hafa upp úr buxnastrengjum á óheppilegu augnabliki. Ungar stúlkur í dag roðna þegar maður segir Peacock og strákar segjast ekki vera neitt fyrir svoleiðis. Ég hef ekki hugmynd um hvað þau lesa út úr þessu göfuga heiti flugunnar en grunar að það sé eitthvað neðan beltis.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda Íslendinga sem leggur stund á stangveiði, þá er heilt yfir um litla nýliðun í stangveiði að ræða. Sama á við um félagsstarf stangveiðifélaganna. Félögin eldast hratt og unglingastarf þeirra á undir högg að sækja. Ef fram fer sem horfir þá verða aðalfundir félaganna haldnir á elliheimilum landsins, helst á milli fyrra kaffis og hádegishressingar þannig að menn sofni ekki undir liðnum önnur mál. En hvað er þá til ráða? Ef þú átt ungliða sem er efni í veiðimann þá eru hér mögulega nokkur atriði sem gott væri að hafa í huga:

  • Ekki arfleiða neinn að gamla dótinu þínu. Leyfðu krökkunum að velja sér stöng og annan útbúnað, þetta þarf að verða þeirra.
  • Bjóddu upp á fjölbreytta dagskrá í veiðiferð, gerðu svolítið úr þessu með því að kaupa eitthvað gott í nesti og millimál.
  • Vertu klár með myndavélina, meira að segja enginn fiskur getur orðið að myndefni.
  • Veðjaðu á nokkuð öruggt veiðisvæði þar sem fiskurinn tekur, þolinmæði krakka er ekki eins mikil og fullorðinna.
  • Ekki gera ráð fyrir löngum veiðiferðum til að byrja með og vertu sáttur við að steinar og spýtur á vatnsbakkanum gætu orðið meira spennandi en flot úti á vatni.

fos_nk

Ef allt gengur upp hjá þér ertu kominn með fullar hendur af spurningum, brennandi áhuga ungs veiðimanns og ómældar ánægjustundir.

Föndur

Það hefur verið grínast með það á mínu heimili að á meðan börnin í skólunum föndri fyrir jól og páska, þá föndri ég einhverjar flugur í horninu mínu. Lykillinn í þessu gríni er að enginn notar orðasambandið fluguhnýtingar eða bara hnýtingar yfir höfuð, þetta er einfaldlega föndur.

Kannski er þetta einmitt mjög góður punktur sem við, sem hnýtum okkar flugur sjálf, ættum alveg að leyfa okkur að nota meira þannig að börnin okkar heyri. Krakkar eru almennt mjög mikið fyrir að föndra. Meira að segja ungir drengir sem eru farnir að spá í ákveðna tegund hágreiðslu og ungar stúlkur sem eru ekki vilja lengur leiða pabba sinn á almannafæri eru svolítið veik fyrir notalegri föndurstund í faðmi fjölskyldunnar.

Þótt börnin okkar þroskist frá okkur, þá er ekki þar með sagt að þau vilji ekki vera með okkur og samverustund við fluguhnýtingar getur verið tilvalin leið til þess að eiga gæðastund með krökkunum. Það fylgir síðan vonandi með að prófa þarf einhverja flugu sem komið hefur af væsinum og góður veiðitúr gæti alveg fylgt í kjölfarið. Það er að vísu ekki öruggt því margir krakkar byrja að hnýta flugur löngu áður en þau handleika flugustöng sjálf. En það hefur sterkt aðdráttarafl að hnýta flugur fyrir pabba og mömmu, hvað þá ef von er á fiski á fluguna. Sjálfur þekki ég það að fá hugmyndir að flugum á blaði frá mínum drengjum, flugur sem hafa síðan gefið ágætlega þegar í vatn eru komnar.

Föndurskotið
Föndurskotið

Veiðimaðurinn – Örvar Óli Björgvinsson

Í nýliðnum febrúar vöktu nokkrir ungir og efnilegir hnýtarar mikla athygli í Febrúarflugum fyrir snyrtilegar flugur, flott handbragð og hugmyndaauðgi. Einn þessara hnýtara er Örvar Óli Björgvinsson, 17 ára Reykvíkingur sem hefur stundað stangveiði af miklum áhuga frá unga aldri og fljótlega tók hann sæti pabba síns við væsinn á vetrum og er nú svo komið að sá gamli þarf ekkert að hnýta sjálfur, segir sjálfur að strákurinn hnýti miklu betur en hann sjálfur.

Mér lék forvitni á að heyra meira af veiðiáhuga Örvars Óla og fékk hann því til að svara nokkrum spurningum. Fyrst svaraði Örvar Óli því hvernig áhuginn hafi vaknað;

Örvar Óli með einn 6 p úr Leirvogsá
Örvar Óli með einn 6 p úr Leirvogsá

– Ég fór fyrst í veiði í Reynisvatni 6 ára með flotholti og flugu eða orm. Fór síðan í ýmsa veiði með pabba, hingað og þangað svo sem í  Hraunsfjörðinn, Haukdalsvatn, Svínavatn í Húnavatnssýslu og í Svínadalinn; Þórisstaðavatn svo einhver séu nefnd. Svo fór ég í nokkrar ár með pabba; Vatnsdalsá, Glerá í Dölum, Fnjóská, Brúará, Hvítá og Skógá.  Við pabbi förum ennþá saman í veiði, t.d. í fyrrasumar fórum við í Skógá, Straumana.

En hvað með hversdagsveiði, eitthvað í grennd við Reykjavík?

– Það er ekki hægt að segja annað en ég hafi fengið góðan stuðning frá foreldrum mínum í þessum veiðiáhuga mínum.  Mamma hefur haldið úti áætlunarferðum í vötnin í kringum Reykjavík í nokkur ár og pabbi hefur tekið mig með í veiði þegar hann hefur getað, en hann hefur einnig mikinn veiðiáhuga.

Flott bleikja úr Vífilsstaðavatni
Flott bleikja úr Vífilsstaðavatni

Þú segir að þú hafir byrjað á maðk eða með flugu undir flotholti, hvenær kviknaði svo áhuginn á fluguveiði?

– Ég fékkst fyrstu flugustöngina í jólagjöf 10 ára, hana á ég ennþá og líka hjólið, en hún hefur samt vikið fyrir nýrri og ‚betri‘ græjum. Ég fór í fluguveiðiskólann í Elliðavatni,  fyrst 10 ára og svo aftur 11 ára og síðan þá hef ég eiginlega ekki lagt frá mér flugustöngina. Svo byrjaði ég hnýta flugur 11 ára eða fyrir 6 árum síðan og lærði mest af því að skoða kennslumyndbönd og á Youtube. Það var svo fyrir 2-3 árum að ég setti alvöru í þetta og fór að hnýta betur.  Það leiddi  svo út í það að hnýta í pantanir hjá vinum og ættingjum.

Þú segir að vinir og ættingjar séu að panta hjá þér flugur, er svolítið að gera í þessu?

– Tja, ég hef verið að hnýta fyrir vini mína sem eru einnig að vinna við leiðsögn, en svo týni ég líka orma og sel. Jú, ég hef ágætt upp úr þessu en það má alltaf bæt í hnýtingarnar.

En hvað er þetta eiginlega með stangveiðina, er þetta ekki bara eitthvað fyrir gamla karla og kerlingar?

– Í gegnum veiðiáhugann hef ég kynnst mikið af góðu fólki og t.d. nokkrum ‚gömlum‘ veiðimönnum sem hafa kennt mér á Elliðavatn með góðum árangri.  Þá eru sumir af mínum bestu vinum í dag í veiði líka og með þeim hef ég farið í veiði hér í kring s.s. Leirvogsá og Þingvallavatn. 

Þú hefur nefnt nokkra veiðistaði sem þú hefur prófað, hverjir eru í uppáhaldi?

– Við verðum eiginlega að skipta þessu á milli silungsveiði og laxveiði. Uppáhalds vötnin eru Elliðavatn og Þingvallavatn  og uppáhalds laxveiðiárnar eru Leirvogsá og Skógá.

Heimasæta Örvars Óla
Heimasæta Örvars Óla

Nú áttir þú nokkrar mjög flottar flugur í Febrúarflugum, voru það uppáhalds flugurnar?

oob_blackghost– Nei, eiginlega ekki. Mínar uppáhalds eru; Krókurinn og Rauður Frances en svo er Friggi hrikalega skæður og hefur gefið vel.

Við þökkum Örvari Óla Björgvinssyni kærlega fyrir spjallið og vonum að veiðigyðjan verði honum hliðholl í sumar.

Eitt er víst að ungir veiðimenn eins og Örvar Óli eru öðru ungi fólki hvatning til að stíga örlítið út fyrir þægindahringinn, kanna eitthvað nýtt og láta að sé kveða á nýjum vettvangi.

Ungir veiðimenn

Stangveiði er holl og góð íþrótt eins og flestir veiðimenn hér vita. En stangveiði er annað og meira, hún er kjörið tækifæri í nútíma þjóðfélagi til að tengjast uppruna sínum, náttúrunni með fjölbreyttum hætti og er alveg frábært sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar.

Víða erlendis er ungum veiðimönnum gert hærra undir höfði heldur en þeim sem eldri eru. Hér heima þekkjum við að unglingum er víða gert kleift að stunda ókeypis stangveiði, annað hvort einum eða í fylgd með fullorðnum. Nærtækast er að nefna Veiðikortið, Elliðavatn og Vífilsstaðavatn, svo einhver dæmi séu nefnd. Svo má alls ekki gleyma veiðidegi fjölskyldunnar sem Landsamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir í fjölda ára.

Því miður fer minna fyrir umfjöllun um unga hversdagsveiðimenn hér heima heldur en víða annarsstaðar. Ef frá eru taldar frásagnir af hetjuveiði einstaka ungliða, er það viðburður að þeir rati á forsíður blaða og vefmiðla. Að mínu viti skýtur þetta nokkuð skökku við því við sem eldri erum, vitum mæta vel að nýliðun hefur nokkuð dregist saman í greininni og þátttaka í félagsstarfi stangveiðifélaga er á undanhaldi.

Tíðarandinn er vissulega annar en var fyrir 10 – 15 árum síðan og því mikilvægt að halda á lofti þeim frábæru veiðimönnum af yngri kynslóðinni sem við eigum, þeir eru öðrum ungmennum fyrirmyndir, ekki við gömlu karlarnir og kerlingarnar sem enn skröltum til veiða af gömlum vana og brennandi áhuga.

Á næstu vikum ætla ég að leggja mitt lóð á vogaskálar umfjöllunar um unga veiðimenn með því að birta nokkrar greinar um unga veiðimenn og hvernig við getum aukið áhuga ungs fólks á því sem er að gerast utan tölvu- og sjónvarpsskjáa sem hafa mikið aðdráttarafl á ungt fólk nú á dögum.

Ef þú, lesandi góður þekkir einhvern veiðimann á aldrinum 10 – 20 ára sem væri tilleiðanlegur að svara nokkrum spurningum og gauka að mér veiðitengdum myndum sem ég mætti birta hér á vefnum, þá bið ég þig um að senda mér skilaboð á póstfangið kristjan (hjá) fos.is

fos_fjolskveidi