Gleraugnaklútur

Gleraugnaklútur
Gleraugnaklútur

Síðari hluta vetrar fóru nokkrir spjallverjar mikinn og lýstu því hvernig best væri að þrífa flugulínuna sína fyrir vertíðina. Eins og gengur komu margar og misjafnar aðferðir fram í dagsljósið. Töfralausnir eins og að bera hinar og þessar tegundir af bílavörum á línuna voru áberandi; Rain-X, Ultra Gloss, bílabón og Armor All. Í guðanna bænum, farið nú varlega eins og einn spjallverji benti á.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þessi umræða um það að menn eru að sækjast eftir hreinni línu / línu sem rennur vel. Ef línan þín hefur aldrei runnið auðveldlega þá er alveg sama hvað þú berð á hana, rennslið lagast ekki nema í skamma stund. Núningur línunnar við sig sjálfa á hjólinu og í gegnum stangarlykkjurnar er afskaplega fljótur að hreinsa undraefnið af henni.

Þegar litið er framhjá undraefnunum þá er það hrein lína sem rennur best og það eru ekki stóru skítaklessurnar sem eru leiðinlegastar heldur fasti fíngerði skíturinn. Fjárfesting í góðri flugulínu í upphafi ásamt míkróklút / gleraugnaklút borgar sig einna helst ef þú leitar að góðu rennsli. Ef þú ert duglegur veiðimaður og veiðir klukkustundum saman, láttu það eftir línunni að draga hana annars slagið inn í gegnum gleraugnaklútinn, jafnvel þótt þú sjáir engin óhreinindi á henni.

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiVar einmitt að þrífa allar línur, hjól og stangir í gærkvöldi… núna er ekkert eftir nema að bíða eftir vorinu!

Svar: Vorið er barasta komið hér fyrir sunnan og svo hefur sést til lóu í grennd. Verst að vötnin eru ekki opin í ‘grennd’ en þetta fer nú að styttast.

16.03.2013 – UrriðiAllt undir ís hérna, -7°C og snjókoma…. ekkert vor á næstunni sýnist mér.

Svar: Frúin mín hafði á orði að þú ættir nú svo fallega á að sumri að það væri vel þess virði að bíða eftir vorinu, verð bara að vera sammála henni.

16.03.2013 – ÞórunnSagði nú reyndar líka og á undan að ég vorkenndi honum ekkert! :) Spurning um að hnýta nokkrar flugur í þessu veðrið, hvort sem menn vantar eða ekki :) Bestu kveðjur austur.

17.03.2013 – UrriðiHaha ég tek bara aukavaktir í staðinn fyrir að hnýta flugur, sagði upp vinnunni og hætti að vinna í lok maí til að geta leikið mér í sumar! Ég gæti ekki vorkennt sjálfum mér þó ég reyndi það :)

19.03.2013 – Þórunn: Langar svo að segja hérna….æji sjarap :)

KristjánAuðvitað nýt ég þess að þetta er bloggið mitt og ég get alltaf sleppt því að samþykkja ummæli sem geta orkað tvímælis, ólíkt mörgum spjallvefjum þar sem innlegg eru ekki ritskoðuð 🙂 Ég sleppi þessu síðasta kommenti inn því ég sá öfundina í svip konunnar við þetta síðasta innlegg frá þér, Urriði, hreint óborganlegur svipur.

Hröð, miðlungs eða hæg

Hröð, miðlungs, hæg

Þegar öllu er á botninn hvolft þá gegnir flugustöngin tveimur megin hlutverkum; koma línunni út með sómasamlegum hætti og styðja við baráttu þína þegar þú hefur tekið fisk. Þetta er einföld og góð skilgreining, punktur, málið dautt. Eða hvað?

Óli og María í Veiðihorninu fengu um árið (2006) Hardy á Englandi til að hanna með sér flugustöng fyrir íslenskar aðstæður, Hardy Iceland sem var öllu lengri en tíðkaðist almennt með einhendur, 9,6‘ og stífari, afl hennar var alveg fremst, þ.e. í toppinum. Fleiri hafa hannað stangir fyrir íslenskar aðstæður, JOAKIM‘S stangirnar eru stimplaðar þannig, meðal-hraðar með mjúkum toppi. Nielsen, þ.e. Birgir Þórsson stimplar sínar Powerflex stangir með hentar íslenskum aðstæðum, hröð stöng. E2 frá Scott var síðan hönnuð eftir forskrift Engilberts Jensens, mjúk í toppinn og kraftmikil niður í skaftið. Sem sagt; ég er á Íslandi og taki ég fyllilega mark á þessu þá þarf ég stífa stöng í lengri kantinum með mjúkum toppi sem er þetta frá því að vera miðlungs- og upp í hröð. Og hvernig veit ég að stöngin sem ég er með í höndunum sé þetta allt, ef það er þá hægt í einni og sömu stönginni?

Það verður seint sagt um framleiðendur og seljendur flugustanga að þeir séu hugmyndasnauðir í lýsingum sínum á eiginleikum stanga; mjúk og kraftmikli, djúp vinnsla,einstaklega hröð, aflmikil og hröð. Flestar lýsingar miða að því að lauma inn þeirri hugsun hjá veiðimanninum að hann geti kastað lengra, miklu lengra með viðkomandi stöng. Lengi vel var valið á flugustöng nokkuð einfalt, til voru þrjár skilgreiningar; Fast action, Medum action og Slow action og skilgreiningin var að sama skapi einföld:

  • Fast action / hröð stöng sveigist mest og nánast eingöngu í efsta þriðjundi, þ.e. næst toppinum. Hentar best fyrir stærri (þyngri) flugur, þungar línur og í hreinskilni sagt, hentar betur þeim sem hafa unnið heimavinnuna sína í flugukasti vel, eru góðir kastarar. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig og því þurfa tímasetningar í kastinu að vera nokkuð nákvæmar. Oftast notuð í veiði þar sem von er á stærri fiskum, stærri ám eða jafnvel strandveiði.
  • Medium action / miðlungs hröð stöng sveigist alveg niður í annan þriðjung, þ.e. niður í miðju. Þessar stangir hlaða sig hægar heldur en fast action stangir og því gefst kastaranum meiri tími til að tímasetja aðgerðir í kastinu. Góð alhliða stöng sem hentar í ám, lækjum og í vatnaveiði sem ræður vel við flugur í ýmsum stærðum og línur frá #4 – #8. Langflestar stangir fluguveiðimanna falla undir þessa skilgreiningu.
  • Slow action / hæg stöng sveigist alveg niður í fyrsta þriðjung, þ.e. alveg niður í haldið. Þessar stangir hlaða sig mjög hægt frá toppi og niður í hald og því þurfa menn að hafa góða þolinmæði og sjálfstjórn til að vinna með svona stangir. Allt of oft freistast menn (oftast byrjendur) til að flýta aðeins fyrir hleðslunni með því að beita meira afli heldur en stöngin í raun ber og því verður kastið oft á tíðum tómt klúður. Stöngin þarf sinn tíma til að hlaðast. Þurfi fast action stöng 1/3 af x-tíma (svignar í efsta þriðjungi) og medium action 2/3 af x-tíma (svignar í tveimur af þremur hlutum) þá þarf slow action stöng í það minnsta 1,5 af x-tíma til að svigna.

Sem sagt; action lýsir því hvar stöngin svignar undir átaki og hversu langan tíma það tekur hana að hlaða sig, ekki hversu mikið hún svignar, þá tölum við um mýkt hennar.

Ummæli

30.09.2012 – Árni Jónsson: Mér finnst einmitt ég hafa rekið mig á það, að hraðar stangir (og mið-hraðar sérstaklega) henti flestum og þá sérstaklega í logninu á Íslandi.

Svo hef ég líka tekið eftir því að sumir framleiðendur í hærri verðflokkunum eru hættir að tala í hefðbundnum hugtökum. S.d. flokka G.Loomis sínar stangir með “Taper” & “Power” eða tveimur mismunandi skilgreiningum. Taper segir þá til um hver hraðinn á “prikinu” er og Power um hvernig aflið vinnur og skilar sér í aflhleðslunni.

Scott aftur á móti talar um “Flex Profile” & “Recovery Speed” sem að mér finnst vera með betri skýringum sem að ég hef séð (og henta Íslenskum aðstæðum vel)

Sérstaklega hef ég rekið mig á “Fast-action” er langt frá því að vera það sama frá framleiðanda til framleiðanda. Máli mínu til stuðnings nefni ég eitt merki: Winston.

Mín ráðlegging til þeirra sem að eru að reyna að koma sér út úr þessum frumskógi framleiðanda, gerða, verðflokka og alls hins, er að byrja á að finna ódýra stöng frá framleiðanda “X” áður en að farið er útí fjárfestingu og prófa sig þannig áfram þar til að þú ert búinn að finna þann framleiðanda sem að þér finnst henta þínum stíl best. Svo er hægt að fara vinna sig upp í verðflokkum. Svínvirkaði fyrir mig.

Besta stöng í heimi

Flugustöng

Stöngin mín er; a) hröð, b) miðlungs-hröð, c)  hæg, d) stíf, e) miðlungs-mjúk, f) mjúk og ég nota hana í allt. Auðvitað er engin stöng sem nær þessu öllu, enda er þetta aðeins samansafn úr leit á Google yfir það hvernig menn lýsa bestu stöng sem framleidd hefur verið; stönginni sinni. Það hefur verið sagt um karlmenn og bíla að þeirra bíll er bestur; kemst lengst á lítranum, er aflmestur eða endist best á meðan konurnar okkar eiga annað hvort lítinn sætan, sparneytinn eða bara rauðann bíl.

Þegar ég byrjaði í fluguveiði var mér ráðlagt að fá mér miðlungs-mjúka stöng. Hún fyrirgefur þér mistökin var sagt við mig. Fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diamond í tveimur hlutum, hefur núna fengið ákveðinn heiðurssess í bílskúrnum. Ég opna hólkinn reglulega og kíki á hana, en tek hana yfirleitt aldrei með mér í veiði, nema þá sem varastöng. Vissulega var stöngin miðlungs og fyrirgaf mér næstum öll mistökin sem urðu á vegi mínum til að byrja með, ég var sáttur. Ég sótti mér leiðbeiningar varðandi köstin og fékk þá kommentið; fín byrjendastöng og leiðbeinandinn lagði áherslu á að ég ætti að tilta (halla) stönginni til hægri og láta stöngina renna frá fremra stoppi og aftur í það aftara. Þessi hreyfing hefur fylgt mér alla tíð síðan sem minn aðal-kaststíll jafnvel þótt ég noti standard fyrir öxl á styttra færi með léttri stöng.

Þegar mér síðan tókst að tæla konuna mína í fluguveiði, þá var henni bent á Airflo stöng (sett) sem væri tilvalið fyrir byrjendur. Eftir því sem ég best veit var hún mjög ánægð með stöngina en mér fannst hún frá fyrstu tíð allt of stíf (þ.e. stöngin) hún fylgdi mér ekki eins vel í rennsliskastinu mínu. Aftur á móti var hún frábær í standard yfir öxl og það varð einmitt aðalsmerkið í kaststíl konunnar. Maður beinlínis heyrir í ákveðnu fram og bakkasti hennar, svúpp, svúpp (Essence of Fly Casting II – Mel Krieger) beint yfir öxlina. Þeir sem séð hafa til okkar segja, hún kast miklu betur en hann og það er örugglega alveg rétt. Hún vandaði sig líka miklu meira í upphafi því stöngin hennar fyrirgaf henni ekki eins mikið og fyrsta stöngin mín, ég komst upp með villurnar.

Eins og með svo marga fluguveiðimenn höfum við uppfært stangirnar okkar. Hvort sem það var nú frekjan í mér eða aðeins tilviljun, þá erum við með eins stangir sem aðal-stangir í dag; miðlungs-mjúkar JOAKIM‘S MMX. Konan mín heldur áfram að kasta eins og klippt út úr kennslumyndbandi Mel Krieger (svúpp,svúpp) og ég held áfram með rennsliskastið mitt með fáeinum áherslubreytingum til batnaðar. Þegar ég svo tek í hraða stöng, segjum Scott S4 eða Sage One, þá finnst mér svolítið eins og ég sé með kústskaft (bara miklu léttara) í höndunum. Nei, bíðið aðeins áður en þið missið ykkur í hneykslan og formælingum. Það getur vel verið að ég sé auli og asni, en ég er ekki að hallmæla stöngunum sem slíkum. Það segir ekkert um gæði stanganna að menn hafi skiptar skoðanir á þeim, sú stöng sem hentar kaststíl einum getur verið sem kústskaft í höndum annars. Ástæða þess að framleiðendur senda frá sér margar mismunandi útfærslur stanga er einfaldlega sú að þarfir manna og stuðningur stanga við kaststíl þeirra er mismunandi. Fyrsta stöng manna hefur mjög mikil áhrif og mótar, oft fyrir lífstíð, kastið þeirra. Lengi býr af fyrstu gerð og mörgum reynist erfitt að breyta rótgrónum stíl þegar fram í sækir. Það er hægt að leiðrétta og þá eiga menn að nýta sér leiðsögn til þess hæfra manna, kastkennara sem geta litið út fyrir eigin uppáhalds stíl og leiðbeint með rýni til gagns. En hvað með; hröð, miðlungs eða hæg? Meira um það síðar.

Ummæli

26.09.2012 – Árni JónssonAllir góðir kastkennarar taka það einmitt fram að þetta er ekki klippt og skorið og allir þróa sér sín eigin stíl. Kennarar sem segja annað og byrja að segja þér hvað þú átt og átt ekki, hugnast mér ekki.

26.09.2012 – Þórunnawwwwwwww…… (Aðspurð skýrði Þórunn þetta með orðunum; ´Æ, hvað þetta er krúttlega sagt’)