Það lyktar öðruvísi

Það hefur komið fyrir á þessu heimili að það hafi slegið fyrir laufléttri lykt þegar stöng hefur verið dregin upp úr hólki einhverjum dögum eftir veiðiferð. Það þarf alls ekki að þýða að eitthvað stórkostlegt sé að stönginni þótt hún ilmi ekki eins vel og venjulega. Örsmár blóðdropi eða slím af fiski nægir til þess að gefa frá sér nokkuð sterka lykt eftir einhvern tíma í lokuðum hólki. Hafi manni yfirsést eitthvað slíkt þegar stönginni var pakkað niður, þá er sjaldnast hundrað í hættunni.

Verra er það þegar stangirnar fara rennandi blautar í hólkinn og ekki teknar fram til þurrks þegar heim er komið. Þá er von á öllu erfiðari lykt, myglu. Myglan getur myndast bæði í pokanum utan um stöngina og í korkinum. Ég mundi nú ekki gráta lengi ef ég þyrfti að henda pokanum, verra þætti mér ef myglan tæki sér bólfestu í korkinum. Það þarf reyndar nokkuð öfluga myglu til að eyðileggja korkinn, í flestum tilfellum er hægt að þrífa hann upp og gera sem nýjan án mikillar fyrirhafnar.

fos_cork_handle
Handfangið

Byrjum á smá inngangi, korkur er ekki viður, heldur börkur og hann þolir alls ekki öll sterku hreinsiefnin sem manni dettur fyrst í hug. Best er að byrja á mildum efnum eins og t.d. venjulegri lyktarlausri handsápu og sjá hvort ekki náist allt líf úr korkinum með henni og svampi. Ef það dugar ekki, þá má færa sig í yfir í öflugari græjur; sandpappír númer 240 eða 360, volgt vatn og sömu handsápuna. Raunar renni ég reglulega yfir korkinn með fínum vatnspappír til að jafna hann ef upp úr honum hefur hoggist. Ef sandpappír og handsápa duga ekki, þá er þörf á einhverju enn öflugara, einhverju sem drepur sveppi. Sumir hafa notað 10% klórblöndu, sem reyndar lýsir korkinn aðeins, en ég hef notað 10% blöndu af Rodalon þar sem það drepur einnig óæskilega lykt. Lengra hef ég ekki þurft að fara í aðgerðum til að losna við óþef úr korki, en get ímyndað mér að ef þetta dugi ekki, þá sé eins gott að leita sér að nýju handfangi á stöngina.

Söfnunarárátta eða þörf?

Mér finnst það nú eiginlega hafa verið í gær þegar ég gat með sanni sagt að ég ætti aðeins eina flugustöng. Sú var af fyrstu kynslóð grafítstanga, #6 í tveimur pörtum. Ég kunni alveg ágætlega við þessa stöng og á hana ennþá. Að vísu hefur hún ekki fengið að fara með í veiðiferðir í nokkur ár, ekki einu sinni sem varastöng. Síðar eignaðist ég IM10 stöng #7 í hefðbundnum fjórum pörtum og notaði hana mikið, raunar nota ég hana annars slagið ennþá þegar ég tel mig þurfa á miðlungshraðri stöng að halda. Síðar kom til sögunnar heldur hraðari IM12 stöng sem ég hef töluvert dálæti á, en hún er nokkuð stífari þannig að stundum fer að gæta einhverrar þreytu hjá mér eftir 5 – 6 klst. í veiði.

Einhvern tímann á leiðinni bættist mjúk IM9 JOAKIM‘S stöng í safnið, stimpluð #4/5 sem ég hef mikið dálæti á. Hún er ekkert sérstaklega létt, ekki nett, eiginlega svolítið lin, en ég kann óskaplega vel við hana.

fos_flugustonghjol_big

Í sumar sem leið tókst mér síðan að sannfæra sjálfan mig um að ég þyrfti á nýrri sjöu að halda. Ég prófaði nokkrar stangir og fann eiginlega alltaf eitthvað að þeim. Of stíf, of hröð, of lin, of þung, mér tókst þannig að finna eitthvað að þeim öllum. Trúlega hef ég verið farinn að fara örlítið í taugarnar á einhverjum, alveg þangað til mér var bent á að prófa eina af nákvæmlega sömu tegund og ég hafði áður hafnað með þeim rökum að hún væri of stíf fyrir minn smekk. Sú sem mér var rétt var 9‘6 fet í stað 9 feta. Hún er ekki framleidd úr einhverju sérstöku undraefni, held meira að segja að hún sé framleidd úr IM10 grafít og alls ekki hönnuð sem einhver tímamóta stöng. Hún er það sem ég leitaði að; virkar millistíf en svignar skemmtilega með fiski, leyfir mér að finna fyrir smæstu bleikjum og vinnu vel á móti stærri urriðum. Stöngin ber vel þær línur sem ég nota og sýnir góða vinnslu með hefðbundnum framþungum intermediate og flotlínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er sérlundaður í stangarvali og alls ekki víst að minn smekkur passi öðrum, en ég mundi trúlega kaupa mér aðra Airflo Rocket 9‘6 #6/7 stöng ef mér tækist að eyðileggja þessa. Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum hugleiðingum mínum er einfaldlega að það þarf stundum ekki mikla breytingu á stöng til að hún virki sem allt önnur. Í þessu tilfelli varð það þetta hálfa fet sem gerði gæfumuninn.

Auðvitað er þetta einhver söfnunarárátta og trúlega (vonandi) tekst mér að telja sjálfum mér trú um að ég þurfi nýja stöng eftir einhver ár. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, leggja svolítið á sig að venjast nýrri stöng og njóta þess að veiða.

Á toppinum

Á mínu heimili er ég stundum spurður að því hvað þetta er hitt þurfi að vera lengi í ofninum eða á pönnunni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég er spurður að þessu og yfirleitt er svarið mitt alltaf það sama; Þangað til það er orðið steikt. Reyndar væri oft betra að segja; Þangað til þú heldur að það þurfi að vera örlítið lengur í ofninum / á pönnunni.
Með svipaðri kaldhæðni mætti svara þeim sem spyr hve mikið hann megi láta reyna á stöngina við löndun; Örlítið minna en þú telur að hún þoli. En hversu mikið þola stangir að svigna? Ef það væri eitt ákveðið svar til við þessu þá væri ég væntanlega ekki að velta þessu fyrir mér og þá hefði ég væntanlega aldrei brotið toppinn á stönginni minni.
Mér skilst að oftast brotni stangir í toppstykkinu þegar átt er við fisk, en það er einmitt toppstykkið sem geymir minnsta orku í flugustönginni og mér skilst að þarna sé beint samhengi á milli. Ef flugan er þokkalega trygg í fiskinum og hann ekkert á því að taka rokur út og suður, þá mætti hugsanlega beita stönginni örlítið öðruvísi þannig að átakið við löndun komi ekki aðeins á efsta hluta hennar, heldur færa átakið neðan í stöngina þar sem hún er betur hlaðin og sterkari.

Stangartoppur
Stangartoppur

Hversu langt niður í stöngina maður verður að færa átakið fer svolítið eftir því hvort stöngin sé hröð, miðlungs eða hæg. Það hefur lengi laumast að mér sá grunur að hægum (mjúkum) stögum sé ekki eins hætt við því að brotna heldur en hröðum (stífum) stöngum. Það er í það minnsta mína reynsla. Auðveldast er að færa átakið neðar í stöngina með því að lækka topp hennar að vatnsborðinu, oft þarf ekki að lækka stöngina mikið til að sjá toppinn rétta úr sér en handa samt vel við fiskinn. Einn kostur við hæfilega sveigju toppsins er að sá partur getur brugðist einna hraðast við snöggum hreyfingum fisksins og því temprað skyndiákvarðanir hans að rjúka út og suður þegar minnst varir. Bara að passa sig á hástökkvurunum, þeir ná oft að losa sig ef stönginn er ekki höfð í efstu stöðu.

Partar

Fyrstu flugustangirnar voru óttaleg prik, beinlínis. Þetta voru heppilegar pílviðargreinar með áfestum silkiþræði og öngli. Bráðinni var einfaldlega vippað upp á bakkann ef hún á annað borð festist á önglinum. Einfaldari gat stöngin ekki orðið. Löngu síðar, einhvern tímann á 17.öld fóru menn að smíða stangir úr reyr og bambus og þá fóru samsettar stangir að koma fram. Til að byrja með voru þær í tveimur pörtum, síðar þremur. Það var svo ekki fyrr en í upphafi 20.aldar að fíberstangir komu fram í dagsljósið. Samsetningar bambusstanganna höfðu eiginlega alltaf verið til vandræða, þær vildu losna í sundur þegar minnst varði og svo höfðu stífar samsetningarnar óæskileg áhrif á virkni þeirra. Þess vegna leituðu menn aftur í að fækka samsetningum niður í eina með tilkomu fíber. Síðar jókst krafan að stangirnar væru ekki hálfur annar metri að lengd, ósamsettar, þannig að pörtunum fjölgaði aftur.

Sjálfur á ég eitt svona fíber prik, fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diplomat. Slíkar stangir eru raunar enn framleiddar í tveimur pörtum, að vísu úr grafít í dag og ég hef heyrt að byrjendum sé sérstaklega bent á að byrja með stöng sem sé með sem fæstum samsetningum. Það var þá kannski einhver glóra í þessari stöng.

fos_historydame

Í dag er algengast að venjulegar einhendur séu í fjórum pörtum. Sumir framleiðendur eru enn að spreyta sig á að bjóða efsta partinn í tveimur mismunandi stífleikum eða eins og einn auglýsti um árið; Stöng fyrir stóra og litla fiska. Ókostur slíkra stanga er helstur að stífleiki næst efsta parts er aldrei annað en millilending fyrir mjúkan eða stífan topp. Stöngin vinnur því ekki eðlilega niður á annan fjórðung miðað við valið toppstykki. Annað hvort er parturinn of mjúkur eða of stífur fyrir toppinn og því njóta þessar stangir ekki neitt gríðarlegrar hylli, en sumir komast upp á lagið með þessar stangir og dásama þær í hástert.

Það færist í aukana að veiðimenn leggi land undir fót, rölta af stað þaðan sem nokkuð venjulegur fjölskyldubíllinn kemst og stefna eitthvert út í buskann. Mörgum finnst þá sem 9 feta silungastöng í 4 pörtum sé aðeins of löng og fyrirferðamikil dinglandi á bakpokanum. Koma þá til sögunnar stangir í 7 – 10 pörtum úr hágæða grafít þar sem mikil vinna og natni hefur verið lögð í samsetningarnar þannig að þær hafi sem minnst áhrif á virkni stangarinnar. Framleiðendur keppast við að bjóða sem flesta partana og sumum þeirra tekst ágætlega upp að láta þessar stangir hanga saman og þær eru til sem ekki virka bara eins og 2000 ára gömul pílviðargrein. Sem dæmi um nokkra framleiðendur sem hafa náð lagt í hönnun ferðastanga má nefna; Flextec, Airflo og Shakespeare. Allt merki sem fáanleg eru hér heima á viðráðanlegu verði. Ef einhver vill síðan kaupa flaggskipið í ferðastöngum, 9 feta listasmíð í 10 pörtum, þá er hægt að fjárfesta í March Brown Executive fyrir einhverjar 140 þ.kr. Góða ferð út í buskann í sumar.

Wax on….

Á sínum tíma sagði leiðbeinandinn við litla karate strákinn; Wax on, wax off en í þetta skiptið látum við vaxið liggja. Þegar hausta tekur, er lag að huga að græjunum eftir sumarið. Haustið er að mörgu leiti miklu betri tími til að standsetja græjurnar fyrir næsta sumar heldur en að vorið því þá er sprengurinn oft svo mikill að komast í fyrstu veiðina að menn gefa sér ekki tíma til að yfirfara græjurnar eins vel og menn ættu að gera.

Eitt af því sem veiðimenn sinna e.t.v. ekki sem skildi eru samsetningar stanganna. Með tíð og tíma víkka hólkarnir þannig að vatn og óhreinindi eiga greiðari leið inn að kjarna stangarinnar heldur en æskilegt er. Auðvitað ættu allir að gæta að samsetningunum á meðan veitt er, sumir segja á hverjum hálfum tíma í veiði, aðrir láta sér nægja að þrýsta stönginni saman í hvert skipti sem skipt er um flugu eða hugað að taum.

Þegar búið er að yfirfara stöngina; lykkjur og kork, er ekki út vegi að rjóða örlitlu vaxi á samsetningarnar. Venjulegt kertavax er alveg prýðilegt til þessara nota og það þarf alls ekki mikið, oft er minna betra. Vaxið þjónar tvíþættum tilgangi. Fyrir það fyrsta þéttir það samsetningu og svo kemur það í veg fyrir að stöngin ‚grói‘ saman eins og stundum vill gerast, vax á samsetningu hindrar þennan samgróning.

Flugustöng
Flugustöng

Handfangið

Vonandi hafa allir lesendur gengið sómasamlega frá flugustönginni síðasta haust þannig að allt sé klárt núna þegar vorar. Eitt af því sem getur plagað menn verulega þegar vorar eru skítug, mygluð eða jafnvel skemmd handföng á veiðistöngum bara vegna þess að ekki var gengið rétt frá s.l. haust.

Flestir framleiðendur veiðistanga ganga þannig frá sinni framleiðslu að það er tiltölulega lítið mál að skipta um kork í handfangi. Þá geta grúskararnir farið á flug og rennt sín eigin handföng, við hinir kaupum bara ný handföng og í skásta falli skiptum þeim sjálfir út eða fáum starfsmann í viðkomandi verslun til að annast útskiptin. Ef maður hefur alltaf verið fyllilega sáttur við sína stöng, þ.e. gripið á henni, er engin ástæða til að skipta um tegund, maður velur bara sömu týpu og sverleika. En fyrir þá sem hafa ekki verið 100% sáttir getur vel verið ástæða til að staldra aðeins við og kynna sér aðra möguleika.

Flest grip eru þetta á bilinu 6,5” til 7”, þ.e. fyrir einhendur en auðvitað er þetta nokkuð breytilegt á milli framleiðenda. Í grófum dráttum má skipta lögun handfanga í þrennt. Fyrst er að telja Full Wells, þetta sem er handlaga, tiltölulega svert og oftast ‘standard’ á stöngum í stærðunum #7 og upp úr. Það er ekki óalgengt að handstórir veiðimenn veljir þetta lag umfram annað. Eins hefur það borið við að konur velji þetta grip umfram önnur. Half Wells er gripið sem mjókkar fram og er oftast notað á stangir frá #1 til #6. Ekki er óalgengt að handsmáir veiðimenn veljir þetta grip umfram önnur, en láti snúa því öfugt á stönginni, þ.e. sverasta hlutanum fram. Cigar hefur verið nokkuð á undanhaldi hin síðari ár en var hér áður langsamlega algengasta lagið á handföngum. Raunar hafa bambusstangasmiðir haldið nokkurri tryggð við þessa tegund, trúlega til að halda í hefðina.

Góðir stangarframleiðendur leggja sig í líma við að bjóða viðskiptavinum sínum upp á marga mismunandi sverleika handfanga. Það er sjálfsagt mál þegar keypt er framtíðarstöng í hærri verðkantinum að menn spyrjist fyrir um möguleika á sverara/grennra/öðru handfangi áður en gengið er frá kaupunum.

Korkhandföng
Korkhandföng

Ummæli

17.04.2013 – Eiður KristjánssonEr með half-wells á fjarkanum mínum og full-wells á sjöunni. Finnst handföngin henta hvorri stöng um sig nokkuð vel. En hvernig er það Kristján, á ekkert að fara henda sér í veiði? :)

Svar: Alveg sama sagan hjá mér, en ég hef verið að spá í hvort ein ástæða þess að köstin mín með fjarkanum eru aðeins léttari vegna þess að ég held ósjálfrátt léttar um half-wells handfangið. Eigum við eitthvað að ræða veiði? Einmitt núna þegar ég er að skrifa þetta, þá kyngir niður snjó, allt orðið hvítt og ekkert lát á sýnist mér. Fór stutta stund á opnunardaginn, en ekki söguna meir. Sjáum til þegar hlýnar aðeins, læt í það minnsta sjá mig við Elliðavatn á sumardaginn fyrsta, hvort sem vatnið er nú grænt eða grátt 🙂