Samkvæmisdans

Hér um árið fór ég í nokkra tíma í samkvæmisdönsum. Nú veit ég ekki hversu vel veiðimenn, konur og karlar, eru að sér í samkvæmisdönsum, en stundum hef ég séð fluguveiðimenn sem halda mjög góðum takti, bara ekki endilega þeim heppilegasta fyrir fluguveiði. Það er t.d. beinlínis stressandi að sjá veiðimann kasta flugu í sama takti og notaður er í Quick Step. Þokkafullur salsa á heldur ekkert endilega mikið erindi í fluguveiði.

fos_kast_vals
Góður taktur

Ef einhver samkvæmisdans á erindi í fluguveiði, þá er það væntanlega walz, helst Vínarvals. Hægar, þokkafullar hreyfingar í jöfnum og stöðugum takti, átakslausar hreyfingar sem skila flugunni úr aftara stoppi (1), yfir í jafna hröðun (2), fram í fremra stopp (3), endurtakist eftir þörfum. Ef þú ert að missa þig í Quick Step, hugsaðu þá 1, 2, 3 í jöfnum og fallegum walzi við flugustöngina. Þá heldur þú ákveðnum tímasetningum, ferð þér ekkert of geyst og köstin verða fallegri og þar með lengri.

Vinaband

Stundum kemur upp smá ósætti á milli mín og flugustanganna minna. Við virðumst bara ekki eiga endilega mikla samleið. Það sem stangirnar eru ekki þenkjandi lífverur, þá er víst helst við mig sjálfan að sakast. Dagsformið er misjafnt og ég næ stundum bara hreint ekki að viðhalda góðu sambandi á milli mín og stanganna.
Það sem ég er að vísa hér til er að úlnliðurinn hjá mér verður oftar en ekki of laus, ég næ ekki að læsa honum nægjanlega þannig að bakköstin hjá mér falla niður, aftara stoppið er alls ekki nógu gott og þar með köstin mín öll úr lagi.

fos_kast_vinaband
Vinabandið mitt

Um daginn rakst ég á skemmtileg not fyrir aðgangsbönd sem maður fær stundum þegar maður fer á ráðstefnur og tónleika. Það leyndust í það minnsta nokkur svona í skúffu hér á heimilinu og nú er bara að prófa að taka eitt svona með sér á kastæfingu og sjá hvernig mér tekst að hemja úlnliðinn í bakkastinu. Ef vel gengur, þá hafði ég hugsað mér að kalla þetta vinaband, það sem styrkir samband mitt við flugustangirnar.

Yfir gagnstæða öxl

Þegar vindurinn stendur á kasthöndina er hætt við að flugan fari að ferðast óþægilega nærri höfði manns. Þá getur maður snúið sér við, fært stöngina í skjól og látið bakkastið um að færa hana út á vatnið. Þegar ég sá slíkar aðfarir fyrst, fannst mér þetta ljótt kast og vildi lengi vel ekkert með það hafa, en þetta er eins og hvert annað flugukast, það þarf aðeins að leggja smá vinnu og æfingu í það og þá getur orðið nokkuð ágætt kast úr þessu.

fos_kast_vindur_right1
Vindur frá hægri

Önnur lausn á þessu vandamáli er að halla stönginni á gagnstæða öxl, færa þannig feril línunnar og þar með flugunnar hlé megin við líkamann. Auðvitað er ekkert sérstakt logn hlé megin við veiðimanninn, en flugan er þá í það minnsta ekkert að flækjast í höfðinu á manni á meðan hún færist fram og til baka í falsköstunum. Til að byrja með gerði ég þau mistök í þessu kasti að reisa kasthöndina ekki nægjanlega hátt og því mislukkuðust fleiri köst hjá mér heldur en tókust. Fljótlega komst ég þó upp á lagi með þetta og beitt þessu kasti nú reglulega í okkar alþekkta Íslenska logni.

Á ská og skjön

Að vera á ská og skjön við vindinn, fá hann beint á kasthöndina og gera ekkert í málinu kemur manni bara í koll, bókstaflega. Það er að vísu lítið sem veiðimenn geta gert þegar vindátt breytist í miðju kasti og feykir línunni í fangið á þeim eða andlit, en þegar vindurinn er nokkuð stöðugur á kasthöndina, þá getur veiðimaðurinn hallað toppi stangarinnar yfir á hina öxlina eða þá snúið baki í kastáttina og látið bakkastið um að bera fluguna út á vatnið.

Þegar framangreind veðurskilyrði koma fyrir og veiðimaðurinn vill kom flugunni á nokkuð afmarkað svæði, þá getur málið vandast. Gefum okkur að veiðimaðurinn sé meðalmaður á hæð og noti 9 feta stöng. Í hefðbundnu framkasti þar sem stangartoppurinn stöðvast kl.11 (á kastklukkunni) þá má gera ráð fyrir að flugan hætti í framskriði í 3 metra hæð yfir vatninu, þá fær vindurinn öll spil upp í hendurnar og getur fært fluguna til hliðar í fallinu eins og honum sýnist. Það segir sig sjálft að í þokkalegum hliðarvindi er næstum öruggt að flugan lendir ekki þar sem veiðimaðurinn ætlaðist til.

Snúa baki í vindinn, kasta með yfirborðinu

Eina ráðið við þessu er að lækka línubogann í loftinu, annað hvort með því að stoppa neðar í framkastinu eða breyta alveg til og snúa stönginni um 90° í hendinni (snúa hlið fluguhjólsins upp) og kasta beinlínis á hlið þannig að línan ferðist fram og til baka sem næst yfirborði vatnsins. Kosturinn við þessa aðferð er að línan getur skotist út á vatnið hvort heldur til vinstri eða hægri, þ.e. línuna má leggja fram hvort heldur í bak- eða framkastinu því bæði köstin ættu að vera jafngild með þessari aðgerð.

Fram og til baka

Þar kom að því, loksins grein á þessari síðu sem er ekki aðeins ætluð þeim sem hafa brennandi áhuga á fluguveiði. Það hljóta að vera ákveðin tímamót fyrir hvern einasta fluguveiðimann þegar hann fær spurninguna; Hvers vegna eruð þið að þessu, fram og til baka áður en þið kastið út?  Ég varð virkilega upp með mér þegar ég fékk þessa spurningu, loksins einhver sem kom auga á grundvallaratriðið innan um allt þetta nördalega sem maður hefur látið frá sér.

fos_vm_hlidarvatn
Við Hlíðarvatn í Selvogi

Fram og til baka er náttúrulega bara einu sinni, en svo er þetta endurtekið, aftur og aftur og aftur. Eiginlega oftar en nokkur maður nennir að telja. Hvert er eiginlega markmiðið með þessu? Jú, í stuttu máli þá snýst þetta um:

  • Stundum gera menn þetta til að lengja í köstunum. Sjáðu til, flugan hefur enga þyngt og því þurfum við að sveifla línunni fram og til baka, lengja svolítið í henni í hverju kasti, alveg þangað til við teljum okkur ekki ráða lengur við línuna og leggjum hana niður. Neðanmál fyrir flugunörda: Lærðu tvítogið almennilega þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
  • Stundum langar okkur að setja fluguna niður á ákveðinn stað og þá þurfum við að sveifla línunni fram og til baka. Við erum eiginlega að máta hvar flugan lendir, færum hana aðeins til eða lengjum örlítið í til að ná á ákveðinn stað. Neðanmál fyrir flugunörda: Æfðu nákvæmnina umfram lengdarköst þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
  • Stundum erum við að þurrka fluguna áður en við leggjum hana út á vatnið, það er nú svo einfalt. Neðanmál fyrir flugunördana: Ekkert við þessu að gera, nema þá bera eitthvert undraefni á þurrfluguna sem hryndir frá sér vatninu þannig að við þurfum ekki að falskasta svona oft.

Þegar ég var búinn að skýra þetta út, kom spurning nr.2, En af hverju? Góð spurning sem aðeins er eitt gott svar við; Þetta er svo rosalega skemmtilegt.

Listaverk

Listar eru í uppáhaldi hjá mér. Helst vildi ég hafa lista yfir allt sem ég hef gert og á eftir að gera. Þegar daglegum yfirlestri greina af veiðilistanum mínum er lokið, innlenda fréttalistanum stungið undir stól og pólitíska listanum hent í ruslafötuna, þá kemur alveg fyrir að ég gúgla einhverja samsetningu úr top tips, fishing, todo list og þá er nú nokkrum klukkustundum reddað.

fos_bleikjutaka
Þegar vel gengur

Margir af þessum dásamlegum listum sem maður hrasar um á internetinu eru óttalega mikil vitleysa, en það kemur iðulega fyrir að maður rekst á eitthvað sem síast inn og eitt og eitt atriði hangir eftir í langtímaminninu. Ég tók það til dæmis sem mjög ákveðna vísbendingu um daginn þegar ég hrasaði í hundraðasta skiptið um lista yfir algengustu villur í flugukasti. Aha, eru æðri máttarvöld eitthvað að senda mér skilaboð? Meðal þess sem var á nokkrum þessara lista voru atriði eins og:

  • Skortur á samfellu í bakkastinu. Algeng villa hjá veiðimönnum að byrja bakkastið eðlilega, hinkra samt aðeins við á einhverjum tímapunkti og halda svo áfram í eðlilegu bakkasti. Það tók mig smá tíma að melta þetta og skilja. Jú, þetta kemur stundum fyrir þegar stöngin hjá mér er alveg að nálgast 12 á kastklukkunni, þá hægist á kastinu en svo gef ég aftur í 12:15 og alveg til kl.13.
  • Tilfinnanlegur skortur á aftara stoppi. Óþarfi að ræða þetta eitthvað frekar.
  • Úlnliðurinn opnast út í bakkastinu. Já, einmitt, úlnliðurinn. Hann er veikur hjá mér en ég hafði kannski ekki gefið því gaum að hann brotnar ekki aðeins aftur á bak, heldur sveigist hann líka út á við í bakkastinu, toppur stangarinnar fylgir þá ekki lengur beinum ferli, hann verður ávalur.
  • Framhandleggurinn ofvirkur í kasti. Já, þótt þessi partur á milli handar og upphandleggs heiti fram-eitthvað, þá á hann ekkert að vera með í framkastinu. Það er upphandleggurinn sem á að sjá um kastið. Sérlega slæmt þegar framhandleggurinn vísar orðið beint fram í enda kastsins og úlnliðurinn kominn í keng til að halda stangartoppinum upp úr vatninu.
  • Engin pása á milli fram- og bakkasts. Ætli ég verði ekki að taka þetta örlítið til mín, hef stundum heyrt í kúski á bak við mig með svipu.

Ef þú hefur fundið eitt eða fleiri atriði á þessum lista sem átt gætu við þig þá er það gott, annars verður þetta þá bara minn listi sem ég ræðst á núna í vor og lagfæri.