Þungar flugur og línur

Oval Cast

Það getur kostað töluverða æfingu að ná tökum á þungri línu og/eða þungum flugum. Ég eins og margir aðrir hef gengið í gegnum tilraunir með flotlínu og sökktaum sem alltaf hafa viljað flækjast fyrir mér, endalausir vindhnútar og máttlausar framsetningar. Síðar eignaðist ég hægsökkvandi framþunga línu og eitthvað réttist þá úr málum.

Án þess að vita nákvæmlega hvernig og hvers vegna, tók ég síðar upp á því að breyta bakkastinu hjá mér þannig að ég notaði undirhönd frá upptöku eða framkasti í ávölum boga út til hliðar aftur í öftustu stöðu. Þegar ég náði svo tökum að að skeyta hefðbundnu framkasti við þessar tilraunir mínar fóru þungu flugurnar að komast út án þess að vera fastar í perlufesti vindhnúta.

Auðvitað var ég ekki að finna upp neitt nýtt eða byltingarkennt, ég var einfaldlega að læra the hard way að kasta með belgískri aðferð, Belgian Cast eða Oval Cast. Auðvitað hefði ég getað sparað mér allar þessar tilraunir með því að leita til kastkennara, en svona er maður nú einu sinni gerður, þarf alltaf að fara erfiðu leiðina að hlutunum.

Þessi kaststíll nýtist vel við þungar flugur eða þegar við erum með fleiri en eina flugu á taumi. Í bakkkastinu myndum við víðan boga sem hjálpar til að halda flugunum aðskildum þannig að þær flækjast síður. Þrátt fyrir að hamrað sé á þröngu kasthjóli til að ná markvissari köstum þá verðum við að taka til greina að með þungum flugum eða fleiri hefur nýr öflugur kraftur bæst við línuferilinn, þyngdaraflið. Efri línan, þ.e. sú sem flytur fluguna fellur hraðar en ella og því þrengist kasthjólið ósjálfrátt þegar á kastið líður. Kastið sem byrjar í víðum bug með stóru kasthjóli endar þannig í þröngu og mjög hröðu kasthjóli þegar kastið hefur náð fremstu eða öftustu stöðu.

Hnappurinn á stönginni

Þumal-hnappurinn

Sumt er svo sjálfsagt þegar maður hefur komið auga á það að ósjálfrátt færist roði í kinnarnar, aulahrollur niður bakið. Í einhverju letikastinu um daginn tók ég mig til og horfði á Dynamics of Fly Casting með Joan Wulff.

Í myndinni fer hún mjög ákveðið yfir öll undirstöðuatriði flugukasta, meðal annars þá bráð sniðugu hugmynd að ímynda sér hnapp á stönginni sem maður ýtir mjög ákveðið á með þumlinum í framkastinu, rétt aðeins til að skerpa á hröðuninni. Þeir voru ófáir pennarnir og reglustikurnar sem fengu að kenna á tilraunum næstu dagana og nú fær stöngin að kenna á æfingunum. Ég er ekki frá því að eitthvað hafi breyst í köstunum, til batnaðar.

Ummæli

13.04.2012 – Eiður Kristjánsson – Prófaði þetta í Vífó í morgun. Kom bara nokkuð vel út :)

Svar: Já, merkilegt hvað svona lítið atriði getur bætt við kastið. Ég þarf aðeins að vinna í kaststílnum þegar ég er með nýju Switch-línuna mína, það er eins og hún kalli á aðeins meiri ákveðni heldur en ég hef tamið mér hingað til. Annars er ég ekkert nema öfundin út í þig að komast í vatnið núna, ekkert útlit fyrir veiði hjá mér um helgina.

Bestu kveðjur,
Kristján

Eisi til bakaUss, það er hrikalegt. Spáin er frábær, mætti reyndar alveg vera heitara. Vífó var gullfallegt í morgun. Smá gára á vatninu og aðstæður hinar bestar. Það var fluga í loftinu en ég sá ekki einn einasta fisk. Ekki sporð.

Ég fór 1.apríl og nældi mér þá í tvær bleikjur og einn urriða. Er búinn að fara nokkrum sinnum síðan þá en ekki orðið var við neitt líf.

Svo er það Varmáin á morgun. Er frekar svartsýnn þar sem fréttirnar úr ánni eru ekki beint upplífgandi. En ánægjan við að standa á bakkanum með stöngina í hendinni, rýnandi í umhverfið, fluguboxin og lífríkið, er engri lík. Eins og þú veist vel :)

#5 Í beinni línu

Til þess að geta framkallað þröngt kasthjól verður stangartoppurinn að ferðast í beinni línu. Ferill sem fellur í miðjunni kallar fram vindhnúta. Við höfum farið í gegnum þetta í grundvallarreglu #3. En það er önnur bein lína sem ferillinn okkar ætti að fylgja, sá sem við gætum komið auga á ef við værum staðsett fyrir ofan stöngina og horfum niður á kastið. Náum við að halda ferlinum í bæði láréttu og lóðréttu plani, uppskerum við þröngt kasthjól, þröngan línuboga og við eigum mun meiri séns á móti vindi. En það er annar kostur við þröngan línuboga, það er mun auðveldara að stjórna framsetningu flugunnar undir þröngum línuboga heldur en víðum. Víður línubogi er líka ávísun á að við missum línuna niður í fram- eða bakkastinu og við förum að glíma við sama vandann og við lýstum í grundvallarreglu #2.

Og svona hljóðar síðasta af grundvallarreglum Gammel feðganna eftir að ég hef stytt og sagt með mínum orðum nokkrar af þeim greinum sem skrifaðar hafa verið um The Essentials of Fly Casting. Klippurnar sem ég hef látið fylgja þessum greinum eru úr myndinni Casts that Catch Fish frá On the Fly Production þar sem Carl McNeil fer á kostum í frábærum sýnidæmum.

#4 Krafturinn í kastinu

Sé tekið mið af eðlisfræðinni þá þurfum við kraft til að hlaða stöngina okkar afli til að skjóta línunni okkar út. Línan fer sára lítið sé ekkert aflið í stönginni. Í þessari grundvallarreglu #4 hafa þeir Gammel feðgar tekið saman nokkur atriði sem við ættum að hafa í huga þegar við leggjum aukin kraft í kastið.

Jöfn og áreynslulaus hröðun stangarinnar er það sem hleður hana. Toppur hennar ætti að vera á mestum hraða, hafa náð mestri hröðun þegar við stöðvum hana. Of mikill kraftur, of snemma beygir stöngina of mikið þannig að toppur hennar fer niður fyrir lárétt plan í miðju kastinu og við hættum að kasta og förum að hnýta vindhnúta í staðinn. Línan fylgir nefnilega alltaf sama ferli og stangartoppurinn. Lykilatriðið í réttri hröðun stangarinnar er að hún þarf að eiga sér stað jafnt og þétt og án áreynslu. RrrrrróóóóÓ-lega, sagði kastarinn og lagði áherslu á síðasta ó-ið´, stoppaði og lagði stöngina niður í ‚-lega‘.

#3 Breytilegur kastferill

Og enn tökum við fyrir eitt af grundvallaratriðum Bill Gammel. Þetta atriði fjallar um feril stangarinnar í gegnum kastið og þörfina á að við getum breytt honum og aðlagað þegar lengist í línunni.

Þegar við stefnum á tiltölulega stutt kast, t.d. 12‘ notum við stutta færslu stangarinnar frá fremstu yfir í öftustu stöðu. Lengri köst gera kröfu um lengri og hægari færslu stangarinnar. Að þessu sögðu erum við búin að ramma inn enn eina regluna sem gott er að hafa í huga; Stutt lína, stutt færsla. Löng lína, löng færsla. En það er fleira sem við verðum að hafa í huga þegar við glímum við mismunandi línulengd. Með stuttri línu og stuttri færslu hreyfist stangartoppurinn fram og aftur nánast alltaf í sömu hæð og kasthjólið okkar verður þar af leiðandi þröngt. Þegar línan lengist lengjum við í ferlinum og ef við viljum ekki lenda í vandræðum með of stórt kasthjól verðum við að gæta þess vandlega að ferill stangartoppsins verði ekki ávalur, þ.e. munurinn á neðstu og efstu stöðu hans verði ekki of mikill. Það sem hjálpar okkur við að halda ferlinum beinum er auðvitað aukin þyngd línunnar sem við erum að meðhöndla. Lengri lína, aukin þyngd, sem ásamt auknu afli sem við leggjum í kastið sveigir stöngina betur, hleður hana meira og við getum nýtt okkur þetta til að halda stangartoppinum í beinni línu í gegnum ferilinn.

Með einfaldri samlagninu á reglu #2 og #3 fáum við út; Stutt lína, stutt færsla, stutt bið. Löng lína, löng færsla, löng bið.

Ummæli

Siggi Kr : Ég á þessa mynd (Casts that catch fish) og get alveg sagt að þetta er að mínu mati með betri myndum sem útskýra köst og kasttækni. Mæli með því að ef þið hafið einhver tök á að nálgast hana að þið gerið það jafnvet þó þið séuð reyndir kastarar.

#2 Tímasetning

Annað grundvallaratriði þeirra Gammel feðga snýr að tímasetningu í kastferlinum okkar. Og eins og áður þá fylgir klippa með Carl McNeil með greininni þar sem hann rekur málið í smáatriðum.

Tímasetning er vandamál sem flestir veiðimenn glíma oft og iðulega við. Þegar við við skiptum á milli bak- og framkasts verðum við að hinkra örlítið við á meðan línan réttir úr sér áður en við leggjum af stað í framkastið. Ef við hinkrum of lengi myndast slaki á línunni og við sláum flugunni niður í vatnið eða jörðina að baki okkar. Ótímabær hröðun í framkastið verður aftur á móti til þess að enda línunnar er þröngvað í stefnubreytingu áður en hann hefur rétt úr sér og við heyrum þennan óþægilega svipusmell sem flest okkar könnumst við. Fræðilega séð er líka möguleiki að framkalla svipusmell í lok framkastsins, en staðreyndin er aftur á móti sú að það gerist sára sjaldan. Ástæðan er einföld; við fylgjumst betur með því í framkastinu að línan nái að rétta úr sér áður en við leggjum af stað í bakkastið; Ergo, tímasetningin okkar er betri í framkastinu. Ef við látum það nú eftir okkur að fylgjast eins vel með línunni í bakkastinu eins og við gerum í framkastinu, þá má bæta tímasetninguna þar til mikilla muna. Allt byggist þetta á ákveðinni þolinmæði, smá bið eftir því að línan nái að rétta úr sér. Þessi bið er í réttu hlutfalli við lengd þeirrar línu sem við erum að vinna með hverju sinni. Stutt lína, stutt bið. Löng lína, löng bið.

#1 Útilokaðu slaka

Fá verk hafi haft jafn mikil áhrif og vakið jafn mikla hrifningu kastsérfræðinga og veiðimanna síðustu árin eins og The Essentials of Fly Casting eftir þá feðga Jay og Bill Gammel. Margir hafa gripið þetta efni og lagt út frá því, jafnt í riti sem og á mynd og má þar nefna fjölda greina á midcurrent.com, sexyloops.com og síðast en ekki síst FFF Federation of Fly Fishers. Hér á eftir ætla ég að setja fram mínar hugleiðingar og skilning á þessum grundvallaratriðum Gammel feðga.

Alveg sama hvort við erum byrjendur eða lengra komin, jafnvel ævafornir veiðimenn, þá er slakinn á línunni oftar en ekki að flækjast fyrir okkur. Sé línan ekki strekkt í upphafi kasts fer mikill kraftur og fyrirhöfn í að ná hleðslu í stöngina, nokkuð sem má forðast með því að byrja með strekkta línu. Skipuleggðu kastið alveg frá upphafi, losaðu þig við allan slaka með því að draga línuna inn eða nota  t.d. eitt veltikast til að leggja hana vel út áður en þú tekur hana upp í nýtt kast. Ef þú notar upptökuna til að rétta úr línunni þá sóar þú afli sem annars væri betur varið í að hlaða stöngina fyrir næsta kast. Það er ekki ráð að beita meira afli í upptöku til að losna við slaka. Ótímabær hröðun á línu getur kallað fram nokkurs konar höggbylgju sem færist niður eftir stönginni, stöðvast í úlnliðnum á þér og leitar síðan aftur upp eftir stönginni í aftara stoppi og eyðileggur það. Okkur hefnist alltaf fyrir ótímabæra hröðun.

Haustvindar

Það er nú raunar ekki aðeins á haustin sem ‚haustvindarnir‘ blása, þannig að þessi punktur á víst líka við um aðrar árstíðir. En sama á hvaða árstíma vindurinn blæs, þá eigum við fluguveiðimennirnir nokkur ráð til að sigrast á honum:

  1. Auka hraða línunnar – Einfaldasta ráðið er að nota tví-tog (double haul) til að auka hraða línunnar því þannig náum við að skera vindinn betur. Ef þú ert í vandræðum með tví-togið þá er smá ábending hérna en svo er auðvitað alltaf hægt að hóa í vanan veiðimann eða kennara og biðja hann um að fara yfir grunninn með þér.
  2. Straumlínulagaðri flugur – Með því að nota straumlínulagaðri flugur þurfum við ekki að eiga eins mikið við loftmótstöðu og því er almennt auðveldara að koma þeim út heldur en bústnum, belgmiklum flugum.
  3. Þrengri línubogi – Þrengri línubogi gefur undir öllum kringumstæðum fyrirheit um betra/fallegra kast, sérstaklega þegar vð eigum við vind. Þrengri línubogi næst með æfingu, æfingu, æfingu og leiðsögn.
  4. Við yfirborðið –Því nær yfirborðinu sem þér tekst að kasta, því minni vindur er á ferðinni, bókstaflega. Færðu kasthornið aðeins fram á við til að ná ferlinum niður eða kastaðu undir hönd. Það er ekki öllum gefið að kasta undir hönd en það eins og annað kemur með æfingunni.
  5. Þyngri lína / taumur – Það gefur nokkuð augaleið að þyngri lína á auðveldara með að kljúfa loftmótstöðuna og því eðlilegt að menn noti þyngri línu á móti vindi. Annað ráð er að nota sömu þyng og ‚venjulega‘ en skipta yfir í hálfsökkvandi eða hraðsökkvandi línu, þær eiga auðveldara með að kljúfa vindinn heldur en hefðbundin flotlína. Fyrir þá sem ná tökum á sökkendum þá gera þeir sama gagn.
  6. Öfugt kast – Prófaðu að snúa þér undan vindi (upp að bakkanum), byggðu kastið upp eins og venjulega en láttu síðan bakkastið um að flytja línuna út á vatnið. Merkilegt nokk, þetta virkar hjá þeim sem komast upp á lagið með þetta.

Kastkennarinn

Ég hef áður nefnt ágæti þess fyrir byrjendur og lengra komna að leita til kastkennara, þó ekki væri nema til þess að fríska upp á stílinn eða leiðrétta villur sem slæðst hafa inn yfir sumarið. Haustið er tæplega sá tími sem maður hugar mest um þetta, og þó. Ég einsetti mér síðla vetrar sem leið og langt fram eftir vori að taka nokkra tíma hjá góðum kastkennara til að lagfæra ýmislegt sem ég veit að hefur ekki verið í lagi hjá mér, en nú er komið haust og ekkert varð úr þessu hjá mér. Eftir langt vor kom loksins sumar og ég kom mér aldrei til kennara. En hvað er góður kastkennari?

Sumir kastkennarar kenna þér að klemma Mogga undir handlegg, kasta naumt og hnitmiðað á meðan aðrir kenna þér að stíga fram og aftur, láta allan líkamann fylgja kastinu, kraftakast. Ég hef fengið ‚krasskúrs‘ hjá aðila sem gefur sig út fyrir að vera kastkennari, en mér dytti aldrei í hug að fara til hans á heilt námskeið. Ég harðneita því að kaststíllinn minn sé svo lélegur að það þurfi að sturta honum algjörlega niður og ég þurfi að taka upp kraftastíl sem gerir þá kröfu að ég sé dansandi skrykkdans við stöngina frá því ég tek upp og kem línunni aftur út, sem lengst. Frá fyrstu stundu hef ég hrifist af því hvernig ‚old fasion‘ enskir veiðimenn ná að leggja línuna fram í fáum, mjúkum og að því er virðist áreynslulausum köstum með nákvæmni upp á tommu, það er stíll sem mig langar að ná. Og þá komum við kannski að því hvað góður kastkennari er.

FFF (Federation of Fly Fishers) hefur unnið að því hörðum höndum að staðla kastkennslu og að því er mér virðist; skerpa á þeim skilningi að við erum öll mismunandi gerð og höfum mismunandi þarfir, jafnvel löngun til að læra mismunandi stíl. Ég játa að ég hrífst nokkuð af þessu og því hvernig þeir nálgast viðgangsefnið; ekkert eitt er rétt og ekkert er svo meitlað í stein að ekki megi breyta því. Ég vil fara til kastkennara sem getur leiðbeint mér í þá átt sem ég vil fara, ekki þá sem hann vill. Að þessu leiti er ég svo heppinn, eins og allir aðrir veiðimenn á Íslandi að við eigum núna tvo vottaða FFF flugukastkennara; Hilmar Jónsson og Börk Smára Kristinsson auk manna eins og Stefán Hjaltested sem hafa áratuga reynslu af kennslu og kunna að umbera mismunandi óskir nemenda sinna. Næsta vor ætla ég ekki bara að huga að þessu, heldur láta verða að því að fara til kennara.

Fluguna í ruslið

Að velja flugu, leggja hana fram og koma henni langt út eru allt gild atriði sem við viljum hafa í huga þegar við veiðum. Eitt atriði til viðbótar sem vill þó oft gleymast er; koma flugunni á réttan stað. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við viljum koma flugunni okkar á einhvern ákveðinn stað. Kannski leynist fiskurinn við stein, kannski liggur hann þétt við gróðurfláka eða undir bakkanum þannig að við verðum að gæta vel að framsetningunni svo við eigum ekki á hættu að tapa flugunni, styggja fiskinn og þá missa af honum. Þá getur ruslakarfan komið að góðum notum. Prófaðu að fara út á grasflötina með ruslafötuna eða nýttu ferðina þegar þú ferð út með ruslið og gríptu stöngina með þér. Að stilla fötunni upp, merkja sér 4, 6, 8 & 10 metra fjarlægð frá henni, taka nokkur lauflétt köst þangað til að þú nærð því að láta fluguna detta niður í fötuna geta sparað þér mikið angur í veiðinni og gert hana enn meira spennandi en ella. Mundu bara að ofgera ekki æfingunum, oftar og stutt í einu er betra en lengi og sjaldan.

Göslarinn veiðir líka

Göslarinn veiðir líka þegar hann veður út frá bakkanum, hræðir fiskana á undan sér, hendir beitunni út og göslast aftur upp á bakkann, setur stöngina í letingjann og bíður, en…… svæðið sem fiskurinn heldur sig á meðan kyrrð og ró hvílir yfir vatninu er mjög lítið m.v. það svæði sem hann kýs sér sem öruggt skjól verði hann fyrir áreiti. Það er í eðli silungsins að leita út frá bakkanum, út í dýpið ef hann styggist. Hann víkur sér ekki til hliðar, færir sig um nokkra metra og leggst þar fyrir, hann leitar út í öryggið og þar með stækkar svæðið verulega sem hann getur leynst í og veiðimaðurinn þarf að auglýsa agnið sitt á. Nákvæmlega sömu reglur eiga við fluguveiði, við getum þurft að halda kyrru fyrir í töluverðan tíma þar til fiskurinn kemur aftur inn á yfirráðasvæði okkar ef við förum ekki varlega.

Eftir töku

Þegar silungurinn hefur tekið og við höfum brugðist rétt við, reist stöngina upp og strengt á línunni er mikilvægt að við höfum fulla stjórn á henni. Örlítill slaki á línu gefur fiskinum færi á að losa sig af með því að skipta snögglega um stefnu í vatninu. Ég tel mig þekkja persónulega nokkra eldri og virtari silunga á Íslandi sem hafa reynslu af því að losa sig af flugu. Þeir eru útsjónarsamir, hægfara og rólegir í tíðinni, bíða eftir því að ég slaki örlítið á, kannski til að teygja mig eftir háfinum, en taka þá á rás að mér eða hnykkja hausnum til annarrar hliðarinnar, helst þeirrar sem er gagnstætt flugunni. Niðurstaðan; þeir halda áfram að lifa villtir í íslenskri náttúru og ég stend eftir með dúndrandi hjartslátt og adrenalínið á fullu. En hvað er þá til ráða? Jú, halda línunni alltaf strekktri og varist hausahnykki og loftköst. Enski frasinn tight lines er engin steypa, höldum línunni strekktri.

Slíta eða vaða

Ég hef áður birt smá hugleiðingar um viðbragð okkar við töku, en hvenær vitum við að fiskurinn hefur tekið? Sagt er að við missum af c.a. 75% alls áhuga silungs vegna þess að við finnum ekki tökuna eða stimplum hana sem krak í botni eða grjóti og sleppum línunni lausri í stað þess að halda henni strekktri. Vanir veiðimenn telja sig auðveldlega greina munina á töku og kraki við steina, ég er greinilega bara byrjandi vegna þess að ég treysti mér sjaldnast til að greina þarna á milli. Oftar en ekki kasta ég aftur á sama stað, dreg inn með sömu aðferð og bíð þess að kraka í sama steininn aftur. Nú, ef það gerist ekki þá fyllist ég von um fisk, kasta enn og aftur og breyti jafnvel aðeins inndrættinum. Ef ég festi aftur á móti í steini þá er um tvennt að velja; slíta fluguhnútinn og hnýta nýjan taum og flugu eða reyna öll ráð til að losa eins og t.d. að vaða aðeins út og húkka úr steininum. Kostir og gallar; ef ég slít, þá tapa ég flugu (mér finnst gaman að hnýta flugur þannig að þetta er ekki stór ókostur), ef ég veð út þá á ég á hættu að styggja þann fisk sem mögulega er á milli mín og flugunnar. Fyrir mér er þetta einfalt; ef ég næ ekki að losa fluguna með einföldu móti þá slít ég frekar. Að veiða við botninn kallar á fórnir, ein og ein fluga ásamt nýjum taumaenda vegna þess að þegar við slítum, þá tognar yfirleitt á taumendanum og við verðum að skipta honum út ef við viljum ekki taka sénsinn á að sá stóri slíti.

Magaskellur

‚Killing me softly‘ söng Roberta Flack um árið. Mér verður stundum hugsað til þessa lags þegar ég hef verið að berja vatnið í nokkurn tíma og er alveg að missa mig í að þenja köstin út til stóru fiskanna sem eru í dýpinu. Ósjálfrátt slaka ég á og næ köstunum mínum niður um nokkrar kaloríur, eyði minni orku og legg meiri áherslu á mýkt og ákveðni. Að detta svona úr takti þegar illa gengur í veiðinni er nokkuð sem fylgir mönnum víst og þá er um að gera að búa sér til einhvern varnagla sem slær á puttana á manni, færir köstinn aftur niður á það plan sem maður ræður við og framsetning línunnar verður aftur viðunandi. Fluga sem fellur mjúklega á vatnið er vænlegri til veiði heldur en sú sem skellir sér með skvampi í djúpu laugina og hræðir allt og alla frá sér. Snéri maður sér ekki alltaf undan þegar bekkjarfíflið sýndi magaskell í skólasundinu í gamla daga?

Draugagangur

Vindhnútar og svipusmellir í framkasti eru eins og draugar sem fylgja fluguveiðimanninum. En draugar þurfa ekki alltaf að vera okkur til ama. Ef við viljum ekki í sífellu vera að snúa okkur úr hálsliðnum til að fylgjast með línunni í bakkastinu getum við framkallað draug með því að telja (í hljóði) frá því við hefjum framkastið og þangað til línan hefur rétt fyllilega úr sér. Ef við teljum upp á nýtt í bakkastinu og höldum í okkur þar til sömu tölu er náð, þá finnum við fyrir drauginum taka örlítið í stöngina okkar. Þessi draugur er að segja okkur að línan hefur rétt úr sér og okkur sé óhætt að hefja framkastið með mun minni líkum á vindhnút eða svipusmelli. Með tíð og tíma hættum við að telja en höldum áfram að finna fyrir drauginum. Galdurinn er að það tekur línuna jafn langan, stundum lengri tíma að rétta úr sér í bakkastinu eins og í framkastinu.

Að aðlagast línunni

Hingað til hef ég haldið mig við eina stöng í silunginn, 9′ 5/6 með WF6-F línu og komið púpunum mínum niður með því að þyngja þær eða bögglast við að nota sökktaum. Hef raunar alltaf átt í basli með köstin og sökktauminn þegar slynkurinn tekur öll völd og flugan slæst í línuna ef hún kemst þá á annað borð eitthvað fram úr 12 fetunum. En nú hef ég verið að fikra mig áfram með nýja stöng, eilítið léttari með flotlínu nr.5 og sökklínu nr.4. Þetta hefur kallað á nokkrar breytingar á kaststílnum, sérstaklega fyrir WF4-F/S3 línunni, víðari bugur og hægari köst. Sökklína nr.4 sem ætti að vera léttari heldur en flotlína nr.6 virkar bara hreint ekki þannig þegar maður kastar henni, en með ofangreindum breytingum á kaststílnum gengur mér samt betur en með WF6-F og sökktaum. Væntanlega hefur þetta eitthvað með samræmi línunnar og sökkendans að gera, nokkuð sem mér hefur reynst erfitt að ná fram með flotlínu og sökktaum. Ef þér hefur gengið illa með flotlínu og sökktaum, prófaðu þá framþunga, hægsökkvandi línu með allt að 12′ sökkenda í vatnaveiðina.

Kartöflukastið

Þegar tíðarfarið er hryssingslegt og lítið um að vera í veiðinni leitar maður aftur að hnýtingarbekknum eða fer í huganum yfir kasttæknina, nokkuð sem maður ætti víst frekar að vera að hugsa um síðla vetrar, rétt fyrir tímabilið. Inniæfingar í fluguköstum eru nokkrum annmörkum háðar eins og gefur að skilja, en þar með er ekki sagt að öll sund séu lokuð. Það eru til nokkrar æfingar sem hægt er að taka í bílskúrnum án þess að hætta á að brjóta toppinn af stönginni. Ein þessara æfinga er ‚kartöflukastið‘. Ef fremra og/eða aftara stopp er ekki alveg nógu ákveðið hjá þér er ágætt að taka venjulega kartöflu (ósoðna) og stinga henni á venjulegan matargaffal. Vertu staðsettur c.a. bíllengd frá bílskúrshurðinni og haltu á gafflinum eins og flugustöng með olnbogann upp að síðunni og reistu framhandlegginn þannig að kartaflan nemi við augnhæð. Færðu höndina í aftara stopp og taktu gott framkast með ákveðnu stoppi. Markmiðið með æfingunni er að reyna að losa kartöfluna af gafflinum með fremra eða aftara stoppinu einu saman. Þegar þér svo tekst það, settu hana aftur á og nú aðeins dýpra og endurtaktu leikinn. Þetta hljómar auðvitað allt frekar sauðslega en merkilegt nokk, virkar ágætlega til að skerpa á köstunum.

Línan

Sumir hafa kallað þetta frumskóg, aðrir nammiland en ég hef hingað til viljað halda mig við KISS (keep it simple stupid) og hef því nánast eingöngu notast við framþungar flotlínur (WF-F) og lítið hirt um að skoða eða prófa aðrar gerðir. En, með nýrri stöng sem ég eignaðist fyrir skömmu neyddist ég til að kynna mér úrvalið af línum. Ég hef einhverja áráttu fyrir litlum og nettum hjólum þannig að það eina sem ég lagði af stað með var; hún verður að vera ómynnug.

Þar sem ég er enginn sérfræðingur í línum varð ég að leita út fyrir eigin þekkingu. Auðvitað hefði ég getað smellt inn spurningu á veiðiblogg eða lesið mér til í þeim urmul greina um línur og línuval sem er að finna á netinu en þá hefði ég vel getað endað með fleiri ‘góða kosti’ en kortið mitt leyfir og verið jafn ráðviltur eftir sem áður. Þótt það stríði gegn eðlinu (eins og spyrja til vegar, rammviltur í einhverjum útnára Noregs) þá tók ég þann kostinn að leita til eins aðila sem ég veit að stundar svipuð vötn og ég og spyrja hann allra mögulegra og ómögulegra spurninga. Á endanum tókst honum að vekja hjá mér áhuga á að prófa eitthvað umfram ‘ómynnugu’ WF-F línuna sem ég ætlaði mér upphaflega að kaupa. Þannig er það að ég er núna kominn með fullklædda létta 9′ stöng með granna WF5-F línu og á aukaspóluna sættist ég á að setja WF4F/S3 með 12′ sökkenda.

Inntakið er; Ef við erum í vafa, finnum okkur aðila sem við getum samsvarað okkur við og spurt ráða. Þessi aðili getur verið vinur, starfsmaður í veiðibúð eða hver sem við berum traust til, svo lengi sem við höfum nokkra vissu fyrir því að hann hafi reynslu af því sem við viljum prófa.

Viðbragð

Smellið fyrri stærri mynd

Lang algengasta viðbragð okkar við töku er að reisa stöngina beint upp, eins hátt og armlengdin leyfir. Þetta er gott og gilt, svo lengi sem fiskurinn tekur ekki upp á þeim óskunda að stökkva örskömmu síðar og vinna sér þannig inn slaka á línunni og losa sig.

En það er til ráð við þessu. Í stað þess að reisa stöngina beint upp getum við tamið okkur að reisa hana upp undir 45° horni, upp og til hliðar (2) aðeins helming þeirrar hæðar sem við notum venjulega (3). Með þessu móti höfum við tekið jafn mikinn slaka af línunni eins og við hefðum reist hana upp í topp, en eigum ennþá inni nokkra hæð ef fiskurinn tekur stökkið eða stímið í áttina að okkur.

Staðan

Enn og aftur kemst maður í hann krappann. Í þetta skiptið kemur upp spurningin í hvorn fótinn á að stíga. Við straumvatn þykir oft gott að hafa þann fótinn framar sem nær er vatninu, þ.e. hægri fót sé veitt af vinstri bakka og öfugt. Þetta á sérstaklega við um þá sem bregða fyrir sig Spey-köstum.

Sjálfum þykir mér alltaf best að hafa þann vinstri framar á vatnsbakkanum, ég er rétthentur. Þessi afstaða gerir mér kleyft að ráða við lengri kastferill ef þarf og eykur mýktina og samhæfinguna í öllum hreyfingum. Annað sem vert er að hafa í huga er að snúa sér alltaf beint á kaststefnuna, axlir í 90° á kastið.