Nú geta lesendur botnað fyrirsögnina á þessum þankagangi mínum alveg eftir eigin höfði. Hvað kæmi þá upp úr hattinum er eflaust eins mismunandi og þið lesendur góðir eru margir en ef ég læt nú hugan reika um möguleg svör, þá gæti þessi grein þróast eitthvað á þessa leið;
… skítt – Já, það eru eflaust margar góðar og gildar ástæður fyrir því að hafa það skítt, en þegar öllu er á botninn hvolft og miðað við hvar þú ert staddur á netinu, þá eru mestar líkur á að þú sért orðinn þreytt(ur) á að bíða eftir vorinu og fyrstu vötnin fara að opna fyrir alvöru. Þraukaðu, það er að styttast. Hefur þú prófað að hnýta flugur til að stytta biðina?
… þokkalegt – Gott, það er miklu betra heldur sá sem svaraði hér á undan. Miðað við svarið, þá ert þú nú samt að bíða eftir því að komast í veiði en drepur tímann sem annars hefði farið í biðina með því að hnýta nokkrar flugur.
… bara gott – Það er bara ekkert annað, ánægjulegt að heyra. Ertu búinn að hnýta svona margar og ert bara klár í sumarið?
… alveg frábært – Nú, já. Við erum sem sagt fleiri sem erum svona jákvæð. Ég er líka svona rosalega góðu, sérstaklega eftir að ég var að klára að lesa enn einn af 10 nauðsynlegustu hlutunum sem ég fann á netinu.
Eftir að hafa lesið nokkra svona go-to lista fyrir veiðimenn víðsvegar að úr heiminum, þá var ég alveg gáttaður á öllum þeim mögulegum og ómögulegum hremmingum sem veiðimenn þurfa að gera ráð fyrr að lenda í og þurfa að vera undirbúnir með hinum og þessum græjum.
Hver tekur með sér flautu, svona neyðarflautu með þrýstiloftskút og hvers vegna? Jú, þú gætir villst í skóginum og beinlínis þvælst í endalausa hringi þar til allt þrek er uppurið og þú drepst úr vatns- og næringarskorti. Þá er gott að vera með svona þrýstiloftslúður til að kalla á hjálp. Ég ætla að bregða fyrir mig gömlum brandara og segja; Stattu bara upp og sjáðu hvar þú ert staddur. Skógar á Íslandi eru nú fæstir þannig að maður villist í þeim (hef nú reyndar gert það einu sinni í Borgarfirðinum og sá skógur var ekki stór).
Hver tekur með sér bjarnadýrafælu í veiðiferð á Íslandi (aðrir en þeir sem fara á Skagaheiðina)? Þetta er í alvörunni á gátlista veiðimanna í US, Kanada og Rússlandi. Sums staðar er það meira að segja skylda að vera með svona úðabrúsa með sér, annars færð þú ekki að fara inn á ákveðin svæðin. Ég þakka bara fyrir að þurfa ekki að vera með svona græju í bakpokanum mínum, hann er bara alltaf að léttast.
Vatnshreinsitæki (ég þurfti meira að segja að gúggla hvað þetta væri). Það er ekkert meira áríðandi en taka með sér vatnshreinsitæki í veiðiferð. Þú gætir mögulega ofþornað í skyndilegri hitabylgju og eina vatnið sem þú finnur er af ókunnum uppruna, að öllum líkindum þræl mengað og ódrekkandi. Enn hefur mér reyndar ekki orðið misdægurt að drekka vatn úr næsta læk á Íslandi, meira að segja þó ofar við lækinn sé veiðimaður sem nauðsynlega þarf að spræna út í lækinn, eins og það sé ekki nóg pláss í hina áttina. Eigum við að nefna dauðar rollur? Nei, það er óþarfi. Íslenskt lambakjöt er svo hreint að manni verður ekki einu sinni misdægurt af því að drekka það úldið og uppleyst úr einhverjum læk.
Adrenalín penna þurfa allir veiðimenn að hafa við hendina þegar haldið er til veiða. Hver veit hvaða skordýr sitja fyrir manni og bíða þess eins að stökkva upp á bera leggina, bíta og sjúga sig fasta, þamba blóðið úr manni og skilja eftir einhvern bráðdrepandi ófögnuð í sárinu? Ég ætla ekki að draga úr því að þeir eru vissulega til sem eru með bráðaofnæmi fyrir ýmsu skordýrabiti, en svona að öllu jöfnu geta flestir skilið EpiPen eftir heima, nema leiðsögumenn, þeir eiga að vera með svoleiðis á sér, alltaf.

Sjúkrakassa með 20 – 50 nauðsynlegustu tækjum og tólum til að sótthreinsa sár og fleiður, framkvæma minni skurðaðgerðir á staðnum og búa um beinbrot. Sko… nei ég ætla ekki alveg út í þessa umræðu. Ég er fæddur og uppalinn úti á landi fyrir rúmlega 50 árum síðan (lesist sem tæplega 60 ár) þar sem leiksvæðið var óbyrgður húsgrunnur, slippur með aflóga bátum og fjara. Já, fjara sem var full af stórhættulegum pollum og kviksyndi, klöppum og opin fyrir endalausu Atlantshafi alveg suður til Azoreyja. Ef maður fékk skeinu, þá brá maður einhverju grasi eða fjöruarfa á báttið, kláraði leikinn og fékk svo plástur þegar heim var komið, allt of seint í kvöldmat. Reyndar er ég með plástur í minni veiðitösku, smá gaffateip og svona hótel saumakitt til að rimpa saman stærri skurði ef blæðir í gegnum gaffateipið, það er svo leiðinlegt að fá blóð í veiðifötin. Hvað er ég eiginlega að segja? Ég veiði mér til matar og það er kvittun fyrir fisk í matinn að vera með smá blóð á vöðlunum, ég skola bara af þeim þegar heim er komið.
Ég hef það semsagt alveg frábært. Á heima á Íslandi þar sem ég þarf litlar áhyggjur að hafa af stórslysum, árásum stærri spendýra eða mér minni skordýra (lúsmý?) get drukkið vatn þar sem mig langar til og er í sára lítilli hættu að villast. Og hvað með það þótt ég villist? Það er örugglega einhver veiðistaður í þá átt sem ég villist í.