BAB – Babbinn – Kibbi

Hér er á ferðinni fluga, ekki einhöm. Margir þekkja hana sem Kibba, aðrir sem Babbann og svo þekkir einstaka maður hana undir upprunalegu nafni sínu; BAB sem hún var skírð í snarhasti árið 2000 í höfuðið á höfundi sínum.

Eins og sjá má er þetta göldrótt fluga með eindæmum, einföld og bráðdrepandi eins og margar veiðibækur á Íslandi sanna. Höfundur hennar, Björgvin A. Björgvinsson notaði hana fyrst opinberlega í Íslandsmótinu í silungsveiði árið 2000, en þá hafði hann þegar reynt hana frá árinu 1996 í nokkrum útfærslum.

Úr sömu ættkvísl flugna má nefna Amalíu Þórs Nielsen og fluguna hans Sveins Þórs, Matta sem er að vísu með roðavafning í vínilnum en sver sig alveg í ættina.

Höfundur: Björgvin A. Björgvinsson
Öngull: Grupper 10-16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil
Kragi: Orange Globrite
Haus: Gullkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ívar í Flugusmiðjunni setti saman stutt kennslumyndband sem við látum fylgja hér með:

Higa’s SOS

Stundum fellur maður alveg flatur fyrir flugum sem dúkka upp á netinu. Þannig er því farið með mig og þessa flugu Spencer Higa.

Í hnýtingarleiðbeiningum og umfjöllun á netinu er mælt með þessari flugu í stærðum 16-20 en ég hef prófað að hnýta hana alveg upp í #10 og þannig kemur hún líka virkilega vel út.

Hvað það er sem kveikir í manni gagnvart þessari flugu veit ég ekki, kannski bara hvað hún ber mikinn keim af Mýslu Gylfa Kristjánssonar nema að þessi er svolítið flugulegri heldur en Mýsla.

Frá því þessi fluga kom fyrst fram hafa margir spreytt sig á litavali í hana, sjálfur hef ég snúið henni við þannig að rautt verður svart, svart verður rautt og silfrað verður gyllt. Þannig veiðir hún ekkert síður.

Höfundur: Spencer Higa
Öngull: Grupper 10 – 20
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Svört fasanafjöður / önd
Vöf: Silfurvír
Bak: Rautt floss
Kragi: Svart dub (t.d. Hareline Ice Dub)
Haus: Silfurkúla

Þess ber að geta að sumir hnýtarar hafa laumað á fluguna vængstubb úr hvítri- og svart dröfnóttri fjöður og fest hann fyrir framan kraga. Þannig klædd ber hún heldur betur keim af mörgum öðrum flugum sem líkja eftir mýflugu á leið upp að eða við yfirborð vatnsins.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10 – 20 12-14 10 – 20 10

Í myndbandinu hér að neðan setur Eiður Kristjánsson og flotta útgáfu af þessari flugu:

Hér að neðan er nokkuð eldra myndband þar sem Grant Bench hnýtir sína útgáfu:

March Brown

Þrátt fyrir að vera ein af ‘gömlu’ flugunum hefur March Brown ekki verið neitt afskaplega vinsæl hin síðari ár hjá okkur á Fróni, sem er í sjálfu sér einkennilegt því hér er á ferðinni fluga sem á ættir sínar að rekja í silungsveiði Hálanda Skotlands og fór fyrst á prent 1886 í flugubíblíu Pritt’s, North Country Flies. Fluga sem hefur alla tíð gefið vel í vatnaveiði á Bretlandseyjum og víðar.

Áhugi minn á þessari flugu vaknaði að ráði í sumar þegar ég fikraði mig áfram með áberandi gylltar útgáfu þekktra flugna eins og Pheasant Tail og fleiri, þannig að ég ákvað að koma uppskrift af henni fyrir á blogginu og þá sérstaklega þegar snillingurinn Davie McPhail setti myndband af henni á YouTube.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Rauður / orange / dökk brúnn 8/0
Skott: Bronze Mallard (sumir vilja þó sleppa skottinu)
Vöf: Gylt tinsel
Búkur: Grá-brúnn refur / íkorni / héri
Kragi: Fasanafjöður
Vængur: Fasanafjöður (væng gjarnan sleppt ef skotti er sleppt)
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér setur Davie McPhail toppinn á kökuna með því að hnýta full-klædda March Brown, með skotti, væng og kraga, glæsileg fluga.

Dúskur

Einhver auðveldasta fluga sem hægt er að hugsa sér; öngull og dúskur. Þessi er í sama flokki og Hrognið bæði hvað varðar viðfang og uppskrift, eitthvað sem ég sauð saman.

Mjög einföld aðferð; þræðið tilbúinn dúskinn upp á öngulinn, dropi af lími sitt hvoru megin og þá er málið dautt.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: Grubber
Búkur: Appelsínugulur skrautdúskur (fást í pakka í Söstrene Grene)
Lím: Crazy Glue

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14  10,12,14 10,12,14 10,12,14

Hrognið

Þegar eitthvað nýtt rekur á fjörur manns er sjálfsagt að deila því. Ekki dettur mér í hug að taka mér einhvern heiður af þessari flugu, fann bara enga uppskrift af henni eins og ég prófaði, og læt því slag standa og birti þessa.

Uppskriftin er tiltölulega einföld, eina sem þarf er töluverð þolinmæði og umfram allt skipulag því þessa flugur er eins gott að hnýta margar í einu. Aðferðin en einföld; þræddu skrautperlu(r) upp á öngulinn og festu hann í vise eða korktappa (marga í krans fyrir fjöldaframleiðslu). Ef þú ætlar að nota lakk til að mynda hrognið, mæli ég með að setja einn dropa af Crazy Glue við perluna til að festa hana á öngulinn. Lakkið sem þú notar ætti helst að vera úr dósinni sem þú gleymdir að loka um daginn og varð aðeins of þykkt fyrir fluguhausa, það lekur síður. Settu aðeins lítinn dropa á perluna í hverri umferð og leyfðu því að þorna vel á milli. Sama regla gildir í raun ef þú ætlar að nota Epoxíð, leyfðu því að þorna vel á milli umferða. Umferðirnar geta orðið nokkuð margar eða allt þar til þú nærð u.þ.b. 3-5 mm kúlu á öngulinn.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: Grubber
Búkur: Appelsínugul skraut perla eða tvær (fást í Litir og föndur)
Lím/lakk: Epoxíð lím eða staðið lakk

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14  10,12,14 10,12,14 10,12,14

Ummæli

12.02.2013 – Brynjar M. Andrésson: Ertu með eitthverjar veiðisögur af þessu ‘skrípi’?

Svar: Nei, það verður nú að viðurkennast að ég hef ekki gert stóra hluti með svona flugu, en… prófaði hana eitt sinn þegar bleikja var í hryggningu og urriðinn sýndi henni töluverðann áhuga, samkeppnin var bara svo mikil í vatninu að mér varð ekkert ágengt, allt of mikið af hrognum á ferðinni.

Montana

Hér er á ferðinni fluga sem á ættir sínar að rekja til norðurhéraða Bandaríkjanna. Upphaflega hnýtt af Lew Oatman fyrir vatnsmiklar ár Montana en flugan hefur skipað sér fastan sess meðal vinsælustu vatnaveiðiflugna á Íslandi. Upphaflega átti þessi fluga að líkja eftir steinflugu og því ekki gott að segja til um hverju hún líkist í íslenskri náttúru því við eigum aðeins eitt afbrigði þeirrar flugu, ófleyga afbrigðið Capnia vidua. 

Þessi fluga hefur gert það nokkuð gott í vötnum í nágrenni höfuðborgarinnar, svo sem Kleifarvatni, Meðalfellsvatni og eflaust víðar.

Höfundur: Lew Oatman
Öngull: Hefðbundin 6 – 14
Þráður: Svartur 8 /0
Skott: Svartar stélfjaðrir
Búkur: Svart chenille
Frambúkur: Gult chenille með svartri chenille rönd
Hringvöf: Svartar hanafjaðrir

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 6, 8,10,12,14

Killer

Ef efnt yrði til landsmóts flugna þá yrði Killer Þórs Nielsen á heimavelli á Þingvöllum. Um árabil hefur þessi fluga verið nefnd fyrst allra þegar spurt er um flugur í Þingvallavatn. Upphaflega hönnuð árið 1975 og síðan hafa komið jafnt og þétt nýir litir af henni þannig að nú þekkist hún svört, rauð, hvít, grá, orange, brún o.s.frv. Fjölbreytnin í kúlum er síðan óendanleg; gylltar, silfraðar, svartar, nefndu það bara og prófaðu.

Að veiða þessa flugu á Þingvöllum á að kosta afföll því ef þú veiðir hana ekki svo hægt að hún kraki í botninum annars lagið, þá ertu að veiða hana of hratt.

Killer – Rauður
Killer - Svartur: Júní,Júlí
Killer – Svartur

Höfundur: Þór Nielsen
Öngull: Hefðbundinn 8 – 10
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfurvír, fínn
Bak: Hvítt árórugarn (ull)
Búkur: Svart árórugarn
Kragi: Rautt globrite og svartur þráður
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
8,10 8,10

Hér að neðan gefur að líta myndband frá Ívari í Flugusmiðjunni þar sem hann hnýtir Killer:

Kopar Moli

Koparflugur hafa sótt töluvert í sig veðrið síðustu ár og að sama skapi hefur útgáfum og útfærslum þeirra fjölgað verulega. Þekkt erlend er vitaskuld Copper John sem finnst í ótal afbrigðum, en íslenska koparflugan er vitaskuld Kopar Moli.

Koparflugur hafa gefið vel í vatnaveiði og andstreymis í straumi.

Flestar koparflugur eru tiltölulega einfaldar í byggingu og efnisvalið hreint og beint; öngull, koparvír, thorax-efni og kúla, ef vill.

Höfundur: Gísli J. Þórðarson
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Búkur: Koparvír
Kragi: Héri
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Krókurinn

Enn eitt meistarastykkið úr smiðju Gylfa Kristjánssonar. Einhver vinsælasta silungafluga hér á landi, veidd hvort heldur ein sér eða sem afleggjari (dropper). Hef heyrt því fleygt að hún hafi verið skírð í höfuðið á Jóni ‘Krók’ Bjarnasyni frá Húsavík sem fékk að sögn fyrstur að prófa þessa flugu.


Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Fasanafjaðrir
Stélkragi: Rautt dubbing (Crystal antron)
Búkur: Medium svart vinyl rib
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Á vormánuðum 2020 rættist langþráður draumur margra þegar Eiður Kristjánsson útbjó myndband af hnýtingu Króksins, hér að neðan má sjá Eið fara vel og vandlega yfir ferlið:

Red Tag

Merkileg fluga sem á uppruna sinn að rekja til Englands kringum 1850, hálft skordýr, hálft viðrini. Frá fyrstu tíð hefur þessi fluga verið veiðimönnum hin besta skemmtun og silunginum banvæn. Það er nokkuð misjafnt eftir heimshornum hvaða skordýri menn telja hún líkjast helst; Ástralir segja hana líkjast ákveðinni bjöllu sem þar finnst, Bandaríkjamenn flugu sem ég þori ekki að nefna á íslensku en Skotar segja hana líkjast lífvörðum hennar hátignar, Englandsdrottningar.

Hvað sem þessu líður hefur þessi fluga gefið vel í gegnum tíðina og sjálfsagt að koma uppskrift af henni hér inn.

Höfundur: Martyn Flynn
Öngull: Hefðbundin 10 – 18
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Peacock herl
Kragi: Ljós-rauð hanafjöður, hringvafin
Haus: Lítill

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Mobuto

Þegar ég hóf fluguveiði heyrði ég mikið tala um Mobuto, Móbútú, Móbútó og svo mætti lengi telja. Þegar á hólminn var komið og ég ætlaði að versla mér kvikindið sem svo mikið var dásamað, þá kom babb í bátinn. Næstum allar flugur sem búnar voru til úr vínil rippi með einhvers konar kraga, með og án kúlu hétu Mobuto.

Til að lauma hér inn lýsingu og festa einhvera mynd á dýrið, þá ákvað ég að taka mark á ‘Silungaflugur í náttúru íslands’ og halda mig við þá flugu sem Mobuto. Aftur á móti hef ég fengið þau skilaboð frá þekktum veiðimönnum hér á síðuna að allt sem útbúið er úr vinil sé Mobuto, einfalt og gott.

Höfundur: Skúli Kristinsson
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil rib
Kragi: Svart dub
Vængur: Hvítar antron lufsur
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Mýsla

Mýsla Gylfa Kristjánssonar er sífellt að vinna sér fastari sess hjá veiðimönnum. Hún er sögð fyrsta kúpuflugan sem er hönnuð á Íslandi og sé það rétt þá er hún væntanlega kominn nokkuð til ára sinna.

Í fyrstu var hún aðeins fáanleg á einkrækju fyrir silunginn en hefur síðan stækkað og er nú fáanleg á þríkrækju fyrir laxinn sem hún ku æsa óhóflega. Lag Mýslunnar er þannig að hún snýr öfug í vatninu og festist því síður í botni heldur en ella.

Lita samsetning flugunnar er nokkuð kunnugleg, þegar kemur að silungi; svart, rautt og silfrað.

Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Rauður 8/0
Broddur: Silfur tinsel vafið beint á öngulinn
Vængur: Svört andarfjöður*
Kragi: Rautt dub
Haus: Vaskakeðja í yfirstærð m.v. öngul

* Hér verð ég víst að setja varan á, ég nota svarta andarfjöður án þess að vita fyrir víst að Gylfi hefði samþykkt það. Glöggur lesandi nefndi að í vænginn væri notuð fjöður úr gæs, sem er raunar ekki ólíklegt.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ívar í Flugusmiðjunni tók þessa flugu til kostanna, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan:

Chromie

Þessi fluga á að líkja eftir því lífsstigi lirfunnar þegar hún býr sig undir að losa festar og syndir upp að yfirborði vatnsins og umbreytist í flugu. Silfuráferð hennar líkir eftir glampa húðar lirfunnar ný skriðinnar út, sannkallað ferskmeti fyrir silunginn.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Grupper 8 – 20
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Silfur tinsel
Vöf: Brúnt silki eða fínn ullarþráður
Kragi: Peacock herl utan um vænan skammt af blýþræði
Haus: Hvít plastkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Buzzer

Hér er ekki um einhverja eina flugu að ræða, heldur flóru af flugum sem eiga í 95% tilfella allt sameiginlegt. Svartur er hann trúlega einhver öflugastur buzzera, þ.e. flugna sem apa eftir púpustigi mýflugunnar. Þessi fluga er afskaplega einföld í hnýtingu; þráður, vír, kinnar og lakk. Ef þú vilt vera örlátur þá getur þú bætt við kúluhaus.

Þegar ég byrjaði fluguveiðar fannst mér ótrúlegt að þetta litla kvikindi gæti veitt eitthvað þannig að ég lét alveg eiga sig að prófa hana. En svo lærir lengi sem lifir og þegar ég gaf henni sjéns í upphafi vertíðar (kalt vor) þá sannaði hún sig fyllilega fyrir mér.

Höfundar: óteljandi
Öngull: Legglangur, jafnvel grubber 10 – 18
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfur eða koparvír
Kinnar: Tinsel / biots
Haus: Kopar- eða stálkúla eftir geðþótta, eða bara ekkert.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér gefur svo að líta leiðbeiningar frá Davie McPhail hvernig hann hnýtir Buzzer:

Knoll

Afbrigði, eða ekki, af Krókinum, Ölmu Rún eða hvað þær nú heita allar sem eru búnar til úr vinyl með einhvers konar skotti. Ég rakst á mynd af svipaðri flugu á netinu rétt upp úr 2008 og þar var hún sögð heita Krókurinn, sem var hreint ekki sá Krókur sem við þekkjum. Þegar ég leitaði eftir réttu nafni á þetta kvikindi á netspjallinu veidi.is (sem var og hét hér í denn) þótti góðum manni víst nóg um og lagði til að hún héti bara Knoll og annað kvikindi af sama meiði fengi heitið Tott. Nú er svo komið að Tott er löngu glataður, en Knoll hefur alltaf verið til í nokkrum eintökum í boxunum hjá mér og gefið nokkra fiska.

Það að setja hana hér inn er frekar fyrir mig sjálfan gert, bara þannig að ég gleymi ekki að hnýta nokkur eintök af þessari einföldu en virku flugu.

Höfundur: Kristján Friðriksson, þangað til annað kemur í ljós
Öngull: Hefðbundinn 10-12 púpukrókur
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Neon UNI-Floss Hot Red
Vöf: Fínn koparvír
Búkur: Nymph Vinyl Rib (fínt)
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12 10

Black Zulu

Einhver sagði; Líkist öllu en samt engu. Klassísk silungafluga sem enginn í raun veit hvers vegna fiskurinn tekur, en við vitum nú ekki heldur hvers vegna urriðinn tekur orange nobbler. Þessi er beinlínis ómissandi í vatnaveiðina, ennþá uppáhalds fluga margra þrátt fyrir dvínandi vinsældir síðari ár.

Oftast sér maður hana hnýtta eins og hér er sýnt, því sem næst original, en svo hafa menn breytt henni eftir eigin höfði, eins og gengur.

Sjálfur á ég hana með orange skotti, meira að segja með peacock fjöðrum í búk og svo má lengi telja.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 14
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Svört ull hringvafinn hanafjöður
Vöf: Ávalt silfur tinsel eða vír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 8,10,12,14

Hér gefur síðan að líta alveg ágætis leiðbeiningar að því hvernig hnýta skal Black Zulu:

Bitch Creek Nymph

Engin smá fluga á ferðinni hérna. Þó þessi fluga hafi upphaflega verið hönnuð sem eftirlíking steinflugulirfu hefur hún sannað sig allan ársins hring bæði í silung og lax. Fyrir laxinn er hún að vísu hnýtt stór #2 og #4 en fyrir silunginn í stærðum 10 – 16.

Sérstakar hreyfingar flugunnar vegna gúmmílappanna eru sagðar trylla silunginn og æsa hann til töku.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Legglangur 10 – 16
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Tvær hvítar gúmmílappir
Búkur: Samofið brúnt og orange chenille (splittað fyrir minni flugur)
Frambúkur: Svart chenille vafið með brúnni söðulfjöður
Haus: Tvær hvítar gúmmíræmur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Beykir

Hvort Gylfi Kristjánsson hafi haft geitung í huga eða ekki þegar hann hannaði þessa flugu þori ég ekki að fullyrða, en einhverjir veiðimenn fullyrða að þar sem geitungur er á ferðinni, þar virki Beykir best. Hitt veit ég að aflatölur úr nokkrum vötnum gefa til kynna að hér sér á ferðinni afskaplega veiðin fluga sem er vel þess vert að prófa.

Þegar horft er á þessa flugu, þá er eiginlega eitt, en þó tvennt sem vekur eftirtekt. Skegg flugunnar er óvenjulega langt, það nær eiginlega jafn lagt aftur og skottið á Krókinum, þ.e.flugunni. Hitt sem er eftirtektrarvert er einfaldlega það að skeggið er bara hreint ekki skegg, það er eiginlega vængur því það er hnýtt á hlið flugunnar, ekki undir.

Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil rib
Vöf: Gulur / grænn silkiþráður
Kragi: Brúnleitt dub (krystal anthron)
Skegg: löng, svört gæsafjöður
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Eiður Kristjánsson útbjó mjög svo heiðarlega útgáfu af Beyki og setti á netið:

Pólskur Pheasant Tail

Hér er alveg bráðskemmtilegt afbrigði af Pheasant Tail flugunni víðkunnu sem Skotinn Davie McPhail setti á netið fyrir nokkrum árum (sjá klippu hér að neðan). Þessi fluga hefur heldur betur gert góða hluti og ég mæli eindregið með því að menn prófi þessa. Sjálfur legg ég mikla áherslu á að nota kúlu úr kopar, ekki gyllta, því flugan virðist veiða því betur sem meira samræmi er í lit hennar og auðvitað verður koparvírinn að ráða. Ég hef verið óhræddur að yfirspekka kúluna um eina stærð til að þyngja hana vel.

Að veiða þessa flugu eins og venjulega votflugu hefur gefið konunni minni flesta fiska, mér gefur hún best ef ég dreg hana lötur hægt eftir botninum, stutt í hverju togi.

Höfundur: Davie McPhail
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Rauður 8/0
Skott: Fanir í stélföður hringfasana
Vöf: Koparvír
Kragi: Brúnleitt dub úr héra
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ripp, Rapp & Rupp

Þótt aðeins einn eða tveir fjölskyldumeðlimir eigi sér stangveiði sem áhugamál þýðir það ekki að aðrir fjölskyldumeðlimir geti ekki tekið þátt í dellunni, það sannaðist um daginn þegar yngri sonur minn laumaði að mér mjög ítarlegum leiðbeiningum að flugum sem hann tók sig til og hannaði.

Ripp, Rapp og Rupp – Höf: Nökkvi Kristjánsson

Með því að sameina aðal lestrarefnið sitt, sköpunargleði sína og einbeittan vilja til að koma mér á rétta braut í fluguhnýtingum urðu þeir bræður Ripp, Rapp og Rupp til á pappírnum með greinargóðum leiðbeiningum. Auðvitað lét ég á uppskriftina reyna og hér að ofan gefur að líta afraksturinn. Efniviðurinn er sóttur í marglitar föndurperlur sem límdar voru með tonnataki á hefðbundinn nymphukrók með stíflökkuðu flosi. Þessar verða örugglega með í boxinu í sumar.