Mýpúpa

Þegar lesendur reka augun í þessa púpu er lang líklegast að flestum verði á orði; Nei, þetta er ekki mýpúpan.

Það eru til svo mörg afbrigði af því sem menn kvitta í veiðibækurnar sem Mýpúpa að það væri örugglega efni í sérstakt blogg, heila vefsíðu, að birta myndir af þeim öllu.

En, svona getur kvikindið litið út í einfaldri mynd. Ekkert rugl, bara vinyl rip, svartur hnýtingarþráður og svart dub. Svona hefur hún gefið mér og svona er hún til í nokkrum stærðum í boxinu hjá mér.

Höfundur: allir og enginn
Öngull: grubber 10 – 20
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: vinyl rip
Kragi: svart dub, gjarnan smá crystal flash saman við
Haus: lakkaður

Svo má líka leika sér með vinyl, vefja öngulinn með t.d. rauðum þræði og leyfa að grisja á milli vafninga af vinylnum. Þá getur kvikindið litið einhvern vegin svona út.

fos_mypupa_vinil_big

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16,18,20 10,12,14,16,18,20

Ummæli

17.07.2014 – Veiði-Eiður: Ég var að „gúgla“ Flugur í Sjóbleikju og fékk þessa upp. Hún er svo veiðileg að ég datt næstum því úr stólnum í vinnunni! Hnýti nokkur eintök í kvöld 😉

Royal Wulff – þurrfluga

Auðvitað vekja svona flugur athygli, þær eru jú kallaðar á erlenda tungu ‘Attractors’ sem ég hef laumast til að kalla glepjur. En þessi fluga vekur reglulega athygli fyrir annað og meira; Hversu stutt getur verið á milli frumgerðar og þess að menn gefi meintri eftirlíkingu nýtt heiti? Það er ekkert laununga mál að Lee Wulff hafði Royal Coachman í huga þegar hann bætti smá fitu utan á þessa flugu árið 1930 í þeirri trú að silungurinn léti frekar glepjast að feitum og fallegum flugum heldur en einhverjum renglum.

Hin síðari ár hefur munurinn á milli þessara Royal (Coachman og Wulff) farið minnkandi enda þessum flugum oft slegið saman í eina í verslunum. Efnið er eftir sem áður annað og upprunalega er hin konungborni Wulff öllu þykkari en Coachman.

Höfundur: Lee Wulff / John Haily / Tom Bosworth
Öngull: Þurrfluguöngull 12 – 20
Þráður: Brúnn 6/0
Skott: brún hjartarhár
Búkur: Peacock / rautt silki / Peacock
Kragi: brún hænufjöður, hringvafinn
Vængur: Kálfhali
Haus: létt lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
12,14,16,20 12,14,16

Adams – þurrfluga

Af mörgum talin einhver mest alhliða þurrfluga sem komið hefur fram. Hún er ekki eyrnamerkt neinni ákveðinni tegund skordýra en hefur sannað sig undir ýmsum kringumstæðum. Margir veiðimenn velja þessa flugu sem ‘fyrstu’ fluguna þegar þeir reyna fyrir sér þar sem lítið eða ókunnugt klak á sér stað.

Flugan kom fyrst fram upp úr 1920 þegar höfundur hennar, Leonard Halladay hnýtti hana fyrst fyrir Charles nokkurn Adams sem fékk fluguna í höfuðið, þ.e. nafn hennar.

Uppskriftin sem fylgir er sú upprunalega, en eins og margar eldri flugur hefur efnisval manna breyst nokkuð í meðförum með árunum.

Höfundur: Leonard Halladay
Öngull: Þurrfluguöngull 10 – 24
Þráður: Grár 6/0
Skott: Blandað hár úr grá- og brúnbirni
Búkur: grátt dub
Kragi: Blandaðar gráar og brúnar þurrflugufjaðrir
Vængur: Hænufjaðrir, uppréttar
Haus: létt lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Hér gefur að líta ágætt myndband frá Tightline Production þar sem handbragðið er sýnt

Royal Coachman – þurrfluga

Forfaðir allra glepjuflugna (attractor fly) sem komið hafa fram.

Bandaríkjamaðurinn John Haily kynnti hana fyrst til sögunnar árið 1878 sem þurrflugu upp úr Coachman flugu Englendingsins Tom Bosworth frá um 1820.

Þessi fluga, eins ólíkindaleg og hún lítur nú út, hefur verið ótrúlega vinsæl allar götur síðan.

Það var svo löngu, löngu síðar að Lee Wulff tók þessa flugu til endurskoðunar og úr varð Royal Wulff, en það er önnur saga sem verður e.t.v. sögð síðar og á öðrum stað.

Síðan má ekki gleyma því að þessi fluga er einnig til sem votfluga og þannig hef ég reynt hana nokkrum sinnum.  

Höfundur: John Haily / Tom Bosworth
Öngull: Þurrfluguöngull 12 – 20
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Pheasant tippets
Búkur: Peacock / rautt silki / Peacock
Kragi: brún hænufjöður, hringvafinn
Vængur: Hvít önd
Haus: létt lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16,20 10,12,14,16

Myndbandið sem hér fylgir er að vísu af grænum Royal Coachman, en aðferðin er jú sú sama og handbragð Davie McPhail er alltaf aðdáunarvert.

Hexía – þurrfluga

Þær verða nú stundum ekki til svona einn tveir og þrír, en stundum detta þær í kollinn á manni þegar minnst varir. En, þessi er alls ekki þannig. Tilraunir með þekktar flugur, tilraunir sem tókust miður vel, urðu kveikjan að þessari. Ég var sem sagt að reyna mig við flugur til höfuðs ákveðnu skordýri; Galdralöppinni. Málið var að hvorki ég né veiðifélagi minn gátum fyllilega sætt okkur við allar Bibio flugurnar sem til eru og því var sest niður og þessi soðin saman til að friða sjálfið okkar. Hvernig hún reynist, kemur svo í ljós næsta sumar.

Í sjálfu sér afskaplega einföld fluga en með nokkuð áberandi rauðu klofnu skotti og kraga. Annars alveg eins og þúsundir annarra þurrflugna af svipuðu sauðahúsi. Smá orðaleikur í nafngiftinni; Hexía de Trix úr heimi Walt Disney send til höfuðs Galdralöppinni.

Höfundur: Kristján Friðriksson
Öngull: Þurrfluguöngull 10 – 14
Þráður: UTC 70 – svartur
Skott (afturfætur): 2 x rauðar Goose Biots, gjarnan örlítið niðurvísandi
Búkur: svart dub (íslenskt fjallalamb)
Kragi: rautt dub (íslenskt fjallalamb)
Hringvöf: svartar hanafjaðrir
Haus: lítið eða ólakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12

Ummæli

03.12.2012 – Hilmar: Þessi er afar áhugaverð! Hvar fær maður lamba dub? Spurning hvort maður fái leyfi hjá höfundinum til að hnýta nokkur eintök og taka þátt í tilraunaveiði með Hexíu á komandi sumri.

mbk, Hilmar

SvarLamba-dub er náttúrulega bara snilld. Ég finn alveg ótrúlegustu hluti í prjónakörfu konunnar, t.d. Létt-lopa sem er alveg fyrirtaks dub efni þegar maður hefur tætt hann niður. Hrindir vel frá sér vatni og kemur vel undar snjó (eins og rollurnar fyrir norðan sanna). Engar áhyggjur, hér er ekkert einkaleyfi í gangi á flugum, bara gaman ef menn vilja prófa.

Bibio Hopper

Flestir sem stundað hafa Laxá í Aðaldal og silungavötnin norðan heiða þekkja Bibio og Galdralöpp Jóns Aðalsteins sem fyrirtaks agn þegar Galdralöppina hrekur út á vötnin og silungurinn veður í henni. En flugurnar sem bera Bibio nafnið eru reyndar svo margar að vart verður þverfótað fyrir þeim, í það minnsta erlendis.

Upprunalegu Bibio fluguna má rekja til 6. áratugs síðustu aldar á eyjuna grænu, Írlands og hún er í flokki með Hawtorn og Black Gnat þurrflugunum þegar kemur að því að leggja flugu fyrir silung síðla sumars þegar Bibio pomonae (Galdralöpp) missir flugið og hlussast niður á vatnið.

Höfundur upprunalegu útgáfunnar: Charles Roberts
Öngull: Grubber #10
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: med. tinsel
Búkur: svart dub (selur)
Fætur: hnýttar Pheasant Tail fjaðrir
Frambolur: svart og rautt dub
Vængur: Globright garn
Hringvöf: svartar hanafjaðrir

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10 10

Hér gefur síðan að líta Davie McPhail fara höndum um hráefnið og galdra fram Bibio Hopper eins og honum einum er lagið.

Ummæli

30.11.2012 – Hilmar: Djö lízt mér vel á þessa :) Ertu búinn að prófað að hnýta eintak?

mbk, Hilmar

SvarJá, finnst þér ekki? 🙂 Það er bara eins og allir séu að spá í þessa flugu núna. Ég er svo sem búinn að prófa og þetta er allt alveg að koma hjá mér. Átti í smá basli með hnýttu lappirnar þannig að ég skoðaði vel og vandlega þessa klippu:

Blue Quill – þurrfluga

Eftirlíking dægurflugunnar og með þeim betri ef mér leyfist að segja sem svo. Hefur verið viðloðandi flugubox veiðimanna svo lengi sem elstu menn muna.

Einhverra hluta vegna hafa not hennar hér á Íslandi verið takmörkuð í gegnum tíðina en hin síðari ár hefur hún sótt í sig veðrið, e.t.v. með auknum áhuga innlendra veiðimanna á fluguboxum þeirra erlendu sem heimsækja Ísland og gera góða veiði.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Þurrfluguöngull 12 – 16
Þráður: Grár eða brúnn 6/0
Skott: Móbrúnar fjaðrir Nokkrar gráar fjaðrir
Vöf: fínn silfurvír Nei
Búkur: Móbrúnt dub Strípaður páfugls fjaðrastafur
Kragi: Móbrúnar fjaðrir Gráar hackle fjaðrir
Vængur: hænufjaðrir, aðskildar Stokkönd
Haus: Lítið eða ekkert lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ummæli

22.11.2012 – Hilmar: Sæll félagi. Glæsilegt framtak með fluguuppskriftar updatið þitt um daginn.

En þar sem ég hef nú soldið verið að stúdera þurrfluguhnýtingar, verð ég aðeins að mótmæla uppskriftinni hér á blue quill. Ég mundi telja að þetta væri nærri lagi:

Þráður: brúnn eða grár
Skott: nokkrar gráar fjaðrir
Vöf: nei
Búkur: Strípaður páfugls fjaðrastafur (striped peacock quill). Menn nota ýmis trix til að ná þessu,t.d. strokleður, skurðhníf en sumir vilja meina að neglur okkar dugi. Mér líst best á þetta: 

Kragi: gráar hackle fjaðrir
Vængur: Stokkönd
Haus: sammála þér.

mbk
Hilmar

Svar: Loksins, loksins, loksins, takk Hilmar. Svona getur farið fyrir manni þegar maður lepur uppskriftir upp af netinu án þess að sannreyna þær að einhverju viti. Eftir að hafa skoðað þína útfærslu get ég ekki annað en verið sammála og þakklátur þér fyrir þessa athugasemd. Kærar þakkir fyrir, ég leyfi mér að leiðrétta fyrri skrif með þínum.

Bestu kveðjur,

Kristján

Black Gnat – þurrfluga

Eins ensk eins og þær geta orðið og trúlega einhver elsta fluga sem einhverjar áræðanlegar heimildir eru fyrir, kom fram á sjónarsviðið rétt fyrir 1800 og hefur verið ofarlega í boxum veiðimanna síðan.

Jafnvel þótt sú fluga sem hún átti upphaflega að líkja eftir, Bibio Johannes, finnist ekki á Íslandi, þá stendur þessi fluga uppi sem ein útbreiddasta þurrfluga í silungs- og laxveiði á Íslandi.

Eins og um svo margar þurrflugur hefur upprunalega hráefnið vikið fyrir nýrri efnum, en alltaf stendur flugan sjálf fyrir sínu.

Og þessi er einnig til sem votfluga. Ef eitthvað er, þá hefur mér fundist hún ekkert síðri heldur en þurrflugan. Hér að neðan er samt sem áður efnislisti þurrflugunnar.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Þurrfluguöngull 12 – 20
Þráður: Svartur 6/0
Skott: svartar fjaðrir
Búkur: Fíngert antron búkefni eða svart poly-dub
Kragi: hringvafðar svartar fjaðrir
Vængur: Gráar andafjaðrir, vel aðskildar og uppréttar
Haus: létt lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16,20 10,12,14,16

Pheasant

Nei, ekki Pheasant Tail, bara Pheasant. Hér er hvorki skott né thorax á ferðinni. Frábær og einföld fluga sem gefur Pheasant Tail nánast ekkert eftir.

Ef fiskurinn liggur djúp, lífríkið svolítið svifaseint þá er um að gera að prófa þessa einföldu flugu, koma henni niður og draga miðlungs- eða hægt.

Hvort hún gangi almennt undir heitinu Pheasant þori ég ekki alveg að fullyrða, en sjálfum mér finnst það ekkert úr vegi að stytta nafnið líkt og menn hafa gert með Héraeyrað sem skottlaus heitir Hérinn. Þetta er ekki gert að virðingarleysi fyrir frummyndinni, þvert á móti.

Höfundur: ókunnur
Öngull:
 10 – 16
Þráður: Brúnn 8/0
Vöf: 
Fínn koparvír
Búkur:
Pheasant fjaðrir, því fleiri því bústnari.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Ummæli

18.07.2012 – Siggi Kr.: Mæli með henni þessari og hún getur verið gríðarlega öflug á grubber krók.

Hérinn

Í þeirri góðu bók, Silungaflugur í íslenskri náttúru eftir þá félaga Stjána Ben. og Lárus Karl er sagt að höfundur Héranns sé ókunnur. Mér dettur nú helst í hug að svo mörgum veiðimanninum hefur dottið í hug að slíta skottið af Héraneyranu að ekki sé hægt að eigna einhverjum einum hugmyndina.

Sjálfur hef ég hnýtt þessa gjöfulu púpu frá því ég byrjaði fluguveiði og mér hefur hún alltaf gefið ágætlega. Sagt er að hún smelli best inn þegar vorflugan yfirgefur púpuhylkið sitt og syndir upp að yfirborðinu. Mér hefur hún fundist virka best; alltaf. Einfaldleiki hennar hefur alltaf höfðað til mín, rétt eins og forfaðir hennar Héraeyrað.

Höfundur: ókunnur
Öngull:
 Grubber 10 – 16
Þráður: Tan 8/0
Vöf: 
Fínn koparvír
Búkur:
Héradubb

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Tailor

Lengi vel hef ég verið að eltast við eigin misskilning um þessa flugu, en nú tel ég mig hafa náð botninum í þessa frábæru hönnun Skarphéðins klæðskera.

Flugan sver sig í ætt Pheasant Tail og Grey Goose en er 100% Íslensk frá byrjun til enda. Alla tíð frá því Skarphéðinn prófaði hana í Elliðavatni hefur hún gefið vel þar sem og í ýmsum öðrum vötnum eins og t.d. Hlíðarvatni í Selvogi.

Þessi fluga er klassíker silungsveiðimanna á Íslandi og menn ættu ekki að gleyma henni í boxinu.

Höfundur: Skarphéðinn Bjarnason
Öngull: Hefðbundinn votfluguöngull 12 – 20
Þráður: Brúnn 8/0
Vöf: Gyltur vír
Búkur og vængstæði: Brúnn ullarþráður, árórugarn
Bak: ljósbrún ull, árórugarn
Haus: svartur, lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Fox Squirrel Nymph

Þær eru ekki allar gamlar þær klassísku og þessi er einmitt ein af þeim. Einhver hefði sagt samsuða nokkurra, sem má alveg vel vera, en hvort Dave Whitlock höfundur hennar hefur haft bræðing í huga veit ég ekki. Eitt er víst, hún er veiðileg.

Flugan kom fyrst fram í bókinni The Masters On The Nymph sem kom upprunalega út árið 1979. Raunar hér flugan þá því þjála nafni Red Fox Squirrel Hair Nymph en höfundur hennar einfaldaði hana nokkuð með tíð og tíma og stytti nafnið all verulega.

Hún er sögð tilvalin valkostur þar sem klassíkerar eins og Pheasant Tail og Héraeyra gefa að öllu jöfnu. Sjálfur hef ég prófað hana undir ýmsum kringumstæðum og fengið bæði bleikju og urriða á hana.

Uppskriftin sem hér fer á eftir er frá meistara Davie McPhail sem og klippan af því hvernig hann fer höndum um kvikindið.

Höfundur: Dave Whitlock
Öngull: Hefðbundin 12 – 16
Þráður: Uni 8/0 Tan
Skott: Refur
Broddur: Gyllt tinsel eða koparvír
Búkur og thorax: Fínn refur
Hringvaf: Brúnn Fasani
Haus: Örlítið refa dub

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
 12 – 16  12 – 16

Grey Goose

Eftir smá tíma í fluguveiðinni fara menn að þekkja flugurnar sem skipta máli, eins og t.d. Pheasant Tail. En færri virðast þekkja ‘hina’ fluguna hans Sawyer, Grey Goose.

Sjálfur sagði Sawyer eitt sinn að hann hefði soðið saman tvær ‘universal’ flugur, Pheasant Tail sem ímynd dökku púpunnar og Grey Goose þeirrar ljósu, fleiri flugur þyrftu menn ekki. Ef hann hafði rétt fyrir sér, þá væri ég ekki með allan þennan fjölda af flugum í boxinu mínu, en þar er nú samt Grey Goose í góðum félagsskap ýmissa útfærslna af Pheasant Tail.

Upprunalega uppskriftin er auðvitað eins einföld og Pheasant Tail, eina sem skilur þær að er að Saywer notaði gráa gæsafjöður í stað fasana í Grey Goose. Þar sem ég hef ekki alveg komist upp á lagið með að nota aðeins koparvírinn til að halda henni saman nota ég tan eða gráan hnýtingarþráð til stuðnings.

Höfundur: Frank Sawyer
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður / vöf: koparvír
Skott / Búkur / Thorax: Grá gæsafjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
 10 – 16  10 – 16

Viðbót

Brassie

Úr flóru koparflugna kemur Brassie. Eins og svo margar aðrar frænkur hennar er efnisvalið afar einfalt; koparvír og smá dub efni. Íslensk afbrigði, frænkur eða hvað menn vilja kalla þær, eru til í ófáum útfærslum.

Flugan er langt því frá einhver fornaldarskepna, upprunnin í Colorado á árunum eftir 1960.

Afbrigðin eru næstum eins mörg og hnýtararnir eru margir, en í grunninn er þessi fluga alltaf eins, bara spurning hvaða lit menn velja á dubið eða vírinn, mögulega setja menn kúluhaus á kvikindið, aðrir ekki.

fos_brassie_kuluhaus_big

Höfundar: Ken Chandler, Tug Davenport og Gene Lynch
Öngull: Hefðbundin 12 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Miðlungs koparvír
Vængstæði: Svart dub
Haus: Koparkúla, ef vill

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér fer svo hann Ívar í Flugusmiðjunni fimum fingrum um Brassie:

Mallard & Claret

Eflaust finnst einhverjum það skjóta verulega skökku við að hnýta Mallard & Claret og nota eitthvað annað en Bronze Mallard (Mallard = stokkönd) í vænginn, en ég læt slag standa því mér og urriðanum finnst hún einfaldlega fallegri með síðufjöður íslensku stokkandarinnar.

Skarpari litaskil síðufjaðrar (pikkuð upp í veiðiferð í sumar) gera fluguna bara meira áberandi í vatninu, en auðvitað er þetta ekki Mallard & Claret í þessum búningi.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 12 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Pheasant tippets
Vöf: Fínn koparvír
Búkur: Brúnt dub
Vængur: Bronze Mallard / síðufjöður stokkandar
Skegg: Svört hanafjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
 14,16 12,14,16

Skue’s Nymph

Rétt eins og Pheasant Tail Sawyer’s er Skue’s Nymph klassíker. Frábær fluga sem hefur sannað sig í gegnum tíðina og hefur getið af sér ótal mörg afkvæmi, skilgetin og óskilgetin.

Óskilgetin afkvæmi þessarar flugu eru næstum jafn mörg og afkvæmi Pheasant Tail og þarf engan að furða. Báðar eru þessar flugur magnaðar upprunalegar, svo magnaðar að óskilgetin afkvæmi þeirra verða oft hjákátleg í samanburði.

Hér styðst ég við uppskrift sem Skotar og Írar hafa verið duglegir að nota í gegnum tíðina, e.t.v. ekki alveg 100% original, en góð samt.

Höfundur: G.E.M. Skues
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður: Brown / Camel 6/0
Skott: Brown cock hackle
Vöf: Fínn koparvír
Búkur og thorax: Brúnt dub
Vængstæði og kragi: Brown ringneck pheasant fibers

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
 12,14,16 10,12,14,16

Ekki Skues

Síðastliðið sumar rakst ég á eitthvert grænt kvikindi sem skolað hafi upp að bakka Vífilsstaðarvatns og hef enn ekki hugmynd um hvaða fluga/púpa þetta var. Ég hef haft augun hjá mér þegar ég hef verið að fletta flugum í vetur en ekki fundið, fyrr en ég sá nokkuð poppaða útfærslu af Skue‘s Nymph, ekki alveg þó.

Með fullri virðingu fyrir G.E.M. Skues ákvað ég að taka hefðbundna uppskrift hans af þessari ævagömlu púpu og poppa hana allverulega upp, ef mér tækist að líkja eftir Vífó-kvikindinu. Næstum, kannski ekki alveg en ég læt slag standa og set hana hér með á bloggið.

Höfundur: bræðingur
Öngull: Hefðbundin 10 – 12
Þráður: Olive Dun 8/0
Skott: Natural yellow/brown cock hackle
Vöf: Fínn koparvír
Búkur: Caddis Green Ice Dub (2/3), Héri (1/3)
Kragi: Natural yellow/brown cock hackle

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur

Blue Charm Nymph

Í einhverri veiðiferðinni sumarið 2012 hitti ég ‘eldri’ veiðimann sem varð að orði að hann saknaði bláu flugnanna, eina sem enn þekktist væri Blue Charm og hún væri aðeins notuð í laxinn. Þessu spjalli okkar yfir fluguboxunum hefur oft skotið upp í huga minn yfir væsinum og nú lét ég verða að því að bulla saman púpu sem innihéldi eitthvað blátt.

Nærtækast var að halda sig nokkurn veginn við skiptinguna úr Blue Charm og eftir nokkrar tilraunir varð þessi til. Hvort hún höfði eitthvað til silungsins næsta sumar verður bara að ráðast, litaskiptingarnar eru í það minnsta nógu áberandi sem er nú oftast til þess fallið að kveikja í honum.

Höfundur: lætur fara lítið fyrir sér
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfurvír
Búkur: Gult gerfisilki (1/3), svart gerfisilki (2/3)
Thorax: Blátt gerfisilki
Vængstæði: Svört andarfjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur

Ummæli

Hilmar – 19.janúar 2012

Glæsilegt eintak, bíð spenntur að heyra af aflabrögðum hennar í sumar.

mbk

Hilmar

Guðmundur – 19.janúar 2012

Töff :-) það væri spennandi að prófa þessa

Jón Magnús – 5.febrúar 2012

Þessa verð ég að prófa!

11.02.2012 – Árni Jónsson

Þetta er mjög veiðileg fluga!

Jock

Hér er ein sem er í raun lítið þekkt í þessu upprunalega formi sínu. Oftar en ekki hafa menn ruglað þessari saman við laxa-bróður hans, Jock Scott, en skv. heimamönnum (Skotum) eiga þær víst lítið sameiginlegt, urðu til hjá sitt hvorum aðilanum án vitundar um tilvist hvors annars, sel þetta ekki dýrara en ég las það.

Jock er sagður geysilega öflugur í urriðann þegar kvölda tekur á miðju sumri.

Eitt aðal einkenni þessarar silungaflugu er hvíti broddurinn í vængnum sem má víst alls ekki vanta.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 10 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Gul hænufjöður
Vöf: Fínt ávalt tinsel eða koparvír
Búkur: Gult floss (2:5) / Svart floss (3:5)
Vængur: Mallard með hvítum broddi
Kragi: Guinea fowl

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12

Professor

Klassískur fræðimaður frá Skotlandi, ein af elstu núlifandi flugum og þá á ég við að hylli hennar er enn gríðarleg meðal silungsveiðimanna og þá helst eins og hún var hnýtt upphaflega, með hringvafi úr langri fjöður sem nær ríflega öngullegginn.

Einhvers misskilnings gætti um tíma um uppruna hennar, jafnvel talinn Amerísk, en höfundur hennar er nú samt John Wilson frá Edinborg sem var uppi á árunum 1785-1854.

Tod Stoddart nefnir þessa flugu í bókum sínum og leggur áherslu á hún sé sérstaklega kræf í vatnaurriða á vorin og sjóbirting síðla sumars.

Höfundur: John Wilson
Öngull: Hefðbundin 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Rauð gæs
Vöf: Fínt ávalt tinsel eða koparvír
Búkur: Gult floss
Vængur: Dröfnótt önd, samanbrotin
Kragi: Brún hackle

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
8,10,12 8,10,12

Ívar í Flugusmiðunni hefur lagt sitt til málanna og setti kennslumyndaband um fluguna inn á rás Flugusmiðjunnar þar sem ýmissa grasa kennir fyrir fluguáhugamenn: