Undertaker

Saga þessarar flugu er hreint ekki eins gömul og margir telja. Það var árið 1979 að höfundur hennar, Warren Duncan hljóp undir bagga með félaga sínum, Chris Russell sem kom til hans með snjáða og slitna flugu sem hann hafði hirt upp eftir fengsælan veiðimann við Nashwaakána í Kanada. Þrátt fyrir mikla leit í hnýtingarbókum, fundu þeir félagar ekki út hvaða fluga þetta var, þannig að Warren settist niður og hnýtti flugu sem líktist fyrirmyndinni með nokkrum breytingum þó.

Nafn flugunnar var löngu ákveðið í huga Warren, hann hafði einsett sér mörgum árum áður að ef hann hnýtti einhvern tímann flugu, þá skildi hún heita Undertaker.

Þessi fluga var upphaflega hnýtt sem laxafluga og hún sannaði sig sem slík þegar Warren tók 24 punda lax á hana í Hammond ánni og skömmu síðar bætti Chris um betur og tók 38 punda lax á hana í Kedgwick ánni. Hér kemur flugan fyrir sjónir í öllu minni útgáfu, ætluð í urriða og bleikju sem hún hefur að sögn lokkað til töku, ekkert síður en lax. Uppskriftin hér að neðan er ekki upprunaleg uppskrift, heldur sú sem ég studdist við fyrir þessa minni útgáfu.

Höfundur: Warren Duncan
Öngull: Votflugukrókur #8
Þráður: Svartur 70  den
Broddur: Golden Mylar Tinsel
Búkur – aftast: Danville Plus Fluor 3/0 grænt
Búkur – miðja: Danville Plus Fluor 3/0 rautt
Búkur – fremst: Peacock herl
Vöf: Gyltur vír
Hringvaf: Svört hænufjöður

Til gamans er hér myndband af hnýtingu hefðbundins Undertaker:

Gunkel’s Radiation Baetis

Það sem einum dettur í hug, hefur annar örugglega prófað. Þessa flugu sá ég í tímariti í vetur þar sem hún var rómuð af veiðimönnum vestan hafs, þ.e. í Kanada og Bandaríkjunum. Höfundur hennar er Shea Gunkel og hún heitir einfaldlega Gunkel’s Radiation Baetis. Það skemmtilega við þessa flugu er að ég hnýtti hana óséða fyrir ári síðan þegar ég gerði tilraun til að einfalda Higa‘s SOS.

Flugan hefur reynst einstaklega vestan Atlantsála og þessi einfaldaða útgáfa Higa‘s sem ég hnýtti hefur gert það alveg áhætt hérna heima líka. Sjálfur hnýti ég þetta afbrigði yfirleitt einlitt og á hana í nokkrum litum. Fyrir vestan hafa hnýtarar spreytt sig á því að hnýta hana mjög mikið útfærða, bætt á hana tinsel og ýmsu glimmeri til að gera hana eftirsóknarverðari.

Höfundur: Shea Gunkel
Öngull: Grubber #14 – #20
Þráður: Aðallitur flugunnar 8/0
Skott: Hænufjöður í stíl
Vöf: Vír eða ávalt tinsel
Vængstæði: Ice dub í stíl
Glit: Flashabou
Bak: UV litað lím, gjarnan svart eða glært

Dunnigan’s Clearwater Emerger

Það þarf ekki alltaf reynda fluguhnýtara til að setja saman flugu sem slær rækilega í gegn. Casey Dunnigan, höfundur þessarar flugu, hóf ekki fluguveiðar fyrr en árið 2007 en varð samstundis heltekinn af sportinu. 2010 var hann við veiðar í Colorado og varð vitni að töluverðu klaki grárra mýflugna og var í stökustu vandræðum með að velja flugu sem líktist þeim nægjanlega. Þegar heim var komið, settist hann niður og hnýtti þessa flugu.

Hvernig flugan rataði síðan á markaðinn fylgir ekki sögunni, en hún komast fljótlega í hóp söluhæstu flugna vestanhafs. Þetta er tiltölulega einföld fluga að hnýta og litur hennar sker sig skemmtilega úr þeim svörtu og brúnu mýflugueftirlíkingum sem hafa verið ráðandi.

Höfundur: Casey Dunnigan
Öngull: Grubber #14 – #22
Þráður: Grár 8/0
Skott: Brún hænufjöður
Vöf: Koparvír eða gyltur
Vængstæði: Grátt dub
Glit: Krystal Flash
Bak: Pheasant tail

Top Secret Midge

Þessi litla snotra mýfluga Pat Dorsey hefur verið sérlega vinsæl meðal veiðimanna í Klettafjöllunum Bandaríkjanna á liðnum árum og ætti engan að undra. Þessari flugu svipa vitaskuld til margra annarra flugna, en einfaldleiki hennar er nægur til að allir geta hnýtt hana og það sem meira er, hún virkar.

Rétt eins og um aðrar flugur sem líkja eiga eftir mýflugu, þá er hún yfirleitt hnýtt á krók #18 eða smærri, en sjálfur hef ég hnýtt hana töluvert stærri, alveg niður í #12 og hún virkar þannig líka. Um hæfni höfundar flugunnar þarf ekki að fjölyrða, frá honum hafa komið margar snyrtilegar flugur í gegnum tíðina. Pat er einn eigenda Blue Quill Angler í Colorado og hefur sent frá sér fjölda bóka um veiði og fluguhnýtingar.

Höfundur: Pat Dorsey
Öngull: Hefðbundinn- eða grubber #18 – #24 (t.d. Kamasan 100 eða B110)
Þráður: Dökk brúnn 8/0
Vöf: Hvítur þráður 6/0 (má jafnvel nota UNI GloThread 3/0) eða silfraður vír
Vængur: Hvítir fluor þræðir
Vængstæði: Brúnt fíngert dub

Þannig að því sé haldið til haga, þá er flugan á myndinni að ofan ekki skv. upprunalegri uppskrift Pat en sú í myndbandinu hér að neðan er það:

Diawl Bach

Þegar það kemur að flugum sem bitist hefur verið um, þá dettur mér ósjálfrátt hin velska Diawl Bach í hug. Þýðing úr velsku yfir á íslensku gæti verið Skolli litli, en á enska tungu hafa menn snarað heiti hennar yfir í Welsh Devil, Little Devil eða þá jafnvel Red Devil og vísa þá til upphaflega haussins sem hún skartaði, sem var jú rauður.

Þegar höfundar þessarar flugu er getið, þá koma margir til greina, en einn þeirra hefur þó oftast komið fyrir í hnýtingarbókum og það er Wyndham Davies frá Wales. Ég læt það liggja á milli hluta hvort það sé rétt eða ekki, það hefur ekki þurft höfund flugunnar til að skapa álitamál um hana hingað til, flugan sjálf hefur verið fullfær um það.

Eftir því sem ég kemst næst, þá var aðeins haus flugunnar rauður í upphafi og Peacock búkurinn styrktur með koparvír. Síðari útgáfur hafa orðið snöggtum skrautlegri á að líta; búkvöf út rauðu holographic eða hefðbundu tinsel, marglitir kúluhausar og í sparifötunum skartar hún Jungle Cock kinnum. Allt eru þetta skemmtileg afbrigði og væntanlega alls ekki til tjóns, en eftir stendur að upprunalega var flugan heldur rengluleg og hógvær á að líta, ef undan er skilinn rauði hausinn.

Höfundur: Wyndham Davies
Öngull: Hefðbundin eða þyngdur votfluguöngull #10 – #14
Þráður: Rauður 8/0
Stél: Brún hanafjöður
Vöf: Koparvír
Búkur: Peacock
Skegg: Brún hanafjöður
Haus: Rauður

Hér gefur að líta David Cammiss hnýta (nánast) upprunalega útgáfu flugunnar:

Síðari tíma útgáfur og öllu skrautlegri má sjá hér þegar Davie McPhail fer höndum um stílfærðar uppskriftir:

Hardy’s Favorite

Hardy’s Favourite er hugsarsmíð J.J. Hardy sem stofnaði Hardy’s Tackle Shop of Pall Mall. Hvenær honum datt þessi fluga í koll, veit ég ekki, en sagan segir að hún hafi upprunalega verið til sem bæði þurrfluga og votfluga.

Í gegnum tíðina hafa ótal afbrigði þessarar flugu komið fram á sjónarsviðið, sumar með þessu einkennandi rauða flosi í búk, aðrar ekki og svo hefur val á fjöðrum í væng og skott eitthvað verið á reiki. Miðað við upprunalega lýsingu flugunnar, þá tel ég myndina hér að ofan vera nokkuð nálægt frumútgáfunni.

Höfundur: J.J. Hardy
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull #10 – #14
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Kalkúnafjöður
Vöf: Rautt floss
Búkur: Peacock
Skegg: Fanir úr kalkúnafjöður
Vængur: Kalkúnafjöður
Haus: Svartur

Þó nokkuð frábrugðin uppskrift á ferðinni hér hjá Davie McPhail hér, en engu að síður mjög falleg fluga:

Damsel

Þær eru nánast óendalega margar flugurnar sem líkjast Woolly Bugger eða einhverri allt annarri flugu sem heitir eitthvað allt annað. Ein þessara flugna er Damsel straumflugan.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær þessi fluga kom fram á sjónarsviðið og þess þá heldur erfitt að segja hver sé höfundur hennar. Flugunni svipar vissulega til nokkurra annarra marabou flugna, t.d. Woolly Bugger. Efnisvalið og bygging flugunnar getur nánast verið sú sama, en helsti munurinn er sá að hún er yfirleitt hnýtt á minni króka þannig oft svipar henni meira til gyðlu (e: nymph) heldur en straumflugu. Þessi munur á e.t.v. ættir að rekja til þess að flugan, að því ég best kemst næst, fékk uppfærslu úr flugu sem hnýtt var skv. hefðbundum lögmálum púpu og gyðlu, yfir í það að vera smávaxið afbrigði straumflugu. Í dag má finna þessa flugu til sölu í öllum mögulegum litum og litasamsetningum, en hún var upphaflega aðeins hnýtt í litum sem má finna á Damsel flugum og nymphum, helst ólívu grænum eða fölbrúnum.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 10
Þráður: Ólívugrænn 8/0
Skott: Marabou og flash þræðir í stíl
Búkur: Ólívugrænt chenille
Haus: Gylt kúla eða keila
Vöf: Hnakkafjöður, tinsel og vír í stíl við kúlu

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12,14

Hér að neðan má sjá meistara Davie McPail fara höndum um Damsel. Það vekur vissulega athygli að hann hefur kosið að tilgreina Woolly Bugger sem undirheiti flugunnar.

Woolly Bugger

Einhver svipur hefur alltaf verið með Woolly Bugger og Dog Nobbler. Hvor varð til á undan veit ég ekki, en Woolly Bugger kom fram á sjónarsviðið 1967 þegar Russell Blessing útfærði fyrirmyndina Woolly Worm, setti á heilmikið marabou skott á orminn þannig að úr varð straumfluguna sem Buggerinn er í dag.

Nú er svo komið að Woolly Bugger er til í óteljandi afbrigðum lita og samsetninga þannig að Bandaríkjamenn hafa freistast til að nota heiti hennar sem almennt samheiti allra marabou straumfluga sem komið hafa fram á sjónarsviðið síðustu áratugi. Kannski ekki ósvipað því sem við hér heima höfum nefnt ótal flugur í höfuðið á Nobbler þótt því fari víðsfjarri að þær samræmis upprunalegu uppskriftinni.

Upprunaleg uppskrift Woolly Bugger er á þessa leið:

Höfundur: Russell Blessing
Öngull: Straumflugu 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Þynging: 10 – 12 vafningar af blý- eða tungstenþræði
Skott: Svart marabou með glitþráðum að eigin vali
Búkur: Svart chenille hringvafið hanafjöður
Vöf: Silfur- eða koparvír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12,14 8,10,12 8,10,12

Hér gefur að líta myndband af Woolly Bugger, að vísu olívu grænum með kúluhaus:

Woolly Worm

Woolly Worm er fluga sem er komin nokkuð til ára sinna og af henni hafa sprottið nokkrar lítið þekktar flugur en einnig ótrúlegur fjöldi flugna sem við þekkjum vel í dag. Flugan er upprunnin í Ozark fjöllum Arkansas í Bandaríkjunum fyrir margt löngu síðan, en almennri útbreiðslu náði hún þegar Don Martinez, veiðimaður og hnýtari, kom henni á framfæri upp úr 1950.

Við fyrstu sýn svipar þessari flugu nokkuð til hinnar Skosku Black Zulu, en yfirleitt er Woolly Worm hnýtt á öllu lengri krók, allt upp í 3XL og höfð nokkuð sverari um sig heldur en Black Zulu. Með tíð og tíma hefur litaval í þessa flugu aukist verulega og finnst hún víða með brúnu eða grænu búkefni, meira að segja í skærum litum eins og UV gulu, appelsínugulu og hárauðu. Allt samsetningar sem ganga í augu silungsins.

Uppskriftin hér að neðan miðast við þá uppskrift sem Don Martinez setti fram.

Höfundur: Don Martinez
Öngull: Legglangur 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0
Þynging: 6 – 10 vafningar af blý- eða tungsten þræði
Skott: Rauð ull eða marabou vöndull
Búkur: Svart chenille, hringvafið með hanafjöður
Vöf: Silfur-, kopar- eða gyltur vír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 12,14 8,10,12,14 8,10

Hér gefur síðan að líta alveg ágætis leiðbeiningar að því hvernig hnýta skal fluguna:

Rektor

Rektor – hnýttur af Stefáni Bjarna Hjaltested

Laxá í Mývatnssveit hefur óbeint getið af sér fjölda flugna, Rektor er ein þeirra. Fluguna hnýtti Kolbeinn Grímsson og lét Bjarna Kristjánsson, rektor Tækniskólans hafa hana ónefnda til reynslu við Laxá. Í lok dags hafði flugan fært Bjarna fjölda fiska og þegar Kolbeinn var inntur eftir nafni hennar, skýrði hann hana umsvifalaust Rektor.

Krókur: legglangur straumfluguöngull, #8 – #6
Hnýtingarþráður: gulur 6/0
Undirlag: gul ull vafin í vindillaga búk (sérviska undirritaðs)
Skott og búkur: Gul-litaðar söðulfjaðrir hana
Vængur: Gulur íkorni
Kinnar: Jungle Cock
Kragi: Gul-lituð söðulfjöður hana
Haus: hot orange / rauður hnýtingarþráður eða lakkaður rauður

Hér að neðan má sjá höfund flugunnar, Kolbein Grímsson hnýta hana undir spjalli við þáttargerðamenn Sporðakasta árið 1993.

Tvær mismunandi útfærslur hnýttar af Stefáni Bjarna Hjaltested
Grár Rektor

Mrs. Simpson

fos_mrssimpson_big

Þessi fluga er kennd við hertogaynjuna af Windsor, Mrs. Wallis Simpson sem, enn það dag í dag, er eina konan sem hefur þótt meira spennandi en allt Breska heimsveldið.

Að sögn eru fleiri konungar en þeir Bresku sem láta glepast af Mrs. Simpson. Sagt er að máttur þessarar flugu sé svo mikill að konungar Nýsjálensku vatnanna, urriðarnir, afsali sér konungsríki sínu og gangi flugunni sjálfviljugir á hönd. Flugan er óhemju vinsæl þarna hinu megin á jarðkúlunni og er hún fyrir löngu orðinn ein allra vinsælasta straumflugan í urriða þar um slóðir.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Legglangur straumfluguöngull #2 – #10
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Svartur íkorni
Búkur: Rauð ull
Skegg: Svartur íkorni (ef vill)
Vængir: Heilar fjaðrir hringfasana
Haus: Svartur

Alda

fos_alda_big

Alda er ein af ótal marabou flugum sem hafa fest sig í sessi í Veiðivötnum og hróður hennar hefur borist víða. Margur veiðimaðurinn á þessa flugu í stærðum #10, #8 og #6. Þótt hún sé óumdeilanlega í hópi marabou flugna, þá sker hún sig nokkuð frá öðrum vegna staðsetningar kragans, hann er ekki fremst heldur u.þ.b. 1/3 frá haus. Nokkuð sem maður sér ekki á mörgum flugum.

Ég hef það eftir öruggum heimildum að Jón Ingi Kristjánsson, Veiðivatnaveiðimaður með meiru, hafi vígt þessa flugu og tekið á hana 6,3 kg. fisk í fyrstu veiðiferð hennar. Væntanlega hefur þessa flugu aldrei vantað í hans box eftir þá ferð.

Eins og með fleiri gjöfular flugur hafa menn gert nokkrar útgáfur af henni, breytt litum og efnisvali eftir eigin höfði, en eftir stendur að flugan er einstaklega gjöful í urriða og jafnvel lax.

Höfundur: Helgi V. Úlfsson
Öngull: Legglangur straumfluguöngull #10 – #6
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rautt marabou, rautt krystal flash, silfur flashabou
Búkur: Kelly Green Kristal dub
Kragi: Svart Schlappen
Haus: gullkúla

Uppskriftina hér að ofan hef ég lagfært skv. ábendingu og mér er tjáð að svona sé hún eins og höfundur flugunnar hafi lagt hart að mönnum að hafa hana.

Afbrigði þessarar flugu eru, eins og áður segir, nokkur og eitt þeirra er að nota svarta eða brúna fjöður í kragann og blöndu af rauðu og svörtu marabou í skotti. Hef það fyrir satt að þannig sé hún líka bráðdrepandi.

Á rás Flugusmiðjunnar er að finna myndband þar sem Ívar Örn Hauksson hnýtir Ölduna, þó úr aðeins öðru efni en uppskriftin segir til um:

Humungus

fos_humungus_big

Þessi fluga var upprunalega hnýtt fyrir urriðaveiði í Loch Leven í Skotlandi, en barst fljótlega eins og eldur í sinu til annarra landa, þar á meðal Íslands og hefur gert góða veiði. Hér heima hefur þessi fluga gengið undir ýmsum nöfnum, en mér vitandi aldrei sínu upprunalega.

Það er vissulega ekki margt sem skilur þessa flugu frá frænda sínum frá Ameríku, Dog Nobbler, en eitthvað samt og virðist hafa dugað til að hún fékk að halda sínu eigin nafni sem höfundur hennar, David (Dave) Downie f.1970 gaf henni.

Þegar maður rekst á svona flugu, þá veltir maður enn og aftur fyrir sér, hvað er það sem þarf til að gera gamla flugu nýja, gera hana að sinni og skýra hana upp á nýtt.

Krókur: Stuttur votflugu eða púpuöngull #8
Augu: Par úr vaskakeðju u.þ.b. 4mm þvermál
Þráður: Svartur 6/0
Skott: silfur eða gull flash undir svörtu marabou
Búkur: Gull eða silfur 6mm tinsel chenille / ísl.afbrigði hefur verið hnýtt með kopar tinsel fyrir Veiðivötn
Vöf: Grissly Cock hackle, læst niður með gull eða silfur vír

Hér að neðan má sjá höfund flugunnar, Dave Downie hnýta fluguna með smá innslagi um sögu hennar:

Eitthvað örlítið önnur útgáfa með viðbótar heitinu Woolly Bugger frá Davie McPhail:

Kate McLaren

Með árunum hafa afbrigði þessarar klassísku flugu reglulega skotið upp kollinum. Upprunaleg stendur hún alltaf fyrir sínu þegar kemur að urriðanum, eins og um svo margar aðrar álíka flugur er bara hægt að segja; það er eitthvað við hana.

Sagan á bak við fluguna er víst eitthvað á þá leið að William Robertsson hnýtti hana og skírði í höfuð eiginkonu John McLaren, Kate. John notaði fluguna í mörg ár í sjóbirting en það var ekki fyrr en sonur þeirra hjóna, Charles McLaren, veiðimaður og rithöfundur, gat hennar í bók sinni The Art of Sea Trout Fishing útg.1963 að hún varð feikilega vinsæl og hefur verið það allar götur síðan.

Höfundur: William Robertson
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull #10 – #16
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Golden Pheasant Crest
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Upprunalega selshár, en eins og svo oft nota ég svarta ull
Hringvöf: Svört og brún hanafjöður
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur

Davie McPhail fer hér höndum um Kötu

Black Pennell

Enn ein klassísk sem hefur gert góða hluti í vatnaveiðinni. Sérstaklega einföld fluga í hnýtingu og sver sig greinilega í ætt klassískra votflugna.

Mikið notuð í bleikju, staðbundna og sjógengna en það ætti alls ekki að útiloka hana í urriða, öðru nær. Flugan á uppruna í Skoskum heiðarvötnum þar sem hún tryllti urriðan alla síðustu öld og reyndist vel og það hefur hún einnig gert hér heima á Fróni. Elliðavatn, Hlíðarvatn í Selvogi og svo mætti lengi telja þau vötn þar sem þessi fluga hefur gefið vel.

Pennell var ötull talsmaður þess að búkur flugna sem þessarar ætti að vera grannur, mjög grannur og sjálfur notaði hann silki í búkinn og var spar á það. Seinni tíma uppskriftir gera ráð fyrir floss í búk, ég geng enn lengra og nota íslenska ull. Hún verður aðeins rytjulegri þannig og ég er ekki frá því að bleikjunni þyki hún girnilegri þannig.

Höfundur: Cholmondeley Pennell
Öngull: Hefðbundin #10 – #14
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svart floss
Hringvöf: Svört hænufjöður
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 10,12,14 10, 12, 14

Það eru til mörg mjög góð myndskeið á netinu af því hvernig þessi fluga er hnýtt, en þetta er með þeim skýrari og betri sem ég hef séð. Hér fer Eiður Kristjánsson fumlausum höndum um efnið og klárar dæmið á rétt um 7 mínútum, frábært myndskeið:

Ethel the Streaking Caddis

Einhverra hluta vegna hefur þessi bráð skemmtilega þurrfluga farið hamförum í netheimum undanfarið árið. Margir hafa reynt sig við hnýtingarmyndbrot af henni, en fáum hefur tekist eins vel til og Davie McPhail þegar hann hafði hendur í elgshári og hnýtti þessa flugu fyrir framan myndavélina. Flugan er nokkuð hefðbundin m.v. flugur úr elgs- og hjartarhárum og hefur gefið einstaklega vel þar sem vorflugan er á kreiki.

Af eigin reynslu get ég fullyrt að þessi fluga er alls ekki eins erfið í hnýtingu eins og ætla mætti, sérstaklega þegar maður hefur farið nokkrum sinnum yfir myndband Davie. Sjálfur setti ég í eina sem innlegg í Febrúarflugur 2015.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Grubber #14
Þráður: ljós 8/0
Búkur: ljósbrúnt dub (ljós lopi)
Hnakki og haus: Hjartarhár

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
14 14

Hér má síðan sjá meistara Davie McPhail fara fimum höndum um hráefnið þannig að úr verður glæsileg fluga.

Killer Bug

Sumar flugur eru einfaldlega svo einfaldar að það tekur því ekki að setja inn efnislista. Killer Bug er einmitt ein þessara flugna. Haft er eftir höfundi hennar, Frank Sawyer að honum nægðu fimm flugur til að geta veitt alls staðar. Auðvitað var Pheasant Tail ein þessara ásamt Killer Bug.

Ég hef lúmskan grun um að það séu frekar fáir veiðimennirnir hér á Íslandi sem þekki eða hafi prófað þessa flugu Sawyers, sem er í raun grátlegt því hún er virkilega veiðin þessi hnellna fluga. Engin uppskrift, aðeins Oliver Edwards að hnýta hana.

Að lokum; smá vísbending umefnisvalið. Íslensk ull virkar frábærlega í þessa flugu, helst Létt Lopi sem losaður er sundur á þáttunum og spunninn rangsælis eftir að hann hefur verið festur niður eða einband.

Höfundur: Frank Sawyer

Ummæli

18.07.2013 – LogiÉg hef hnýtt þessa flugu og það sem mér finnst hafa komist næst orginalinum er einband, lopi.

20.07.2013 – Siggi Kr.Gaman að sjá þessa flugu hérna, hef einmitt verið að nota einhvern lopa sem ég ég náði að gera upptækan ú prjónakörfu konunnar í hana en hún hefur því miður ekki fengið mikla notkun hjá mér. Svo langar mig líka að benda þeim á sem hafa á því áhuga að það er til mynd sem heitir Frank Sawyer’s favorite flies þar sem John Klingberg hnýtir nokkrar flugur eftir Sawyer í orginal útgáfum. Myndina er hægt að finna á netinu sem torrent en ég hef hvergi séð hana til sölu.

Svar: Já, því miður virðist þessi mynd ófáanleg á netinu, þ.e. öðruvísi en sem torrent frá þriðja aðila eða ‘öryggisafrit’ eins og það heitir. Læt mönnum leitina sjálfum eftir ef þeir vilja sækja þannig útgáfur 🙂

Griffith’s Gnat – þurrfluga

Þau eru nánast óteljandi skiptin sem þessi fluga hefur komist á lista yfir ‘Bestu flugur allra tíma’. Flugan er hönnuð af George Griffith með það að leiðarljósi að vera einföld og umfram allt verðugur fulltrúi þurrflugna sem líkja eiga eftir mýflugum. Ef maður flettir þessari upp á netinu þá eru komment eins og ‘Must have’, ‘Overall best’ ekki óalgeng.

Eitt skemmtilegt afbrigði hennar er hnýtt úr svart-lituðum peacock fjöðrum með svörtu hringvafi og örlitlu rauðu skotti bætt við. Þegar ég sá þá flugu fyrst datt mér Black Zulu í hug og silungur í uppitöku þar sem galdraflugan sat á vatninu.

Höfundur: George Griffith
Öngull: Þurrfluguöngull 16 – 24
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: peacock fjöður
Vöf: hringvafin hanafjöður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
16,20,22,24 16,20,22,24

Elk Hair Caddis – þurrfluga

Enn ein flugan sem líkir eftir vorflugunni okkar, en í þetta skiptið þurrfluga. Al Troth, höfundur hennar ætlaði henni að vera alhliða eftirlíking vorflugunnar og það má með sanni segja að hafi tekist því þetta er ein langsamlegast útbreiddasta þurrflugueftirlíking vorflugunnar.

Hún situr hátt á vatninu og hefur reynst mönnum vel þar sem gáran drekkir öðrum flugum, hvort heldur í ám eða vötnum.

Eftir að hafa gengið sjálfur í gegnum þrautagöngu byrjandans í þurrfluguveiði þar sem allar flugur mínar vildu sökkva, þá hnýtti ég mér nokkrar í ætt við þessa sem fljóta, sama hvernig viðrar.

Höfundur: Al Troth
Öngull: Þurrfluguöngull 10 – 16
Þráður: Tanned 6/0
Vöf: fínn gullþráður
Búkur: héri
Hringvaf: palmeruð brún fjöður
Vængur: ljós fjöður
Haus: lítið eða ólakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér gefur síðan að líta Kurt Chenuz frá Kanada fara nokkuð fimum höndum um fluguna.

Ummæli

11.01.2013 – HilmarÞetta er mögnuð þurrfluga, flothæfileikinn kemur einmitt með því að nota Elk Hair, sem er notað í vænginn. (mátt kannski uppfæra uppskriftina :o ). Það er líka hægt að gera ótrúlega hluti með Elk eða Deer hair í fluguhnýtingum. Sjá t.d. Þetta http://www.flytyingforum.com/uploads/img4f09f2ae88f13.jpg

mbk, Hilmar

WD-40

Byrjum á nafninu; hún heitir ekki í höfuðið á smurefninu sem flestir fluguveiðimenn forðast eins og heitan eldinn. WD stendur fyrir Wood Duck. Hún er Amerísk og kom fyrst fram árið 1982, hnýtt af Mark Engler.

Eins og um margar aðrar flugur af svipuðum toga hefur litaafbrigðum hennar sífellt farið fjölgandi og nú er örugglega hægt að finna hana í öllum litum frá hvítu (já, ég fann eina svoleiðis á netinu) og yfir í svart.

Brún er hún í uppáhaldi hjá mér, ekkert ósvipuð Tailor. Já, einmitt, það er oft stutt á milli flugna eftir sitt hvorn höfundinn og í sitt hvorri heimsálfunni.

Höfundur: Mark Engler
Öngull: Grubber eða beinn 12 – 20
Þráður: Brúnn 8/0
Skott: Mallard (Wood Duck)
Búkur: Brúnn ullarþráður (mín sérviska) annars venjulegur þráður
Vænghús: brúnt dub
Haus: lakkaður

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
12,14,16,20 12,14,16