Mercury Black Beauty

Þegar maður sér flugu eins og þessa, þá verður manni ósjálfrátt hugsað til þess hve margir veiðimenn hafi mögulega hnoðað í sömu fluguna, hingað og þangað um heiminn, án þess að hafa minnstu hugmynd um tilveru hennar undir einhverju ákveðnu nafni. Það var árið 1992 sem Pat Dorsey og félagar gáfu þessari flugu hans þetta nafn eftir vel lukkaða veiðiferð þar sem hún lék stórt hlutverk.

Í bók Pat, Tying & Fishing Tailwater Flies segir hann frá þessari flugu og tilurð hennar, en lesa má á milli línanna að fluguna hafi hann notað í mörg ár áður en henni var gefið nafn. Þetta var einfaldlega lítil svört púpa sem hann átti alltaf, auðveld í hnýtingu, endingargóð og veiðin.

Sjálfur hnýtti ég þessa flugu fyrst fyrir fjölda ára síðan, trúlega eftir einhverri mynd á vefnum og hafði ekki hugmynd um sögu hennar eða heiti fyrr en ég las fyrrnefnda bók, en það má víða finna umfjöllun um þessa flugu. Ýmsir hafa orðað það sem svo að Pat eigi heiðurinn af því að gefa henni nafn og halda henni á lofti, án þess að fullyrða að hann sé höfundur hennar, sem er e.t.v. rétt þegar um jafn almenna og víðþekkta flugu er að ræða sem margir hafa hnýtt.

Flugan á sér skilgetna systur sem heitir einfaldlega Mercury Midge og ættarsvipurinn er nokkuð augljós eins og gefur að líta hér að neðan.

Höfundur:Pat Dorsey
Öngull: votfluguöngull #18 – #24
Þráður: svartur 8/0
Búkvöf: kopar- eða silfurvír
Búkur: þráðurinn
Kragi : svart dub, fíngert
Haus: glerperla

Hér má sjá stutt og hnitmiðað myndskeið þar sem Mercury Black Beauty verður til:

Til að slá tvær flugur í einu höggi má hér gefa á að líta þegar Tim Flagler hnýtir Mercury Midge:

Gullbrá

Ef einhver er að leita að auðhnýttri, gjöfulli flugu í hvað fisk sem er, þá er þetta flugan. Gullbrá hefur glapið bleikjur í hrönnum, urriða í öðru eins magni og laxar hafa líka litið við henni og verið landað. Það eru einhver ár síðan ég setti þessa flugu fyrst í boxið mitt og þar á undan hafði ég sjálfur gert ýmsar tilraunir með Veniard UV Straggle í búk á flugum, en aldrei tekist jafn vel til eins og höfundi Gullbrár, Jóni Inga Kristjánssyni.

Flugan er afar auðhnýtt og heilagleiki hennar er ekki meiri en svo að höfundurinn hefur stundum gripið það efni í hana sem hendi er næst á hnýtingarborðinu og það virðist ekkert koma niður á veiðni hennar. Flugan hefur getið sér gott orð á Arnarvatnsheiði, í Veiðivötnum og eiginlega hringinn í kringum landið og öllum mögulegum veiðistöðum þar á milli.

Flugurnar sem hér koma fyrir sjónir eru hnýttar af höfundinum sjálfum fyrir FOS.IS og þær eru nú fyrirmyndir þeirra sem ég hnýti sjálfur.

Höfundur: Jón Ingi Kristjánsson
Öngull: Votflugukrókur #8 (Kamasan B175 / B200)
Þráður: Veevus Fluo Orange 12/0
Haus: silfurlituð vaskakeðja
Skott: UV2 Marabou fluo orange
Þræðir í skotti: Flashabou Mirage Opal
Búkur: Veniard UV Straggle St Gold

Autumn Ordie

Autumn Ordie er, eins og nafnið gefur til kynna, fluga sem veiðimenn nota gjarnan þegar haustar við skosku heiðarvötnin. Flugan er raunar ekkert annað en önnur litasamsetning þeirrar margfrægu Lock Ordie sem kennd er við Ordie vatn, skammt austan við Tay sem er lengsta á Skotlands. Á þessum slóðum verður vart stigið niður færi án þess að reka tærnar í sögufræga veiðistaði.

Sérstaða þessara flugna er að það er enginn búkur á þeim, aðeins hringvafðar hænufjaðrir í þremur (eða fleiri) litum. Sérstaklega einföld fluga að hnýta og kemur svona líka skemmtilega út.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Aftasta hringvaf: ljósbrún / gul hænufjöður
Miðvaf: rauð hænufjöður
Fremsta hringvaf: svört hænufjöður
Haus: svartur

Hér smellir Martyn White í þessa flugu Rod Denson, þ.e. afbrigðið sem hann setti saman:

Green Weenie

Af skömm minni kemur hér enn ein þeirra flugna sem margir veiðimenn elska að hata. Þessi fluga er með þeim allra einföldustu í hnýtingu, aðeins eitt hráefni og kúla ef hnýtari vill. Þótt Lefty Kreh hafi fullyrt að „Ef það er ekki chartreuse, þá virkar það ekki.“ þá virkar þessi einfalda fluga í nær öllum litum, allt frá hvítu yfir í gult, yfir í rautt og þaðan yfir í dökkgrænt og allt þar á milli. Þekktust er hún þó í þessum lirfu græna lit og þá er maður farinn að nálgast átrúnað Lefty’s.

Þessi fluga var ranglega eignuð Charlie Mack eftir að hann birti hana í bók sinni Pennsylvania Hatches árið 1989 en flugan er töluvert eldri og kom fyrst fram á sjötta áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur 10 – 14
Þráður: þráður í stíl við búkefnið
Búkur: chenille í lit að eigin vali
Haus: samlitur búk eða kúla

Coch-y-Bonddu

Framandi nafngiftir flugna eru ekki óþekktar. Þessi fluga gæti t.d. heitið á rauð og svört á íslensku ef bein þýðing úr velsku væri látin standa. Eins augljóst og það er þá lýsir þetta flugunni ekki hót og því best að halda sig einfaldlega við Coch-y-Bonddu þó það sé vissulega tungubrjótur.

Flugan er hreint ekki ný af nálinni, á ætti að rekja til áranna rétt eftir 1700 og er þar með ein elsta þekkta fluga sem til er. Upphaflega hnýtt til að líkja eftir vatnabjöllu sem heitir, já einmitt Rauð og svört upp á velsku. Eftir því sem ég best veit, þá er flugan á myndinni hér að ofan sú sem kemst næst því að vera sú upprunalega, en á síðari tímum hafa menn tekið upp á því að skreyta hana með gyltum broddi, jafnvel flötu tinsel í stað vírs í vöfum. Ég veit ekki til þess að höfundur flugunnar hafi neitt amast við þessum síðari tíma viðbótum, í það minnsta fer engum sögum af því að hann hafi heimsótt hnýtara út yfir dauða og gröf til að amast í þeim og því leyfi ég mér að hafa allt skrautið með í efnislistanum.

Bara til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er samnefnd veiðibókabúð á netinu til muna yngri heldur en þessi fluga og það sama má segja um þann rithátt Coch-y-Bondhu sem nafn flugunnar hefur fengið, helst hjá Englendingum hin síðari ár.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 12
Þráður: Dökkbrúnn eða svartur 8/0 eða 70
Broddur: gyllt kristal flash (seinni tíma viðbót)
Vöf: gyllt flatt tinsel (seinni tíma viðbót)
Búkur: peacock
Hringvaf: brún hænufjöður
Haus: samlitur þræði

Það fer vel á því að skoða hvernig Barry Ord Clarke fer að þvi að hnýta sína útgáfu af þessari öldnu flugu:

Black and Orange Marabou

Þessa flugu þekkja margir, en ekki endilega undir upprunalegu heiti sínu. Í dag sést þessi fluga gjarnan í boxum veiðimanna og aðspurðir segja þeir hana vera Orange Dentist. Þegar vel er að gáð er þetta skiljanlegur misskilningur, flugunum svipar glettilega mikið saman, þó Dentist sé að vísu rauður og með hárvæng. Black and Orange Marabou er hugarfóstur Taff Price og ef mig misminnir ekki, þá kom hún fyrst fram í þeirri góðu bók Fly Patterns: An International Guide sem kom út árið 1986. Íslenskir hnýtarar hafa eflaust séð þessari flugu bregða fyrir í kjöreigninni Straumflugur sem Sigurður Pálsson og Lárus Karl Ingason unnu að í sameiningu að árið 2008.

Fyrst hnýtti ég þessa flugu einmitt sem afbrigði af Dentist og hef gert ágæta veiði með hana í þessum búningi, en þykir rétt að koma henni formlega á framfæri undir réttu nafni. Sjálfur hef ég hana gjarnan í smærri stærðum, en hún er svo sem til hjá mér á #6 eins og Taff mælti með. Þótt Jim Misiura hnýti hana þyngda hér að neðan, þá hef ég ekki lagt það í vana minn hingað til.

Höfundur: Taff Price
Öngull: straumfluguöngull 6 – 12
Þráður: svartur 8/0 eða 70
Skott: appelsínugular fanir
Vöf: gyllt ávalt tinsel
Búkur: gyllt flatt tinsel
Vængur: svart marabou
Skegg: appelsínugular fanir
Kinnar: frumskógarhani
Haus: svartur

Bjargvætturinn

Hér er á ferðinni fluga sem ekki hefur farið mjög hátt um, en hún á sér samt marga, dygga aðdáendur sem segja hana sérlega skæða í Hlíðarvatni í Selvogi, Þingvöllum og víðar. Flugan er íslensk að ætt og uppruna, Birgir Thorlacius er höfundur hennar og ég sá þessa flugu fyrst í boxi veiðimanns í Selvoginum og skömmu síðar birti Árni Árnason uppskrift hennar á vef Árvíkur og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér efnið sem þar er að finna.

Þegar ég hnýti þessa flugu, þá hef ég stolist til að nota hvítt UV garn í stað Árórugarns og stundum skipt ullargarninu í búkinum út fyrir sléttara Árórugarn og ef eitthvað er, þá finnst mér hún meira fyrir augað þannig.

Höfundur: Birgir Thorlacius
Öngull: grubber 12 & 14
Þráður: svartur 8/0 eða 70
Vöf: silfurvír
Búkur: svört ull
Vængstubbar: hvítt Árórugarn eða hvítt UV
Kragi: rautt GloBright
Haus: silfurkúla

Loch Ordie

Loch Ordie er eitt af fjölmörgum heiðarvötnum Skotlands og flest þeirra hafa eignast flugur sem skírðar eru í höfuðið á þeim. Loch Ordie er engin undantekning frá þessu og hér gefur að líta þá flugu. Upprunalega var þessi fluga hnýtt í afar einfaldri útgáfu, aðeins þrjár mislitar hænufjaðrir vafðar í hringvöfum fram eftir legg önguls og síðan svartur haus. Á síðari árum hafa sprottið fram ýmsar útgáfur og auknar af þessari flugu, sumar með búku undir hringvöfunum, jafnvel hreinræktaðar straumflugur með gylltum búk og skotti. Skemmtilegasta útfærslan sem ég hef séð er túpa sem sögð er hafa gefið ágætlega í ánni Tay sem rennur rétt vestan við Loch Ordie.

Til gamans má geta þess að skammt sunnan Loch Ordie er bærinn Dunkeld sem svo skemmtilega vill til að á sér nöfnu meðal flugna, falleg fluga og ein af frægari silungaflugum Skotlands, þó hún sé reyndar ensk að uppruna.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Aftasta hringvaf: dökkbrún hænufjöður
Miðvaf: ljósbrún hænufjöður
Fremsta hringvaf: hvít hænufjöður
Haus: svartur

Hér fer Davie McPhail fimum höndum um þessa frábæru flugu, gætið vel að mjög góður útskýringum Davie í þessu myndbandi

Hér tekur Andrew Herkes eina útfærslu af Loch Ordie með búk og aðeins tveimur fjöðrum í hringvafi.

Indian Streamer

Ef eitthvað er að marka veraldarvefinn, þá kom þessi fluga fyrst fyrir almenningssjónir árið 1855 í vesturheimi. Hennar ku getið í bók Campbell Hardy Sporting Adventures in the New World þó mér hafi ekki tekist að finna það nákvæmlega í þeim tveimur bindum bókarinnar sem telja alls rúmlega 700 bls.

Það verður seint sagt um þessa flugu að hún sé falleg eða flókin, en hvorugt skiptir höfuðmáli svo lengi sem hún veiðir og að sögn gerir hún það.

Sagan segir að fyrstu kynslóðar innflytjandi í Nova Scotia hafi soðið hana saman, eða einhverja mjög svipaða, þegar hann sá sjógenginn lax og regnbogasilung elta sandsíli við ósa áa Nova Scotia. Eitthvað fannst honum útliti flugunnar víst svipa til hártísku frumbyggja Nova Scotia (Miꞌkmaq) á þessum tíma og gaf henni því nafnið Indian Streamer.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur straumfluguöngull #4 – #10
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Vöf: svartur vír
Búkur: hvítt ullargarn
Kambur: 4-5 peacock
Haus: svartur

Sjálfur hnýti ég þessa flugu úr UV ljómandi hvítu ullargarni og ég nota svart vinyl rip í stað vírs. Síðari tíma viðbót, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan, er að setja kvið á fluguna úr silfruðu tinsel.

Ívar í Flugsmiðjunni smellti líka í kennslumyndband um þessa flugu:

Hólmfríður

Hólmfríður – Hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Ein veiðnasta straumfluga hérlendis í urriða, staðbundinn og sjógenginn. Nú ber svo vel í veiði að hér þarf ekki að hafa mörg orð um fluguna, alla söguna af tilurð hennar og í kaupbætti hvernig höfundur hennar, Kolbeinn Grímsson hnýtir hana má sjá og heyra í myndbandinu hér að neðan.

Stefán Bjarni Hjaltested hnýtti allar flugurnar á þeim myndum sem koma fyrir sjónir sem er vel við hæfi því hann og Kolbeinn veiddu oft og mikið saman. Þess má geta að Kolbeinn Grímsson var fæddur 10. desember 1921 og á þessu ári eru því liðin 100 ár frá fæðingu hans.

Höfundur: Kolbeinn Grímsson
Öngull: Legglangur 2 – 10
Þráður: Svartur 6/0
Búkur: Rauð ull aftan við haus
Skegg: Silfrað perlu flashabou, rautt marabou
Vængur: 2/3 gult marabou, 1/3 brúnt marabou
Kinnar: frumskógarhani
Haus: svartur

Sagan öll og handbragðið má sjá í þessu myndbroti úr Sporðaköstum frá árinu 1993:

Friskó

Friskó – hnýtt af höfundinum Jóni Helga Jónssyni

Ein af þeim klassísku hér á heimavellinum. Haft er eftir Jóni Helga að hann hafi upphaflega hnýtt Friskó bæði brúna og græna eins og sjá má hér á síðunni, enda eru flugurnar hér hnýttar af honum sjálfum. Sú græna virkar vel þar sem græn slikja er í vatninu, annars staðar sú brúna. Hugmyndinni að Friskó skaut eiginlega bara í kollinn á Jóni Helga því hann vissi sem var að bleikjan á Þingvöllum tekur eitthvað brúnt og fyrir þá bleikju var flugan upphaflega ætluð.

Þó flugan sé hönnuð fyrir Þingvallableikjuna, þá virkar hún prýðilega vel í frænkur hennar, hvort sem þær eiga heima í Hlíðarvatni í Selvogi, Elliðavatni eða á Skagaheiðinni, svo einhver dæmi séu nefnd. Nafn flugunnar varð þannig til að um þær mundir sem flugan varð til, var dægurflugan Diskó-Friskó hvað vinsælast og fannst Jóni Helga tilvalið að láta fluguna kallast á við Diskódrottningu veiðifélaga síns, Jóns Petersen, og fékk því nafni Friskó. Nánar má fræðast um fluguna og frænkur hennar í prýðilegri grein eftir Baldur Sigurðsson í maí hefti Áróðs, félagsrits Ármanna frá árinu 2013 sem nálgast má hérna.

Friskó græn – hnýtt af höfundinum Jóni Helga Jónssyni

Höfundur: Jón Helgi Jónsson
Öngull: hefðbundinn 10 – 14
Þráður: Svartur
Vöf: ávalt silfur
Búkur: brúnt flos eða grænt
Frambúkur: bronslitaðar fanir úr páfuglsfjöður
Skegg: svört hanahálsfjöður
Vængstubbur: fanir úr fasanafjöður
Haus: svartur með mjórri rönd af orange globrite

Hér að neðan má sjá hvernig Eiður Kristjánsson hnýtir sína útgáfu af Friskó sem er töluvert frábrugðin þeirri upprunalegu:

Þær stöllur saman á mynd

Soldier Palmer

Í öllum þeim bókum og greinum sem ég hef viðað að mér, þá finn ég ekki einn einasta staf um það hver sé höfundur þessarar flugu. Flugan er gömul, mjög gömul því hennar er getið, með einum eða öðrum hætti í bók Izaak Walton, The Complet Angler frá árinu 1653, þá undir nafninu Red Palmer. Þegar þessi fluga færði sig upp á skaftið í Skotlandi í upphafi 19. aldar var lítið um glys og glamúr í henni og þannig hnýttu menn hana langt fram á okkar daga.

Hver þessi Palmer var veit ég ekki, en skemmtilega sögu hef ég lesið um að flugan hafi verið nefnd eftir hermanni, Palmer nokkrum í Enska fótgönguliðinu og frá þessari flugu sé dreginn frasinn að Palmera búk á flugu með fjöður. Hvað er satt í þessu kýs ég að láta liggja á milli hluta, sagan er í það minnsta skemmtileg en kannski hafa litirnir í flugunni einfaldlega kveikt þessa sögu því fljótt á litið svipar henni til rauðklæddra hermanna Breska heimsveldisins og því gæti Soldier Palmer einfaldlega verið uppspuni eða jafnvel uppnefni Skota á þeim Bresku.

Hin síðari ár skaut flugunni eða öllu heldur afbrigði hennar aftur upp á sjónarssviðið og þá var hún kominn í glitrandi búning sem Dave McPhail klæddi hana í ásamt mörgum öðrum klassískum votflugum sem voru við það að gleymast. Eftir þessa yfirhalningu fékk þessi fluga, sem oft var talinn til ofur-flugna í vatnaveiði, heldur betur nýtt líf og nú má finna hana í s.k. Sparkler útgáfu í nær öllum veiðibúðum á Bretlandseyjum og víðar.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Rauður 8/0 eða 70
Broddur: Rauður hnýtingarþráður eða rautt flos
Vöf: koparvír eða ávalt gult tinsel
Búkur: rauð ull (selshár)
Hringvaf (búkur): brún, gul eða rauðleit hænufjöður
Hringvaf (fremra): bekkjótt hanafjöður (indian cock) sem er trúlega síðari tíma viðbót
Haus: samlitur þræði

Hér að neðan má sjá Dave McPhail hnýta sem næst upprunalegu útgáfuna en þó með glitrandi ívafi í væng:

Cormorant

Cormorant, eða Skarfurinn er ekki flókin fluga og oft verið vísað til hennar sem ágætis fluga fyrir byrjendur (eða örlítið lengra komna) í hnýtingum. Það kemur ekki oft fyrir að ég rambi á þessa flugu í boxum veiðimanna hér á landi, en kemur þó fyrir. Raunar er það nú svo að heiti flugunnar er notað í dag sem nokkurs konar tegundaheiti á flugum, líkt og Buzzer sem nær yfir ótilgreindan fjölda flugna.

Lengi vel var þessi fluga eignuð Graham nokkrum Pearson, en hið rétta er víst að hann gaf henni bara nafnið eftir að hafa séð hana í boxi ónefnds þátttakanda í unglingariðli Alþjóðlegu ensku fluguveiðikeppninnar. Nafni höfundar hefur aldrei verið uppljóstrað, en að sögn hnýtti handhafi flugunnar hana sjálfur og Graham fannst mikið til einfaldleika hennar koma og ekki síst hve veiðin hún var. Upphaflega útgáfa flugunnar var eingöngu úr tveimur hráefnum; peacock og marabou fjöðrum en eins og margar aðrar flugur í gegnum tíðina hafa afbrigði hennar orðið óteljandi með tíð og tíma.

Sjálfur eignaðist ég minn fyrsta Skarf fyrir mörgum árum síðan og þá einfaldlega fyrir mistök. Ég gleymdi nefnilega að setja skegg á ótilgreinda flugu sem ég var að prófa og úr varð Cormorant, flóknara var það nú ekki. En eftir þetta hef ég notað og hnýtt nokkrar svona flugur og reynt að hafa þær í einfaldari kantinum og þannig hafa þær gefið mér einhverjar fiska.

Cormorant flugur má veiða á ýmsan máta og á öllu dýpi. Flugan sjálf er yfirleitt óþyngd, en það má vitaskuld veiða hana á flot-, hálfsökkvandi- eða sökklínu og þannig ná mismunandi dýpi. Ekki er óalgengt að hún sé veidd sem afleggjari og þá gjarnan með enn léttari efri flugu.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Sami litur og ætlaður haus flugunnar
Broddur: gyllt kristal flash (seinni tíma viðbót)
Vöf: flatt tinsel, gjarnan holographic
Búkur: peacock
Vængur: yfirleitt svört marabou fjöður

Sú útgáfa flugunnar sem sjá má í þessu myndbroti kemur frá Mak:

Craven’s Haymaker

Hverjum hefði dottið í hug að þessi fluga héti eitthvað sérstakt? En það er nú reyndar tilfellið að þessi Damsel / Nobbler / Woolly Bugger með gúmmílöppum heitir Haymaker og það sem meira er, hún er af Craven fjölskyldunni.

Í nokkur ár var höfundur flugunnar, Charlie Craven að bögglast með hana í nokkrum útgáfum þangað til hann varð sáttur við hana. Til einhverra ára var þessi fluga aðeins fáanleg í verslun Charlie’s vestur í Colorado í Bandaríkjunum, Charlie’s Fly Box Inc. en svo komst hún fyrir almenningssjónir þegar tímaritið Fly Fisherman birti grein um hana á prenti árið 2016.

Mér er það reyndar til efs að þessi fluga hafi í raun ekki þegar verið þekkt manna í millum, meira að segja hérna uppi á klakanum, löngu áður en Charlie setti á hana þetta nafn. Viðlíka flugu hefur maður séð í boxum veiðimanna hér í nokkur ár, þótt Haymaker (smáfiskur af sculpin tegund) sé ekki til hér á landi.

Þótt upprunaleg uppskrift Charlie Craven hljóði upp á svartar marabou fjaðrir og svartan kraga, þá lét ég það eftir mér að gera hana brúna og finnst hún sannast sagna ekkert minna veiðileg þannig. Sjálfur þyngi ég hana ekki eins og höfundur gerir ráð fyrir, dugar hún alveg eins og hún kemur óþyngd úr þvingunni.

Höfundur: Charlie Craven
Öngull: Straumfluguöngull ( 6 – 12 )
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Marabou
Þynging: nokkrir vafningar af blýþræði
Lappir: ávalar svartar gúmmílappir, gjarnan mislitar
Búkur: svart/gylt chenille
Kragi: svört hænufjöður
Kúla: gylt (tunstend ef vill)

Greinina úr Fly Fisherman um þessa flugu má nálgast með því að smella hérna.

Burton

Þessa flugu hef ég oft og iðulega séð skráða fyrir fjölda fiska í Hlíðarvatni í Selvogi. Veiðimaðurinn er nær alltaf sá sami, en ég veit fyrir víst að þessi fluga er gjöful víða enda hönnuð eftir fyrirmynd sem fengin er beint upp úr maga ný veiddrar bleikju. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson tjáði okkur að flugan hefði gefið vel í Elliðavatni á árum áður, allt að 300 fiska á sumri, bleikjur og urriða. Hafsteinn notar þessa flugu mikið, eða eins og hann orðar það; „Það hefur engin valkvíði verið hjá mér um fluguval þegar í veiði er farið eftir að ég notaði hana í fyrsta skipti„. Fluguna notar hann til jafns á láglendi sem hálendi og hún hefur gefið fisk í öllum þeim vötnum sem hann hefur stungið henni niður í.

Flugunni hefur skotið upp kollinum í nokkrum útfærslum í gegnum árin og uppskrift hennar hefur verið nokkuð á reiki hjá þeim sem ég hef spurt um. Sumir nota ullargarn, aðrir árórugarn og enn aðrir nota einfaldlega grófan hnýtingarþráð og láta þar við sitja. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson, lét hafa eftir sér hér um árið eitthvað á þá leið að efniviðurinn í fluguna væri aðallega eitthvert járnarusl, spotti og einhver hár.

Sannleikurinn er sá að með tíð og tíma hefur Hafsteinn einfaldað fluguna enn frekar frá fyrstu útgáfu og áfram færir hún honum fisk. Í sinni einföldustu mynd hefur hann sleppt bæði vængjum og vír og notar nú eingöngu svart teygjuefni í hana sem hann lakkar síðan yfir.

Það er okkar trú að það sé alveg sama hvaða aðferð menn nota til að hnýta Burton, formið og einfaldleiki hennir er þannig að hún gefur vel í stærðum #12 og #14.

Höfundur: Hafsteinn Björgvinsson
Þráður: Svartur að eigin vali + garn ef vill eða þá svart UNI Flexx
Öngull: Legglangur votfluguöngull
Vöf: Silfurvír, ef vill
Kinnar: Hvítar stíffanir, ef vill

Efnisvalið í Burton hin síðari ár – Mynd: © Hafsteinn Björgvinsson
Full skapaðir Burton í dag – Mynd: © Hafsteinn Björgvinsson
Burton a’la FOS.IS

Langskeggur

Langskeggur er ein þeirra flugna sem ber nafn með réttu. Skegg flugunnar er langt, mjög langt og vel umfram það sem öll púpu- og votflugufræði segja hnýturum. En það hefur alls ekki komið niður á veiðni þessarar flugu, nema síður sé. Frá því Örn Hjálmarsson kom fram með þessa flugu hefur hún fært veiðimönnum ómælanlegar ánægjustundir á bakkanum.

Lengi vel veigraði ég mér við að hnýta þessa flugu, því eins og myndirnar bera með sér þá virðist ég ekki alveg ná því glæsilega, en jafnfram óvenjulega útliti flugunnar sem mörgum öðrum er gefið. Þessi hlédrægni mín við fluguna vék sumarið 2019 þegar ég horfði lengi vel á tifandi skordýr í Hraunsfirðinum sem var eins og snýtt út úr nös Langskeggs, eða öfugt. Ég nagaði mig heldur betur í hnýtingarhendina þegar ég sá umrætt kvikindi og einsetti mér að láta slag standa og setja í nokkrar flugur.

Mælt er með að eiga þessa flugur í stærðum #12 og #14 sem lætur nokkuð nærri stærð þess kvikindis sem ég sá í Hraunsfirðinum.

Höfundur: Örn Hjálmarsson
Öngull: 2XL votfluguöngull
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Koparvír
Bolur og frambolur: svart árórugarn
Vængstæði: dökkbrúnt flos eða Body Stretch
Skegg: Svört hanafjöður

Hér sýnir Eiður Kristjánsson hvernig hann hnýtir Landskegg:

Hise‘s Hetero-Genius

Höfundur þessarar flugu, Dave Hise, segir hana tilvalda leitarflugu, þ.e. flugu til að kanna hvort einhver fiskur leynist í vatninu. Sumir hafa sagt þessa flugu vera bræðing af Royal Wulff og Pheasant Tail sem má til sannsvegar færa m.v. útlitið. Appelsínuguli liturinn í flugunni er alveg vís með að kveikja vel í fiski.

Þessi fluga varð töluvert vinsæl undir lok síðustu aldar, seldist vel og náði töluverðri útbreiðslu, en lítið farið fyrir henni í umfjöllun á vefsíðum hin síðari ári, hverju sem það kann nú að sæta.

Það skal tekið fram að meðfylgjandi mynd af flugunni er fenginn að láni (með samþykki) frá Dave Hise, sjálfur hef ég ekki enn hnýtt þessa flugu.

Höfundur: Dave Hise
Öngull: Púpukrókur 10 – 16
Þráður: Hot Orange 6/0
Skott og vængstæði: Fasanafjöður
Vöf: Koparvír
Thorax: Peacock (brún frekar en græn)
Kragi: Svart dub (t.d. Hareline Ice Dub)
Haus: gull

Hise‘s Carp Nasty

Enn heldur leit mín að flugum sem hnýttar eru úr föðrum Hringfasana áfram. Þessi árlega leit mín leiddi mig á slóðir Dave Hise að þess sinni, en fyrri leit mín hefur m.a. leitt mig á slóðir  Mrs. Simpson. Þó þessi fluga beri nafn sem vísar á vatnakarfa, þá fullyrðir Dave að hann hafi veitt vartara, barra og fengrana á hana, en ekki bleikju eða urriða, ekki einu sinni regnbogasilung. Það gæti því orðið spennandi að prófa þessa flugu í okkar íslensku ferskvatnsfiskum.

Carp Nasty er nokkuð þekkt fluga í Bandaríkjunum og til í ótal útgáfum. Líkt og með margar aðrar flugur sem menn eiga við, þá ættleiða hinir ýmsu hnýtarar þær með því að bæta ættarnafni sínu við heiti þeirra, þannig er því farið með þessa útgáfu en myndbandið hér að neðan er ekki nákvæmlega sama flugan.

Það skal tekið fram að meðfylgjandi mynd af flugunni er fenginn að láni (með samþykki) frá Dave Hise, sjálfur hef ég ekki enn náð að hnýta þessa flugu svo vel útlítandi sé.

Höfundur: Dave Hise
Öngull: Votflugukrókur 8 – 12 / Grubber 8 – 12
Augu: Keilur eða vaskakeðja
Vöf: Koparvír
Fætur: Silly legs
Kragi/hringvaf: Fjöður úr hringfasana
Skott: Fjaðrir úr hringfasana

Moppan

Þessi fluga er sérstaklega einföld í hnýtingu, svo einföld að margir hnýtingaleiðbeinendur hafa tekið hana upp á sína arma sem fyrstu flugu nemenda sinna.

Flugan líkir ágætlega eftir lirfu- og púpustigi fjölda skordýra þannig að hún gæti verið n.k. alhliða fluga í boxi veiðimanna. Litir flugunnar spanna nær allt sjáanlega litrófið og raunar vel út fyrir það eftir að UV útgáfur efnisins fóru að koma fram.

Höfundur: Jim Estes
Öngull: Standard votflugukrókur 10-12 eða Jig krókur í sömu stærð
Haus: Gylt brass kúla (2.8 – 3.8 mm) eða samsvarandi tungsten
Búkur: Moppuefni
Þráður: 8/0 í sama lit og moppan
Kragi: Dub að eigin vali t.d. héri

Hér má síðan sjá hnýtingarhandbragð Brandon Mena hjá Fly Fish Food þegar hann snarar í eina svona flugu:

Squirmito

Þessi fluga er þekktust undir nafninu Squirmy Wormy eða einfaldlega Squirmy. Ekki að það skipti höfuð máli, en hvoru tveggja er rangt. Þessi fluga heitir Squirmito og er nokkru eldri heldur en marga grunar. Fluguna hannaði Dave Hise rétt upp úr 2010 þegar hann var að leika sér með silicone efni í San Juan orminn sem er vel þekktur vestan hafs. Dave hefur oft tekið þá flugu til kostanna og útfært á ýmsa vegu í gegnum tíðina.

Þessi fluga er ein þeirra flugna sem veiðimenn elska að hata eða einfaldlega elska. Um hana eru skemmtilega skiptar skoðanir og í raun mun skiptari heldur en margir vilja viðurkenna. Hvort menn hnýta efnið niður fyrir framan kúlu, aðeins fyrir aftan eða hvoru tveggja, virðist ekki skipta höfuð máli.

Efnisvalið í flugna er svo einfalt að það tekur því ekki að setja þar hér upp í lista, látum hnýtingarmyndband einfaldlega nægja: