Efnisþörf

Eins og lesendum ætti að vera kunnugt um, þá leiðist mér ekki að hnýta flugur. Þetta er svo sem engin stórframleiðsla, en yfirleitt þarf ég að hnýta þetta 6 nothæfar flugur í þremur stærðum, þrjár fyrir mig og þrjár fyrir veiðifélagann.

Efnið klárt í þrjár flugur
Efnið klárt í þrjár flugur

Þegar ég hef dundað mér við fyrstu fluguna, prufustykkið, þá veit ég nokkurn veginn hvað ég þarf af efni í næstu eintök og þá raða ég gjarnan því efni sem til þarf á mottuna mína þannig að það sé innan seilingar. Sumt efni klippi ég strax niður, annað tek ég úr stömpum og af spólum eftir þörfum. Mér skilst að sumir gangi svo langt að hreinsa allar fjaðrir af dún áður en þær eru notaðar í hnakka eða vöf en það geri ég sjaldnast. Vængfjaðrir reyni ég aftur á móti að klippa niður og para saman fyrirfram þannig að þær séu klárar þegar kemur að notkun. Það sparar ótrúlegan tíma að græja þær allar á einu bretti og vængirnir ættu að verða fallegri ef maður gefur sér góðan tíma í að para fjaðrirnar rétt.

Gefðu þér tíma

Enginn verður óbarinn biskup – Ekki er flas til fagnaðar – Góðir hlutir gerast hægt og svo má lengi telja alla málshættina sem ættu að fá menn til að slaka á og fara sér hægt. Ég hallast reyndar alltaf meira að; Það er ekki eftir neinu að bíða, en hinkrum nú samt aðeins við.

Enginn asi á þessari
Enginn asi á þessari

Þegar ég set í nýja flugu eða einhverja sem nokkuð er um liðið frá því ég hnýtti síðast, hef ég þann háttinn á að fara mér hægt, mjög hægt. Fyrir kemur að ég bakki meira að segja til baka í miðri flugu, reki upp eða losi eitthvað sem ég hef þegar fest, bara til þess að reyna aðra aðferð eða röð á efni ef ske kynni að sú aðferð sparaði mér tíma og/eða efni þegar ég byrja síðan í alvöru að hnýta þau eintök sem þarf. Svo nota ég oft fyrstu fluguna til að mæla það magn af efni sem ég vil hafa í henni, stundum þarf að taka af væng, minnka dubb eða spara í haus flugunnar þannig að hún verði ekki eins og fílamaðurinn þegar búið er að lakka hausinn.

Allt þetta káf á mér við fyrstu fluguna verður vitaskuld til þess að hún verður heldur óásjáleg, illa hnýtt og endist örugglega ekki nema í einn eða tvo fiska. En, þetta verður samt yfirleitt til þess að ég spara mér tíma og hnýtingin verður öruggari þegar kemur að flugum nr. 2 – 7 sem fylgja yfirleitt í kjölfarið. Sjáið til, yfirleitt þarf ég nefnilega að hnýta fyrir tvo veiðimenn og leiðist það ekki.

Skipulag

Yfirleitt er það nú þannig að þeim sem sæi hnýtingaraðstöðuna mína dytti eflaust í hug að ég sé algjörlega laglaus. Í það minnsta fer ekki mikið fyrir þessu Skipu-lagi hjá mér þegar ég er að hnýta en áður en ég hefst handa horfir öðruvísi við. Þetta tek ég fram hér í upphafi nokkurra greina sem ég hef tekið saman um æskileg vinnubrögð við fluguhnýtingar. Myndirnar sem ég tók fyrir þessar greinar voru auðvitað teknar eftir rækilega tiltekt og snurfus á hnýtingarborðinu mínu, en þetta skipulag vill oft hverfa eins og dögg fyrir sólu eftir nokkrar flugur og við tekur mjög vel skipulagt kaos.

Allt í röð og reglu
Allt í röð og reglu

Yfirleitt er það nú svo að ég skipulegg hnýtingarnar mínar með smá fyrirvara, tek til á borðinu og raða áhöldum, koppum og kirnum á sinn stað þannig að ég viti nákvæmlega hvar hvað er þegar ég set í fyrstu fluguna. Ég nota mottu, gjarnan aflagða músamottu á röngunni, fyrir þær græjur sem ég þarf í viðkomandi flugu. Þá þarf ég ekki að kippa græjunum upp úr svampinum, þar sem þær eiga heima að öllu jöfnu og þá eru þær á vísum stað. Trúlega er ég með einhvers konar brest, afbrigði sem ég kann ekki að nefna, því ég vil helst hafa græjurnar alltaf í sömu röð. Lengst til vinstri er keflishaldarinn, svo skærin sem ég nota í vír og tinsel, síðan kemur nálin mín og svo skæri fyrir hnýtingarþráð og fjaðrir. Ef ég held mig við þessa röð í gegnum heila flugu, þá þarf ég aldrei að líta upp úr stækkunarglerinu til að finna það áhald sem ég þarf í það og það skiptið.

Þetta ráð, eins og með svo mörg önnur, er auðveldara að gefa heldur en ástunda. En hafi maður þetta í huga áður en lagt er af stað, þá er aldrei að vita nema það skjóti þannig rótum að það venjist.

Að kíkja upp undir

Þegar maður hnýtir straumflugu, þá horfir maður oftast á hlið hennar og reynir að hnýta hana sem líkasta hornsíli eða ungviði, einhverju sem er á matseðli fisksins. En hversu oft hafa menn tekið væsinn og snúið honum að sér þannig að horft sé aftan á fluguna? Sjálfur get ég sagt með fullri vissu að það hefur aldrei komið fyrir mig. Ég glápi á fluguna frá hlið, kíki undir hana, ofaná og mögulega athuga ég hausinn sérstaklega, en aldrei kíki ég upp undir hana aftan frá.

Það er eitthvað bogið við þetta allt saman. Straumfluga á að líkja eftir smáfiski. Smáfiskar hræðast stærri fiska og það er aðeins í augnablik sem smáfiskurinn horfist í augu við þann stóra, svo snýr hann sporðinum í hann og reynir að forða sér, allt hvað af tekur. Sjónarhorn stóra fisksins er því aftan á smáfiskinn, ekki á hlið eða ofan á.

Urriðaseiði
Urriðaseiði

Mér hefur alltaf þótt Black Ghost vera einhver fallegasta straumfluga sem til er. Þar fer smekkur minn og laxfiska saman. Eggjandi kinnarnar úr fjöðrum frumskógarhanans setja mikinn svip á fluguna, rétt eins og á Dr.Burke eða Dentist ef hann er í sparifötunum. En þessar kinnar eru ekki aðeins flottar séðar frá hlið. Þegar straumfluga með kinnum er á flótta undan svöngum silungi, leggjast kinnarnar að búknum og rétta úr sér á víxl, rétt eins og eyruggar sílisins þegar það reynir í örvæntingu að forða sér.

Næst þegar ég hnýti straumflugu ætla ég að kíkja upp undir hana að aftan og athuga hvort kinnarnar standi hæfileg út í loftið, hvort fjöðrin í vængnum rísi nægjanlega til að líkja eftir bakugganum og síðast en ekki síst, er skottið á flugunni eitthvað í líkingu við sporðinn sem gengur fram og til baka þegar smáfiskurinn forðar sér. Ef allt gengur upp, þá er ég með flugu í höndunum sem silungin langar í.

Flugur á floti

Svona getur farið þegar maður missir sig alveg út í eðlisfræðina út frá þurrfluguhnýtingum: Ég var svo sem búinn að læra þetta í barnaskóla og aftur í framhaldinu og þannig búinn að gera ýmsar tilraunir með yfirborðsspennu vatns. Við þekkjum yfirborðsspennuna sem kúfinn á yfirfullu glasi, vatnsdropa og … það sem gerir skordýrunum kleift að setjast á vatnið, þ.e.a.s. þeim sem eru ekki of þung.

En hverju skiptir þetta okkur veiðimennina máli? Er ekki allt vatn jafn blautt og ber það ekki alltaf sömu pöddurnar uppi? Nei, ekki aldeilis. Heitt vatn er t.d. miklu blautara heldur en kalt, þ.e. yfirborðsspenna vatnsins er lægri í heitu vatni heldur en köldu. Þetta gerir heitt vatn hentugra til þvotta heldur en kalt og kalda vatnið hentugra til þurrfluguveiði heldur en það heita. Einmitt þarna vaknaði áhugi minn fyrir alvöru. Hversu miklu munar hver gráða í vatnshita? Áhrif hita á yfirborðsspennu vatns eru nokkur og skýtur enn frekar stoðum undir það að við ættum ekki að láta undir höfuð leggjast að prófa þurrfluguna í öðru veðri en því sem gengur undir viðurnefninu ‚þurrfluguveður‘, þ.e. sól og hita.

En það er ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á yfirborðsspennu vatns. Sápa og leysiefni minnka yfirborðsspennu verulega, raunar svo mjög að sápuleifar frá síðustu þrifum línu og taums geta orðið til þess að sökkva þurrflugunni þinni. Klausan að skola línuna vel úr volgu, hreinu vatni að þrifum loknum er ekki alveg út í hött. Svo er alls ekki saman hvaða línubón er notað, ef þá nokkuð.

Spenntar þurrflugur
Spenntar þurrflugur

Of þungar flugur?

Trúlega legg ég nokkrar vikur á hverjum vetri undir í tiltekt í bókarmerkjum internetvafrans míns. Ekki alls fyrir löngu fór ég í gegnum greinar sem ég hafði bókamerkt fyrir einhverjum árum um hönnun flugna. Mögulega hefði ég átt að vera búinn að lesa þessar greinar áður en ég fyllti á fluguboxin mín fyrir sumarið, en betra er seint en aldrei.

Það sem vakti einna helst athygli mína var sá samhljómur sem vatnaveiðimenn höfðu uppi um of þungar flugur. Ég, eins og væntanlega margir aðrir, hef helst horft til þess að þyngja flugurnar mínar frekar en nota hæg- eða hraðsökkvandi línur eða tauma þegar á að koma flugunni niður. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að koma flugunni hratt og örugglega niður þangað sem fiskurinn liggur? En getur verið að við séum að hugsa hraðar heldur en fiskurinn? Þegar kemur að því að koma púpu niður í vatnið þurfum við mögulega ekki að þyngja fluguna neitt mikið. Þess í stað gætum við sneitt utan af flugunni alla óþarfa, sem oft er meira fyrir okkur gert heldur en fiskinn. Efnisminni óþyngdar flugur sökkva oft alveg eins vel og þær bústnu sem við höfum þyngt um einhver grömm með blýi eða kopar. Og það sem meira er, þær sökkva á mun eðlilegri hraða heldur en þær sem við höfum þyngt sérstaklega.

Ég get auðveldlega samsvarað mig með þeim sem telja að ofur-þyngdar flugur hafi frekar orðið til fyrir óþolinmæði veiðimannsins heldur en fiskinn á botninum. Óþolinmæði okkar veiðimannanna eftir því að fluga sekkur niður á æskilegt dýpi er oftar en ekki ástæða þyngdra flugna í vatnaveiði og hefur tíðkast lengi. Þegar hegðun slíkra flugna í vatninu er aftur móti skoðuð þá kemur oftar en ekki í ljós að hreyfing hennar þegar við drögum inn verður heldur hjákátleg í skásta falli, oftast óaðlaðandi í augum fisksins. Og svona til að setja þetta í eitthvert samhengi við það sem árstíðin bíður upp á, þá er engin spurning að þungur vörubíll étur sig betur niður í slyddu heldur en léttur smábíll, ekki satt? En því verður nú ekki á móti mælt að vörubíllinn er mun þunglamalegri heldur en smábíllinn. Ætli skordýrin í vatninu eigi ekki örlítið meira sameiginlegt með hreyfingum smábíls heldur en 12 tonna vörubíls.

Næsta sumar ætla ég að vera duglegri að prófa óþyngdar, rennilegar púpur og sjá hvort þær veiði eitthvað minna heldur en þær sem eru í yfirþyngd, þ.e.a.s. ef ég nenni að bíða eftir að þær sökkvi.

Nokkrar rennilegar Higa's SOS
Nokkrar rennilegar Higa’s SOS

Hinn svarti

Nobbler - hvítur
Nobbler – hvítur

Alveg eins og það er til vinstri og hitt vinstri hjá sumum, þá er til svart og hitt svart hjá einstaka veiðimanni. Margur hefur gert góða veiði með hvítum Dog Nobbler að vori þegar honum er brugðið fyrir svangan urriða á björtum degi. Hjá mér hafa það verið þeir með silfruðu tinsel sem hafa gefið helst rétt fyrir ljósaskiptin eða síðla dags. Svart er til í ýmsum litum.

Svo eru það ítölsku græningjarnir, ólívugrænir Nobblerar. Einhverra hluta vegna verða þeir að vera vafðir með gul-brúnni náttúrlegri fjöður og með gyltu tinsel í skottinu, annars gefa þeir mér ekkert. Þessa nota ég þegar rökkrið hefur náð að læðast aftan að mér eða dumbungur og rigning vomir yfir.

Að lokum, þ.e. þegar veiðidagur er kominn að kveldi, þá færi ég mig aftur í upprunalega svarta litinn, þennan dökka og þá snýst tinselið aftur í silfrað.

Var einhver að tala um tiktúrur í fluguveiðinni?

Nú verður það svart, maður

Nobbler - svartur
Nobbler – svartur

Þegar veiðimenn eru spurðir hvaða flugur þeir noti að vori, eru svörin oftar en ekki ‚stór og svört‘. En af hverju? Jú, lirfur ýmissa skordýra sem orpið var síðasta haust hafa haft allan veturinn til að éta og fita sig í vötnum. Sumir segja í ró og næði á meðan fiskurinn hefur haldið sig til hlés og slakað á í köldu vatninu síðustu vikur og mánuði, en það er ekki endilega víst. Það er ekki alveg allur fiskur sem hefur verið í megrun í vetur, eins og ísdorgarar hafa verið að sanna síðustu vikur. Margur fiskurinn er feitur og pattaralegur allan veturinn og því hlýtur hann að vera í æti.

Svart er vissulega liturinn á fjölda lirfa, en aðrir litir koma einnig sterkir inn í flugunum. Rauðar, einar sér eða í bland við jarðarlitina eru einnig alveg inni. Blóðrauði, frostlögurinn í pöddunum, verður til staðar næstu vikurnar eða alveg þangað til vötnin hafa hitnað upp að 5°C. Í dýpri og kaldari vötnum er blóðrauðinn til staðar allan ársins hring og því gengur Blóðormurinn allt sumarið.

En hvað með aðra liti? Jú, það eru til fleiri afbrigði af svörtu.

Að komast á skrið

Nú er tímabilið rétt handan við hornið og nokkra farið að klæja allóþyrmilega í kasthöndina. Sumir hafa æft hana síðustu vikur við hnýtingar og líklega liggja nokkrar þúsundi glansandi fínna flugna í boxum veiðimanna og bíða þess að fara í bað. Hér ætla ég að lauma inn smá játningu; ég er ekki búinn að hnýta eina einustu flugu fyrir sjálfan mig í allan vetur. Það eina sem ég hef hnýtt eru nokkrar hrognaflugur sem ég setti í um daginn fyrir kunningja minn og nágranna, Svarta Zulu. Í staðinn laumaði hann að mér þessum glæsilegu blendingjum.

Blendingjar úr smiðju Sigurðar Kr.
Blendingjar úr smiðju Sigga Kr.

Ég verð nú að játa að mér fundust skiptin heldur ójöfn, nokkur hrogn í staðinn fyrir úrval glæsilegra marabou flugna. Það verður sko látið reyna á þessar í sumar, því get ég lofað. Það má lesa meira um þessar glæsiflugur og fleiri hér.

Þennan mánuðinn hafa nokkur stangveiðifélög skotið skjólshúsi yfir félagsmenn sína og boðið upp á kastkennslu sem vonandi sem flestir hafa nýtt sér. Sjálfur er ég utangarðs í félagsmálum og hef því ekki í eins mörg hús að venda með æfingar. Engu að síður getur maður gert ýmsar æfingar, svona heima við, einn sér eða í smærri hópum. Spottastangir eru fáanlegar víða og með þeim má gera kvöldfréttatíma RÚV miklu skemmtilegri, meira að segja notið þess að sitja fyrir framan beina útsendingu frá Alþingi. Svo má ekki gleyma bílskúrsæfingunni, Kartöflukastinu. En umfram allt, nú er tíminn til að æfa kasthöndina, annars er hætt við að fyrstu dagarnir í veiði verði frekar stirðir og þvingaðir.

Þurrt, blautt eða dautt

Ég þekki engan, en hef heyrt að þeir séu til sem halda því fram að það sé aðeins til ein fluga og hún sé þurr. Ég get alveg unnt veiðimönnum að hafa sínar skoðanir og í laumi dáist ég að þeim sem halda fast við sitt og sjá í einlægni ekki neinn tilgang í að prófa eitthvað annað. Dáist er e.t.v. ekki alveg rétta orðið, ég hef frekar lúmskt gaman að þeim. Það sem einum þykir sjálfsagt, þykir öðrum dyntir. Ég á t.d. kunningja sem veiðir aldrei bleikju á Nobbler, hann bara bíður henni ekki upp á svoleiðis, segir hann. Ég veit svo sem að hann veiðir ýmislegt annað á Nobbler og kann flestum öðrum að hnýta hann fallega, en bleikjunni bíður hann ekki Nobbler.

Aftur á móti hef ég aldrei heyrt af veiðimanni sem harðneitar að veiða á þurrflugu, nema þá þeir sem bara treysta sér ekki í hana. Ég treysti mér alveg í hana, á bara svolítið erfitt með að ná tökum á henni. Það er trúlega ástæðan fyrir því að mér finnst ennþá skemmtilegast að veiða púpur og straumflugur, en mikið langar mig að ná tökum á þeirri þurru. Það eru trúlega allt of litlir fordómar í mér til að ég geti tekið einarða afstöðu til einhverrar einnar flugu.

Ég þekki aftur á móti veiðimenn sem snerta helst ekki á púpum, veiða bara straumflugu, geta alveg spreytt sig á þurrflugunni en sleppa því jafnvel þótt allt sé í gangi á yfirborðinu. Ég hef líka lúmskt gaman að þessum gaurum. Ætli þeir séu ekki líka til sem veiða bara á þurrflugu eða púpu. Flóra okkar er næstum endalaus. Við höfum misjafnar ástæður fyrir sérvisku okkar en væntanlega skipar vanin okkur oftast til sætis eða dregur okkur í dilka.

Eina sögu heyrði ég þó af veiðimanni sem aldrei veiddi á neitt annað en þurrflugu. Sá þótti reyndar sérlega lunkinn og fær með þá þurru. Einhverju sinni uppskar hann þó tóma ördeyðu á meðan félagi hans reif upp hvern fiskinn á fætur öðrum á púpu. ‚Þú verður að fara niður‘ sagði félaginn ítrekað en fékk engar undirtektir. Að lokum virti sá þurri félaga sinn viðlits og svaraði ‚Nei, vinur minn. Sjáðu til, þá gæti ég tapað flugunni‘. Þær geta verið ýmsar ástæðurnar fyrir vali manna á eftirlæti.

Misheppnir félagar
Misheppnir félagar

Ummæli

12.01.2014 – Veiði-EiðurÆtli ég sjái nú ekki sjálfan mig þarna. Ég nota helst ekki straumflugur. Það er allra síðasta úrræði hjá mér, ef ekkert annað hefur virkað.

Ástæðan fyrir því er þó einungis sú að ég hef aldrei náð almennilegum árangri með straumflugu og hef þ.a.l. mun meiri trú á púpunum eða votflugunum.

15.01.2014 – UrriðiÉg skora á þig að nota straumflugu. Ég fullyrði að það er ekkert meira sexy en að sjá stóran urriða koma á fullri ferð upp úr dýpinu og velta sér yfir straumflugu sem er strippuð í yfirboðinu. Eða þá að sjá þá elta straumfluguna þvert yfir hylinn áður en þeir ákveða hvort þeir taki hana eða ekki, og allan tímann ertu með hjartað í buxunum. Ég næ oft betri árangri með púpum, en ég veiði örugglega jafn mikið á straumflugu af því að það er bara svo gaman og spennandi.
Þess vegna er örugglega mest notaða flugan mín millistig milli nobblers og púpu, get bæði veitt hana andstreymis sem púpu og sem straumflugu.

05.02.2014 – Siggi Kr.Nú er ég aldeilis sammála félaga Urriða! Straumflugur eru lang mest notaða vopnið í mínu vopnabúri en ætli það sé ekki líka að hluta til því mér finnst svo svaðalega gaman að hnýta þær. Svo er takan líka oft svo svakaleg, liggur við að maður segi ofbeldishneigð. Reyndar fannst mér nokkuð gaman að nota þurrflugu síðasta sumar í Elliðavatni og ég hef alltaf notað púpurnar eitthvað líka og kem líklega til með að nota þær í meira mæli eftir að ég fór að fikra mig áfram í evrópsku púpuveiði-aðferðunum en samt er strímerinn enn í mestu uppáhaldi hjá mér.

Flugustærðir

Önglar
Önglar

Eigum við að velta okkur aðeins upp úr stærðum? Við veiðimennirnir eru ekki skv. einhverjum staðli og því geta orð eins um litlar flugur verið stór orð í eyru annars. Ef við og reynsla okkar værum aftur á móti skv. staðli væri ekkert mál að flokka stórar, litlar og ör-litlar flugur. Einhvern tímann sá ég grófa flokkun; stórar flugur eru í  stærðum #8 og niður í #12, litlar flugur eru í stærðum #14 og niður í #18, ör-litlar eru #20 og þaðan af minni. Skv. þessu eru allar mýflugur ör-ör-litlar því raunstærð flugnanna samsvara u.þ.b. #28 en samt er maður að veiða á Mýpúpu í stærð #12  Hvað er eiginlega í gangi? Án þess að gera lítið úr stærðum flugna og þeirri áherslu sem flugufræðingar leggja á smærri flugur, þá kennir reynslan mér að stærri flugur geta alveg eins kveikt tökur eins og smærri. Svo má aldrei gleyma því að púpur eru stærri að vori heldur síðla sumars. Því er nefnilega þannig farið að púpur og lirfur éta eins og þær geta á veturnar og langt fram á vorið og beinlínis tútna út í stærð. E.t.v. ættum við að hugsa dæmið í heilli árstíð, við byrjum stórt og smækkum svo flugurnar þegar líður á sumarið og ný kynslóð púpa og lirfa hefur tekið við í vötnunum.

Hvenær verður fluga ‘góð’ fluga?

Skömmu eftir að ég fór að fikta við fluguhnýtingar fékk ég ábendingu frá frúnni ‚Veistu, ég á bara enga flugu sem er eins og grasmaðkur.‘ Fiktarinn ég, gat náttúrulega ekki haft þessa athugasemd vomandi yfir mér allt sumarið, svo ég settist niður og prófaði mig áfram með nokkrar útfærslur þangað til ég þóttist hafa náð kvikindinu. Eitthvað prófaði ég hana, en varð aldrei neitt var við hrópandi fögnuð silungs þannig að hún hefur legið óhreyfð í einhverju boxi hjá mér um langt skeið. Á svipuðum tíma hnýtti ég ógrynni af straumflugum og notaði mikið. Þar á meðal var auðvitað Þingeyingur Geirs Birgis, sú bráðdrepandi fluga sem færði mér nokkra silunga eins og svo mörgum veiðimönnum öðrum.

Það var svo ekki fyrr en um daginn að mér barst ábending um að Þingeyingurinn væri í raun eftirlíking grasmaðksins, að mér varð aftur hugsað til fluguómyndarinnar minnar. Svo merkileg þótti mér þessi ábending að ég bar hana undir Geir Birgi, sem hann staðfesti að væri rétt og vísaði til greinarkorns á heimasíðunni sinni sem má sjá hér (skemmtileg lesning eins og margt annað á síðu GBG).

Grasmaðkur vs. Þingeyingur
Grasmaðkur vs. Þingeyingur

Án þess að geta fullyrt það, held ég örugglega að ég hafi prófað þessar tvær flugur á sama tíma þar sem ég hafði grun um grasmaðk, en aðeins önnur þeirra gaf mér fisk. Í auðmýkt fyrir Þingeyingnum viðurkenni ég auðvitað að hún er snöktum fallegri en púpan mín, en ég á ennþá svolítið erfitt með að skilja kræsni silungsins. Trúlega hef ég ekki náð að færa eins mikið líf í púpuna mína eins og gulur hárvængur straumflugunnar gerir. Kannski hef ég einblínt of mikið á að líkja eftir náttúrunni að útgáfan mín varð aðeins svipur hjá sjón eins og svo oft vill verða með okkar mannanna verk í samanburði við móður náttúru. Kannski maður sleppi bara fram af  sér beislinu við væsinn næst þegar maður reynir að líkja eftir náttúrunni. Það er jú ekkert sem glitrar eða glepur við púpuna mína.

Ummæli

16.09.2014 – ÞórarinnÞetta er milljón dollara spurning, ef maður vissi nú svarið. P.S. hef prófað að hekla grasmaðk, hugsaði hana fyrir Brúará, hef aldrei fengið högg á kvikindið.
Það er nú svo sem ekki mikið sem hreyfist á grasmaðki en kannski glansar á hann eins og þú segir. Hef aldrei litið á Þingeying sem eftirlíkingu af grasmaðki en þetta eru allavega litirnir á sumum grasmöðkum. Hélt alltaf að þetta væri hugsað sem straumfluga og veidd þannig, eru menn þá að veiða hana hægt og láta renna fría í straumnum? Svo getur fiskurinn litið allt öðruvísi á fluguna heldur en höfundurinn hugsaði sér þegar hann hannaði hana, en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir bara máli hvort veiðist á hana eða ekki. Þetta að Þingeyingurinn sé grasmaðkur setur “heimssýn” mína algerlega á hvolf, fokk er þetta grasmaðkur?

Þurrflugurnar

Þurrflugur

Þurrflugur eiga ekki endilega að sitja á yfirborðinu, sumar liggja nokkuð djúpt, sumar sýna aðeins örlítinn hluta upp úr vatnsborðinu.

Þegar mikið klak er í gangi, þá getur verið gott að hafa óreglu á reglunni um að berja ekki vatnið endalaust. Samkeppni flugunnar okkar er gríðarleg í miklu klaki og rétt að gefa hverri flugu aukinn séns áður en maður skipti út. Í þessu eru síðan auðvitað til þeir sem skipta oftar en hönd verður á fest.

Hvað varðar stærð þurrflugna, þá eru skoðanir jafn skiptar og mennirnir eru margir. Ég veit svei mér ekki hvaða pól ég á að taka í þetta næsta sumar. En eitt má lesa frá mörgum sem skeggræða flugnastærðir og það er að ef tökurnar eru groddaralegar og flugan festist ekki í fiskinum, þá er um að gera að minnka þær. Samdóma virðast menn vera í því að fiskurinn taki litlar flugur frekar með því að súpa þær léttilega af yfirborðinu og þá eru meiri líkur á að hún festist heldur en í látunum þegar hann tekur þær í beinni árás. Ég er ekki frá því að þegar ég hugsa til sumarsins sem leið og þeirra mis-taka sem ég varð vitni að hjá veiðifélaga mínum, þá voru það þessar áköfu sem helst misfórust og því hefði e.t.v. verið ráð að minnka fluguna. Ætli ég raði ekki í box fyrir næsta sumar í stærðum #12 – #20, kannski með áhersluna á #12 og #14.

Of eða van

Óheyrilegur makki

Eins og með svo margt annað er auðveldara að bæta við en taka af. Ég hef alltaf átt vanda til að nota of mikið dub á flugurnar mínar. Sumar hverjar líkjast meira Simba, konungi ljónanna heldur en veiðiflugu, þ.e. makkinn er slíkur að það sést nánast ekkert í fluguna sjálfa. Þetta lagast ekki ekki fyrr en ég hef í huga nokkuð sem ég las á einhverju blogginu, að taka þann skammt af dubbi sem maður telur sig þurfa í fluguna og helminga hann áður en maður byrjar á flugunni. Þá verður skammturinn nokkurn veginn eðlilegur. Svo er alltaf gott að hafa í huga að byrja smátt, það er auðveldara að bæta við heldur en grisja.

Dubb

Maskaraburstar

Núna, þegar maður er farinn að kíkja á hnýtingarsettið, taka það fram og byrja jafnvel að hnýta fyrir næstu vertíð, þá finnst mér ágætt að kíkja yfir nokkra punkta og ábendingar. Ég laumaði hér einu sinni inn ábendingu um að útbúa sína eigin dub-bursta úr íspinnaspýtu og mis grófum sandpappír. Annað áhald sem hentar ágætlega við dub’ið er maskara bursti. Mér sýnist flestar konur eigi svona græju sem endurnýjast víst með hverjum maskara sem keyptur er. Það er einfalt mál að þrífa svona bursta og þá er hann alveg tilvalinn til að ýfa dubbið aðeins á flugunum. Setjið nú upp verðlista fyrir flugur konunnar; 1.stk maskarabursti, sýnishorn úr prjónakörfunni, sokkabuxur og í rauninni allt sem ykkur dettur í hug að nota við hnýtingar og liggur á yfirráðasvæði konunnar.

Hvaða þurrflugu?

Hvaða flugu er best að nota fyrst? Þetta eru trúarbrögð eins og svo margt annað í veiðinni. Black Gnat er afskaplega vinsæl, aðrir nota Griffith’s Gnat , enn aðrir Royal Wulff. Aðrir byrja ekki á neinni heldur standa eins og glópar á bakkanum og skima út á vatnið og bíða þess að sjá hvaða fluga sest á vatnið. Þegar hún er sest halda þeir áfram að skima, tekur hann? Ef svo skemmtilega vill til að silungurinn sé í því að taka flugu á yfirborðinu er oft ekki flókið mál að finna samstæðu í boxinu.

Það er útbreiddur misskilningur að dægurflugur (ætt Ephemeroptera) sé ekki til á Íslandi og því afskrifa menn oft þurrflugur sem tilheyra þessari ætt. Þetta er einfaldlega ekki satt og engin ástæða til að afskrifta því við eigum eitt kvikindi hér heima sem er afar áberandi og fjölgar hratt í náttúru okkar.

Sami misskilningur hefur komið upp varðandi steinfluguna (ætt Plecoptera) og er það miður að ábyrgir veiðivefir og þurrflugusnillingar skuli breiða þetta út í ræðu og riti. Ég vil benda mönnum á að leita sér upplýsinga um þessar tvær tegundir hjá þar til bærum sérfræðingum, eins og t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands áður en þeir halda áfram útbreiðslu þessa misskilnings. Nægir að smella á ættarheiti þessara tegunda hér að ofan til að lesa sér til um efnið.

Önnur þeirra ætta sem er hve útbreiddust hér á landi er vorflugan (ætt Tricoptera) og finnst hún um allt land ásamt mýflugunni (af ætt Diptera). Það er því ekkert óeðlilegt að maður komi sér upp boxi með þessum gerðum þurrflugna, svona í einni eða annarri mynd til að byrja með.

Hvort maður sest nú niður og hnýtir þessi kvikindi er svo allt önnur spurning. Það hafa sagt mér snillingar að það borgi sig nánast ekki að birgja sig upp af hnýtingarefni fyrir þurrflugu nema þá að veiða mikið á slík dýr eða hnýta fyrir marga. Ætli það dugi fyrir mig að við erum tvö saman í þessu veseni, ég og frúin?

Royal Wulff

Griffith’s Gnat

Black Gnat

Ummæli

30.10.2012 – HilmarGlæsilegur pistill. Auðvitað hnýtirðu sjálfur, allt annað að veiða fisk á eigin flugur. Fínt að byrja að hnýta þessar: 

með meistara Davie McPhail.

Mbk, Hilmar

Svar: Já, þessar líta auðvitað ljómandi út og allt virðist þetta einfalt hjá Davie McPhail eins og venjulega. Algjör snillingur þessi maður. Kannski maður láti bara reyna á þetta í vetur.

Þurrflugur í vanda

Engin ‘fake’ fluga

Fyrir utan þessi einföldu vandamál varðandi þurrflugurnar eins og til dæmis að þær verða alltaf rennandi blautar hjá mér og drukkna eða mér bara tekst ekki að koma þeim út á vatnið þannig að þær líkjast alvöru flugu, þá gengur mér bara mjög vel að veiða á þurrflugu, eða ekki.

Í þau skipti sem mér hefur enst þolinmæðin til að veiða á þurrflugu hef ég kynnst nokkrum sérlunduðum silungum. Ég hef kynnst gæjum, þessum sem gægjast upp að yfirborðinu en leggja aldrei til atlögu við fluguna mína. Mér skilst á fróðum mönnum að þá hef ég verið að egna með rangri flugu. Ég? Nei, ekki veit ég hvaðan silungar og menn hafa fengið þá flugu í höfuðið.

Svo hef ég hitt þessa óhittnu sem koma upp í fluguna mína en það er eins og þeir hitti ekki á hana. Þeir súpa bara af yfirborðinu rétt handan hennar. Mér skilst á þessum sömu spekingum að það sé í raun ég sem klikki, ekki silungurinn. Þeir segja að ég sé of bráður á mér, reisi stöngina eitthvað of snemma þannig að flugan skauti úr færi fisksins. Bíddu, er fiskurinn ekki með sporð? Getur hann ekki borið sig almennilega eftir bráðinni?

Af ofangreindu gæti einhver ráðið að mér gangi bara alls ekkert að veiða á þurrflugu og þurfi aðeins að kynna mér málið betur. Ég ætla í það minnsta að skoða þetta eitthvað í vetur og leyfa ykkur að fylgjast með hérna á blogginu. Svo sjáum við til næsta sumar hvort ég hitti ekki einhverja viðmótsþýðari silunga sem skilja hvað ég er að meina þegar ég legg gómsæta þurrflugu fyrir þá.

Ummæli

25.10.2012 – Hilmar: Ha ha ha, góður pistill. Velkominn í þurrflugu dæmið. Svo áttu eftir að kynnast að veiða á þurrflugur í algjöru logni í stöðuvatni, þar sem taumurinn ákveður að sökkva alls ekki og er eins og kaðall tengdur í fluguna og allt vaðandi í uppítökum allt í kring. Það er mjög hressandi og virkar ekki alltaf að bera mold á tauminn.

Samt alveg hrikalega gaman þegar þeir taka þurrfluguna, fékk alveg nýtt kick út úr fluguveiðinni þegar ég fór að prófa mig áfram í þurrflugudæminu!

mbk ,Hilmar

Svar: Já, ég varð einmitt vitni af svona kikki sem frúin mín fékk í sumar, ítrekað. Eftir að hún gerði það gott fór ég að gefa þurrflugunum meiri gaum. Lesa, lesa, horfa, horfa… og kannski verður eitthvað úr þessu næsta sumar.

28.10.2012 – ÞórunnEitt mesta kikk sem ég hef fengið í fluguveiðinni var einmitt í blanka logni í Ölvesvatni í sumar, vökur út um allt og flugan mín bara alveg jafn girnileg og allar hinar. Fæ enn svona “flash back” og upplifi kikkið ítrekað þegar ég rifja upp einn flottann sem synti fyrir framan mig og þóttist ekki sjá fluguna mína, snarsnéri svo við, upp og tók ……baaaaaaara geðveikt.
En, ég fæ svo ekkert endilega kikk þegar ég hugsa um þessa sem ég missti í þessum aðstæðum! Maður þarf að vera alveg svakalega vakandi og með augun límd á flugunni, sem NB getur orsakað ofsastöru, og tilbúin að strekkja á réttu augnabliki. Missti nokkra einfaldlega við það að blikka augunum. Spurning hvort störustaurar fáist einhverstaðar?

Skiptum litum

Í lit eða svart/hvít?

Þegar minnst varir getur allt nart og allar tökur gufað upp eins og dögg fyrir sólu. Og það er einmitt hún sem er líklegust til að eiga sökina á þessari uppgufun, sem sagt sólin. Vegna þess að silungurinn sér aðeins 1/8 þeirra litatóna sem við sjáum þá getur verið ansi stutt á milli þess að hann sér agnið okkar, fluguna og þess að hún einfaldlega hverfur sjónum hans í grámósku vatnsins. Oftast gerist þetta þegar sólin hverfur á bak við ský eða annað þéttara á himninum. Nokkuð sem við skynjum aðeins sem örlitla breytingu á litatón getur verið frávik upp á heilan lit í vatninu fyrir silunginum. Við þessu er tvennt til ráða. Annað hvort tekur þú þér pásu og bíður þess að sólin brjótist framundan skýinu eða þú  skiptir um lit á agninu. Aðeins annað þessara ráða gefur þér von um fisk, þitt er valið.

Að komast á lappir

Kaufmann's Stone Fly

Það eru ekki aðeins púpur sem verða líflegri með gúmmílöppum, straumflugur eins og t.d. Nobbler, Damsel og Wooly Bugger öðlast nýtt líf í vatninu þegar skotið hefur verið undir þær löppum. Þegar ég prófaði mig áfram með gúmmílappirnar skaut fyrst upp í huga mér; Bölvað vesen er þetta, Hvort á ég að setja lappirnar á undan eða á eftir? Undir eða ofaná? Hvernig á ég að ná þeim jöfnum til allra átta?

Eftir að hafa böðlast í gegnum allskonar leiðbeiningar, skoðað ógrynni af myndböndum þá varð mín niðurstaða sú að hafa fjaðurtöngina (Hackle Plier) tiltæka ásamt nokkrum afskornum drykkjarstráum í mismunandi sverleika til að hemja lappirnar á meðan ég hnýtti þær niður og umfram allt, lappirnar síðast eða næstum því.

Smellið fyrir stærri mynd
Smellið fyrir stærri mynd

Annars hjálpaði Davie McPhail mér mest eins og svo oft áður með að ná einhverju viti í vinnubrögðin. Hér að neðan má líta hvernig hann fer að því að festa lappir á Gnasher Sedge Hog (u.þ.b. á hálfu elleftu mínútu). Í meðförum Davie er þetta ekkert mál en hjá mér varð þetta hrein kvöl og pína, en æfingin er sögð skapa meistarann.

Litur í vatni

Samsetning ljóss

Ef ekkert væri ljósið væri engin liturinn, einfalt ekki satt. Og þetta er einmitt það sem við veiðimennirnir gleymum oft þegar kemur að lit á flugu í vatni. Vatn virkar eins og ljóssía. Efst í vatninu eru fáir litir sem falla út en því neðar sem dregur í vatninu falla fleiri litir út og á botninum sitjum við eftir með gráa eða alveg svarta flugu.

En það er fleira sem hefur áhrif á lit flugna heldur en dýpið. Flest vötninin okkar eru annað hvort blá- eða grænleit og þessir litir hafa líka áhrif á það hvernig og á hvaða dýpi litur flugunnar breytist. Ef vatnið er aftur á móti gruggugt þá hverfa litirnir enn fyrr, mögulega verðu allt orðið svart á innan við 2m.

Áberandi rauð fluga getur verið orðin svört í augum silungsins á u.þ.b. 10m dýpi við bestu skilyrði, heldur sem sagt litnum töluvert djúpt. Hvít fluga hegðar sér aftur á móti nokkuð ólíkindalega þar sem hvítur er jú samsuða allra lita. Hún heldur hvítum lit allt niður á 2m ef vatnið er þokkalega tært en tekur síðan nokkuð örum og áberandi breytingum á næstu metrum og flakkar allt litrófið þar til hún endar í svört.

Öllum þessum litabreytingum getum við komist hjá, þ.e. ef við endilega viljum það, með því að nota flúrljómaðan lit í flugur. Fluorcent þráður heldur sínum upprunalega lit alveg niður í svartasta myrkur undirdjúpanna þar sem hann þarf mun minni birtu heldur en hefðbundin þráður. Höfum þetta í huga þegar við setjum brodd eða haus á púpurnar okkar.

Ummæli

Siggi KrÞetta er góð pæling, sérstaklega ef maður er að veiða í gígum eða frá báti með mikinn sökkhraða (línan, ekki báturinn . En spurning hvernig dýpið fer með flugurnar sem hafa mikla endurspeglun, svosem silfur og gull-litaðar flugur og eins allt þetta crystal og flash efni sem er í mörgum flugum. Ætli það haldi flugunum okkar áhugaverðari niður á meira dýpi en ella?